14. júní 2019

115. Á VÍÐÁTTUM VESTURSINS

Árið 1977 varð einhvers konar sprenging í útgáfu teiknimyndasagna á Íslandi og fjölmargir nýjir bókaflokkar litu dagsins ljós á stuttum tíma. Á árunum á undan höfðu eingöngu myndasögurnar um Tinna og Ástrík þótt þess verðugar að vera gefnar út hér á landi og í nokkur ár voru þessar myndasögur Fjölvaútgáfunnar því þær einu sem voru í boði á íslensku. Stóru forlögin í Belgíu og Frakklandi voru að gefa út vinsælustu myndasögurnar sínar í tugþúsunda vís og vegna þess hve markaðurinn hér var lítill þótti það ekki svara kostnaði að eltast við fáeinar bækur til útgáfu hér. Það var aðeins fyrir náð og miskunn að Tinna og Ástríks bækurnar fengust prentaðar í litlum upplögum í samfloti með forlögunum á hinum Norðurlöndunum. Fjölvi, með Þorstein Thorarensen í broddi fylkingar, fékk til dæmis ekkert um það ráðið hvaða Tinnabækur kæmu út og urðu því að sætta sig við að þurfa að eltast við það sem skandinavísku útgáfurnar voru að gefa út hverju sinni. Það var einmitt ástæða þess að Tinni bækurnar komu ekki út í réttri útgáfuröð á íslensku en við þökkum fyrir að hafa þó fengið að kynnast þessum bókum. Myndasögurnar með Tinna og Ástríki urðu gríðarlega vinsælar hér og kölluðu á frekari landvinninga af áhugaverðu efni fyrir íslensku útgefendurna. Enda höfðu myndasöguþyrst börn og unglingar nú komist á bragðið og kölluðu eftir meira slíku efni. Í kjölfarið hóf Iðunn einmitt að gefa út myndasögur með Hinum fjóru fræknu og Sval og Val árið 1977 og Fjölvi bætti meðal annars við nýjum seríum með Lukku Láka, Palla og Togga og bókaflokki sem nefndist Á víðáttum vestursins. Og ætli sé þá ekki kominn tími fyrir SVEPPAGREIFANN að fjalla aðeins um síðastnefndu myndasögurnar í færslu dagsins.
En það var fyrir jólin 1977 sem Fjölvi sendi frá sér tvær nýjar teiknimyndasögur í nýrri bókaseríu sem nefndist Á víðáttum vestursins og voru eftir hollenska listamanninn Hans G. Kresse. Þessar tvær bækur nefndust Meistarar þrumunnar (De Meesters van de Donder) sem þýdd var af Ólafi Ólafssyni og Erfingjar stormsins (De Kinderen van de Wind) sem Loftur Guðmundsson sá um að snara yfir á íslensku. Árið eftir komu út næstu tvær bækur, Illskeyttir aðkomumenn (De Gezellen van het Kwaad) og Sultarvæl sléttuúlfanna (De Zang van de Prairiewolven), sem báðar voru þýddar af Þorsteini sjálfum en ekki voru gefnar út fleiri sögur í seríunni á íslensku. Þær íslensku bókaútgáfur sem voru að gefa út myndasögur á þessum tíma voru nefnilega svolítið fyrir það að byrja að senda frá sér bækur í nýjum bókaflokkum en klára ekki. Þessar bækur, eins og aðrar myndasögur á Íslandi á þessum árum, voru gefnar út í samstarfi við bókaútgáfur á Norðurlöndunum en á sama tíma var serían til dæmis að hefja göngu sína hjá Carlsen í Danmörku. Allar þessar teiknimyndasögur voru þó prentaðar í Belgíu. Bækurnar fjórar voru í raun fyrstu fjórar sögurnar í upprunalegu seríunni en alls voru bækurnar í bókaflokknum tíu talsins. Og svo má þess líka geta að átta þeirra (þ.e. fyrstu átta) komu út í Danmörku á sínum tíma ef einhver hefði áhuga á að eignast þær á dönsku.
Þessi bókaflokkur var af svolítið öðrum toga en íslensk ungmenni höfðu áður kynnst úr heimi teiknimyndasagnanna og líklega hefur Þorsteinn hjá Fjölva talið sig renna svolítið blint í sjóinn með seríuna. Í það minnsta virðist hann hafa haft svolítinn vara á sér við útgáfuna og nefnir það sérstaklega á bakhlið bókanna að þær séu "afar vandaðar að allri gerð og mjög eftirsóttar af yngri kynslóðinni". Líklega hefur hann talið það vera góð meðmæli ef væntanlegum kaupendum hefði ekki litist nógu vel á bækurnar við fyrstu sýn. Þessar myndasögur voru nefnilega töluvert alvarlegri og í drungalegri tón en íslensku lesendurnir höfðu átt að venjast og teikningarnar í mun raunsærri stíl. Tinni og Ástríkur höfðu verið talsvert meira léttmeti og svo ekki sé talað um Lukku Láka bækurnar sem Fjölvi hafði byrjað að senda frá sér fáeinum mánuðum fyrr.
SVEPPAGREIFANUM er ekki vel kunnugt um hversu vel þessar bækur seldust eða hve vinsælar þær voru hér en almennt virðast þær hafa skipst í tvo flokka hjá lesendum. Þ.e. annars vegar voru það þeir lesendur sem dýrkuðu þessar bækur og lásu upp til agna og hins vegar þeir sem fannst bækurnar alveg drepleiðinlegar. SVEPPAGREIFINN ætlar ekki að fara neitt í felur með það að hann tilheyrði klárlega síðarnefnda hópnum og fannst lítið til bókanna koma. Reyndar átti hann þessar sögur aldrei sjálfur í æsku. Þrátt fyrir að til hafi verið eitthvað vel á annað hundruð myndasögutitla á bernskuheimili hans þá náði serían, Á víðáttum vestursins, aldrei inn í bókahillurnar þar. SVEPPAGREIFINN gluggaði þó eitthvað í þessar sögur á sínum tíma, því einhverjir af æskufélögum hans áttu þessar myndasögur, og hann telur sig því alveg hafa getað dæmt bækurnar af sanngirni. Markhópur teiknimyndasagna á Íslandi á þessum árum voru fyrst og fremst börn og unglingar og líklega voru þessar sögur því of tormeltar og þungar fyrir þá.
En allt er breytingum háð. Eða ... SVEPPAGREIFINN tengdi það alla vega þroska að telja sig getað breytt viðhorfi sínu, gagnvart bókunum, með því einu að lesa þær aftur 40 árum seinna. Það væri auðvitað nauðsynlegt til að geta komið þessari færslu frá sér á tiltölulega eðlilegan og hlutlausan hátt. Hann byrjaði því að glugga aðeins í þessar myndasögur með það að markmiði að lesa allar bækurnar fjórar frá upphafi til enda með opnum huga. Það gekk reyndar ekkert sérstaklega vel. Hann náði að lesa fyrstu 9 blaðsíðurnar í fyrstu sögunni og svo þurfti hann þrjár tilraunir til að hafa sig út í það að klára bókina. Með svipuðum hætti náði hann að klára hinar bækurnar þrjár. En viðhorf hans til seríunnar hefur voðalega lítið breyst við þetta. SVEPPAGREIFINN náði aldrei þeirri einbeitningu við þann lestur sem nauðsynlegur er til að finnast sér ná einhverri eðlilegri tengingu við sögurnar. Bækurnar finnst honum alveg jafn þrautleiðinlegar og þegar hann las þær fyrir tæplega 40 árum síðan. En hann áttar sig samt á því að serían er í rauninni mjög vönduð og faglega unnin þó hún höfði ekki endilega til hans. Vandvirkni Kresse er einstök og drungalegur raunsæisstíllinn hentar fullkomlega fyrir persónurnar sem eru hver annarri ófrýnilegri. SVEPPAGREIFINN hvetur því fleiri fyrrverandi börn og unglinga (sem lásu teiknimyndasögur á 8. og 9. áratug síðustu aldar) eindregið til að lesa bækurnar aftur sér til gamans, hvort sem það er til að sjá þær í nýju og betra ljósi eða til að staðfesta gömlu skoðanirnar. Og í rauninni (þetta er ekki hæðni) dáist SVEPPAGREIFINN að þeim lesendum bókanna sem hafa ekki aðeins þraukað ítrekað gegnum lestur þessara myndasagna, í gegnum tíðina, heldur finnst þær í raun og veru skemmtilegar. Það er virkilega aðdáunarvert.
En árið 1972 hafði Hans G. Kresse gert samning við belgísku Casterman útgáfuna um að gera myndasöguröð sem myndi fjalla um sögu ættkvíslar Apache indjánanna í Ameríku á tímum spænsku innflytjendanna sem hófust á 16. öldinni. Þarna er fylgt eftir lífsbaráttu indjánanna á sléttunum í vestrinu, á milli Rio Grande og Pecos, þar sem almenn barátta þeirra um tilverurétt og landvinninga bættust við óblíð náttúruöflin í formi þurrka og hungursneyða. Í sögunum má meðal annars kynnast því hvernig Indjánarnir tóku hestinn í sína þjónustu og þurftu að berjast með boga, örvum og spjótum gegn nútímalegri vopnum Spánverjanna. Bókaflokkurinn fékk reyndar ekki neitt formlegt nafn en hún var aldrei kölluð neitt annað en Indianenreeks eða Indjánaserían af lesendum sínum. Á íslensku hefur bókaflokkurinn hins vegar hlotið titilinn Á víðáttum vestursins, eins og margoft hefur komið hér fram í færslunni, og efst á bókakápum íslensku útgáfanna má einmitt sjá þann titil. Almennt voru myndasögurnar í þessum bókaflokki ekki merktar seríunni á þennan sama hátt á framhliðinni og SVEPPAGREIFINN hefur aðeins rekist á sænsku útgáfuna (Indianserien), fyrir utan þá íslensku, sem þannig er háttað með. En eins og áður var nefnt urðu sögurnar í bókaflokknum alls tíu talsins og þær voru eftirfarandi:
  1. De Meesters van de Donder - 1973 (Meistarar þrumunnar - 1977)
  2. De Kinderen van de Wind - 1973 (Erfingjar stormsins - 1977)
  3. De Gezellen van het Kwaad - 1974 (Illskeyttir aðkomumenn - 1978)
  4. De Zang van de Prairiewolven - 1974 (Sultarvæl sléttuúlfanna - 1978)
  5. De Weg van de Wraak - 1975
  6. De Welp en de Wolf - 1976
  7. De Gierenjagers - 1978
  8. De Prijs van de Vrijheid - 1979
  9. De Eer van een Krijger - 1982
  10. De Lokroep van Quivera - 2001
Reyndar voru bækurnar í seríunni ekki nema níu því að Kresse kláraði í rauninni aldrei síðustu söguna. Sjón hans hafði farið hríðversnandi og árið 1982 þurfti hann að fara í augnaðgerð sem skilaði þó litlum árangri. Fljótlega upp úr því þurfti hann alveg að hætta vinnu við listsköpun sína en sagan var þó gefin út í bókaformi að honum látnum árið 2001. Alls var serían gefin út að einhverju leyti (þ.e. misjafnlega margar bækur) á tólf mismunandi tungumálum og þar með talið á öllum Norðurlöndunum en bækurnar virðast þó hvergi hafa selst mjög vel.
Hans Georg Kresse fæddist í Amsterdam árið 1921 og sautján ára gamall fékk hann birta sína fyrstu myndasögu í De Verkenner en hún fjallaði um sjálfan Tarzan apabróður. Kresse var fyrsti Hollendingurinn til að nema myndasögugerð en mikill uppgangur var í þessari listgrein á árunum í kringum Síðari heimsstyrjöldina og þá sérstaklega í nágrannalöndunum Belgíu og Frakklandi. Faðir hans var reyndar þýskur en sá hafði yfirgefið fjölskylduna þegar Hans var mjög ungur og samkvæmt eldgömlum hollenskum lögum varð móðir hans (og reyndar öll fjölskyldan) við það sjálfkrafa þýsk. Sem gerði það að verkum að sem þýskum ríkisborgara bar Hans að gegna herskyldu fyrir þýsku Nasistana sem nú höfðu hernumið Holland. Hann slapp fyrir horn með því að gera sér upp andleg veikindi og eftir að hafa starfað meðal annars að kvikmyndagerð gerði hann teikningu að ævistarfi sínu. Myndasögur af ýmsu tagi voru hans helstu verkefni en einnig myndskreytingar í blöð, tímarit og bókakápur, auglýsingar og bæklingar. Kresse þótti nokkuð sérlundaður maður og með skapgerðabresti sem gerði hann erfiðan í samstarfi en líklega var hann ekki með mikið sjálfstraust því hann taldi sig ekki hafa mikla hæfileika sem listamann. Sem var náttúrulega alrangt. Hann var mjög heimakær og ekki mjög félagslyndur sem gerði það að verkum að hann var ekki mikið fyrir það að hitta aðdáendur sína. Hans Kresse lést úr lungnakrabbameini í mars árið 1992.
Hans Kresse er líklega með þekktustu myndasöguhöfundum sem Holland hefur gefið af sér en fyrir utan títtnefnda indjánaseríu, Á víðáttum vestursins, var hann líklega kunnastur fyrir myndasögurnar um Eric de Noorman sem hann teiknaði á árunum 1946-64 og fjölluðu um hinn ljóshærða víkingakonung Eric. En svo má til gamans geta þess að sögurnar um Eric de Noorman birtust daglega á íslensku í Tímanum á árunum 1957-63 og þar nefndust þær Eiríkur víðförli.

7. júní 2019

114. HRAKFALLAFERÐ TIL LEGOBORGAR

Það er ýmislegt tilgangslaust sem fólk finnur sér til dundurs í frítíma sínum og í þess háttar tilfellum vilja menn (oft á tíðum afbrigðisamir) meina að viðkomandi hafi of mikinn tíma til ráðstöfunar. SVEPPAGREIFINN er reyndar ekki alveg sammála þeirri fullyrðingu og vill frekar meina að frjótt ímyndunarafl sé betri skilgreining á fyrirbærinu. Það hefur enginn OF mikinn tíma og allra síst fyrir sjálfa sig eða sína nánustu. Flestir eru hins vegar OF duglegir að eyða tíma sínum í vinnu. Í frítíma sínum á fólk hins vegar að gera það sem það langar en reyndar getur verið misjafnt hversu mikinn tilgang aðrir sjá í gerðum þess. Það skal alveg viðurkennt að SVEPPAGREIFINN á það til að detta svolítið í þá tegund af sköpunargleði og þessi ódýra færsla, sem væntanlega fellur þá undir einhvers konar fánýtan fróðleik, er einmitt gott dæmi um slíkan verknað. Á vafri sínu um víðáttur Internetsins hefur SVEPPAGREIFINN nokkuð oft fundið eitthvað sem á eiginlega hvergi neitt erindi neinstaðar. Gott dæmi um það er þessi mynd sem hann rak augun í á dögunum þar sem bloggsíðuhafi nokkur sérhæfir sig í að endurskapa ýmis augnablik, bæði úr þekktum myndasögum og öðru, og færa þau yfir í hefðbundið LEGO form.
Þessa mynd þekkja liklega flestir aðdáendur Svals og Vals á Íslandi en hún birtist strax á blaðsíðu 5 í bók Franquins Hrakfallaferð til Feluborgar (Les pirates du silence - 1958) sem bókaútgáfan Iðunn sendi frá sér fyrir jólin árið 1977 í þýðingu Geirlaugar Þorvaldsdóttur. Þetta var fyrsta sagan sem kom út á íslensku í þessum vinsæla bókaflokki en þarna eru þeir félagar nýbúnir að pakka niður í töskur sínar og búa sig undir að leggja af stað í fréttaleiðangur til Feluborgar. Þá birtist allt í einu Gormur heldur betur óvænt fyrir utan gluggann hjá þeim en undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði hann átt að vera í góðu yfirlæti í garðinum hjá Sveppagreifanum. Á myndinni hér fyrir neðan má síðan sjá hvernig ramminn hefur verið endurskapaður upp á nýtt með fáeinum hefðbundnum LEGO kubbum.
Ekki getur SVEPPAGREIFINN svo sem tekið undir það að hér sé um einhverja algjöra snilld að ræða en tilgangur færslunnar snerist eiginlega meira um að uppfylla skyldu hans gagnvart hinu vikulega myndasögubloggi sínu. Og myndin hér fyrir neðan gerir það einnig. Reyndar á SVEPPAGREIFINN í mestu vandræðum með að átta sig á því úr hvaða bók þessi mynd kemur. Hún er ekki úr Hrakfallaferð til Feluborgar og við snögga yfirferð úr helstu líklegu Sval og Val bókunum gat hann ekki með nokkru móti fundið myndina. SVEPPAGREIFINN tengdi hana strax við verk Franquins en hún þarf þó ekki að koma úr hans smiðju. Eftir á að hyggja er Fournier líka möguleiki. Þessar pælingar eru þó auðvitað algjört aukaatriði. Alla vega átti hinn hugmyndaríki LEGO listamaður ekki í neinum erfiðleikum með að raða saman dótinu sínu fyrir mynd sambærilegri hinni fyrri.
Svona lítur það út og lesendur Hrakfara og heimskupara (ef þeir þraukuðu alla leið hingað) geta farið glaðir inn í Hvítasunnuhelgina, eftir þessa færslu, uppfullir þeirri vissu um að nú hafi þeir séð allt. Um leið geta þeir líka tekið ómakið af SVEPPAGREIFANUM við að reyna að finna út úr hvaða Sval og Val sögu þessi haustlega mynd á uppruna sinn.
Góðar stundir ...

31. maí 2019

113. BRANDARI UM HERRA SEÐLAN

SVEPPAGREIFINN er afskaplega latur í dag og ætlar því að þessu sinni að láta sér nægja stakan Viggó brandara sem birtist á forsíðu belgíska myndasögutímaritsins SPIROU (númer 1638), fyrir tæplega 40 árum, eða þann 4. september árið 1969. Þessi brandari hefur ekki birst áður í íslenskri útgáfu og SVEPPAGREIFINN tók sér því það bessaleyfi (af hverju í ósköpunum heitir það bessaleyfi?) að þýða hann og fylla upp í talblöðruna með tilheyrandi texta. Vonandi tekur rétthafi myndarinnar hér á landi það ekki óstinnt upp og kærir undirritaðan fyrir athæfið. En alla vega ... gleðilegan föstudag og ÁFRAM TOTTENHAM í úrslitum Meistaradeildarinnar á morgun!

24. maí 2019

112. HINN DANSKI PALLE HULD

Það þekkja allir unnendur teiknimyndasagnanna listamanninn Hergé, eða Georges Remi eins og hann hét reyndar, og verk hans um Tinna. Lífi Hergés hefur meðal annars verið gerð svolítil skil hér á Hrakförum og heimskupörum og ýmsu því er varðar sögu Tinna. En SVEPPAGREIFINN hefur þó ekki mikið fjallað um það á hvaða hátt persónan sjálf Tinni var sköpuð. Sumt um uppruna Tinna er reyndar frekar óljóst en þó er vitað að forveri hans skátinn Totor, sem var söguhetja sem Hergé hafði skapað skömmu áður, hefði að nokkru leyti verið fyrirmyndin að honum. Myndasaga um Totor birtist fyrst í skátablaðinu Le Boy-Scout Belge árið 1926 en þá var Hergé aðeins 19 ára gamall. Árið 1925 hafði hann fengið starf á áskriftardeild dagblaðsins Le Vingtième Siècle en í nóvember árið 1928 fékk hann það verkefni að halda utan um og stýra nýju aukablaði dagblaðsins, sem nefndist Le Petit Vingtième, auk þess að sinna allri þeirri mynda- og teiknivinnu sem því fylgdi. Le Petit Vingtième kom út vikulega og var ætlað börnum og unglingum en Hergé hóf strax að reyna að skapa einhverjar nýjar myndasöguseríur fyrir blaðið því honum varð fljótlega ljóst að skátinn Totor hentaði ekki fyrir verkefnið. Eftir nokkrar tilraunir með efni sem honum fannst ekki ganga datt hann niður á hugmynd um blaða- og ævintýramanninn Tintin (sem við þekkjum auðvitað sem Tinna) en hann var eins og áður segir að einhverju leyti byggður á fyrrnefndum Totor.
En Totor var líklega ekki alveg eina fyrirmyndin að Tinna. Paul Remi, bróðir Hergés sem var fimm árum yngri, er einnig talinn hafa að einhverju leyti verið innblástur hans að þessari nýju söguhetju. Og sömu sögu má líka segja um danskan dreng, Palle Huld, sem nú stendur til að fjalla aðeins um í færslu hér á Hrakförum og heimskupörum
Forsöguna að þessu öllu saman má rekja til samkeppni sem danska dagblaðið Politiken stóð fyrir seint í febrúar árið 1928 í tilefni af hundrað ára afmæli franska rithöfundarins Jules Verne sem allir kannast auðvitað við. Hann samdi til að mynda söguna Le Tour du monde en quatre-vingts jours (Umhverfis jörðina á 80 dögum) og Voyage au centre de la Terre (Leyndardómur Snæfellsjökuls) sem hinir sömu allir hafa auðvitað líka lesið. En titillinn að fyrrnefndu sögunni tengist einmitt þessari samkeppni Politiken. Hátt á fjórða hundrað ungra pilta tóku þátt í henni og að lokum var það hinn rauðhærði 15 ára gamli Palle Huld sem var valinn úr hópnum til að fara í heimsreisu sem taka skyldi ekki meira en 46 daga. Styrktaraðili tók það að sér að kosta ferðina fyrir blaðið og helstu skilyrðin fyrir þátttöku voru þau að viðkomandi skyldi vera hraustur, á aldrinum 15 - 17 ára, vera vel talandi á þýsku og ensku, hafa leyfi foreldra sinna til fararinnar og helst að vera skáti. Í dag vekur það helst athygli að samkeppni þessi var eingöngu ætluð piltum en í Danmörku árið 1928 þótti það ekki einu sinni umræðunar virði að bjóða stúlkum að vera með. Vinnufélagi Palle, sem augljóslega hafði mikla trú á honum, sýndi honum grein um samkeppnina í Politiken og hvatti hann til að taka þátt. Palle sýndi þessu strax mikinn áhuga enda uppfyllti hann öll þau skilyrði sem krafist var eftir að hafa fengið leyfi foreldra sinna. Þau veittu honum leyfið auðfúslega enda áttu þau ekki neina von á því að drengurinn félli svo vel að þeim skilyrðum sem Politiken setti. Seinna var það upplýst að móðir hans hefði vart getað sofið af áhyggjum yfir ferðalagi hins 15 ára gamla son hennar og læknar ávísuðu henni svefntöflur allan þan tíma sem hann var í burtu. Strax í byrjun duttu margir af drengjunum út en Palle fór nokkuð auðveldlega í gegnum fyrstu nálaraugun. Að endingu voru tveir drengir eftir, sem reyndar voru báðir skátar, og eftir skriflegt próf var að lokum dregið um hvor þeirra skyldi hreppa hnossið. Palle Huld hafði þar betur og mótherji hans Halfdan Børresen tók ósigrinum með mestu sæmd.
Samkeppnin var auðvitað í tilefni af afmæli Jules Verne en hugmyndin með þessari heimsreisu gekk út á það að kanna hversu miklu hraðar var hægt orðið að ferðast kringum jörðina heldur en þegar söguhetjan Phileas Fogg í bók Verne gerði það þegar Umhverfis jörðina á 80 dögum var samin árið 1872. En aðrar reglur ferðatilhögunarinnar voru einfaldar. Palle skyldi ferðast alveg einn og óstuddur, sem mest í anda þeirra aðstæðna sem í boði voru árið 1872 en samt með nánast hvaða farartækjum sem var. Hann mátti þó ekki ferðast með neinum flugvélum. Fyrirvarinn var mjög stuttur. Brottför var áætluð aðeins viku eftir að úrslit lágu fyrir og fimmtudaginn 1. mars 1928 skyldi lagt af stað frá Kaupmannahöfn. SVEPPAGREIFANUM finnst reyndar ákveðinn húmor í að á nákvæmlega sama tíma var amma hans að læra kjólsaum í Kaupmannahöfn en hins vegar verður aldrei hægt að komast að því hvort að hún hafi eitthvað orðið vör við þá athygli sem ferðalag Palle Huld fékk. En ferðalag Palle hófst á lestarstöðinni í Kaupmannahöfn snemma morguns þann 1. mars og nokkur fjöldi fólks fylgdi honum. Fyrsti áfangi ferðarinnar var með lest til Esbjerg á vesturströnd Jótlands þaðan sem hann fór með skipi yfir Norðursjó til Harwich í Bretlandi.
Þaðan var sett stefnan á Glasgow í Skotlandi þar sem tekið yrði gufuskip vestur yfir Atlandshafið til Kanada. En áður en til Skotlands var haldið var viðkoma í London á dagskránni og þangað var hann kominn strax næsta dag föstudaginn 2. mars. Það er því ljóst að samgöngur á þessum tíma hafa þá þegar verið orðnar nokkuð reglulegar og öruggar þó flugferðir hafi verið á bannlista heimsreisunnar. Ein af skyldum Palle, gagnvart þeim sem stóðu að ferðinni, var að senda dagblaðinu Politiken reglulegan póst um ferðalag sitt og fyrsta pistilinn sendi hann einmitt frá London. Það bréf tók reyndar fáeina daga að berast til Danmerkur og birtist því ekki fyrr en nokkrum dögum seinna á síðum Politiken.
En frá Glasgow var síðan stefnan tekin á St. Johns á austurströnd Kanada og þar lá leiðin með lest þvert í gegnum ýmist Kanada eða Norður Ameríku. Reyndar var hann næstum því búinn að klúðra allri ferðinni þarna útaf einhverju stelpuveseni en hann náði þó lest sem að lokum skilaði honum til Montréal og síðan stórslysalaust alla leið til Vancouver á vesturströndinni. Frá Vancouver var aftur tekið gufuskip alla leið yfir Kyrrahafið til Yokohama í Japan og svo þaðan til Tókýo. Þegar til Japans kom ríkti svolítil óvissa um framhaldið. Politiken hafði hvorki upplýst þátttakendur samkeppninnar né lesendur blaðsins um vandamál sem hugsanlega kynni að koma upp þar. Á hinu stríðshrjáða svæði Manchuria, sem í dag tilheyrir norðaustur hluta Kína, börðust Japanir og Sovétmenn um yfirráð en þar var vægast sagt eldfimt ástand. Þetta stríðsástand setti töluvert strik í reikninginn og nokkrar tafir urðu þar á ferðalagi Palle á meðan leitað var lausna. Forsvarsmenn Politiken gátu síðan aftur varpað öndinni léttar þegar örugg leið var fundin og Palle Huld slapp óskaddaður frá Manchuria. Frá Japan fór hann upp á Kóreuskagann og þaðan þvert yfir til Kína. Á ferðum sínum í gegnum Asíu naut Palle mikillar velvildar skátahreyfingarinnar þar um slóðir sem greiddu götu hans eins og unnt var. Frá Kína var ferðinni heitið til Sovétríkjanna og við tók langt ferðalag með Síberíu hraðlestinni til Moskvu. Þangað kom hann snemma að morgni og lenti í töluverðum vandræðum vegna þess að enginn kom til að taka á móti honum. Í örvæntingu sinni fór hann sjálfur að leita að dönsku ræðismannsskrifstofunni og ráfaði í óratíma um borgina með hestvagni. Að lokum rambaði hann inn á hótel þar sem starfsfólk þess gat hringt fyrir hann í ræðismannsskrifstofuna. Í rauninni var hann heppinn því að á þessum tíma gátu útlendingar auðveldlega verið handteknir í borginni fyrir það eitt að vera án fylgdar.
Frá Moskvu var ekki svo langt til Póllands sem var næsti áfangastaður og óneitanlega farið að styttast heim. Þaðan lá leiðin til Berlínar og þegar heim var komið, sunnudaginn 15. apríl, tóku um 20.000 ungmenni á móti honum á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn og hylltu hann sem hetju. Þá hafði ferðalag hans tekið nákvæmlega 44 daga, 13 klukkustundir og 53 mínútur en upphaflega takmarkið var auðvitað 46 dagar. Eftir 32.200 kílómetra langt ferðalag voru það þó síðustu 50 metrarnir sem urðu Palle hvað erfiðastir. Slíkur var mannfjöldinn á Ráðhústorginu að tvo stælta lögreglumenn þurfti til að bera hann síðustu metrana.
Þegar heim var komið fékk Palle litla hvíld. Hans beið fjöldi verkefna sem tengdust heimsreisunni og næstu vikur og mánuðir fóru einnig í ýmis ferðalög til uppfylla skyldur hans gagnvart styrktaraðilum sínum. Hann fór meðal annars að fara til Stokkhólms þar sem hann þurfti til dæmis að hitta yngstu meðlimi sænsku konungsfjölskyldunnar sem fylgst höfðu af áhuga með ferðalagi hans um heiminn. Þá þurfti Palle að fara aftur til Lundúna til að hitta forsvarsmenn Canadian Pacific en stóran hluta heimsreisunnar hafði hann ferðast með skipum og lestum fyrirtækisins. Og í þeirri sömu ferð var hann heiðraður í höfuðstöðvum breskra skáta þar sem hann hitti til að mynda hinn kunna stofnanda skátahreyfingarinnar - Sir Baden-Powell. Í kjölfarið fór hann einnig til Parísar þar sem hann hitti meðal annars sonarson Jules Verne og lagði blómakrans að gröf hins þekkta franska rithöfundar. Þegar um hægðist tók Palle sig til og safnaði saman dagbókalýsingum sínum úr ferðalaginu en úr þeim vann hann heildarfrásögn af þessari heimsreisu sem var skömmu síðar gefin út í frægri bók. Hún nefndist Jorden rundt i 44 Dage af Palle og var síðar þýdd á ellefu tungumálum en áðurnefnt barnabarn Jules Verne skrifaði formála bókarinnar. Bókin var endurútgefin í Danmörku í ágúst 2012 í tilefni hundrað ára afmælis Palle Huld.
Aðeins nokkrum mánuðum eftir heimkomu Palle Huld (og útgáfu bókar hans) birtist Tinni í fyrsta sinn á síðum blaðsins Le Petit Vingtième eða nánar tiltekið þann 10. janúar árið 1929. Sagan Tintin au pays des Soviets eða Tinni í Sovétríkjunum segir einmitt frá blaðamanninum Tinna sem ferðast um á svipaðan hátt og Palle Huld gerði. En eins og áður hefur verið vikið að telja margir Danann unga hafa að einhverju leyti hafa verið fyrirmyndina að Tinna. Kenningar um það komu fyrst fram árið 1988 en Hergé sjálfur lést árið 1983. Þegar þetta var borið undir Palle sjálfan sagðist hann ekki þekkja Tinna neitt og hefði í raun aldrei lesið myndasögur. Skiptar skoðanir eru reyndar um þetta efni. Ýmsir Tinna fræðingar hafa lýst yfir efasemdum sínum yfir þessum hugmyndum og aðilar nákomnir Hergé hafa sagt þetta af og frá. Þeir telja blaðamanninn og ljósmyndarann Robert Sexe hafa verið helstu fyrirmynd listamannsins að Tinna en sá mun hafa ferðast á mótorhjóli til Rússlands, Kongó og Bandaríkjanna. Tinni fór einmitt til þessara sömu landa í fyrst þremur sögunum og meira að segja í sömu röð. Ekki er vitað til þess að Hergé sjálfur hafi nefnt að Palle Huld hafi að einhverju leyti verið fyrirmynd hans. Forsvarsmenn heimasíðu Tinna í Belgíu hafa þó tekið undir að líkindin séu heilmikil. Ekkert hefur þó fundist í skjalasafni Hergé Studios sem styður þá kenningu.
Nokkuð líklegt er talið að Hergé hafi lesið bók Palle Huld, Jorden rundt i 44 Dage af Palle, en hún var meðal annars gefin út í Belgíu og Frakklandi strax árið 1928. En auk þess hefur verið staðfest að minnsta kosti ein grein um ferðalag Palle Huld hafi birst í Le Petit Vingtième á meðan ferð hans stóð. Og þá birtust einnig reglulega frásagnir af honum öðru hvoru í öðrum belgískum blöðum á sama tíma. Þó er ekki víst að Hergé hafi nokkurn tímann haft neina hugmynd um tilvist Palle Huld. Abbé Norbert Walles sem var yfirmaður Hergés á Le Petit Vingtième blaðinu gæti líka alveg hafa lesið um Palle Huld og hugsanlega hafa gaukað hugmyndinni, um nákvæmlega þessa persónu, að listamanninum án þess að nefna fyrirmynd hennar. Það er vitað að Walles átti stóran hlut að máli þegar kom að hugmyndum af efni í Le Petit Vingtième. Hann átti til dæmis hugmyndina að Tobba. Það er alla vega ljóst að heilmikil líkindi eru á milli þeirra Tinna og Palle Huld hvort sem það er tilviljun eða ekki. Þeir voru á svipuðum aldri, báðir rauðhærðir og klæðnaður þeirra er óneitanlega nokkuð sambærilegur. Hvernig ferðalag Tinna hófst með lestarferð, bæði í Tinna í Sovétríkjunum og Tinna í Kongó, er algjörlega á pari við hvernig ferðalag Palle Huld hófst. Svo ekki sé talað um hvernig það endaði, þar sem í báðum sögunum var þeim fagnað sem hetjum af mannfjöldanum í lok ferðar. 
Annars var Palle Huld nokkuð merkilegur maður. Hann vakti athygli seinna fyrir ýmis sambærileg verkefni en gerðist síðan leikari og varð nokkuð þekktur í Danmörku. Þó hann hafi leikið í yfir 40 sjónvarps- og bíómyndum, auk fjölda sjónvarpsþátta, veit SVEPPAGREIFINN samt ekki til þess að hann hafi nokkurn tímann séð mynd með honum. Hann lék til að mynda hlutverk bæði í sjónvarpsseríunni Matador og einni mynd með Olsen genginu sem margir kannast við. Þá var hann sögumaður í dönsku útgáfunni af Disney myndinni um fílinn Dumbó. Palle var fæddur þann 2. ágúst árið 1912 og lést þann 26. nóvember 2010, þá 98 ára að aldri.

17. maí 2019

111. FYLLT AÐEINS Í MYNDASÖGUHILLURNAR

SVEPPAGREIFINN brá sér aðeins til útlanda í byrjun maí mánaðar og naut almennrar slökunar og endurhleðslu hjá tengarmömmu sinni sem búsett er í Sviss. Vikufrí í fersku lofti sveitaþorps sem staðsett er í Júrafjallgarðinum gerði fjölskyldunni bara gott og samhliða því að hlaða batteríin, fyrir komandi verkefni, notaði SVEPPAGREIFINN auðvitað tækifærið og fyllti svolítið á myndasögutanka heimilisins. Það er reyndar yfirleitt aldrei svo að hann sé með einhverjar fyrirfram ákveðnar áætlanir um hvað kaupa skuli næst en þó eru oft einhverjar óskir hafðar á bak við bæði eyrun. Svona EF þær óskir skyldu liggja einhvers staðar á áberandi glámbekk. Og það varð einmitt raunin að þessu sinni. SVEPPAGREIFINN hafði stefnt að því (ef möguleiki yrði fyrir hendi) að reyna að nálgast bók númer tvö, L'apprenti méchant, úr nýju seríunni um Zorglúbb, ennfremur L'espoir malgré tout eftir Émile Bravo úr bókaflokknum um Sérstök ævintýri Svals ... og að síðustu þá einu bók sem hann vantar upp á úr upprunalegu seríunni um Sval og Val. Það er að sjálfsögðu sagan Les faiseurs de silence eftir þá Nic og Cauvin. Þessi markmið heppnuðust öll tiltölulega giftusamlega og af þeim sökum kom SVEPPAGREIFINN ekki bara sæmilega úthvíldur heim úr fríinu heldur líka hamingjusamlega fullnægður af myndasögufjárfestingum. Alls verslaði SVEPPAGREIFINN 10 myndasögur að þessu sinni en hann hefur reyndar oft verið atkvæðameiri.

En þetta frí var þó fyrst og fremst slökun í friðsælu fjallaþorpi þó ekki væri hjá því komist að kíkja aðeins í heimsókn til næstu borgar. Sú borg heitir Biel og hefur nokkrum sinnum reynst ágætlega til nauðsynlegra aðfanga í myndasöguhillurnar. Fyrstu tvær bækurnar voru einmitt gripnar úr myndasögudeild hinnar svissnesku stórverslunarkeðju Manor í Biel sem hefur einhvers konar samsvörun við Hagkaup okkar Íslendinga. Nema Manor er auðvitað margfalt stærri. Þarna var um að ræða tvær teiknimyndasögur úr seríunni um litla Lukku Láka eða Kid Lucky eins og þær heita á frummálinu. SVEPPAGREIFINN hefur svona lúmskt gaman af þessum bókaflokki þótt bækurnar séu í sjálfu sér ekki mjög merkilegar. En hann átti fyrir tvær (númer 2 og 4) af þeim fjórum bókum sem komið hafa út í seríunni og fannst því tilvalið að nota tækifærið til að bæta þar inn í sem upp á vantaði. Og í beinu framhaldi af því má einnig nefna að til eru tvær bækur í viðbót sem fjalla um bernskuár Lukku Láka en þær tilheyra reyndar upprunalegu seríunni um kappann. En þessar Kid Lucky bækur sem SVEPPAGREIFINN keypti eru á frönsku og heita L'apprenti cow-boy og Statue Squaw en þær eru því bækur númer 1 og 3. Bækurnar tvær fengust úr tilboðsrekka myndasögudeildarinnar og borgaði SVEPPAGREIFINN ekki nema 8 franka fyrir hvora bók sem gera um það bil 958 íslenskar krónur. Það telst frekar lítið fyrir myndasögur í Sviss.
Næst rak SVEPPAGREIFINN nefið inn í nokkuð góða bókabúð sem nefnist Lüthy og tilheyrir kunnri svissneskri bókabúðakeðju. Þessi verslun hefur oft áður reynst vel við myndasögukaup og það var einmitt í þessari búð sem bækurnar L'apprenti méchant úr seríunni um Zorglúbb og L'espoir malgré tout úr Sérstökum ævintýrum Svals, sem minnst var á hér í byrjun, fengust. SVEPPAGREIFINN hefur svolítið minnst á þessar seríur báðar og verið nokkuð hrifinn af. Bókaflokkurinn um Zorglúbb hóf göngu sína sumarið 2017 þegar sagan La Fille du Z kom út hjá Dupuis og hann var fljótur að verða sér úti um eintak af henni á sínum tíma en bók númer tvö var gefin út í september síðastliðnum. SVEPPAGREIFINN er frámunalega gamaldags og hreinskilnislega verslar hann ekki mikið af Netinu og gat því varla beðið eftir að nálgast bókina, ennþá volgri, beint úr búðarhillunni.
Um L'espoir malgré tout úr Sérstökum ævintýrum Svals... er það að segja að bókin er eftir listamanninn Émile Bravo sem SVEPPAGREIFINN er mjög hrifinn af og er mikill aðdáandi fyrstu sögu hans Le Journal d'un ingénu sem hann gerði fyrir bókaflokkinn og kom út árið 2007. Hér má aðeins lesa um hana. En L'espoir malgré tout, sem SVEPPAGREIFINN keypti reyndar á þýsku og heitir þá SPIROU oder: die Hoffnung Teil 1, er heilar 96 blaðsíður að lengd. Á næstu tveimur árum eru fyrirhugaðar þrjár framhaldsbækur í viðbót sem Bravo er víst löngu búinn að teikna en alls verða þetta vel á fjórða hundrað blaðsíður. Í fyrstu sögunni (Le Journal d'un ingénu) sagði frá því hvernig Svalur var kynntur til sögunnar í Brussel rétt áður en Síðari heimsstyrjöldin skall á, hvernig þeir Valur kynntust og að lokum hvernig sá síðarnefndi kom stríðinu í rauninni af stað. Í nýju bókinni L'espoir malgré tout er Heimsstyrjöldin hins vegar hafin, Belgía er hernumin af Þjóðverjum og Valur skráir sig í herinn. Í fyrstu sögunni hafði Émile Bravo ekki farið leynt með aðdáun sínum á Hergé og Tinna bókunum en minna fer fyrir því í nýju bókinni þó enn megi alveg sjá nokkur slík dæmi. SVEPPAGREIFINN mælir eindregið með þessum sögum (og reyndar seríunni allri) og bendir áhugasömum lesendum á að bækurnar hafa verið gefnar út á dönsku ef einhver gæti hugsað sér að notfæra sér það. Næsta bók er væntanleg í september.
Í seinna skiptið af borgarferðunum tveimur til Biel brá fjölskyldan sér eitt augnablik inn í blaða- og tímaritssjoppu á lestarstöðinni til að kaupa ís handa dótturinni - nánar tiltekið OREO ís. Þarna greip SVEPPAGREIFINN með sér tvær Lukku Láka bækur á þýsku. Hér var annars vegar á ferðinni nýjasta sagan úr bókaflokknum, Ein Cowboy in Paris (Un cow-boy à Paris), eftir þá Achdé og Jul en þetta er 80. bókin úr upprunalegu röðinni (sú 97. úr þýsku röðinni) og kom út í nóvember 2018. Þessi saga hefur fengið nokkuð jákvæðar viðtökur og var til dæmis ein af mest seldu teiknimyndasögunum í Belgíu árið 2018. Hin Lukku Láka bókin sem gripin var á lestarstöðinni kemur úr hinni rómuðu hliðarseríu um kúrekann knáa og nefnist Lucky Luke sattelt um og er alveg glæný - kom út núna í byrjun maí. Sú bók er eftir þýska teiknarann Mawil og hann samdi einnig handritið að sögunni en Mawil þessi er fyrsti Þjóðverjinn sem verður þess heiðurs aðnjótandi að fá að teikna Lukku Láka. Myndasagan er því sú allra nýjasta úr hliðarbókaflokknum um Lukku Láka en alls eru nú komnar út þrjár sögur úr þeirri seríu. Næstu bókakaupamarkmið SVEPPAGREIFANS snúast væntanlega að hluta til um að muna eftir að nálgast fyrstu tvær sögurnar. Fyrsta bókin í þessari seríu, L'Homme qui tua Lucky Luke sem er eftir franska listamanninn Matthieu Bonhomme, kom út árið 2016 en saga númer tvö nefnist Jolly Jumper ne répond plus. Hún er eftir Guillaume Bouzard sem einnig er Frakki og kom út árið 2017. Allar þessar bækur úr hliðaseríunni eru, líkt og í Sérstökum ævintýrum Svals ..., í óhefðbundnum teiknistíl sem gera  sögurnar vissulega óvenjulegar. Fyrstu tvær bækurnar hafa unnið til fjölda verðlauna og í það minnsta er þarna hægt að sjá Lukku Láka í algjörlega nýju ljósi.
Síðustu nóttina dvaldi SVEPPAGREIFINN með fjölskyldunni sinni í Basel og þar er venjan að reyna að kíkja við í myndasögubúðinni COMIX SHOP í þau skipti sem kostur er. Fyrst var þó tekinn hefðbundinn rúntur um miðbæinn og þar var einnig kíkt bæði á ís og venjulegar bókabúðir. Í einni þeirra rakst SVEPPAGREIFINN á myndasöguna Spirou in Berlin en um tilurð þessarar bókar hafði hann ekki haft hugmynd um enda er sagan tiltölulega nýkomin út hjá Carlsen útgáfunni. Spirou in Berlin er eftir þýskan listamann (Felix Görmann) sem kallar sig Flix og líkt og með fyrstu þýsku Lukku Láka bókina, sem minnst var á hér að ofan, er Spirou in Berlin einnig fyrsta Sval og Val bókin sem Þjóðverji teiknar. Sagan er einhvers konar þýskt hliðarverkefni (með fullu samþykki og eftirliti Dupuis) og hefur ekki verið gefin út á frönsku en er væntanleg þannig árið 2021. Bókin segir frá því er þeir Svalur og Valur halda til Austur Þýskalands, rétt fyrir fall Berlínarmúrsins, árið 1989 þar sem Sveppagreifanum (hinum upprunalega) hefur verið rænt af þarlendum yfirvöldum en einnig koma bæði Stasi og Sammi frændi við sögu. SVEPPAGREIFINN er aðeins búinn að fletta í gegnum bókina og lýst bara nokkuð vel á en í hvert sinn sem hann blaðar í gegnum nýlegar sögur um Sval og Val (og hliðarseríuna um Sérstök ævintýri Svals ...) veltir hann því fyrir sér hvernig hún hefði litið út ef Franquin hefði teiknað hana. En Spirou in Berlin virðist vera mjög áhugaverð.
Í COMIX SHOP verslaði SVEPPAGREIFINN sér hins vegar þrjár teiknimyndasögur í viðbót og þar náði hann loksins því markmiði sínu að loka hringnum og eignast síðustu Sval og Val bókina. 32. bókin Les faiseurs de silence frá árinu 1984, eftir þá Nic og Cauvin, eða öllu heldur þýska útgáfan af henni, Der Lärmschlucker, er því loksins komin í hús. Og þar með eru allar 55 Sval og Val bækurnar komnar í myndasöguhillur heimilisins. Ef allar bækur SVEPPAGREIFANS um þá félaga, þar með taldar líka hliðarserían og á öllum tungumálum, eru taldar með þá eru þær líklega orðnar nálægt 90 talsins í bókahillunum. En þessi saga, Les faiseurs de silence, er þó í raun nauðaómerkileg og er eflaust talin af einhverjum sú allra lélegasta í seríunni en hún telur þó jafnmikið og hinar.
Tvær aðrar bækur í viðbót bættust í safnið úr COMIX SHOP og þær koma báðar úr hliðarseríunni um Sval og Val og eru á þýsku. Þarna var um að ræða fyrstu söguna úr bókaflokknum Die steinernen Riesen (Les Géants pétrifiés - 2006) eftir þá Yoann og Vehlmann og Fantasio heiratet (Fantasio se marie - 2016) sem er númer níu í hliðarseríunni og er eftir Belgann Benoit Feroumont. Nú vantar SVEPPAGREIFANN aðeins þrjár af bókunum úr seríunni en alls eru þær nú orðnar fjórtán talsins. Til gamans má geta þess að listamaðurinn Yoann (Yoann Chivard), sem er höfundur Sval og Val bókanna í dag ásamt Fabien Vehlmann, hafði verið í COMIX SHOP helgina á undan SVEPPAGREIFANUM við að árita hitt og þetta fyrir viðskiptavini verslunarinnar. 
SVEPPAGREIFINN kíkti reyndar einnig á stóran flóamarkað sem starfræktur er nálægt miðbæ Basel á hverjum laugardegi og hann hefur komið nokkuð reglulega við á undanförnum árum. Þar fann hann reyndar ekkert bitastætt að þessu sinni en þessi markaður hefur nokkrum sinnum reynst honum vel áður við grúsk og grams.