22. janúar 2021

183. SVALUR OG VALUR Í HÖNDUM YVES CHALAND

Sval og Val bækurnar þekkja auðvitað allir aðdáendur belgískra teiknimyndasagna en þær bækur eru í uppáhaldi hjá nokkuð mörgum. Íslenskir myndasögulesendur fengu fyrst að kynnast þessum bókum skömmu fyrir jól 1978, þegar Hrakfallaferð til Feluborgar kom út hjá bókaútgáfunni Iðunni, og næstu fjórtán árin voru alls gefnar út tuttugu og níu sögur á Íslandi úr þessum vinsæla bókaflokki. Rúmlega tuttugu árum seinna hóf Froskur útgáfa svo að senda frá sér þessar bækur á ný og nú hafa alls verið gefnar út þrjátíu og sjö Sval og Val bækur á Íslandi. Og vonandi á enn eftir að bætast í það safn. Fyrstu bækurnar sem Iðunn gaf út á sínum tíma voru eftir belgíska listamanninn André Franquin en síðan bættust við fáeinar sögur sem Jean-Claude Fournier hafði teiknað og að síðustu komu út hjá þeim nokkrar bækur eftir tvíeykið Tome og Janry. Síðasta Sval og Val sagan sem Iðunn gaf út árið 1992, Seinheppinn syndaselur, var einmitt eftir þá félaga en Tome og Janry voru þá enn höfundar seríunnar og voru nokkur ár í viðbót áður en aðrir tóku við.
Jean-Claude Fournier gerði alls níu sögur í bókaflokknum (og af þeim komu fimm út á íslensku) en síðasta saga hans, Des haricots partout, var gefin út í bókaformi árið 1980 eftir að hafa birst í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU árið á undan. Þegar sú saga hafði runnið skeið sitt á enda hóf Fournier vinnu að næstu sögu sem þegar hafði hlotið vinnuheitið La maison dans la mousse. Á svipuðum tíma vildi Dupuis útgáfufyrirtækið hins vegar koma fram nýjum áherslum varðandi sýnileika Svals og Vals í blaðinu þar sem þeim fannst sögurnar vera orðnar of stopular. Stjórnendum þess þótti Fournier ekki nægilega afkastamikill og fyrirtækið ákvað því að myndasögunum um Sval yrði skipt á milli fáeinna mismunandi höfunda eða teyma til að auka sýnileika þeirra í blaðinu. Þetta var eitthvað sem Fournier sætti sig alls ekki við og hrökklaðist því frá störfum. Hann hafði teiknað Sval og Val í tíu ár og hugnaðist ekki að deila þeim félögum með öðrum. Það varð því ekkert úr því að La maison dans la mousse birtist í SPIROU tímaritinu og þær fimm hálfkláruðu blaðsíður sem komnar voru af sögunni hafa því að mestu legið í skúffum Fourniers síðan þá. Því tók við töluvert óvissutímabil í útgáfuferli Svals og Vals en svo gerðist það, líklega í einhverri örvæntingu Dupuis útgáfunnar, að tvíeykið Nic og Cauvin tók allt í einu frekar óvænt við seríunni. Samhliða sögum þeirra vann síðan annað tvíeyki, Tome og Janry, einnig að sögum um Sval og Val og birtust þessar sögur því sitt á hvað í blaðinu á árunum 1980-83 en þær voru síðan jafnframt gefnar út í bókaformi. Með þessari tilhögun jókst viðvera þeirra Svals og Vals mikið í tímaritinu og stjórnendur Dupuis fengu því sínu framgengt. Sögur þeirra Nic og Cauvin slógu reyndar ekki í gegn, og eru jafnan taldar á meðal hinna lélegustu í allri seríunni, en Tome og Janry þóttu hins vegar standa sig nægilega vel til að hreppa hnossið til frambúðar. En mitt í þessum óvissutímum skaut einnig fram á sjónarsviðið ungum Frakka, Yves Chaland, sem bættist í hóp þeirra listamanna sem fengu að spreyta sig á því að teikna Sval og félaga í SPIROU. Þann 22. apríl 1982 birtust þeir Svalur og Valur skyndilega í tveimur myndaröðum, neðst á blaðsíðum 2 og 3, með útliti sem ungum lesendur tímaritsins á þeim tíma var nokkuð framandi.
Þessar tvær myndaraðir voru með mjög óvenjulegu yfirbragði og líktust óneitanlega stíl þeirra myndasagna sem teiknaðar voru á fimmta og sjötta áratug tuttugustu aldarinnar. Útlitslega minntu þessar teikningar klárlega á árdaga Svals sjálfs sem listamaðurinn Rob-Vel hafði skapað en Franquin hafði síðan tekið við og þróað undir handleiðslu hins hæfileikaríka Jijé (Joseph Gillain). Franquin hafði einmitt tilheyrt hópi fjögurra listamanna (sem fengu síðan viðurnefnið fjórmenningagengið) sem auk þeirra Jijé hafði að geyma þá Morris (Maurice de Bevere) og Will (Willy Maltaite). En saman þróuðu þeir stílinn sem kenndur hefur verið við ligne atome og nefndur var til aðgreiningar frá ligne claire sem uppruna sinn átti að miklu leyti hjá Hergé höfundi Tinna bókanna. Jijé leiðbeindi þessum hóp sem síðar varð skilgreindur sem fyrsta kynslóð Marcinelle skólans en Dupuis fyrirtækið var einmitt staðsett í þeirri borg. Listamennirnir fjórir hafa í seinni tíð verið nefndir sem helstu frumkvöðlar evrópsku myndasöguhefðarinnar eftir stríð. Með tímanum þróaðist ligne atome enn frekar með tilkomu nýrra lærisveina sem unnu meðal annars undir handleiðslu fjórmenninganna en teiknistíll og reyndar allt yfirbragð Yves Chaland einkenndist hins vegar af bernskudögum þess stíls. Þegar sagan birtist í SPIROU tímaritinu á sínum tíma nefndist hún einfaldlega Les Aventures de Spirou en í ólöglegum útgáfum seinna hlaut sagan heitið À la recherche de Bocongo og síðar Coeurs d'acier þegar hún kom loksins löglega út.
Yves Chaland var fæddur árið 1957 og var því 25 ára gamall þegar hann þreytti þessa frumraun sína með Sval í tímaritinu en sem barn hafði hann drukkið í sig belgískar myndasögubókmenntir og hafði alla tíð verið mikill aðdáandi þeirra. Hann hafði lesið allar þær myndasögur sem hann komst yfir í æsku og sem dæmi um áhuga hans má nefna að hann fékk birt eftir sig bréf sem hann sendi SPIROU blaðinu árið 1970 þegar hann var 13 ára gamall. Chaland fór fljótlega að teikna sjálfur og tileinkaði sér á stuttum tíma þennan óvenjulega stíl og sínar fyrstu myndasögur fékk hann birtar á prenti aðeins sautján ára gamall. Alain De Kuyssche hjá SPIROU, sem er reyndar aðalritstjóri tímaritsins í dag, hitti Chaland fyrst í júlí árið 1981, þegar hann vann að öðru verkefni fyrir blaðið, og fáeinum mánuðum eftir það óskaði hann eftir því við Chaland að hann tæki að sér að teikna sögur um Sval og Val. De Kuyssche var mjög hrifinn af hinum óvenjulega teiknistíl listamannsins og það var hann sem átti hugmyndina að því að hafa myndaraðirnar í svart/hvítu þannig að þær hæfðu stílnum sem best. Yves Chaland var alltaf mjög önnum kafinn en með því að skila af sér aðeins þessum tveimur myndaröðum á viku tókst honum að halda sig innan tímarammans og samræma þetta verkefni öðrum störfum sínum. Þetta var mikill heiður fyrir listamanninn því hann hafði alltaf verið aðdáandi þeirra Svals og Vals og þarna fékk hann tækifæri til að láta gamlan draum, um að teikna átrúnaðargoð sín, rætast. Svo mikla trú hafði De Kuyssche á hæfileikum Chaland að hann veitti honum þann heiður að teikna forsíðu SPIROU blaðsins, þann 29. apríl árið 1982, aðeins viku eftir fyrstu birtinguna. En þar fyrir utan fékk Chaland jafnmikið greitt fyrir sínar tvær myndaraðir og aðrir listamenn fengu fyrir hverjar fjórar.
Þessi Sval og Val saga Yves Chaland í SPIROU tímaritinu entist því miður ekki lengi. Lesendur blaðsins, sem flestir voru auðvitað bara börn og unglingar, fannst sagan einkennilega ögrandi og skrítin og vissu ekki alveg hvernig þau áttu að taka henni. Þá höfðaði hinn framandi retró-stíll hennar ekki alveg til þessa unga markhóps og að endingu var birtingu hennar hætt í miðri sögu. Þá höfðu tæplega 50 myndaraðir úr sögunni birst í tímaritinu og það síðasta sem kom fyrir sjónir lesenda þess var heil síða, sem birtist á blaðsíðu 3 þann 16. september 1982, en hún endaði á einhvers konar yfirliti með myndaröð af hugsanlegu framhaldi. Pressan stóð á Charles Dupuis úr öllum áttum og það var hann sem ákvað að binda enda á sögu Chaland í blaðinu en opinberlega var það gefið út að vinna hans hefði verið of dýr. Það þótti ekki réttlætanlegt að greiða frönskum listamanni, sem auk þess var hálfgerður nýliði, helmingi meira en belgískum kollegum hans.
Líklega var þó málið að Charles Dupuis væri hræddur um að þarna væru þeir Svalur og Valur komnir of langt frá því útliti og stefnu sem Franquin hafði mótað fyrr á árum. André Franquin hafði verið höfundur seríunnar mjög lengi og skapað ákveðið fordæmi sem Fournier hafði síðan fylgt samviskusamlega vel eftir. Sennilega fannst stjórnendum Dupuis ekki viðeigandi að nýr höfundur viki svo langt frá þeirri braut. Þær myndasögur sem höfðuðu meira til eldri lesenda, eða jafnvel fullorðna, áttu heldur ekki upp á pallborðið hjá blaðinu en í byrjun níunda áratugarins var tíðarandinn þannig að óhugsandi þótti að hugsa út fyrir ramma sem hafði svo fastmótuð og íhaldsöm gildi. Í dag er þessu sem betur fer allt öðru vísi háttað og fæstir lesendur eiga í neinum vandræðum með að njóta fjölbreytilegrar víðsýni með uppáhalds sögupersónunum sínum. Hvort sem það er Svalur og Valur, Lukku Láki, James Bond eða jafnvel uuh... Jesús. Reyndar er markhópurinn fyrir myndasögur í dag orðinn töluvert eldri en hann var árið 1982. Yves Chaland var einmitt í hópi nokkurra listamanna sem reyndu að endurreisa þennan klassíska stíl eftir að myndasögur af franska málsvæðinu höfðu að mörgu leyti staðnað um hríð. Nálgun Chaland hefur núna öðlast ákveðna viðurkenningu og í seinni tíð hefur slíkt afturhvarf einmitt verið mjög vinsælt hjá höfundum myndasagna. Skýr dæmi um það má til að mynda sjá á bókum úr hliðarseríunni Sérstökum ævintýrum Svals ... en þar fá ýmsir listamenn tækifæri til að spreyta sig á frjálslegan hátt í sjálfstæðum sögum með þeim Sval og Val. Margir þeirra hafa einmitt fetað í fótspor Chaland og í seríunni gætir einmitt töluvert áhrifa hans, bæði með vísunum í hinn fallega retro-stíl hans en einnig sögusvið. Í þeim bókum má ennfremur finna beina tengingu við Yves Chaland en handritshöfundurinn Yann Pennetier (Yann) skrifaði söguna Le Groom Vert-de-Gris (2009), á sínum tíma, upphaflega með listamanninn Chaland í huga. Hann fékk því miður aldrei tækifæri til að teikna hana en teiknarinn Oliver Schwartz, sem einmitt er einn þeirra listamanna sem hefur tekið sér stíl Chaland til fyrirmyndar, tók að sér að teikna söguna í hans anda. Margir muna það örugglega að Le Groom Vert-de-Gris birtist í myndasögutímaritinu Neo Blek árið 2011 og nefndist þá Á valdi kakkalakkanna. Yann og Schwartz gerðu síðan aðra sögu í hliðarseríunni um Sval sem hét La Femme léopard (2014) en hún er sjálfstætt framhald Le Groom Vert-de-Gris. Sú saga var reyndar ekki samin fyrir Chaland en er í sama stíl og söguþráður hennar minnir óneitanlega á einmitt hina hálfkláruðu Sval og Val sögu hans í SPIROU blaðinu. Þriðja sagan eftir tvíeykið úr þessari seríu heitir Le Maître des hosties noires en hún kom út árið 2017 og er að sjálfsögðu einnig í sama anda.
Eftir að Svalur og Valur, í meðförum Chaland, hættu að birtast í SPIROU tímaritinu hafði hann ekki leyfi til að halda áfram með framhaldið og gefa söguna út í heild sinni. Dupuis fyrirtækið átti útgáfuréttinn af Sval og Val og opinberir höfundar seríunnar voru þá annars vegar þeir Nic og Cauvin og hins vegar Tome og Janry. Sagan lá því nokkuð lengi í gleymsku en árið 1990 var hún dregin fram og gefin út hjá Champaka útgáfunni í vandaðri þúsund eintaka viðhafnarútgáfu, undir heitinu Coeurs d'acier (hefti 1 og 2), sem öll voru árituð af Chaland. Fyrra heftið hafði að geyma söguna eins og hún birtist í SPIROU blaðinu en nú hafði hún einnig verið lituð af Isabelle eiginkonu Chaland. Seinna heftið hafði aftur á móti að geyma það framhald af sögunni sem upp á vantaði en að þessu sinni í myndskreyttu textaformi. Sá hluti sögunnar var einmitt unninn af áðurnefndum handritshöfundi Yann og í nánu samráði við Chaland en þeir tveir voru góðir vinir. Dupuis átti auðvitað réttinn af þeim Sval og Val og því sjást þeir aldrei beint í myndskreytingum seinna heftisins. Útgefendurnir fóru hins vegar lymskulega í kringum það með því að láta andlit þeirra og líkama ætíð vera hulin hlébarðaskinni en auk þess voru þeir Svalur og Valur aldrei nefndir á nafn í því hefti. Þessi útgáfa var aðeins í boði í sérhæfðum bókabúðum en árið 1997 gat almenningur loksins eignast söguna á prenti þar sem hún birtist í hluta af heildarverkum Yves Chaland. Seinna hefur sagan svo verið gefin út bæði af Champaka en einnig af Dupuis.
Í þeim bókum sem heildarverk Chaland hafa verið birt má einnig sjá töluvert af aukaefni sem hafði ekki komið áður fyrir augu almennings. Þar má til dæmis finna ýmislegt skemmtilegt efni sem kætir vafalítið aðdáendur bókanna um Sval og Val en sýnir um leið hve Svalur var listamanninum hugleikinn. Líklega um það leyti sem hann var að byrja að teikna Sval í SPIROU tímaritinu tók hann sig einnig til og útbjó fimm ímyndaðar bókakápur af safnheftum SPIROU blaðanna. Fyrir þá sem ekki þekkja var (og er hugsanlega enn) hefð fyrir því að safna saman blöðunum á um það bil tveggja mánaða fresti og gefa þau út í þykkum innbundnum heftum. Þetta hafði tíðkast alveg frá því SPIROU blöðin voru gefin fyrst út á fjórða áratuginum en þessi safnhefti eru í dag líklega orðin um 400 talsins. Reyndar er SVEPPAGREIFANUM ekki alveg kunnugt um hvort þessi innbundnu hefti komi enn út. Þessar þykku bækur eru að sjálfsögðu í sömu stærð og blöðin og framan á kápu þeirra má yfirleitt sjá einhverja vel heppnaða mynd, úr einhverju þeirra blaða sem heftið inniheldur, auk raðnúmers þeirrar bókar. Þessar fimm fölsuðu bókakápur teiknaði Chaland með stíl Franquin og lét þær líta út eins og þær væru af ímyndaðri sögu sem birst hefði í blöðunum. Hann lét jafnvel bókarkápurnar líta út fyrir að vera gamlar og slitnar. Hér má sjá eina af þessum myndum sem hann lét vera af bókarkápu númer 45 en það hefti var upprunalega frá árinu 1953. Mynd Chaland er hægra megin en upprunalega kápa Franquins, með mynd úr sögunni La corne de rhinocéros (Horn nashyrningsins), er vinstra megin til samanburðar.
Yves Chaland er kannski ekki mjög kunnur á Íslandi, enda hafa því miður engar af sögum hans komið út hér á landi, en þeir sem til þekkja eru yfir sig hrifnir af stílnum og telja þennan listamann mikinn snilling. Margir þekkja auðvitað tilurð þessarar hálfkláruðu sögu hans um Sval og Val en hann á reyndar nokkrar aðrar myndasögur einnig að baki auk teiknivinnu sem hann vann fyrir aðra handritshöfunda. Þekktustu sköpunarverk hans eru þó án efa sögurnar um ævintýramanninn Freddy Lombard. Alls komu út fimm bækur um þann kappa en margir vilja meina að aðalsöguhetjan sé einhvers konar blanda af Tinna og Val. Sögurnar eru þó engar barnabækur, enda í frekar grófari kantinum, þar sem ofbeldi og nekt eru nokkuð áberandi. Þarna hefur jafnvel verið talað um Tinna fyrir fullorðna. Fyrsta saga Chaland um Freddy Lombard kom út árið 1981 og sú síðasta árið 1989 en því miður entist listamanninum ekki aldur til að gera fleiri sögur. Hann lést í hörmulegu bílslysi árið 1990, ásamt dóttur sinni, aðeins 33ja ára að aldri. Þessar fimm bækur eru mjög flottar og sýna vel þá snilli sem Chaland hafði yfir að ráða en í þeim er hægt að greina stigvaxandi þroska hans og framfarir með hverri bók. Í fimmtu og síðustu sögunni má segja að retró-stíllinn hans sé orðinn fullkominn og svipaða sögu má segja um uppbyggingu hennar og frásagnarmáta. Til að byrja með höfðuðu sögurnar um Freddy Lombard mest til samtíðamanna Chaland úr röðum myndasöguhöfunda, enda listamaðurinn einn helsti áhrifavaldur þeirra, en í seinni tíð hafa fleiri lesendur myndasagna uppgötvað þær og sögurnar eru í dag töluvert vinsælar. SVEPPAGREIFINN hefur svolítið flett þessum bókum þegar hann hefur komist í tæri við þær en á því miður aðeins eina þeirra (bók númer 2 Le cimetière des éléphants) og hún er á spænsku! Bækurnar um Freddy Lombard fást því miður ekki á dönsku en það er ekki mjög langt síðan sögurnar fimm voru gefnar út á ensku af Humanoids útgáfunni í vönduðu safni í einni bók. 
 
Nú þarf SVEPPAGREIFINN víst að fara að finna sér meira efni eftir þenna frábæra teiknara. 

8. janúar 2021

182. JÓLABÓKIN 2021

Jólin búin, áramótin búin og næsta mál á dagskrá er færsla í letilegri kantinum sem einkennist reyndar af heiftarlegri eftirjólaþynnku. Fram undan er bólusetningarárið mikla 2021, sem er bara hið besta mál, þó sú staðreynd muni líklega leysa fæst af þeim verkefnum sem SVEPPAGREIFINN þarf að vinna í um þessar mundir. En það breytir þó ekki því að hann er strax farinn að huga að helstu jólabók næstu jóla. Nú er alla vega orðið ljóst að það stórvirki verður hin eitursvala Lukku Láka saga Bardaginn við Kórónuveiruna og stærsta spurningin er bara hver mun taka það að sér að semja þetta meistaraverk. Bara verst að þegar hún loksins verður gerð þá verða allir orðnir dauðleiðir (eða bara dauðir) á þessum pínulitla vágest sem búinn er að hrella okkur síðasta árið.

Megi nýtt ár færa lesendum Hrakfara og heimskupara óskir um frelsi og farsæld á Fróni og um leið óendanlega nýtingu á líkamsræktarstöðvum, sundlaugum, sýningarsölum og kirkjum - fyrir þá sem þurfa svo nauðsynlega á því að halda ...

Gleðilegt nýtt ár!

25. desember 2020

181. JÓLASAGA UM GORM

Það er líklega best hjá SVEPPAGREIFANUM að byrja á því að óska lesendum Hrakfara og heimskupara gleðilegra jóla og þakka þeim fyrir þetta skrítna ár sem senn tekur nú enda. Þennan föstudag ber upp á jóladag og færsla dagsins fær því að sjálfsögðu það hlutverk að vera í hátíðlegri kantinum í tilefni þess. Gormurinn, úr bókunum um Sval og Val, fær sviðið að þessu sinni en efnið í þessari jólafærslu er tveggja blaðsíðna jólasaga sem birtist í hátíðarhefti belgíska myndasögutímaritsins SPIROU sem kom út fimmtudaginn 20. desember, á því herrans ári, 1956.
Það var að sjálfsögðu listamaðurinn André Franquin sem átti heiðurinn að þessari fallegu og hjartnæmu jólasögu en hún mun hafa verið teiknuð á svipuðum tíma og Gormahreiðrið (Le nid des Marsupilamis) var að birtast í tímaritinu. En þessi stutta jólasaga fjallar um það þegar dýravinurinn Gormur tekur að sér það hlutverk að vernda nokkra kunningja sína úr dýraríkinu, seint að kvöldi aðfangadags, á meðan þeir Svalur og Valur bregða sér eilítið að heiman. Þessi jólasaga var að mestu leyti þýdd úr frönsku af Greifynjunni, ástkærri eiginkonu síðuhafans, en SVEPPAGREIFINN ber þó sjálfur alfarið ábyrgð á kauðslegri orðauppröðun textans í sögunni og framsetningu hans.
Og seinni hlutinn ...

11. desember 2020

180. HVÍTA TINNA SAGAN

SVEPPAGREIFINN hefur í fáein skipti rýnt aðeins í nokkrar Tinna bækur hér og fjallað um þær breytingar sem urðu á stökum sögum frá því þær birtust fyrst í Le Journal de Tintin (Tinna tímaritinu) og þar til endanleg útgáfa þeirra kom út í bókaformi. Í því samhengi má nefna færslur um bækurnar Tinna og Pikkarónana, Kolafarminn, og einnig tunglbækurnar tvær. Fleiri Tinna bækur höfðu þó gengið í gegnum sambærilegar yfirhalningar og að þessu sinni er ætlun SVEPPAGREIFANS að taka fyrir nokkrar mis-veigamiklar breytingar á bókinni Tintin au Tibet (Tinni í Tíbet) frá árinu 1960. Um leið er líka tilvalið að nota tækifærið til að minnast einnig aðeins á fáeina athyglisverða og skemmtilega punkta sem tengjast þessari sögu. Tinni í Tíbet hefur af mörgum verið talin ein af bestu bókum höfundarins Hergé um Tinna og óhætt er að segja að sagan sé hans persónulegasta. SVEPPAGREIFINN hefur reyndar aðeins minnst á þessa myndasögu í færslu hér áður en það var í tengslum við nokkuð framandi eintak sem honum áskotnaðist af bókinni. En um það leyti sem Hergé vann að þessari sögu hafði hann verið að glíma við þunglyndi, auk togstreitu í einkalífinu og margoft hefur verið greint frá einkennilegum draumförum listamannsins á þessum tíma. Draumar hans eða martraðir snerust um hvítar og yfirþyrmandi litabreiður, sem hann túlkaði sem snjó, og voru mjög raunverulegar. Honum var meira að segja ráðlagt, af svissneskum sálfræðingi, að taka sé hvíld frá þessu verkefni eða jafnvel að hætta alveg með það. En með því að teikna hina hvítu sögu sína um Tinna í Tíbet tókst honum að vinna sig út úr þessum undarlegu draumförum. Afraksturinn varð þessi frábæra saga sem SVEPPAGREIFINN telur klárlega til einna af sínum uppáhalds Tinna bókum. En sagan Tintin au Tibet hóf göngu sína í Le Journal de Tintin tímaritinu í Belgíu þann 17. september árið 1958 og af því tilefni prýddi þessi mynd Hergés framhlið blaðsins.
Forsíðunni óvenjulegu var fyrst og fremst ætlað að vekja athygli á hinni nýju Tinna sögu í blaðinu og óhætt er að segja að myndin hafi vakið nokkra athygli. Þegar birtingu sögunnar lauk, í nóvember árið eftir (1959), hófst síðan hefðbundinn undirbúningur að því að gefa hana út í bókarformi hjá belgísku Casterman útgáfunni. Hergé, sem hafði teiknað söguna undir hinum áðurnefndu hvítu áhrifum í draumum sínum, teiknaði þá upp nýja bókarkápu sem byggð var á þessari forsíðu Le Journal de Tintin. Honum fannst kápumyndin lýsa vel þeim hughrifum sem hann upplifði við vinnslu sögunnar en forráðamönnum Casterman hugnaðist þó ekki þessi útfærsla hans. Myndin á kápunni var undirlögð af hvítum kaffærandi hreinleika sem um leið undirstrikaði mikilfengleika umhverfisins í kring. Þessi yfirþyrmandi hvíti litur fór þó eitthvað fyrir brjóstið á útgefundunum og þeir kröfðust þess að Hergé bryti myndina upp á einhvern hátt. Stjórnendum Casterman útgáfunnar fannst bókarkápan of abstrakt fyrir hinn unga markhóp Tinna bókanna og þessar ofurhvítu snjóbreiður hentuðu ekki sem mjög söluvæn vara. Hergé samþykkti því, með semingi þó, að breyta kápunni á þann veg að blár himininn og tröllslegur fjallgarðurinn sæjust í bakgrunninum í fjarska en hann var skiljanlega aldrei ánægður með þá ákvörðun.
En strax á fremstu blaðsíðu sögunnar má sjá hvar gerðar voru fáeinar breytingar fyrir bókaútgáfuna árið 1960. Hér fyrir neðan má einmitt sjá fyrstu myndaraðirnar eins og þær birtust í
Le Journal de Tintin en þar efst mátti sjá eina breiða mynd sem hinir almennu lesendur bókarinnar kannast væntanlega ekkert við. Myndin var nefnilega felld út fyrir bókaútgáfuna og kom því aldrei aftur fyrir sjónir annarra lesenda en þeirra sem lásu tímaritið á sínum tíma. Þessar breytingar voru sambærilegar við þær sem gerðar voru í sögunum um Kolafarminn og Eldflaugastöðina, þar sem efsta myndaröðin hafði einnig verið felld út, og SVEPPAGREIFINN hefur fjallað um hér áður. Í stað þessara mynda eða myndaraða hefur titli sögunnar hins vegar verið komið þar fyrir. Í tímaritsútgáfunni gefur á að líta fallega yfirlitsmynd af fjallaþorpinu þar sem þeir Tinni, Tobbi og Kolbeinn dvelja í byrjun sögunnar. Á skiltinu til vinstri kemur það fram að þorpið nefnist Vargese en það er þó ekki til í alvörunni og mun vera hreinn tilbúningur Hergé. Hins vegar virðist útlit þess vera að miklu leyti innblásið af alpaþorpinu St-Gervais-les-Bains sem staðsett er í Haute Savoie héraðinu í Frakklandi og myndir af þeim fallega stað virðast taka undir það. Í íslensku útgáfunni af bókinni kemur hins vegar fram að dvalarstaður þeirra Tinna og Kolbeins nefnist Tindfjallahótel og er staðsett í Kerlingarfjöllum. Húmor þeirra Lofts og Þorsteins hjá Fjölva var einstakur!
En þarna sést hvar Tinni kemur röltandi ofan úr fjöllunum með Tobba, við hlið sér, hundfúlan yfir uppátækjum húsbóndans. Ef grannt er skoðað sést líka hvar Tinni arkar í urðinni klæddur negldum gönguskóm. Ungur lesandi Le Journal de Tintin, sem um leið var einnig áhugamaður um fjallgöngur, skrifaði Hergé bréf og benti honum á að gönguskór með nöglum undir væru fyrir nokkru orðnir úreltir. Skór með þykkum gúmmísólum væru orðnir algengari og almennt komnir í miklu meiri notkun hjá útivistarfólki. Hergé tók tillit til þessarar ábendingar og breytti skónum fyrir bókaútgáfuna þannig að þar skartar Tinni þessum fínu gönguskóm með gúmmísólum.
Það er kannski rétt að taka það fram að upphaflega hafði Hergé svolítið aðrar hugmyndir um heiti sögunnar. Sagan segir að hann hafi verið með titilinn Le Museau de la vache í huga fyrst þegar hann hóf að teikna hana en samkvæmt franskri þýðingu Greifynjunnar (sem er auðvitað hinn miklu betri helmingur SVEPPAGREIFANS) myndi það þýðast sem Trýni kýrinnar (eða kannski Nef kýrinnar) á íslensku. Svipaðar niðurstöður gáfu Google translate en ef einhver lesandi síðunnar treystir sér til að gefa betri útkomu má hinn sami gjarnan gefa sig fram.
Aðrar hugmyndir Hergé voru af svipuðum toga og heiti eins og Le museau de l'Ours og Le museau du branco komu líka fram. Við fyrstu sýn virðist Trýni kýrinnar ekkert svo fjarstæðukennt eða langsótt því þarna mætti leiða líkum að því að hinar heilögu kýr Indlands, sem bregður reyndar fyrir í bókinni, kæmu eitthvað við sögu. En svo er þó ekki. Þarna er einfaldlega verið að vísa til fjallstindsins eða klettadrangsins sem kemur fyrir undir lok sögunnar þegar þeir Tinni og Kolbeinn nálgast endamarkið. Sá tindur kallaðist Jakmúli í íslensku þýðingunni og er þar kenndur við uxahorn en á frummálinu var trýnið/nefið (Museau) alltaf hugmyndin. Á blýantsskissum af frumteikningum fyrstu blaðsíðu sögunnar má einmitt finna titilinn (Le Museau de la vache) skrifaðan ofarlega á efstu myndinni. 
En ástæðan fyrir því að sagan hlaut ekki nafnið
Le Museau de la vache var einfaldlega sú að forráðamenn Casterman höfnuðu því. Forlagið átti auðvitað útgáfuréttinn af bókunum og var heilmikið með puttana í vinnu og undirbúningi Hergé og þeir settu sig upp á móti þessum titli strax í júlí árið 1958. Það var meira að segja löngu áður en sagan var tilbúin eða byrjuð að birtast í Le Journal de Tintin. Casterman fannst mikilvægara, af markaðslegum ástæðum, að titillinn yrði einfaldur og auðskilinn svo Tintin au Tibet varð fyrir valinu og Hergé þurfti að gefa eftir upphaflegu hugmyndina. En af stærri breytingum sem gerðar voru á sögunni mætti helst nefna eitt atvik sem sleppt var í lokaútgáfunni þegar bókin kom út. Á blaðsíðu 37 staldra þeir Tinni, Kolbeinn og sjerpinn Terki aðeins við til að ráða ráðum sínum í leitinni að Tsjang. Terki hefur ákveðið að segja skilið við þá félagana (hann sneri reyndar aftur til þeirra stuttu síðar) og Tinni gerir upp við hann á meðan Kolbeinn notar tækifærið og fer að hita handa þeim kaffi. Kafteininum verður það hins vegar á að sprengja upp prímusinn og í næstneðstu myndaröðinni á síðunni má sjá hvar Kolbeinn situr eftir, kolringlaður á snævi þaktri jörðinni, með skíðlogandi prímusinn fyrir framan sig.
Þegar hér var komið sögu vantar hins vegar heila blaðsíðu úr upprunalegu útgáfunni sem birtist í
Le Journal de Tintin tímaritinu. Á þeim tólf myndarömmum sem vantar í bókaútgáfuna má sjá hvar Tinni stekkur snarlega til og sparkar logandi eldunarbúnaðnum burt frá bakpoka Kolbeins. Hann meiðir sig hins vegar við verknaðinn auk þess sem Kolbeinn fær yfir sig fullt ílát með einhverju góðgæti sem hann hafði einnig verið að hita upp. Tinni biðst afsökunar á að hafa sparkað matnum yfir Kolbein og þegar kafteinninn fer að kanna skemmdirnar á bakpokanum sínum hefjast miklar flugeldasprengingar allt í kringum þá. Tinni hafði þá óvart sparkað logandi prímusnum í áttina að öðrum farangri þeirra sem hafði að geyma kassa með neyðarflugeldum og þeir síðan farið að springa út frá logunum. Tinni, Kolbeinn, Terki og Tobbi eiga því þarna fótum sínum fjör að launa.
Næsta myndaröð á eftir birtist síðan neðst á blaðsíðu 37 í sjálfri bókinni og þar kannast lesendur væntanlega aftur við sig eftir þessa týndu og óvæntu atburðarás. Þeir félagarnir kveðjast og Terki heldur heim á leið (í bili) en Tinni og Kolbeinn halda áfram för sinni í leit að Tsjang. Líkt og í Tinna og Pikkarónunum birtust því upphaflega 63 síður af Tinna í Tíbet í
Le Journal de Tintin tímaritinu.
Atburðarásinni með neyðarflugeldunum var því sleppt og þessar fjóru myndaraðir, auk allra fyrsta myndaramma sögunnar, voru þess vegna eina efnið úr sögunni sem var hent út fyrir bókaútgáfuna. En fleiru var þó breytt þótt það væri ekki endanlega fjarlægt úr sögunni. Þegar Hergé hóf undirbúninginn að Tinna í Tíbet, í byrjun árs 1958, var hann auðvitað búinn að móta hugmyndir að handriti auk þess sem hann var að vinna að því að grófteikna eða rissa upp flesta ramma sögunnar. Þá var komið að ýmiskonar undirbúningi áður en farið var að teikna upp sjálfa söguna en með tímanum hafði Hergé orðið nákvæmari og lagt heilmikið á sig til að vandvirknin yrði sem mest. Smáatriðin skiptu hann miklu máli og við undirbúning Tinna í Tíbet hafði hann
til dæmis samband við flugfélagið Air India og óskaði eftir gögnum frá þeim. Þannig gæti hann teiknað Douglas DC 3 vél, sem kæmi fyrir í sögunni. Flugfélagið varð við þessari beiðni Hergé og sendi honum bæði ljósmyndir og auglýsingabæklinga og listamaðurinn þakkaði kærlega fyrir gögnin. Þegar sagan birtist síðan loksins í Le Journal de Tintin kom auðvitað í ljós að þessi DC 3 vél hefði lent í flugslysi í Himalaja fjöllum. Í frétt sem þeir Tinni og Kolbeinn lesa í dagblaði á Tindfjallahótelinu, á blaðsíðu 2, er sagt frá slysinu og að vélin hafi verið á vegum tilbúins flugfélags sem nefnist Indian Airways í sögunni. Þótt flugfélagið héti þar Indian Airways en ekki Air India höfðu Hergé og hans fólk teiknað vélina sem lenti í flugslysinu, af einhverri ástæðu, nákvæmlega í litum síðarnefnda fyrirtækisins og á stéli flugvélarinnar sást lógó félagsins einnig greinilega. Þetta kom mjög skýrt fram á frábærri og sígildri mynd af flakinu á blaðsíðu 28. 
Og ekki nóg með það heldur var nafn flugfélagsins Air India
, fyrir mistök, teiknað á vélina, í stað Indian Airways, á mynd sem kemur fyrir á blaðsíðu 58. Þar er Tsjang að fara yfir atburðarásina eftir á með þeim Tinna og Kolbeini og með frásögninni er mynd af DC 3 vélinni sem teiknuð var beint upp úr auglýsingabæklingi flugfélagsins. Allt þetta birtist einnig í fyrstu bókaútgáfunum án þess að stjórnendur Air India höfðu gert við þær nokkrar athugasemdir. Það var ekki fyrr en árið 1964 sem þeir höfðu samband við Casterman útgáfuna og kvörtuðu þá sáran. Forsvarsmenn flugfélagsins töldu að hið keimlíka nafn flugfélagsins í sögunni (Indian Airways) gæti valdið Air India tjóni og vildu ekki að hægt væri að bendla fyrirtækið á neinn hátt við flugslysið í Nepal. Þeir fóru því fram á það við Hergé að hann myndi skipta um nafn á flugfélaginu í sögunni og auk þess breyta lógóinu á stélinu sem sæist á flugvélarflakinu í fjöllunum. Hergé varð að sjálfsögðu fúslega við þessum beiðnum enda hafði flugfélagið reynst honum vel við gagnaöflunina sex árum áður. Hann breytti því nafni flugfélagsins í fréttaklausunni, úr Indian Airways í Sari Airways, fyrir næstu útgáfur og teiknaði síðan nýtt merki á stél flugvélarinnar þar sem það sést á flakinu. 
Hins vegar yfirsást bæði forsvarsmönnum Air India og Hergé og samstarfsfólki hans, algjörlega myndin af flugvélinni sem birtist á blaðsíðu 58 í sögunni. Þarna sést hin gullfallega Douglas DC 3 vél enn þann dag í dag með lógó flugfélagsins greinilegt á stélinu og er einnig enn kirfilega merkt Air India ofarlega á miðjum skrokknum. Svona lítur þetta til dæmis út í íslensku bókarútgáfunni.
Þær örfáu bókaútgáfur sem til eru af Tinna í Tíbet, og gefnar
voru út fyrir árið 1965, hafa því stél vélarinnar með Air India merkinu (bls 28) og þær bækur eru þess vegna afskaplega verðmætar og eftirsóttar af söfnurum. En breytingarnar sem gerðar voru á sögunni eftir það virðast þó ekki hafa allar skilað sér til lesenda þeirra kynslóða sem á eftir fylgdu. Myndbreytingarnar hafa þó að sjálfsögðu farið í gegn en einhver misbrestur hefur orðið á að textinn úr fréttaklausunni á blaðsíðu 2 hafi skilað sér í þýðingum annarra útgáfa en þeirrar belgísku. Í aðeins einni af þeim sex þýðingum sem SVEPPAGREIFINN á af bókinni kemur til dæmis hið endurunna Sari Airways nafn fram. Það verður reyndar að taka það skýrt fram að síðuhafi treysti sér ekki til að túlka það sem fyrir kemur í arabísku útgáfu bókarinnar og því er alveg óljóst hvað flugfélagið heitir þar. En í íslensku útgáfunum af Tinna í Tíbet kemur upphaflega flugfélagið, Indian Airways, fram.
Ekki var mikið meira af breytingum sem gerðar voru á sögunni fyrir útgáfu hennar í bókarformi árið 1960 en þó voru nokkur smávægileg atriði lagfærð eins og gengur og gerist. Þannig var bætt við einum og einum svitadropum, einhverjar línur lagaðar og skipt um eða skerpt á litum en einnig voru gerðar lítilvægar breytingar á textanum. Eina nokkuð skemmtilega uppfærslu má reyndar finna á lokasíðu sögunnar Tinna í Tíbet en sú breyting var svo lítilfjörleg að það var aðeins á færi allra verstu Tinna-nörda og sérfræðinga að finna þá viðbót í bókinni. En efst á blaðsíðu 62 er mjög óvenjulegur myndarammi sem sýnir hóp af leiðangursmönnum leggja frá Kór Bílong klaustrinu í Tíbet. Þarna sjást aðalsöguhetjurnar okkar, ásamt fríðu föruneyti, halda af stað heim á leið eftir að hafa hvílst í um vikutíma í munkaklaustrinu á meðan Tsjang var að ná sér af meiðslum sínum.
En uppi á klaustrinu sjálfu, lengst til hægri á myndinni, má sjá hvar pínulítill blett ber við klettavegginn fyrir aftan. Eiginlega er alveg vonlaust að sjá hvað þetta er nema með góðu stækkunargleri. En ... jú, þarna er sem sagt um að ræða skuggamynd af blinda, svífandi munkinum Blessuðum Þrumufleygi sem kemur fyrir í sögunni. Eins og lesendur eflaust muna var það munkurinn sem sveif í lausu lofti, sá sýnir og fékk vitranirnar sem staðfestu síðan að Tinni hafði haft rétt fyrir sér með að Tsjang væri enn á lífi.  Þetta var ekki að finna í Le Journal de Tintin tímaritinu og reyndar mætti eiginlega miklu frekar kalla þessa breytingu falinn brandara!

27. nóvember 2020

179. NOKKUR HEIMSKUPÖR RATTATA

Í færslu dagsins ætlar SVEPPAGREIFINN að kafa eilítið (reyndar ekkert mjög djúpt) ofan í frábæru aukapersónu sem kemur reglulega fyrir í bókunum um Lukku Láka. Hér er hann að sjálfsögðu að tala um hundræksnið Rattata en óhætt er að segja að kvikindið sé mjög nálægt því að vera alveg heimskur. Svo sterk aukapersóna er Rattati að hann fékk meira að segja á sínum tíma sérstaka hliðarseríu um sig (Rantanplan) sem SVEPPAGREIFANUM finnst að reyndar hefði vel verið hægt að vinna töluvert betur úr. Hugmyndin var frábær, enda heimsku hundsins engum takmörkum sett, en afraksturinn ekki jafn vel heppnaður. Bækurnar um Rantanplan urðu alls tuttugu talsins (auk fjögurra aukabóka) en þær voru gefnar út í Frakklandi á árunum 1987 - 2011 og hafa verið þýddar á nokkur önnur tungumál. Þetta efni var mest unnið og teiknað af tveimur hópum, sem að einhverju leyti voru undir eftirliti Morris, þar sem helmingurinn af bókunum var með heilum sögum en hinn helmingurinn með stuttum bröndurum. En sögupersónan Rattati birtist sem sagt fyrst í Lukku Láka sögunni Sur la piste des Dalton sem kom út í bókaformi árið 1961 en sú saga hafði birst í belgíska teiknimyndatímaritinu SPIROU nokkrum mánuðum áður. Rattati sjálfur sást strax á fyrstu blaðsíðu þeirrar sögu, þann 4. febrúar árið 1960, í SPIROU blaðinu og leit þá svona út.
Sagan segir að það hafi verið handritshöfundurinn René Goscinny sem hafi fyrst átt hugmyndina að Rattata og upphaflega hafi hann átt að vera einhvers konar grínútgáfa af hundinum Rin Tin Tin. Það muna þó líklega ekki mjög margir eftir hinum bráðgáfaða Rin Tin Tin en hann var ein af fyrstu dýrahetjum kvikmyndasögunnar og var eiginlega forveri sjálfrar Lassýar sem mun fleiri kannast við. Goscinny var orðinn eitthvað þreyttur á þessum hallærislegu ofurhetjum kvikmyndanna, úr dýraríkinu, svo hann ákvað að skapa einhvers konar andhetjulegt mótsvar gegn þeim. Það heppnaðist svona líka frábærlega og til varð þetta stórkostlega viðrini sem Rattati greyið er.
En verkefni dagsins er sem sagt að skoða fáein heimskupör Rattata og rifja upp nokkur augnablik úr Lukku Láka bókunum þar sem hundurinn hefur fengið að láta ljós sitt skína. Það vita eflaust allir, sem lesið hafa þessar myndasögur, að upphaflega var Rattati fangelsishundur og hafði meðal annars þann starfa að fylgjast með Dalton bræðrum við afplánanir sínar. Þegar Daldónar struku síðan úr fangelsunum fékk Lukku Láki stundum það verkefni að leita þá uppi og oftar en ekki var Rattati, af einhverjum ástæðum, einnig hafður með í för. Sjaldnast var það þó að vilja Láka og enn síður Léttfeta sem telur hundinn ein stærstu mistök náttúrunnar frá upphafi. Rattati birtist því að miklu leyti í þeim Lukku Láka sögum þar sem Dalton bræður koma við sögu en þó ekki öllum. Glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir því að hann er til dæmis hvergi sjáanlegur í Fjársjóði Daldóna (Le Magot des Dalton - 1980) og sömu sögu má segja um bókina Daisy Town, frá árinu 1983, þar sem Dalton bræður leika einnig stórt hlutverk. Þá eru að sjálfsögðu eldri bækurnar með Daldónunum líka án Rattata enda var þá ekki búið að kynna hundinn til sögunnar. Í íslensku útgáfuröðinni var það í bókinni Sálarháski Dalton bræðra (La Guérison des Dalton - 1975) sem Rattati er fyrst kynntur fyrir íslenskum aðdáendum og þar fá lesendur svolitla innsýn í bernsku hundsins.
Af þessum æskuminningum Rattata að dæma má því ætla að kvikindið hafi alltaf verið fremur snautt að gáfum og það kemur svo sem lítið á óvart. En fyrst og fremst er hlutverk Rattata í Lukku Láka bókunum að gera sögunar fyndnari og hann fær alveg fullt af eigin bröndurum í seríunni. Þannig nýtur hann til að mynda töluvert mikillar athygli í bókinni Ríkisbubbinn Rattati (L'héritage de Rantanplan - 1973) en inni í miðri þeirri sögu (á blaðsíðum 35-39) fær hann í raun fjögurra síðna aukasögu í nokkurs konar heiðursskyni. Sú örsaga sýnir vel hve heimskur, klaufskur og ósjálfbjarga Rattati er í raun og veru. Þar sést til dæmis vel hversu bjargarlaus hann er úti í náttúrunni og síðast en ekki síst hve hundurinn er með gjörsamlega handónýtt þefskyn. Það kemur líka fram snemma í áðurnefndri Sur la piste des Dalton að Rattati glímir við króníska heymæði og af þeirri ástæðu sé lyktarskyn hans ekki eins og eðlilegt talist getur hjá hundi.
Í Sur la piste des Dalton kemur líka fram, í fyrsta skipti í bókaflokknum, að hesturinn Léttfeti kann að tala. Hans fyrstu orð í allri seríunni beinast einmitt að Rattata þegar þeir hittast í fyrsta sinn og þar lýsir hann strax yfir vanþóknun sinni á hundinum. Reyndar er það skot ekkert endilega persónulegt gagnvart Rattata sjálfum, enda þekktust þeir ekkert fyrir, heldur virðist hann almennt ekki hafa mikið álit á hundum. Rattata tókst þó hins vegar mjög fljótlega að vinna sér inn persónulega óvild Léttfeta með óútreiknanlegum heimskupörum sínum. En í það minnsta er alla vega alveg óhætt að segja að Rattati hafi átt þátt í að talvæða Léttfeta til frambúðar.
Með tilkomu Rattata hefur einmitt verið talað um að marka megi upphaf gullaldartíma seríunnar. Að með hundinum heimska hafi bókaflokkurinn verið orðinn fullmannaður og því tilbúinn til að slá endanlega í gegn. Hvort Rattati hafi gert endanlega útslagið er reyndar kannski orðum aukið en vissulega leikur hann skemmtilega rullu í seríunni. Hlutverk Rattata í sögunum snýst þó ekki bara um að vera þessi skemmtilega og bráðfyndna aukapersóna, sem hann er, heldur er hann mjög mikilvægur til að fylla upp í dauða punkta í sögunum með fyndnum og jafnvel leyndum heimskupörum. Ekki á ósvipaðan hátt og Léttfeti sem kemur með skondnar athugasemdir, upp úr nánast engu, þegar brjóta þarf upp langdregnar senur eða til að brúa bilið á milli kaflaskila. Á einu slíku innslagi má til dæmis sjá hversu trúr og tryggur hann er sínu hundseðli.
Í bókinni Rex og pex í Mexíkó bregða þeir Lukku Láki, Léttfeti og Rattati sér meðal annars yfir landamærin, til Mexíkó, og hitta þar fyrir hinn moldríka landeiganda Don Dósóþeus Pinnos. Hann býður þeim að dvelja á búgarði sínum um stundarsakir og þeir félagarnir lifa þar í vellystingum um skeið. Don Dósóþeus á dvergvaxinn smáhund af mexíkósku kyni en sá er ekki aðeins algjör andstæða Rattata í stærð og útliti heldur er hann einnig óvenju greindur af smáhundi að vera. Þess má geta að á heimili SVEPPAGREIFANS eru slíkir vasadýr kölluð sunnudagshundar. Hrói heitir sá litli og þeir Rattati verða hinir mestu mátar. Fljótlega kemur þó fram að Rattati stendur honum langtum aftar hvað alla hæfileika varðar. Don Dósóþeus hefur til að mynda kennt Hróa sniðugt bragð með sykurmola og Rattati trúir því staðfastlega að hann geti leikið það eftir.
Þrátt fyrir hina óumdeilanlegu heimsku gleymir Rattati ekki svo auðveldlega þessu skemmtilega sykurmolabragði og á enn þann draum um að geta leikið þennan sama leik og Hrói. Og í lok sögunnar, þegar bæði Dalton bræður og Rattati eru komnir aftur heim í letigarðinn sinn, fær hundurinn kærkominn tíma til að æfa þetta vandasama bragð í ró og næði. Hann grípur tækifærið og notar þá stein til verksins en að sjálfsögðu enda þær æfingar með fyrirsjánlegum afleiðingum.
Þennan brandara misskildi SVEPPAGREIFINN reyndar lengi vel nokkuð illilega í æsku og fannst hann ekki alveg rökréttur. Ef tekið væri mið af sverleika hálsa hundanna þá væri sykurmoli Hróa töluvert stærri hlutfallslega en steinn Rattata og því var mjög skrítið að hann festist ekki á sama hátt í hálsinum á Hróa. Hinum unga SVEPPAGREIFA yfirsást hins vegar alveg að þetta bragð Hróa snerist aðeins um að grípa molann með kjaftinum en ekki að láta hann skella beint niður í kok líkt og gerðist hjá Rattata. En það er reyndar allt önnur saga. Brandarinn er alla vega góður. 
Í þeim sögum sem Rattati birtist er yfirleitt eitthvað ákveðið hegðunarþema í gangi hjá honum sem fylgir hundinum þó ekki endilega á milli bóka. Þannig má eiginlega segja að Rattati taki upp á nýjum og ólíkum uppátækjum í hverri sögu sem hann kemur fyrir í en öll tengjast þessi uppátæki þó heimsku hans á einn eða annan hátt. Í bókinni Batnandi englar (Les Dalton se rachètent - 1965) hefur Rattati til dæmis alveg gleymt því hver hann er þessi Lukku Láki. Í gegnum söguna er hundurinn því stöðugt að rýna í andlit Láka og reynir að rifja það upp hver hann sé.
Í bókinni birtist hann því á víð og dreif um alla söguna, aðeins til hliðar í myndarömmunum, og veltir fyrir sér hver í ósköpunum þessi kunnuglegi maður gæti eiginlega verið. Jafnt og þétt telur hann upp um tuttugu líkleg nöfn en þau eru allt frá Gvendi dúllara og Roy Rogers til Skáld-Rósu. Auðvitað er hann samt líka alltaf jafn vitlaus í bókinni sem endranær og heldur upp hefðbundinni Rattata heimsku líkt og í hinum sögunum. 
 
En nenni þessu ekki, látum þetta duga að sinni.