HRAKFARIR & HEIMSKUPÖR
Verulega slæma myndasögubloggið
24. maí 2023
225. EITT OG ANNAÐ UM STEINA STERKA
5. maí 2023
224. STOLNAR SPÆNSKAR MYNDASÖGUR
Emile Bravo er listamaður sem SVEPPAGREIFINN hefur nokkrum sinnum minnst á hér á Hrakförum og heimskupörum í þessum myndasöguskrifum sínum og er ákaflega hrifinn af því sem hann hefur fram að færa. Bravo þessi er spænsk-ættaður Frakki og er einna helst kunnur fyrir teiknimyndasögur sínar í hliðarbókaflokknum Série Le Spirou de… (Sérstök ævintýri Svals ...) sem fjalla jú einmitt um þá Sval og Val. Bækurnar, sem eru fimm talsins, fjalla um þá félaga í Síðari heimsstyrjöldinni og baráttu þeirra, með Andspyrnuhreyfingu Belga, gegn þýsku Nasistunum. Það er þó ekki ætlun SVEPPAGREIFANS að fjalla um þær bækur hér, að þessu sinni, en áður hefur verið minnst á fyrstu bókina um það efni hér á síðunni. Viðfangsefni dagsins er svolítið annað.
Emile Bravo fæddist í París árið 1964 og ólst upp við hina sígildu fransk/belgísku myndasöguhefð eins og svo mörg ungmenni þessara landa gerðu. Hann lærði því snemma að meta Tinna og Ástrík og að sjálfsögðu sögurnar um þá Sval og Val. Í framhaldi af því setti hann sér þau markmið að láta drauma sína rætast og gerast sjálfur myndasöguhöfundur. Bravo gerði æsku sinni einmitt ágæt skil í örstuttri myndasögu sem birtist í SPIROU tímaritinu árið 2008 og þar kemur nokkuð vel fram hvernig þessar myndasögur allar höfðu áhrif á hann sem ungan pilt. SVEPPAGREIFINN leyfði sér að snara þessari sögu Bravos (ansi illa og hroðvirknislega) úr frönsku yfir á íslensku og birta hana hér. Þetta er að sjálfsögðu allt saman í boði hússins og auðvitað í algjöru óleyfi - sorrý.
Með þessari stuttu teiknimyndasögu, eða samantekt um bernsku Emile Bravo, notaði hann tækifærið til að kynna sig svolítið fyrir lesendum SPIROU áður en fyrsta sagan Journal d'un ingénu hæfi göngu sína í tímaritinu. Í þessari bernskusamantekt kemur fram athyglisverður punktur sem SVEPPAGREIFANUM þótti ótækt annað en að skoða svolítið og fjalla aðeins um. Þar minnist Bravo á afar vinsæla, spænska teiknimyndapersónu sem nefnist El Botones Sacarino, og skapaður var af teiknarann Francisco Ibáñez, en SVEPPAGREIFINN játar reyndar fúslega að hafa aldrei nokkurn tímann heyrt minnst á þessar sögur eða höfund þeirra. Líklegt verður þó að teljast að einhverjir íslenskir Spánarfarar þekki þessar teiknimyndasögur þó síðuhafi kunni ekki á þeim nein skil.
En eins og fram kemur í myndasögunni hér fyrir ofan virðist sem persónan Sacarino hafi fengið lánað einhvers konar skrumskælt útlit sem samanstendur af persónum þeirra Svals og Viggós viðutan. Höfundurinn viðurkenndi reyndar alveg að Sacarino væri innblásinn af Viggó en óhætt er að segja að sögupersónan sé miklu meira en það. Með öðrum orðum er hún augljóslega þrælstolin úr belgísku SPIROU blöðunum. Karakterinn sjálfur er hrein eftirlíking af Viggó, utan þess að hann er klæddur eins og Svalur. El Botones Sacarino birtist fyrst í spænska myndasögublaðinu El DDT á árunum 1963 til '66 en á þeim árum var Viggó viðutan alveg óþekktur á Spáni. Á þessum tíma þekktu spænskir teiknimyndasögulesendur aðeins Tinna, Ástrík og Lukku Láka af fransk/belgíska myndasögusvæðinu en Viggó og Svalur komu seinna til sögunnar á þeim slóðum.
Ekki gat SVEPPAGREIFINN í fljótu bragði fundið neinar heimildir fyrir því að stuldur þessi hafi haft nokkrar afleiðingar eða eftirmála fyrir hinn spænska Francisco Ibáñez eða blað hans en líkindin eru óyggjandi. Árið 1966 höfðu þessi líkindi persónanna og sagnanna þó breyst nokkuð og hugsanlega má rekja þær breytingar til athugasemda eða hótanna frá Dupuis útgáfunni í Belgíu. Það er hætt við að höfundarréttalögregla dagsins í dag myndi ekki láta slíka hluti viðgangast athugasemdalaust. Hér var ekki aðeins um að ræða beinan stuld á útliti og karakter Viggós heldur voru bæði myndarammar úr myndasögunum og jafnvel heilu brandararnir stolnir. Í heildina má finna hátt í fjörtíu Sacarino brandara sem teiknaðir voru nánast beint upp eftir Viggó bröndurunum úr SPIROU blöðunum. André Franquin, sem teiknaði Viggó viðutan, gerði aðspurður sjálfur frekar lítið úr þessum eftiröpunum. Hann sagðist telja að allir listamenn sæktu sér áhrif frá öðrum listamönnum og notuðu þau til að þróa sinn eigin stíl eða hæfileika. Honum sjálfum virtist alla vega ekki finnast taka því að vera að gera eitthvað stórmál úr þessu.
Eftir svolítið grams gróf SVEPPAGREIFINN upp fáein dæmi um hina stolnu brandara en af nægu er að taka og lesendur þekkja án nokkurs vafa flesta þessa brandara. Fyrsta dæmið birtist til dæmis í SPIROU blaði númer 1205, sem kom út þann 18. maí árið 1961 en á íslensku kom brandarinn fyrir á blaðsíðu 27 í Viggó bókinni Braukað og bramlað sem Froskur útgáfa gaf út árið 2016.
Myndaramminn sem næstur er tekinn fyrir birtist í sérstöku afmælisriti (tölublaði númer 1303) sem gefið var út í tilefni af 25 ára afmæli SPIROU tímaritsins þann 4. apríl árið 1963. Brandarinn birtist síðan á blaðsíðu 34 í bókinni Gengið af göflunum sem Froskur útgáfa sendi frá sér árið 2015.
Þá er komið að dæmi úr SPIROU blaði númer 1364 frá 4. júní árið 1964. Þessi brandari birtist fyrst á íslensku í Viggó bókinni Skyssur og skammarstrik (blaðsíðu 36) sem bókaútgáfan Iðunn sendi frá sér árið 1987 en hann kemur einnig fyrir á blaðsíðu 23 í bókinni Vandræði og veisluspjöll sem Froskur útgáfa gaf út árið 2017. Myndarammarnir hér fyrir neðan koma einmitt úr þeirri útgáfu.
Síðasta dæmið um stuld hins spænska Ibáñez, af bröndurunum um Viggó viðutan, kemur úr SPIROU blaði númer 1328 sem gefið var út þann 26. september árið 1963. Þennan sama brandara má finna á blaðsíðu 3 í bókinni Vandræði og veisluspjöll sem Froskur sendi frá sér árið 2017.
Þess má geta að Francisco Ibáñez þessi skapaði einnig aðra seríu sem fjallaði um þá félaga Mortadelo og Filemon (sem líka er minnst á í myndasögu Bravos) en þar hafði hann svipaðan háttinn á. Þær myndasögur hafa einnig mjög sterka vísun í Viggó viðutan en auk þess eru heilu myndarammarnir þar líka þrælstolnir úr sögunum um Sval og Val. Ekki nennir SVEPPAGREIFINN að fara að sökkva sér ofan í þau fræði einnig en einhverjir kannast eflaust við þennan myndaramma úr bókinni Tembó Tabú eftir Franquin.
11. apríl 2023
223. TÝNDA BLAÐSÍÐAN ÚR GULLNÁMUNNI
Í færslu dagsins ætlar SVEPPAGREIFINN að fjalla svolítið um Lukku Láka. En íslenskir lesendur teiknimyndasagna muna að sjálfsögðu eftir Lukku Láka bókinni Meðal dóna og róna í Arisóna og Gullnáman sem Fjölvaútgáfan gaf út í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen árið 1979. Þarna var um að ræða tvær stuttar sögur sem voru á meðal þess allra fyrsta sem listamaðurinn Morris (Maurice de Bevere) samdi um kúrekann Lukku Láka en þessar myndasögur urðu til löngu áður en handritshöfundurinn René Goscinny kom til sögunnar. Hin íslenska útgáfa af bókinni hafði reyndar ekki að geyma þær tvær sömu sögur sem upprunalega belgíska bókaröðin hafði að geyma. Sú bók var með sögurnar Gullnáman og Le Sosie de Lucky Luke (Tvífari Lukku Láka) en síðarnefnda sagan hefur ekki komið út á íslensku. En það er allt annað mál og verður látið liggja á milli hluta í bili.
Sagan Gullnáman heitir reyndar á frönsku La Mine d´or de Dick Digger sem tæknilega hefði þá líklega átt að vera þýtt sem Gullnáma Gríms grafara eins og fram kemur á hinum frábæru íslensku Wikipedia síðum um Lukku Láka sem Sverrir Þór Björnsson stýrir. Það var nefnilega ýmislegt sem farið var frekar frjálslega með í hinum íslensku þýðingum Fjölva útgáfunnar á sínum tíma og þeirra á meðal voru titlar sagnanna. En fyrsta blaðsíðan af Gullnámunni birtist þann 12. júní árið 1947 í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU og sagan naut þar töluverðra vinsælda. Í blaðinu var birt ein síða á viku þar til yfir lauk en síðasta blaðsíða Gullnámunnar birtist þar þann 27. nóvember þetta sama ár. Alls hafði SPIROU tímaritið því að geyma tuttugu og sex blaðsíður af sögunni. En þegar farið er að skoða bókaútgáfuna (og þar með talið þá íslensku) af þessari teiknimyndasögu kemur reyndar í ljós að sú útgáfa Gullnámunnar er ekki nema tuttugu og fimm blaðsíður að lengd. Þetta þýðir auðvitað það að í bókaútgáfuna vantar hvorki meira né minna en heila blaðsíðu. Nánar til tekið blaðsíðu sjö. Af því tilefni er ástæða til að rifja upp að síðasta myndaröðin á blaðsíðunni á undan (sem er þá neðst á blaðsíðu tuttugu og átta í íslensku útgáfunni) er svona útlítandi.
Blaðsíða númer sjö í Gullnámunni eins og hún birtist upphaflega í SPIROU tímaritinu, þann 24. júlí árið 1947, lítur hins vegar nákvæmlega út eins og hún sést hér fyrir neðan. Það er auðvitað rétt að biðjast aðeins afsökunar á gæðum þessarar blaðsíðu enda hefur hún aldrei verið endurteiknuð og lituð, líkt og aðrar síður sögunnar, og kemur því svona beint upp úr SPIROU tímaritinu.
17. mars 2023
222. ENDURKOMA VIGGÓS VIÐUTAN?
SVEPPAGREIFINN er mikil aðdáandi Viggós viðutans og ekki síður höfundar hans André Franquin, sem var hreint frábær listamaður, eins og margoft hefur komið hér fram. Franquin teiknaði myndasögurnar um Viggó í samráði við þá Jidéhem (Jean De Mesmaeker) og Yvan Delporte en hann átti þó sjálfur mestan þátt í að skapa persónuna. Það má eiginlega segja að Franquin hafi átt Viggó þótt félagar hans hjá belgíska myndasögutímaritinu Journal de Spirou hafi líka átt þátt í að þróa hann. Franquin teiknaði Viggó alla tíð og samtals skyldi hann eftir sig um 909 brandara um kappann en sá síðasti birtist í SPIROU tímaritinu (tölublaði nr. 2776) þann 25. júní árið 1991.
Reyndar höfðu gamlir Viggó brandarar oft verið endurbirtir í myndasögublaðinu, bæði fyrir þennan tíma og seinna, en þessi brandari númer 909 var svanasöngur listamannsins með Viggó. Þess má til gamans geta að í sama tölublaði (og í einhverja mánuði á eftir) voru gamlir Viggó brandarar nýttir til enskukennslu í SPIROU tímaritinu eins og sjá má hér að neðan. Stórsniðugt auðvitað!
André Franquin lést 5. janúar árið 1997. Þá hafði hann, nokkrum sinnum í gegnum tíðina, nefnt það í viðtölum að hann vildi ekki að aðrir listamenn myndu teikna Viggó viðutan að honum látnum. Þar með fetaði hann í sömu fótspor og Hergé hafði gert með Tinna á sínum tíma. Tinni fékk að deyja með höfundi sínum. Þessi ósk Franquins hefur að mestu verið virt frá því að hann lést en þó eru undantekningar á því. Dupuis gaf til dæmis út skemmtilega bók til heiðurs Franquins í tilefni af 60 ára afmælis Viggós árið 2017 þar sem sextíu mismunandi listamenn spreyttu sig á sextíu bröndurum um kappann. Heftið hét einfaldlega La galerie des Gaffes og SVEPPAGREIFINN minntist aðeins á það í færslu hér á síðunni sinni fyrir fáeinum árum.
Það var síðan í tengslum við hina árlegu myndasöguhátíð í Angoulême, þann 17. mars árið 2022, sem Dupuis útgáfan tilkynnti, á blaðamannafundi, að fyrirhuguð væri útgáfa á nýrri Viggó bók sem áætlað væri að myndi koma út þann 19. október árið 2022. Þessi tilkynning vakti að sjálfsögðu mikla athygli enda ný Viggó bók auðvitað stórviðburður í belgíska myndasöguheiminum. Fram kom að ætlunin væri að prenta upplag upp á 1,2 milljón eintaka og kanadíski listamaðurinn Delaf (Marc Delafontaine) hefði fengið það hlutverk að teikna bókina. Delaf þessi er kunnastur hér á landi fyrir myndasögurnar um Skvísur sem Froskur útgáfa hefur verið að gefa út á undanförnum árum. Á blaðamannafundinum kom einnig fram að Delaf væri þegar búinn að teikna brandara sem fylltu fjörtíu og fjórar blaðsíður fyrir þessa nýju Viggó bók en þess utan var nafn bókarinnar, Le Retour de Lagaffe (Endurkoma Viggós), og kápa hennar gerð opinber af þessu stórmerkilega tilefni.
Strax í kjölfar blaðamannafundsins komu þó fram miklar efasemdir, á samfélagsmiðlum, um þessa útgáfu og fólk var ekki á eitt sátt með fréttirnar enda margir minnugir orða Franquins um að enginn annar skyldi teikna Viggó viðutan. Mörgum fannst auðvitað eðlilegast að þessar óskir listamannsins yrðu virtar. En fyrsti Viggó brandarinn í þessari fyrirhuguðu útgáfu birtist þó í SPIROU tímaritinu sem kom út þann 6. apríl árið 2022 og þar með birtist í blaðinu fyrsti Viggó brandarinn sem ekki var eftir André Franquin. Þess má til gamans geta að í bókinni La galerie des Gaffes, sem minnst er á hér aðeins ofar, er einmitt þessi sami brandari Delaf um Viggó. SVEPPAGREIFINN nefndi það einmitt í þeirri færslu að framlag Delaf til bókarinnar sé það sem honum finnist persónulega best heppnað frá listamönnunum sextíu. Það mun einmitt hafa verið í kjölfar útgáfu þessa 60 ára afmælisheftis sem Dupuis útgáfan fór fram á við Delaf að hann myndi taka að sér það hlutverk að teikna heila bók um Viggó viðutan.
En aðeins viku eftir að útgáfa hinnar nýju Viggó bókar hafði verið kynnt opinberlega fór Isabelle Franquin, dóttir listamannsins, fram á að lögbann yrði sett á útgáfuna. Þrátt fyrir það birtist fyrsti brandari nýju bókarinnar í SPIROU tímaritinu nokkrum dögum seinna og ekki einfaldaði sú ákvörðun málið. Lögfræðingar Dupuis vörðu verknaðinn með þeim orðum að SPIROU væri prentað með töluverðum fyrirvara og ekki hefði því gefist tækifæri til að fjarlægja brandarann úr tímaritinu. Líklegra má þó telja að birtingin hafi frekar verið af markaðslegum ástæðum.
Þrátt fyrir óskir Franquins sjálfs, um að Viggó yrði ekki teiknaður af öðrum eftir dauða sinn, þá virðist sem hann hafi á sínum tíma afsalað sér höfundaréttinum fyrir mistök. Dupuis hafi í raun öðlast réttinn í kjölfar yfirtöku útgáfunnar á Marsu Productions og Isabelle Franquin geti því ekki haldið óskum föður síns til streitu. Á móti má samt spyrja hvort það sé siðferðislega rétt að fara á skjön við óskir listamannsins. Bókin hefur því verið sett á bið, á meðan dómstólar taka ákvörðun um framhaldið, og birting brandaranna í SPIROU blaðinu hefur einnig verið sett á ís á meðan niðurstaðanna er beðið en þær munu væntanlega liggja fyrir í september á þessu ári.
Og svo er kannski rétt, fyrst verið er að fjalla um Viggó viðutan hér, að franska bíómyndin Gaston Lagaffe, frá árinu 2018, verður sýnd á RÚV annað kvöld (laugardagskvöld) og hefst klukkan 21:15. Myndin hefur reyndar verið aðgengileg hjá sjónvarpi Símans um nokkurt skeið og er ekki merkileg en er samt skylduáhorf fyrir alla aðdáendur teiknimyndasagna.
3. mars 2023
221. ÍSLENSK TINNA BÓK Á BORÐUM HERGÉ
Í dag 3. mars árið 2023 eru liðin fjörtíu ár síðan Hergé, höfundur Tinna bókanna, lést. SVEPPAGREIFINN gerði því einhver skil í færslu hér fyrir margt löngu síðan og í annarri enn eldri færslu hans má einnig finna nokkuð ítarlegt æviágrip um listamanninn belgíska. Þessi tímamót (auk ábendinganna um greinarnar tvær) eru samt í sjálfu sér ekkert endalega tilefni færslu dagsins í dag, þó merkisatburður sé, heldur ljósmynd af Hergé sem síðuhafi rakst nýlega á. Á umræddri mynd, sem er frá árinu 1975, sést hvar Hergé stendur við borð þar sem verkum hans hefur verið raðað upp fyrir framan listamanninn. Þarna má meðal annars sjá nokkrar af Tinna bókunum á mismunandi tungumálum og ef glöggt er gáð má einmitt reka augu í hina íslensku Svaðilför í Surtsey (sem kom út á íslensku árið 1971) í bókaröðinni hægra megin.
Um mitt árið 1975 höfðu tíu Tinna bækur þegar verið komnar út á íslensku og fyrir jólin þetta ár bættust við fjórar teiknimyndasögur með kappanum í viðbót. Íslenska myndasöguútgáfan á árum áður var ekki stór á evrópskan mælikvarða og SVEPPAGREIFANUM finnst því nokkuð merkilegt að íslensk Tinna bók skuli hafa ratað beint inn á borð Hergé.
Gaman að þessu.