23. ágúst 2019

125. HLUTVERKASKIPTI BLÁSTAKKS OG LUKKU LÁKA

Íslenskir lesendur þeirra myndasagna sem voru að koma út hér á landi á sínum tíma kannast líklega flestir við Lukku Láka bókina Allt um Lukku Láka sem Fjölva útgáfan gaf út árið 1978 í þýðingu Þorsteins Thorarensen. Bókin er bæði fróðleg og skemmtileg og í henni er stiklað á stóru um ýmsar merkilegar staðreyndir um sögu og tilurð hinna frábæru Lukku Láka bóka. Upprunalega franska útgáfan heitir reyndar 7 Histoires de Lucky Luke og hafði einungis að geyma sjö stuttar sögur eins og nafn hennar gefur til kynna. Sú bók kom út í Belgíu árið 1974 og innihélt samansafn af litlum sögum sem birst höfðu í hinu skammlífa myndasögutímariti Lucky Luke. En í skandinavísku útgáfunni (og þar með talið þeirri íslensku) hafði verið bætt við heilmiklu af aukaefni og bókin þar með gerð að einhvers konar sagnfræðilegu yfirliti um Lukku Láka bækurnar. Sú samantekt var að mestu unnin af hinum dönsku Henning Kure og Freddy Milton. Sá síðarnefndi er kunnur myndasögufræðingur, listamaður og þýðandi en hann þýddi til dæmis bækurnar um Viggó, Sval og Val, Samma og Blake og Mortimer yfir á dönsku á sínum tíma.
Í bókinni Allt um Lukku Láka gátu íslenskir lesendur til dæmis í fyrsta sinn fundið yfirlit yfir allar Lukku Láka sögurnar í réttri röð sem þá höfðu komið út. Þannig gátu þeir ekki bara áttað sig á brenglaðri útgáfuröð íslensku seríunnar heldur líka séð allan þann fjölda bóka um kúrekann knáa sem enn höfðu ekki verið gefnar út hér á landi. Slíkur fróðleikur var ekki á hverju strái á Íslandi á þeim tíma enda enn áratugir í að hægt yrði að gúggla þess konar gersemar. En í þessari merkilegu bók má einnig finna skemmtilegt efni í tilefni af 25 ára útgáfuafmæli Lukku Láka frá því í desember árið 1971. Franska myndasögutímaritið Pilote fékk þá listamanninn Jean Giraud, teiknara Blástakks (Blueberry) sagnanna, til að teikna eina blaðsíðu (bls. 17) úr Lukku Láka bókinni Grænjaxlinn (Le Pied-Tendre) sem komið hafði út árið 1968 en í hlutverk Lukku Láka var kominn Blástakkur liðþjálfi. Hreint frábær hugmynd og vel heppnað hjá Giroud en þeir Morris voru góðir vinir enda báðir að vinna hjá blaðinu. Í þakklætisskyni gerði Morris (Maurice de Bevere), teiknari Lukku Láka bókanna, eina síðu (bls. 10) úr sögunni Le mine de l'allemand perdu (Gullnáma Þjóðverjans), sem gefin hafði verið út árið 1969, þar sem Lukku Láki tók að sér hlutverk Blástakks. Vestrasögurnar um Lukku Láka og Blástakk voru báðar að birtast á þessum tíma á síðum Pilote tímaritsins og það voru þannig hæg heimatökin hjá listamönnunum tveimur að víxla þessum hlutverkum en óneitanlega var stíll þeirra ólíkur. SVEPPAGREIFINN hreinlega elskaði þessar síður í Allt um Lukku Láka í æsku en þær má finna á blaðsíðum 24 til 27 í bókinni. Hér má einmitt sjá Blástakk í kunnuglegu hlutverki Lukku Láka úr bókinni um Grænjaxlinn.
Hér er grænjaxlinn Baldur Badmington nýkominn í fylgd Láka (Blástakks) til hins nýja búgarðs síns, sem hann erfði í villta vestrinu, en um þá sögu má eitthvað lesa hér. Reyndar kom bókin um Grænjaxlinn ekki út hjá Fjölva útgáfunni fyrr en árið 1980 en glöggir Lukku Láka lesendur voru þó ekki lengi að tengja þessa opnu við þá sögu. Blaðsíðan sem Morris teiknaði um Lukku Láka í hlutverki Blástakks var íslenskum lesendum hins vegar meira framandi. Um það leyti sem Allt um Lukku Láka var gefin út árið 1978 voru reyndar fyrstu tvær bækurnar um Blástakk liðsforingja að koma út í boði Fjölva en alls sendi útgáfan ekki nema þrjár bækur (númer 3, 4, og 5 úr upprunalegu seríunni) frá sér úr þessari frábæru seríu. Á slóð Navajóa og Týndi riddarinn komu út árið 1978 og Stúlkan í Mexíkó árið 1982. Sögurnar um Blástakk á íslensku urðu því ekki margar en diggustu aðdáendur bókaflokksins hér á landi voru duglegir að nálgast þessar bækur erlendis frá. Þær komu líklega flestar frá Danmörku en alls voru tólf Blástakks sögur gefnar út þar í landi. Reynsla íslenskra lesenda af þessum sögum voru því ekki mjög miklar og ekki er einu sinni víst að þeir sem lásu Lukku Láka bækurnar hafi líka lesið bækurnar um Blástakk. Lukku Láki í hlutverki Blástakks í Allt um Lukku Láka var því fyrst og fremst fyndinn þó menn hefðu ekki sama samanburðinn og af Blástakki í hlutverki Lukku Láka úr Grænjaxla bókinni. Þarna fær þó húmor listamannsins Morris að njóta sín, þar sem bæði Daldónar og Léttfeti koma við sögu, og ekki er ólíklegt að handritshöfundurinn René Goscinny hafi einnig haft þar einhverja hönd í bagga.
En þessi blaðsíða Morris úr Blástakks bókinni Le mine de l'allemand perdu birtist þó íslenskum lesendum löngu seinna þótt ekki sé víst að margir hafi náð að njóta þess. Forsöguna að því má rekja til þess að árið 2000 hóf NordicComics að gefa út myndasögutímarit í áskrift á íslensku en helsti forvígismaður þess og ritstjóri var myndlistamaðurinn Búi Kristjánsson. NordicComics (NC útgáfan) hafði þá nýverið hafið lofsverða útgáfu á myndasögum á ný á Íslandi og sent frá sér fáeinar bækur á svipuðum tíma. SVEPPAGREIFINN mun klárlega eitthvað fjalla um þær sögur í komandi framtíð. Tímaritið nefndist Myndasögublaðið Zeta og uppistaðan af efni þess einkenndist af myndasögum sem gefnar höfðu verið út í Belgíu og Frakklandi, bæði nýlegu og eldra, en einnig mátti þar til dæmis finna sögu með Batman. Framtakið var auðvitað alveg frábært og þær kynslóðir sem lesið höfðu teiknimyndasögur á íslensku á 8. og 9. áratug tuttugustu aldarinnar gátu þannig endurnýjað kynni sín við gamla kunningja. Hinrik og Hagbarður, Strumparnir og Lukku Láki voru kunnuglegir í efni blaðsins en af öðrum myndasögum má til dæmis nefna Titt (Titeuf), Beina (Cubitus), Lárus lánlausa (L'Élève Ducobu) og Sniglana (Joe Bar Team).
Myndasögublaðið Zeta, sem gefið var út í 3-6000 eintökum, varð reyndar ekkert sérstaklega langlíft. En alls komu þó út níu tölublöð af tímaritinu áður en það lagði upp laupana árið 2002. Fyrstu átta tölublöðin voru í nokkuð stóru broti og voru í hefðbundnum myndasögublaðastíl en níunda og síðasta tölublaðið var hins vegar í töluvert öðruvísi formi. SVEPPAGREIFANUM er svo sem ekki vel kunnug ástæða þess en svo virðist sem titli blaðsins hafi einnig verið breytt og læðist því að honum grunur um að einhverjar fjárhagslegar ástæður hafi legið þar að baki. Blaðið hafði verið fjármagnað af áskriftargjöldum annars vegar og hins vegar af auglýsingatekjum en því miður virðast þær tekjur ekki hafa náð að dekka þann kostnað sem slíkri útgáfu fylgir. Svanasöngur myndasögutímaritsins var því ekki aðeins í formi nýs brots með stífari kápu, sem var um það bil helmingi minna en hin blöðin, heldur var efni þess einnig komið í einfaldara form. Með öðrum orðum ... blaðið innihélt nú einungis eina heila sögu en sú saga var einmitt áðurnefnd Blástakks saga, Le mine de l'allemand perdu, og kallaðist nú Gullnáma Þjóðverjans. En sagan Gullnáma Þjóðverjans er númer 11 í upprunalegu frönsku seríunni.
Því má alveg deila um hvort hér sé um að ræða tölublað af myndasögutímariti eða hreinræktuð teiknimyndasögubók. Það verður einnig að geta þess að ritið innihélt líka tvær eða þrjár auglýsingar auk stuttrar tveggja síðna myndasögu um Lárus lánlausa til uppfyllingar. Reyndar skal það tekið fram að fyrstu sextán blaðsíðurnar úr þessari sögu birtust einnig í Myndasögublaði Zeta númer 3 af 2001 árganginum (8. og síðasta blaðinu úr stóru útgáfunni) en Blástakks sagan Gullnáma Þjóðverjans er hér í heilu lagi og virðist almennt vera skráð hjá íslenskum myndasögulesendum sem venjuleg teiknimyndasaga. Gullnáma Þjóðverjans var þó líklega ekki gefin út í mjög mörgum eintökum en einnig hefur heyrst að afgangnum af upplaginu hafi verið hent eftir dræma sölu þegar hún kom út. Hér er því líklega um nokkuð sjaldgæfan og vandfundinn grip að ræða úr útgáfu teiknimyndasagna á Íslandi. En það fór samt ekki svo að opnan góða um Blástakk, úr Allt um Lukku Láka, fengi ekki að koma fyrir augu íslenskra lesenda.
Alls eru því sögurnar um Blástakk, sem komið hafa út á íslensku, orðnar fjórar talsins í einhvers konar bókaformi og svo má heldur ekki gleyma að fimmta sagan, Arnarnef (Nez Cassé - 1980) hefur birst í hlutum í myndasögublaðinu NeoBlek en hún er númer 18 úr upprunalegu seríunni

Látum þetta duga í dag. 

16. ágúst 2019

124. SIGGI OG VIGGA Á ÝMSUM TUNGUMÁLUM

 
Við Íslendingar þekkjum eilítið til hinna einkennilegu myndasagna um Sigga og Viggu sem ættaðar eru frá Hollandi og gefnar hafa verið út í hundraðavís allt frá árinu 1946. SVEPPAGREIFINN er ekki beint par hrifinn af þessum bókum en fyrir mörgum árum tók hann þá afstöðu að dæma þær til eilífðar útskúfunar (eins og hann orðaði það sjálfur einhvers staðar hér á Hrakförum og heimskupörum) og hefur að mestu leyti staðið við þá ákvörðun síðan. Hann hefur þó aðeins fjallað um þessar sögur hér á myndasögublogginu sínu en tíu þessara sagna komu út hér á landi hjá Fjölva útgáfunni á árunum 1989-90.
Á frummálinu heita aðalsöguhetjurnar Suske og Wiske en sögurnar voru hugarfóstur listamannsins Willy Vandersteen sem lést árið 1990. Síðan þá hafa ýmsir komið að sköpun þeirra en bækurnar um Suske og Wiske eru enn að koma reglulega út. Þessar sögur eru merkilega útbreiddar. Alls hafa þær verið gefnar út á rúmlega þrjátíu tungumálum og þær eru til dæmis mjög vinsælar í Asíu. Bækurnar hafa einnig verið gefnar út á öllum Norðurlöndunum (utan Færeyja) en óhætt er að segja að nafngiftir sögupersónanna séu ólíkar eftir löndum. Á íslensku heita þau auðvitað Siggi og Vigga, á finnsku Anu og Antti, á norsku og sænsku Finn og Fiffi og á dönsku nefnast þau Bob og Bobette en í eldri útgáfunum á dönsku hétu þau reyndar einnig Finn og Fiffi. Á þýsku er þetta enn flóknara. Þar kölluðust þau fyrst Ulla og Peter, seinna Bob og Babette, síðan Suske og Wiske en í dag heita þau Frida og Freddie. Og þegar skoðuð eru nöfn þeirra á öllum tungumálunum 33 er óhætt að segja að þau komi úr öllum áttum.
 • Afríska: Neelsie og Miemsie
 • Brabants (hollensk mállýska): Suske og Wieske
 • Danska: Finn og Fiffi (seinna: Bob og Bobette)
 • Enska (Ameríka): Willy og Wanda
 • Enska (Bretland): Bob og Bobette (seinna: Spike og Suzy)
 • Esperantó: Cisko og Vinjo
 • Finnska: Anu og Antti
 • Flæmska (hollensk mállýska): Suske og Wiske
 • Franska: Bob og Bobette
 • Frísneska (hollensk mállýska): Suske og Wiske
 • Gríska: Bobi og Lou
 • Hebreska: Bob og Bobet
 • Hollenska: Suske og Wiske
 • Indónesíska: Bobby og Wanda
 • Írska: Spike og Suzy
 • Íslenska: Siggi og Vigga
 • Ítalska: Bob og Bobette
 • Japanska: ススカとウィスカ (Susuka og Wisuka)
 • Kínverka (tævanska útgáfan): Dada og Beibei
 • Kínverska: 波布和波贝特 (Bobu og Bobete: 1996) og 苏苏和维维 (Susu og Weiwei: 2011-)
 • Latneska: Lucius og Lucia
 • Limbúrgíska (hollensk/þýsk/belgísk mállýska): Suske og Wiske
 • Norska: Finn og Fiffi
 • Persneska: بوبی و بوبت (Bobi og Bobet)
 • Portúgalska: Bibi og Baba (Það er eiginlega næstum því Bíbí og blaka).
 • Portúgalska (Brasilía): Zé og Maria
 • Slóvenska: Spike og Suzy
 • Spænska: Bob og Bobette, Bob og Bobet
 • Svahílí: Bob og Bobette
 • Sænska: Finn og Fiffi
 • Tamílska: Bayankaap og Bayanam
 • Tíbeska: Baga og Basang
 • Þýska: Ulla og Peter (seinna: Bob og Babette/Suske og Wiske/Frida og Freddie)
Þó útbreiðsla bókanna komi á óvart verður að taka það fram að í mörgum tilfella hafa aðeins örfáar sögur komið út á hverju tungumáli. Oft eru það ekki nema um þrjár til tíu bækur. Þó er það ekki algilt og ber að taka það fram að í Finnlandi til dæmis hafa verið gefnar út rúmlega sextíu bækur úr seríunni og rúmlega sjötíu á sænsku.

9. ágúst 2019

123. BRANDUR KJARTANSSON

Það er kannski rétt svona strax í byrjun að upplýsa það að nafn Brands Kjartanssonar, sem kemur fyrir í fyrirsögn þessarar færslu vikunnar, er hvergi að finna neins staðar í símaskránni, þjóðskrá eða Íslendingabók. Sem SVEPPAGREIFANUM finnst svolítið miður.

En SVEPPAGREIFINN er mikill kisuvinur. Það eitt er svo sem ekkert endilega tilefni til færslu á myndasögubloggsíðu en ... samt. Umfjöllun um ketti í teiknimyndasögum á líklega alveg jafn mikinn rétt á sér eins og hvað annað. Hér á Hrakförum og heimskupörum hefur til dæmis bæði verið fjallað um tónlist, knattspyrnu og jól í myndasögum. Og af hverju ekki um ketti? SVEPPAGREIFINN minnist reyndar ekki mjög margra katta, í þeim teiknimyndasögum sem voru að koma út hér á landi á árum áður, en þó einhverra. Hin nafnlausa kisa Viggós viðutan er líklega í mestu uppáhaldi hjá honum en af öðrum kunnum köttum þessara myndasagna mætti einnig nefna hinn síamsættaða heimiliskött Myllusetursins og Dúllu hennar Mömmu Döggu Daltón.
Og svo er einn kisi í viðbót sem ekki er hjá komist að nefna. Hann heitir Brandur og er í eigu Kjartans hins illkvittna galdrakarls úr Strumpabókunum eftir belgíska listamanninn Pierre Culliford eða Peyo eins og hann var alltaf kallaður. En Brandur virðist í fljótu bragði vera eini kötturinn úr áðurnefndum teiknimyndasögum, fyrir utan Dúllu, sem hefur yfir alvöru nafni að ráða. Reyndar er Brandur ekki beint réttnefni á kattarkvikindinu því hann er eiginlega eins langt frá því að vera bröndóttur og hægt er. Þvert á móti er kötturinn nefnilega rauðbrúnn á litinn en með hvíta bringu og trýni. Nafngift hans hefur þó ekkert með gáfnafar Kjartans galdrakarls, eiganda hans, að gera heldur hefur þýðanda Strumpabókanna, Jóni Rúnari Gunnarssyni, líklega þótt Brands-nafnið eiga miklu betur við - svona upp á húmorinn að gera. Sem er reyndar bara nokkuð fyndið. Í framhjáhlaupi má til gamans geta þess að Jón heitinn, þýðandi allra gömlu Strumpabókanna, þótti ekki tilhlýðilegt að vera bendlaður við að íslenska þessar bækur og í engum þeirra kemur því nafn hans fram. En af öðrum einkennum í útliti Brands má nefna að í hægra eyra hans er stórt og áberandi bitfar en hvernig það er tilkomið hefur aldrei komið fram í sögunum. Það gerðist líklega löngu áður en hinn illgjarni Kjartan galdrakarl uppgötvaði Strumpana.
En nafn kattarins úr upprunalegu sögunum er hins vegar Azraël sem er hebreska og þýðir "engill dauðans" (sem hljómar reyndar ekkert sérstaklega fallega) og kemur meira að segja úr Kóraninum. Brandur kemur fyrst fyrir í sögunni Strumpaþjófurinn (Le Voleur de schtroumpf - 1959) ásamt eiganda sínum og opinberlega sáust þeir því í fyrsta sinn í SPIROU myndasögutímaritinu þann 10. desember árið 1959. Sú saga kemur meðal annars fyrir í bókinni Svörtu Strumparnir (Les Schtroumpfs noirs) sem Iðunn gaf út á íslenskri þýðingu árið 1979. Kjartan galdrakarl, eigandi Brands, þráir ekkert heitara en að koma höndum yfir Strumpana og nota þá í uppskrift fyrir Heimspekisteininn. Sá eftirsótti gripur getur, samkvæmt byrjun sögunnar um Strumpaþjófinn, breytt öðrum málmum í gull og útskýrir því vel þráhyggju Kjartans galdrakarls fyrir strumpaveiðum hans ef einhver hefur verið í vafa um það. Í fyrstu Strumpasögunum var Brandur reyndar læða en fljótlega breyttist hann í fresskött og hefur verið það alla tíð síðan. Sú kynskiptiaðgerð náði þó aldrei augum íslenskra lesenda enda Brands nafnið öllu karllægara heldur en Azraël. Brandur greyið hefur því alltaf verið karlkyns hér á landi. Þökk sé Jóni þýðanda.
Við þekkjum illgirni Kjartans galdrakarls en Brandur er reyndar ekki síður illkvittinn en eigandi hans. Þeir eiga þó töluvert fleira sameiginlegt. Þeir eru til dæmis báðir frekar fúllyndir og undirförulir, hata Strumpana vegna þess hve ráðagóðir þeir eru gagnvart þeim félögunum og svo eiga þeir einnig ýmislegt meira sameiginlegt annað en það sem varðar gáfnafar, innrætti og skapgerð. Augnaráð þeirra beggja ber augljósan vott um ljótan hug og sérstaklega er lævíslegt augnatillit Brands illilegt. Hann er jafnvel illgjarn á svipinn á meðan hann sefur.
Þó þeir félagar fylgist iðulega að bera þeir samt ekki alveg sama hug hvor til annars. Illkvittni Brands kemur til dæmis vel fram þegar eiganda hans mistekst og það hlakkar auðveldlega í honum við ófarir Kjartans. En það er ekki gagnkvæmt og á hinn bóginn þykir Kjartani galdrakarli nokkuð vænt um Brand þrátt fyrir að vera stundum töluvert ótuktalegur í hans garð. Þær staðreyndir koma reyndar ekkert sérstaklega vel fram í teiknimyndasögunum eftir Peyo en eru þeim mun meira áberandi í einhverjum af hinum fjölmörgu sjónvarpsþáttum sem gerðir voru um Strumpana á 9. áratug síðustu aldar.
Í einum af Strumpaþáttunum fer Brandur að heiman eftir að Kjartan hafði verið eitthvað grimmur og komið illa fram við hann. Galdrakarlinn bregst við því með þunglyndislegri einsemd og depurð og óskar einskis annars en að Brandur birtist aftur. Annað dæmi, um að Kjartani virðist í raun vera töluvert umhugsað um velferð Brands, má nefna að í sögunni Les P'tits Schtroumpfs frá árinu 1988 ákveður Kjartan til dæmis að setja köttinn í bað. Það kemur reyndar fram að það sé í fyrsta sinn í fimm ár þannig að líklega má eitthvað deila um hversu mikla væntumþykju galdrakarlinn beri til Brands. En eins og hjá svo mörgum öðrum köttum er Brandi illa við vatn og baðferð er því ekki ein af hans uppáhalds nautnastundum. Auðvitað bregst Brandur við þeirri raun á hinn versta hátt og flýr út í skóg þrátt fyrir að Kjartan hóti því jafnvel að breyta honum í hund.
Brandur fylgir Kjartani yfirleitt eftir í öllum hans aðgerðum gagnvart Strumpunum og eltir hann þá jafnan eins og hundur. Líklega má rekja þessa hollustu til græðgislegra væntinga um eins og einn lítinn strump til að narta í. En Kjartan er þó sjaldan tilbúinn að láta það eftir honum. Strumparnir eru of dýrmætir og vandfundnir, í augum Kjartans, til að enda í kisukjafti Brands. Í hugum Strumpanna er það Brandur sem er þeirra versti óvinur en með tímanum hafa viðskipti þeirra einnig þróast á þann veg að Strumparnir eru á móti orðnir helstu óvinir þeirra Kjartans og Brands.
Þó strumparnir hræðist Brand og líti á hann sem þeirra helstu ógn þá kemur fyrir að þeir þurfi að brjótast út fyrir þægindaramma sinn og ráðast að fyrra bragði beint á þá ógn, þvert gegn vilja sínum. Í Galdrastrumpinum (L'Apprenti Schtroumpf - 1971), sem kom út á Íslandi árið 1980, verður einn strumpanna fyrir því að drekka ólyfjan sem breytir honum í hálfgert skrímsli. Yfirstrumpur bregður á það ráð að búa til mótefni handa honum til að breyta honum aftur í sitt fyrra form en eitt af hráefnunum í galdraseiðið eru þrjú veiðihár af ketti. Strumparnir þurfa því að bregða á það ráð að leita Brand uppi, veiða hann í gildru og eftir stórhættulega viðureign við köttinn tekst þeim að rota hann og klippa hárin af trýni hans.
En Brandur er ekki fullkominn. Þrátt fyrir allt hans grimma eðli og illa innrætti þá er hann ekki óttalaus með öllu. Áður hefur verið minnst á hræðslu hans við vatn og í sögunni um Strumpasúpuna (La Soupe aux Schtroumpfs - 1976) sem út kom á íslensku árið 1980 kemur risi nokkur, Lilli, við sögu. Sá er reyndar sísvangur og gefur í skyn að honum finnist kisur hið mesta lostæti og stingur jafnvel upp á því við Kjartan galdrakarl að gera úr honum kattarsúpu. Lilli lætur Brand heldur betur finna fyrir sér og Kjartan þarf að beita öllum sínum helstu fortölum við að koma í veg fyrir að risinn hreinlega éti Brand á staðnum. Kjartan segir honum að kötturinn gæti jafnvel valdið magapínu, útbrotum, meltingartruflunum, þindarkrampa, ristilstíflu og garnaflækju. Hann gerir þannig allt til að verja Brand fyrir Lilla og sýnir þá um leið óvænta umhyggju fyrir kattagarminum.
Brandur er virkilega skíthræddur við hinn ofvaxna Lilla og undir lok sögunnar þurfa strumparnir ekki nema rétt að minna hann á risann til að reka köttinn á brott. Það er best að láta þessa myndaröð, hér fyrir neðan, setja endapunktinn við færslu dagsins.

2. ágúst 2019

122. ÆVINTÝRI TINNA Á TUNGLINU - ÞRIÐJI HLUTI

Þá er komið að þriðja og síðasta kaflanum um ævintýri Tinna á tunglinu. En SVEPPAGREIFINN hefur verið að tína til efni og fjalla nokkuð ítarlega um þessar bækur, í færslum undanfarinna vikna, í tilefni af 50 ára afmæli mannaðra tunglferða.

Næst er líklega rétt að staldra aðeins við á þeim tímapunkti þegar Tinni stígur fæti sínum fyrst á tunglið. Eldflaugin lendir á yfirborði þess á blaðsíðu 22 í bókinni og á blaðsíðu 25 stígur Tinni fyrstur manna á tunglið. SVEPPAGREIFANUM hefur reyndar aldrei fundist því augnabliki hafa verið gert sérstaklega hátt undir höfði í meðförum Hergés. Í endanlegu útfærslunni í bókinni sést Tinni klifra niður stigann á eldflauginni og í framhaldi af því má sjá (á einni lítilli mynd) hvar Baxter og aðstoðarmaður hans rennsvitna við að hlusta á lýsingu Tinna á því þegar hann snertir yfirborð tunglsins í fyrsta sinn. Næst kemur risastór mynd þar sem Tinni er búinn að ganga um 20 til 30 metra frá flauginni en aldrei sést í bókinni það andartak sem sýnir Tinna snerta tunglið í fyrsta sinn. Einhverjum hefði líklega þótt það miklvægasta augnablik allrar sögunnar en Hergé hefur augljóslega ekki verið á sama máli. Í upprunalegu tímaritsútgáfunni var þessi atburðarás eilítið öðruvísi en bætir þó afar litlu við - reyndar aðeins tveimur myndarömmum.
Fyrstu tvær myndirnar úr myndaröðinni hér fyrir ofan er því ekki að finna í bókaútgáfunni en þá þriðju þekkjum við hins vegar og er hún fyrsta myndin sem birtist efst á blaðsíðu 26 í bókinni. Á fyrri af myndunum tveimur segir Tinni eitthvað á þá leið, "Jæja, það tókst!... Ég hef stigið á yfirborð tunglsins!..." Og síðan á þeirri seinni, "Án nokkurs vafa, í allra fyrsta skiptið frá upphafi mannkynsins, VIÐ HÖFUM STIGIÐ FÆTI Á TUNGLIÐ!..." en þar kemur fyrir bein tilvitnun í titil bókarinnar ON A MARCHÉ SUR LA LUNE. Orð Tinna á þessum tveimur myndarömmum eru reyndar í megindráttum þau sömu og hann lætur frá sér á stóru myndinni í endanlegu útfærslunni af bókinni. Í hinni íslensku Í myrkum mánafjöllum er þýðingin á orðum hans, "Ég hef stigið á tunglið og gengið nokkur fyrstu skrefin. Fyrsti maðurinn á tunglinu. Landkönnun mánans er hafin!" Sú stóra mynd birtist aldrei í tímaritsútgáfunni en við munum eftir henni þar sem hún þekur stóran hluta blaðsíðu 25 í bókinni.
Og benda má á fleiri atriði sem ekki þótti ástæða til að láta fylgja með úr tímaritinu. Neðst á blaðsíðu 31 í bókinni, eftir að ferðalangarnir eru farnir að spóka sig á tunglinu, hefði verið hægt að leyfa löngu atviki (um tvær og hálf blaðsíða að lengd) með Sköftunum að halda sér. Forsöguna að því muna eflaust allir eftir en í henni segir frá því er Skaftarnir fara í rannsóknarleiðangur upp á eigin spýtur, setja m.a. heimsmet í langstökki og finna fótspor, auk þess sem lesendur fá að fylgjast með misgáfulegum samræðum þeirra. Skaftarnir eru í talstöðvarsambandi við samferðamenn sína, þá Tinna, Kolbein og Vandráð prófessor, sem staddir eru í flauginni og nefna við þá þessi spor. Í tímaritsútgáfunni kemur þessi myndaröð hér fyrir neðan næst.
Fyrst má sjá tvær myndir þar sem Skaftarnir eru að velta því fyrir sér hvort þeir séu orðnir villtir, enda sjá þeir hvergi eldflaugina sem er í hvarfi fyrir ójöfnu yfirborði tunglsins. Á þriðju myndinni (sem reyndar kemur einnig fyrir í bókarútgáfunni) er Tinni með hugleiðingar um hvort hugsanlega gæti verið eitthvað bogið við þessi fótspor Skaftanna en prófessor Vandráður hrekur það hins vegar á fyrstu myndinni í næstu myndaröð. Í framhaldi af því hefst síðan einkennileg atburðarás sem er, okkur sem þekkjum bara endanlegu bókaútgáfuna, afskaplega framandi.
Skaftarnir eru þarna enn í talstöðvarsambandi við Kolbein og ræða í framhaldinu saman um hvar þeir gætu verið staddir. Kafteinninn hefur áhyggjur af því, ef Skaftarnir eru villtir, að súrefnisbirgðir þeirra séu orðnar af skornum skammti og dugi í raun kannski ekki nema í um tuttugu mínútur til viðbótar. Tinni kemur til skjalanna í sömu svifum og brýnir fyrir Sköftunum  að reyna að fara eins sparlega með súrefnið og hægt er en þeir Kolbeinn muni leggja strax af stað þeim til aðstoðar og hafa með auka súrefnisbirgðir. Í sömu svifum reka Skaftarnir augun í efri hlutann á eldflauginni og halda þangað þá þegar en þeir Tinni og Kolbeinn koma út úr flauginni og til móts við þá. Þegar Tinni og Kolbeinn koma auga á þá félaga sína fá þeir skyndilega þau skilaboð frá Skapta að Skafti eigi orðið í miklum erfiðleikum með andardrátt sinn og hann sé alveg við það að fara að missa meðvitund. Tinni sér hins vegar (á síðustu myndunum) að eitthvað annað er ekki eins og það á að vera, stekkur af stað og hrópar til þeirra viðvörunarorðum.
Tinni sér þar hvar Skapti er að losa hjálminn af Skafta en sá skilur ekkert í viðvörunum Tinna. Skafta vanti lífsnauðsynlega súrefni og því finnst Skapta ekkert eðlilegra en að losa um loftlausan hjálminn því það sé hann sem komi í veg fyrir að Skafti geti andað. Tinni útskýrir fyrir Skapta að með því muni hann drepa Skafta og um leið setur hann nýja súrefnisflösku aftan á búning hans og skrúfar rösklega frá. Skafti lifnar strax til lífsins og bregst nær samstundis við með afar undarlegum hlátri og öðrum ófyrirsjáanlegum viðbrögðum. Hann röflar eitthvað óskiljanlegt út í loftið og er augljóslega með óráði. Svo miklu reyndar að hann grípur byssu úr slíðri Tinna, fer að veifa henni á ógætilegan hátt og hleypur síðan af stað burt með vopnið. Tinni tekur samstundis á rás á eftir Skafta og reynir að stöðva hann. Á meðan er Kolbeinn kafteinn í sambandi við prófessor Vandráð og segir honum frá undarlegum viðbrögðum Skafta. Vandráður útskýrir þá fyrir honum að líklega sé flæðið úr súrefniskútnum ekki eðlilegt og Tinni hafi skrúfað heldur of mikið frá súrefniskrananum. Sem hefur þau áhrif að hann óverdósar og þeir þurfi hið snarasta að minnka streymið úr kútnum til að Skafti verði eðlilegur á ný. SVEPPAGREIFANUM er reyndar ekki vel kunnugt um hvort þessi hætta af ofskömmtun súrefnis sé raunverulega til staðar og ætlar að leyfa öðrum að kynna sér það betur. En þegar Tinni nálgast Skafta og skipar honum að stoppa, snýr sá sér við og tekur til þess ráðs að beina byssunni að Tinna með hótunum.
Skafti hótar því að skjóta hann til að verja sig og Tinni segir honum að hann geti gert það en bendir honum þó á að losi þurfi öryggið á byssunni. Skafti fer þá að skoða byssuna en á því augnabliki nær Tinni að rífa vopnið úr höndum hans. Rétt á meðan Skafti rífur kjaft og skammast yfir afskiptasemi Tinna notar Kolbeinn tækifærið og skrúfar svolítið niður súrefnisstreymið aftan á búningi hans. Áhrifin eru skjót og fljótlega verður Skafti eins og hann á að sér að vera. Fram til þessa höfðu tunglfararnir aldrei borið byssu í allri sögunni en skyndilega eru þeir báðir, Tinni og Kolbeinn, orðnir vopnaðir sitt hvorri skammbyssunni. Líklega má rekja þessa snöggu vopnavæðingu félaganna til hugleiðinga Tinna um fótspor þau sem Skaftarnir töldu sig hafa fundið en það kemur þó ekki fram í sögunni og hvergi í endanlegu útgáfunni má sjá sambærilegan vopnaburð hjá þeim félögunum. Og reyndar furðar SVEPPAGREIFINN sig á því hvað menn hafi yfir höfuð að gera með byssur í ferðalagi til tunglsins. Einhvern veginn er hann alveg viss um að Neil Armstrong og félagar hafi ekki haft með sér skammbyssur á tunglið sextán árum seinna.
En þetta eru nú einu sinni Tinna bækurnar. Fleiri atvik má tína til. Seinna í sögunni fara þeir Tinni og Kolbeinn í ýmsa rannsóknarleiðangra um nágrenni eldflaugarinnar og í einni slíkri ferð uppgötva þeir félagar áhugaverðan helli sem þeir verða auðvitað að kanna betur. Á blaðsíðu 37 í bókaútgáfunni hefur Tobbi fallið niður um op á hellisgólfinu og runnið niður ísilagða brekku en Tinni fer á eftir hundinum til að freistast til að ná honum upp aftur. Þeim Tobba tekst að klöngrast aftur upp undir opið en þaðan þurfa þeir kaðalspotta til að komast aftur upp til Kolbeins. Kafteinninn er þeim auðvitað til aðstoðar og við munum, úr bókaútgáfunni, eftir nokkrum erfiðleikum hans við að koma kaðalspottanum niður til Tinna. En auk þess finnur Tinni að súrefnisbirgðir hans hafa farið ört minnkandi af allri áreynslunni.
Í upprunalegu útgáfunni voru erfiðleikarnir, við að ná þeim aftur upp, hins vegar fleiri. Við munum úr bókaútgáfunni þegar þeir Tinni og Tobbi ná til kaðalspottans (fyrstu tvær myndirnar hér að ofan) og Kolbeini tekst að toga Tobba upp til sín strax í fyrstu tilraun. En í tímaritsútgáfunni rennur Tinni hins vegar skyndilega til í þann mund sem hann er að binda Tobba við kaðalspottann. Við það kippir hann kaðlinum óvart úr höndunum á Kolbeini og spottinn endar þannig allur niðri hjá þeim Tobba, sem einnig hafa runnið aftur niður glerhála ísbrekkuna.
Tinni bendir kafteininum strax á, í talstöðinni, að í tungldrekanum (bláa skriðdrekanum (í tímaritsútgáfunni var hann reyndar gulur!) sem þeir ferðast um með á tunglinu) sé auka kaðall en kemst þá að því að talstöðvasamband hans við Kolbein hafi rofnað við fallið og Tinni og Tobbi virðast því vera alveg bjargarlausir. Tinni gefst þó ekki upp og fer aftur upp að staðnum þar sem þeir féllu niður og freistast til að reyna að komast upp með þeirra spotta. Fljótlega kemur þó í ljós að Kolbeinn hefur farið og sótt hinn kaðalinn í tungldrekann og nær að slaka honum niður til Tinna á ný. Framhaldið þekkjum við auðvitað vel úr bókaútgáfunni en á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig tungldrekinn leit út í upprunalegu útgáfunni í Le Journal de Tintin.
Nokkrar fleiri smávægilegar breytingar voru gerðar á sögunni en flestar þeirra sneru þó að einföldum hlutum eins og litabreytingum (tungldrekinn til dæmis), einstaka leiðréttingum í texta, myndum sem voru stækkaðar eða minnkaðar eftir þörfum og svo framvegis. Ein af þessum minni breytingum frá upprunalegu útgáfunni snerist til dæmis um að Hergé uppfærði sjálfsmorðsbréf Wolfs. Eftir að Wolf hafði skotið Boris liðþjálfa fyrir slysni (og um leið bjargað lífi hinna áhafnarmeðlimanna) framdi hann sjálfsmorð eins og allir muna. Með því fórnaði hann lífi sínu til að auka líkurnar á að súrefnisbirgðir flaugarinnar myndu duga hinum til heimferðarinnar. Wolf endaði því eiginlega hvorki sem illmenni né hetja í sögulok en sýndi þó ákveðna iðrun sem bjargaði hinum áhafnarmeðlimunum. Hergé hafði legið undir töluverðri gagnrýni fyrir að láta Wolf taka eigið líf en í hinni strangkaþólsku Belgíu voru sjálfsvíg álitin mikil synd. Þegar sagan kom síðan út í bókarformi hafði Hergé bætt við textann, í bréfi Wolfs, línu þar sem segir að "kannske gæti eitthvert kraftaverk líka bjargað mér"! Með þessu vonaðist hann til að verknaðurinn sem slíkur yrði ekki jafn áberandi eða augljós en Hergé viðurkenndi þó reyndar seinna að hann hefði alltaf séð eftir því að hafa látið kúga sig til að gera þessa breytingu.
En svo er við hæfi að minnast aðeins á tvær nýjar og eigulegar bækur, tengdum tunglferðalagi Tinna og félaga, sem voru að koma út í tilefni þessa 50 ára afmælis mannaðra tunglferða. Tilvalið að versla sér þessar bækur hið snarasta og dunda sér við að skoða þær í rólegheitum þegar fer að rökkva í haust. Fyrst skal nefna, Tintin et la Lune (einnig til á ensku sem Tintin on the Moon), nýja glæsilega, harðspjalda viðhafnaútgáfu af öllu ævintýrinu en þetta er í fyrsta sinn sem bæði bindin og þar með öll sagan er gefin út í einni bók. Og svo má nefna bókina Tintin - Les premiers pas sur la Lune en þar gefur á að líta hina upprunalegu sögu, sem SVEPPAGREIFINN hefur verið að vitna í hér, í fullri lengd úr tímaritinu Le Journal de Tintin frá árunum 1950-53. Hver einasta blaðsíða úr sögunni hefur verið skönnuð upp og uppfærð til nútímans þar sem upprunalegir litirnir njóta sín til fulls í frábærum gæðum. Í inngangi bókarinnar er að finna 32ja síðna vísindalega samantekt eftir Yves Horeau en auk þess er í henni hellingur af ýmsu fróðlegu aukaefni og skýringum.
Og í lok þessarar þriggja færslna umfjöllunar um tunglbækur Hergés er líka alveg tilvalið að rifja upp einn af hinum frábæru þáttum Gísla Marteins Baldurssonar um Tinna. Í þessum þætti fer hann einmitt eilítið yfir þessar tunglbækur með jarðfræðingnum og stjörnufræðikennaranum Sævari Helga Bragasyni - Stjörnu-Sævari. Frábært efni alveg. Hér má finna hann.

26. júlí 2019

121. ÆVINTÝRI TINNA Á TUNGLINU - ANNAR HLUTI

SVEPPAGREIFINN birti í síðustu viku fyrsta hlutann af færslu sem fjallar um 50 ára tunglafmæli mannkynsins og tengingu þess merka viðburðar við hinar frábæru tunglbækur Hergé um Tinna. Vegna þess hve efnið var yfirgripsmikið sá SVEPPAGREIFINN ekki annan kost en að skipta því í þrjá kafla og verður því hluta númer tvö gerð skil í færslu þessarar viku.
En SVEPPAGREIFINN hefur aðeins áður minnst á fáeinar Tinna sögur sem tóku breytingum frá því þær birtust fyrst í Tinna tímaritinu (Le Journal de Tintin) og þar til þær voru síðan gefnar út í endanlegri útfærslu í bókaformi. Þar er skemmst að minnast á byrjanir sagnanna um Kolafarminn og Tinna og Pikkarónana og nokkrar fleiri færslur um sambærilegt efni bíða reyndar birtingar SVEPPAGREIFANS einhvern tímann í komandi framtíð. Í gömlu Tinna tímaritunum má nefnilega einmitt finna fullt af atvikum sem rötuðu á endanum ekki í endanlegu útfærsluna af bókunum, um Eldflaugastöðina og ĺ myrkum mánafjöllum, eins og við þekkjum þær. Það er svo sem ekki flókið að ætla að eitthvað af efni sögunnar hafi ekki ratað í bókaútgáfuna. Eins og um var getið í færslu síðustu viku birtust hvorki meira né minna en 134 blaðsíður af sögunni í Le Journal de Tintin en í endanlegu bókaútgáfurnar fóru ekki nema 124 síður. Grisjunin fólst auðvitað að miklu leyti í slepptum atvikum en einnig var eitthvað um að einstakar myndir væru klipptar út til að stytta söguna og aðlaga hana að bókaforminu. Strax í byrjun Eldflaugastöðvarinnar var til dæmis klippt út mynd sem tengir söguna við bókina á undan - Svarta gullið.
Í textanum á efstu myndinni segir eitthvað á þá leið frá því hvernig þeir Tinni, Tobbi og Kolbeinn hafi komið í veg fyrir bensínkreppuna í Svarta gullinu og í kjölfarið dvalið nokkrar vikur í höll Múhameðs Ben Kalís fursta í Kémed. Þar hafi þeir notið arabískrar gestrisni eins og hún gerist best áður en tími var kominn til að halda aftur heim á leið. Þessi aukamynd með þeim upplýsingum var svo sem óþörf því það kemur strax fram í byrjun Eldflaugastöðvarinnar að þeir Tinni og Kolbeinn séu að koma heim úr löngu ferðalagi. SVEPPAGREIFINN veit reyndar ekki hvernig það var með aðra lesendur en sjálfur tengdi hann byrjun sögunnar alltaf beint við bókina um Svarta gullið. Í fyrri hlutanum, Eldflaugastöðinni, fékk sagan að mestu leyti að halda sér og ekki voru gerðar neinar stórvægilegar breytingar þar fyrir bókaútgáfuna. Í þeim hluta er líka öll uppbygging sögunnar og grunnurinn fyrir það sem koma skal. Í þeirri bók var því aðeins þessi eina mynd í byrjun sem var sleppt var úr upprunalegu útgáfunni. En áður en lengra er haldið er samt vert að minnast aðeins á smávægileg mistök sem Hergé gerði þegar hann teiknaði bókarkápu Eldflaugastöðvarinnar. Sennilega er þetta ein þekktasta kápan af Tinna bókunum og sýnir frá mjög eftirminnilegu atviki úr sögunni þegar Vandráður tók bláa jeppann ófrjálsri hendi. Fæstir hafa þó líklega tekið eftir því að við bílstjórasætið, þar sem Vandráður prófessor situr, vantar stýrið! 
Þegar fyrri hluti sögunnar kom út í bókarformi tók Hergé þá ákvörðun að skíra bókina Objectif Lune en sá titill hafði í raun aldrei komið fram í tímaritinu Le Journal de Tintin. Á íslensku heitir bókin auðvitað Eldflaugastöðin. Seinni hlutinn heitir hins vegar Í myrkum mánafjöllum en franski titillinn On a Marché Sur La Lune þýðir í raun eitthvað á þá leið, Við gengum á tunglinu. Stjórnendur Casterman útgáfunnar voru einhverra hluta vegna aldrei sáttir við þennan titil en Hergé réði ferðinni og neitaði að breyta honum. En strax í byrjun seinni bókarinnar, Í myrkum mánafjöllum, eru kempurnar hins vegar komnar út í geiminn þar sem nánast allur afgangur sögunnar fer fram. Í Í myrkum mánafjöllum fór fram töluvert meiri grisjun heldur en í Eldflaugastöðinni. Þar hefur allmikið verið skorið niður og heilu blaðsíðurnar hafa fengið að fjúka enda hafði sagan styst um heilar tíu blaðsíður frá því í tímaritsútgáfunni eins og áður sagði. Ef við byrjum til dæmis neðst á blaðsíðu 8 má sjá þessar tvær myndir úr bókaútgáfunni sem við þekkjum líklega flest ágætlega. Þarna hefur Kolbeinn fengið sér ærlega í glas og hefur í kjölfarið tekið þá ákvörðun að yfirgefa "tungltunnuna" í geimbúningi og halda heim á leið. Tunglflaugin stöðvast sjálfkrafa þegar útgöngudyrnar opnast og Tinni heldur því í humáttina út á eftir kafteininum til að reyna að hafa vit fyrir honum.
En í upprunalegu útgáfunni í Le Journal de Tintin var hluti atburðarásarinnar eilítið öðruvísi byggður upp. Þar stóð Tinni ekki einn úti á flauginni með kaðalspotta í hendinni heldur kom Wolf líka út honum til aðstoðar og í þeirri útfærslu var það til dæmis hann sem  kom út með kaðalinn.
Wolf útskýrir fyrir Tinna hættuna af því hvernig aðdráttarafl smástirnisins Adonis togar Kolbein inn á sporbraut sína og að þeir geti því ekkert gert kafteinum til bjargar. Í bókaútgáfunni er þetta atriði hins vegar heilmikið einfaldað. Þar ræðir Tinni aðeins við Vandráð í gegnum talstöðvarsamband, þeir leggja á ráðin við að bjarga Kolbeini á örfáum myndarömmum og þar með sparast tæplega heil blaðsíða af þeirri atburðarás. Hérna fyrir neðan er einmitt öll viðbótin af þessu atviki úr Le Journal de Tintin sem ekki endaði í endanlegu bókaútgáfunni.
Tvær síðustu myndirnar hér komu fyrir í bókaútgáfunni og birtust í raun strax í annarri myndaröð á blaðsíðu 9. Hvað þetta atriði um Adonis varðar má reyndar alveg taka það fram, svona í framhjáhlaupi, að einhvers staðar fann SVEPPAGREIFINN þá staðreyndarvillu að aðdráttarafl svo lítils steins sé í raun engan veginn nægjanlegt til að draga mannveru til sín. Hins vegar má líka alveg geta þess að smástirnið Adonis er til í raun og veru og er um einn kílómetri í þvermál. En Adonis (SVEPPAGREIFINN rakst líka nýlega á grjótið í Andrés blaði) var uppgötvaður af belgíska (tilviljun?) stjörnufræðingnum Eugène Joseph Delporte í febrúar árið 1936. Hergé hefur ákveðið að koma honum fyrir í sögunni og það er því líklega best að hafa mynd af þeim kalli hér.
En Í myrkum mánafjöllum eru einmitt nokkur fleiri sambærileg tilfelli. Á blaðsíðu 18 hefði til dæmis verið hægt að finna annað atvik í bókinni sem klippt var út úr upprunalegu útgáfunni í Le Journal de Tintin. Við munum eftir því að nokkrum blaðsíðum fyrr höfðu Skaftarnir fengið kast af Blú-blú-veikinni alræmdu (sjá Svarta gullið) sem gerði það að verkum að hárvöxtur þeirra jókst til mikilla muna á fáeinum andartökum. Þannig þekkjum við það líka hvernig Tinni og Kolbeinn höfðu verið að dunda sér við að klippa þá félaga til skiptis á dauðum punktum í bókinni. Í upprunalegu sögunni var þó eitt atvik í viðbót sem tengdist þessari stórundarlegu hárvinnu. Efsta myndaröðin á blaðsíðunni hér fyrir neðan kom fyrir í bókaútgáfunni en svo tók við önnur atburðarrás.
Hárvöxtur Skaftanna kallar á þau vandamál að Kolbeinn og Tinni þurfa að taka það til bragðs að koma hárinu frá borði svo geimflaugin fyllist hreinlega ekki af þessum óskemmtilega úrgangi. Þeir safna saman hárinu og setja það í þartilgerða ruslalúgu, sem staðsett er í flauginni, en hún er útbúin á þann hátt að sá úrgangur sem hent er í hana fer væntanlega fyrst í lokað loftþétt hólf og endar svo úti í geimnum. Kolbeinn tekur hins vegar ekkert eftir því að Tobbi greyið hefur lagt sig í mjúkri hárhrúgunni á gólfinu og hendir hundinum út um lúguna eins og hverju öðru rusli. Kafteinninn minnist þó á að honum finnist hárskammturinn mun þyngri en sá sem hann var þegar búinn að henda en þeir Tinni verða þó einskis varir fyrr en ýlfur Tobba bergmálar upp úr lúgunni.
Tinni stekkur þegar til og nær á síðustu stundu taki á Tobba, með aðstoð Kolbeins, og bjargar honum frá því að hverfa á óendanlegt flug út í geiminn. Þrjár síðustu myndirnar í neðri myndaröðinni komu fyrir í bókaútgáfunni en þar birtust þær hins vegar í beinu framhaldi af þeirri sem sleppti af síðunni á undan.

Þriðji og síðasti hluti þessa kafla sem fjallar ævintýri Tinna á tunglinu verður birtur hér á Hrakförum og heimskupörum í næstu viku.