15. júní 2018

63. Í TILEFNI HM - AÐEINS MEIRA UM VIGGÓ

Færsla dagsins er í styttri kantinum en aðra vikuna í röð er hún tileinkuð þátttöku íslenska landsliðsins á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem hófst í gær. Fyrsti leikur Íslands á mótinu fer einmitt fram á morgun þegar sjálfir Argentínumenn, með Lionel Messi í broddi fylkingar, mæta til leiks í Moskvu. Og líkt og í síðustu viku leitast SVEPPAGREIFINN við að finna fótboltatengda myndasögubrandara í bókunum um Viggó viðutan. En SVEPPAGREIFINN var sem sagt, einu sinni sem oftar, að fletta í gegnum bókina Viggó hinn óviðjafnanlegi (Le Géant de la gaffe - 1972) og fann þar einn af þessum bröndurum Franquins á blaðsíðu 41. Einn myndarammi brandarans bauð hreinlega upp á að verða birtur hér en á honum hoppar knattspyrnuáhugamaðurinn Viggó hæð sína í loft upp, með viðeigandi öskrum, eftir að mark hafði verið skorað í leik sem hann var að hlusta á. Í talblöðrunni í upprunalegu útgáfunni öskrar Viggó reyndar að Gulli hafi skorað en í ljósi þeirra séríslensku aðstæðna, sem þjóðin er að njóta um þessar mundir, sá SVEPPAGREIFINN sér ekki annað fært en að breyta nafni Gulla í Gylfa! Vonandi fyrirgefur bókaútgáfan Iðunn það.
Viggó hinn óviðjafnanlegi var einmitt gefin út hjá Iðunni árið 1978 í þýðingu Jóns Gunnarssonar og á þeim árum var enginn Gulli að gera einhverjar rósir í íslenskum fótbolta, hvorki með landsliðinu né félagsliðunum. Þetta Gulla-nafn er því væntanlega skáldskapur alveg frá grunni en gæti líka hugsanlega hafa verið einhver vinur eða ættingi þýðandans sem hann hefur viljað stríða eða heiðra. Í dag hefði Jón alveg pottþétt sett nafn Gylfa í brandarann.

En afgangur færslunnar er heill brandari úr bókinni Viggó á ferð og flugi (Un Gaffeur Sachant Gaffer - 1969), sem Iðunn gaf út á árinu 1982, þar sem þeir Viggó og Snjólfur sinna áhugamálum sínum á lymskulegan hátt í vinnutímanum. ÁFRAM ÍSLAND!

8. júní 2018

62. Í TILEFNI HM - MARKVÖRÐURINN VIGGÓ

Það er hvorki meira né minna en HM sumar framundan. Og það sem meira er, veislan er bara rétt handan við hornið og hefst núna eftir aðeins tæplega viku. Fimmtudaginn 14. júní hefjast nefnilega fyrstu leikirnir (og vonandi enda þeir líka!) en á laugardaginn þann 16. er komið að einni stærstu stund íslenskrar íþróttasögu þegar landslið Íslands í fótbolta spilar sinn fyrsta leik á lokakeppni HM sem að þessu sinni fer fram í Rússlandi. Það eitt að komast á HM er virkilega RISASTÓRT. Liðið spilaði síðasta æfingaleikinn fyrir HM í gærkvöldi og leggja svo af stað til Rússlands á morgun. Algjör veisla yfirvofandi með leikjum gegn Argentínu, Króatíu og Nígeríu en draumurinn væri að þetta yrðu bara fyrstu þrír leikir Íslands á mótinu. Og af því að SVEPPAGREIFINN, sem er fullur tilhlökkunar eins og væntanlega 99% þjóðarinnnar, er bæði mikill áhugamaður um bæði myndasögur og fótbolta ætlar hann í tilefni tímamótanna að láta myndasögufærslur næstu vikna snúast um þessa frábæru íþrótt.
Og þetta er ekki flókið. Þó ekki sé reyndar um mjög auðugan garð að gresja um fótboltatengdar myndasögur þá var belgíski listamaðurinn og snillingurinn André Franquin einna duglegastur við það, í bókunum með Viggó viðutan, af þeim seríum sem voru að koma út á íslensku. Það verður því Viggó viðutan sem heldur uppi heiðri íslenska landsliðsins að þessu sinni með nokkuð eftirtektarverðu framlagi sínu til knattspyrnuíþróttarinnar.
Reyndar hefur SVEPPAGREIFINN aðeins komið inn á fótboltatengda teiknimyndasögu áður en þá fjallaði hann lítillega um eina staka uppáhaldsmynd úr bókinni Viggó hinn óviðjafnanlegi og um það má lesa hér. En byrjum á að kíkja á brandara um fótbolta á blaðsíðu 28 í bókinni Hrakförum og heimskupörum (Gaffes Bevues et Bou Lettes) sem kom út hjá bókaútgáfunni Iðunni árið 1979. Hann kom upphaflega fram í tímariti SPIROU númer 1802 þann 26. október árið 1972 og telst vera Viggó brandari númer 740.
Þó það komi hvergi nákvæmlega fram má geta sér til um að þarna sé á ferðinni einhvers konar áhugamanna- eða bumbuboltalið sem að miklum hluta er skipað starfsmönnum tímaritsins SVALS. Sjálfsagt þekkja einhverjir lesendur til sambærilegra fótboltaliða hér á landi sem hafa verið að leika sér í neðstu deild Íslandsmótsins eða Utandeildinni og að hafa lent í vandræðum vegna manneklu. Þannig hefst brandarinn á ritstjórnarskrifstofunni þegar markvarðarforföll liðsins uppgötvast og samstarfsfélagarnir eru að vandræðast með hvernig leysi eigi vandamálið. Viggó er strax nefndur sem eini kosturinn og þeir Eyjólfur og Snjólfur fara ekki leynt með skoðanir sínar eða áhyggjur af hæfileikaskorti hans í markinu. Fyrirfram virðist liðstyrkur Viggós í markinu afar takmarkaður og ákvörðun félaganna um markvarðavalið er því augljóslega ekki af faglegum toga!
Til gamans má kannski geta að SVEPPAGREIFINN minnist þess að hafa einmitt tilheyrt sambærilegu fótboltaliði (það hét Stjörnulið Ingvars) í kringum aldamótin síðustu en það lið var einmitt að dunda sér í Utandeildarkeppninni snemma á laugardagsmorgnum. Einhverju sinni var liðið vængbrotið eftir djamm kvöldsins á undan og tilfinnanlegur leikmannaskortur gerði það að verkum að aðeins voru 8 liðsmenn Stjörnuliðsins mættir þegar dómarinn flautaði til leiks. Á meðan andstæðingarnir voru önnum kafnir við raða inn mörkum, hjá fáliðaðri vörn Stjörnuliðsins í upphafi leiks, þá voru tveir eða þrír leikmanna liðsins með farsíma sína við að hringja inn mannskap til að reyna fullmanna liðið. Og það var auðvitað á sama tíma og þeir voru á fullu við að reyna að verjast miklu fjölmennari andstæðingunum inni á vellinum. En þetta var útúrdúr.

Þessi brandari með Viggó er hins vegar frábær eins og Franquin er von og vísa. Fyrir leikinn reyna kvíðafullir liðsfélagar Viggós að gefa honum honum góð ráð en í rauninni reynir aldrei almennilega á markmannshæfileika Viggós á vellinum. Eftir að leikurinn er byrjaður hefur hann sjálfur mestar áhyggjur af því að verða of kalt. Þá kemur sér vel að hafa tekið með sér svolítinn nestisbita. Og einu mistökin sem hann gerir inni á vellinum tengjast því eiginlega eldamennskunni!
Hugmyndin um markvörð sem hefur með sér þrjár kókflöskur í poka og þorsk í ananas til að hita á prímus við hliðina á markinu er eiginlega of fyndin til að láta sér detta það í hug. Líklega hefði enginn annar en snillingurinn Franquin getað fengið slíka hugmynd og hvað þá að geta komið henni svona listilega vel á framfæri á myndasöguforminu. Og brandarinn er engan veginn fyrirsjáanlegur. Þessar frábæru teikningar gera það líka að verkum að það er tiltölulega auðvelt að setja sig í spor Viggós og upplifa kringumstæðurnar. Hann stendur í markinu, er hrollkalt og líklega er alveg hægt að setja sig í þau spor hans að langa í eitthvað heitt og gott til að ná úr sér hrollinum. Þó að upphitaður þorskur í ananas væri reyndar ekki alveg það fyrsta sem kæmi upp í hugann. SVEPPAGREIFINN hefði til dæmis alveg látið sér nægja kaffibolla og ristað brauð með osti. Aðstæðurnar minna á vorleiki á gamla Melavellinum sáluga með grindverkinu í kring og fáeinir áhorfendur sjást hnappast þar saman í skjóli fyrir aftan markið hans. SVEPPAGREIFINN man þó ekki að hafa heyrt á það minnst að einhver hafi reynt að fela markið í reyk á Melavellinum í gamla daga. En það er alla vega hægt að fullyrða að Viggó hafi þarna farið hamförum í markinu.

Og ef við kíkjum á annan fótboltatengdan brandara, er Viggó aftur mættur í markið hjá knattspyrnuliði vinnufélaganna á ritstjórnarskrifstofunni. Þessi Viggó brandari er númer 789 og birtist fyrst í SPIROU blaði númer 1863 sem gefið var út þann 27. desember árið 1973 en kom út í íslenskri þýðingu í bókinni Viggó hinn ósigrandi (Le gang des gaffeurs) árið 1979. Að þessu sinni fer litlum sögum af áhyggjum liðsfélaganna vegna meintra takmarka Viggós inn á milli stanganna en þeim mun meira eru þeir að velta sér upp úr vallaraðstæðunum sem virðast ekki upp á marga fiska.
Óhætt er að segja að aðstæður til knattspyrnuiðkana séu af afskaplega skornum skammti á vellinum að þessu sinni og hæðnislegar athugasemdir Viggós séu því fyllilega verðskuldaðar. Augljóslega er búið að rigna vel dagana á undan og pollurinn í markteignum fyrir framan mark Viggós kæmi líklega að betri notum við fiskeldi. Og þótt félagar hans reyni að beina athygli hans að leiknum með góðum ráðum þá er augljóslega erfitt að einbeita sér að því að spila fótbolta þegar vallaraðstæður eru slíkar.
Enn fær hugmyndaflug Franquins að njóta sín. Og það er ekki bara að gerast með þessum ótrúlega fyndnu teikningum sem draga fram mjög framandi kringumstæður við ómögulegar aðstæður. Heldur eru það þessi litlu smáatriði í teikningum listamannsins sem SVEPPAGREIFINN er svo hrifinn af. Við þekkjum hreyfingarnar og svipbrigðin hjá persónunum en það eru líka litlu aukahlutirnir sem fylla upp í myndina sem einkenna svo stíl Franquins. Rennblautur völlurinn bíður að sjálfsögðu upp á hið augljósa, þ.e. froska og endur!
Það eru til fleiri fótboltatengdir Viggó brandarar en Franquin teiknaði einnig fullt af stökum myndum/bröndurum sem voru að birtast á víð og dreif í SPIROU tímaritinu á þessum árum. Eins og við höfum séð gegndi Viggó iðulega hlutverki markvarðar í þessu liði vinnufélaganna og það er einkennandi hversu oft veður eða veðurtengdar aðstæður hafa haft áhrif á afrek hans á knattspyrnuvellinum. Veðrið hefur þó ekki endilega alltaf áhrif á völlinn sjálfan í bröndurunum þó oft verði aðstæðurnar augljóslega erfiðar. Hér fyrir neðan má sjá tvær stakar myndir úr SPIROU blaði númer 1808 sem kom út þann 7. desember árið 1972. Á fyrri myndinni má sjá hvernig vindurinn sér um að grípa húfu Viggós og beinir um leið athygli hans, í hita augnabliksins, eilítið frá mikilvægari málefnum. Reyndar verður að viðurkennast að tilþrif Viggós, við að skutla sér á eftir húfuræflinum, eru í hæsta gæðaflokki og í fullu samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til bestu markvarða heimsins. 
En þar með eru kostir augnabliksins upptaldir. Lipurlegar hreyfingar Viggós eru nefnilega ekki í neinu samræmi við þá atburðarás sem er í gangi í nágrenni marksins. Þessi mynd hefur ekki birtst í bók um Viggó sem komið hefur út í íslenskri þýðingu.

Og ef við skoðum hina myndina er það enn veðrið sem er að hafa áhrif. Hér rignir heldur betur á viðstadda og að sjálfsögðu hefur Viggó orðið sér úti um regnhlíf til að verjast verstu atlögunum. Undir flestum eðlilegum kringumstæðum myndi hún þó líklega teljast fremur óvenjulegur og óhefðbundinn markmannsbúnaður. Varúðarráðstafanir hans með regnhlífina eru þó fyrst og fremst hugsaðar sem fyrirbyggjandi, því eins og hinn Viggó hugsar með sér, "... Ef ég kvefast, hver á þá að verja markið fyrir þá?" Þarna er nokkuð athyglisverður punktur á ferðinni hjá Viggó. Hann spyr, hver eigi að verja markið fyrir þá. Sem bendir til þessa að hann líti fyrst og fremst á liðið sem lið félaga sinna. Að hann sé ekki hluti af því sjálfur og sé þarna eingöngu til redda þeim í markvarðahallærinu. Fyrirliðinn Eyjólfur er þó lítið að velta fyrir sér þann möguleika að Viggó gæti kvefast en hefur einhverra hluta vegna meiri áhyggjur af meintu áhugaleysi og athyglisbrest hans og öskrar hástöfum varnaðaröskur.

Og það virðist alveg sama hversu mikið rignir - Eyjólfur er alltaf með gleraugun.

1. júní 2018

61. GEORGE RE-MI

SVEPPAGREIFINN er alltaf jafn forvitinn en það gerir það auðvitað að verkum að hann er alltaf öðru hvoru að grúska í spjallsíðum alvöru myndasögunörda. Og þar kennir ýmissa grasa. Tinnafræðingarnir eru ansi margir og fróðleikurinn sem veltur upp úr mörgum þeirra getur verið býsna áhugaverður og skemmtilegur á köflum.

Allir þeir sem áhuga hafa á Tinna bókunum þekkja söguna um Vandræði Vaílu Veinólínó. Í grófum dráttum er söguþráðurinn á þá leið, að Kolbeinn kafteinn snýr sig illa um ökklann rétt um það leyti sem Næturgalinn frá Mílanó, Vaíla Veinólínó, kemur í heimsókn að Myllusetri ásamt fríðu föruneyti sínu. Meiðsli kafteinsins gera það að verkum að þeir Tinni geta ekki flúið af vettvangi og stungið af til að forðast yfirgang Vaílu. Kolbeinn situr því uppi með gesti sína, algjörlega þvert gegn vilja sínum. Á meðan á heimsókn Vaílu og fylgifiska hennar stendur þarf píanóleikari hennar Ívar Eltiskinn að æfa sig löngum stundum á flygilinn sem Vaíla hefur látið flytja tímabundið að Myllusetrinu. Og á þeim stundum sem Ívar er að æfa sig geta lesendur bókarinnar fylgst með hljómum píanósins með þar til gerðum nótum efst á hverri mynd.
En alla vega á nokkrum stöðum í bókinni Vandræði Vaílu Veinólínó (á blaðsíðum 43 til 44 og 50 til 53) er hægt að sjá þessar nótur Ívars. Megin tilgangurinn er auðvitað sá að sýna lesendum hvernig píanóleikarinn þarf að eyða mörgum tímum á dag við misáhugaverðar fingraæfingar á nótnaborðinu en það er ekki auðvelt að túlka tónlist á annan hátt í teiknimyndasögu. Þannig liggur auðvitað beinast við að sýna bara nóturnar til skýringar. En þessar nótur hafa reyndar mun meiri merkingu en hægt var að sjá fyrirfram í fljótu bragði. Einn af sérfræðingum teiknimyndasagnanna hefur bent á skemmtilegan og leyndan orðaleik sem höfundur Tinna bókanna, Hergé, virðist hafa laumað inn í söguna. Kannski er rétt að minna lesendur fyrst á hið rétta nafn Hergés en hann hét í rauninni Georges Remi. Listamannsnafnið Hergé stóð sem sagt fyrir fangamarki hans RG sem borið er fram á franska vísu sem Hergé.
Þessi áðurnefndi Tinna fræðingar hefur bent á að svo virðist sem Hergé hafi laumað ættarnafni sínu, Remi, inn í nóturnar við fingraæfingarnar á afskaplega lúmskan hátt sem Re-Mi. Það er svo sem ekki flókið. Ívar spilar einfaldlega tónstigann við æfingarnar og auðvitað kemur Re Mi þar við sögu.
Snjallt eða kannski bara tilviljun og sennilega einnig svolítið langsótt en líklegt er að fæstir unnendur Tinna bókanna séu að velta sér upp úr því að fara að lesa nótur í teiknimyndasögu. Flestir sjá þetta bara sem aðferð höfundarins við að túlka tónlist á myndrænan hátt.
Þetta sést á þó nokkuð mörgum myndum í Vandráðum Vaílu Veinólínó en hér eru bara fáein dæmi...
En í það minnsta má alla vega hafa gaman að hugmyndinni.

25. maí 2018

60. HINN GREINDARSKERTI RATTATTI

Þessi örstutta færsla dagsins er tileinkuð hundinum Rattatta sem margir kannast líklega við. En fyrir þá sem ekki eru jafn kunnugir má benda á hinar ágætu bækur um Lukku Láka annars vegar og hins vegar 20 bóka seríu um hundinn Rantanplan. Þær síðarnefndu hafa reyndar ekki enn komið út á íslensku. Hundurinn Rattatti er að öllum líkindum ekki skarpasti ferfætlingur teiknimyndasagnanna og hreinskilnislega er heimsku hans eiginlega engum takmörkum sett. En af djúpri virðingu fyrir þessari einstöku skepnu birtir SVEPPAGREIFINN hér ansi kómíska mynd, sem hann fann á veraldarvefnum víðfema, og lýsir vitsmunaskorti heimskasta hundsins í westrinu nokkuð vel.
SVEPPAGREIFINN mun pottþétt fjalla betur um Rattatta við tækifæri. Góðar stundir ...

18. maí 2018

59. SAMMI OG KOBBI

SVEPPAGREIFINN hefur að undanförnu verið að draga aðeins fram gamla félaga úr myndasöguhillunum sínum og er nú dottinn í Samma bækurnar en það eru sögur sem SVEPPAGREIFINN hefur alltaf haft svolítið gaman að. Það fer yfirleitt ekki mikið fyrir þessum bókum og þær vilja oft gleymast svolítið þegar teiknimyndasögur, sem komið hafa út á íslensku, eru taldar upp. Þarna er hins vegar ágætis efni á ferðinni og líklega þær myndasögur, ásamt Fláráði stórvezír og Ástríki, sem komast hvað næst bókunum um Viggó viðutan í húmor. Þarna er farsakenndur léttleiki ávallt í fyrirrúmi og SVEPPAGREIFANUM er jafnvel kunnugt um aðila sem hreinlega dýrka þessar bækur. En félagarnir Sammi og Kobbi komu fyrst fyrir sjónir Íslendinga fyrir jólin árið 1981 þegar tvær bækur, Harðjaxlar í hættuför og Svall í landhelgi komu út, í þýðingu Jóns Gunnarssonar, hjá bókaútgáfunni Iðunni. Ári seinna kom svo út þriðja bókin, Frost á Fróni og sú fjórða, Aldraðir æringjar kom út fyrir jólin 1983.
Einhverra hluta vegna varð nú svolítið hlé á útgáfu myndasagnanna um þá félaga og næsta bók kom ekki út fyrr en um mitt sumar árið 1986. Sú bók nefndist Í bófahasar og eftir það fóru sögurnar að koma út nokkuð reglulega. Alls voru því gefnar út ellefu bækur á íslensku með Samma á árunum 1981-91 en þær eru eftirfarandi:
 1. Harðjaxlar í hættuför - 1981 (12. L'Élixir de jeunesse - 1979)
 2. Svall í landhelgi - 1981 (2. Rhum row - 1973)
 3. Frost á Fróni - 1982 (13. Le Grand Frisson - 1980)
 4. Aldraðir æringjar - 1983 (1. Bons vieux pour les gorilles - 1973)
 5. Í bófahasar - 1986 (17. Les Bébés flingueurs - 1983)
 6. Allt í pati í Páfagarði - 1986 (18. Panique au Vatican - 1984)
 7. Fólskubrögð í fyrirrúmi - 1987 (19. En piste, les Gorilles ! - 1985)
 8. Mamma mætt í slaginn - 1988 (20. Ma Attaway - 1986)
 9. Fröken Krútt fer á kreik - 1989 (21. Miss Kay - 1986)
 10. Heimsókn að handan - 1991 (22. L’Homme qui venait de l’au-delà - 1987)
 11. Prímadonnan - 1991 (23. La Diva - 1987)
Eins og svo oft með útgáfu teiknimyndasagna á Íslandi kom bækurnar ekki út í sömu röð og á frummálinu. Þannig gæti hugsanlega verið eitthvað ósamræmi tímalega séð á milli bókanna í íslensku útgáfunni en þrátt fyrir að þær séu framhaldssögur eru þær þó þess eðlis að enn hefur það ekki haft áhrif. Fyrstu tvær sögurnar í upprunalegu útgáfuröðinni hafa til dæmis báðar komið út á íslensku en voru þó bækur númer 4 og 2 hjá okkur. Þeir Jón Gunnarsson og Bjarni Fr. Karlsson sáu, á sínum tíma, um að snara þessum myndasögum yfir á íslensku en það einkennilega við þessar ellefu bækur er að stærð þeirra eru í fjórum mismunandi brotum. Algjör óþarfi og í raun virkilega hvimleitt fyrir smámunasama myndasögunörda sem vilja láta bækurnar líta vel út í hillunum.
Bækurnar um Samma eru nú alls orðnar 40 talsins en sú síðasta kom út árið 2009 og verða að öllum líkindum ekki fleiri. Eins og hjá svo mörgum teiknimyndaseríum hófu fyrstu sögurnar göngu sína í belgíska teiknimyndatímaritinu SPIROU og náðu þar töluverðum vinsældum. Sammi birtist þar fyrst í páskablaði ársins 1970, sem var tölublað númer 1667 hjá SPIROU, og kom út þann 26. mars það ár. Fyrsta sagan þar nefndist La Samba des gorilles en eitthvað af elstu sögunum um Samma, sem birtust í SPIROU tímaritinu, munu aldrei hafa komið út í bókaformi. Í byrjun voru sögurnar fyrst og fremst hugsaðar sem tilraunarefni í SPIROU og heldur var Sammi nú ungur og óharðnaður á þeim tíma.
Aðalsöguhetjan heitir Sammi eða Sammy Day á frummálinu en Kobbi nefnist Jack Attaway. Í íslensku þýðingunum hefur fullt nafn Samma (Samúels?) aldrei komið fram en Kobbi heitir hins vegar Jakob Snardal sem er hreint alveg öndvegis nafn. Sá síðarnefndi er stjórnandi lítillar lífvarða- eða einkaspæjaraþjónustu, J. S. Górillur, sem þeir báðir þó virðast reka og Sammi er því í rauninni aðeins aukapersóna þó bókaserían sé skrifuð utan um hann. Kobbi virðist alltaf vera meira í aðalhlutverkinu en hann er heldur skapstór og hvatvís og er oft ansi fljótur að stökkva til ef einhver von er um gróða. Sammi er hins vegar heldur rólegri í tíðinni og eilítið skynsamari en viðvörunarbjöllur hans klingja þó sjaldan nógu hátt til að koma í veg fyrir fljótfærni Kobba. Heldur eru þeir félagar blankir löngum stundum enda er verkefnastaða þjónustunnar ákaflega bágborin á köflum. Serían gengur því mest út á það að Sammi og Kobbi neyðast til að taka að sér nánast hvaða ómerkilega vitleysis verkefni sem er fyrir nokkur hundruð dollara, lenda í vandræðum með að klára þau og fá síðan ekki borgað fyrir.
Á einhvers konar bakvöktum hjá lífvarðaþjónustu þessari starfa einnig nokkrir félagar þeirra sem hægt er að hóa í á ögurstundum. Undantekningarlaust halda bakvaktafélagarnir til á sömu billjarðstofunni þegar aðstoðar þeirra er þörf. 
Bækurnar um Samma og félaga hafa þá sérstöðu að gerast á 3. og 4. áratug síðustu aldar í Chicago í Bandaríkjunum en reyndar teygja verkefni þeirra félaga sig einnig til annarra landa og jafnvel alla leið til Evrópu. Þetta ameríska sögusvið er frekar óvenjulegt fyrir myndasögur af belgísk/frönskum uppruna en þó má minna á að Lukku Láka bækurnar gerast að sjálfsögðu einnig fyrir vestan haf. Verkefni þeirra Samma og Kobba, sem einkaspæjarar hjá lífvarðaþjónustunni, eru af ýmsum toga en oftast tengjast þau þó heimahögum aðalpersónanna í Chicago. Stórbófinn Al Capone og lögregluforinginn Elliot Ness koma við sögu í bókaflokknum en draugar og afturgöngur eru einnig hluti af þeim öflum sem Sammi og félagar þurfa að berjast við. Þá koma einhverjir bófanna fyrir aftur og aftur og það sama má segja um útsetjara annarra ríkja sem berjast við þá félaga í verkefnum er varða þjóðaröryggi.
Sögurnar eru flestar eftir þá félaga Cauvin og Berck eða Raoul Cauvin og Arthur Berckmans eins og þeir heita nú fullum nöfnum. Handritshöfundinn hinn belgíska Cauvin þekkja eflaust margir en hann samdi meðal annars þrjá sögur úr bókaflokknum um Sval og Val en þær bækur hafa þó ekki enn verið gefnar út hér á landi. Þær myndasögur vann hann að í samstarfi við teiknarann Nicolas Broca en flestir þekkja þá auðvitað sem tvíeykið Nic og Cauvin. Þessar þrjár Sval og Val bækur þykja reyndar ekki vel heppnaðar. En þekktastur er Cauvin líklega fyrir handritsgerð að mjög vinsælum teiknimyndasögumLes Tuniques Bleues, sem hafa reyndar ekki verið gefnar út hér á landi en margir kannast vel við. Cauvin samdi handritin að öllum sögunum um Samma en listamaðurinn Arthur Berckmans teiknaði fyrstu 32 sögurnar í seríunni. Árið 1994 lét hann þó af störfum og Jean-Paul van den Broeck (þekktur sem Jean-Paul) tók við og teiknaði síðustu 8 sögurnar.