15. október 2021

190. VIGGÓ Á VEIÐUM

Það kemur fyrir öðru hvoru að sjaldgæfar teikningar frá helstu listamönnum belgísk/franska myndasögusvæðisins dúkki óvænt upp og eru boðnar til sölu á þartilgerðum vettvöngum. Uppruni þessara mynda er af margvíslegum toga. Stundum gerist það að teikningarnar finnast í gömlum skjalasöfnum, sumar koma úr einkaeigu þar sem viðkomandi listamaður hefur gefið gömlum vini, ættingja eða jafnvel aðdáanda einhverjar skissur á blaði og í rauninni geta þessar myndir hafa komið hvaðan sem er. Þarna eru safnarar að selja dýrgripi sína, eitthvað kemur úr dánarbúum, sumum hefur jafnvel verið stolið einhvern tímann á árum áður og svo eru þessar óvænt fundnu teikningar sem enginn virðist vita hvaðan koma og ekkert er vitað um uppruna þeirra. Sjálfsagt er einnig stór hluti þessara mynda falsaðar þar sem óvandaðir aðilar reyna að koma sviknum verkum í verð. Uppboðsvefir, sem taka að sér að selja þessa gripi, hafa yfir að ráða sérfræðingum sem starfa við að verðmeta þessar teikningar. Þá er eitt helsta hlutverk þeirra auðvitað einnig að kanna hvort um falsanir séu að ræða með því að sannreyna uppruna þeirrra. SVEPPAGREIFINN hefur aðeins minnst á gamlar teikningar, í fáeinum færslum hér á síðunni, sem komið hafa fram í sviðsljósið í seinni tíð. Og þar er skemmst að minnast blaðs með skissum af Viggó viðutan og ungfrú Jóku í frekar óhefðbundnum athöfnum sem sjá má í færslu hér. En það er einmitt teikning af svipuðum toga og úr sömu átt sem SVEPPAGREIFINN ætlar að eyða færslu dagsins í.

En fyrir rúmlega þremur árum birtist einmitt á uppboðsvef einum í Frakklandi (Auction.fr) svolítið subbuleg pappírsörk, með gömlum brandara um Viggó viðutan, sem boðin var til kaups. Þessi óvenjulega örk var reyndar útklippt blaðsíða númer þrjú úr 1883. tölublaði myndasögutímaritsins SPIROU sem kom út fimmtudaginn 16. maí árið 1974 og á henni mátti meðal annars sjá kámuga bletti sem við fyrstu sýn gætu einfaldlega virst vera kaffislettur. Þessi blaðsíða hafði verið klippt út úr tímaritinu og límd á venjulega hvíta pappírsörk af stærðinni A4 og neðst á blaðinu voru handskrifuð skilaboð með penna. Þessar upplýsingar allar væru í sjálfu sér ekkert í frásögu færandi nema fyrir það að úr neðstu myndaröðinni höfðu verið klipptir út tveir af upprunalegu myndarömmunum og inn í eyður þeirra hafði verið bætt við tveimur yngri teikningum. 

Áður en lengra er haldið er þó líklega rétt að staldra eilítið við og sýna fyrst upprunalegu blaðsíðuna í heild sinni eins og hún birtist í SPIROU tímaritinu þennan vordag árið 1974.

Í stuttu máli fjallar þessi brandari um það að vinur okkar Viggó viðutan fær lánaða gamla myndavél frá Snjólfi samstarfsmanni sínum. Hann ætlar að fara með ungfrú Jóku að veiða og fær örugglega tækifæri til að smella þar af nokkrum myndum á vélina. Í veiðiferðinni vill Jóka að Viggó taki mynd af þeim saman og hann kemur því myndavélinni fyrir á gömlum trjábol og setur tímastilli hennar á tíu sekúndur. Síðan hraðar hann sér aftur til Jóku en á leiðinni kemur eitthvað fát á hann sem endar með því að hann steypist á hausinn í þann mund sem vélin smellir af. Myndirnar tala auðvitað sínu máli en á síðasta myndarammanum sést Snjólfur hrósa ungfrú Jóku fyrir hinn stæðilega afla og vísar þar í ljósmyndina framkallaða fyrir aftan sig. SVEPPAGREIFINN var reyndar alveg með það á hreinu að þennan brandara væri að finna í einhverjum af íslensku bókunum um Viggó viðutan - svo kunnuglegur var hann. En svo reyndist þó ekki vera. Hins vegar komst hann að því að brandarann væri að finna á frummálinu í Viggó bókinni Lagafe mérite des baffes, sem einmitt er að finna í bókahillum hans, og auðvitað hafði SVEPPAGREIFINN margoft flett þeirri bók. Íslenskir myndasögulesendur verða því að bíða í nokkur ár eftir að 13. bindið í seríunni um Viggó viðutan komi út hjá Froski útgáfu. 

En snúum okkur aftur að hinni merkilegu pappírsörk af uppboðsvefnum.

Eins og sést á þessari mynd eru hinir áðurnefndu rammar úr neðstu myndaröðinni í óvenjulegri kantinum. Í stað þess að Viggó standi á haus, á því augnabliki sem vélin smellir af, grípur hann óvart utan um Jóku og flettir hana óviljandi klæðum í sömu mund svo eftir stendur hún allsnakin!

Ungfrú Jóka er svo sem ekkert að kippa sér mikið upp við þessu óvænta slysi og virðist meira að segja láta sér það í nokkuð léttu rúmi liggja. Hún hrópar jafnvel upp yfir sig, "AAAHHH ... HERRA VIGGÓ!" og er bara nokkuð kát á svipinn. En Viggó bregst aftur á móti frekar vandræðalegur við með hefðbundinni upphrópun sem samsvarar, "ÚPS! HANANÚ?!" Á seinni myndinni, sem skipt hafði verið út, er Viggó hins vegar mættur í framköllunarþjónustu í ljósmyndavöruverslun þar sem glaðhlakkalegur afgreiðslumaðurinn lýsir yfir ánægju sinni yfir veiði dagsins á svipaðan hátt og Snjólfur á upprunalega brandaranum. Viggó sjálfur er aftur á móti hálf skömmustulegur á svipinn.

Á uppboðsvefnum kom það fram að umræddar tvær viðbætur væru teiknaðar með penna og trélitum og að þær væru eftir André Franquin sjálfan. Vakin var athygli á hinum handskrifaða texta fyrir neðan en hann var sagður eftir listamanninn sjálfan og skýrir sögu þessa plaggs. Samkvæmt samanburði á rithöndum eru sterk líkindi til þess að textinn sé frá Franquin kominn. 

Það er víst til lítils að rýna í óskiljanlega, handskrifaða frönsku en þegar þessum texta er snarað sem snöggvast upp á íslensku væri þýðingin á honum í megindráttum eitthvað á þessa leið:

Kæri Jean. Hérna er þessi Viggó brandari eins og hann átti alltaf að vera. Vegna SPIROU varð þó að ... milda hann aðeins. Nú ert þú hinn eini raunverulegi eigandi að Viggó brandara númer 806 eins og hann átti upphaflega að vera. Með bestu kveðjum.

Samkvæmt þessum skilaboðum átti 806. Viggó brandari Franquins því upphaflega að líta svona út. Útgefandi SPIROU tímaritsins, sem var Dupuis, hafi þó komið í veg fyrir að hann birtist í þessu formi í tímaritinu og óskaði eftir því við Franquin að hann breytti honum. Það gerði hann og endanlega útgáfan, eins og við sjáum hana hér ofar í færslunni, birtist að lokum í blaðinu. Einhvern tímann seinna hefur listamaðurinn svo útbúið þessa útgáfu af brandaranum með því að líma myndirnar tvær inn í úrklippu af SPIROU blaðinu og gefið þessum Jean. Nafn eða undirskrift André Franquin kemur þó hvergi fram á þessu plaggi og engin gögn þar eru með staðfestingu á því að hann hafi sjálfur skrifað þessi skilaboð. Sjálfsagt eru þó allar nauðsynlegar upplýsingar og staðreyndir um uppruna skjalsins á hreinu þó þær séu ekki lengur aðgengilegar á sjálfum uppboðsvefnum. Uppruni arkarinnar hlýtur alla vega hafa verið staðfestur með einhverjum hætti því að öðrum kosti hefði hún varla verið boðin upp á þeim vettvangi. Í það minnsta er hvergi minnst á þann möguleika að blaðið gæti verið falsað og einnig virðast að minnsta kosti tveir fyrrum samstarfsmenn Franquins staðfesta upprunalegu útgáfu þessa brandara hans. Ekki kemur fram hvað varð um þessa pappírsörk eða hvort hún yfirhöfuð seldist á uppboðsvefnum. Hvenær Franquin útbjó plaggið er einnig óljóst en tæknilega gæti hann hafa gert það frá því stuttu eftir að þetta 1883. tölublað kom út árið 1974 og allt til þess dag sem hann lést í byrjun árs 1997. Og þá er líka spurningin hver þessi Jean var (er?). Það er reyndar mjög óljóst en einhverjar kenningar eru um að Jean þessi gæti hugsanlega hafa verið listamaðurinn Jean Roba sem þekktastur var fyrir myndasögurnar um Boule og Bill. Þeir Franquin og Roba voru góðir vinir, störfuðu báðir hjá SPIROU og unnu meðal annars saman að nokkrum sögum um Sval og Val. Roba lést árið 2006.

Það er alla vega ljóst að André Franquin hefur verið mjög gamansamur og kannski ekki alveg við eina fjölina felldur í fjölbreytilegri listsköpun sinni. Þessi ljósblái Viggó brandari og hinar erótísku myndir hans af þeim Viggó og ungfrú Jóku bera alla vega vott um töluverðan neðanbeltis-húmor. Eflaust hefur fleirum slíkum listaverkum verið kastað á milli hinna frjóu listamanna sem störfuðu þarna á SPIROU tímaritinu á sínum tíma þó þær kæmu auðvitað aldrei fyrir augu lesenda blaðsins. Það er svo sem ekki ætlun SVEPPAGREIFANS að fara að dæma Franquin sem einhvern perra eftir þessum brandara og jafnframt frábiður hann sér sjálfur allar ásakanir um kvenfyrirlitningu, klámþörf eða öðru því sem viðkvæmum lesendum gæti dottið í hug við birtingu þessa efnis. Þessa útgáfu af brandararnum ber eingöngu að líta á sem skemmtilega viðbót, við persónuna Franquin, sem vekur mann til umhugsunar að hann hafi þrátt fyrir allt verið mannlegur.

6. maí 2021

189. AFSAKIÐ HLÉ!

SVEPPAGREIFINN, sem undanfarin ár hefur helgað sér ritstörfum í þágu myndasöguvísindanna, hefur nú ákveðið að gera svolítið hlé á þeim vettvangi um sinn. Hann stefnir þó á að mæta aftur til leiks, úthvíldur, endurnærður á líkama og sál (og að sjálfsögðu bólusettur), þegar líða tekur á haustmánuðina. Á meðan geta myndasöguþyrstir lesendur dregið fram Tinna, Lukku Láka og Sval og Val bækurnar sínar eða dundað sér við að gramsa í gömlum færslum SVEPPAGREIFANS.

2. apríl 2021

188. TINNI OG SVALUR REITA SAMAN RUGLUM SÍNUM

Í gær var 1. apríl og í dag Föstudagurinn langi. Það er því við hæfi að bjóða upp á tengt efni í tilefni hins fyrrnefnda. En þeir Georges Prosper Remi og André Franquin, kannski betur þekktir sem myndasöguhöfundarnir Hergé og Franquin, voru miklir snillingar. Báðir voru þeir Belgar og tilheyrðu frábærum hópi listamanna sem voru í forsvari hvor svolítið fyrir sínum teiknistíl. Hergé var kunnur fyrir sinn þekkta hreinna línu stíl (ligne claire) en Franquin aðhylltist meira (ligne atome) sem bauð upp á mýkri línur og meiri hraða og læti. Þeir voru auðvitað samtímamenn, þó Franquin hafi verið talsvert yngri og Hergé hafi því verið fyrirmynd hans í upphafi ferilsins. Þeir voru reyndar báðir aðdáendur hvors annars og Hergé hafði sérstaklega miklar mætur á verkum Franquins. Og þar sem Hergé var eldri, var hann einnig nær þeim frumkvöðlum sem sköpuðu sjálfa myndasögulistina í upphafi. Franquin tilheyrði hins vegar nokkrum hópi listamanna, landa þeirra, sem sótt höfðu menntun sína, reynslu og stíl til Ameríku. Í þeim hópi voru einnig frábærir listamenn eins og Jijé, Morris og franski handritshöfundurinn Goscinny sem allir urðu frægir seinna fyrir verk sín. En í þessari færslu ætlar SVEPPAGREIFINN aðeins að fjalla um þá snillingana Franquin og Hergé velta sér eilítið upp úr sköpunarverkum þeirra á ýmsan hátt.
Það er eitt og annað forvitnilegt sem SVEPPAGREIFINN (og vafalaust líka einhverjir fleiri) hefur stundum velt fyrir sér varðandi þessa tvo snillinga. Hvernig hefðu til dæmis myndasögur þessara tveggja listamanna, Hergé og Franquin, þróast ef þeirra helstu afsprengi hefðu víxlast? Þá er SVEPPAGREIFINN að sjálfsögðu að meina hvernig myndasöguhetja Tinni hefði orðið í höndum Franquins og svo auðvitað á móti hvernig Svalur og Valur hefðu þróast hjá Hergé. Og úr því minnst er á sögurnar um Sval og Val þá má einnig nefna að enn áhugaverðara hefði auðvitað verið sjá Viggó viðutan í meðförum hans. Allt væri þetta að sjálfsögðu með stíl, húmor og hugmyndaflug listamannanna í huga. Það er svo sem tilgangslaust að vera að velta sér upp úr hlutum sem ekki er hægt að sannreyna en samt væri áhugavert að geta séð fyrir sér hvernig slík hlutverkaskipti hefðu gengið upp. Þó hugmyndin sé áhugaverð er SVEPPAGREIFANUM ekki kunnugt um hvort einhver lipur teiknari hafi reynt fyrir sér með þetta efni af einhverri alvöru.
Það er reyndar svolítið erfitt fyrir SVEPPAGREIFANN að sjá þá Sval og Val fyrir sér sem aðalsöguhetjur í myndasögu eftir Hergé. Þeir félagar hefðu líklega orðið ósköp flatir og óáhugaverðir í hans höndum enda var stíll Hergés heldur raunsæislegri og formfastari en Franquins. Það hefði þó ekki verið neitt við listamanninn sjálfan að sakast. Seríurnar eru einmitt mjög ólíkar og Tinna bækurnar eru svo frábærar vegna þess að það var Hergé sem teiknaði þær. En það er aftur á móti skoðun SVEPPAGREIFANS að Franquin hefði getað gert allt að gulli sem hann snerti. Tinni sjálfur væri þó væntanlega áfram frekar litlaus í höndum Franquins. Og líklega sæi maður hann frekar fyrir sér sem týpu með skapgerð Svals en með útlitið í ætt við Júlla í Skarnabæ. En margir af samferðarmönnum Tinna hefðu hins vegar getað orðið mjög áhugaverðir í meðförum Franquins. Bæði Kolbeinn kafteinn og prófessor Vandráður bjóða upp á ýmsa skemmtilega möguleika og eins hefði Vaíla Veinólínó vafalítið einnig fengið viðeigandi meðferð hjá honum. Þau eru öll nokkuð hressilegar týpur og Franquin hefði vafalítið pimpað þau, með sínum óreiðukennda stíl, enn betur upp en Hergé gerði. Þau hefðu jafnvel getað gengið upp í bröndurunum um Viggó viðutan. Hann hefði bara þurft að finna viðeigandi hlutverk fyrir þau þar.
Á sjötta og sjöunda áratuginum var útgáfa beggja stóru myndasögutímaritanna, Le Journal de Tintin og Le Journal de Spirou, í Belgíu í gríðarlegri uppsveiflu og vinsældir þeirra á hápunkti sínum. Þetta var á blómaskeiði fransk/belgísku teiknimyndasagnanna og þótt blöðin væru svarnir keppinautar á myndasögumarkaðnum þá ríkti samt ákveðin virðing þeirra á milli. Það voru til dæmis óskráð lög hjá þeim að sömu listamennirnir væru ekki að vinna fyrir bæði blöðin í einu, þó það kæmi alveg fyrir að fólk færði sig um set yfir á hitt blaðið frá báðum aðilum. Vorið 1965 kviknaði sú hugmynd, hjá fáeinum listamönnum sem störfuðu hjá blöðunum, að brjóta aðeins upp þessa stífu keppnisímynd þeirra og koma á sameiginlegu grínverkefni í tengslum við einmitt 1. apríl þetta ár. Þessi hugmynd gekk út á það að keppinautarnir tveir breyttu forsíðum sínum á þann hátt að þeir aðlöguðu sig að stíl og skipulagi hvors annars. Með öðrum orðum, útlitslega leit Le Journal de Tintin út eins og SPIROU og SPIROU leit út eins og Le Journal de Tintin þennan dag - 1. apríl árið 1965.
Tinna tímaritið var með brandara á sinni forsíðu sem svipaði til Viggós viðutans en um þetta leyti var SPIROU blaðið venjulega með hann á forsíðu sinni. Fyrir ofan brandarann var síðan blá skuggamynd af Sval. Uppsetningin á forsíðu SPIROU blaðsins leit hins vegar út eins og þá var dæmigert fyrir Le Journal de Tintin, stór heilsíðumynd í teiknistíl blaðsins og með miklum hasar. SPIROU gekk jafnvel svo langt að að breyta blaðahaus tímaritsins (sem sýnir lógó þess) og aðlagaði það að blaðhaus keppinautanna eins og það hafði litið út fáeinum vikum fyrr.
Og að öðru þessu tengt. Í SPIROU blaði númer 4078, sem kom út í júní árið 2016, var mikið af skemmtilegu efni og meðal þess var til dæmis upprifjun á aprílgabbi tölublaðsins sem komið hafði út þann 1. apríl árið á undan. Þar hafði birst myndasaga, um Sval, sem leit út fyrir að vera eldgömul og lesendum var talin trú um að hún væri eftir Rob-Vel. Aprílgabbið gekk út á það að þessi myndasaga hefði óvænt fundist og átti aldrei að hafa birst opinberlega áður en það var franski teiknarinn Fred Neidhardt sem átti heiðurinn að þessari fölsun. Í þessu sama blaði var einnig birt gabb sem sýna átti fram á að þeir Hergé og Franquin hefðu ætlað að ganga lengra með hinu áðurnefnda aprílgabbi frá árinu 1965. Sagan átti að hafa verið á þá leið að þá hefði langað til að birta, í blöðunum tveimur, einnar blaðsíðu sameiginlegan myndasögubrandara þar sem helstu söguhetjur listamannanna rugluðu saman reitum sínum. Listamennirnir tveir hefðu í sameiningu átt að hafa verið búnir að leggja drög að þessum brandara og rissa upp í blýantsformi en ennþá hefði þó verið eftir að fullteikna hann og lita. En ritstjórar tímaritanna tveggja hefðu hins vegar gert þann draum að engu og skotið hugmyndina niður strax í fæðingu. Ekkert hefði orðið úr þessum fyrirætlunum þeirra Hergé og Franquin og blýantsskyssurnar hefðu verið lagðar til hliðar og varðveittar í skjalasöfnum Dupuis útgáfunnar sem gaf út SPIROU blaðið.
Þetta var að sjálfsögðu allt saman haugalygi og blaðið með teikningum Hergé og Franquin hafði auðvitað aldrei verið til. Áðurnefndur Fred Neidhardt (sá sem gerði Rob-Vel fölsunina) sá einnig um að teikna þessar skyssur á nokkuð sannfærandi hátt og það heppnaðist líka svona ágætlega. Helstu persónurnar eru rissaðar upp, hver með sínum upprunalega teiknistíl, og þess var jafnvel gætt að söguhetjurnar væru ekki teiknaðar með sömu ritföngunum líkt og listamennirnir hefðu skipt með sér verkum. Gulnað límband átti meira að segja að auka á trúverðugleika teikninganna.
Það er rétt að taka það fram að þessi útfærsla af myndasögunni hér fyrir ofan hefur verið uppfærð með enskum texta og kemur af hinni frábæru vefsíðu spiroureporter.net. Sú síða hefur einmitt sérhæft sig í gegnum tíðina með fréttum af Sval á ensku. En eins og sjá má á hinum meinta brandara byrjar hann á því að óðamála Sveppagreifinn er í símanum að tala við Sval og segja honum frá því að stórhættulegum sveppum hafi verið stolið frá honum. Í miðjum klíðum hringir dyrabjallan hjá Sval og þar er sjálfur Tinni mættur og tjáir honum að þeir Rassópúlos og Zorglúbb hafi sameinað krafta sína með heimsyfirráð í huga. Þeir Svalur og Tinni þjóta þegar af stað til bjargar en er strax ljóst að þeir eru of seinir þegar risastór blaðra, með táknum þeirra Zorglúbbs og Rassópúlosar, blasir við þeim úti á götu. Skyndilega birtist hið ógnvænlega glæpapar fyrir aftan þá og hóta þeim því að blaðran muni springa og dreifa um andrúmsloftið gasi sem gerir alla jarðarbúa að hlýðnum þrælum þeirra. Hins vegar eiga báðir glæpamennirnir að vera svo uppfullir af mikilmennskubrjálæði að þeir fara að rífast og síðan slást yfir metingi um það hvor þeirra sé nú meiri glæpon! En ekki hvað?! Tinni og Svalur eiga því nokkuð hæg heimatökin við að afvopna félagana á fljótlega hátt en þá kemur auðvitað í ljós að þarna er um að ræða þá Flosa Fífldal og Viggó viðutan með grímur. Þá voru þeir með svona ansi líka skemmtilegt aprílgabb.
Þegar grannt er að gáð sést að þessi fölsun er svo sem ekkert stórkostlegt myndlistaafrek og augljóslega hefur ekki verið kafað mjög djúpt í metnað þess sem það innti af hendi. Fred Neidhardt hefur eflaust nýtt eitthvað af listhæfileikum sínum við verkið en skyssurnar eru þó að mestu byggðar á afritum af stökum myndum af sögupersónunum úr bókunum um þær. Sem dæmi um það ku myndin af Sval, þessi sem er lengst til vinstri í þriðju röð, vera byggð á myndaramma af blaðsíðu 20 úr hinni frábæru bók Neyðarkalli frá Bretzelborg. Úr sömu sögu eru einnig myndirnar tvær lengst til hægri úr efstu röð. Fyrri myndin, þar sem Svalur og Pési drífa sig til dyra, er byggð á ramma sem er efst á blaðsíðu 3 í áðurnefndri bók en hin myndin kemur af blaðsíðu 4 úr sömu sögu. Nú geta lesendur dundað sér við að leita uppi þessa myndaramma til að bera þá saman. Og ef þeir hafa nákvæmlega ekkert annað að gera geta þeir einnig dundað sér við að fletta í gegnum allar Sval og Val bækur Franquins og leitað að afgangum af myndunum. SVEPPAGREIFINN hefur reyndar grun um að þær komi flestar úr þessari sömu bók - Neyðarkalli frá Bretzelborg. Þessi hugmynd er raunar stórskemmtileg en mest gaman væri þó ef einhver handlaginn teiknari tæki sig til og lyki hinu hálfkláraða verki. Það ætti varla að vera mikið mál að ljúka þessa vinnu sómasamlega þó þetta sé ekki alvöru Tinna eða Sval saga. Það breytir því ekki að það er gaman að sjá þá Tinna og Sval rugla saman reitum sínum jafnvel þó þurft hafi falsanir til.
 
En SVEPPAGREIFINN ætlar að ljúka þessari færslu með því að birta skemmtilegan brandara, eftir náunga sem kallar sig Ferrandez, þar sem hann sameinar hvorki meira né minna en þá Viggó viðutan og Tinna í stuttum myndasögubrandara í anda Viggós.
Þessi brandari kemur reyndar úr þekktri bók sem nefnist Baston, la ballades des baffes og fjallar um einhvers konar hliðarsjálf Viggós (Gaston) sem heitir Baston. Margir hafa eflaust heyrt talað um hina frægu Viggó bók númer 5 (R5) sem aldrei kom þó út hjá Dupuis vegna mistaka hjá útgáfufélaginu. Og í Sval og Val bókinni Furðulegar uppljóstranir (La jeunesse de Spirou), eftir þá Tome og Janry, er meira að segja stutt saga þar sem þetta týnda hefti kemur við sögu. En árið 1983 gaf Jacques Goupil útgáfan út grínútgáfuna um Baston sem átti að fylla í skarðið fyrir þessa týndu bók. Fjöldi kunnra teiknara komu að þessu verkefni en ýmsar skemmtilegar útfærslur af Viggó/Gaston (Baston) má finna í þessari safnbók. Baston, la ballades des baffes er einmitt í anda bókar, sem SVEPPAGREIFINN varð sér út um fyrir nokkrum árum í Sviss og segir frá andhetjunni Rocky Luke, og nefnist Banlieue West. Sú stórskemmtilega bók fjallar um hliðarsjálf Lukku Láka og var aðeins minnst á hana í þessari færslu hér. Kannski á SVEPPAGREIFINN eftir að kryfja þá bók aðeins við tækifæri seinna.
 
Já og gleðilega páska.

19. mars 2021

187. ÓÚTGEFIÐ HLIÐARSPOR ALLA, SIGGU OG SIMBÓ

Fyrir ekki svo löngu síðan birti SVEPPAGREIFINN færslu hér á Hrakförum og heimskupörum þar sem teknar voru fyrir fáeinar hugmyndir að Tinna sögum sem aldrei urðu að veruleika. Um það allt saman má lesa í færslu hér þar sem fjallað er um eitt og annað um týnd Tinna handrit. Þarna var grúskað í ýmsu efni sem Hergé hafði lagt drög að, sem tilvonandi ævintýrum með Tinna, en komust þó aldrei á þau stig að verða að einhverri alvöru. Þessar hugmyndir allar komust á misjafnlega löng komin stig. Þekktust er auðvitað síðasta sagan, Tintin et l'Alph-Art, sem Hergé var að vinna að þegar hann lést en af öðru efni skal nefna sögu sem hann nefndi Tintin et le Thermozéro. Árið 1960 hafði Tintin au Tibet (Tinni í Tíbet) verið nýkomin út í bókarformi þegar Hergé hóf fyrir alvöru undirbúning að næstu sögu. Fæðing þess handrits varð þó reyndar nokkuð erfið. Hergé hafði fengið hugmynd til að byggja á en grunnurinn að henni hafði orðið til eftir að hann hafði lesið grein í franska tímaritinu Marie-France árið 1957. Þar sagði frá bandarískri fjölskyldu sem hafði orðið fyrir geislun fyrir slysni en fólkið var reyndar fórnarlamb þarlendra yfirvalda við tilraunir með geislavirk efni. Greinin var því í raun uppljóstrun, á þessum leynilegu tilraunum, og var eftir blaðamanninn Philippe Labro. Af þessari afhjúpun blaðsins varð heilmikið hneyksli sem bandarísk yfirvöld reyndu að þagga niður eftir bestu getu. Hergé varð hins vegar mjög heillaður af þessari frásögn og hugðist nota sér hana að einhverju leyti sem grunn að nýrri Tinna sögu. 

Hergé komst þó fljótlega í þrot með hugmyndina og tveimur árum seinna ákvað hann að fá Jacques Martin, höfund seríunnar um Alex hugdjarfa og samstarfsmann sinn hjá teiknimyndatímaritinu Le Journal de Tintin, til að hjálpa sér við að bæta handritið. Hergé varð þó ekki heldur sáttur við þá útfærslu og fékk því næst Greg (Michel Régnier), sem starfaði þá hjá Hergé Studios, til að vinna almennilegt handrit upp úr gögnunum. Í dag er Greg þekktastur fyrir myndasögur sínar um Achille Talon (Alla Kalla) og handritsvinnu að nokkrum sögum um Sval og Val. Greg, sem líklega er óhætt að fullyrða að hafa verið ofvirkur, skrifaði fyrir hann tvö handrit sem hann kaus að nefna Les Pilules og Tintin et le Thermozéro og skilaði honum tveimur dögum síðar. Hergé valdi hið síðarnefnda enda var handritið talið mjög gott og hann hóf að teikna upp söguna samkvæmt því. Verkefnið féll hins vegar um sjálft sig þegar Hergé áttaði sig á því að hann yrði aldrei ánægður með Tinna sögu sem væri eftir einhvern annan handritshöfund en hann sjálfan. Reyndar voru það óskráð lög hjá Hergé Studios að Hergé einn væri ávallt skrifaður fyrir sögum sínum þó fjölmargir aðrir aðilar kæmu yfirleitt að verkefnunum. Það hefði því eflaust litlu breytt þótt handrit Gregs hefði verið notað en handritshöfundurinn fékk alla vega vel greitt fyrir viðvikið.

Hergé hafði þó byrjað að teikna upp söguna eftir handritinu og fyrstu átta blaðsíðurnar eru til í nokkuð endanlegri mynd þó þær séu ekki fullteiknaðar. Þá mun hann hafa rissað upp nokkrar grófar heildarútfærslur af sögunni eftir handritinu en engin þeirra var þó komin lengra en á blaðsíðu fjörtíu og þrjú. Löngu seinna komu fram gögn með upplýsingum um að Hergé hefði gert ráð fyrir að andi Kalda stríðsins yrði áberandi í sögunni og atburðarrás hennar myndi berast alla leið til Berlínar. Um söguþráð Tintin et le Thermozéro má lesa meira um í áðurnefndri færslu SVEPPAGREIFANS frá síðasta sumri. En í stað Tintin et le Thermozéro hóf Hergé nú vinnu að annarri sögu sem nefndist Les Bijoux de la Castafiore, sem við þekkjum sem bókina um Vandræði Vaílu Veinólínó, en sú saga kom fyrst út í bókarformi árið 1963. Handrit Gregs, sem var fimmtán blaðsíður að lengd, gleymdist þó ekki. Hergé fannst handritið býsna gott og tímdi ekki að fórna því og hugðist nýta sér það seinna, fyrir teiknimynd um Tinna, en ekkert varð heldur af þeim áformum. Að endingu varð því úr að hann fól félaga sínum, Bob de Moor hjá Hergé Studios, að aðlaga handritið að seríunni um Alla, Siggu og Simbó og hefja þar með vinnu við fjórðu söguna í þeim bókaflokki. Seríuna um þau hafði hann í raun sett á laggirnar, á fjórða áratuginum, eftir beiðni frá franska barnatímaritsinu Coeurs Vaillants. Ritstjóri blaðsins hafði óskað eftir nýjum og spennandi myndasögum frá Hergé þar sem venjuleg fjölskyldugildi væri ríkjandi og þannig hugsuð í anda kaþólskrar trúar. Hergé fannst hann þó alltaf vera of bundinn eða háður fjölskylduþemanu og hætti fljótlega að teikna þessar sögur enda var hann aldrei hrifinn af þessari seríu.

En þau Alla, Siggu og Simbó, eftir Hergé, þekkja íslenskir myndasögulesendur flestir líklega nokkuð vel. Reyndar komu ekki út hér á landi nema tvær af bókunum fimm úr bókaflokknum en sögurnar sjálfar voru þó í rauninni aðeins þrjár. Erfðaskrá auðkýfings og Kappflugið til New York voru þær bækur sem komu út hér hjá Fjölva útgáfunni veturinn 1978 og Þorsteinn Thorarensen þýddi þær. Á frummálinu nefnast þær Le Testament De Mr Pump (1951) og Destination New York (1951) en þetta voru einnig fyrstu tvær bækurnar í upprunalegu seríunni og mynduðu í raun heila sögu. Le "Manitoba" Ne Répond Plus (1952) og L'Éruption du Karamako (1952) komu næstar og mynduðu einnig eina heild en fimmta bókin var stök og nefndist La Vallée Des Cobras. Í ennþá meira framhjáhlaupi má kannski geta þess að sögurnar birtust þó upphaflega í annarri röð, bæði hjá tímaritunum Coeurs Vaillants og Le Petit Vingtiéme, á árunum 1936-39. Handrit Gregs að Tintin et le Thermozéro var því hugsuð sem fjórða sagan í bókaflokknum um Alla, Sigga og Simbó eða Jo, Zette og Jocko eins og þau heita á frummálinu. Bob de Moor byrjaði því að teikna upp söguna en lagði hana þó fljótlega á hilluna eftir að Hergé hafði falið honum öðrum brýnni verkefnum hjá Hergé studios. Í seinni tíð hefur þó komið fram að eitthvað hafi varðveist af þessu teikningum De Moor af sögunni. 

Nokkur sýnishorn af blýantsteikningum hans, ásamt skýringum og athugasemdum, birtust til að mynda í ævisögu Bob de Moor en hún var skrifuð Bernard nokkrum Tordeur sem seinna varð yfirskjalavörður hjá Hergé studios. Það hefur auðvitað enginn hugmynd um hver í ósköpunum sá gaur var. En Tordeur þessi skýrði síðar frá því í viðtali að Bob de Moor hefði í raun og veru teiknað upp alla söguna Thermozéro með þau Alla, Siggu og Simbó í aðalhlutverkunum. Ekki hefði þó verið um að ræða fullteiknaða og unna sögu heldur væri hún frekar rissuð upp í grófum dráttum en þó þannig uppsett að tiltölulega einfalt væri að teikna hana upp í endanlegu formi og gefa út. Þá væri einnig auðveldlega hægt að gefa söguna út með skýringum af svipuðum toga og Tintin et l'Alph-Art. Aðspurður af hverju þessar upplýsingar hefðu ekki komið áður fram kvaðst Bernard Tordeur einfaldlega aldrei hafa verið spurður um þær enda hefðu sögurnar um Alla, Siggu og Simbó ekki þótt merkilegar og auðvitað aldrei verið jafn hátt skrifaðar og Tinni. Augljóslega hefur handrit Gregs þó ekki gengið upp með þessum nýju sögupersónum án töluverðra breytinga. Það gefur auga leið að handritið hafi þurft að aðlaga að nýjum og breyttum aðstæðum. Alli, Sigga og Simbó eru ekki Tinni og Kolbeinn og sem dæmi um augljósa breytingu má nefna það að í byrjun upprunalega handritsins koma þeir Tinni og Kolbeinn akandi á bíl að vettvangi bílslyss. Alli og Sigga keyra auðvitað ekki bíl en það gera foreldrar þeirra hins vegar. Hér fyrir neðan má sjá tvö uppköst að fyrstu blaðsíðu sögunnar eins og Bob de Moor sá hana fyrir sér.

Á síðustu árum hafa öðru hvoru komið fram sögusagnir um að þessi Thermozéro saga muni verða gefin út í komandi framtíð í einhverju formi. Og getgátur hafa jafnvel verið um það að Alla, Siggu og Simbó útgáfan, eftir Bob de Moor, yrði þá fyrir valinu. Einhverjar þreifingar voru um þessa útgáfu en samkvæmt upplýsingum frá Casterman útgáfunni hafa þau áform þó verið sett á bið. Benoît Mouchart sem er útgáfustjóri Casterman vill óður og uppvægur gefa út Thermozéro söguna, hvort sem það yrði með Tinna eða Alla, Siggu og Simbó, en líkt og svo oft áður strandar það á leyfi frá rétthafanum Moulinsart stofnuninni. Þar ræður auðvitað ríkjum ekkja Hergé, Fanny Rodwell (og reyndar einnig núverandi eiginmaður hennar Nick Rodwell), og aðeins hún getur heimilað útgáfu af óloknum ævintýrum Tinna en nokkrar deilur hafa staðið á milli þessara tveggja aðila undanfarin ár. Fanny Rodwell hefur, allt frá því Hergé lést árið 1983, staðið föst á því að virða óskir hans um að ekki yrðu gefnar út fleiri Tinna bækur að honum látnum. Þó virðist sem hún hafi heldur mildast í afstöðu sinni gagnvart ýmsu er varðar útgáfurétt Tinna bókanna á undanförnum árum. Sem dæmi um það má nefna, frekar óvænt útspil Moulinsart, þegar gefin var heimild fyrir því að Tintin au pays des Soviets (Tinni í Sovétríkjunum) var loksins gefin út í litaðri útgáfu. Það þótti bera vott um ákveðna þýðu og í seinni tíð virðist sumum sem Rodwell hafi gefið undir fótinn með ýmsar fleiri eftirgjafir þó ekki komi fram hvað um þar er að ræða. 

En þó ný saga um Alla, Siggu og Simbó yrði í sjálfu sér aldrei einhver stórmerkilegur viðburður þá er ljóst að verkefnið hlyti að teljast nokkuð forvitnilegt vegna hinnar upphaflegu tengingu sögunnar við Tinna. Auk þess sem serían er auðvitað upp runnin frá Hergé. Það verður alla vega fróðlegt að sjá hvort eitthvað merkilegt gerist í þessum efnum í náinni framtíð.

5. mars 2021

186. ALLI KALLI LOKSINS KOMINN Í LEITIRNAR

Loksins tókst SVEPPAGREIFANUM að verða sér úti um eintak af hinni goðsagnakenndu myndasögu Alli Kalli í eldlínunni. Það er að vísu kannski töluvert orðum aukið að hér sé um að ræða goðsagnarkenndan grip en engu að síður hefur hann beðið eftir að komast yfir þessa bók, af nokkurri eftirvæntingu, í svolítinn tíma. Alli Kalli í eldlínunni fór svo sem ekkert mjög hátt hjá þeim íslensku myndasögulesendum sem drukku í sig þessar bókmenntir á árum áður en engu að síður hefur þessi bók verið svolítið erfið viðureignar fyrir SVEPPAGREIFANN að eignast. Hann rakst reyndar tiltölulega oft á bókina um Alla Kalla, hér áður fyrr, en var þá ekki mikið að hafa fyrir því að grípa hana með sér. Honum fannst ekki taka því að vera að eltast við þessa minni spámenn sem svo auðvelt var að nálgast. Og hann gaf sér ekki einu sinni tíma til að fletta bókinni í þau skipti sem hann rakst á hana. Alli Kalli í eldlínunni hafði nefnilega einhvern veginn lent svolítið utanveltu í flokki með ómerkilegri myndasögum eins og Stjána bláa, kettinum Felix og Bleika pardusinum. Þessar bækur allar hafa því í gegnum tíðina verið látnar mæta afgangi hjá SVEPPAGREIFANUM enda taldi hann alltaf frekar einfalt að finna þær og fannst ekkert bráðliggja á að troða þeim inn í safnið sitt í myndasöguhillunum. 

Fyrir fáum árum rakst hann hins vegar á myndasögur um hinn sjálfsumglaða Achille Talon á flóamarkaði úti í Sviss og áttaði sig strax á að þar var auðvitað um sjálfan Alla Kalla að ræða. Hann keypti því af forvitni tvær bækur með honum á frönsku og uppgötvaði, í framhaldinu af því, að Achille Talon hefði verið hugarfóstur belgíska handritshöfundarins og listamannsins Greg (Michel Régnier). Og þegar SVEPPAGREIFINN fór að gúggla þessar bækur enn frekar uppgötvaði hann að bókin Alli Kalli í eldlínunni er í sérstöku uppáhaldi hjá myndasögu-, bjór- og sagnfræðingnum kunna Stefáni Pálssyni. Það vakti auðvitað enn frekari forvitni hans og því tók nú við langt tímabil sem gekk út á það að reyna að eignast gott eintak af þessari merkilegu bók. Það hefur reyndar gengið svona upp og niður. SVEPPAGREIFINN hefur svo sem nokkrum sinnum rekið augun í þessa teiknimyndasögu, á ýmsum þar til gerðum vettvöngum, en einhverra hluta vegna alltaf farið á mis við nægilega gott eintak. Við eftirgrennslan þeirrar bókar hefur hann þó reyndar orðið sér úti um að minnsta kosti tvær bækur í viðbót úr þessari seríu á dönsku.

Að öðru leyti hafði leitin lítinn árangur borið þar til nú í byrjun árs. En þá fann hann loksins þetta líka fína eintak af Alla Kalla í eldlínunni í sjálfum Góða hirðinum - allra bestu bókabúðinni í bænum. Það var Fjölva útgáfan, með Þorstein heitinn Thorarensen í broddi fylkingar, sem gaf út þessa myndasögu fyrir jólin árið 1980. Þorsteinn sjálfur þýddi bókina en þetta varð reyndar eina teiknimyndasagan sem kom út í þessum bókaflokki um Alla Kalla á íslensku. En líklega hefur íslenskum myndasögulesendum ekki litist vel á þessa fyrstu sögu um kappann og þessi bók seldist augljóslega ekki nægilega mikið til að réttlæta frekari útgáfu bóka úr seríunni á íslensku. Fjölvi var þá búinn að klára og senda frá sér allar Tinnabækurnar og Lukku Láki naut einnig orðið mikilla vinsælda en auk þess voru bækurnar um Sval og Val á sama tíma að slá í gegn hjá bókaútgáfunni Iðunni. Einhvern veginn hefur Alli Kalli því lent undir í öllu þessu myndasöguflóði og bækurnar um hann urðu ekki fleiri hér á landi. Það voru reyndar fjölmörg dæmi um það að ein til þrjár bækur úr hverri seríu væru gefnar út á Íslandi áður en útgefendur þeirra gáfust upp. Stærð myndasögumarkaðsins var einfaldlega ekki burðugri en þetta hér á landi.

Eins og svo oft á þessum árum voru teiknimyndasögur á íslensku gefnar út í samfloti með prentunum á hinum Norðurlöndunum og Alli Kalli í eldlínunni kom einmitt líka út í Danmörku hjá Interpresse útgáfunni fyrir jólin árið 1980. Á dönsku heitir þessi myndasaga August Julius - Kaminpassiar og var önnur bókin í seríunni sem kom út þar í landi. Alls komu út fimm bækur um August Julius á dönsku á árunum 1979-82 en einnig kom út ein þykk vasabrotsbók í svipaðri stærð og Lukku Láka bókin Á léttum fótum. Þá hafa að minnsta kosti fjórar bækur úr seríunni komið út á norsku, þar sem Achille Talon kallast Julius Jensen, og á finnsku nefnist hann Akilles Jänne. Þar er reyndar svolítið óljóst hversu margar bækur úr seríunni um hann komu út. Þá má þess einnig geta að í Hollandi eru þessar myndasögur gríðarlega vinsælar og í heildina hafa fjörtíu bækur úr bókaflokknum komið þar út. Alls hafa bækurnar um Alla Kalla verið þýddar á ellefu tungumálum innan Evrópu en auk þess hefur serían einnig komið út í Indonesíu. Upprunalega heitið á Alla Kalla í eldlínunni er Achille Talon au coin du feu og hún kom út í Frakklandi árið 1975. 

Achille Talon birtist fyrst í 211. tölublaði myndasögutímaritsins Pilote þann 7. nóvember árið 1963. Hið franska Pilote hafði verið í nokkrum fjárhagserfiðleikum, fljótlega upp úr stofnun blaðsins árið 1959, en þegar Dargaud útgáfufyrirtækið tók yfir rekstur þess voru gerðar ýmsar breytingar til hins betra. Hluti af þeim breytingum fólust einmitt í aðkomu Achille Talon og á svipuðum tíma fór Blueberry (Blástakkur) einnig að birtast í tímaritinu. Í tilefni þess að myndasögurnar um Achille Talon hófu göngu sína í Pilote birti ritstjórinn, og handritshöfundurinn afkastamikli, René Goscinny lýsingu á þessari nýjustu persónu blaðsins í vikulegum pistli sínum. Þar sagði hann meðal annars að Achille Talon byggi yfir yfirgripsmikilli þekkingu sem jafnaðist á við alfræðiorðabók ... sem vantaði margar blaðsíður í! Upphaflega var það reyndar Goscinny sjálfur sem bað Greg um að skapa einhverja skemmtilega fígúru til uppfyllingar á síðum blaðsins þegar auglýsendur brugðust. Greg brást snöggt við og á aðeins fimmtán mínútum var hann búinn að fullvinna hugmyndina. Hann ákvað að endurskapa að einhverju leyti þekkta franska myndasöguhetju, frá fjórða áratug tuttugustu aldarinnar, sem kallaðist Monsieur Poche og var eftir Alain Saint-Ogan. Achille Talon er því að hluta til innblásinn af þeirri persónu í útliti en er reyndar mjög ólíkur honum að öðru leyti. 

Jafnframt því að í hverri viku birtust nokkrar blaðsíður með Achille Talon, í Pilote tímaritinu, var þeim safnað saman og þær einnig gefnar út í bókaformi eins og hefð var fyrir í fransk/belgiska myndasöguheiminum. Alls komu út hátt í 50 bækur með kappanum á frummálinu og nutu þær töluverðra vinsælda. Fram til ársins 1975 birtist Achille Talon reglulega, á einnar eða tveggja síðna bröndurum, í Pilote en upp úr því fóru einnig að koma fram heilar sögur með kappanum sem voru 44 blaðsíður að lengd. Hann varð fljótlega eitt af helstu flaggskipum blaðsins og svo mikilla vinsælda naut Achille Talon að á svipuðum tíma fékk hann jafnvel gefið út sérstakt tímarit sem var tileinkað honum einum. Það tímarit nefndist Achille Talon magazine og lifði reyndar ekki nema eitt ár, enda þótti það frekar lélegt, en aðeins komu út sex tölublöð af því. Helsta ástæða þess var þó gríðarleg verðhækkun á pappír sem varð í kjölfar þess að olíukreppan skall á um svipað leyti.

En Achille Talon er undarlegur náungi sem finnst ofboðslega gaman að tala og er þá um leið líka eiginlega alveg óþolandi. Hann er heimspekilega þenkjandi og uppfullur af ofmetnum hugmyndum um eigið ágæti en mest af því sem hann hefur fram að færa stýrist reyndar aðallega af innihaldslausu orðagjálfi. Sú munnræpa kemur helst fram í stórum, mörgum og yfirfullum talblöðrum sem fylla oft á tíðum vel upp í myndarammana. Það sem hann hefur helst fram að færa einkennist af fáguðu orðavali, oft krydduðu með menningatengdum og fræðilegum skírskotunum. Nánast allt sem hann segir er hluti af skemmtilegum en lúmskum orðaleikjum sem oft er reyndar erfitt að ná úr frummálinu. Stundum hefur jafnvel verið talað um að svo örðugt sé að átta sig á bröndurunum, í þessum orðaleikjum Achille Talon, að hreinlega þurfi að vera búið að endurlesa bækurnar nokkrum sinnum áður en þeir komast til skila. Þegar lesendur eru síðan loksins búnir að ná orðaleikjabröndurunum eru menn sammála um að sá húmor sé mjög fyndinn. Það er að segja ef hann er ekki of flókinn því það er víst ekki á allra færi að skilja hann. Þannig má kannski segja að myndasögurnar um Achille Talon séu mjög fyndnar þó lesandinn sé ekki alltaf endilega vel meðvitaður um það! Sjálfur sagði Greg einhvern tímann í viðtali að orðagjálfur Achille Talon væri innblásið af einum af eðlisfræðikennurum hans frá námsárunum en hann gat talað klukkutímunum saman í svipuðum anda. Þetta flókna myndasöguefni hefur þó skilað sér á einhvern hátt inn í franskar kennslubækur og meira að segja í nokkrar doktorsritgerðir í Frakklandi, Belgíu og Kanada. Það hefur því væntanlega verið erfitt fyrir Þorstein Thorarensen að reyna að koma þessum orðaleikjum til skila í þýðingunni hans á Alla Kalla í eldlínunni

Sögusvið Achille Talon er mikið til í kringum heimili hans, í úthverfi stórborgarinnar þar sem hann býr, og bókin Alli Kalli í eldlínunni gerist til dæmis nær eingöngu á þeim slóðum. Í nokkrum af bókunum um hann kemur fram að hann búi í París og framan á kápu bókarinnar Achille Talon au pouvoir, frá árinu 1972, má einmitt sjá hvar Eiffelturninum bregður fyrir í bakgrunninum. Annars kemur hann yfirleitt nokkuð víða við og er til dæmis duglegur að bregða sér í sveitaferðir úti í náttúrunni. Skrifstofan þar sem hann starfar er vinsælt sögusvið og einnig bakgarðurinn heima hjá honum og nágranna hans, Hilarion Lefuneste (hann heitir Faraldur á íslensku), sem kemur nokkuð oft við sögu. Lefunete þessi er í eilífum átökum við Achille Talon og reglulegur pirringur þeirra á milli er mjög áberandi í bókunum þó þess á milli séu þeir reyndar perluvinir. Fyrst og fremst byggjast þessi átök þeirra á hvössum orðaskiptum en iðulega eru þó hnefarnir einnig látnir tala. Þess má geta að persónuna Hilarion Lefuneste byggir höfundurinn Greg að miklu leyti á sjálfum sér. Af öðrum af helstu aukapersónum seríunnar má nefna foreldra hans, hinn bjórþyrsta alkóhólista Alambic Dieudonné Corydon Talon (kallaður Pápi) og móður hans maman Talon.

Acille Talon er einhleypur, býr hjá foreldrum sínum og það er því eðlilegt að að þau komi nokkuð við sögu seríunnar. Móðir hans, sem er gamaldags húsmóðir, ber mikla umhyggju fyrir honum, verndar hann eftir bestu getu og hefur stöðugar áhyggjur af líðan hans. Faðir hans er hins vegar af öðru toga. Þeir feðgarnir eru reyndar nokkuð líkir útlitslega utan gríðarlegrar rauðrar hormottu sem sá gamli skartar en lengra nær samlíkingin ekki. Hið yfirþyrmandi bjórþamb föður hans er meðal annars eitt þeirra atriða sem gera það að verkum að Achille Talon á lítið erindi við börn og hinir flóknu orðaleikir ýta ennfremur undir þá skoðun. Í rauninni er það óskiljanlegt að þessi myndasögupersóna hafi ratað í hið vinsæla Pilote tímarit sem var aðallega tileinkað frekar ungum markhópi. Achille Talon telst því klárlega til andhetja og brandararnir um hann minna um margt á Viggó viðutan þó persónurnar séu afar ólíkar. Báðir starfa þeir hjá útgáfufyrirtækjum. Viggó auðvitað hjá tímaritinu Sval (SPIROU) en Achille Talon starfar hjá dagblaðinu Polite (Kurteisi!) sem er auðvitað orðaleikur og afbökun á tímaritinu Pilote sem myndasögupersónan sjálf birtist einmitt í. Samstarfsfólk þeirra beggja verður auðvitað jafnan fyrir barðinu á aðalsöguhetjunum og hjá Polite er það sjálfur René Goscinny sem er ritstjóri blaðsins. Í þessum bókum er Goscinny reyndar teiknaður sem mjög lágvaxinn, skapvondur og tannhvass maður.


Svo föst varð þessi dvergsímynd hans í seríunni að það kom mörgum lesendum Achille Talon í opna skjöldu þegar þeir hittu Goscinny sjálfan í eigin persónu og uppgötvuðu að hann var í raun meðalmaður á hæð. Þá voru þeir Greg og André Franquin, höfundur Viggós viðutan, ágætir félagar og unnu saman við ýmis verkefni hjá SPIROU tímaritinu á sjötta og sjöunda áratug 20. aldarinnar. Hann var Franquin til dæmis innan handar við handritsgerð að nokkrum sögum um Sval og Val en einnig samdi hann fáein handrit um skötuhjúin Modeste og Pompon fyrir sama listamann. Franquin hafði leiðbeint Greg með teiknivinnu sína þegar sá síðarnefndi hóf störf hjá SPIROU á sínum tíma. Og Greg lét hafa það eftir sér löngu seinna að hæfileikar Franquins hefðu verið slíkir að hann hefði fundið fyrir algjörum vanmætti gangvart listamanninum snjalla. Greg hefði haft það á tilfinningunni að Franquin þyrfti að leiðbeina honum um hvorn endann á teiknipennanum hann ætti að nota, svo lélegur hafði honum sjálfum þótt hann vera í samanburðinum. Seinna heiðraði Greg vin sinn með því að teikna hann inn í eina af sögum sínum um Achille Talon.

Þá var Greg einnig aðalritstjóri Le Journal de Tintin (Tinna tímaritsins), á árunum 1965-74, jafnframt því að teikna Achille Talon í Pilote. Greg var auðvitað fyrst og fremst handritshöfundur og eftir hann liggja vel á annað hundrað sögur fyrir marga mismunandi listamenn. Sem dæmi um vinnu Greg má til dæmis nefna kvikmyndahandritið að Tintin et le lac aux requins (Tinna og hákarlavatninu) frá árinu 1972 og handrit fyrir Hergé að Tinna sögunni Tintin et le Thermozéro sem þó var aldrei teiknuð. Um þá sögu fjallaði SVEPPAGREIFINN meðal annars í færslu hér fyrir ekki svo löngu. Sjálfur hóf Greg feril sinn sem myndasöguteiknari og reyndi fyrir sér á ýmsum vettvangi þar en af þeirri vinnu allri urðu myndasögurnar um Achille Talon þó langþekktastur. Eftir hann liggja því um tvö hundruð og fimmtíu verk af ýmsum toga, bæði handritum og teiknivinnu, sem gera hann að einum af áhrifamestu listamönnum belgísk/frönsku myndasögugerðarinnar. Greg lést í október árið 1999.

Eftir að hafa gluggað svolítið í þessar myndasögur um Achille Talon (eða Alla Kalla) verður SVEPPAGREIFINN að játa að hafa orðið fyrir nokkrum vonbrigðum. Brandararnir eru svo sem alveg lipurlega teiknaðir og allt það, þó þeir séu reyndar engin listaverk, en grínið sjálft er ekki að heilla hann. Fyrr í færslunni er minnst á flókna orðaleiki þar sem Alli Kalli fer á kostum í munnræpu sinni og margir lesendur seríunnar lýsa yfir sérstakri aðdáun sinni á þeim. Auðvitað er SVEPPAGREIFINN ekki lesfær af neinu viti á frönsku en með aðstoð Greifynju sinnar tókst honum að stauta sig fram úr nokkrum bröndurum bóka sinna áður en hann gafst upp. Og sömu sögu má segja um dönsku útgáfurnar hans. SVEPPAGREIFANUM fannst húmorinn eiginlega bara þreytandi og honum þótti persónan Alli Kalli bæði leiðinleg og óþolandi - sem hann á reyndar auðvitað að vera. Hugsanlega var eina íslenska bókin, Alli Kalli í eldlínunni, heldur ekki heppilegasta bókin til að byrja bókaflokkinn á hér á landi. Að sumum bröndurum seríunnar var reyndar alveg hægt að brosa svolítið en hreinskilnislega voru það helst textalausu brandararnir sem honum þóttu fyndnir.


Auðvelda skýringin hlýtur því að felast í að SVEPPAGREIFINN sé of einfaldur eða heimskur til að skilja húmorinn. Fjölmargir hafa lýst yfir hrifningu sinni yfir þessari seríu og þar sem hann hafði aldrei áður flett bókinni Alla Kalla í eldlínunni reiknaði hann líklega alltaf með að vera með óuppgötvaðan gullmola í höndunum. Væntingarnar voru því kannski fullmiklar. Ætli að ráðleggingarnar um síendurtekinn lestur bókanna, til að skilja brandarana, eigi því ekki fullan rétt á sér? Hugsanlegt er að SVEPPAGREIFINN verði loksins búinn að ná húmornum í kringum sextugt!

En gott eintak af Alla Kalla í eldlínunni er alla vega loksins komin í myndasöguhillur SVEPPAGREIFANS og það er auðvitað fyrir mestu.