19. júlí 2019

120. ÆVINTÝRI TINNA Á TUNGLINU - FYRSTI HLUTI

Framundan er merkisdagur í geimferðasögu jarðabúa því að á morgun, laugardaginn 20. júlí, eru að sögn liðin 50 ár síðan maðurinn steig fyrst fæti á tunglið. Þennan dag árið 1969 lenti nefnilega bandaríska geimfarið Apollo 11 (alls óskylt lakkrísnum góðkunna) á suðurströnd Kyrrðarhafsins á tunglinu. Og þá mælti geimfarinn og Íslandsvinurinn nafntogaði Neil Armstrong hin fleygu orð um stóra skrefið og mannkynið og allt það. Þennan stórmerkilega viðburð muna sjálfsagt einhver okkar eftir en er flestum okkar hinna vel kunnugt úr mannkynssögubókunum. En þess má líka einnig geta að aðeins örfáum dögum síðar gerðist annar atburður sem þótti reyndar ekki alveg jafn mikil ástæða til að færa í annála. Í vikunni á eftir fæddist nefnilega SVEPPAGREIFINN fjölmörgum eflaust til mikillar armæðu. En það er víst allt, allt önnur saga.
Næstu þrjú árin á eftir stigu Bandaríkjamenn nokkrum sinnum í viðbót fótum sínum á tunglið og alls hafa nú 12 manns rölt þar um en þangað hefur þó enginn komið síðan þann 11. desember árið 1972. Bandaríska geimvísindastofnunin NASA hefur þó tilkynnt að stefnan sé nú sett á að senda mannað geimfar til tunglsins fyrir árið 2024. Það er nú ekkert svo langt þangað til. En hvað hina meintu tunglheimsókn Bandaríkjamannanna árið 1969 varðar þá vitum við myndasöguunnendur betur. Neil Armstrong var auðvitað ekkert fyrstur til að stíga á þennan upplýsta grjótklump sem kallaður er tunglið. Það var að sjálfsögðu teiknimyndahetjan Tinni sem það gerði en sá atburður er tímasettur rúmlega 16 árum áður. Nánar tiltekið þegar tölublað belgíska myndasögutímaritsins Le Journal de Tintin (eða Tinna tímaritið) kom út miðvikudaginn 25. mars árið 1953. Eða ... mannkynsagan hljómar alla vega miklu skemmtilegri þannig. En sagan um Eldflaugastöðina (Objectif Lune) hóf göngu sína í tímaritinu þann 30. mars árið 1950. Þegar fyrstu blaðsíðurnar úr sögunni birtust í blaðinu var fátt sem benti til þess að framundan væru 134ra blaðsíðna risaævintýri úti í geimnum. Tinni hafði fram að því varla einu sinni litið til himins. Þann 7. september sama ár lauk í raun fyrri hluta sögunnar og Hergé tók sér hlé frá störfum í eitt og hálft ár vegna þunglyndis sem hann glímdi lengi við. Hann fór meðal annars til Sviss í nokkrar vikur og á meðan undruðust lesendur blaðsins yfir því að sagan héldi ekki áfram. Bréfum rigndi yfir tímaritið og orðrómur um að Hergé væri látinn fór jafnvel á kreik. Þann 9. apríl árið 1952 hóf síðan seinni hluti sögunnar göngu sína og þessari risasögu lauk þann 31. desember sama ár. Eldflaugastöðin var síðan gefin út í bókaformi árið 1953 en seinni hlutinn, Í myrkum mánafjöllum (On a marché sur la Lune), kom út árið 1954. Þá voru blaðsíðurnar reyndar komnar niður í 124. Það er svo sem engin ástæða til þess að rifja upp söguþráð þessara bóka. Við þessi sem lifðum og hrærðumst í teiknimyndasögunum á unga aldri (og líklega mörg ennþá) kunnum þær utan að spjaldanna á milli.
Við Íslendingar fengum þó ekki að njóta þessarar bókatvennu fyrr en á árunum 1972 og 73 þegar Fjölvi gaf bækurnar tvær loksins út á íslensku. Á þeim tíma voru svona geimsögur eiginlega löngu orðnar úreltar enda þá þegar búið að lenda nokkrum sinnum á tunglinu. Þ.e.a.s. í hinum svokölluðu raunheimum. Geimferðir höfðu verið mörgum hugleiknar á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og skemmst er að minnast allra þeirra vísindaskáldsagna, bíómynda (mörgum ansi frumstæðra) og ekki síst myndasagna sem komu fram á þessum árum. Stórveldin í austri og vestri hófu sitt kapphlaup um geiminn og alls kyns ævintýri um geimferðir komust í tísku í dægur- og afþreyingarheiminum. Hergé, höfundur Tinna bókanna, tók fullan þátt í þessu geimferðabrölti með Tinna sögum sínum um tunglferðina og líklega má fullyrða það að bækurnar tvær sé sá skáldskapur sem skyldi hvað mest eftir sig af áðurnefndum vísindaskáldskapaafurðum. Alla vega hvað vinsældir varða. Í það minnsta er enn verið að selja og endurútgefa þessar bækur í dag næstum því 70 árum eftir að þær komu fyrst út. Og svo eru margir á þeirri skoðun að bækurnar um ævintýri Tinna á tunglinu séu í raun hápunktur seríunnar um Tinna. Fljótlega eftir að Armstrong steig sínum fræga fæti í fyrsta sinn á yfirborð tunglsins teiknaði Hergé skemmtilega mynd til heiðurs geimfaranum og sendi honum vestur yfir hafið. Þar sést hvar þeir Tinni og félagar hans, Tobbi, Kolbeinn og Vandráður prófessor, koma röltandi í áttina að geimfarinu Apollo 11 til að bjóða Bandaríkjamennina velkomna í heimsókn. Það væri reyndar athyglisvert að fá að vita hvar prófessor Vandráður hefur fengið þennan rósavönd sem hann heldur á og veifar.
Af myndinni af dæma mætti því ætla að Tinni og félagar hafi dvalið á tunglinu frá árinu 1953 en ekki komið heim aftur eins og bókin Í myrkum mánafjöllum endaði. En til gamans má geta að stuttu eftir að Armstrong steig fyrstur á tunglið bað hið vikulega tímarit, Paris-Match, Hergé um að teikna fyrir sig stutta myndasögu um þetta fræga ferðalag Bandaríkjamannanna. Þetta var í tilefni af næstu tunglferð (Apollo 12) og birtist fyrst í svart/hvítu formi í tölublaðinu sem kom út þann 29. nóvember 1969. Löngu seinna var þessi fjögurra síðna teiknimyndasaga síðan lituð og birtist þannig í bókinni Ils Ont Marché Sur La Lune – de la Fiction à la Réalité sem gefin var út af Casterman útgáfunni árið 1985. Hér má sjá brot úr þessari myndasögu Hergé eins og hún birtist í bókinni.
Annars er sagan um tunglferð Tinna og félaga harla merkileg eða öllu heldur sú vinna sem höfundurinn Hergé lagði í við undirbúning hennar. Það starf hófst nokkrum árum áður, eða árið 1946, um það leyti sem Tinna tímaritið var að byrja að koma fyrst út og Hergé var að vinna að Föngunum í Sólhofinu. Þá þegar hafði verið lagður grunnur að risasögu um Tinna sem gerast skyldi úti í geimnum. Það ævintýri átti að hefjast í Bandaríkjunum en sagan sem við þekkjum í dag er byggð að einhverju leyti á drögum af þessum fyrstu hugmyndum. Í þeirri sögu stóð meðal annars til að stjörnufræðingurinn prófessor Viðutan, sem við munum eftir úr Dularfullu stjörnunni, yrði stór póstur og gegndi veigamiklu hlutverki. Þegar síðan loksins var byrjað á sögunni (seinni útgáfunni) árið 1950 hafði prófessor Vandráður tekið við keflinu af prófessor Viðutan enda miklu áhugaverðari og skemmtilegri sögupersóna. Aðeins tvær svart/hvítar blaðsíður af drögum eldri sögunnar höfðu verið fullbúnar þegar verkefnið var lagt til hliðar.
Þegar Hergé lagði af stað aftur með tunglverkefnið kynnti hann sér vel alla þá hugmyndavinnu og kenningar sem þegar voru til staðar um geimferðir og lagði ríka áherslu á að allar staðreyndir væru sem réttastar. Þeir aðilar sem voru að dunda sér við að semja vísindaskáldskap á þessum árum, sem tengdust geimferðum, voru nefnilega oft ekkert að ómaka sig neitt sérstaklega við það. Það var gæfuspor fyrir verkefnið að á svipuðum tíma og það hófst var Hergé að stofna Hergé studios, sem varð mikil lyftistöng fyrir Tinna bækurnar varðandi gæði, auk þess sem samstarf hans með Bob De Moor hófst. De Moor varð síðan einn af hans nánustu samstarfsmönnum við vinnuna að bókunum. Hergé aflaði sér töluverðra heimilda um þá tækni sem nauðsynleg var til að allt væri sem eðlilegast og naut einnig ráðgjafar hjá sérfræðingum sem höfðu til þess þekkingu. Til að setja þetta í samhengi verður að geta þess að árið 1950 voru enn sjö ár þangað til fyrstu lifandi verunni var skotið út í geiminn (reyndar gegn vilja sínum) en það var að sjálfsögðu hin hundættaða, rússneska hetja Laika. Allar hugmyndir um geimferðir á þessum tíma voru því í raun aðeins vísindaskáldskapur. Dr. Bernard Heuvelmans nefndist einn af þeim vísindamönnum sem veitti Hergé sérfræðiráðgjöf en sá sem var honum einna hjálplegastur við þessa vinnu var, hinn franski, prófessor Alexandre Ananoff. Sá hafði árið 1950 sent frá sér víðfræga bók sem nefndist L'Astronautique og fjallaði um hugsanlega framtíðarmöguleika á mönnuðum ferðalögum út í geiminn. Hergé sendi prófessor Ananoff bréf og var reglulega í sambandi við hann á meðan á vinnslu bókanna stóð og naut leiðsagnar hans. Og til gamans má nefna það að framan á forsíðu Le Journal de Tintin þann 11. maí 1950 birtist augnablik úr Eldflaugastöðinni prófessor Ananoff til heiðurs. Það er þegar þeir Tinni og Kolbeinn mæta til kjarnorkuveranna í Sbrodj og starfsmaður stöðvarinnar er að gera minnistæðar höggprófanir á gegnsæjum hjálmi prófessors Vandráðs. Á borði í forgrunni myndarinnar má sjá hvar Hergé hefur, í virðingar- og þakklætisskyni, staðsett bók Ananoffs. En reyndar skal það tekið fram L'Astronautique mátti aðeins sjá á þessari einu mynd og var hvorki að finna í tímaritsútgáfunni sjálfri né endanlegu lokaútfærslunni á bókarforminu.
Þessi vinna öll og ráðgjöf nýttist Hergé ekki einungis til að gera nauðsynlegar og vandaðar teikningar af geimflauginni, sem notuð er í sögunum, heldur smíðaði hann einnig tiltölulega nákvæmt líkan af henni. Hergé tók meira að segja líkanið með til Parísar í heimsókn til prófessor Ananoff en leiðbeiningar hans voru sérstaklega gagnlegur við hönnun stjórnklefans í flauginni. Eldflaugin var mjög ólík geimfarinu sem lenti á tunglinu árið 1969 en var þó furðu nákvæmt. Það var miklu stærra en Apollo 11 enda gert fyrir fjóra áhafnarmeðlimi (og hund) en reyndar voru þeir á seinni stigum sögunnar skyndilega orðnir sjö! Seinni tíma sérfræðingar, sem skoðað hafa teikningar og líkan Hergés, hafa jafnvel gefið það út að sterkar líkur séu á að hægt hefði verið að skjóta eldflauginni út í geiminn ef hún hefði verið smíðuð. Það telst því mikið afrek hjá myndasöguhöfundi, sem ekki er beint fagmaður í geimvísindum, að geta hannað slíkt farartæki.
Menn eru enn þann dag í dag að velta fyrir sér hönnun geimflaugar Hergés og það hafa meira að segja verið gerðar prófanir (af áhugamönnum) við að skjóta minni útgáfum af samskonar farartæki upp í loftið. Í bókinni Eldflaugastöðinni má finna fræga teikningu af þessu fallega loftfari á blaðsíðu 35. Á þeirri teikningu koma reyndar ekki fram mjög nákvæmar upplýsingar sem nýta mætti til smíðar á flauginni en hún sýnir samt vel innra skipulag eldflaugarinnar og staðsetningu rýma. Á teikningunni eru til dæmis engar málsetningar til að vinna eftir eða til að átta sig vel á stærðarhlutföllum en gróflega mætti ætla að hæð eldflaugarinnar gæti verið um eða yfir 45 metrar og þvermál hennar (á efri hlutanum) væri því hugsanlega um 5 metrar. Tilfinninguna fyrir stærðinni á síðarnefndu tölunni má alveg styðja með myndum úr dvalarklefa flaugarinnar. Þannig að þetta hefur verið virkilega risavaxin eldflaug. En hér fyrir neðan má sjá hvar nokkrir áhugamenn um ævintýri Tinna á tunglinu hafa smíðað lítið módel af eldflauginni (þó ekki sé hún reyndar kjarnorkuknúin) og lesa má aðeins meira um á þessari vefsíðu hérna.
En það var ekki bara eldflaugin sjálf sem vakið hefur athygli og aðdáun seinni tíma sérfræðinga og áhugamanna. Geimbúningarnir sem Tinni og félagar klæðast þykja virkilega vel heppnaðir hjá Hergé en hafa verður í huga að þegar sagan var teiknuð, upp úr 1950, voru í raun engar eiginlegar fyrirmyndir til af slíkum göllum. Það var ekki fyrr en í apríl árið 1961 sem fyrstu mönnuðu geimferðirnar urðu að veruleika en þá birtust myndir af hinum sovéska Yuri Gagarin í geimbúningi eftir að hann hafði tekið einn hring í kringum Jörðina. Fram að þeim tíma höfðu vísindaskáldsagnahöfundar, handritshöfundar kvikmynda og myndasöguteiknarar birt hinar ýmsu útgáfur eða hugmyndir af því hvernig þeir teldu að slíkur búnaður ætti að líta út. Útfærslur Hergés á geimhjálmunum, sem voru gegnsæjir allan hringinn, voru þó að einhverju leyti stolnar. En hugmyndin var þó ekki alveg út í bláinn. Hann vildi að lesandinn hefði þann möguleika að geta séð öll svipbrigði og tjáningu söguhetjanna án þess að eitthvað skyggði á. Sú útfærsla Hergés var því ekki mistök en raunverulegir geimhjálmar eru hins vegar skyggðir með sérstökum filterum eða síum til að verja geimfara fyrir sterkum sólargeislum. Og þó hin rússneska Laika hafi verið fyrsta lifandi veran sem jarðarbúar sendu út í geiminn þá var líklega aldrei gert ráð fyrir hundar klæddust geimgalla sambærilegum þeim sem mennirnir notuðu - nema auðvitað í Tinna bókunum.
Vegna þess hve efni þessa pistils, um tunglævintýri Tinna, óx svo mikið í höndum SVEPPAGREIFANS tók hann þá ákvörðun að skipta færslunni í þrennt og mun birta seinni hluta hennar tvo, hér á Hrakförum og heimskupörum, á næstu tveimur vikum.

12. júlí 2019

119. VALUR Á 19. ALDAR MÁLVERKI

Fyrir ekki svo löngu síðan fjallaði SVEPPAGREIFINN eilítið um hina frábæru hliðarseríu Série Le Spirou de… eða Sérstök ævintýri Svals ... eins og hún myndi líklega kallast á íslensku. Þriðja saga bókaflokksins nefnist Les Marais du temps og er eftir franska listamanninn Frank Le Gall sem bæði samdi handrit hennar og teiknaði en færsla dagsins segir aðeins frá efni sem kemur fyrir í þeirri bók. Í stuttu máli segir Les Marais du temps segir frá því er þeir Svalur, Valur og Sveppagreifinn takast á við ferðalag aftur í tímann til að bjarga Zorglúbb sem lagst hefur á flakk í tímavél sinni og er fastur í París árið 1865. Eins og gerist og gengur í ævintýrum um Sval og Val lenda þeir félagar í ýmsum svaðilförum sem ekki var svo sem ætlunin að tíunda neitt um hér að þessu sinni.
En á tímaflakki er freistandi að nýta sér ýmsa möguleika sem alla jafna er ekki auðvelt að upplifa dags daglega í nútímanum og þá sérstaklega ef maður þekkir mannkynsöguna sæmilega. Þetta reynir Valur að notfæra sér þegar hann fær tækifæri til að láta franska listmálarann Édouard Manet mála mynd af sér. SVEPPAGREIFINN hefur nú grun um að líklega myndu fleiri reyna að nýta sér sambærilega möguleika ef þeir ættu kost á því. Reyndar endaði þessi tilraun Vals á svipaðan hátt og við munum eftir úr Back to the future myndunum. Þar þurrkuðust út öll merki um þær breytingar sem söguhetjurnar reyndu að ná í gegn og í ljós kom að ekki var hægt að breyta fortíðinni. Það sama gerðist í bókinni Les Marais du temps. Striginn sem Valur kom með heim úr tímaferðalaginu var því auður líkt og það hefði aldrei verið málað á hann. Málverkið sem Manet málaði af Val kemur því í raun aldrei fyrir í sögunni Les Marais du temps sjálfri. Hann ferðast um með myndina stóran hluta bókarinnar innpakkað í umbúðir og það er ekki fyrr en alveg í lok sögunnar sem hann tekur utan af málverkinu og hinn auði strigi kemur í ljós.
En listmálarinn Édouard Manet var einn af frumkvöðlum impressjónismans þó hann hafi reyndar alltaf forðast að láta kenna sig við það form. Hann þótti nokkuð umdeildur en var að lokum skilgreindur í listasögunni einhvers staðar mitt á milli raunsæis- og impressjónisma. Þekktustu verk Manets eru líklega Olympia (Ólympía) og Le Déjeuner sur l'herbe (Morgunverður í guðsgrænni náttúrunni) bæði frá árinu 1863. Ekkert af þessu segir SVEPPAGREIFANUM neitt en honum fannst þó nauðsynlegt að deila þessum upplýsingum til að virðast eilítið gáfulegri. Þeir draumar dóu reyndar alveg við setninguna hér á undan. Það eina sem SVEPPAGREIFINN þekkti raunverulega fyrirfram til hins franska Manets var nafnið hans. En þó listaverkið sjálft sæist aldrei í sögunni sjálfri þá má sjá aftast í bókinni Les Marais du temps mynd af hinu meinta málverki Manets af Val. Við vitum það þá alla vega núna að svona hefði Valur litið út á málverki eftir Manet.

5. júlí 2019

118. MÖGULEGA VERSTA MYNDASAGA SVEPPAGREIFANS

SVEPPAGREIFINN var að glugga í sögu úr bókaflokknum um Hin fjögur fræknu á dögunum og sú bók er hugsanlega, að hans mati, versta teiknimyndasaga sem komið hefur út á íslensku. Það verður víst að taka það fram að SVEPPAGREIFINN er enginn sérstakur aðdáandi þessa bókaflokks og hefur reyndar verið nokkuð duglegur að koma þeirri skoðun sinni á framfæri hér á síðunni. Um það má eitthvað lesa bæði hér og svo hér. Alls voru gefnar út 43 bækur í þessari seríu með Hinum fjórum fræknum og þar af komu fyrstu 26 bækurnar út hér á landi þó ekki hafi þær reyndar verið í réttri röð til að byrja með. SVEPPAGREIFINN safnar þessum sögum, eins og öllum myndasögum sem komu út á íslensku á sínum tíma, og á nú orðið 23 af þessum 26 bókum. Smán saman hafa bækurnar úr seríunni verið að tínast inn í myndasöguhillurnar hans og þessar þrjár sem upp á vantar munu klárlega koma þegar góð og ódýr eintök af þeim finnast. Hann hefur alla vega ekki verið neitt að missa sig neitt tilfinnanlega yfir þeim bókaskorti. En þó sögurnar úr þessum bókaflokki séu að stórum hluta til í myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS er ekki þar með sagt að hann hafi lesið þær allar. Á æskuheimili hans voru nokkuð margar af þessum sögum til (þá erum við líklega að tala um 15-16 bækur) og þær voru allar auðvitað lesnar á sínum tíma. En löngu seinna fór hann að fylla upp í þær eyður sem upp á hafði vantað og ekki höfðu verið til á heimili hans í bernsku. Flestar af þeim bókum sem bæst hafa við hefur SVEPPAGREIFINN í rauninni aldrei lesið. Og þá kemur einmitt til sögunnar þessi saga sem hann minntist á hér alveg í byrjun. Hann hafði gripið bókina af einhverri rælni úr myndasöguhillunum og farið að fletta henni og þá varð eiginlega ekki hjá því komist að fórna eins og einni færslu í þessa teiknimyndasögu.
Myndasaga þessi nefnist Hin fjögur fræknu og geimskutlan (Les 4 as et la navette spatiale - 1989) og kom út hjá bókaútgáfunni Iðunni árið 1990 í þýðingu Bjarna Friðriks Karlssonar. Þetta var síðasta sagan í seríunni sem kom út á íslensku og SVEPPAGREIFINN þakkar alveg kærlega fyrir það. Bókin segir frá ... uuhh... segir frá því er Hin fjögur fræknu fá boð, í tengslum við aukna útbreiðslu myndasagnanna þeirra, um heimsókn á ráðstefnu teiknimyndasöguhetja sem haldin er í Kanada! Sá hluti söguþráðsins (Ha? Er söguþráður?) er reyndar með öllu tilgangslaus og virðist hafa það eina hlutverk að staðfesta minnimáttarkennd höfundanna, þeirra Francois Craenhals, Jacques Debruyne og Georges Chaulet, gagnvart öðrum myndasöguhöfundum. Tinna, Sval, Lukku Láka, Viggó, Ástrík og mörgum fleirum sem við könnumst vel við bregður fyrir í bókinni en einnig má þar sjá aðrar kunnar teiknimyndapersónur sem við hér uppi á Íslandi þekkjum kannski ekki alveg jafn mikið. Hallærisheitin voru því orðin vel yfirþyrmandi strax á blaðsíðu 7 og vanmáttur SVEPPAGREIFANS gagnvart aulahrollinum sem greip hann var algjör.
En í Kanada, þar sem Hin fjögur fræknu eru stödd, lendir óvænt á sama tíma biluð rússnesk geimskutla í grennd við dvalarstað þeirra. Þar um borð eru rússneskir tvífarar hinna fjögurra, ekki ósvipuðum Hinum fjórum frökku sem komu við sögu í bókinni Hin fjögur fræknu og gullæðið. Sá hópur reynir með öllum tiltækum ráðum hvað hann getur til að laga geimskutluna og halda för sinni áfram. Og út á þann punkt gengur söguþráðurinn ... örugglega. En auk þess fléttast inn í söguna skotglaður, þrautþjálfaður útsendari á vegum CIA, að nafni Marbó (sem ku vera einhvers konar afskræming af Rambó), Napóleón keisari og félagar hans úr bókinni Hin fjögur fræknu og loftfarið og auðvitað þeir Loftur og Lárus. En síðastnefndu sögupersónurnar eru álíka leiðinlegar og hundurinn Óskar. Allt þetta hrærist saman í einhvern óskiljanlegan graut sem SVEPPAGREIFINN skilur hvorki upp né niður í. Reyndar er viðveru Hinna fjögurra fræknu í sögunni nokkuð ábótavant á löngum köflum sem undir flestum kringumstæðum hefði gert söguna skárri en svo er þó ekki að þessu sinni. Söguþráðurinn hjá handritshöfundinum Georges Chaulet er alveg frámunalega ruglingslegur og teikningarnar hjá þeim Craenhals og Debruyne hafa líklega aldrei verið verri.
Atburðarásin minnir óneitanlega á þær myndasögur sem SVEPPAGREIFINN, ásamt félögum sínum, var sjálfur að myndast við að reyna að böggla saman sem barn. Það er kannski bara kominn tími á að grafa upp og fórna eins og einni færslu í þau bernskubrek. Þær teiknimyndasögur voru ekki bara (vægt til orða tekið) illa teiknaðar heldur voru þær einnig á einhvern óskiljanlegan hátt svo stefnulausar að lesandinn vissi aldrei hvort sagan var að byrja eða enda! Einmitt þá tilfinningu (auk töluverðu magni af vandræðahrolli) fékk SVEPPAGREIFINN þegar hann var að reyna að bögglast í gegnum Hin fjögur fræknu og geimskutlan. Hin 40 ára bernskubrek SVEPPAGREIFANS geta varla verið mikið verri en þessi ósköp.
En eins og áður segir var þetta síðasta sagan um Hin fjögur fræknu sem gefin var út hér á landi og einhvern veginn hefur maður grun um að þýðandinn, Bjarni Fr. Karlsson, hafi verið dauðfeginn að vera laus undan þeirri kvöð að þurfa að snara fleirum af þessum bókum yfir á íslensku. Það má alla vega reikna með að þær 17 bækur sem upp á vantar og ekki komu út á Íslandi hafi ekki verið í mikið hærri gæðaflokki. Stundum hefur verið talað um að einungis fyrstu 10 bækurnar í seríunni séu þokkalegar en Les 4 as et la navette spatiale er númer 26 í bókaflokknum. En reyndar gerir Bjarni eina meinlega villu við vinnu sína í bókinni. Á blaðsíðu 8 er vísað í atburðarásir úr eldri bókum um Hin fjögur fræknu og bent á fjögur mismunandi atvik með myndum því til stuðnings. Á einni þeirra má sjá hvar Búffi er að traðka á ljóshærðum unglingi og atvikið sagt vera úr bókinni um Hin fjögur fræknu og gullæðið. En hið rétta er að þetta er úr Hin fjögur fræknu og gullbikarinn.
Það er svolítið kaldhæðnilegt að þessi ómerkilega villa þýðandans skuli hafa verið það eina sem SVEPPAGREIFANUM þótti markvert úr allri bókinni.

28. júní 2019

117. DÁLEIÐANDI KOLBEINN KAFTEINN

Kolbeinn kafteinn á sviðið í dag. SVEPPAGREIFINN er latur og því er færsla þessa föstudags jafn tilgangslaus eins og hún er yfirþyrmandi. Og svo er hún líklega ekki fyrir flogaveika!

21. júní 2019

116. NOKKRIR EFTIRMINNILEGIR ÚR VAGNALESTINNI

Af þeim teiknimyndasögum SVEPPAGREIFANS sem leynast í myndasöguhillum heimilisins má finna margar bækur sem flokkast geta undir hans uppáhalds. Þar koma heilu seríurnar reyndar sterkar til greina og helstar má þar auðvitað nefna bækurnar um Sval og Val, Viggó viðutan og Tinna. Og svo má ekki gleyma myndasögunum um Lukku Láka. Þær sögur skipa ákveðinn sess í huga SVEPPAGREIFANS enda má þar finna margar gæðabækur og þá sérstaklega þær sem þeir félagarnir Morris og Goscinny unnu að í sameiningu. Alls gerðu þeir saman hvorki meira né minna en 36 bækur frá árinu 1957 þegar Þverálfujárnbrautin (Des rails sur la Prairie) kom út og til ársins 1977 þegar þeir sendu söguna Söngvírinn (Le fil qui chante) frá sér. Af þessari upptalningu má ráða hversu gríðarlega afkastamiklir þeir Morris og Goscinny hafa verið á sínum tíma en hápunktur seríunnar er klárlega stór hluti þessa 20 ára tímabils. Samstarfi þeirra var sjálfhætt þegar handritshöfundurinn René Goscinny lést sviplega langt fyrir aldur fram í nóvembermánuði árið 1977 en óhætt er að segja að teiknarinn Morris (Maurice de Bevere) hafi verið faðir seríunnar. Lukku Láka bækurnar voru klárlega hans ævistarf og alls teiknaði hann fyrstu 72 bækurnar í opinberlega bókaflokknum eða allt þar til hann lést í júlí árið 2001.
SVEPPAGREIFINN á margar uppáhaldsbækur úr þessum bókaflokki og skemmst er að minnast á færslu sem hann skrifaði, ekki alls fyrir löngu, um Lukku Láka bókina Grænjaxlinn (Le Pied-tendre - 1968) og lesa má um hér. Þar kemur breski aðalsmaðurinn Baldur Badmington og þjónn hans Jósep nokkuð við sögu en ástæðu eftirlætis SVEPPAGREIFANS á þeirri sögu má klárlega rekja beint til þeirra félaga. Í þeirri sögu má augljóslega sjá hæfileika Goscinny til að skapa eftirminnilega aukapersónur og þessar aukapersónur er einmitt talinn einn af helstu styrkum seríunnar. Lukku Láki sjálfur var auðvitað aðalpersónan en þeir Léttfeti, Rattati og Daltón bræður léku einnig nokkuð stór hlutverk í þessum bókum. Og þar fyrir utan má líka nefna nokkra einhvers konar millipósta eins og til dæmis Billa barnunga og Svölu Sjönu úr samnefndum sögum. En auk þeirra Baldurs og Jóseps úr Grænjaxlinum má nefna fleiri skemmtilegar aukapersónur úr öðrum bókum. Og af þeim sögum sem gefnar voru út á íslensku koma til dæmis upp í huga SVEPPAGREIFANS hinn treggáfaði Slubbi Slen úr Allt í sóma í Oklahóma (Ruée sur l'Oklahoma - 1960), Toggi Tól úr Söngvírnum (Le Fil qui chante - 1977) og Bárður Mullumbull úr Leikför um landið (Western Circus - 1970). Og svo er ekki hjá því komist að nefna aðeins minni spámenn úr bókinni Vagnalestin (La caravane - 1964) en um þá langar SVEPPAGREIFANN aðeins að fjalla í færslu dagsins.
En sagan um Vagnalestina hóf göngu sína í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU þann 1. nóvember árið 1962 þegar fyrstu tvær blaðsíðurnar birtust í tölublaði númer 1281. Þessi myndasaga kom síðan út í bókaformi hjá útgáfufyrirtækinu Dupuis árið 1964 en íslenska útgáfan af sögunni var gefin út hjá bókaútgáfunni Iðunni árið 1980 í þýðingu Þorsteins Thorarensen. Í stuttu máli segir sagan frá því að Lukku Láki er fenginn til að stýra vagnalest landnema mikla hættuför vestur yfir til Kaliforníu. Á meðal ferðalanganna leynist ókunnur, hættulegur aðili sem reynir hvað hann getur til að koma í veg fyrir að þær fyrirætlanir takist og Lukku Láki á því fullt í fangi með að koma vagnalestinni á leiðarenda. En hópur landnemanna samanstendur af mörgum nokkuð eftirminnilegum en þó ólíkum persónum og það er hluti þeirra sem SVEPPAGREIFANN langar aðeins að rýna í og skoða í færslu dagsins. Í heildina eru ferðalangar vagnalestarinnar nokkuð margir en þó kemur aðeins nokkur hluti þeirra fyrir í sögunni. Fáeinir þeirra hafa yfir ákveðnu hlutverki að gegna á ferðalaginu sjálfu en aðrir eru bara venjulegir farþegar og láta frekar á sér bera af öðrum ástæðum. Þessar aukapersónur gegna margar svo stóru hlutverki í Vagnalestinni að töluvert minna fer til dæmis fyrir Léttfeta í þessari sögu en mörgum öðrum í bókaflokknum.
Fyrstur á blaði er franski hár- og bartskerinn Mussju Pérr en í frumútgáfu bókarinnar heitir hann M. Pierre eða bara Mister Pierre. Mussju er ekki bara hárskeri af gamla skólanum heldur líka Frakki af gamla skólanum og háttvís eftir því. Hann bregður fyrir sig frönskum frösum af ýmsu tagi í hverri einustu setningu og lesendum bókarinnar til fróðleiks eru þeir þýddar fyrir neðan. Þær þýðingar eru reyndar í frjálslegri kantinum eins og Þorsteini þýðanda var nokkuð tamt. Hinn franski skeggmeistari sinnir landnemum vagnalestarinnar eftir þörfum en einnig er hann duglegur við að veita hestum sínum þá bestu þjónustu sem völ er á. Þeir eru ekki einungis vel stroknir og kembdir heldur eru þeir bæði með slaufur í töglum sínum og sprautaðir í bak og fyrir með bestu hugsanlegum vinnukonuvötnum frá París. Þá auglýsir Mussju Pérr þjónustuna á vagni sínum með þeim jafnréttismiðuðum skilaboðum að hann sé bæði herra og dömurakari.
En auk hefðbundinna rakarastarfa telst Mussju Pérr einnig vera læknir vagnalestarinnar og hans helstu verkefni á þeim vettvangi snúast um að sinna smáslysum sem landnemarnir verða fyrir á leiðinni. Þau slys virðast oftar en ekki tengjast veðmálum einstaka ferðalangs við Skralla Skrölt en einnig má nefna tilfelli um samskipti eins landnemans við kökukefli betri helmings síns.
Mussju Pérr á sinn þátt í að bjarga vagnalestinni frá bráðum bana þegar landnemarnir reyna að læðast í gegnum yfirráðasvæði Síuxa indjánanna. Auðvitað verða indjánarnir þeirra varir og eftir að vagnalestin hefur slegið skjaldborg utan um værukæra Síuxana er komið að hefðbundnum samningaviðræðum um höfuðleðrin. Þar kemur Mussju Pérr við sögu en hann samþykkir ráðleggingar Láka um að fórna öllum hárkollulager sínum til indjánanna. Í huga Síuxanna er hárskerinn franski því mikil bardagahetja og ber höfuðleðrasafn hans um það ótvíræð vitni.
Næstur á blað er hinn hugmyndaríki en um leið illa misheppnaði uppfinningamaður Zakarías Zíhugsandi. Hann heitir Zacharie Martin í frönsku útgáfunni og ritari íslensku Wikipedia síðunnar um Vagnalestina vill meina að fyrirmynd hans megi jafnvel rekja til prófessors Vandráðs úr Tinna bókunum. Zakarías Zíhugsandi minnir SVEPPAGREIFANN hins vegar frekar á einhvers konar blöndu af vísindamanninum dr. Emmett Brown úr Back to the Future annars vegar og hins vegar tónskáldinu Atla Heimi Sveinsson sem nú er nýlátinn. En Zakarías Zíhugsandi er frekar einkennilegur náungi og ekki alveg eins og fólk er flest. Hann gengur til liðs við vagnalestina í Einskisneingili, líkt og Lukku Láki, en þó með aðeins eftirminnilegri og meira afgerandi innkomu.
Zakarías er stórhuga uppfinningamaður sem stefnir til Kaliforníu þar sem hann getur fínpússað hugmyndir sínar um farartæki framtíðarinnar og um leið ætlar hann að breyta útliti landsins með tíð og tíma. Reyndar kemur ekki fram hvað hann meinar nákvæmlega með því. Á leið vagnalestarinnar vestur yfir slétturnar notar hann tækifærið til að þróa þessar hugmyndir með ýmsum tilraunum, fyrst á eigin vagni og svo á vagnakosti samferðamanna sinna. Þær tilraunir eru mjög fjölbreytilegar svo ekki sé meira sagt. Seglavagnaútfærslan í byrjun var í sjálfu sér ekkert svo slæm en bæði aflfjöðurhugmyndin og sú með kolakynnta gufuketilinn voru það hins vegar. Sú síðastnefnda var einnig í eldfimari kantinum og gerði reyndar endanlega útaf við vagninn hans.
Eftir að gufuvagninn hafði sprungið í loft upp fær hann far með hjálpsömum útfarastjóra (einum af ansi mörgum í Lukku Láka bókunum) sem einnig gengur til liðs við vagnalestina í Einskisneinsgili. Útfarastjórinn er í hefðbundnum hrægammsstíl í anda bókanna og ekur um á forláta líkvagni. Zakarías er ekki lengi að bjóðast til að gera þann eðal vagn að hraðskreiðasta líkvagni í öllum Bandaríkjum Norður Ameríku í þakklætisskyni. Reyndar bendir útfarastjórinn honum góðfúslega á að viðskiptavinir sínir séu sjaldnast á hraðferð en Zakarías lætur slík orð sem vind um eyru þjóta.
Eiginlega henta þessar tilraunir Zakaríasar betur fyrir nokkra stutta hálfra síðna myndabrandara í anda Viggós viðutan. Það er ekkert sem stöðvar hina tæknilegu framþróun en það gildir reyndar ekki í tilfellum Zakaríasar Zíhugsandi. Þá er hann vanur að segja við sjálfan sig, "ef það tekst ekki í fyrsta sinn þá tekst það næst ..." Eftir þó nokkrar áhugaverðar hugmyndaútfærslur á framtíðarnýtingu líkvagnsins, þar sem ætíð þarf að klambra honum saman aftur, fær hann jafnvel tækifæri til að gerast hjólabátur. Í þeirri tilraun fær hestur útfarastjórans klárlega besta sætið.
Og við komu vagnalestarinnar til vesturstrandarinnar er ekki úr vegi að fagna vel unnu verki Lukku Láka með veglegri flugeldasýningu úr líkvagninum í boði Zakaríasar. Sú sýning gerir reyndar einnig endanlega útaf við þann vagn og í kjölfarið tekur útfarastjórinn þá ákvörðun að skipta um starfsvettvang enda aðal grundvöllurinn fyrir starfsemi hans horfið af yfirborði jarðar. Saman ákveða þeir félagarnir því að slá saman í stofnun hlutafélags um nýjar hugmyndir.
En að síðustu, af þessum aukapersónum bókarinnar, skal nefna hinn orðljóta og óheflaða múlreka vagnalestarinnar, Skralla Skrölt. Í frumútgáfunni frönsku nefnist Skralli því fróma nafni Ugly Barrow en útlitslega gæti hann hugsanlega verið af spænskum ættum þó það komi reyndar ekki fram í sögunni. Skralli heldur utan um múlasnahjörð lestarinnar og sinnir því hlutverki af alúð en þó með framandi blótsyrðum og einstaklega ljótu orðbragði. Svo ljótu reyndar að hann sést nánast aldrei í sögunni öðruvísi en með hefðbundnar blótsyrðamyndir í talblöðrunni sinni. SVEPPAGREIFINN fann vel á þriðja tug slíkra tilfella í allri bókinni! Skralli Skrölt er stór og mikill að vexti og brúnaþungur mjög en getur þó auðveldlega alveg sýnt tilfinningar á borð við hlátur. En með öllum hans tilfinningasvipbrigðum fylgja þó alltaf einhver blótsyrði.
Svo veigamiklu hlutverki gegnir Skralli reyndar í sögunni að hann fær framhliðina af bókakápu Vagnalestarinnar nánast fyrir sig eins og hún leggur sig. Þar situr hann í forgrunni, ábúðarfullur mjög, við stjórnvölinn á vagni sínum og bölvar hressilega með rauðan (líka bölvandi) páfagauk sér við hlið. Sá gaukur kemur þó hvergi annars staðar fyrir í allri bókinni. Blótsyrði Skralla hafa víðtæk áhrif á flesta aðra í sögunni. Mæðurnar í vagnalestinni reyna að forða börnum sínum frá óheflaðri nærveru hans og Skralli er jafnvel beðinn um að víkja sem ekill skólavagnsins af sömu ástæðu. Sem hefur þær afleiðingar að hann bölvar hressilega yfir því að vera settur aftast í vagnalestina þar sem hann fær auðvitað rykið af öllum hinum vögnunum yfir sig. Skralli skilur eftir sig slíka slóðina af blótsyrðunum að margar af hinum sögupersónum bókarinnar taka þau ósjálfrátt upp eftir honum. Í lok bókarinnar eru þannig meira og minna allir í vagnalestinni orðnir sótbölvandi og ragnandi. Jafnvel Léttfeti á sitt augnablik í því. En hið ljóta orðbragð Skralla kemur sér líka til góða í sögunni. Það hjálpar til dæmis verulega til við að safna saman múlösnunum þegar allt er komið í óefni. Enginn annar en Skralli getur smalað þeim saman.
Þótt bölv og ragn Skralla Skrölts sé ekki beint til útflutnings þá virðist Lukku Láki bera ákveðið traust til hans og tekur hann til að mynda með sér í könnunarleiðangur um slóðir Síuxa indjánanna. Að öllum líkindum telur Láki engan annan landnema vagnalestarinnar vera hæfari til þess verkefnis. Í þeim leiðangri sýnir Skralli einmitt nokkuð lipurlega takta og afvopnar hinn hugrakka, en líklega frekar illa gefna stríðskappa, Hrausta Nautshaus með svipu sinni.
Undir lok bókarinnar þegar vagnalestarleiðangurinn er loksins kominn á leiðarenda, við strönd Kyrrahafsins, þá sýnir Skralli Skrölt á sér heldur betur nýja hlið. Við ferðalok ákveða leiðangursmenn að efna til samsætis Lukku Láka til heiðurs þar sem meðal annars er boðið upp á fjölbreytt skemmtiatriði. Þar ákveður Skralli að hlaupa í skarðið þegar Pinni Prakk forfallast með ræðuhöld sín og býðst til að syngja og spila á gítarinn sinn frumsamið lag og ljóð um Lukku Láka. Eitthvað leggst hugmyndin um þann flutning illa í viðstadda, sem miðað við reynslu eiga von á frekar orðljótum blótsyrðaflaumi í tónlistarformi, en í staðinn sýnir Skralli á sér glænýja hlið og flytur Láka hið fegursta lofljóð í anda Matthíasar. Og sú fegurð lokar þessari færslu dagsins.