28. febrúar 2020

152. ÝMISLEGT Á MEÐAL DÓNA OG RÓNA

Í færslu þessa föstudags ætlar SVEPPAGREIFINN aðeins að rýna í efni sem er reyndar töluvert algengara og rótgrónara í myndasögum en margir gera sér grein fyrir. Eflaust hljómar það fráhrindandi fyrir einhverja þegar SVEPPAGREIFINN er farinn að fjalla um áfengisvandamál í pistlum sínum en það skal reyndar tekið fram að hann er enginn predikari í því fagi. Efninu er þannig ekki ætlað að hafa eitthvað sérstakt forvarnargildi, enda er það bara enn ein venjulega færslan með fánýtum myndasögufróðleik, þó hugsanlega gæti einhver séð ljósið í kjölfar lesturs þess. Það er við hæfi, á þessum árstíma þorrablóta og annarra mannfagnaða, að minna alla á að ganga hægt um gleðinnar dyr og lesa um leið þessa færslu sér til gagns, gamans og almennrar viðvörunnar. En notkun áfengis er ótrúlega algeng á meðal sögupersóna í þeim myndasögum sem við íslenskir lesendur þekkjum. Sem er eiginlega með ólíkindum vegna þess að þessar myndasögur eru ekki aðeins ætlaðar markhópnum börn og unglingar heldur koma þær flestar frá landi þar sem rammkaþólsk uppeldissjónarmið voru jafnan höfð í heiðri. Þessi myndasögutímarit, sem þau birtust oftast fyrst í, var beinlínis ætlað að beina ungum lesendum þeirra í réttar kristilegar áttir og að leiða þá sem lengst frá syndsamlegum freistingum heimsins þar fyrir utan.
Aðalsöguhetjurnar sjálfar, í þessum helstu seríum, eru reyndar tiltölulega lausar við þann ósið sem felst í áfengisnotkuninni. Kolbeinn kafteinn er auðvitað stóra undantekningin í því samhengi (og kannski Tobbi) en tvisvar sinnum í bókaflokknum má þó reyndar sjá sjálfan Tinna ölvaðan. Í nokkrum af þessum seríum má hins vegar finna tilvik þar sem áfengi (og drykkja þess) er nokkuð áberandi á hliðarlínunni. Samkvæmt Lukku Láka bókunum virðist til dæmis stór hluti menningar villta vestursins snúast um að kúrekar bregði sér á bar bæjarins. Þar er oftast pantaður bjór en þó í mörgum tilfellum líka eitthvað sterkara og að sjálfsögðu spiluð fjárhættuspil í einhverju formi. Þar þurfa meira að segja hestarnir stundum líka að svala þorsta sínum á sama hátt og aðrir. 
Í þessum sögum ratar Lukku Láki gjarnan sjálfur inn á næsta bar, eftir erfitt verkefni eða langt ferðalag, og fær sér einmitt bjórkollu eða viskíglas eftir því hvað við á. Hann reykti líka ótæpilega fyrstu áratugina en hætti þeim ósið frá og með sögunni Fingers, sem kom út árið 1983, bæði eftir utanaðkomandi pressu en einnig til að liðka fyrir samningum seríunnar á Bandaríkjamarkaði. Skapari Lukku Láka, listamaðurinn Maurice de Bevere (Morris), fékk síðan viðurkenningu árið 1988 frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni fyrir vikið. Í Ástríks bókunum koma áfengir drykkir einnig eitthvað við sögu. Helst er það Steinríkur sem á erfitt með að höndla vínandann þar og flestar sögurnar enda auðvitað á kunnuglegum veisluhöldum þar sem áfengi (líklega þá oftast bjór) er gjarnan á boðstólum. Sömu sögu má segja um sögurnar með Hinriki og Hagbarði þar sem hinn síðarnefndi á stundum í nokkrum erfiðleikum með vín. Þá eru ýmsir sem fá sér í glas í bókunum um Samma og Kobba og áfengi hefur einnig alveg sést í myndasögunum um Viggó viðutan. Það er helst að Steini sterki og Strumparnir séu svona tiltölulega allsgáðastir í myndasöguheiminum.
En allir sem lesa teiknimyndasögur þekkja Kolbein kaftein úr Tinna bókunum. Alls eru sögurnar í seríunni tuttugu og fjórar talsins þó sú síðasta, hin hálfkláraða Tintin et l'Alph-Art (Tinni og leturlistin), sé reyndar ekki alltaf talin með í þeim flokki. En af þessum tuttugu og fjórum sögum var það þó ekki fyrr en í níundu sögu bókaflokksins, Krabbanum með gylltu klærnar (Le crabe aux pinces d'or - 1940), sem Kolbeinn kafteinn kom fyrst við sögu. Snemma í sögunni verða þeir Tinni og Tobbi fyrir því, eiginlega fyrir hálfgerða óheppni, að vera teknir til fanga og lokaðir niðri í lest á flutningaskipinu Karaboudjan. Glæpahundurinn Hörður stýrimaður, sem reglulega bregður fyrir í seríunni um Tinna, hefur alla stjórn um borð því hinn drykkfelldi skipstjóri Karaboudjan eyðir öllum sínum tíma niðri í káetu með viskíflösku sér við hlið. Sá maður er einmitt Kolbeinn Kaldan kafteinn. Við það að flýja úr lestinni á Karaboudjan lendir Tinni fyrir tilviljun í káetu hins sífulla kafteins og eftir svolitlar fortölur (eða kænsku) telur hann Kolbein á að aðstoða sig við að koma sér frá borði og flýja með sér. Þannig má með sanni lýsa fyrstu kynnum þeirra Tinna og Kolbeins.
Með þeim Tinna og Kolbeini takast góð kynni en samskipti þeirra í framhaldinu af sögunni eru þó nokkrum erfiðleikum bundin. Kolbeinn er augljóslega langt leiddur af drykkju og kemur þeim ítrekað í vandræði með afglöpum sínum og stjórnleysi. Hann er þeim leiðinlegu eiginleikum gæddur að fyllast sektarkennd þegar hann er ofurölvi og dettur þá í einskonar gryfju sjálfsvorkunar þar sem röfl og raus ráða ríkjum. Stjórnleysi kafteinsins gagnvart áfenginu er því algjört en þó birtir til í lok sögunnar þegar hann heldur útvarpserindi í beinni útsendingu gegn mestu böli mannkynsins. Í miðju erindinu verður honum þó á að fá sér, af misgáningi, sopa af vatni en af því má ætla að hann hafi ætlað að fá sér eitthvað sterkara. Með næstu bók, Dularfullu stjörnunni (L'Étoile mystérieuse - 1941), ákvað höfundurinn Hergé að Kolbeinn skyldi fylgja Tinna áfram í seríunni en hefur þó einnig tekið þá ákvörðun að milda hann töluvert gagnvart áfengisfíkn sinni. Hvort kafteinninn á þá að hafa leitað sér aðstoðar við alkóhólismanum kemur reyndar ekki fram en í það minnsta hefur hann mikið þroskast og bragðar varla vín í sögunni. Í bókinni er hann jafnvel orðinn forseti Bindindissamtaka sjómanna (B.S.S.) og það er aðeins þegar þeir Tinni koma til Akureyrar að Kolbeinn fær sér svolítið í staupinu með Runólfi gömlum félaga sínum af sjónum.
Og þannig þróast Kolbeinn kafteinn smán saman með tímanum hvort sem það er Tinni eða eitthvað annað sem hefur svo góð áhrif á hann. Hann er ekki lengur sá ofdrykkjumaður sem hann var í bókinni Krabbanum með gylltu klærnar en finnst þó alltaf gott að fá sér eilítið viskí öðru hvoru og auðvitað drekkur hann að jafnaði töluvert meira en góðu og eðlilegu hófi gegnir. Í flestum bókanna fær hann sér því eitthvað aðeins í glas án þess þó að vera til vandræða. Eins og gerist til dæmis í Kolafarminum (Coke en stock - 1958). Þeir Tinni og Kolbeinn skella sér í bíó eitt kvöldið og á heimleiðinni rekast þeir á gamlan kunningja Tinna, Alkasar hershöfðingja, sem er á mikilli hraðferð. Eftir að hafa kvatt hann uppgötva þeir að hershöfðinginn hefur misst veskið sitt en sá er þá þegar horfinn sjónum þeirra. Þeir bregða sér því inn á næsta kaffihús til að kanna innihald veskisins og sjá hvort þeir finni þar ekki einhverjar vísbendingar um dvalarstað Alkasars svo þeir geti komið því aftur til skila. Eftir eilítið hikandi frumkvæði Kolbeins tekur Tinni (rödd skynseminnar) af skarið og pantar handa þeim tvö glös af appelsíni á kaffihúsinu en brúnaþungur svipur Kolbeins ber hins vegar klárlega vott um vandlætingu hans á þeirri ákvörðun.
Í framhjáhlaupi er gaman að nefna það, fyrst þeir droppuðu við á kaffihúsi, að SVEPPAGREIFINN minnist þess aldrei nokkurn tímann að hafa séð þá félaga drekka te eða kaffi í Tinna bókunum. En það er önnur saga. Þjónninn ber þeim appelsínið (sem reyndar er bara sódavatn í upprunalegu frönsku útgáfunni) á borðið og þeir Tinni og Kolbeinn fara í kjölfarið að kanna hvað veski Alkasars hefur að geyma. Eftir að hafa gramsað svolítið í því finna þeir blaðsnepil með símanúmeri og Tinni bregður sér frá eitt andartak til að hringja í númerið. Þá er komið að einum af hinum földu bröndurum höfundarins Hergé sem var duglegur að lauma litlum smáatriðum, sérstaklega í seinni bókunum, inn í sögur sínar. SVEPPAGREIFINN hefur áður minnst á þess konar brandara í færslum sínum og má til dæmis finna einn slíkan hér en þennan brandara fullyrðir hann að hafa aldrei rekist á í æsku. Á meðan Tinni fór að hringja hefur Kolbeinn ekki snert á glasinu sínu með appelsíninu (sódavatninu) en hefur í staðinn stolist til að panta sér glas af viskíi!
Sú umbreyting sem verður á Kolbeini, frá því hann birtist fyrst í seríunni og þar til hann snarminnkar neyslu sína strax í næstu sögu, er auðvitað frábær. Ekki bara fyrir seríuna sjálfa heldur líka fyrir lesendur hennar sem að stórum hluta hafa verið börn og unglingar í gegnum tíðina. Það hefði verið lítið spennandi að hafa Kolbein sífullan og röflandi í gegnum allan bókaflokkinn. Best hefði að sjálfsögðu verið að Kolbeinn hefði aldrei verið kynntur til sögunnar með þessum hætti en þó segir það upphaf töluvert mikið um karakter hans. Kolbeinn er mjög gróf og óhefluð sjómannstýpa sem þó er afar mildur inn við beinið (kolbeinið þá?) og tryggari vin getur Tinni örugglega ekki óskað sér. En fyrst og fremst er Kolbeinn bara eins og hann er og óheflaður persónuleiki hans (og þar með talið einnig áfengisneyslan) er stór hluti af bókaflokknum um Tinna. Þessir eiginleikar Kolbeins gera hann því að einni eftirminnilegustu og um leið vinsælustu persónum seríunnar. En til viðbótar þessu er svo er ekki hjá því komið að minnast aðeins á eina af eftirminnilegri sögupersónum Sval og Val bókanna. Þar er að sjálfsögðu um að ræða herra Þamban (í Gullgerðarmanninum heitir karlgarmurinn reyndar Gvendur Spíri) sem á auðvitað einnig við stórkostleg áfengisvandamál að stríða. Heldur betur.
Herra Þamban er auðvitað ekkert annað en róni og það var Kolbeinn kafteinn í rauninni líka í byrjun ferils síns í Tinna bókunum. Hann er aukapersóna í sögunum með Sval og félaga og sést því ekki nema endrum og sinnum en í flest þau skipti sem þeir Svalur og Valur eiga leið um Sveppaborg bregst það ekki að herra Þamban kemur eitthvað við sögu. Hann er jú búsettur þar í bænum. Þamban er sífullur og hefur verið það frá því hann kom fyrst fyrir í seríunni. Það var í sögunni Le voyageur du Mésozoïque sem kom fyrst út í bókaformi árið 1960 og hefur reyndar ekki enn komið út á íslensku en hefur verið nefnd Fornaldareggið í öðrum Sval og Val sögum.
Líkt og Kolbeinn kemur hann nokkuð seinna til sögu seríunnar en Le voyageur du Mésozoïque er þrettánda bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Herra Þamban er einhvers konar þorpsróni en þó er hann ekki þess konar róni sem er á götunni eða neitt slíkt. Hann virðist vera ágætlega stæður og er til dæmis alltaf þokkalega vel til fara en föt hans eru þó stundum svolítið óreiðukennd og skökk utan á honum. Í sögunni Le Rayon noir, sem ekki hefur enn verið gefin út á íslensku, kemur fram að hann hafi áður verið dýralæknir sem fór að drekka eftir að hann var kominn á eftirlaun. Kolbeinn kafteinn og herra Þamban eru klárlega báðir langt leiddir alkóhólistar en eiga þó sínar ólíku sögur. Hvorugur þeirra munu, sem betur fer, eiga sér einhverjar ákveðnar fyrirmyndir hjá höfundum þeirra en eru þó báðir á sinn hátt einhvers konar stereótýpur fyrir sínar tegundir af alkóhólistum. Þeir sækja hvor fyrir sig í ákveðnar tegundir af áfengi þar sem Kolbeinn er aðallega fyrir viskí en herra Þamban virðist að mestu halda sig við ginið

Voðalega varð þetta eitthvað endasleppt!

21. febrúar 2020

151. HINN ENDIR BÓFASLAGSINS

Þeir myndasöguaðdáendur sem hafa verið duglegir við að lesa bækurnar um Sval og Val hafa líka, margir hverjir, haft gaman af því að hella sér betur út í meiri fróðleik um þær sögur. SVEPPAGREIFINN hefur fram til þessa ekki skilgreint sig sem einhvern sérfræðing um Sval og Val (frekar en aðrar seríur) en hefur þó svolítið grúskað um bókaflokkinn sér til gamans. Serían var skemmtilegur partur af æsku hans, eins og hjá fleirum af sömu kynslóð, og það er því líklega ekkert óeðlilegt að aðdáendur hennar dundi sér við fræðast svolítið meira um þetta áhugamál. Alla vega er ætlun SVEPPAGREIFANS að beina færslu þessa föstudags svolítið inn á þær slóðir. Árið 1978 kom út á íslensku Sval og Val bókin Gormahreiðrið (Le nid des marsupilamis) eftir André Franquin. En sagan kom fyrst út í bókarformi í Belgíu árið 1960 eftir að hafa birst í SPIROU myndasögutímaritinu á árunum 1956-57. Gormahreiðrið var aðeins bók númer tvö í íslensku útgáfuröðinni en fyrsta sagan, Hrakfallaferð til Feluborgar (Les pirates du silence - 1958), hafði verið gefin út hjá Iðunni árið 1977. Í Gormahreiðrinu var tuttugu og eins blaðsíðna aukasaga sem nefnist Bófaslagur (La foire aux gangsters) en sú saga hafði birst í SPIROU tímaritinu árið 1958.
Gormahreiðrið sló í gegn og í kjölfarið gerðu stjórnendur Dupuis útgáfunnar, þeirrar sem gaf út SPIROU tímaritið, auknar kröfur til Franquins um fleiri Sval og Val sögur og án hléa. Þannig komu styttri aukasögurnar um Sval og Val til sögunnar. Áður höfðu sögurnar birst vikulega í einni lotu en listamaðurinn síðan fengið nokkurra vikna frí á meðan hann hóf undirbúning að nýjum sögum og vann auk þess að fleirum verkefnum hjá tímaritinu. Á þessum árum var Viggó viðutan líka nýkominn til sögunnar en einnig var Franquin, samhliða störfum sínum hjá SPIROU, að teikna hinar vinsælu myndasögur um Modeste og Pompom fyrir Le Journal de Tintin (Tinna tímaritið). Álagið jókst því töluvert á þessum tíma og til að létta sér vinnuna fékk hann samstarfsmenn sér til aðstoðar. Jean Roba og Jidéhem voru þeir helstu en sá síðarnefndi var Franquin einmitt til aðstoðar við söguna Bófaslag. Þessar styttri aukasögur voru meira í léttari kantinum og hugsaðar til uppfyllingar í blaðinu, á milli stóru sagnanna, svo Svalur og Valur gætu birst þar vikulega.
Bófaslagur segir í stuttu máli frá því er þeir Svalur og Valur fá heimsókn frá japana nokkrum að nafni Soto Kiki sem kveðst starfa sem lífvörður amerísks auðmanns. Árið 1958 voru Japanir reyndar frekar sjaldgæfir í Evrópu og fyrir unga lesendur tímaritsins voru austurlandabúar líklega jafn framandi og geimverur á þessum tíma. Nafn hans, Soto Kiki, var til dæmis einhvers konar orðaleikur eins og tíðkaðist í belgísk/frönskum myndasögum lengi vel og hljómar í raun engan veginn japanskt. En það vissu belgísk og frönsk ungmenni auðvitað ekkert um. Strax á fyrstu blaðsíðu sögunnar sést berlega á viðbrögðum vegfarenda hve framandi hinn japanski Soto Kiki er.
En í sögunni óskar Kiki eftir liðsinni þeirra Svals og Vals þar sem hætta er talin á að kornungum syni auðmannsins verði rænt af glæpaflokki þegar hann kemur til Evrópu. Það gengur reyndar eftir og Svalur og Valur eiga stærstan þátt í að bjarga barninu frá bófunum. Seinna kemur svo reyndar í ljós að Soto Kiki hafði í raun verið einn af glæpagenginu og hann hefði ætlað að svíkja félaga sína og hirða lausnargjaldið sjálfur. Innbyrðis barátta Kiki og hinna bófanna er því rauði þráðurinn í Bófaslag en sögunni lýkur með því að helstu bófarnir eru gripnir (ásamt reyndar Viggó viðutan) og þeim er stungið í steininn. En þó ekki Soto Kiki og eins sleppur Caspiano aðalhöfuðpaur glæpaflokksins sem þó sést aldrei í bókarútgáfunni. Í þeirri útgáfu er síðustu myndinni reyndar ofaukið því einhvern veginn varð að fría Viggó greyið undan sömu sekt og glæpamannanna. Auk þess þurfti líka nauðsynlega að auglýsa myndasögurnar um Viggó viðutan. Hér að neðan sjáum við einmitt endinn á sögunni eins og hann kom fyrir í Gormahreiðrinu.
En upprunalegi endinn á sögunni var þó alls ekki þennan veg. Í SPIROU blaði númer 1045, sem kom út fimmtudaginn 24. apríl árið 1958, var birt öll síðasta blaðsíðan í sögunni og þar má því sjá tvær neðstu myndaraðirnar sem vantar í okkar útgáfu. Þar er endirinn heldur ofbeldisfyllri. Og þó hann hafi sloppið í gegnum nálaraugu Dupuis útgáfunnar, í tímaritsútgáfunni á sínum tíma, var því þó ekki þannig farið þegar bókin sjálf kom út. Í SPIROU útgáfunni má nefnilega sjá höfuðpaurinn Caspiano fá makleg málagjöld. Enn á ný laumast SVEPPAGREIFINN til að birta og þýða (með aðstoð Greifynjunnar sinnar) brot af efni sem aðrir eiga eflaust birtingarréttinn af en allt er það að sjálfsögðu gert í nafni nauðsynlegrar fróðleiksmiðlunar og skemmtunar.
Gaman að sjá þennan endi á Bófaslag um 40 árum eftir að hafa lesið hana fyrst og eflaust eiga einhverjir eftir að draga fram bókina og rifja upp þessa sögu. SVEPPAGREIFANUM þótti líka voðalega vænt um að fá að sjá þennan gullfallega Citroen DS í hinum týnda enda sögunnar. Þetta var ekki í eina skiptið sem Franquin kom þeirri frábæru bifreið að í sögum sínum. Helsti munurinn felst reyndar í því að maður er ekki vanur að sjá hann sprengdan í loft upp.

14. febrúar 2020

150. ÆVINTÝRI VILLA OG VIGGU

Eflaust muna einhverjir eftir myndasögu frá Fjölva útgáfunni, sem kom út hér á landi árið 1981, í þýðingu Þorsteins Thorarensen og nefndist Villi og Vigga í Löppungalandi. Þessi bók fór ekkert mjög hátt hjá íslenskum myndasögulesendum og hefur líklega aldrei verið neitt sérlega eftirsótt eða vinsæl af þeim sem eru að safna teiknimyndasögum. En það sem er merkilegt við þessa bók er að hún er eftir belgíumanninn Georges Remi, höfund Tinna bókanna, sem betur er þekktur undir listamannsnafninu Hergé. Aftan á baksíðu íslensku útgáfu bókarinnar stendur einmitt meðal annars; Og nú bætist hér við eitt frægasta meistaraverk Hergés um hann Villa vesturfara og Virginíu hans.
Hvort bókin standi undir þeim fullyrðingum að vera "eitt frægasta meistaraverk Hergés" telur SVEPPAGREIFINN reyndar rétt að láta liggja á milli hluta en hins vegar mun allt sem kom frá Hergé að sjálfsögðu vera áhugavert. Nú eru tæplega fjörtíu ár síðan Fjölvi sendi Villa og Viggu í Löppungalandi frá sér og sjálfsagt hefur hún ekki verið prentuð í mjög stóru upplagi. En líklega er óhætt að segja að þegar til seinni tíma er litið þá gæti þessi íslenska útgáfa orðið eftirsóttur og merkilegur gripur í augum safnara. Hugsanlega gæti það alla vega verið frekar sniðugt, fyrir þá sem eiga eins og eitt eintak af þessari bók, að vera ekkert endilega að henda henni að óþörfu. Það er nefnilega ólíklegt að þessi bók eigi nokkurn tímann eftir að verða gefin út aftur á Íslandi. Tinna bækurnar eru auðvitað frægustu afurðir Hergés en auk þeirra komu út, hér á landi, níu bækur með Palla og Togga, tvær um Alla, Siggu og Simbó og svo þessi áðurnefnda Villi og Vigga í Löppungalandi. Þau Villi og Vigga heita Popol og Virginie á frummálinu en fyrirmyndin af þeim, íkorninn Tim í villta vestrinu, birtist fyrst í mánaðarlegum auglýsingabæklingum sem Hergé hafði gert árið 1931 og dreift var í verslunarkeðjunni L'Innovation í Brussel. Villi og Vigga í Löppungalandi var því byggð á þeim fígúrum auk annarrar myndasögu sem nefndist Pim og Pom en sú birtist nokkru seinna á síðum barnatímaritsins Le Petit Vingtième. Ennfremur endurnýtti Hergé hluta af efni Pim og Pom fyrir seríu sem fjallaði um þá Quick og Flupke og við þekkjum sem Palla og Togga.
Tímaritið Le Petit Vingtième var vikulegt fylgirit belgíska dagblaðsins Le Vingtième Siècle og Hergé var ritstjóri þess en það hafði hafið göngu sína í nóvember árið 1928. Það var einmitt í því blaði sem Tinni í Sovétríkjunum birtist fyrst í janúar 1929 og sló þar í gegn. Sagan um Villa og Viggu, Popol et Virginie au pays des Lapinos (Villi og Vigga í Löppungalandi) hóf hins vegar göngu sína í blaðinu 8. febrúar árið 1934. Á þessum tíma var Les Cigares du Pharaon (Vindlum Faraós) lokið í tímaritinu og Hergé notaði tækifærið til að birta söguna um Villa og Viggu á meðan hann vann að undirbúningi næstu Tinna sögu sem var Le Lotus bleu (Blái lótusinn). Óþolinmóðir lesendurnir voru ekkert allt of hrifnir af Villa og Viggu og mörg bréf bárust með fyrirspurnum um hvenær von væri á næstu Tinna sögu. Einhverjir vilja meina að þarna hafi Hergé vísvitandi viljað slaka á huganum með þessari einföldu sögu áður en hann réðist á fyrsta meistaraverk sitt (Bláa lótusinn) af metnaði og krafti. Næstu árin eftir að sagan um Villa og Viggu hafði birst í blaðinu átti Tinni hug Hergés að mestu og Villi og Vigga í Löppungalandi gleymdist því í fjöldamörg ár. Það var því ekki fyrr eftir að Le journal de Tintin (Tinna tímaritið) hóf göngu sína árið 1946 sem sagan var aftur dregin fram í sviðsljósið. Hún var þá nútímavædd, teiknuð og lituð upp á nýtt og fór að birtast í blaðinu í lok apríl árið 1948.
Villi og Vigga í Löppungalandi var síðan gefin út í bókaformi árið 1952 á svipuðum tíma og sögurnar um Alla, Siggu og Simbó sem höfðu af sömu ástæðum einnig þurft að bíða töluvert langan tíma eftir að vera gefnar út í því formi. En þessi óvenjulega saga, sem er heilar sextíu blaðsíður að lengd, er ekki beint í anda Hergé og ólík flestu því sem hann varð seinna kunnastur fyrir. Hergé hafði auðvitað verið ritstjóri og ábyrgðarmaður Le Petit Vingtième og hans hlutverk hafði því verið að finna og skapa efni fyrir alla aldurhópa lesenda þess. Þarna var hann að prófa sig áfram með ævintýri úr dýraríkinu, fyrir yngstu lesendur blaðsins, sem í þessu tilfelli fjallaði um talandi dýr. Á þeim tíma var Disney fyrirtækið orðið nokkuð áberandi og vinsælt með sínar afurðir allar og margir af bestu listamönnum Frakklands og Belgíu á þessu sviði litu hýru auga til þess. Sumir fóru jafnvel tímabundið til Ameríku með drauma um starf hjá fyrirtækinu í huga en aðrir, eins og Hergé, létu sér nægja að reyna að skapa eigin sögur undir áhrifum frá Disney. Sem betur fer lét Hergé þessa einu tilraun með talandi dýr duga og einbeitti sér að meistaraverki sínu um Tinna.
Áhrif Disneys í Villa og Viggu í Löppungalandi voru því allnokkur og sagan er, eins og fyrr segir, mjög ólík því sem lesendur höfðu kynnst með Tinna. Hópar söguhetjanna tilheyrði til dæmis hver sinni dýrategundinni sem er ekki ólíkt því sem við þekkjum úr Andrés blöðunum. Aðalsöguhetjurnar tvær eru birnir, indjánarnir eru kanínur (þar sem eyru þeirra eru fjaðrirnar í höfuðskrautinu) og aðalbófinn er hundur af Bulldog kyni. Þá er blár hestur (hann er svolítið ófríður greyið) til dæmis ekki mjög í anda Tinna bókanna. Villi og Vigga í Löppungalandi er því í mjög einföldu og barnalegu fantasíuformi og var ætluð allra yngstu lesendum blaðsins eins og áður segir. En sagan segir frá litlu björnunum Villa og Viggu (ásamt hinum bláa hesti þeirra - Bláfeta) og ævintýrum þeirra á fjarlægum víðáttum vestursins. Villi er hattagerðarmaður sem ákveður að söðla um, eftir að allir í siðmenningunni fóru að ganga um berhöfðaðir, og flytja ásamt eiginkonu sinni henni Viggu með starfsemi sína út í villta vestrið. Þar ganga viðskiptin töluvert betur eða þangað til galdralæknir hinna indjánsku Löppunga æsir ættbálkinn sinn upp á móti aðkomufólkinu. Indjánarnir gera árás á tjald þeirra en Villi og Vigga verjast af krafti þar til höfðingi þeirra nær að lokum Viggu og tekur hana til fanga. Villi nær að bjarga henni og eftir að hafa stungið hina foxillu indjána af á flótta, þar sem meira að segja hestar indjánanna eru illir á svip, finna þau sér hvíldarstað við læk einn.
Þar finna þau gull í læknum en illmennið Buddi Bulla, sem verður vitni að gullfundinum, rænir þau gullinu og tekur Viggu til fanga til að sinna heimili sínu. Aftur nær Villi að bjarga henni og síðustu tíu til fimmtán blaðsíður bókarinnar fara í eltingarleik sitt á hvað á milli Villa og Viggu við Budda Bullu. Af þessari innihaldslýsingu að dæma er hér augljóslega ekki um merkileg bókmenntaverk að ræða. Sagan er ein allsherjar samhengislaus þeysireið og minnir á löngum köflum á aburðarrás Tinna í Sovétríkjunum sem Hergé vildi sjálfur sem minnsta af vita í seinni tíð. SVEPPAGREIFINN hefur átt eintak af Villa og Viggu í Löppungalandi í nokkur ár og las söguna í fyrsta sinn núna í vetur í aðdraganda þessarar færslu. Ekki getur hann sagst hafa verið með miklar væntingar fyrir lestur bókarinnar fyrirfram og líklega var sagan bara nákvæmlega jafn rýr og hann reiknaði með. Með þessari sögu lauk því þeim myndasögukafla, í ferli Hergé, þar sem talandi dýr léku aðalhlutverkin en hundurinn Tobbi hélt þeim hæfileikum þó aðeins áfram á lofti, næstu áratugina, í Tinna bókunum. Í bókinni um Villa og Viggu í Löppungalandi er hins vegar hægt að finna nokkur atriði sem tengja má við það sem Hergé hafði áður verið að gera og endurnýtti til dæmis úr sögunum um Tinna. Fáeinar stakar myndir í sögunni koma hreinlega beint úr fyrstu þremur Tinna bókunum og ef grannt er skoðað eru þetta nánast sömu teikningarnar. Strax á blaðsíðu fjögur er til dæmis ansi kunnuglegur myndarammi þar sem höfðingi indjánanna predikar yfir ættbálki sínum gegn bleiknefjunum Villa og Viggu. Ramminn er uppbyggður á sama hátt og hin fræga mynd úr Tinna í Sovétríkjunum þar sem Bolsévíkar þruma yfir hausamótunum á kúguðum þegnum sínum á framboðsfundi. Reyndar er myndin spegluð en í grunninn er þetta nákvæmlega sama hugmyndin.
Á blaðsíðu tuttugu og þrjú er líka að finna kunnuglegt augnablik sem margir ættu að þekkja nokkuð vel en sú mynd er einnig spegluð. Í því tilviki hafa hinir herskáu Loppungar náð Viggu á sitt vald og bundið hana fasta við fórnarstaur ættbálksins. Höfðingi indjánanna lyftir upp stríðsöxinni og hvetur þegnana til að reyna á bogfimi sína með örvadrífum á Viggu og hans menn búa sig undir þá æfingu illúðlegir á svip. Vigga sjálf lætur sér hins vegar fátt um finnast. Framan á bókinni Tintin en Amérique (Tinni í Ameríku) má einmitt sjá þessa mjög sambærilegu mynd þar sem Tinni sjálfur er í svipuðum aðstæðum en hann sýnir reyndar töluvert meiri geðshræringu en Vigga.
Annað dæmi má finna í beinu framhaldi af þessari mynd í bókinni en þar hefur Villi lagt sig allan fram um að reyna að bjarga eiginkonu sinni frá indjánunum en hefur ekki enn haft erindi sem erfiði. Hann greip því til þess óskeikula ráðs, nóttina á undan, að koma fyrir segli undir rótum staursins en til svipaðra aðgerða hafði Tinni einmitt gripið til í Tinna í Kongó. Örvar Löppunganna ná því ekki alla leið til Viggu og lenda á jörðinni fyrir framan fætur hennar þar sem segullinn er.
Fleiri hugmyndir hefur Hergé nýtt sér til að færa á milli myndasagnanna. Á blaðsíðu þrjátíu og fjögur í bókinni hafa þau Villi og Vigga komist undan indjánunum (reyndar með aðstoð hreins dýraníðs gagnvart Bláfeta) og staldra aðeins við lækinn þar sem þau höfðu fundið gullið. Skyndilega birtist þar risastórt, amerískt fjallaljón (púma) sem ógnar þeim hjónakornunum. Villi dregur því upp stækkunargler og beinir því að fjallaljóninu sem gerir það að verkum að Villi stækkar skyndilega í augum villidýrsins. Fjallaljónið verður dauðskelft og flýr hið snarasta af vettvangi. Svipaða hugmynd notaði Tinni í bókinni um Tinna í Kongó. Þar varð hann á vegi ógnandi hlébarða en í stað stækkunarglersins notaði hann spegil sem hafði mjög sambærileg áhrif.
Og svo er eiginlega ekki hjá því komist að minnast í lokin á skerfara einn sem kemur fyrir í sögunni á blaðsíðu fjörtíu og átta. Sá er lifandi eftirmynd hins drykkfelda lögreglustjóra sem birtist seint í sögunni um Tinna í Ameríku. Þetta er nánast sama persónan utan þess að sá úr Villa og Viggu í Löppungalandi kemur að sjálfsögðu úr dýraríkinu (líkt og aðrir í sögunni) og er geit. Ekki er SVEPPAGREIFANUM nú kunnugt um hvort þessar persónur með geitarskeggið eigi sér einhverja staðlaða fyrirmynd úr hinum ameríska dægurheimi en óneitanlega vekja þær nokkra furðu.

7. febrúar 2020

149. GAMLIR VERÐMIÐAR Á TEIKNIMYNDASÖGUM

SVEPPAGREIFINN hefur oft minnst á það að hann sé í skemmtilegri grúbbu á Facebook sem nefnist einfaldlega Teiknimyndasögur og þar poppa stundum upp áhugaverðar umræður um hin athyglisverðustu mál. Einhvern tímann fyrir nokkuð löngu síðan urðu þar til dæmis töluverðar umræður um hvernig nytjamarkaðurinn Góði hirðirinn verðmerkti þær myndasögur sem þar væru á boðstólum. Þarna er SVEPPAGREIFINN ekki að tala um verðlagninguna heldur sjálfa verðmerkinguna. Miðarnir sem límdir eru á þær vörur sem í boði eru í þeim Góða eru áberandi skærgrænir og með alveg sérstaklega sterku og hvimleiðu lími sem ákaflega erfitt er að ná af án þess að hreinlega stórsjái á blessuðum myndasögunum. Í það minnsta á SVEPPAGREIFINN oft í hinum mestu vandræðum með að losa þessa miða af þannig að ekki sjáist einhver merki eftir þá.
En nákvæmlega þetta var reyndar ekki það efni sem ætlunin var að röfla um í færslu dagsins. SVEPPAGREIFINN á langstærstan hluta þeirra myndasagna sem komið hefur út á íslensku og á nokkrum þeirra má enn sjá hina upprunalegu verðmiða bókanna. Hér er hann auðvitað að tala um þá verðmiða sem límdir voru á bækurnar í þeirri verslun sem seldi þær glænýjar. Nú er það svo að þó SVEPPAGREIFINN leggi mikla áherslu á að plokka hina eiturgrænu Góða hirðis miða af þeim bókum sem hann verslar þar þá hefur hann ekki lagt alveg sömu áhersluna á upprunalegu verðmerkingarnar. Auðvitað vill hann að myndasögurnar sínar líti sem snyrtilegastar og upprunalegastar út, og án allra aukamerkinga, en þessir gömlu miðar hafa bara eitthvert allt annað gildi. Og ekki er sjarminn minni ef þeir eru merktir einhverjum ákveðnum bókabúðum eða verslunum sem draga fram gamlar minningar nostalgíuformi. En helsta ástæðan er samt auðvitað sú að ennþá erfiðara er að ná þessum gömlu límmiðum af heldur en grænu Góða hirðis miðunum. 
Eitthvað var SVEPPAGREIFINN að fletta í gegnum myndasöguhillurnar sínar á dögunum og rak þá augun í fáeina af þessum gömlu verðmiðum á bókunum. Þarna er væntanlega um að ræða, í flestum tilfellum, upprunalega verðið og hann fór því að velta fyrir sér hvað þessar bækur hefðu kostað nýjar. Í æsku minnist hann Tinna bókanna sem kostuðu, eftir því sem hann best man, 719 krónur (nokkrum árum fyrir gjaldmiðilsbreytinguna 1981) í bókabúð Máls og menningar á Laugaveginum. Þetta er ein af fyrstu minningum hans af teiknimyndasögum en hvergi hefur hann þó rekist á gamla verðmiða með þeim tölum á Tinna bókunum sínum í dag. Reyndar er engin af Tinna bókum SVEPPAGREIFANS með verðmiða á sér. Þau verð sem hann fann í þessu slembiúrtaki voru af margvíslegum toga en öll áttu þau það þó sammerkt að hafa verið á bókunum eftir áðurnefnda gjaldmiðilsbreytingu þegar tveimur núllum var kippt aftan af gjaldmiðlinum og um leið og ný tegund peningaseðla var tekin í notkum hér á landi. 
Það er svolítið gaman að rýna í þessa gömlu verðmiða en fyrsta myndasagan sem SVEPPAGREIFINN skoðar í þessu samhengi er strumpabókin Strumpasúpan sem kom út árið 1979. Í byrjun árs 1981 kostaði Strumpasúpan 38 krónur (nýkrónur) og 30 aura sem hefur þá væntanlega verið á pari við 3830 krónur fyrir jólin 1980. Sem er næstum því sama upphæð og teiknimyndasögur kosta (til dæmis úr Penninum/Eymundsson) í dag. Hmmm... og ef þessi blessaða gjaldmiðilsbreyting hefði ekki átt sér stað á sínum tíma og núllin tvö hefðu fengið að standa áfram þá myndi Strumpasúpan í versluninni VEDU kosta 383.000 krónur í dag ef hún væri í boði! Sem er auðvitað alveg marklaust bull. Veit einhver annars hvar verslunin VEDA var/er?
Svipaða sögu má segja um strumpabókina Strumpastríð (1980), sem verðmerkt er í bókahillum SVEPPAGREIFANS, á 38.65 krónur en sú bók fékkst á Bókhlöðunni á Laugaveginum. Þessar tvær bækur eru þær "ódýrustu" sem síðuhafi fann úr slembiúrtakinu sínu en myndasögurnar Álagaeyjan (1981), úr seríunni um Alex, Hin fjögur fræknu og harðstjórinn (1979) og Tígrisklóin (1979), úr bókaflokknum um Benna flugmann, hafa allar kostuð 48.15. Þetta hefur því verið hið eðlilega verð á myndasögum strax upp úr áramótunum 1980-81 en Galdrateppi (1980) Fláráðs stórvesírs kostaði 48.17 krónur. En upp úr þessu fer verðið á teiknimyndasögunum snögglega hækkandi enda var hinn óútreiknanlegi verðbólgudraugur heldur betur í essinu sínu á Íslandi á þessum árum.
Sval og Val bókin Móri (1982) kostaði allt í einu 98.80 og Ástríkur og grautarpotturinn (1981) 155 krónur en hugsanlega hefur síðarnefnda bókin verið keypt löngu seinna á útsölu. SVEPPAGREIFINN á annað eintak af þessari sögu og af einhverri undarlegri ástæðu er sú bók verðmerkt á 438 krónur. Sama verð er einnig að finna á bók hans Ástríkur á hringveginum (1982). Enn rauk verðið á myndasögunum upp og verðbólgan náði sögulegum hæðum fyrri hluta árs 1983. Með kveðju frá Z (1983) kostaði 197.60 og sömuleiðis Stríðið um lindirnar sjö (1983), með Hinriki og Hagbarði, en Viggó á ferð og flugi (1982) kostaði þó ekki nema 197 krónur.
Þarna tók því greinilega ekkert lengur að vera eitthvað að eltast við aurana fyrir aftan kommuna. Þeir voru þó ekki aflagðir með lögum fyrr en árið 2003 en þá voru hvort eð'er allir fyrir mörgum árum löngu hættir að eltast við slíka smámuni. Verðmiðinn á Viggó bókinni býr reyndar yfir nokkurri nostalgíu því hann er ekki aðeins kirfilega merktur stórmarkaðnum Miklagarði, sem var opnaður í Holtagörðum árið 1983, heldur er bókaskiptimiði með sömu merkingu einnig á bókinni.
Aftur kemur Bókhlaðan við sögu og að þessu sinni með myndasöguna um Hin fjögur fræknu og tímavélina (1985) en sú bók var reyndar merkt Bókhlöðunni í Glæsibæ og kostaði þar 468 krónur. Kuldastríðið (1985) úr seríunni um 421 fékkst í Hagkaup á 375 krónur og Flugvélaránið (1986) úr bókaflokknum um Frank var merkt Eymundsson og kostaði 548 krónur. Alls fann SVEPPAGREIFINN, á þessari snöggu yfirreið sinni um myndasöguhillur sínar, líklega vel á þriðja tug teiknimyndasagna sem höfðu að geyma slíka límmiða af eldri gerðinni.
Verst þykir þó SVEPPAGREIFANUM verðmerkingin á yngri bókum sínum um þá félaga Samma og Kobba. Ef minni hans svíkur ekki keypti hann nokkrar af þeim myndasögum á Bókamarkaði félags íslenskra bókaútgefenda í Perlunni á fyrri hluta tíunda áratug 20. aldarinnar. Þessar bækur voru allar merktar með flennistórum (um fimm sentimetra breiðum), appelsínugulum límmiðum sem nánast útilokað er að ná af án þess að stórskaða bókakápurnar. Slík meðferð á teiknimyndasögum jaðrar við helgispjöll og SVEPPAGREIFINN íhugar af alvöru að fara með málið til Mannréttindadómstól Evrópu og sækja það af fullum þunga.
Á þessum sama bókamarkaði (þó það hafi reyndar ekki verið sama ár) keypti SVEPPAGREIFINN einnig stærsta hluta sinn af Lukku Láka bókunum en þær kostuðu þar allar 350 krónur stykkið. Á þeim tíma var hann einmitt að byrja að hefja vinnu að því að fullkoma myndasögusafnið sitt og vantaði þá enn nokkrar Lukku Láka bækur í safnið. Þetta var eins og áður segir á árunum upp úr 1990 og reikna má með að hér hafi verið um að ræða afgangana, af upplaginu frá útgefandanum, af þeim Lukku Láka bókum sem þá voru enn til nýjar. SVEPPAGREIFINN var svo heppinn að eignast líklega tólf til fimmtán af þessum bókum þar en hann notaði þá ekki aðeins tækifærið til að fylla upp í það sem upp á vantaði í safnið heldur endurnýjaði hann í leiðinni þónokkur lúin eintök af eldri bókunum sínum. Enn þann dag eru allar þessar Lukku Láka bækur eins og nýjar í myndasöguhillunum en 350 króna verðmiðinn er enn á mörgum þessara bóka.
Það má kannski geta þess til gamans að á meðal þessara myndasagna var hin eftirsótta Á léttum fótum - Spes tilboð (1982) en á bókamarkaðnum var bunki með nokkrum eintökum af bókinni á 300 krónur. SVEPPAGREIFINN er ennþá að naga sig í handakrikann yfir að hafa ekki hreinlega hreinsað upp öll eintökin af bókinni af borðinu til að eiga til betri tíma handa safnþyrstu áhugafólki um myndasögur

En annars er þetta líklega versta færsla SVEPPAGREIFANS frá upphafi!