16. október 2020

176. INNRI KÁPAN Í TINNA BÓKUNUM

SVEPPAGREIFINN mun vera einn af þeim sem ólust upp við að hafa Tinna bækurnar við hendina í æsku. Hann tilheyrir einmitt þeirri kynslóð barna sem biðu í ofvæni eftir næstu Tinna bók frá Fjölvaútgáfunni og man vel eftir þeirri tilfinningu sem fylgdi því að vera búinn að eignast nýjan slíkan dýrgrip. Eflaust eru margir sem geta deilt þessum sömu upplifum úr sinni bernsku. Bókunum var flett fram og til baka og í flestum tilfella voru þær bókstaflega lesnar upp til agna með tíð og tíma. Sjálfur man SVEPPAGREIFINN einnig vel þá tilfinningu þegar hann var að handfjatla þessar myndasögur í kjallaranum í bókabúð Máls og menningar á Laugaveginum. Og upplifa spenninginn við það að grandskoða kápuna á þeim Tinna bókum sem hann var þá að sjá í fyrsta skipti. Enn þann dag í dag getur hann endurupplifað þær minningar með því einu að rýna í þessar bókakápur. Hann man eftir Dularfullu stjörnunni, Vindlum Faraós og Svaðilför í Surtsey sem "gömlum bókum" og Leynivopninu og Svarta gullinu sem nýjum, áhugaverðum og spennandi. Á þeim tímapunkti vissi hann ekki einu sinni af tilvist bóka eins og Flugrás 714 til Sydney eða Bláa lótusinum. Upplýsingaflæðið var ekki mikið, enda þá enn áratugir í Internetið. Í bæjarferðinni í Mál og menningu gat verið erfitt að velja og oftast bauð fjárhagurinn ekki upp á nema eina eða í mesta lagi tvær myndasögur í einu. Þá þurfti að velja og hafna og stefna frekar á einhverjar hinna bókanna næst, ef ekki var þá komin enn ein ný bókin í viðbót til að glepja einfaldan huga hins unga SVEPPAGREIFA. En þetta hafðist nú samt að endingu og allar Tinna bækurnar náðust inn.
Eitt er það líka annað sem SVEPPAGREIFINN man vel eftir. Hluti af því að lesa Tinna bækurnar, spjaldanna á milli, fólst meðal annars í því að skoða ljósbláröndóttu opnurnar með myndunum innan á bókakápunum og velta því fyrir sér úr hvaða sögu hver mynd væri upprunnin. Og það sem er honum eiginlega minnistæðast er að hann skuli enn muna eftir því að fæstar myndanna, úr þessum opnum, hafi verið með eins ramma. Oft hefur hann rekist á gömul eintök af Tinna bókunum þar sem búið er að krota eða lita eitthvað ofan í þessar myndir en ekki minnist SVEPPAGREIFINN þess þó að hafa sem barn nokkurn tímann unnið slík helgispjöll sjálfur á sínum bókum. Hins vegar man hann eftir því að hafa reynt að herma eftir, eða teikna í gegn, einhverjar af þessum myndum Hergés með reyndar afar lítt minnisverðum árangri. En á þessum tímapunkti er alla vega orðið nokkuð ljóst að innri kápusíðurnar muni verða umfjöllunarefnið í færslu dagsins.
Það þarf líklega ekki neinn snilling til að átta sig á því að myndirnar á opnunum tveimur komu til sögunnar á einhverjum ákveðnum tímapunkti í útgáfu Tinna bókanna. Þessi útfærsla, sem við hér uppi á Íslandi þekkjum best, hefur af augljósum ástæðum ekki fylgt bókunum frá upphafi seríunnar. Þær myndir voru alls ekki fyrsta útgáfan af innri kápunni. Forveri þeirra hafði verið notuð í rúm tuttugu ár áður en okkar útgáfa sást fyrst en sú myndaröð samanstóð af hvítum myndum teiknuðum á dökkbláum grunnfleti. Þegar Froskur útgáfa hóf endurútgáfu á Tinna bókunum síðastliðinn vetur, með hinum frábæru tunglferðarbókum, kom einmitt í ljós að þær bækur prýddu þessar eldri útfærslu á innri kápunum í fyrsta sinn hér á landi. Gaman að sjá það.
En fyrstu Tinna sögurnar, sem höfðu að geyma eldri útgáfuna, voru bækurnar Skurðgoðið með skarð í eyra og fyrsta endurteiknaða útgáfan af Tinna í Kongó sem gefnar voru út hjá Casterman útgáfunni árið 1937. Eins og sjá má af þessum myndum koma nokkrar þeirra jafnvel úr upprunalegu Tinna sögunum, þ.e. útgáfunum áður en þær voru endurteiknaðar. Þessi eldri útgáfa hafði því aðeins að geyma teikningar úr fyrstu fjórum Tinna sögunum. Þessari útfærslu af innri bókakápunni kynntust fyrstu kynslóðir þeirra sem söfnuðu og lásu Tinna bækurnar en sama opnan var notuð bæði fremst og aftast í bókunum allt til ársins 1958. Til gamans má geta þess að þann 24. maí árið 2014 var upprunalega teikning Hergés af þessari opnu seld á uppboði fyrir 2,65 milljónir evra. Það munu víst gera um hátt í 400 milljónir íslenskra króna ef einhvern langar að vita það.
En 21 ári og 12 bókum seinna var ákveðið að breyta til. Með útgáfu bókarinnar Kolafarmsins, sem kom út í bókaformi á frönsku í júlí árið 1958, birtist loks þessi kunnuglega útgáfa af innri bókakápunni sem við Íslendingar þekkjum einmitt svo vel. Sú útfærsla er reyndar miklu betur kunn, út um allan heim, hjá öllum þeim kynslóðum sem fæddar eru eftir miðja 20. öldina. Það er aðeins nú á síðustu áratugum sem gamla útgáfan hefur verið dregin aftur fram í sviðsljósið og notuð bæði í viðhafnarútgáfum af Tinna bókunum og þeim allra nýjustu - eins og hjá Froski. Í yngri útfærslunni eru opnurnar settar upp sem veggir með mörgum myndum, af sögupersónum bókanna, hver í sínum ramma. Þessar myndir eru teiknaðar með útlínunum einum í dökkbláum lit en veggurinn á bak við er hins vegar röndóttur í tveimur mismunandi ljósbláum litum. Myndaraðirnar eru samsettar úr teikningum, sem raðað er upp í 141 mismunandi myndaramma, þar sem á fremri opnunni eru myndirnar 69 en 72 á hinni aftari. Myndirnar, sem eru nokkuð misjafnar að stærð, sýna aðallega sögupersónurnar úr bókum seríunnar en þar má reyndar líka finna mynd af Skurðgoðinu fræga og einnig eitt nútímamálverk sem þó kemur ekki fyrir í neinni bókanna. Þetta verk teiknaði Hergé um það leyti sem nýrri opnan var gerð opinber, þegar hann fékk áhuga á nútímalist, og ef grannt er skoðað sýnir það Kolbein kaftein í nýstárlegum formum.
Seint á sjötta áratug 20. aldarinnar fékk höfundurinn Hergé einmitt mikinn áhuga á framandi listum og málaði jafnvel sjálfur verk í þeim anda. Það má vel sjá áhrif þessa áhuga í síðustu bókum hans í Tinna seríunni. En alls eru þarna á opnunum 12 myndir af Tinna. Tobbi, Kolbeinn og Vandráður prófessor sjást síðan á 6 þeirra hver en aðrar af söguhetjum bókaflokksins fá heldur minna rými eða athygli. Helstu bófar seríunnar fá auðvitað einnig sínar myndir eins og aðrir en annars miðast fjöldi og stærð myndanna oftast við aðkomu eða vægi persónanna í bókunum. Á sama hátt virðist útlit eða umfang margra myndarammanna sjálfra stýrast af stétt eða stöðu þeirra sem á myndunum eru. Konungar og prinsar fá íburðamikla og vandaða myndaramma á meðan rammar fátækra og snauðra persóna eru mjög látlausir og einfaldir. Litli svarti, leiðsögudrengurinn Kókó úr Tinna í Kongó  fær til dæmis ekki einu sinni ramma utan um sína mynd og sömu sögu má reyndar einnig segja um nokkrar aðrar sambærilegar, stéttalágar persónur. 
Það vekur svolitla athygli að ungfrú Vaíla Veinólínó fær aðeins eina mynd af sér á opnunum tveimur og þau Irma og Ívar Eltiskinn enga. Skýringuna á því má auðvitað rekja til þess að þessar opnur voru teknar í notkun árið 1958, eins og áður var minnst á, en eins og gefur að skilja vantar þar þá myndir úr fjórum síðustu sögum seríunnar. Myndir úr bókunum Tinni í Tíbet (1960), Vandræði Vaílu Veinólínó (1963), Flugrás 714 til Sydney (1968) og Tinni og Pikkarónarnir (1976) birtust því ekki á þessum opnum og var aldrei bætt í hópinn eftir að þær komu út. Af þessari sömu ástæðu má þar til dæmis ekki heldur finna myndir af sjerpanum Terka, Páli Pumpu, Carreidas, Döggu hans Alkasars og Magnsteini múrarameistara svo einhverjar persónur séu nefndar. En alls hafa þessar tvær opnur að geyma myndir af 115 mismunandi einstaklingum og þar af eru 21 þeirra nafnlausir. Flestar myndanna koma af persónum bókarinnar Vindlar Faraós eða 15 talsins og 11 koma úr Föngunum í Sólhofinu en fæstar þeirra eru úr Tinna í Kongó og Svaðilför í Surtsey eða 4 úr hvorri sögu. Og svo kemur auðvitað engin sögupersóna úr síðustu fjórum bókunum eins og áður var getið.
En þessar innri kápur hafa ekki bara verið viðloðandi sjálfar Tinna bækurnar þó upphafið megi rekja til þeirra. Hið sígilda útlit opnanna hafa orðið mörgum hugmyndaríkum listamönnum innblástur og ýmsir hafa dundað sér við að nýta sér þessa þekktu fyrirmyndir í gegnum tíðina við að útbúa sín eigin tilbrigði við stefið. Sumt af þessu efni tilheyrir myndasögum þar sem listamennirnir hafa vottað Hergé virðingu sína ýmist með innri bókakápunum einum eða heilu bókunum. En annað tengist oft skemmtilegum útgáfum þar sem handlagnir einstaklingar hafa eingöngu verið að leika sér svolítið með hugmyndina. Margt af því er einnig nokkuð skemmtilegt.
Og svo ekki sé talað um nýtingu opnanna í hönnunarlegu tilliti fyrir heimilið. SVEPPAGREIFINN fjallaði einmitt einu sinni um veggfóður, hér á Hrakförum og heimskupörum, sem var í boði fyrir aðdáendur Tinna bókanna og selt var fyrir líklega mörgum áratugum. Að líkindum var þetta betrekk ætlað barnaherbergjum sjöunda eða áttunda áratugs 20. aldarinnar en hætt er við að margir aðdáendur Tinna í dag væru til í að eiga nokkrar rúllur af þeim gersemum fyrir myndasöguherbergið sitt. Og líklega myndu allra hörðustu aðdáendurnir og safnarar bókaseríunnar vilja veggfóðra öll helstu rými heimili síns með þessum myndarömmum.
Og svo er best að ljúka þessari skrautlegu færslu með sýningarrými úr Château de Cheverny kastalanum í Loire Valley í Frakklandi en hann var líklega helsta fyrirmynd Hergé að Myllusetrinu í bókunum um Tinna. Þarna var í gangi sýning, fyrir nokkrum árum síðan (og er kannski enn), tileinkuð seríunni um Tinna og hluta kastalans var meðal annars breytt í þekkt sögusvið úr bókunum. SVEPPAGREIFINN fjallaði til dæmis um baðherbergið að Myllusetri í færslu hér á síðunni fyrir fáum árum. En margir sögulegir munir tengdir bókunum voru til sýnis þarna í Château de Cheverny og eitt rýmið var til að mynda skreytt með myndarömmum úr þessum sígildu opnum. Hér má sjá hluta af þeim veggjum en inn í marga myndarammanna er búið að skipta út myndum og bæta inn þekktum augnablikum í lit úr Tinna bókunum í staðinn. Aldeilis gaman að þessu.

2. október 2020

175. SLÚÐURKERLINGARNAR Í SVEPPABORG

Myndasögurnar um Sval og Val eru í uppáhaldi hjá mörgum enda bækurnar frábærar. Margir af kynslóð SVEPPAGREIFANS, og árunum þar um kring, þekkja þessar sögur til hlítar og ylja sér enn við bækurnar sem Iðunn gaf út á sínum tíma. Þær bækur voru eftir þá André Franquin, Jean-Claude Fournier og tvíeykið Tome og Janry en seinna tóku aðrir við keflinu sem íslenskir myndasögulesendur kynntust þó ekki fyrr en Froskur útgáfa hóf aftur útgáfu á sögunum. SVEPPAGREIFINN hefur margoft talað fyrir aðdáun sinni á belgíska listamanninum André Franquin og í færslu dagsins verður þar engin undantekning gerð á. Nú er nefnilega ætlunin að taka aðeins fyrir nokkuð skemmtilegt bakgrunnsefni sem kom reglulega fyrir í Sval og Val bókum Franquins og þeir Tome og Janry endurvöktu síðan seinna í einni sinna sagna. Sveppaborg er sviðsmynd margra bókanna um Sval og Val en þær sögur Franquins sem gerast þar eru einmitt í einna mestu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM. Það er nefnilega þetta vinalega og afslappandi andrúmsloft Sveppaborgar sem þessi frábæri listamaður nær að draga svo vel fram í sögum sínum. Lesendur bókanna fá að kynnast ýmsum íbúum þessa litla sveitaþorps og andinn sem þar ríkir minnir SVEPPAGREIFANN einmitt á andrúmsloft sem hann sjálfur upplifir í litlu fjallaþorpi, í franska hluta Sviss, þar sem hann dvelur reglulega. Í báðum af þessum vinalegu þorpum má finna gömul falleg hús með hellulögðum götum, lítil sem engin bílaumferð er þar, allir íbúarnir þekkjast, allir heilsast og eldri húsmæður stinga saman nefjum á næsta götuhorni eftir innkaupaferð dagsins.
Og það er einmitt þar sem ætlunin er að grípa aðeins niður í þetta fyrrnefnda bakgrunnsefni. Hér er nefnilega um að ræða tvær slúðrandi húsmæður sem sjást reglulega í bakgrunninum í þeim Sval og Val bókum Franquins sem gerast í Sveppaborg. Þetta eru þó ekki einu leyndu bakgrunns- eða hliðarpersónurnar sem sjást í bókum listamannsins því svipaða sögu má einnig segja um ungan pilt, Le Petit Noël (Jóli litli), sem bregður líka aðeins fyrir í sögunum. SVEPPAGREIFINN hefur aðeins minnst á hann áður í færslu hér. En kjaftakerlingarnar tvær frá Sveppaborg sjást einnig reglulega í seríunni þó ekki séu þær mjög áberandi. Líklega hafa því fæstir lesendur Sval og Val tekið eftir þeim þó þeir hafi flett þessum myndasögum sínum ótal sinnum í gegnum tíðina.
Þessar tvær eldri konur birtust fyrst í sögunni Le prisonnier du Bouddha (Fanginn í styttunni - 1981) sem kom út í bókaformi árið 1960. Þar sjást þær stinga saman nefjum sínum lengst til vinstri á  fyrstu mynd sögunnar (hér fyrir ofan) en í þessum sama myndaramma sést einnig áðurnefndur Jóli litli, í forgrunni myndarinnar, þar sem hann kemur gangandi í áttina að ritfangaverslun bæjarins. Þessari mynd var að sjálfsögðu fyrst og fremst ætlað að vera upphafsrammi sögunnar og sýna daglegt líf á götum þessa vinalega sveitaþorps. Þarna er Jóli litli í sendiferð fyrir borgarstjórann, laus hundur í leit að matarbita, hefðbundnir íbúar Sveppaborgar ýmist á röltinu um hellulagðar göturnar eða fólk að hitta nágranna sína og spjalla aðeins saman á næsta götuhorni - einmitt eins og konurnar tvær eru að gera. Ekkert af þessu skiptir máli fyrir söguna sjálfa annað en til að sýna andrúmsloftið í þessu rólega sveitaþorpi. Þetta er því í raun bara sviðsmynd fyrir upphaf hennar. Annars er líka ekki hjá því komist að nota tækifærið og benda einnig á það í leiðinni hve þessi fyrsti myndarammi Fangans í styttunni er glæsilega uppbyggður.
Næsta bók seríunnar var sagan Z comme Zorglub (Z fyrir Zorglúbb - 1981) en í henni eru kerlingarnar tvær þó hvergi sjáanlegar. Samt gerist sagan að stórum hluta í Sveppaborg og í nágrenni hennar, við höll Sveppagreifans, en leiða má líkum að því að Franquin hafi ekki ætlað þessum tveimur húsmæðrum neitt frekara hlutverk í seríunni. Þær voru jú í fyrstu líklega bara ætlaðar sem hluti af bakgrunni upphafsmyndar bókarinnar á undan. Slúðurkerlingarnar tvær birtast þó aftur strax í næstu sögu þar á eftir, L'ombre du Z (Með kveðju frá Z - 1982) frá árinu 1962, sem er í raun seinni hluti Z fyrir Zorlúbb og gerist því í beinu framhaldi af henni. Hér koma þeir Svalur, Valur og Sveppagreifinn aftur til Sveppaborgar (bls 4) eftir heimkomuna frá Zorumbíu og þá blasa við þeim lamaðir íbúar bæjarins eftir bæjarrúnt R-200 (Njarðar lögregluþjóns) sem enn gengur þá laus í nágrenninu. Á myndinni hér fyrir ofan má einmitt sjá kerlingarnar tvær á meðal þeirra sem orðið hafa fyrir Zor-geislum Njarðar. Glöggir lesendur geta þarna eflaust líka þekkt hundinn sem gengur laus á fyrstu myndinni í Fanganum í styttunni og minnst var á hér ofar í færslunni. Líkt og kjaftakerlingarnar tvær bregður honum einnig reglulega fyrir í þeim bókum um Sval og Val sem gerast í Sveppaborg. En hvað konurnar varðar þá koma þær fyrir á heilum fjórum myndarömmum í þessari sögu, Með kveðju frá Z, og því orðið nokkuð ljóst að þær eru komnar til að vera.
Næst koma þær fyrir á blaðsíðu 19 í bókinni. Þetta gerist degi seinna og þarna hafa þeir Svalur, Valur og Sveppagreifinn gert stórátak í að endurlífga borgarana og allt virðist vera fallið aftur í ljúfa löð. Helstu íbúar Sveppaborgar hittast því úti á götu til að fara yfir og ræða atburði síðustu daga og slúðurkerlingarnar tvær eru þar engin undantekning. Þær hafa eflaust haft um nóg að spjalla í þetta skiptið. Strax á næstu síðu birtast þær síðan á ný. Tíminn hefur liðið nokkuð og aldrei þessu vant er hlaupið hratt yfir sögu því að á þeirri mynd eru liðnir nokkrir mánuðir frá þessum eftirminnilegu atburðum. Þarna sést í forgrunninum þegar glæsibifreið Zorglúbbs, Citroen DS árgerð 1962, keyrir skyndilega í gegnum bæinn og auðvitað sjást kjaftakerlingarnar tvær stinga saman nefjum, þar sem þær skiptast á slúðursögum, lengst til hægri á myndinni.
Enn á ný birtast þær í Með kveðju frá Z og að þessu sinni á blaðsíðu 28. Núna virðast kerlingarnar þó ekki vera búnar að versla en eru þó líklega á leiðinni í innkaupaleiðangur. Innkaupatöskurnar eru tómar og netpokinn, sem sú með hattinn er ætíð vopnuð með, er sennilega enn í töskunni hennar. Þarna birtist Zorglúbb skyndilega á eldsneytislausri Zor-flugu og stefnir beint á kjaftakerlingarnar. Í íslensku útgáfunni af sögunni öskrar Zorglúbb upp yfir sig "Geta þessar kjaftakerlingar ekki flutt sig til?!!" en í upprunalegu frönsku útgáfunni kallar hann hins vegar eitthvað á þá leið, "Ó, nei! Ég mun lenda á þessum fáránlega hlut!!" og á þá auðvitað við styttuna af borgarstjóranum. Það má því gera ráð fyrir að það sé einungis í íslensku þýðingunni af Með kveðju frá Z þar sem minnst er á konurnar tvær í allri Sval og Val seríunni og bent á tilvist þeirra.
Slúðurkerlingarnar tvær koma næst fyrir í bókinni Panade à Champignac (Svaðilför til Sveppaborgar - 1979) sem gefin var út í bókarformi árið 1968 en sú saga gerist að megninu til í Sveppaborg eins og nafn hennar gefur augljóslega til kynna. Sú saga hefst reyndar á ritstjórnarskrifstofu SVALS blaðsins en þeir félagar Svalur og Valur drífa sig í sveitina snemma í bókinni og koma til Sveppaborgar neðst á blaðsíðu 7. Valur bregður sér inn í ritfangaverslunina og á einni myndinni má einmitt sjá nokkurn veginn sama sjónarhornið og sést á fyrsta myndarammanum úr Fanganum í styttunni sem nefnd var efst í þessari færslu. Á myndinni má aftur þekkja ritfangaverslunina, sömu húsin, skiltið og jafnvel Jóli litli er á ferðinni líkt og á hinni myndinni. Og ... lengst til vinstri á myndinni sést einmitt glitta í aðra kjaftakerlinguna þar sem hún stendur á sama götuhorninu og áður og er þar augljóslega að spjalla við vinkonu sína sem er þó reyndar í hvarfi.
Á næstu blaðsíðu sést síðan önnur mynd þar sem sjónarhornið er sýnt alveg úr hinni áttinni en á þeirri mynd sjást kerlingarnar tvær, lengst til hægri, stinga saman nefjum líkt og svo oft áður.
Svaðilför til Sveppaborgar, ásamt aukasögunni Aparnir hans Nóa (Bravo les Brothers), voru síðustu sögur Franquins um þá Sval og Val en eftir þetta sneri hann sér nær eingöngu að Viggó viðutan. Franski listamaðurinn Jean-Claude Fournier tók nú við keflinu og teiknaði næstu níu bækur í seríunni fram til ársins 1979 en kjaftakerlingarnar tvær komu ekkert við sögu í hans tíð. Í sögum Fourniers kemur Sveppagreifinn heldur minna við sögu og þar af leiðandi eru þeir Svalur og Valur ekki mikið á ferðinni í Sveppaborg. Eins komu þær heldur ekkert við sögu tvíeykisins Nic og Cauvin en árið 1984 kom út fyrsta saga Tome og Janry um Sval og Val. Alls gerðu Tome og Janry fjórtán bækur um þá félaga og Sveppaborg kemur nokkuð við sögu í eldri sögum þeirra en það er aðeins í sögunni Le Rayon noir frá árinu 1993 sem kerlingarnar sjást á ný. Bókin hefur ekki komið út á íslensku en hefur verið nefnd Blökkugeislinn þegar hún hefur komið til umræðu Sval og Val sérfræðinga hérlendis. Á blaðsíðu 10 í bókinni sjást þær, í bakgrunninum á einni myndanna, stinga saman nefjum við aðalgötuna í Sveppaborg. Þarna hefur fangaflutningabíll lent í árekstri og nokkrir íbúar Sveppaborgar, með borgarstjórann og Kristján Dýrfjörð í forgrunni, fylgjast með.
Sennilega hafa þeir Tome og Janry ekki verið búnir að uppgötva eða hreinlega ekki áttað sig á tilvist kvennanna tveggja í seríunni fyrr en á þessum tímapunkti. En skömmu síðar verður Svalur óvart fyrir geislum nýjustu uppfinningar Sveppagreifans, sem þá er nýfarinn að heiman, en tækið gerir það að verkum að fólk breytir um litarhaft og verður dökkt á hörund. Hann lendir síðan í vandræðum með að útskýra fyrir lögreglu að hann sé ekki með stolin skilríki þegar myndin í blaðamannaskirteininu passar ekki við útlit hans. Svalur rétt missir af Sveppagreifanum (bls 18), sem er á leiðinni með áætlunarbílnum til kollega síns í borginni, en Greifinn gæti útskýrt fyrir lögreglunni hver hann er í raun og veru. Aftast í rútunni má sjá hvar Sveppagreifinn hefur komið sér fyrir en í sætunum fyrir framan hann sitja kjaftakerlingarnar tvær og skiptast á slúðursögum.
Og undir lok bókarinnar Le Rayon noir birtast konurnar tvær svo í þriðja sinn í sögunni. Eftir heilmikið ævintýri, þar sem þetta tæki Sveppagreifans, Don Vito Cortizone og hálfgert stríðsástand með kynþáttafordómum koma helst við sögu, nær hið afslappaða og rólega andrúmsloft aftur yfirhöndinni í Sveppaborg. Lífið á götum bæjarins kemst aftur í réttar skorður og á blaðsíðu 46 eru kerlingarnar tvær enn á ný mættar á götuhorninu sínu til að slúðra um helstu mál Sveppaborgar. Í fyrsta sinn eru konurnar þó ekki of uppteknar við að stinga saman nefjum sínum heldur virðast þær þarna loksins gefa sér aðeins tíma til að líta svolítið upp og fylgjast með því sem er að gerast í kringum þær. Og þarna eru þær augljóslega búnar að versla ...

18. september 2020

174. FYRSTA MYNDARÖÐIN Í ÁSTRÍKI GALLVASKA

Það kennir ýmissa grasa í myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS, eins og stundum hefur mátt lesa um hér á Hrakförum og heimskupörum, en í þeim má finna nokkurt safn skemmtilegra teiknimyndasagna. Reglulega bætast við einhverjar bækur og þær koma þá úr ýmsum áttum en í flestum tilfella er þar um að ræða myndasögur sem tengjast þeim fransk/belgísku teiknimyndasögum sem gefnar hafa verið út hér á landi. Ekki hefur reyndar verið gerð nýleg eða mjög formleg talning á fjölda þeirra bóka sem myndasöguhillur heimilisins hafa að geyma en líklega má lauslega áætla að teiknimyndasögurnar þar séu nú komnar eitthvað vel yfir 700 talsins. Stór hluti þessara bóka eru auðvitað keyptar hér á landi og íslensku bækurnar eru að sjálfsögðu langflestar komnar í hús. Reyndar vantar enn einstaka bækur í safnið og eins hefur SVEPPAGREIFINN ekki verið að leggja sig alveg allan fram um að eignast til dæmis allar prentanir af hverri einustu útgáfu Tinna bókanna. Hann hefur þó alveg notað tækifærið og verslað slíka gripi ef hann hefur rekist á þá í þokkalegu standi en hefur ekki enn nennt að standa í einhverjum sérstökum eltingaleik við þær bækur. Annars eru Tinnabækurnar í hillum SVEPPAGREIFANS nú í heildina orðnar um hundrað og tuttugu talsins og á um það bil tíu mismunandi tungumálum. Flaggskipið þar er líklega sænsk 1. útgáfa af Dularfullu stjörnunni gefin út árið 1960 en á meðal annarra Tinnabóka má þar til dæmis einnig finna nokkuð framandi útgáfu af Tinna í Tíbet á arabísku. Það er svolítið misjafnt hvað safnast hefur upp af hverri Tinnabók á mismunandi tungumálum en fyrir mörgum árum velti SVEPPAGREIFINN einmitt fyrir sér að byrja að safna einhverri ákveðinni bók úr seríunni á sem flestum tungumálum. Enn hefur þó ekkert orðið af alvöru úr þeim hugmyndum en vissulega hefði verið freistandi að taka einmitt Tinna í Tíbet fyrir. Þá má einnig finna töluvert mikið magn af Lukku Láka bókum í hillunum góðu og svo má ekki gleyma Ástríki og félögum hans. Samtals á SVEPPAGREIFINN um 95 bækur úr seríunni um Ástrík á um tíu tungumálum en þar var einmitt hugmyndin að staldra eilítið við með færslu dagsins.
Þegar SVEPPAGREIFINN fór að kanna aðeins hvaða stöku myndasögu hann ætti á flestum tungumálum kom upp úr krafsinu að fyrsta Ástríks bókin, Ástríkur Gallvaski (Astérix le Gaulois), væri þar nokkuð ofarlega á blaði. Það var svo sem ekkert sem þurfti að koma á óvart. Alls hafa Ástríks bækurnar verið þýddar á yfir hundrað tungumálum en SVEPPAGREIFANUM er þó reyndar ekki vel kunnugt um hvort nákvæmlega þessi fyrsta saga í seríunni hafi komið út í öllum þeim útgáfulöndum. Það verður þó að teljast nokkuð líklegt. Í títtnefndum myndasöguhillum hans er hin franska útgáfa af Ástríki Gallvaska að sjálfsögðu til en bókina er þar einnig að finna á nokkrum öðrum tungumálum og þar á meðal auðvitað á íslensku. Þessa kunnuglegu fyrstu myndaröð úr bókinni þekkja að sjálfsögðu allir Ástríks aðdáendur á Íslandi.
Ástríkur Gallvaski kom fyrst út hér á landi hjá Fjölva-útgáfunni árið 1974, í þýðingu Þorbjarnar Magnússonar með aðstoð Þorsteins Thorarensen, og bókin var endurútgefin árið 1982. En SVEPPAGREIFINN á þessa sögu á fleiri tungumálum en bara þeim íslensku og frönsku. Hin enska útgáfa bókarinnar, sem nefnist einfaldlega Asterix the Gaul, kom fyrst út hjá Brockhampton Press árið 1969 en sú útgáfa sem SVEPPAGREIFINN hefur undir höndum er frá Orion Books útgáfunni og kom út árið 2004. Í þeirri bók er verulega búið að pimpa upp og nútímavæða litina í teikningunum og eins og sjá má er ramminn með skýringatextunum til dæmis orðinn gulur á litinn.
Danska útgáfa SVEPPAGREIFANS af Ástríki Gallvaska heitir Asterix og hans gæve gallere og er frá árinu 1979. Það mun vera 2. útgáfa sögunnar í Danmörku en 1. útgáfa hennar ku hafa verið prentuð í sex mismunandi upplögum eða prentunum. Forsíða þessarar 2. útgáfu hefur reyndar verið endurteiknuð að einhverju leyti því útlit hennar er ekki nákvæmlega eins og af öðrum útgáfum af sögunni. Á bókarkápunni má til dæmis sjá Krílrík/Smárík en hann er ekki að finna framan á neinum öðrum útgáfum bókarinnar. Leiða má líkum að því að þetta hafi verið gert af dönskum aðila en sambærilegar breytingar má einnig finna á fleirum Ástríks bókum. Innihald hennar er þó byggt á upprunalegu útgáfunni af sögunni, líkt og sú íslenska, og hefur ekkert verið átt við hana.
Sömu sögu má segja um innihald sænsku útgáfu bókarinnar. Asterix och hans tappra galler heitir hún og kom út hjá Serieförlaget árið 1989 en þetta mun vera sérstök afmælisútgáfa af sögunni enda þá 30 ár síðan bókin kom fyrst út í Frakklandi. Fremst í bókinni má einmitt finna átta blaðsíðna aukaefni í tilefni tímamótanna. Asterix och hans tappra galler kom fyrst út í Svíþjóð árið 1970 en heftið sem er í eigu SVEPPAGREIFANS mun vera 7. útgáfa bókarinnar í Svíþjóð.
Að síðustu má nefna spænska útgáfu af þessari sögu, Ástríki Gallvaska, sem finna má í hinum fjölbreytilegu myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS. Sú bók nefnist að sjálfsögðu Asterix el Galo. Þessi útgáfa síðuhafa var gefin út hjá Grijalbo/Dargaud s.a. bókaútgáfunni í Barcelona árið 1980 en þetta mun hafa verið 4. útgáfa sögunnar á Spáni. Asterix el Galo var fyrst gefin út þar í landi árið 1961 en Ástríksbækurnar eiga sér nokkuð langa útgáfusögu á Spáni. Þar hafa bækurnar verið endurútgefnar oft og mörgum sinnum í gegnum tíðina og nýjustu sögurnar koma þar jafnan út á svipuðum tíma og á frummálinu. Ástríkur Gallvaski er einnig til á katalónsku og gaman væri að sjá þá útgáfu finna sér stað í myndasöguhillum heimilisins einhvern tímann.
Og nú er bara stefnan sett á að eignast þessa sögu á enn fleiri tungumálum. Einhverra hluta vegna hefur hin þýska útgáfa bókarinnar ekki enn komið inn á heimilið og þá væri gaman að eignast hina áðurnefndu katalónsku útgáfu, þá portúgölsku, hollensku og ítölsku. Já og á norsku, finnsku, latínu, tyrknesku, grísku,albönsku, króatísku, pólsku ... Haha! Ég vissi að þú myndir gera þetta!!!
En látum þetta nægja í dag af innihaldslitlu rausi ...

4. september 2020

173. HERRA SEÐLAN HITTIR GORM

SVEPPAGREIFINN hefur stundum gert sér það að leik að grafa upp stuttar myndasögur eða brandara úr belgíska teiknimyndatímaritinu SPIROU og birt hér á Hrakförum og heimskupörum. Oftast er þetta efni sem ekki hefur birst í þeim myndasögum sem komið hafa út hér á landi og getur verið af ýmsum toga. Sem dæmi um þetta má nefna stakan myndabrandara með Viggó viðutan og herra Seðlan, stutta jólamyndasögu og einnig stutta sögu með þeim Sval og Val.
En fimmtudaginn 9. júlí árið 1970 kom út blað númer 1682, af hinu áðurnefnda SPIROU tímariti, en þetta tölublað markaði þau tímamót að vera upphafsblað þrítugasta og þriðja árgangs myndasögublaðsins kunna. Blaðið var heilar 132 blaðsíður að lengd í þetta sinn og uppfullt af ýmsu skemmtilegu efni, tileinkað þessu óvenjulega tilefni, auk hinna hefðbundnu vikulegu myndasagna og greina. Á meðal þess efnis sem þetta tölublað hafði fram að færa voru til dæmis framhaldssögur með flugfreyjunni ævintýragjörnu Natöchu, franska einkaspæjarann Gil Jourdan, Tif og Tondu og byrjunin á Samma sögunni Des Mômes et des gorilles svo eitthvað sé nefnt. Sú saga hefur ekki komið út hérlendis. Þá mátti þar auðvitað finna hefðbundinn Viggó brandara og fyrstu fjórar blaðsíðurnar úr Sval og Val sögunni Sprengisveppnum, eftir Jean-Claude Fournier, en sú byrjun er reyndar svolítið öðruvísi en við eigum að venjast úr bókinni. En það er annað mál og verður kannski krufið hér betur seinna. Af hinu óhefðbundna efni, sem birt var í tilefni tímamótanna, mátti til dæmis finna þriggja og hálfs blaðsíðna Strumpasögu með auðum talblöðrum þar sem lesendum blaðsins gafst kostur á að taka þátt í að fylla upp í blöðrurnar og stutta myndasögu um Sval, eftir Rob-Vel, þar sem Pési verður ósýnilegur fyrir slysni. Í blaðinu birtist einnig aukabrandari um Viggó, sem margir muna eftir, og segir frá því þegar hann fyllir slökkvitæki af rjóma til að slökkva kertin á afmælistertu SPIROU tímaritsins. En í blaðinu birtust líka nokkrir stuttir myndasögubrandarar sem unnir voru sameiginlega af listamönnum tímaritsins. Þar rugla saman reitum sínum margar af sögupersónum blaðsins og sameinast á ritstjórnarskrifstofunni. En efni það sem SVEPPAGREIFINN ætlar að birta í færslu dagsins tengist einmitt nokkrum af þeim persónum sem kíkja þar í heimsókn. Þetta er brandari eftir Fournier og sýnir hina óvenjulegu samsetningu; Val, Sveppagreifann, Gorm og herra Seðlan. Brandarinn birtist á neðri hlutum blaðsíðna númer 113 og 114 í blaðinu en SVEPPAGREIFINN hefur snarað honum, með aðstoð Greifynjunnar sinnar, yfir á íslensku og vonandi fyrirgefst honum það.
Það telst harla óvenjulegt að sjá herra Seðlan teiknaðan af Fournier en hvað Gorm varðar er nú líklegt að eitthvað hafi André Franquin átt þar einhvern hlut að máli.

21. ágúst 2020

172. Í LEIT AÐ AFRÍSKUM TINNA STYTTUM

Flestir muna líklega eftir því þegar margs konar afrískir munir úr dökkum viði fóru að birtast í sölu hér á landi fyrir um þrjátíu árum. Í Kolaportinu var til dæmis varla hægt að þverfóta fyrir slíku dóti og þannig er það líklega enn þann dag í dag. Mest voru þetta handunnir skrautmunir af ýmsu tagi. Mikið af einhvers konar galdragrímum af öllum stærðum og gerðum, geisladiskastandar, alls kyns styttur og jafnvel húsgögn. Þetta þótti allt ægilega fínt og framandi og mörg íslensk heimili fengu á stuttum tíma einhvers konar afrískt yfirbragð, jafnvel þó eina tenging heimilanna við Afríku kæmi í gegnum Kolaportið. Mörgum árum seinna fóru þessir sömu gripir að fylla nytjamarkaði landsins og SVEPPAGREIFINN viðurkennir meira að segja að hafa sjálfur fjárfest í slíku timburverki í Góða hirðinum fyrir nokkrum árum. Þar var um að ræða einhvers konar galdrakall, um 70 sentimetra á hæð, sem var orðinn grár af vanrækslu eftir langvarandi útiveru og vosbúð. Kallinn frískaðist þó verulega við hálfan lítra (útvortis) af baneitruðum fúavarnarvökva ættuðum frá Kjörvara. En galdrakarlinn góði fékk síðan fast heiðurssæti við sumarbústað fjölskyldunnar austur í sveitum og stendur þar blýsperrtur vörð um sólpallinn. Hann heitir Mundi.
Á ferðum sínum erlendis á undanförnum árum hefur SVEPPAGREIFINN oft og margsinnis rekist á sambærilegt dót á hinum margvíslegustu tegundum útimarkaða. Þar má jafnan sjá ýtna sölumenn, af afrískum uppruna, að reyna að selja fjölbreytilegan varning sinn í básum sínum innan um annað sambærilegt skran. Fyrir nokkrum árum var hann til dæmis á ferðinni í borginni Locarno sem er í suðurhluta Sviss en hún er ekki langt frá ítölsku landamærunum. Þarna var fjölskyldan nýkomin til borgarinnar og var að arka frá lestarstöðinni, í gegnum miðbæinn, með ferðatöskur sínar og annað plássfrekt dót á leið upp á hótel sem staðsett var uppi í miðri fjallshlíð fyrir ofan borgina. Í miðbænum var starfrækt einhvers konar farandsmarkaðstorg og þar rak SVEPPAGREIFINN augun í lítinn bás sem einmitt hafði að geyma slíkan afrískan viðarvarning. Og innan um galdragrímur og berbrjósta konustyttur rakst hann skyndilega á heilan hóp af úttálguðum tréfígúrum úr Tinna bókunum. SVEPPAGREIFINN bókstaflega hoppaði hæð sína af kæti og hugsaði sér virkilega gott til glóðarinnar þegar fjölskyldan yrði búin að losa sig við farangur sinn upp á hóteli og fá sér einhvern bita. Eftir að því var lokið strunsaði GREIFINN því af stað með fjölskylduna á eftir sér en kom þá að galtómum kofanum! Búið var að pakka saman öllum markaðnum og hann hreinlega með öllu horfinn af yfirborði jarðar. SVEPPAGREIFINN hélt þó áfram í vonina og næstu dagana dvaldi fjölskyldan í borginni og fylgdist reglulega með því hvort götumarkaðurinn birtist aftur en það gerðist því miður aldrei.
Næstu árin hafði SVEPPAGREIFINN því sérstaklega auga með afrískum viðarvarningi á slíkum markaðstorgum og í sama tilgangi voru hefðbundnir flóamarkaðir einnig skannaðir ítarlega með þess konar vörur í huga. Fyrir rúmlega ári síðan rakst hann svo á um tveggja metra langan Tinna, á markaði í borginni Ascona í Ticino héraðinu í Sviss, innan um nokkra gíraffa og prúðbúna herramenn. Stærð fígúrunnar gerði það reyndar að verkum að nær ómögulegt var að ferðast með kvikindið og því var tekin sú ákvörðun að fjárfesta ekki í Tinna að sinni. En á þessu svæði fóru hjólin reyndar aðeins að snúast. Ascona er staðsett við Maggiore vatnið og á öðrum markaði, sem staðsettur var í bæ á nálægum slóðum við vatnið, fann síðuhafi fleiri fígúrur úr Tinna bókunum. Fæstar þeirra voru þó nægilega áhugaverðar til að SVEPPAGREIFINN freistaðist til að kaupa þær en hann var þó greinilega kominn á ákveðna slóð. Á enn einum götumarkaðnum rakst hann síðan á brúnklæddan Tinna sem hélt á Tobba í fanginu. Sá var um 80 sentimetrar á hæð og óþarflega valtur á fæti enda hafði nefið á honum augljóslega fengið að kenna á því eftir slæma byltu.
Ekki fékk sá Tinni heldur ferðalag til Íslands í vinning. Það var þess vegna ekki fyrr en SVEPPAGREIFINN og fjölskylda hans hafði siglt yfir Maggiore til borgarinnar Luino, sem er Ítalíu megin við vatnið, að hann rakst loksins á það sem hann hafði verið að leita eftir. Í Luino er þekktur flóamarkaður sem reyndar er kunnur um allar Evrópu fyrir stærð sína en er þó að sama skapi ekkert sérstaklega eftirminnilegur. Alla vega ekki fyrir SVEPPAGREIFANN. Þarna kennir auðvitað ýmissa grasa en mest af því tengist þó matvörum og ýmis konar fatnaði og smávörusölu. Markaðurinn er risastór, með meira en þrjúhundruð og fimmtíu sölubása og hefur verið starfræktur á þessum stað í næstum því fimmhundruð ár. Þrengslin og mannmergðin voru engan veginn að skapi SVEPPIGREIFANS en þarna fann hann þó nokkra bása með afrísku handverki úr tré. Nokkrir þeirra höfðu að geyma styttur eða fígúrur úr Tinna bókunum og þær voru flestar um 30 til 40 sentimetrar á hæð en einnig voru til stærri fígúrur sem voru sambærilegar þeim sem SVEPPAGREIFINN hafði áður rekist á. Tinni og Tobbi, Skaftarnir og prófessor Vandráður voru þar mest áberandi en Kolbein kaftein virtist hins vegar vera svolítið erfiðara að finna.
Á flóamarkaðnum í Luino var því auðvitað ekki hjá því komist að fjárfesta loksins í einum útskornum timbur-Tinna í afrískum stíl. Fyrir valinu varð um það bil 30 sentimetra stór útgáfa, af þessari þekktustu myndasöguhetju Belga, þar sem Tobbi er einnig haganlega skorinn út úr sama viðarkubbi. Fígúran er nokkuð gróf, líkt og aðrar sambærilegar afrískar styttur, og er máluð í heldur sterkari litum en lesendur Tinna bókanna eiga að venjast. En styttan sómir sér engu að síður vel innan um aðra teiknimyndasögutengda muni síðuhafa og vonandi eiga fleiri slíkir gripir eftir að bætast við síðar henni til samlætis. Ef minni SVEPPAGREIFANS svíkur ekki þá átti styttan að kosta heilar 50 evrur, sem honum þótti dýrt á ítölskum flóamarkaði, en með prútti tókst honum að lækka verð hennar niður í 30. Hinn afrískættaði sölumaður hefur þó án nokkurs vafa stórgrætt á skærgrænum Íslendingnum og örugglega verið hinn hæstánægðasti með söluna.
En annað þessu tengt fyrst byrjað er að fjalla um Tinna styttur hér á Hrakförum og heimskupörum. Nýlega rakst SVEPPAGREIFINN nefnilega á gamla grein í einhverjum erlendum fréttamiðli þar sem kíkt er í heimsókn í lítinn skúr sem staðsettur er við bakgötu í höfuðborginni Kinshasa í Lýðveldinu Kongó. Þangað væru líklega margir aðdáendur Tinna bókanna einnig til í að koma í heimsókn. Þessi skúr er vinnustofa og verkstæði kongóska handverks- og listamannsins Auguy Kakese en hann hefur, síðastliðin fimmtán ár, haft fjölda manns í vinnu hjá sér við að framleiða styttur af mörgum persónum Tinna bókanna. Fígúrurnar eru allar unnar í höndunum en í gegnum tíðina hefur hann látið framleiða þúsundir slíkra fígúra og selt vestrænum ferðamönnum sem koma til borgarinnar. En eins og allir líklega vita hefur Lýðveldið Kongó sterka tengingu við Tinna. Þó bókin Tinni í Kongó sé umdeild hefur sagan þó alltaf höfðað sterkt til meginþorra íbúa landsins. Almennt eru Kongóbúar frekar stoltir af þessari tengingu og þrátt fyrir að sagan sé stútfull af fordómum og ranghugmyndum hefur hún alltaf verið nokkuð vinsæl í Afríku. Auguy Kakese vill til dæmis sjálfur meina að um 75% kongósku þjóðarinnar hafi lesið bókina og þetta er sú Tinna bók sem almennt er langerfiðast að nálgast í Kongó - hún sé alltaf uppseld. 
Evrópskir ferðamenn, sem koma til Kinshasa, hafa því verið duglegir að sækja sér minjagripi úr smiðju Kakese en þá er hægt að nálgast á ýmsum sölustöðum sem dreifðir eru víðsvegar um borgina. Gripirnir eru reyndar nokkuð misjafnir að stærð og umfangi en sumir ferðamannanna eru tilbúnir að borga morðfjár, allt að 200.000 krónur, fyrir margar af þessum gullfallegu tréstyttum. Þær eru mjög vandaðar og ekki í þeim sama stíl og hinar hefðbundnu Tinna styttur sem SVEPPAGREIFINN er búinn að vera að eltast við. Flestar þessara styttna eru af Tinna sjálfum og sýna hann við ýmis tækifæri í ævintýrum sínum en helstu meðreiðarsveina hans úr bókunum má líka finna þar. Og vegna þess að þær eru handgerðar eru að sjálfsögðu engar af styttunum eins.
Eins og sjá má á þessum myndum eru hillur vinnuskúrsins í Kinshasa troðfullar af þessum frábæru styttum. Það lítur því út fyrir að næsti viðkomustaður myndasögunörda eftir Covid, hvenær sem það verður, verði hin Tinna-væna höfuðborg Lýðveldisins Kongó - Kinshasa.
Annars er eiginlega ekki hjá því komist, svona undir lok þessarar færslu, að minnast aðeins á það að fyrir um ári síðan voru SVEPPAGREIFANUM gefnar tvær nokkuð merkilegar styttur úr leir sem gerðar voru af hæfileikaríkri leirlistakonu. Þessi listakona vissi af myndasöguáhuga SVEPPAGREIFANS og færði honum tvö sérunnin verk af tveimur af uppáhalds sögupersónum hans úr hinum belgíska hluta myndasöguheimsins. Hér er um að ræða stílfærðar styttur af þeim Tinna og Viggó viðutan og óneitanlega þykir SVEPPAGREIFANUM vænt um þessa fallegu skúlptúra. 
Og úr því að farið er að nefna leirlistaverk af myndasögupersónum er ekki úr vegi að minnast einnig á skemmtileg verk sem listamaðurinn Fannar Þór Bergsson, eða LeiraMeira eins og hann kallar sig, hefur verið að vinna að og selja. SVEPPAGREIFINN rak einmitt augun í færslu sem hann setti inn á Facebook-grúbbuna Teiknimyndasögur þar sem hann vekur athygli á verkum sínum og heimasíðu. Fannar Þór leirar hinar ýmsu fígúrur eftir pöntunum og það er tilvalið að hafa samband við listamanninn í gegnum heimasíðuna hans Leirameira.com ef einhvern langar að eignast styttu af uppáhalds myndasögupersónunni sinni eða til gjafa. Frábært framtak og skemmtilegt.

7. ágúst 2020

171. MEÐ ÞEIM VERRI

Það eru eflaust einhverjir sem hafa áttað sig á því að SVEPPAGREIFINN heldur úti bloggsíðunni Hrakförum og heimskupörum þar sem hann sérhæfir sig í umfjöllunum um þær teiknimyndasögur sem komið hafa út á íslensku. Þar fer hann stundum hamförum við að kryfja hina ólíkustu kima þessa áhugamáls síns og kemur þar jafnan nokkuð víða við. Í fæstum tilfellum er þó eitthvað vit í því sem hann lætur frá sér. Yfirleitt reynir SVEPPAGREIFINN að fjalla um þessi nördalegu áhugamál sín á sem hlutlausastan hátt en þó kemur einnig fyrir að hann láti tilfinningarnar ráða. Þannig á hann það auðvitað til að hrósa því sem honum finnst vel gert og er í uppáhaldi en einnig getur hann skammast eða nöldrað út af efni sem honum finnst ekki undir neinum kringumstæðum vera neitt vit í. Slíkt mat er þó að sjálfsögðu mjög afstætt og ber ekki að taka af mikilli alvöru enda er smekkur fólks afar ólíkur og misjafn. Einhvern tímann snemma á ferli Hrakfara og heimskupara tók hann til dæmis saman færslu sem fjallaði um það sem hann taldi vera nokkrar af verstu myndasögunum í eigu SVEPPAGREIFANS og í annað skipti taldi hann sig (reyndar af svolítilli illgirni) hafa fundið út hver væri alversta myndasagan sem gefin hefði verið út á Íslandi. Bókin Hin fjögur fræknu og geimskutlan hlaut þann vafasama heiður hjá síðuhafa og á þeim tímapunkti hafði hann ekki grun um að þann botn væri mögulega hægt að botna. Ekki ætlar SVEPPAGREIFINN reyndar að fullyrða að honum hafi tekist að finna myndasögu sem er enn verri en áðurnefnd Hin fjögur fræknu bók en óneitanlega er hann nú búinn að finna afar slaka bók.
En fyrst ... SVEPPAGREIFINN hefur nokkrum sinnum minnst aðeins á það hér hvaða bækur myndasöguhillur hans hafa meðal annars að geyma. Uppistaða þeirra bóka er að sjálfsögðu mest íslenskar teiknimyndasögur en það safn er þó ekki alveg tæmandi. Í hillurnar vantar fáeinar myndasögur sem SVEPPAGREIFINN hefur ekki lagt mikið á sig við að nálgast en eru samt til á sérstökum bókalista hans sem dreginn er fram við þar til gerð tækifæri. Þetta er ein og ein myndasaga sem hann grípur með sér, þegar hann sér þær, ef bækurnar eru vel með farnar og ódýrar. Flóknara er það ekki og svipaða sögu má eflaust heyra frá öðrum aðilum sem safna myndasögum. Á þessum lista eru núna til dæmis ein eða tvær bækur með Hinum fjórum fræknu, ein Goðheima bók og bókin um Alla Kalla svo einhverjar þeirra séu nefndar. Og svo eru á listanum reyndar líka myndasögurnar um Trilla og Silla, Stjána bláa og Bleika pardusinn. Síðarnefndu bækurnar átti SVEPPAGREIFINN aldrei sem barn og hafði reyndar aldrei gerst svo forvitinn (eða hugaður) að fletta í gegnum þær. Þær bækur voru allar gefnar út af Fjölva útgáfunni og komu út á árunum 1979-80. Þarna var Þorsteinn Thorarensen hjá Fjölva búinn að senda frá sér allar Tinna bækurnar og var nú að einbeita sér að því að koma Lukku Láka bókunum út á færibandi. Myndasöguútgáfan á Íslandi var einmitt að ná hápunkti á þessum árum og helstu útgefendurnir voru að prófa sig áfram með efni í þessu vinsæla bókaformi. Bókaútgáfan Iðunn náði að landa vinsælum seríum eins og Sval og Val, Viggó viðutan, Strumpunum og Hinriki og Hagbarði og Fjölva útgáfan fór því að prófa sig meira áfram með myndasögur sem komu ekki frá fransk/belgíska svæðinu. Trilli og Silli, Stjáni blái og Bleiki pardusinn tilheyra einmitt þeim bókum. Þessar teiknimyndasögur hafa verið nokkuð lengi á hinum áðurnefnda lista SVEPPAGREIFANS og fyrir fáum vikum rakst hann einmitt á ódýrt og ólesið eintak af Bleika pardusinum en sú bók heitir einfaldlega Bleiki pardusinn leikur lausum hala. Það er einmitt hún sem er umfjöllunarefni dagsins.
Nú er það yfirleitt svo að þær myndasögur sem bætast í safn SVEPPAGREIFANS, og teljast ekki á meðal hinna vinsælustu eða bestu, fara jafnan óskoðaðar á sinn stað í hillurnar. Í augum eigandans eru þessar afgangsbækur einfaldlega bara nauðsynlegur hluti af safninu hans og teljast því sjaldnast áhugaverðar til lestrar. Það kemur þó fyrir stöku sinnum að ein og ein myndasaga er gripin löngu seinna af handahófi úr hillunum og gluggað í þær í rólegheitunum. Þannig gerðist það til dæmis með hina arfaslöku teiknimyndasögu Hin fjögur fræknu og geimskutlan. Bleiki pardusinn leikur lausum hala fór þó aðra leið. Bókin lenti efst í stafla af myndasögum, sem átti eftir að ganga frá, og blasti því við SVEPPAGREIFANUM við óvænta tiltekt. Hann greip því bókina til handagagns og er nú ekki aðeins búinn að fletta í gegnum þessa myndasögu heldur tók hann sig einnig til og hreinlega las bókina. Og svo aftur sé komið inn á það sem nefnt var í upphafi þessarar færslu þá er það þessi bók, Bleiki pardusinn leikur lausum hala, sem telst þessi slaka myndasaga sem þar var minnst á. Það er þó kannski ekki alveg sanngjarnt að segja að þessi bók sé jafningi hinnar verstu bókar (með fullri virðingu fyrir Hinum fjórum fræknu) en ansi er hún léleg.
Myndasögurnar um Bleika pardusinn sem komu út á Íslandi voru raunar tvær og þetta er fyrri bókin. Hin heitir Bleiki pardusinn - Keikur á kreiki og eftir því sem SVEPPAGREIFINN best veit er þá bók ekki að finna í myndasöguhillum heimilis hans. Ekki enn þá að minnsta kosti. Svolítið ósamræmi er með brot þessara tveggja bóka því Bleiki pardusinn leikur lausum hala, sem kom út árið 1979, er harðspjaldaútgáfa en Bleiki pardusinn - Keikur á kreiki er hins vegar í mjúku kiljubroti, sambærilegu Ástríks bókunum, og kom út árið 1980. Fjölva útgáfan hefur áttað sig á því, eftir að fyrri bókin kom út, að líklega væri ekki réttlætanlegt að kosta mjög miklu til bókar númer tvö í seríunni. Sú ráðstöfun virðist hafa verið eðlileg og sanngjörn því ekki komu fleiri bækur út hér á landi með Bleika pardusinum. Þessar bækur eiga því ósköp litlar tengingar við þær teiknimyndasögur sem verið var að gefa út hér á landi á þessum árum. Þær eru miklu meira í ætt við myndasögublöðin með Gög og Gokke eða Tomma og Jenna sem Siglufjarðarprentsmiðjan var að gefa út á svipuðum tíma. Snöggsoðnar, stuttar, einfaldar og fjöldaframleiddar sögur, unnar upp úr teiknimyndum og ætlaðar frekar ungum lesendum, en með afskaplega takmörkuðum gæðum. 
Líkt og áður kom fram eru þessar myndasögur ekki af fransk/belgíska málsvæðinu. Bækurnar um Bleika pardusinn, Stjána bláa, Denna dæmalausa, Köttinn Felix og Trilla og Silla eru auðvitað byggðar á þessum amerísku teiknimyndum sem allir þekkja en koma þó frá sitthvorum framleiðslufyrirtækjunum vestan hafs. Upprunalegu sögurnar um Bleika pardusinn birtust í sérstökum Pink Panther blöðum, á sjöunda og áttunda áratuginum í Bandaríkjunum, sem nefndust ýmist The Pink Panther and the Inspector eða bara The Pink Panther en útgáfufyrirtækið Gold Key Comics gaf þau út þar. Til Íslands virðast þær koma í gegnum samstarf við sænska útgáfufyrirtækið Semic Press sem gáfu sögurnar út undir heitinu Rosa Pantern þar í landi. Í íslensku bókunum tveimur hefur þessum sögum verið safnað saman, átta í hvorri bók, og í því formi voru þær einnig gefnar út á nágrannalöndunum og eflaust víða. Svo vinsælar voru þessar myndasögur reyndar á Norðurlöndunum að Semic Press framleiddi sínar eigin sögur með leyfi Gold Key Comics og svo virðist sem það séu einmitt þær útgáfur sem birtust í íslensku bókunum tveimur. Ýmsir höfundar komu að þessum myndasögum en fyrir íslensku útgáfunum eru einfaldlega skrifaðir Mirisch og Geoffrey sem er í raun bara hluti af amerísku framleiðslufyrirtæki og því ekki beinir höfundar.
En hvað varðar hina lélegu teiknimyndasögu, Bleiki pardusinn leikur lausum hala, þá er það afskaplega döpur bók og hreint með ólíkindum að Fjölvi skuli hafa látið draga sig út í þá útgáfu. Fjölvi hafði gert mjög vel með útgáfum sínum á bæði Tinna, Lukku Láka og Ástríks bókunum og metnaður útgáfunnar á öðru efni hefði því kannski átt að liggja í svolítið hærri gæðaflokki. SVEPPAGREIFINN hefur aðeins velt fyrir sér ástæðunum en líklega hefur Iðunn verið búin að tryggja sér alla bestu bitana frá belgíska myndasögusvæðinu á þessum tíma. Útgáfa Fjölva á þessum B-vörum sínum hafi aðeins verið örvæntingafull tilraun til að reyna að hanga í keppinautunum. Fjölvi var auðvitað enn að gefa út Lukku Láka bækurnar en Iðunn hafði samt klárlega tekið forystuna á hinum litla íslenska myndasögumarkaði á þeim árum. Það var Þorsteinn sjálfur sem þýddi bókina Bleiki pardusinn leikur lausum hala og líklega er það textameðferðin sem er mest að trufla hinn nöldurgjarna SVEPPAGREIFA. Allur texti bókarinnar, hvort sem hann kemur fyrir í talblöðrunum, titlum hinna átta sagna eða einföldum skýringartexta, er settur upp á þann hátt að hann virkar mjög fráhrindandi - alla vega fyrir SVEPPAGREIFANN. Textinn er í einhvers konar óútskýranlegum orðaleikjum, bundnu máli eða ljóðaformi, sem hugsanlega má skilgreina sem nokkurs konar þulur eða hreinlega í rappstíl og er afskaplega truflandi. Hvort Þorsteinn ákvað sjálfur að setja textann upp á þennan hátt eða hvort hann var bein þýðing úr upprunalegu bókinni skal ósagt látið en hvimleiður er hann - þ.e.a.s. textinn!
Nú skal það reyndar tekið fram að SVEPPAGREIFINN er auðvitað ekkert eins og fólk er flest. Hann er til dæmis gæddur þeim einkennilegu eiginleikum að vera mjög torlæs á ljóð og kvæði og hefur jafnvel skilgreint eða greint sig með einhvers konar ljóðblindu - hvað sem það nú er. Kannast einhver við hugtakið eða sambærilega greiningu? Hann les reyndar mikið en við lestur hleypur hann ávallt yfir allt sem heitir ljóð eða kvæði í bókunum. Í sögunum um Harry Potter sleppti hann til dæmis öllum kvæðum og í Hringadróttinssögu hljóp hann jafnvel yfir heilu blaðsíðurnar á löngum köflum án þess að líta einu sinni á þær. Það þarf víst ekki að taka það fram að ekki er til ein einasta ljóðabók á heimili hans og hann fær nánast ofnæmisviðbrögð við það eitt að sjá gömlu bláu Skólaljóðin. Með öðrum orðum, SVEPPAGREIFINN skilur ekki ljóð og það er líklega helsta ástæða þess hve hann lætur þessa hvimleiðu Bleika pardus bók fara svona í taugarnar á sér. Hann gat hreinlega ekki einbeitt sér að bókinni. Sjálfsagt eru þó einhverjir aðrir lesendur bókarinnar sem hafa gaman af þessari uppsetningu textans en, eins og klárlega kemur fram í framgreindu máli, er textaformið SVEPPAGREIFANUM hins vegar engan veginn að skapi.
Eins og áður segir eru sögurnar í Bleiki pardusinn leikur lausum hala átta talsins en þær eru reyndar mislangar. Ein þeirra er til dæmis bara fjórar blaðsíður að lengd og önnur átta blaðsíður en hinar eru allt þar á milli. Þessar stuttu sögur eru auðvitað mjög einfaldar, enda ætlaðar ungum lesendum, og eru líklega að einhverju leyti byggðar á hinum sígildu teiknimyndum um Bleika pardusinn sem SVEPPAGREIFINN hafði reyndar nokkuð gaman að í æsku. Í grunninn fjalla þær allar um stutt ævintýri Bleiks þar sem hann leikur jafnan aðalhlutverkið gegn litla kallinum (sem byggður er á persónu Inspector Clouseau) en sá gegnir mörgum misjöfnum hlutverkum í bókunum. Allar sögurnar byggjast því á heppni Bleika pardusins og þá um leið óheppni þess litla
SVEPPAGREIFINN var í svolitlum vafa um hvort hann ætti yfir höfuð að vera nokkuð að fjalla um þessa bók í Hrakförum og heimskupörum. Bókin tilheyrir ekki hinum hefðbundna fransk/belgíska myndasögupakka, sem naut hvað mestra vinsælda á áttunda og níunda áratug 20. aldarinnar, heldur er hún meira í ætt við amerískar afþreyingamyndasögur fyrir börn. En þetta er víst samt myndasaga, sem kom út á íslensku, og þar með hefur hún unnið sér inn rétt til þátttöku þótt ekki teljist hún beint til áhugasviðs síðuhafans. Ætli SVEPPAGREIFINN eigi þá ekki líka einhvern tímann á næstunni eftir að fjalla um útgáfur Siglufjarðarprentsmiðjunnar, sem mokuðu út myndasögublöðunum um nokkurra ára skeið, með Tarzan og Son Tarzans fremsta í flokki. Enn er alla vega af nægu en misáhugaverðu efni að taka í myndasöguforminu til að fjalla um.

24. júlí 2020

170. KRISTJÁN GAMLI DÝRFJÖRÐ

Bækurnar um Sval og Val hafa verið í ansi miklu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM frá því hann var gutti en í þeim myndasögum má finna fjölda skemmtilegra persóna. Margoft hefur komið fram, hér á Hrakförum og heimskupörum, hve sögur Franquins eru hátt skrifaðar hjá síðuhafa en óhætt er að segja að í grunninn hafi hann átt mestan þátt í vinsældum þessara myndasagna á sínum tíma. Í dag ætlar SVEPPAGREIFINN því að skoða lítillega eina af þeim aukapersónum úr bókunum sem komu fram í tíð Franquins. Ekki er þó víst að allir átti sig á því hvaða sögupersóna á hér í hlut þegar nafn hans er nefnt en þó hefur hann birst í heilum tuttugu og sex bókum seríunnar. Hann kom fyrst við sögu í bókinni Il y a un sorcier à Champignac (Sveppagaldrar í Sveppaborg - 2017) árið 1951 og af þeirri staðreynd má auðvitað ráða að hann sé hugarfóstur André Franquin. En reyndar hefur hann birst hjá nær öllum höfundum seríunnar síðan. Á frönsku heitir hann Duplumier og í íslensku útgáfuröðinni birtist hann fyrst, nafnlaus reyndar, í bókinni Hrakfallaferð til Feluborgar (Les pirates du silence). Og það er ekki nóg með að Duplumier hafi komið fyrst fyrir í þeirri bók heldur er hann líka fyrsta persónan sem íslenskir lesendur Sval og Val bókanna fengu að kynnast í seríunni. Duplumier kemur nefnilega nokkuð rækilega fyrir í fyrstu fjórum myndarömmum bókarinnar.
Eins og áður segir er hann ekki nafngreindur í Hrakfallaferð til Feluborgar en næst birtist hann íslenskum lesendum í sögunni Svaðilför til Sveppaborgar (Panade à Champignac) sem var fimmta bók íslensku útgáfuraðarinnar. Áður en lengra er haldið er þó rétt að halda því til haga að í nokkrum af þeim myndasöguseríum, sem verið var að gefa út hjá bókaútgáfunni Iðunni á sínum tíma, var svolítið ósamræmi í nafngiftum margra af aukapersónum bókanna. Skýringuna á því má líklega bæði rekja til mismunandi þýðenda, sem vissu jafnvel ekki af því að persónurnar hefðu birst áður, en sennilega einnig vegna hreinnar gleymsku. Þýðandinn hafi hreinlega ekki áttað sig á að persónan hafði hlotið íslenskt nafn áður í einhverjum af fyrri bókunum. Sem dæmi um það má nefna að í bókaflokknum um Viggó viðutan hét Snjólfur til að mynda fyrst Lárus og herra Seðlan hét sínu upprunalega nafni - herra Mesmaeker. Og í sögunum um Sval og Val hét herra Þamban til dæmis einnig einu sinni Gvendur Spíri. Í bókinni Svaðilför til Sveppaborgar er viðfangsefni þessarar færslu, Duplumier, hins vegar nefndur á nafn í fyrsta sinn hér á landi og kallaðist hann þá Þór.
Og það er reyndar í eina skiptið í seríunni sem Duplumier heitir Þór. Strax í næstu sögu, Gullgerðarmanninum (Le faiseur d'or), heitir hann nefnilega allt í einu orðið Kristján. Hann birtist reglulega í íslensku bókunum næstu árin en það var samt ekki fyrr en í sextándu sögunni Með kveðju frá Z (L'ombre du Z) þar sem hann er næst nefndur á nafn. Þá heitir hann einfaldlega Dýrfjörð. Fjórða nafn hans, Skriffinnur, birtist í Vélmenni í veiðihug (Qui arrêtera Cyanure?) og sama nafni er hann einnig nefndur í smásögunni Hið óttalega Burp sem birtist í bókinni Furðulegar uppljóstranir (La jeunesse de Spirou). Það var því úr nokkuð vöndu að ráða, fyrir SVEPPAGREIFANN, að skrifa færslu sem fjallar um sögupersónu sem gengur alls undir fjórum nöfnum í seríunni. Hins vegar sá hann að þeir aðilar sem komu  að bókinni Sveppagaldrar í Sveppaborg, sem var hluti af endurkomu Svals og Vals hjá Froski útgáfu, höfðu lagt metnað sinn í að finna einhvern stöðugleika í nafnavali persónanna í seríunni. Þar er hann nefnilega aftur kallaður Kristján líkt og í bókinni um Gullgerðarmanninn. SVEPPAGREIFINN tók sér því það bessaleyfi að kalla aumingja manninn bara Kristján Dýrfjörð þar til annað kemur í ljós. Þetta voru nöfn sem höfðu bæði birst af honum áður í seríunni og hæfa auk þess vel þessum virðulega en nokkuð seinheppna embættismanni.
Þetta glæsilega meinta nafn, Kristjáns Dýrfjörð, vakti reyndar óhjákvæmilega grunsemdir hjá SVEPPAGREIFANUM um að maðurinn gæti hugsanlega átt sér alnafna hér á landi. Nafnið býður óneitanlega upp á þann möguleika og þó það birtist aldrei nákvæmlega í þessari mynd, í Sval og Val bókunum, þá var forvitnin vissulega vakin hjá stjórnanda þessa bloggs. Það var því ekki hjá því komist að gúggla þetta nafn svolítið fyrir forvitnissakir og gera frekar óvísindalega athugun á því hvort annar slíkur gæti hafa leynst einhvers staðar hér á landi í gegnum tíðina. Og svo reyndist heldur betur vera þegar að var gáð. Í eintaki af Alþýðublaðinu, sem kom út þann 23. júní árið 1942, mátti finna litla klausu þar sem fjallað er um fimmtugsafmæli, hins ísfirska góðtemplara og raffræðing, Kristján Dýrfjörð sem þá bjó reyndar á Siglufirði.
Það gæti hugsanlega einhverjum fundist óviðeigandi af SVEPPAGREIFANUM að vera að tengja myndasögupersónu, úr Sval og Val bókunum, við mann sem löngu er látinn en tekið skal skýrt fram að hér er eingöngu um að ræða skemmtilegan samanburð nafnsins vegna. SVEPPAGREIFANUM gengur að sjálfsögðu ekkert illt til með því. Í Íslendingabók fann hann síðan heila fjóra Kristjána Dýrfjörð í viðbót og þar af eru tveir þeirra enn á lífi. Og svona til þess að fullkomna þennan tilgangslausa, þjóðlega fróðleik þá verður SVEPPAGREIFINN að taka það fram að hann virðist eiga ósköp lítil og langsótt ættfræðileg tengsl við þessa fimm Kristjána Dýrfjörð. En til að loka alveg þessari umræðu um nafngift Kristjáns má taka það fram að á dönsku heitir hann Didriksen, á þýsku Federkiel, á finnsku Sulkapää en á sænsku virðist hann hafa lent í svipuðu ósamræmisferli og hér á Íslandi því þar hefur hann gengið undir nöfnunum Getberg, Lundberg og Grönlund. En á nokkrum öðrum tungumálum, eins og á ensku og portugölsku til dæmis, heldur hann einfaldlega upprunalega franska nafninu sínu og kallast bara Duplumier.
En Kristján Dýrfjörð, það er að segja þessi úr Sval og Val bókunum, er sem sagt eldri og virðulegur embættismaður í ráðhúsi Sveppaborgar og starfar þar sem ritari. Hann er því náinn samstarfsmaður borgarstjórans í bænum en einnig ágætur kunningi þorpsrónans herra Þambans. Þeir borgarstjórinn voru báðir kynntir til sögunnar í Sveppagaldrar í Sveppaborg en herra Þamban birtist hins vegar ekki fyrr en níu árum seinna í Le voyageur du Mésozoïque en sú bók hefur því miður ekki ennþá komið út í íslenskri þýðingu. Kristján telst þannig ein af elstu af aukapersónum seríunnar og var til dæmis kynntur til sögunnar löngu á undan þeim Zorglúbb og Samma frænda, svo einhver dæmi séu tekin, þó ekki leiki hann alveg jafn áberandi hlutverk og þeir. Kristján Dýrfjörð er ávallt mjög snyrtilegur og vel til hafður, í vesti og með slaufu og nánast alltaf eins klæddur. Í fyrstu var hann reyndar alltaf með svartan harðkúluhatt á höfði (líkan þeim sem Skaftarnir úr Tinna bókunum nota) en í Hrakfallaferð til Feluborgar hafði guli hatturinn hans alveg tekið yfir. Kristján er frekar hæverskur, vandaður og rólegur herramaður. Hann er háttvís og trygglyndur borgarstjóranum en um leið kannski svolítið einfaldur og hrekklaus, karlgreyið.
En reyndar er Kristján einnig afskaplega óheppinn þegar kemur beint að aðkomu hans að ævintýrum þeirra Svals og Vals. Í þeim bregst það sjaldan að þar er hann oftar en ekki fórnarlamb. Margar af aðkomum hans tengjast yfirleitt viðveru borgarstjórans en af því má ráða að Kristján sé einhvers konar hægri hönd hans. Í Sveppagöldrum í Sveppaborg kemur reyndar einnig fram að hann starfi sem læknir. Og þar sem Kristján Dýrfjörð býr og starfar í Sveppaborg takmarkast aðkoma hans, að ævintýrum Svals og Vals, af þeim sögum sem gerast á því svæði að öllu eða einhverju leyti. Samt birtist hann á einhvern hátt í tuttugu og sex af þeim sögum sem komið hafa út með þeim félögum. Hann er embættismaður hjá bænum og er því oftast viðstaddur löng og leiðinleg ræðuhöld borgastjórans. En einn helsti munurinn á Kristjáni og öðrum, sem viðstaddir eru þær ræður, er sá að almennt er hann mun hrifnari af orðum borgarstjórans en aðrir.
En annars er Kristján Dýrfjörð eiginlega kunnari í seríunni af annarri ástæðu. Í fyrstu sögunni sem hann birtist í fer hann um gangandi með læknatöskuna sína en í þeirri næstu, Burt með harðstjórann (Le dictateur et le champignon), er hann hins vegar kominn á nýjan bíl. Þar kemur fyrir atvik þar sem Gormur hleypur um nágrenni Sveppaborgar með Metómól í þrýstibrúsa og spreyjar úr því í allar áttir. Allir Sval og Val lesendur þekkja auðvitað þessa uppfinningu Sveppagreifans en Metómólið gerir það að verkum að sá málmur sem það kemst í snertingu við linast upp. Kristján verður fyrir því að efnið úðast yfir hinn nýja bíl hans sem í kjölfarið linast upp og bókstaflega lekur niður.
Miðað við fyrstu viðbrögð hans, eftir það óhapp, er víst óhætt að ætla að maðurinn sé gjörsneyddur öllu ímyndunarafli og fyrirmunað að geta brugðist við hinu óvænta. Hann virðist alla vega ekki vera þeim eiginleikum gæddur að átta sig á að lífið sé hverfult. Og þannig gerist það, að spaugileg skakkaföll á farartækjum Kristjáns Dýrfjörð verða það sem einkennir helst seinheppilega aðkomu hans að sögunum. Þessi rólyndislegi göngugarpur skiptist því á að fara ferða sinna á reiðhjóli, ýmist með eða án hjálparmótors, eða tekur tæknina enn betur í sínar hendur með hæfilega kraftlitlum og hættulausum bifreiðum. Eða ... hættulausum, svona undir flestum eðlilegum kringumstæðum. Áður hefur verið minnst á byrjun Hrakfallaferðar til Feluborgar, þar sem hann flýgur á hausinn á hjóli sínu eftir að hafa mætt Gormi, og í sögunni Le voyageur du Mésozoïque (Fornaldareggið myndi hún líklega heita á íslensku) verður Kristján Dýrfjörð fyrir því að risaeðla stígur ofan á forláta, nýkeyptan bíl hans. Þarna er hann búinn að láta einhvern bílabraskara pranga inn á sig eldgömlum fornbíl og á meðan þeir rölta inn fyrir, til að ganga frá kaupunum, gerir risaeðla Sveppagreifans sér lítið fyrir og trampar hæversklega ofan á skrjóðnum.
Það verður því nokkuð dæmigert fyrir Kristján Dýrfjörð að í hvert sinn sem hann eignast nýtt farartæki, í bókunum, þá lendir hann undantekningalaust í óútskýranlegu óhappi eða slysi með það. Finna má fjölda slíkra tilvika í fyrri hluta bókaflokksins og því má líklega telja nokkuð eðlilegt að hann virki eilítið tortrygginn og fordómafullur gagnvart vélum og tækninýjungum.
Í stuttu sögunni Dularfulla líkneskið (Les Petits Formats) sem er seinni sagan í bókinni Sjávarborginni (Spirou et les hommes-bulles) bregður Kristjáni Dýrfjörð fyrir á nýviðgerðum bíl sínum, á fáeinum myndarömmum, án þess þó að lenda í eiginlegu óhappi á honum. Líkneski af Val liggur þar á miðjun veginum og Kristján er í þann veginn að keyra yfir hann þegar bíllinn stöðvast skyndilega vegna vélarbilunnar. Kristján rekur að vísu andlitið í framrúðuna en þessi "óvænta" bilun kemur í veg fyrir að hann keyri yfir styttuna af Val. Og reyndar, þegar vel er að gáð, sést greinilega að litlir vélahlutir, gormar, boltar og ýmislegt fleira hrynur undan bílnum þegar hann bilar svo snögglega.
Flest þeirra slysa sem tengjast nýfengnum farartækjum Kristjáns Dýrfjörð komu fyrir í teiknitíð André Franquin. Fournier var ekki jafn duglegur að nota hann á þann hátt en nýtti hann frekar við ýmis lítil atvik tengdum borgarstjóranum. Í bókunum þremur sem Nic og Cauvin gerðu kemur Kristján ekkert við sögu en þeir Tome og Janry drógu hann aftur fram í sviðsljósið og komu honum aðeins aftur inn á þá slysabraut sem farartæki hans höfðu áður leitt hann. Það er þó ekki mjög áberandi. Í sögunni Vélmenni í veiðihug birtist hann þó slasaður og illa til reika, á nokkrum myndurömmum, þar sem hann er að ræða við borgarstjórann. Þá hafði hann lent í óhappi á nýja bílnum sínum, eftir að umferðarljósin í Sveppaborg biluðu, þegar rafmagnstæki borgarinnar gerðu uppreisn. Hin gegnumgangandi óheppni Kristjáns Dýrfjörð tengist þó ekki bara óhöppum hans á farartækjum sínum. Í bókinni Með kveðju frá Z verður hann, líkt og margir aðrir íbúar Sveppaborgar, fyrir geislum frá zor-manninum, Nirði lögregluþjóni, sem gengur laus um bæinn og dundar sér við að lama fólk. Þarna situr Kristján, stjarfur eftir zor-geisla Njarðar, á bekk í miðbænum þegar stórvinur hans herra Þamban á leið þar hjá. Bæjarrónanum þykir Kristján eitthvað daufur í dálkinn og bregður því á það ráð að hella í hann töluverðu magni af áfengi til að hressa hann svolítið við. En í sömu mund ber Njörð þar aftur að og lamar herra Þamban, með vænum zor-skammti, sem á því sama augnabliki er einmitt að sturta úr nánast fullri ginflösku ofan í borgarritarann rólynda.
Þegar Sveppagreifinn hefur aflétt hinum stífkenndu lömunareinkennum, af félögunum tveimur, kemur auðvitað í ljós að hinn reglufasti Kristján er uppfullur af illkvittnislegum áhrifum ginflöskunnar. Þá gefst honum gott tækifæri til að beygja svolítið af sínu hefðbundna og reglusama líferni og fer að ráfa um Sveppaborg haugfullur og trallandi. Það gerir hann að sjálfsögðu í félagsskap herra Þambans og miðað við viðbrögð Sveppagreifans virðist sem að slíkur menningaviðburður sé ekkert mjög hefðbundinn eða daglegt brauð hjá þessum annars hægláta embættismanni. Eftirstöðvarnar koma auðvitað fram næsta dag en sökum minnisleysis virðist mórallinn, sem betur fer, ekki vera að há Kristjáni Dýrfjörð neitt sérstaklega. Það eina sem hann kvartar yfir er slæmur hausverkur sem hann tengir beint við zor-geislana.
Í sögunni Le Rayon noir (sem Wikipedia nefnir á íslensku Blökkugeislann), eftir þá Tome og Janry, sýnir Kristján Dýrfjörð reyndar á sér nýja og frekar óvænta hlið. Strax á fyrstu blaðsíðu bókarinnar er hann nefnilega að dunda sér við að mála nafn og titil borgarstjórans á stallinn af styttu hans, á aðaltorgi Sveppaborgar, og virðist bara farast það nokkuð vel úr hendi. Kristján lendir að sjálfsögðu í umferðaróhappi í þessari sögu en hann leikur einnig nokkuð stærra hlutverk í Le Rayon noir en lesendur Sval og Val bókanna eiga að venjast. En í stuttu máli segir þessi saga frá því að Sveppagreifinn smíðar tæki sem breytir litarhætti fólks og Svalur verður óvænt fyrir geislum þess. Hann verður því svartur á hörund og þegar Kristján þekkir hann ekki, vegna hins nýja litarhafts, er Svalur handtekinn fyrir að framvísa röngum persónuskilríkjum. Fljótlega verða stór hluti borgarbúa einnig fyrir blökkugeislunum og einn þeirra er einmitt Kristján gamli Dýrfjörð.
Kristján Dýrfjörð kemur auðvitað mest fyrir í bókum Franquins, enda er embættismaðurinn hugarfóstur hans, en aðrir höfundar seríunnar gefa honum þó tækifæri til að birtast við hentug tækifæri ásamt helstu samferðamönnum hans, herra Þamban og borgarstjóranum. Í mörgum þeirra tilfella sem sögusviðið er Sveppaborg leyfa yngri listamennirnir þessum kunnustu íbúum bæjarins að bregða fyrir en oftast er það þó ekki nema bara í mýflugumynd. En helstu einkenni þeirra allra fá þó að njóta sín í þeim tilvikum og í tilfellum Kristjáns koma farartæki hans því eitthvað við sögu. Aftast í bókinni Aux sources du Z eftir þá Morvan og Munuera er til dæmis fimm blaðsíðna jólasaga sem nefnist Noël sans neige eða Jól án snjós. Í þeirri sögu bregður einmitt fyrir nokkrum af þekktustu íbúum Sveppaborgar og þeirra á meðal má að sjálfsögðu finna hinn seinheppna Kristján Dýrfjörð. Og að sjálfsögðu er hann þar í vandræðum með bílinn sinn.
Í seinni hluta seríunnar fer þeim þó mjög fækkandi þessum tilfellum enda er sögusviðið þá  orðið töluvert fjölbreytilegra, bæði í tíma og rúmi, heldur en í eldri sögunum. Sveppaborg er þó alltaf til staðar öðru hvoru í bókunum. Í sögunni Í klóm kolkrabbans (Dans les Griffes de la Vipère), eftir þá Yoann og Wehlmann, sést hann eitt augnablik, ásamt öðrum kunnum íbúum Sveppaborgar og sömu sögu má segja um bókina Hefnd Gormsins (La Colère du Marsupilami) eftir sömu höfunda. Þar kemur hann fyrir í karnivali sem haldið er í Sveppaborg og klæðist fjölbreytilegum grímubúningi líkt og aðrir gestir og íbúar bæjarins. Þá sést Kristjáni einnig bregða fyrir í bókinni Alerte aux Zorkons þar sem hann sést á nærbuxunum einum fata ásamt mörgum öðrum íbúum Sveppaborgar.
Kristján Dýrfjörð kemur einnig eitt augnablik fyrir í hinni frábæru hliðarseríu Sérstök ævintýri Svals ... (Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir höfundar fá tækifæri til að spreyta sig á þeim Sval og Val utan hefðbundinnar dagskrár. Í þessum bókum er Sveppaborg einmitt nokkuð vinsælt sögusvið en íbúar hennar fá þó sjaldan almennilegt tækifæri til að láta ljós sitt skína. Í fljótu bragði virðist sem Kristján sjáist þar aðeins einu sinni af þeim fjórtán bókum sem komið hafa út í opinberu frönsku seríunni. Í sögunni Le Tombeau des Champignac lendir hann í dæmigerðu óhappi á hjólinu sínu en að öðru leyti lítur hann ekki út fyrir að koma við sögu nema að hugsanlega sjáist í baksvip hans á einni mynd í nýjustu bókinni, Spirou á Berlin.

En núna virðist svo að við vitum ekki bara allt sem við þurftum nauðsynlega að vita um Kristján gamla Dýrfjörð heldur einnig ýmislegt fleira.