15. desember 2017

37. HVAÐ ER AÐ KOMA ÚT AF MYNDASÖGUM FYRIR JÓLIN?

Nú styttist í jólin og því alveg orðið tímabært hjá SVEPPAGREIFANUM að kanna aðeins og kíkja á hvaða teiknimyndasögur eru að koma út á íslensku fyrir hátíðarnar. Eitthvað verðum við, unnendur þessara skemmtilegu bókmennta, að eiga til að hafa ofan af fyrir okkur í slökun með uppþembdan mallakútinn eftir Hamborgarhrygg og ís hátíðarinnar. Í minningunni var líklega fátt notalegra yfir jólin en náttbuxnadagar í góðum hægindastól, með teppi yfir sér og með kisu og nýjustu teiknimyndasögurnar í fanginu. Og ekki var verra að hafa fáeinar jólasmákökur eða konfekt og Malt og appelsín á kantinum.

Eftir nokkurra áratuga myndasögusvelt eiga íslenskir myndasöguaðdáendur nú aftur kost á að eignast skemmtilegar teiknimyndasögur frá bestu listamönnum slíkra bókmennta í heiminum. Það getum við þakkað aðstandendum Frosks útgáfu sem hafa verið duglegir við að gefa út myndasögur á undanförnum árum. Líklega er magn þeirra engan veginn í þeim mæli sem þekktist hér á árum áður þegar tugir bóka voru gefnar út á ári hverju. En þó ... Froskur útgáfa var að senda frá sér um 10-12 titla á ári fyrstu árin og þeim fer frekar fjölgandi því að á síðasta ári voru þeir líklega 17 talsins. Núna fyrir jólin eru að koma út 16 bækur frá útgáfunni en á árinu 2017 eru líklega samtals hátt í 30 titlar í boði hjá Froski. Þetta er því farið að minna á gullaldarárin og gaman væri ef fleiri forlög sæu sér fært um að taka þátt á myndasöguútgáfunni. En best að skoða það helsta sem er að koma út hjá Froski útgáfu fyrir jólin og fellur undir áhugasvið þessarar myndasögusíðu SVEPPAGREIFANS.


ÁSTRÍKUR - Ástríkur og Gotarnir
Ástríkur og Gotarnir eru á listanum en þessi bók kom út hjá Fjölva í þýðingu Þorsteins heitins Thorarensen árið 1977 og er náttúrulega löngu orðin uppseld, týnd og tröllum gefin. Bókin hefur auðvitað fengið nýja íslenska þýðingu eða uppfærslu hjá Froski útgáfu og er algjörlega ómissandi í safn allra íslenskra myndasögusafnara. Sagan, sem er eftir þá René Goscinny og Albert Uderzo, heitiAstérix chez les Goths á frönsku og birtist fyrst í franska teiknimyndaritinu Pilote á árunum 1961-62 en kom fyrst út í bókaformi árið 1963. Ástríkur og Gotarnir er þriðja bókin í upphaflegu frönsku seríunni og fjórða Ástríks bókin sem Froskur útgáfa gefur út á íslensku. Alls eru Ástríks bækurnar nú orðnar 37 talsins og þar af hafa 23 þeirra verið gefnar út á íslensku, langflestar í boði bókaútgáfunnar Fjölva.


GOÐHEIMAR - Brísingamenið
Ný bók úr Goðheimasafninu, Brísingamenið eftir danska listamanninn Peter Madsen er að koma út og ástæða fyrir aðdáendur þessa vinsæla bókaflokks að gleðjast yfir því. Þetta er áttunda sagan í seríunni og hún hefur ekki komið út áður á íslensku en fimm fyrstu bækurnar í bókaflokknum höfðu verið gefnar út áður hjá Iðunni, með hléum, á árunum 1979-89. Þær voru síðan endurútgefnar á árunum 2010-15 og eftir það hafa komið út ein ný bók á ári. Brísingamenið er frá árinu 1992 en alls eru Goðheimabækurnar nú orðnar fimmtán talsins. Það væri frábært ef Froskur útgáfa myndi klára að gefa út allar bækurnar fimmtán.


INKAL - INKAL Seinni hluti
Seinni hluti vísindaskáldmyndasögunnar Inkal, eftir Moebius og Alexander Jodorowsky, er að koma út núna um jólin en fyrri hluti hennar var einmitt gefinn út fyrir jólin 2016. Þessi myndasaga er eiginlega ein sú allra fyrsta sem kemur út á íslensku sem er ekki er ætluð börnum og unglingum en SVEPPAGREIFINN man í fljótu bragði aðeins eftir bókinni um Birnu og ófreskjuna sem þannig er einnig háttað með. Efni þessara fullorðins myndasagna er þó gjörólíkt. Inkal sagan, sem er frá árinu 1980, er líklega ein af allra stærstu myndasögum þessa bókmenntageira og er eiginlega ómissandi fyrir unnendur alvöru teiknimyndasagna. Og þó að bækurnar séu aðeins tvær þá eru þær samtals um 300 blaðsíður og kosta auðvitað sitt. En þær eru algjörlega þess virði og þetta er virkilega metnaðarfull útgáfa sem er eiginlega skyldueign í hillur áhugafólks um myndasögur.


LUKKU LÁKI - Makaval í Meyjatúni
Froskur útgáfa heldur áfram að gefa út Lukku Láka bækurnar, eftir 33ja ára hlé á íslensku, og nú fyrir jólin kemur út ný bók úr þessari vinsælu seríu annað árið í röð. Þetta er sagan Makaval í Meyjatúni eða La Fiancée de Lucky Luke en hún kom upphaflega út árið 1985 og er númer 53 í upprunalegu seríunni en Morris (Maurice de Bevere) og handritshöfundurinn Gay Vidal eru skrifaðir fyrir bókinni. Alls hafa nú komið út 35 Lukku Láka bækur á íslensku úr opinberu seríunni og það er vonandi að enn verði framhald á útgáfu þessa bóka fyrir hina fjölmörgu aðdáendur bókaflokksins hér á landi.


STRUMPARNIR - Geimstrumpurinn
Ný strumpabók er komin út og að þessu sinni er það bókin Geimstrumpurinn frá árinu 1970 eða Le Cosmoschtroumpf eins og hún heitir nú á frummálinu. Í bókinni er líka önnur saga sem nefnist Veðurstrumpuvélin og ef SVEPPAGREIFANN misminnir ekki birtist sú saga einnig í bókinni um Galdrastrumpinn sem kom út hjá Iðunni árið 1980. Geimstrumpurinn er eftir Pierre Culliford (Peyo) og þetta er sjötta bókin í opinberu frönsku seríunni en samtals eru þær nú orðnar 35 talsins. Peyo lést reyndar árið 1992 en sonur hann Thierry Culliford tók við keflinu af föður sínum og hefur samið síðustu 20 sögurnar. Sú nýjasta kom út í ágúst síðastliðnum. Þetta er annað árið í röð sem Froskur útgáfa sendir frá sér strumpabók en alls hafa nú komið út 10 bækur um Strumpana á íslensku.


SVALUR OG VALUR - Sveppagaldrar í Sveppaborg
Þá er ný bók með Sval og Val að koma út en það er sagan Sveppagaldrar í Sveppaborg eftir André Franquin. Þessi saga heitir Il y a un sorcier à Champignac á frummálinu og var fyrsta Sval og Val bókin sem kom út í fullri lengd. Hún birtist fyrst í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU á árunum 1950-51 og kom svo einnig út í bókaformi seinna árið. Þessi bók markar nokkur tímamót í sögunum um Sval og Val því að í henni er Sveppagreifinn kynntur fyrst til sögunnar en auk þess kemur Sveppaborg og nágrenni hennar einnig fyrir í fyrsta sinn. Þessari bók er SVEPPAGREIFINN (þ.e. sá sem þetta skrifar) búinn að bíða eftir í íslenskri þýðingu í næstum 40 ár og hún mun pottþétt fara á óskalistann fyrir jólin.


VIGGÓ VIÐUTAN - Vandræði og veisluspjöll
Og að síðustu má nefna nýja bók með snillingnum Viggó viðutan en það er sú þriðja úr bókaflokknum sem Froskur útgáfa sendir frá sér. Þessi bók nefnist Vandræði og veisluspjöll eða Le bureau des en gros og er númer 5 í opinberu seríunni en samtals eru bækurnar um Viggó orðnar 19 talsins. Árið 1980 kom út hjá Iðunni bókin Viggó - Vikadrengur hjá Val og var með sömu mynd á kápunni en ekki er þó um sömu bók að ræða. Viggó bækurnar sem voru að koma út á íslensku á sínum tíma voru ekki endilega með "réttu" forsíðumyndirnar á kápunum og innihaldið var reyndar einnig oft á tíðum svolítið úr ýmsum áttum og alls ekki í tímaröð. Froskur útgáfa er hins vegar núna að gefa bækurnar út í réttri tímaröð og með "réttu" kápunum samkvæmt opinberu röðinni.

Stór hluti þeirra heimilda sem birtist í þessari færslu er unninn úr visku fjölmargra þeirra fróðu og stórskemmtilegu meðlima hinnar frábæru Facebook grúbbu, Teiknimyndasögur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!