20. september 2019

129. EILÍTIÐ UM ÍSLENSKU ÁSTRÍKS BÆKURNAR

SVEPPAGREIFINN hefur verið að dunda sér, undanfarin ár, við að halda úti þessari bloggsíðu sem fjallar um eitt af hans helstu áhugamálum - þ.e. um þær teiknimyndasögur sem gefnar voru út hér á landi á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Tæplega 130 færslur hafa nú litið dagsins ljós og heilt yfir teljast þær líklega jafn fjölbreytilegar eins og þær eru margar. Vinsælustu myndasögurnar eins og Tinni, Svalur og Valur, Viggó og Lukku Láki eru líklega þær seríur sem hafa fengið hvað mestu umfjöllunina hjá SVEPPAGREIFANUM en þó reynir hann eftir megni að hafa fjölbreytnina sem mest í fyrirrúmi. Það kom honum því algjörlega í opna skjöldu þegar hann uppgötvaði að ein af bestu og vinsælustu myndasöguseríunum hefur nánast ekki fengið eina einustu umfjöllun. Þarna er SVEPPAGREIFINN að sjálfsögðu að tala um Ástríks bækurnar frábæru og honum er hreinlega ekki stætt á öðru en að bæta úr þeim skorti hið snarasta.
En það var árið 1974 sem íslensk börn og unglingar fengu fyrst að kynnast sögunum um Ástrík Gallvaska og félaga hans frá Gaulverjabæ. Undanfarin þrjú árin á undan hafði bókaútgáfan Fjölvi, með Þorstein Thorarensen við stjórnvölinn, sent frá sér sex bækur um ævintýri Tinna við miklar vinsældir og útgáfan sá nú tækifæri til landvinninga á fleiri vinsælum myndasöguvígstöðvum. Fyrir jólin þetta ár bættust því ekki aðeins fjórar nýjar Tinna bækur í safnið heldur hóf Fjölvi nú einnig útgáfu á nýjum myndasöguseríum um Alex hugdjarfa og Ástrík og víðfræg afrek hans. Þótt bækurnar um Ástrík hafi reyndar ekki komið fram með neinum látum í fyrstu (þær voru til dæmis ekkert auglýstar í dagblöðunum) urðu þær strax nokkuð áberandi enda svo sem ekki úr miklu úrvali að moða í myndasöguhillum bókabúðanna. Heilar þrjár bækur í þessari nýju seríu stóðu nú nýhungruðum myndasögulesendum skyndilega til boða og hinir ungu íslensku aðdáendur þeirra voru fljótir að grípa gæsina. Bækurnar þrjár voru; Ástríkur Gallvaski (Astérix le Gaulois - 1961), Ástríkur og Kleópatra (Astérix et Cléopâtre - 1965) og Ástríkur í Bretalandi (Astérix chez les Bretons - 1966). Þessi nýji bókaflokkur var þó ekki með sömu vönduðu harðspjaldakápurnar og Tinna bækurnar eða bókin eina um Alex. Ástríkur var í heldur minna og mýkra kiljubroti og bækurnar um hann voru því miklu viðkvæmari fyrir hnjaski. Og þar með er komin helsta skýringin á því hvers vegna svo fáar af þessum bókum hafa varðveist almennilega með tímanum.
Sögurnar um Ástrík urðu geysivinsælar og höfðu strax þá sérstöðu, fram yfir Tinna bækurnar, að þær höfðuðu einnig til aðeins eldri lesenda. Það var þó alveg vitað að margir foreldrar væru svo sem líka alveg að laumast til að lesa Tinna bækurnar. Þorsteinn hafði verið í reglulegu sambandi við Dargaud bókaútgáfuna í Frakklandi, með útgáfu í huga, og gat þar valið úr nokkuð fjölbreytilegu úrvali af myndasöguseríum. Hann ákvað síðan að endingu að slá til með bækurnar um Ástrík. Fjölvi var því nánast alveg einráður á íslenska myndasögumarkaðnum stóran hluta áttunda áratugarins því bækurnar um Tinna og Ástrík voru í raun einu teiknimyndasögurnar (fyrir utan þessa einu bók um Alex) sem komu út hér á landi allt til ársins 1977. Það ár breyttist hins vegar ansi mikið í útgáfu teiknimyndasagna á Íslandi en það er allt önnur saga.
Árið 1975 bættust við þrjár Ástríks bækur í viðbót. Þetta voru sögurnar Ástríkur og (æðisleg) bændaglíman (Le combat des chefs - 1966), Ástríkur (smár en knár) Ólympíukappi (Astérix aux jeux olympiques - 1968) og Ástríkur og (rómverski) flugumaðurinn (La zizanie - 1970). Næsta ár komu enn þrjár bækur í viðbót og þar var um að ræða bækurnar Ástríkur á Spáni (Astérix en Hispanie - 1969), Ástríkur skylmingakappi (Astérix gladiateur - 1964) og Ástríkur í útlendingahersveitinni (Astérix légionnaire - 1967). Þessar fyrstu níu bækur sá Þorbjörn Magnússon um að snara yfir á íslensku en Þorsteinn Thorarensen greindi frá því í viðtali löngu seinna að hann sjálfur hefði bætt um betur og útfært texta Þorbjörns eftir á, eftir eigin höfði, upp á íslenskan húmor. Reyndar segir sagan að Þorbjörn hafi einnig sjálfur verið flínkur við að heimfæra textann upp á sambærilegan máta. Hið sama gerði Þorsteinn einnig með bókina Ástríkur heppni sem Þór Stefánsson þýddi og kom út árið 1977. Þeir Þorbjörn og Þór voru þó einir skrifaðir fyrir þýðingunum en frá og með Ástrík og gjafir Sesars árið 1979 sá Þorsteinn alfarið um allar þýðingarnar. Þegar Ástríkur Gallvaski var endurútgefin hjá Fjölva árið 1982 voru þeir Þorbjörn og Þorsteinn þó báðir skrifaðir fyrir þýðingunni á þeirri sögu. 
Á titlum þeirra Ástríks bóka sem út komu árið 1975 má einmitt sjá hvernig Þorsteinn hefur bætt við svolitlum undirtitli sem ekki var gert ráð fyrir í upprunalegu útgáfunum. Þá heimfærði hann sögurnar sjálfar einnig töluvert upp á íslenskan veruleika, eins og áður var vikið að, og margoft hefur verið talað um að textinn í íslensku útgáfunum sé jafnvel betri en í frumútgáfunum. Þannig fór Þorsteinn oft sínar eigin leiðir til að krydda sögurnar á þann hátt sem honum sýndist en slíkt kæmust þýðendur bókanna aldrei upp með í dag. Krafa hinna frönsku rétthafa Ástríks bókanna er í dag sú að þýðingarnar séu nákvæmlega eins og frumtextinn og því er fylgt stranglega eftir. Því til stuðnings má nefna að þegar Froskur útgáfa hóf að gefa út Ástríks bækurnar á ný, fyrir fáeinum árum, þá gerðu rétthafarnir athugasemd við skemmtilega þýðingu þeirra Braga Valdimars Skúlasonar, Hildar Bjarnason og Anitu K. Jónsson á skringilegu tali Skotans Mak Legs í bókinni um Ástrík í Piktalandi. Frakkarnir komu í veg fyrir þá útfærslu í bókinni en Froskur leysti það á þann frábæra hátt að bjóða kaupendum bókanna límmiða endurgjaldslaust, með skemmtilegri þýðingunni, sem þeir gætu límt yfir hina myndina. Límmiðaútgáfan er sú til hægri.
En árið 1977 var komið að bókunum Ástríkur heppni (La grande traversée - 1975), Ástríkur og falsspámaðurinn (Le devin - 1972) og Ástríkur og Gotarnir (Astérix et les Goths - 1963). Fjölvaútgáfan gaf Ástríki svolítið frí frá útgáfu sinni á árinu 1978 því engin bók kom út hjá seríunni það ár. Allar Tinna bækurnar voru þá komnar út (fyrir utan Tinna í Sovétríkjunum) og forlagið var svolítið að einbeita sér að bókunum um Lukku Láka þetta ár. En alls gaf Fjölvi út heilar ellefu sögur úr þeirri seríu árið 1978. Árið 1979 hélt Þorsteinn Thorarensen og Fjölvi þó áfram að gefa út Ástríks bækurnar en það ár komu út þrjár sögur úr bókaflokknum. Þetta voru bækurnar Ástríkur og (vafasamar) gjafir Sesars (Le cadeau de César - 1974), Ástríkur og lárviðarkransinn (Les lauriers de César - 1972) og Ástríkur (með innistæðu) í Heilvitalandi (Astérix chez les Helvêtes - 1970). Og enn bætti Þorsteinn við aukatexta í titla tveggja þessara bóka.
Árið eftir fór heldur að hægjast á útgáfunni og þá kom aðeins út ein saga, Ástríkur og Þrætugjá (þjóðfélagsins) (Le grand Fossé - 1980) en af einhverri ástæðu er brotið á þeirri bók um hálfum sentimetra lægra en á hinum bókunum í seríunni. Sem gerir það að (hinum hvimleiðu) verkum að hæð hennar er ekki í neinu flútti við hinar Ástríks bækurnar í myndasöguhillunum. En árið þar á eftir, 1981, kom einnig bara út ein bók. Það var sagan Ástríkur og grautarpotturinn (Astérix et le chaudron - 1969). Árið 1982 var síðan síðasta árið sem Þorsteinn Thorarensen og Fjölva útgáfan gáfu út sögu með Ástríki. Það ár kom út bókin Ástríkur á hringveginum (Le tour de Gaule d’Astérix - 1965) en áður hefur aðeins verið minnst á endurútgáfu fyrstu sögunnar, Ástríks Gallvaska, sem einnig kom út árið 1982. Sú útgáfa af bókinni var að mestu leyti eins og fyrsta útgáfa hennar. Þó er eilítill blæbrigðamunur á litnum á kjölum og bakhliðum útgáfanna, þar sem eldri útgáfan er örlítið dekkri, auk þess sem eðlilega er svolítill mismunur á fjölda útgefinna titla á bakhliðum bókanna. Þá er nafn teiknarans Uderzo ekki, einhverra hluta vegna, staðsett á nákvæmlega sama stað á kápumyndinni á framhliðum útgáfanna tveggja.
Komið hefur fram að Þorsteinn Thorarensen hafi oftast stuðst við frönsku útgáfurnar af bókunum við þýðingar sínar en líklega haft bæði danskar og enskar útgáfur til hliðsjónar. Danskar þýðingar á myndasögum voru áður fyrr oft á tíðum nokkuð frjálslegar og vera má að Þorsteinn Thorarensen hafi tekið þær að einhverju leyti sér til fyrirmyndar. En einnig er vel þekkt að þýðingar geta auðveldlega brenglast og glatað upphaflegu merkingunni þegar efnið er ekki þýtt beint úr upprunalega textanum. Þetta á auðvitað sérstaklega við þegar hann er búinn að ganga í gegnum óþarflega marga milliliði með þýðingum af enn öðrum þýðingum. SVEPPAGREIFANUM er ekki almennilega kunnugt um hvernig réttindahafamálum Ástríks bókanna var háttað á Íslandi. Fjölvaútgáfan fékk þó leyfi hjá Dargaud í Frakklandi árið 1974, eins og áður hefur verið nefnt, til að gefa út Ástrík og síðasta sagan hjá þeim kom út árið 1982 áður en þeir misstu réttindin. Sama ár kom síðan skyndilega út Hrakningasaga Ástríks (L’Odyssée d’Astérix - 1981) sem Gutenburgs Hus í Danmörku gaf út. Sagan segir að danska fyrirtækið hafi talið sig eiga útgáfuréttinn af Ástríks bókunum á Íslandi og þannig bolað Fjölva út af þeim markaði. Þetta sama útgáfufyrirtæki seldi á sínum tíma blöðin um Anders and & co til Íslands og kom lengi í veg fyrir að Andrés blöðin kæmu út á íslensku frá íslenskum aðilum. Árið 1983 kom síðan út sagan Ástríkur og sonur (Le fils d’Astérix - 1983) hjá Egmont bókaútgáfunni kunnu sem heyrir undir sama aðila. Það voru þau Sigurlín Sveinbjarnardóttir og Peter Rasmussen sem sáu um að snara þessum tveimur sögum úr dönsku og yfir á íslensku. Eftir þessar tvær bækur lognaðist útgáfa Ástríks bókanna á íslensku alveg niður um langt árabil og var ekki endurreist aftur fyrr en rúmlega 30 árum seinna. 
Það var því ekki fyrr en í október árið 2014 sem aðdáendur Ástríks bókanna á Íslandi gátu tekið gleði sína á ný. Þá hafði Froskur útgáfa fyrir nokkru byrjað að kæta íslenska myndasöguunnendur með nýjum teiknimyndasögum og Ástríkur og víkingarnir (Astérix et les Normands - 1967) var fyrsta sagan í bókaflokknum síðan árið 1983. Sú saga seldist reyndar upp og árið eftir var 2. útgáfa bókarinnar prentuð ásamt nýrri útgáfu af hinni gamalkunnu bók Ástríki og Kleópötru sem Fjölvi hafði gefið út árið 1974. Síðarnefnda sagan hafði verið þýdd upp á nýtt og nú samkvæmt ströngustu fyrirmælum frönsku útgefandanna. Bókin Ástríkur í Piktalandi (Astérix chez les Pictes - 2013), sem aðeins var minnst á hérna fyrr í færslunni, kom síðan út árið 2016 og árið eftir gaf Froskur út nýja þýðingu af sögunni um Ástrík og Gotana sem áður hafði komið út hér á landi árið 1977. Nýjasta bókin um Ástrík á íslensku kom síðan út nú á þessu ári þegar sagan Ástríkur - Hinn stolni papýrus Sesars (Le Papyrus de César - 2015) var gefin út hjá Froski en um leið var 3. útgáfan af hinni marguppseldu sögu Ástrík og víkingunum prentuð. Alls hefur Froskur útgáfa því sent frá sér fimm bækur úr seríunni eftir að hún var endurreist hér á landi og að þessu sinni eru bækurnar í vandaðri harðspjaldaútgáfu. Hildur Bjarnason hefur verið helsti þýðandi Froska að Ástríks bókunum en einnig hafa þau Anita Jónsson og Bragi Valdimar Skúlason komið að þeirri vinnu. Í heildina hafa því komið út 23 bækur á Íslandi með Ástríki en í upprunalegu seríunni eru sögurnar nú alls orðnar 38 talsins
Og svo má ekki gleyma einu í þessari upptalningu. Þann 3. febrúar árið 1979 hóf göngu sína sagan Ástríkur á Goðabakka (Le Domaine des dieux - 1971) í lesbók Morgunblaðsins sem margir muna eftir. Á hverjum laugardegi birti Lesbókin eina blaðsíðu úr þeirri sögu en birtingu hennar lauk þann 1. mars árið 1980. Næsta laugardag á eftir hófst síðan sagan Ástríkur og gullsigðin (La Serpe d'or - 1962) í blaðinu og síðasta blaðsíðan í þeirri sögu kom fyrir sjónir lesenda þann 20. júní árið 1981. Ekki kemur nein staðar fram hver sá um þýðingarnar á þessum sögum en þær voru birtar í samráði við Fjölva útgáfuna svo gera má ráð fyrir að Þorsteinn Thorarensen sjálfur hafi annast þær. Báðar þessar sögur voru settar upp með sama handskrifaða letursniðinu og í bókaútgáfunum og því mætti áætla að þær hafi verið ætlaðar til bókaútgáfu seinna. Svo varð þó því miður aldrei.
Fyrstu kynni SVEPPAGREIFANS af Ástríks bókunum eru í minningunni svolítið óljós. Hann minnist þess þó að þeir bræðurnir hafi fengið "lánaðar" fáeinar Ástríks bækur hjá mági móður þeirra, sem þá var sennilega farinn að nálgast 25 ára aldurinn, og lesið þær upp til agna - bókstaflega. Alla vega á þann hátt að þeim var líklega aldrei skilað aftur. Að öllum líkindum hefur þetta verið árið 1976 og miðað við þann fjölda bóka sem bræðurnir tveir fengu þarna í hendurnar hafa þessar tilteknu myndasögur líklega verið megnið af þeim Ástríks bókum sem þá voru búnar að koma út hér á landi. Á þessum tíma var SVEPPAGREIFINN og bróðir hans þá þegar búnir að kynnast Tinna bókunum mjög vel og eignast þó nokkrar þeirra en höfðu um leið einnig verið vel meðvitaðir um tilurð Ástríks bókanna úr hillum bókabúðanna. Þeir voru þannig mjög vel að sér um útgáfu þeirra teiknimyndasagna sem voru að koma út hér á landi, alveg frá byrjun, þó þeir hafi ekki lagt áherslu á að eignast bækurnar um Ástrík alveg strax. En það var gert seinna. Ástríkur hitti alla vega beint í mark og bræðurnir tveir skoðuðu "lánuðu" bækurnar spjaldanna á milli. Jafnvel svo vel að bakhliðar bókanna, með útgefnum bókatitlum, voru einnig krufðar til mergjar og ítrekað velt því fyrir sér að reyna að verða sér úti um hina vandfundnu Ástríks bók Út eru komnar.
Um svipað leyti minnist SVEPPAGREIFINN einnig tveggja útsaumaðra púða, með tveimur af sögupersónunum úr Ástríks bókunum, sem þeir bræður höfðu fengið að gjöf frá móður sinni. Þarna var um að ræða sömu myndir og sjá má fremst í Ástríks bókunum, þar sem nokkrar af aðal persónunum eru kynntar til sögunnar, en á púða SVEPPAGREIFANS gat að líta seiðkarlinn Sjóðrík við pott sinn. Af þeirri ástæðu varð Sjóðríkur því líklega í einna mestu uppáhaldi af sögupersónum seríunnar á hans yngri árum. Ef rétt er munað átti bróðir SVEPPAGREIFANS hins vegar púða með myndinni af Ástríki sjálfum. Því miður eru þessir handverkspúður þeirra bræðra, frá móður sinni heitinni, löngu týndir og tröllum gefnir.
Á unglingsárunum dvínaði áhugi SVEPPAGREIFANS á teiknimyndasögum mjög og önnur töluvert óheilbrigðari og mannskemmandi áhugasvið náðu yfirhöndinni í lífi hans. Bækurnar voru þó alltaf til og aldrei kom honum til hugar að losa sig við þessar gersemar. Þær voru því aðallega geymdar en ekki gleymdar. Í fyrstu á heimili foreldra hans úti á landi en seinna í kössum inni í geymslum ásamt öðrum lítt notuðum fylgihlutum hans úr búslóðum fyrstu fullorðinsáranna. Einhverju sinni missti SVEPPAGREIFINN það út úr sér við vinnufélaga sinn að hann ætti heilu kassana af teiknimyndasögum, og þar með talið Ástríks bækurnar, í geymslu fyrir austan fjall. Sá vildi samstundis koma honum í samband við breskan aðila sem væri að safna einni tiltekinni bók, Ástrík í Bretalandi, á öllum útgefnum tungumálum og væri tilbúinn að borga vel fyrir hans slaka eintak. Þó SVEPPAGREIFINN hefði þá ekki flett þessari bók sinni í mörg ár þá hvarflaði ekki einu sinni að honum að láta freistast. Í dag hefur sú bók verið gefin út á 47 tungumálum og vonandi hefur sá breski eignast sitt íslenska eintak eftir einhverjum öðrum leiðum.
Það var svo líklega fljótlega upp úr aldamótunum sem einhver vakning varð í höfði SVEPPAGREIFANS um að endurvekja kynni sín af öllum þessum myndasögum sínum. Þá hafði áhugamálið geymda legið algjörlega í dvala í líklega tólf til fjórtán ár. Í kjölfarið fór hann að grípa ódýr og vel með farin eintök af þeim bókum sem á vegi hans urðu, og vantaði í safnið, auk þess sem betri eintök voru keypt af þeim bókum sem illa voru farnar. SVEPPAGREIFINN var alltaf með lista af þeim bókum sem hann vildi eignast og smán saman bættust nýjir og betri gripir í safnið þó enn væri það að mestu áfram geymt í kössum. Sennilega hafa margir þeirra sem lásu teiknimyndasögur í æsku og voru af sömu kynslóð svipaða sögu að segja. Lukku Láki fékkst á Bókamarkaðnum í Perlunni, Sval og Val bók fannst í Góða hirðinum þegar hann kom til sögunnar, ein og ein Tinna og Ástríks bók í Kolaportinu og svo framvegis. Á þann hátt hafa nánast allar Ástríks bækurnar komist í eigu SVEPPAGREIFANS og hann uppgötvaði við vinnu þessarar færslu að hann hefur ekki keypt eina einustu Ástríks bók um ævina nýja. Fyrstu bókina, Ástrík og Gotana, fékk hann reyndar glænýja að gjöf og þannig var einnig líklega með einhverjar aðrar sögur úr seríunni en flestar bókanna í æsku hafði hann nálgast á ódýran hátt í fornbókaverslunum.

13. september 2019

128. STYTTA TCHANG AF HERGÉ

Allir aðdáendur Tinna bókanna þekkja vel hinn unga kínverska vin Tinna, Tchang Tchong-Jen, sem birtist í sögunum um Bláa lótusinn (Le Lotus bleu - 1936) og Tinna í Tíbet (Tintin au Tibet - 1960). Fyrirmyndin að þessum dreng var stúdent sem hét Zhang Chongren og Hergé hafði kynnst þegar hann hóf undirbúning að fyrrnefndu sögunni snemma vors árið 1934. Zhang Chongren varð seinna þekktur undir nafninu Tchang Tchong-Jen þó hann héti það ekki í raun og veru. Þeir Hergé urðu í kjölfarið mjög nánir vinir og hann naut leiðsagnar Tchangs við lýsingar á kínversku samfélagi í Bláa lótusnum auk þess að verða að sögupersónu og einhvers konar leiðsögumanni Tinna í gegnum söguna. Tchang kom síðan aftur við sögu bókarinnar Tinna í Tíbet og lék þar jafnvel enn stærra og dýpra hlutverk. Um þá Hergé og Tchang má lesa eitthvað meira í þessari færslu hér.
Þegar þeir Hergé og Tchang hittust fyrst var sá síðarnefndi við nám í Konunglega listaháskólanum í Brussel en þar nam hann meðal annars bæði mynd- og högglist. Eftir dvöl sína í Evrópu hélt Tchang aftur til Kína og stofnaði þar til að mynda Chongren Studio í Shanghæ þar sem hann bæði kenndi og hélt sýningar á málverkum sínum og skúlptúrum. Löngu seinna, eftir menningabyltinguna í Kína, var hann skipaður forstöðumaður listaakademíunar í Shanghæ og varð mjög virtur í heimi kínverskrar listar auk þess sem hann bæði skrifaði og þýddi fjölda listaverkabóka. Fljótlega eftir að Tchang hafði flutt aftur til Kína misstu þeir Hergé sambandið sín á milli og það var ekki fyrr en meira en 40 árum seinna sem þeir náðu saman á ný. Þá hafði Hergé misst alla von um að hitta hann aftur og taldi hann jafnvel vera löngu látinn. Þeir hittust þó aftur árið 1981 í Belgíu fyrir tilstilli franskra yfirvalda en þá var Hergé orðinn helsjúkur af hvítblæði og hann lést aðeins tveimur árum síðar. Árið 1985 fékk Tchang franskan ríkisborgararétt og settist að í París en hann lést í október árið 1998, þá á 93ja aldursári.
Þeir félagarnir urðu mjög nánir þann stutta tíma sem samstarf þeirra stóð á fjórða áratuginum og sú vinátta entist þeim ævilangt þó rúmlega 40 ára liðu þar til þeir hittust á ný. Allir þekkja til verka Hergés og hingað til hefur nær eingöngu verið einblínt á hans list en lítið sem ekkert hefur hins vegar verið fjallað um listamanninn Tchang. Hann málaði bæði vatnslita- og olíumálverk og var reyndar mjög fær málari en fyrst og fremst var hann myndhöggvari. Og sú listgrein varð í raun ævistarf hans. Hann varð mjög virtur myndhöggvari í Frakklandi eftir að hann settist þar að og gerði til að mynda fræga brjóstmynd af François Mitterrand þáverandi Frakklandsforseta í kjölfar þess að hann var endurkjörinn árið 1988. Eftir að Tchang fékk franskan ríkisborgararétt hafði Jack Lang menntamálaráðherra beitt sér fyrir ýmsum verkefnum fyrir hann og hluti þeirra fólst meðal annars í fyrirlestravinnu ýmiskonar sem hann varð mjög eftirsóttur í. Og það var síðan að beiðni Jack Lang að Tchang Tchong-Jen fékk það verkefni að gera brjóstmynd af sjálfum Hergé.
Tchang og Hergé náðu að hittast nokkrum sinnum í næði og endurnýja þannig fyrri kynni sín, eftir hinn langa aðskilnað, áður en sá síðarnefndi lést í mars mánuði árið 1983. Í eitt þeirra skipta notaði Tchang tækifærið og náði að gera frumgerðina að brjóstmynd Hergés. Í nokkur ár vann Tchang þannig að stórri útfærslu af styttunni í bland við önnur verkefni og það var ekki fyrr en árið 1987 sem verkinu lauk en þá var hann orðinn 82ja ára gamall. Endanlega brjóstmyndin er 150 sentimetrar á hæð og um 100 sentimetrar á breidd og dýpt.
Þessi endanleg útfærsla hennar var steypt í brons og valinn staður á miðju torgi í miðbæ bæjarins Angoulême í Frakklandi fyrir framan innganginn að National Center of Comics árið 1989. Löngu seinna, eða fimmtudaginn 23. janúar árið 2003, var nafni göngugötunnar sem torgið stendur við (og þar af leiðandi líka styttan) breytt úr Marengo Street í Rue Hergé að viðstöddu fjölmenni við hátíðlega athöfn. En götunafnið Rue Hergé væri líklega einfaldast að íslenska sem Hergégata. 
Og þarna á miðju torginu við Rue Hergé í Angoulême stendur Hergé því glottandi út í loftið.

6. september 2019

127. ENN BÆTT Í MYNDASÖGUHILLURNAR

SVEPPAGREIFINN er búinn að vera á faraldsfæti undanfarnar vikurnar, í kringum heimaslóðir betri helmings síns, og staldrað víða við á nokkrum menningarkimum meginlands Evrópu. Ítalía og Sviss voru helstu áfangastaðir ferðalanganna að þessu sinni og SVEPPAGREIFA-fjölskyldan naut gestrisni heimamanna í báðum þessum löndum til hins ítrasta. En líkt og venjulega, þegar SVEPPAGREIFINN hefur verið á þvælingi í útlöndum, viðaði hann að sér fáeinum teiknimyndasögum eins og hans er von og vísa. Hann vildi gjarnan geta stært sig af því að hafa verið hógvær í þeim bókakaupum en svo var líklega ekki alveg. Eins og svo oft áður keypti hann myndasögur sem hægt er að telja í tugum eintaka. Það er því við hæfi að fórna færslu dagsins í að minnast aðeins á þær bækur (og fleira tengt þeim) sem komst í eigu hans að þessu sinni. En SVEPPAGREIFINN tók því reyndar rólega til að byrja með og fyrsta vikan fór eingöngu í afslöppun á sundlaugarbakka í Ticino við Maggiore vatnið. Á risamarkaði (líklega einum þeim stærsta og þekktasta í allri Evrópu) í Luino á Ítalíu rakst hann þó á útskorna Tinna tréstyttu í afrískum stíl.
Sambærilegan kostagrip hafði hann einnig séð á litlum markaði í Locarno, sem er á svipuðum slóðum, fjórum árum áður en fyrir einhvern fádæma klaufaskap misst af að kaupa. Eftir það hefur SVEPPAGREIFINN kíkt eftir slíkri handgerð á öllum þeim mögulegu mörkuðum sem hann hefur heimsótt erlendis en lítt orðið ágengt fyrr en nú. Í örvæntingu sinni hafði það jafnvel hvarflað að honum að ráðast sjálfur í þess konar handavinnu en til þess hefði ekki þurft annað en sæmilega efnilegan viðardrumb, hamar, gott sporjárn og eðlilega blandaða akrílmálningu með réttum peysulit Tinna. Reyndar kæmi sér örugglega líka ágætlega að vera með minna en tólf þumalputta en stundum er þó hægt að komast nokkuð langt á viljanum einum. En á þá lífsreynslu reyndi þó aldrei. Líklega á SVEPPAGREIFINN samt eftir að dunda sér við það í ellinni að tálga út þess konar fígúrur líkt og Emil litli í Kattholti gerði í sinni bernsku. Í Luino mátti líka finna sambærilegar styttur með bæði Sköftunum og prófessor Vandráði en ekki gat SVEPPAGREIFINN séð Kolbein kaftein þar á boðstólum. Flestar voru um 30 sentimetra háar en einnig var hægt að finna Tinna sem var rúmlega metri á hæð og annan sem var líklega um 180 sentimetrar. Ætli fleirum afrískum fígúrum Tinna bókanna eigi ekki eftir að fjölga á heimili SVEPPAGREIFANS á næstu árum.
En það var síðan í Zurich, á leiðinni til tengdarmömmu SVEPPAGREIFANS í Júra fjallgarðinum, sem fyrstu myndasögurnar komust í höfn. GREIFINN hafði aðeins gúgglað fyrirfram helstu myndasöguverslanir borgarinnar og vissi því af einni slíkri í gamla miðbænum. Sú heitir einfaldlega Comics-Shop og fyrir þá sem gaman hafa af belgísk/fransk-ættuðum teiknimyndasögum er þessi verslun auðvitað algjör draumur. Búðin er reyndar pínulítil, þó hún sé á tveimur hæðum, en úrvalið samt aldeilis frábært. Þarna keypti SVEPPAGREIFINN sér tvær af þeim þeim þremur bókum sem hann vantaði úr seríunni um Sérstök ævintýri um Sval ... (Série Le Spirou de…) og lét sér það nægja að þessu sinni. Comics-Shop í Zurich verður klárlega heimsótt aftur við fyrsta tækifæri og verslunin þá skönnuð mun ítarlegar. En bækurnar sem SVEPPAGREIFINN verslaði að þessu sinni voru þýsku útgáfurnar af Le Groom Vert-de-Gris (Operation Fledermaus) eftir Schwartz og Yann og La Grosse tête (Ein Grosser Kopf) eftir þá Tehem, Makyo og Toldac. Fyrrnefndu söguna kannast margir eflaust við sem Á valdi kakkalakkanna úr myndasögutímaritinu NeoBlek en um seríuna sjálfa (Sérstök ævintýri um Sval ...) má lesa hér.
Næsta dag renndi fjölskyldan á gamalkunnugan flóamarkað í Biel en þar hefur SVEPPAGREIFINN oft áður gert góð kaup á notuðum og forvitnilegum myndasögum. Í það minnsta var hann vel sáttur við afrakstur sinn þar að þessu sinni. Á fyrsta viðkomustað sínum á flóamarkaðnum rakst hann á Viggó bók númer 11 (Gaston - Spaß muß sein) úr þýsku Carlsen seríunni (gul-doppóttu seríunni sem margir kannast örugglega við), eina bók með Fláráði stórvezír (númer 2) úr þýsku útgáfuröðinni og sjö innbundin tölublöð af Le Journal de Tintin í einum pakka frá árinu 1975. SVEPPAGREIFINN var sérstaklega ánægður með að hafa loksins eignast nokkur eintök af Tinna tímaritinu og tilfinningin við að handfjatla þessi sögulegu tímarit er auðvitað skemmtilega notaleg. Þessum blöðum, ásamt SPIROU tímaritinu og fleirum, var iðulega safnað saman í þykkt hefti og þau þannig seld innbundin í bókaformi nokkrum sinnum á ári.
Á næsta viðkomustað flóamarkaðsins kippti SVEPPAGREIFINN með sér tveimur bókum (númer 7 - Des gags de Boule et Bill og númer 9 - Une vie de chien) úr bókaflokknum um þá Boule og Bill. En þessar myndasögur eru byggðar á einnar síðu bröndurum, úr SPIROU blöðunum, um strákinn Boule og hundinn hans Bill og uppátækjum þeirra. Í bókahillum SVEPPAGREIFANS má nú þegar orðið finna fimm bækur úr þessari seríu og eitthvað minnist hann þess að hafa nefnt þær myndasögur hér á Hrakförum og heimskupörum áður. En síðan voru keyptar tvær stakar bækur úr seríunni um Achille Talon eftir Greg en íslenskir myndasögulesendur kannast eflaust við kappann sem hinn sjálfsumglaða Alla Kalla. Fjölva útgáfan sendi frá sér eina bók um hann, sem hét Alli Kalli í eldlínunni, árið 1980 en ekki varð meira úr útgáfu þeirrar seríu hér á landi. En þessar myndasögur sem SVEPPAGREIFINN keypti heita Achille Talon - Aggrave son cas! og Le sort s'acharne sur Achille Talon en bækurnar eru byggðar á eins til tveggja síðna bröndurum sem birtust í myndasögutímaritinu Pilote. Þessi sería naut töluverðra vinsælda og bækurnar voru að koma út eitthvað fram á 21. öldina en alls voru 48 bækur gefnar út í seríunni. SVEPPAGREIFINN minnist þess ekki að eiga eða hafa lesið Alla Kalla í eldlínunni en hlakkar til að glugga svolítið betur í þessar bækur þegar um hægist og tími gefst til. Hann hafði engan veginn gert sér grein fyrir að Alli Kalli í eldlínunni væri eftir Greg. Og að síðustu má auðvitað ekki gleyma þykku SPIROU safnhefti (MEGA-SPIROU) sem hann fann einnig á flóamarkaðnum. Þessi hefti eru gefin út reglulega, aðallega í auglýsingaskyni, til að kynna þær bækur sem Dupuis er að senda frá sér hverju sinni. Þar er safnað saman byrjunum á þeim sögum sem eru að koma út en þær hafa þá allar verið birtar í SPIROU tímaritinu einhverjum vikum áður. Í gegnum tíðina hefur SVEPPAGREIFINN sankað að sér þremur til fjórum slíkum heftum en þau eru yfirleitt um tveggja sentimetra þykk og í mjúku broti. Alls borgaði hann ekki nema 22 franka fyrir þessar átta bækur en það munu vera um andvirði um það bil tveggja notaðra myndasagna úr Góða hirðinum eða einnar nýrrar myndasögu heima á Íslandi.
Á rölti sínu um miðbæ Biel, seinna um daginn, rakst fjölskyldan síðan á sölubás úti á miðju torgi með hundruði myndasögutitla í boði. Þarna greip SVEPPAGREIFINN með sér tvær bækur í viðbót en hér var um að ræða Viggó bókina Lagaffe mérite des baffes, sem er bók númer 13 úr upprunalega franska bókaflokknum, og Blake og Mortimer söguna Le secret de l'espadon (La poursuite fantastique) en hún er sú fyrsta úr upprunalegu seríunni frá árinu 1957. SVEPPAGREIFINN hefur aðeins verið að sanka að sér sögunum um Blake og Mortimer og á nú orðið fimm bækur úr þeim bókaflokki.
Annars hefði verið auðvelt að freistast til að kaupa tugi teiknimyndasagna á slíkum veisluborðum en svolítill vottur af skynsemi SVEPPAGREIFANS náði þó yfirhöndinni áður en til þess kom. Þarna voru til dæmis fáein stök tölublöð af tímaritinu Le Journal de Tintin frá árinu 1973 á boðstólum en SVEPPAGREIFINN lét freistingarnar ekki ná yfirhöndinni. Hann er því augljóslega með sjálfsaga úr stáli. En annars voru allar þær notuðu bækur dagsins, sem hann verslaði sér, á frönsku (nema þessar tvær fyrst nefndu) og litu út eins og nýjar.
Á þessum slóðum í nágrenni Biel dvaldi fjölskyldan næstu dagana og það varð því ekki hjá því komist að ráfa aðeins öðru hvoru inn í borgina til að slæpast. Fáeinum dögum seinna kippti SVEPPAGREIFINN tveimur myndasögum með sér úr 8 franka tilboðsrekka stórmarkaðsins Manor og í þetta sinn voru það annars vegar bók með Litla Sval (Le petit Spirou) en hin með Bláfrökkunum (Les Tuniques Bleues) sem bættust í safnið. Reyndar vill SVEPPAGREIFINN  kenna fimm ára dóttur sinni um þessi kaup. Honum fannst (örugglega á einhvern hátt) fullkomlega réttlætanlegt að grípa þessar ódýru myndasögur með sér eftir að hafa þurft að eyða rúmlega klukkutíma með henni í Playmo-deild Manor verslunarinnar. En þetta voru Litla Svals bókin Le petit Spirou présente mon super grand-papy frá árinu 2009 en hún er ein af sjö safnbókum með úrvali brandara úr upprunalegu seríunni um Litla Sval. Greinilega ýmislegt gert til mjólka allt sem hægt er þar. Hún er að sjálfsögðu eftir þá Tome og Janry eins og aðrar bækur um kappann. Íslenskir lesendur kannast auðvitað aðeins við þann bókaflokk eftir að tvær fyrstu bækurnar úr seríunni kom út hér á landi fyrir næstum því 30 árum. Bláfrakka bókin heitir hins vegar Des Bleus dans le brouillard og er hvorki meira né minna en 52. sagan í þeirri bókaröð. Sú gríðarlega vinsæla sería er því orðin ansi rótgróin en alls eru nú komnar út 62 bækur í útgáfuröðinni og sú nýjasta kom út í nóvember á síðasta ári. Hinn afkastamikli handritshöfundur Raoul Cauvin (sem íslenskir lesendur muna einnig eftir sem höfundi Samma bókanna og þriggja sagna um Sval og Val) hefur samið hverja einustu sögu seríunnar (frá árinu 1968) og listamaðurinn Willy Lambil hefur teiknað þær allar nema fimm. Annars hlýtur að vera farið að hægjast á þeim félögunum því báðir eru þeir komnir á níræðisaldurinn og Lambil er reyndar kominn vel á sitt 84. aldursár.
Þegar SVEPPAGREIFINN kom aftur heim á hótel tengdó beið hans hins vegar óvæntur glaðningur. Á meðan hann hafði verið að ráfa um PlaymoBiel með dóttur sinni hafði Greifynjan, eiginkona hans, skroppið í dagsferð til Basel og kom þaðan færandi hendi með ansi eigulega gripi handa sínum heittelskaða. Hún hefur undanfarin ár gert það að vana sínum að koma við í uppáhalds verslun SVEPPAGREIFANS í Basel, COMIX SHOP og verslað þar eins og eina litla fígúru (ca. 6-7 sentimetra háa) úr Tinna bókunum til að gefa honum. Í maí síðastliðnum hafði hún keypt Tinna og Tobba í geimbúningum sínum frá ævintýrum þeirra á tunglinu og að þessu sinni bætti hún Kolbeini við í samskonar múnderingu. En það var ekki allt. Einnig keypti hún stórglæsilegan og sígildan 12 sentimetra háan Tinna til að gefa SVEPPAGREIFANUM sínum. Enn á ný fékk sá síðarnefndi því staðfestingu á því hversu vel hann er giftur - en hann vissi það svo sem fyrir.
Nokkrum dögum seinna var höfuðborgin Bern skönnuð aðeins meira með almennu miðbæjarölti og meðfylgjandi menningarápi en auðvitað var líka villst aðeins inn í bókabúðir borgarinnar. Strax á lestarstöðinni kippti SVEPPAGREIFINN reyndar með sér þá einu bók sem enn vantaði úr Sérstökum ævintýrum um Sval ... og þá eru allar þær sögur nú loksins komnar í hús. Þetta var bókin Fondation Z úr þýsku Spezial seríunni en þar kallast hún Stiftung Z. Enn á ný var SVEPPAGREIFINN reyndar aðeins óheppinn með ferðir sínar varðandi útgáfu allra nýjustu bókarinnar úr Série Le Spirou de… . Ný bók í þessum frábæra bókaflokki, eftir Émile Bravo, er nefnilega væntanleg í búðir nú í september en það gerist nánast árlega að Greifinn fari fáeina daga á mis við þær bækur sem hann veit að eru á leið í verslanir. Þessi 15. bók seríunnar, L'espoir malgré tout, sem er þriðji hluti framhaldssögu Bravo, verður því að bíða þar til SVEPPAGREIFINN verður næst á ferðinni og hugsanlega fær hann þá einnig tækifæri til að versla 16. söguna, sem er líka eftir Bravo. En reyndar er ekki enn komin endanleg tímasetning á útgáfu þeirrar bókar. Í Bern keypti hann einnig 8. safnhefti heildarútgáfu Franquins með Sval og Val á þýsku og á því orðið öll fyrstu átta bindin nema eitt. Enn á hann eftir að verða sér úti um 7. bindi. Þetta safn með heildarútgáfu Svals og Vals sagnanna er ákaflega vandað og eigulegt með fullt af stórskemmtilegu aukaefni og fróðleik. Og dýrt eftir því. Hvert bindi þessa safns er á þriðja hundrað blaðsíður og þar má finna hverja einustu sögu André Franquins sem birtist í SPIROU tímaritinu, jafnt örstuttar smásögur í jólablöðum sem hvað annað með þeim félögunum. Í 9. bindi heildarsafnsins og næstu bókum á eftir er efni Fourniers um Sval og Val svo tekið fyrir, síðan Nic og Cauvin og svo framvegis. Það hlýtur að vera markmið SVEPPAGREIFANS að eignast meira en bara þessi fyrstu átta bindi, með efni og sögum Franquin, en fyrir þá sem hafa áhuga á þessum bókum er einnig verið að gefa út þessa safnútgáfu á dönsku. 
Næstu innkaup SVEPPAGREIFANS í þessari ferð komu síðan úr nokkuð óvæntri átt. En svo vildi til að í litla svissneska fjallaþorpinu, þar sem fjölskyldan dvaldi síðustu vikuna og áðurnefnd tengdamamma býr, var haldin bæjarhátíð eina helgina í ágúst með tilheyrandi húllumhæjum og látum. Við Íslendingar þekkjum orðið vel sambærilegar hátíðir enda varla orðið hægt að þverfóta fyrir slíkum mannfögnuðum í íslenskum bæjarfélögum seinni part sumars. Þessa sömu helgi var Menningarnótt til dæmis einmitt haldin hátíðleg í Reykjavík. Sá svissneski var kannski ekki alveg eins og við þekkjum þá en grunnhugmyndin þó líklega að mestu leyti sú sama. Þarna voru bændur og búalið að kynna, gefa og selja sínar helstu afurðir og á boðstólum voru auðvitað ostar, ávextir, brauð, ýmsar tegundir hráskinka og í raun allt það sem svissneskar sveitir hafa upp á að bjóða. Þar var einnig boðið upp á grill og bjór, strandpartíhorn, fjölleikasýningaatriði, pínulítið tívólí og lifandi tónlist - allt í rúmlega 30 stiga hita. Mestu athygli SVEPPAGREIFANS fengu þó líklega bændurnir sjálfir sem voru af ýmsum sauðahúsum og margir hverjir býsna athyglisverðir. SVEPPAGREIFINN gæti eflaust skrifað langa færslu um þá eina en því miður færu Hrakfarir og heimskupör þá töluvert langt út fyrir sitt upphaflega verksvið. En svo hann reyni nú aðeins að halda sig við efnið þá var lítill flóamarkaður starfræktur á bæjarhátíðinni þar sem börn voru aðallega að selja gamalt dót frá sér. Þarna var þó bókasafn bæjarins einnig að losa sig við lítt slitnar bækur sem þorpsbúar voru hættir að lesa og meðal þess efnis var heilt borð af myndasögum á boðstólum. Bækurnar voru allar gefins þó gestum bæjarhátíðarinnar væri reyndar gefinn kostur á að styrkja framtakið með frjálsum framlögum en SVEPPAGREIFINN hefði auðveldlega getað hreinsað upp borðið til að taka með sér heim. Hann lét sér þó nægja að henda tíu svissneskum frönkum í bauk og grípa með sér fimm óslitnar teiknimyndasögur með Rattata (Rantanplan) og Litla Sval (Le petit Spirou) á frönsku. Þetta var Rattata sagan Le grand voyage og bækur númer 13 (Fais de beaux rêves!), 14 (Bien fait pour toi!), 15 (Tiens-toi droit!) og 16 (T'es gonflé!) með Litla Sval. En líklega voru um sjö eða átta bækur í viðbót úr seríunni í boði. Þá voru að minnsta kosti tvær Sval og Val bækur á borðinu, nokkrar með Titeuf, Bláfrökkunum, Alex og Strumpunum svo eitthvað sé nefnt.
En líkt og svo oft áður eyddi SVEPPAGREIFINN síðustu dögunum í Basel með fjölskyldunni og rétt fyrir brottför heim rakst hann á bókina Asterix und seine Freunde. Hér er mun að ræða glænýtt afmælishefti, til heiðurs Albert Uderzo, í tilefni af 80 ára afmæli hans. Þarna leiða saman hesta sína þrjátíu þekktir en ólíkir listamenn (eða teymi) sem heiðra Uderzo á þessum tímamótum. Í myndasögunum þrjátíu sýna listamennirnir hver á sinn hátt hvernig þeir sjá fyrir sér sögupersónurnar úr Ástríks bókunum og í mörgum þeirra koma persónur þeirra sjálfra einnig við sögu. Þessar þrjátíu örsögur eru allt frá einni og upp í fjórar blaðsíður að lengd og í brandaraformi. Meðal þeirra listamanna sem koma við sögu má nefna þá; Batem (þann sem teiknar Gorm), Achdé og Gerra (núverandi og fyrrverandi höfunda Lukku Láka), Walthéry (sem teiknar flugfreyjuna Nathöschu) og meira að segja Jidéhem sjálfan. Þá má einnig nefna að bæði Titeuf (Tittur) og Andrés önd koma fyrir í þessu afmælisriti. SVEPPAGREIFINN á líklega eftir að kryfja þessa bók vel og fjalla jafnvel eitthvað um hana hér á næstu mánuðum.
Alls bættust því í bókahillur SVEPPAGREIFANS tuttugu og tvær nýjar teiknimyndasögur og ljóst að á næstu mánuðum verði af nægu að taka við að skoða og innbyrða í svartasta skammdeginu. Svo margar myndasögur minnist hann ekki að hafa verslað áður í útlöndum og ólíklegt má telja að annar eins fjöldi verði keyptur seinna í einni ferð. Reyndar var plássið í töskunum yfirdrifið nóg og stór hluti myndasagnanna fékkst ódýrt en ekki er þó alltaf hægt að ganga að slíku gefnu. Ekki er ólíklegt að eitthvað af þessum myndasögum eigi eftir að nýtast, alla vega að einhverju leyti, sem efniviður fyrir færslur á Hrakförum og heimskupörum næstu misserin.

30. ágúst 2019

126. ALEX HINN HUGDJARFI

Í færslu dagsins er ætlun SVEPPAGREIFANS að fjalla eilítið um myndasöguseríu sem ýmist er úthrópuð sem leiðinlegasti bókaflokkur sem gefinn hefur verið út á íslensku eða hún lofuð í hástert og elskuð af aðdáendum sínum. Hér er SVEPPAGREIFINN að sjálfsögðu að tala um hinn metnaðarfulla bókaflokk um Alex hinn hugdjarfa.
SVEPPAGREIFINN hafði alltaf sett þessar sögur á sama stall og myndasögurnar um blaðamanninn Frank eða Guy Lefranc eins og hann heitir á frummálinu. Og til marks um það þá hefur hann til dæmis ávallt raðað bókaflokkununum tveimur saman hlið við hlið í myndasöguhillunum sínum. Þó hann hafi reyndar aldrei lesið þessar myndasögur sem barn þá voru seríurnar einhvern veginn alltaf tengdar saman í huga hans. Þeir félagar SVEPPAGREIFANS sem lásu þessar bækur í æsku töluðu ætíð um sögurnar um Frank og Alex í sömu andránni og fannst reyndar fæstum mikið til þeirra koma. Fordómafull upplifun SVEPPAGREIFANS úr fjarlægð var af svipuðum toga. Teikningarnar voru í sama raunsæisstílnum, bókakápurnar voru mjög sambærilegar og síðast en ekki síst virtust báðar seríurnar jafn hrútleiðinlegar. Það var síðan ekki fyrr en SVEPPAGREIFINN var kominn nokkuð vel á fullorðinsaldur, þegar hann loksins gluggaði aðeins í íslensku útgáfurnar af þessum bókaflokkum, að hann uppgötvaði að listamaðurinn Jacques Martin ætti heiðurinn af þeim báðum. Það var því frekar einkennilegt að sitthvort útgáfufyrirtækið skyldu gefa út þessa bókaflokka hér á landi, Iðunn gaf út bækurnar um Frank en Fjölvi var hins vegar með Alex hinn hugdjarfa á sínum snærum. SVEPPAGREIFINN las síðan aftur bækurnar um Frank í tengslum við færslu sem hann setti hér inn fyrir um einu og hálfu ári síðan en viðurkennir að hafa ekki aftur skoðað bækurnar um Alex. Þessi færsla hér er því ekki byggð á eigin reynslu. SVEPPAGREIFINN sjálfur getur ekki stært sig af neinni annarri reynslu en þeirri þegar hann fletti aðeins í gegnum bækurnar fyrir fáeinum árum og af frekar fráhrindandi upplifun af sögunum í æsku. Lestur teiknimyndasagnanna um Alex eru því komnar á forgangslista SVEPPAGREIFANS.
En það var árið 1948 sem hinn ljóshærði, gallverski unglingspiltur Alix l'intrépide, eða Alex hugdjarfi eins og hann nefndist á íslensku, birtist fyrst á síðum belgíska teiknimyndatímaritsins Le Journal de Tintin. Höfundurinn, Jacques Martin, hafði unnið áður að ýmsum myndasöguverkefnum hjá litlum teiknimyndablöðum en þegar Tinna tímaritið var sett á laggirnar, í september árið 1946, óx það hratt og minni blöðin urðu fljótlega undir í samkeppninni. Þau hurfu því smán saman hvert af öðru og Martin missti starf sitt. Hann hóf þá störf hjá Le Journal de Tintin og vann að ýmsum teikniverkefnum undir handleiðslu þeirra Edgar P. Jacobs og Georges Remi - Hergé. Er hann hafði starfað þar í fáeina mánuði sýndi hann yfirmönnum sínum sýnishorn af fyrstu blaðsíðunum úr sögu sem hann hafði verið að vinna að og nefndi einfaldlega Alix l'intrépide eða Alex hugdjarfi. Og þann 16. september 1948 birtust svo þessar fyrstu síður sögunnar í Le Journal de Tintin (tbl. nr. 38 - 1948) og henni lauk í blaðinu sem kom út þann 17. nóvember árið 1949. Ritstjórum Tinna tímaritsins leyst þó bara rétt mátulega vel á þessa myndasögu í byrjun og höfðu ekkert sérstaklega mikla trú á henni. Sérstaklega var Hergé sjálfur gagnrýninn og taldi söguna ekki líklega til vinsælda. Atburðarásin væri allt of langdregin, flókin og alvarleg, stíllinn væri of staðlaður og nákvæmur og auk þess væri allt of mikill texti í sögunni. En lesendur Le Journal de Tintin elskuðu þessa myndasögu strax frá byrjun og því fékk Martin að halda henni áfram.
Myndasögurnar um Alex urðu því strax mjög vinsælar hjá hinum ungu lesendum Tinna tímaritsins en þær gerast í Rómaveldi á dögum Sesars á 1. öld fyrir Krist. Martin teiknaði ekki bara sögurnar heldur samdi hann einnig handritið að þeim og þær hafa einmitt verið rómaðar bæði fyrir ótrúlega vandvirka teiknivinnu og ekki síður fyrir raunsanna og nákvæma endursköpun á hinum víðsjárverðu tímum Rómaveldisins. Þessar sögur nutu því ekki aðeins vinsælda vegna listrænna hæfileika Martins og afbragðs handrita heldur var fræðslugildi þeirra einnig ótvírædd. Saga númer tvö, Le sphinx d'or (Gullni sfinxinn) hóf göngu sína í blaðinu þann 1. desember árið 1949 og í henni kom til sögunnar unglingsdrengur að nafni Enak en hann átti síðan eftir að fylgja Alex í mörgum ævintýrum. Upphaflega átti Enak aðeins að koma fyrir í þessari einu sögu en hann varð fljótlega að nauðsynlegum fylgifiski aðalsöguhetjunnar. Líkt og Kolbeinn kafteinn í Tinna bókunum. Þá mátti strax sjá ákveðin þroskamerki á sögunni sjálfri þar sem Martin náði betra jafnvægi á milli texta og mynda auk þess sem teiknivinna hans virtist í stöðugri þróun. Með þriðju sögunni L'lle Maudite (Álagaeyjunni) má segja að fullum þroska hafi verið náð en sú saga er í uppáhaldi hjá mörgum og jafnvel talin sú fyrsta af nokkrum meistaraverkum seríunnar. Upp úr þessu fóru sögurnar einnig að verða eilítið einfaldari og sem dæmi um það notaði Martin nú ekki jafnmarga myndaramma á hverri blaðsíðu og fækkaði myndaröðunum úr fimm og niður í fjórar. Þessar þrjár fyrstu sögur seríunnar hafa allar verið gefnar út á íslensku en vikið verður að því síðar.
Árið 1952 hófust einnig að birtast í Le Journal de Tintin sögurnar um Frank sem minnst var á hér í byrjun en auk þess hélt Jacques Martin áfram öðrum störfum sínum fyrir tímaritið. Um Frank skrifaði SVEPPAGREIFINN meðal annars hér. Hergé stofnaði Hergé Studios árið 1954 en þar var Martin ráðinn listrænn ráðgjafi og var mjög virtur af samstarfsmönnum sínum og því miklvægur hlekkur í þeim hópi listamanna sem unnu að Tinna sögunum. Fyrir vikið urðu sögurnar um Frank fremur stopular og að lokum tóku aðrir listamenn alveg yfir teiknivinnuna að þeim þó Martin héldi áfram að semja handritin. Meðal þeirra Tinna bóka sem Jacques Martin vann að á þessum árum má nefna Leynivopnið, Kolafarminn, Tinna í Tíbet, Vandræði Vaílu og Tinna og Pikkarónanna en auk þess vann hann meðal annars að endurteikningum af gömlum bröndurum um Palla og Togga.
Martin hélt þó alltaf áfram að bæði teikna og semja sögurnar um Alex hinn hugdjarfa en ekki var heldur hjá því komist að draga töluvert úr þeirri vinnu vegna anna hjá Hergé Studios. Fjórða sagan La tiare d'Oribal hóf ekki göngu sína í Le Journal de Tintin fyrr en árið 1955 en fyrstu þrjár sögurnar voru síðan endurunnar og gefnar út í bókaformi á árunum 1956 og 57. Alls voru fyrstu átján sögurnar um Alex hugdjarfa birtar í Le Journal de Tintin eða allt til ársins 1985 en fyrir utan þær allra fyrstu voru þær jafnframt gefnar út í bókaformi tiltölulega jafnóðum og birtingu þeirra lauk í tímaritinu. Jacques Martin hætti störfum hjá Hergé Studios árið 1972, þótt hann héldi reyndar áfram að teikna myndasögurnar um Alex fyrir tímaritið, en vann þó að ýmsum öðrum verkefnum tengdum myndasögum eftir það. Nítjánda og síðasta sagan Le cheval de Troie, sem hann bæði teiknaði og samdi handritið einn að, kom út árið 1988 en þá var heldur farið að hægja á listamanninum enda var hann kominn vel á sjötugsaldurinn og búinn að vera höfundur seríunnar einn í heil 40 ár. Þegar sagan O Alexandrie kom út árið 1996 voru liðin átta ár frá síðustu sögu og aðdáendur bókanna töldu jafnvel að serían væri á enda runnin. Jacques Martin hafði enn verið höfundur handritanna en ýmsir aðrir listamenn höfðu tekið við að teikna sögurnar. Bækurnar fóru aftur að koma reglulega út og Martin hélt áfram að skrifa sögurnar í nokkur ár í viðbót eða allt þar til 29. sagan Le Testament de César var gefin út árið 2010. Hann lést í janúar það ár, á 89. aldursári, í Sviss en þar hafði hann verið búsettur síðustu áratugina.
Bækurnar hafa þó haldið áfram að koma reglulega út eftir dauða Martins og nú eru þær alls orðnar 37 talsins. Sú síðasta, með hinum kunnuglega titli Veni, Vidi, Vici, var gefin út á síðasta ári en reikna má með enn einni nýrri sögunni á þessu ári enda hafa nýjar bækur með Alexi hugdjarfa nú komið út árlega í fjórtán ár í röð. Serían hefur því líklega sjaldan verið vinsælli. Sögurnar virðast í seinni tíð þó ekki jafn vandaðar að gæðum og í tíð Martins en þær þykja nokkuð stirðbusalegri en áður. Alls hafa bækurnar verið þýddar og gefnar út á 15 tungumálum en í hinum frönskumælandi löndum hafa verið seldar meira en 12 milljónir eintaka af bókunum frá upphafi. En serían með Alex hugdjarfa er nú orðin rúmlega 70 ára gömul og bækurnar orðnar 37 eins og áður segir. Og fyrir þá sem hafa þörf fyrir algjörlega tilgangslausan og fánýtan fróðleik má geta þess að titlar 28 af bókunum 37 byrja á bókstafnum "L".

 1. Alix l'intrépide - 1956 (Alex hugdjarfi - 1974)
 2. Le sphinx d'or - 1956 (Gullni sfinxinn - 1977)
 3. L'lle Maudite - 1957 (Álagaeyjan - 1981)
 4. La tiare d'Oribal - 1958
 5. La griffe noire - 1959
 6. Les légions perdues - 1965
 7. Le dernier Spartiate - 1967 (Síðasti Spartverjinn - 1978)
 8. Le tombeau étrusque - 1968
 9. Le dieu Sauvage - 1970
 10. Iorix le grand - 1972
 11. Le prince du Nil - 1974
 12. Le fils de Spartacus - 1975
 13. Le spectre de Carthage - 1977 (Vofa Karþagóar - 1977)
 14. Les proies du volcan - 1978
 15. L'enfant grec - 1980
 16. La tour de Babel - 1981
 17. L'empereur de Chine - 1983 (Keisarinn af Kína - 1988)
 18. Vercingétorix - 1985
 19. Le cheval de Troie - 1988
 20. Ô Alexandrie - 1996
 21. Les Barbares - 1998
 22. La Chute d'lcare - 2001
 23. Le Fleuve de jade - 2003
 24. Roma, Roma ... - 2005
 25. C'était á Khorsabad - 2006
 26. L'lbére - 2007
 27. Le Démon du Pharos - 2008
 28. La Cité engloutie - 2009
 29. Le Testament de César - 2010
 30. La Conjuration de Baal - 2011
 31. L'Ombre de Sarapis - 2012
 32. La Dernière Conquête - 2013
 33. Britannia - 2014
 34. Par-delà le Styx - 2015
 35. L'Or de Saturne - 2016
 36. Le Serment du gladiateur - 2017
 37. Veni, Vidi, Vici - 2018
Nokkrar af bókunum um Alex hafa þótt umdeildar en tiltölulega snemma komu fram ásakanir um að í sögunum mætti finna einhvers konar samkynhneigðan undirtón. Bækurnar hafa því nokkuð lengi verið stimplaðar þeirri ímynd. Einhverjir töldu sig hafa þörf fyrir að velta sér upp úr því að hinn ljóshærði unglingspiltur Alex sæjist sjaldan öðruvísi en hálfnakinn og slík ósvinna væri tæpast við hæfi ungra drengja sem að jafnaði voru helstu lesendur myndasagnanna. Og ekki minnkuðu þær hugrenningar við komu Enaks, í bókaflokkinn, sem varð með tímanum einstaklega náinn Alexi og þótti einnig óþarflega klæðalítill.
Reyndar virðast meira og minna allar persónur seríunnar vera hálfnaktar á löngum köflum í bókunum, jafnvel í snjó og kulda. Þarna eru því augljóslega miklar hetjur á ferðinni. Jacques Martin lagði sig fram um að hafa sögusviðið sem nákvæmast og leitaði heimilda úr sígildum bókmenntum en einnig sótti hann fyrirmyndir sínar af sögupersónunum bæði úr klassískri málaralist sem og skúlptúrum af grískum módelum þar sem allir voru meira eða minna hálfnaktir. Sagan segir að hann hafi sjálfur jafnvel gengið svo langt á tímabili að sinna teiknivinnu sinni við sögurnar nakinn til að fá innblástur. Það eitt var líklega næg ástæða til að einhverjir teldu þessar sögur varla við hæfi barna. Jacques Martin var einna fyrstur í belgísk/franska myndasöguumhverfinu til að fara út fyrir þau mörk sem ritskoðun útgefenda um nekt náði til. Allt þetta komst hann upp með og þótti í lagi í nafni sögulegra staðreynda. Sjálfur sagði Martin að aldrei hefði það staðið til að tengja sögurnar samkynhneigð en hann vissi þó af þeirri umræðu. Hans hugmynd hefði aðeins verið að skapa og miðla þeim anda sem einkenndu þennan tíma í sögunni.
Tvær karlkyns aðalsöguhetjur í teiknimyndasögum hafa reyndar löngun þótt þarft umfjöllunarefni hjá áhugafólki um slíka hluti og ekki þarf að fara lengra en til Tinna bókanna til að finna sambærilegar hugleiðingar til að velta sér upp úr. Þá minnkuðu ekki gagnrýnisraddir siðapostula við útgáfu sögunnar Le dernier Spartiate (Síðasti Spartverjinn), árið 1967, en í þeirri sögu kemur fyrir hin kynþokkafulla og sterka kvenpersóna, drottningin Adréa. Þessi aðlaðandi fertuga kona birtist ekki aðeins skyndilega eins og skrattinn úr sauðaleggnum, á hinu gríðarlega karllæga sviði bókaflokksins, heldur var einnig gefið í skyn að hún drægist á einhvern hátt kynferðislega að hinum 16 ára gamla unglingi Alex. Upp úr því fóru fleiri kvenpersónur nú að birtast meira  í bókaflokknum og með frjálslyndari tímum, tengdum hippamenningunni, má segja að hálfgerð sprenging í formi hálfnaktra kvenna hafi orðið í seríunni. Tímarnir voru þannig að breytast, meira að segja í hinni rammkaþólsku Belgíu. Jafnvel sjálf Kleópatra birtist löngu seinna í sögunni Le Fleuve de jade (2003) þar sem hún girnist Enak sem varla er meira en 14 ára gamall gutti.
En fáeinar bækur um Alex komu út á íslensku eins og áður hefur aðeins verið vikið að. Árið 1974 gaf bókaútgáfan Fjölvi, með Þorstein Thorarensen í broddi fylkingar, út fyrstu söguna - Alex hugdjarfi (Alix l'intrépide - 1956). Á þeim tíma höfðu eingöngu verið gefnar út teiknimyndasögur hér á landi með ævintýrum Tinna. Þessi bók um Alex var því aðeins önnur til þriðja serían sem íslenskir myndasögulesendur áttu kost á að fletta því fyrstu fjórar Ástríks bækurnar komu einnig út um leið og þessi saga um Alex. Ekki fer reyndar neinum sögum um hversu vel þessi fyrsta bók seldist en líklega hefur salan verið heldur dræm því næstu tvær sögur úr bókaflokknum kom ekki út hjá Fjölva fyrr en árið 1977. Það sama ár hófu einmitt margar aðrar bókaseríur göngu sínar á íslensku, bæði hjá Fjölva og Iðunni, og líklega hafa þær flestar orðið vinsælli og selst meira en sögurnar um Alex. En bækurnar tvær sem Fjölvi sendi frá sér árið 1977 hétu Gullni sfinxinn (Le sphinx d'or - 1956), og var önnur bókin úr upprunalegu seríunni, en hin var Vofa Karþagóar (Le spectre de Carthage - 1977) sem var þrettánda sagan og reyndar þá sú nýjasta í bókaflokknum. Árið eftir gaf Fjölvi út bókina Síðasti Spartverjinn (Le dernier Spartiate - 1967) sem var saga númer sjö úr upprunalegu seríunni en næsta bók kom ekki út á íslensku fyrr en þremur árum seinna eða árið 1981. Það var bókin Álagaeyjan (L'lle Maudite - 1957) sem var sú þriðja úr upprunalegu bókaröðinni. Nú liðu heil átta ár þar til sjötta sagan kom út á íslensku en sú bók varð jafnframt sú síðasta sem hér var gefin út. Árið 1988 kom út Keisarinn af Kína (L'empereur de Chine - 1983) sem var sautjánda sagan úr upprunalegu seríunni og þessar sex íslensku Alex bækur komu því á víð og dreif úr fyrstu sautján sögum seríunnar. Sem þótti auðvitað mjög hvimleitt því sögurnar allar tengjast og í bókunum er töluvert vitnað í sögur sem aldrei komu út hér á landi.
Rangæingurinn og "fjölfræðingurinn" Þorsteinn Thorarensen þýddi sjálfur allar bækurnar um Alex og það var vel við hæfi því sögurnar tengdust mjög hans eigin áhugasviði sem var auðvitað mannkynssagan eins og hún leggur sig. Fjölvi gaf út mikið af efni sem tengdust veraldarsögunni en fyrst og fremst voru það vinsælustu teiknimyndasögurnar sem skiluðu helstu innkomunni hjá Fjölva. Sennilega tilheyrðu myndasögurnar um Alex ekki þeim flokki en af því að sögurnar tengdust svo áhugasviði Þorsteins þá fékk útgáfa þeirra að fljóta með. Sú útgáfa var því klárlega meira af hugsjón en gróðasjónarmiðum. Vel með farin eintök í bókahillum íslenskra myndasögusafnara og í nytjamörkuðum gefa nokkuð sterka vísbendingu um að þessar bækur hafi ekki verið lesnar upp til agna á sínum tíma. Þar fyrir utan er enn tiltölulega auðvelt að nálgast eintök af þessum bókum úr seríunni og þær kosta ekki handlegg eða tvo. En Þorsteinn Thorarensen skrifaði inngang að fyrstu bókinni, Alex hinn hugdjarfi, þar sem hann segir:
Á hvíldarstundum frá því mikla verki að þýða Veraldarsögu Fjölva hef ég brugðið mér í það að snara einu ævintýri Alexar á íslensku. Sögurnar af Alexi hinum unga og hugdjarfa sveini eru þekkilegar. Þær hafa á sér svip skemmtibókmennta, sem eru fyrst og fremst ætlaðar til afþreyingar og ánægju. En það sem gerir þær svo sérstæðar er vandvirknin og nákvæmnin á öllum sviðum. Auðvitað eru söguhetjurnar skáldskapur, og sum atvik, sem þær rata í ærið ævintýranleg, en þeim er skipað á sögulegt svið með ótrúlegri nákvæmni. Teiknarinn hefur lagt sig fram af mestu snilld að endurskapa hinn rómverska heim og umhverfi og lifnaðarhætti. Húsagerð, búningar og vopnabúnaður, allt er þetta hárrétt. Tökum sem dæmi sérkennilegan brynjubúning Sarmatanna, hann fylgir nákvæmlega fornleifum, sem fundist hafa. Takið líka eftir því, að riddarar ríða á hestbaki án ístaða. Það er líka rétt, því að ístöð voru uppfinning germönsku þjóðflutningatímanna. Sama er að segja um misjafnar tegundir skipa, sem hér koma fram, og risastyttan við innsiglingu á Ródos var raunverulega eitt af sjö furðuverkum heims. Atburðarásin tengist líka sagnfræðilegum viðburðum, herferð Krassusar til Mesópótamíu og valdaátök þau sem hér er lýst eru fullkomlega í stíl við valdabaráttu og samsærisaðferðir Pompeiusar, sem var lýðstjóri um tíma ásamt Sesari. Það er því skoðun mín, að ævintýri Alexar séu ekki aðeins afþreyingarsögur heldur rísi í nákvæmni sinni og natni upp í þroskandi frásögn, sem leiði okkur með sannsögulegu hætti inn á sagnasvið Rómarveldis.
Þýðandi.
Og svo er vel við hæfi að setja endapunktinn á þessa færslu með "áhugaverðum" grip sem heitustu aðdáendur seríunnar um Alex hugdjarfa ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Hér er um að ræða hljómplötuna Alix l'intrépide frá árinu 1960 þar sem fyrsta saga seríunnar er leiklesin með tilheyrandi dramatískri tónlist, ofleik og látum. Og fyrir þá sem ekki láta sér nægja að virða fyrir sér albúmið, eða að hafa bara vitneskjuna um tilurð þessarar plötu, þá er einnig hægt að svelgja ærlega á veigunum með því að hlusta á hana í fullri lengd hér. Góðar stundir.