21. febrúar 2020

151. HINN ENDIR BÓFASLAGSINS

Þeir myndasöguaðdáendur sem hafa verið duglegir við að lesa bækurnar um Sval og Val hafa líka, margir hverjir, haft gaman af því að hella sér betur út í meiri fróðleik um þær sögur. SVEPPAGREIFINN hefur fram til þessa ekki skilgreint sig sem einhvern sérfræðing um Sval og Val (frekar en aðrar seríur) en hefur þó svolítið grúskað um bókaflokkinn sér til gamans. Serían var skemmtilegur partur af æsku hans, eins og hjá fleirum af sömu kynslóð, og það er því líklega ekkert óeðlilegt að aðdáendur hennar dundi sér við fræðast svolítið meira um þetta áhugamál. Alla vega er ætlun SVEPPAGREIFANS að beina færslu þessa föstudags svolítið inn á þær slóðir. Árið 1978 kom út á íslensku Sval og Val bókin Gormahreiðrið (Le nid des marsupilamis) eftir André Franquin. En sagan kom fyrst út í bókarformi í Belgíu árið 1960 eftir að hafa birst í SPIROU myndasögutímaritinu á árunum 1956-57. Gormahreiðrið var aðeins bók númer tvö í íslensku útgáfuröðinni en fyrsta sagan, Hrakfallaferð til Feluborgar (Les pirates du silence - 1958), hafði verið gefin út hjá Iðunni árið 1977. Í Gormahreiðrinu var tuttugu og eins blaðsíðna aukasaga sem nefnist Bófaslagur (La foire aux gangsters) en sú saga hafði birst í SPIROU tímaritinu árið 1958.
Gormahreiðrið sló í gegn og í kjölfarið gerðu stjórnendur Dupuis útgáfunnar, þeirrar sem gaf út SPIROU tímaritið, auknar kröfur til Franquins um fleiri Sval og Val sögur og án hléa. Þannig komu styttri aukasögurnar um Sval og Val til sögunnar. Áður höfðu sögurnar birst vikulega í einni lotu en listamaðurinn síðan fengið nokkurra vikna frí á meðan hann hóf undirbúning að nýjum sögum og vann auk þess að fleirum verkefnum hjá tímaritinu. Á þessum árum var Viggó viðutan líka nýkominn til sögunnar en einnig var Franquin, samhliða störfum sínum hjá SPIROU, að teikna hinar vinsælu myndasögur um Modeste og Pompom fyrir Le Journal de Tintin (Tinna tímaritið). Álagið jókst því töluvert á þessum tíma og til að létta sér vinnuna fékk hann samstarfsmenn sér til aðstoðar. Jean Roba og Jidéhem voru þeir helstu en sá síðarnefndi var Franquin einmitt til aðstoðar við söguna Bófaslag. Þessar styttri aukasögur voru meira í léttari kantinum og hugsaðar til uppfyllingar í blaðinu, á milli stóru sagnanna, svo Svalur og Valur gætu birst þar vikulega.
Bófaslagur segir í stuttu máli frá því er þeir Svalur og Valur fá heimsókn frá japana nokkrum að nafni Soto Kiki sem kveðst starfa sem lífvörður amerísks auðmanns. Árið 1958 voru Japanir reyndar frekar sjaldgæfir í Evrópu og fyrir unga lesendur tímaritsins voru austurlandabúar líklega jafn framandi og geimverur á þessum tíma. Nafn hans, Soto Kiki, var til dæmis einhvers konar orðaleikur eins og tíðkaðist í belgísk/frönskum myndasögum lengi vel og hljómar í raun engan veginn japanskt. En það vissu belgísk og frönsk ungmenni auðvitað ekkert um. Strax á fyrstu blaðsíðu sögunnar sést berlega á viðbrögðum vegfarenda hve framandi hinn japanski Soto Kiki er.
En í sögunni óskar Kiki eftir liðsinni þeirra Svals og Vals þar sem hætta er talin á að kornungum syni auðmannsins verði rænt af glæpaflokki þegar hann kemur til Evrópu. Það gengur reyndar eftir og Svalur og Valur eiga stærstan þátt í að bjarga barninu frá bófunum. Seinna kemur svo reyndar í ljós að Soto Kiki hafði í raun verið einn af glæpagenginu og hann hefði ætlað að svíkja félaga sína og hirða lausnargjaldið sjálfur. Innbyrðis barátta Kiki og hinna bófanna er því rauði þráðurinn í Bófaslag en sögunni lýkur með því að helstu bófarnir eru gripnir (ásamt reyndar Viggó viðutan) og þeim er stungið í steininn. En þó ekki Soto Kiki og eins sleppur Caspiano aðalhöfuðpaur glæpaflokksins sem þó sést aldrei í bókarútgáfunni. Í þeirri útgáfu er síðustu myndinni reyndar ofaukið því einhvern veginn varð að fría Viggó greyið undan sömu sekt og glæpamannanna. Auk þess þurfti líka nauðsynlega að auglýsa myndasögurnar um Viggó viðutan. Hér að neðan sjáum við einmitt endinn á sögunni eins og hann kom fyrir í Gormahreiðrinu.
En upprunalegi endinn á sögunni var þó alls ekki þennan veg. Í SPIROU blaði númer 1045, sem kom út fimmtudaginn 24. apríl árið 1958, var birt öll síðasta blaðsíðan í sögunni og þar má því sjá tvær neðstu myndaraðirnar sem vantar í okkar útgáfu. Þar er endirinn heldur ofbeldisfyllri. Og þó hann hafi sloppið í gegnum nálaraugu Dupuis útgáfunnar, í tímaritsútgáfunni á sínum tíma, var því þó ekki þannig farið þegar bókin sjálf kom út. Í SPIROU útgáfunni má nefnilega sjá höfuðpaurinn Caspiano fá makleg málagjöld. Enn á ný laumast SVEPPAGREIFINN til að birta og þýða (með aðstoð Greifynjunnar sinnar) brot af efni sem aðrir eiga eflaust birtingarréttinn af en allt er það að sjálfsögðu gert í nafni nauðsynlegrar fróðleiksmiðlunar og skemmtunar.
Gaman að sjá þennan endi á Bófaslag um 40 árum eftir að hafa lesið hana fyrst og eflaust eiga einhverjir eftir að draga fram bókina og rifja upp þessa sögu. SVEPPAGREIFANUM þótti líka voðalega vænt um að fá að sjá þennan gullfallega Citroen DS í hinum týnda enda sögunnar. Þetta var ekki í eina skiptið sem Franquin kom þeirri frábæru bifreið að í sögum sínum. Helsti munurinn felst reyndar í því að maður er ekki vanur að sjá hann sprengdan í loft upp.

14. febrúar 2020

150. ÆVINTÝRI VILLA OG VIGGU

Eflaust muna einhverjir eftir myndasögu frá Fjölva útgáfunni, sem kom út hér á landi árið 1981, í þýðingu Þorsteins Thorarensen og nefndist Villi og Vigga í Löppungalandi. Þessi bók fór ekkert mjög hátt hjá íslenskum myndasögulesendum og hefur líklega aldrei verið neitt sérlega eftirsótt eða vinsæl af þeim sem eru að safna teiknimyndasögum. En það sem er merkilegt við þessa bók er að hún er eftir belgíumanninn Georges Remi, höfund Tinna bókanna, sem betur er þekktur undir listamannsnafninu Hergé. Aftan á baksíðu íslensku útgáfu bókarinnar stendur einmitt meðal annars; Og nú bætist hér við eitt frægasta meistaraverk Hergés um hann Villa vesturfara og Virginíu hans.
Hvort bókin standi undir þeim fullyrðingum að vera "eitt frægasta meistaraverk Hergés" telur SVEPPAGREIFINN reyndar rétt að láta liggja á milli hluta en hins vegar mun allt sem kom frá Hergé að sjálfsögðu vera áhugavert. Nú eru tæplega fjörtíu ár síðan Fjölvi sendi Villa og Viggu í Löppungalandi frá sér og sjálfsagt hefur hún ekki verið prentuð í mjög stóru upplagi. En líklega er óhætt að segja að þegar til seinni tíma er litið þá gæti þessi íslenska útgáfa orðið eftirsóttur og merkilegur gripur í augum safnara. Hugsanlega gæti það alla vega verið frekar sniðugt, fyrir þá sem eiga eins og eitt eintak af þessari bók, að vera ekkert endilega að henda henni að óþörfu. Það er nefnilega ólíklegt að þessi bók eigi nokkurn tímann eftir að verða gefin út aftur á Íslandi. Tinna bækurnar eru auðvitað frægustu afurðir Hergés en auk þeirra komu út, hér á landi, níu bækur með Palla og Togga, tvær um Alla, Siggu og Simbó og svo þessi áðurnefnda Villi og Vigga í Löppungalandi. Þau Villi og Vigga heita Popol og Virginie á frummálinu en fyrirmyndin af þeim, íkorninn Tim í villta vestrinu, birtist fyrst í mánaðarlegum auglýsingabæklingum sem Hergé hafði gert árið 1931 og dreift var í verslunarkeðjunni L'Innovation í Brussel. Villi og Vigga í Löppungalandi var því byggð á þeim fígúrum auk annarrar myndasögu sem nefndist Pim og Pom en sú birtist nokkru seinna á síðum barnatímaritsins Le Petit Vingtième. Ennfremur endurnýtti Hergé hluta af efni Pim og Pom fyrir seríu sem fjallaði um þá Quick og Flupke og við þekkjum sem Palla og Togga.
Tímaritið Le Petit Vingtième var vikulegt fylgirit belgíska dagblaðsins Le Vingtième Siècle og Hergé var ritstjóri þess en það hafði hafið göngu sína í nóvember árið 1928. Það var einmitt í því blaði sem Tinni í Sovétríkjunum birtist fyrst í janúar 1929 og sló þar í gegn. Sagan um Villa og Viggu, Popol et Virginie au pays des Lapinos (Villi og Vigga í Löppungalandi) hóf hins vegar göngu sína í blaðinu 8. febrúar árið 1934. Á þessum tíma var Les Cigares du Pharaon (Vindlum Faraós) lokið í tímaritinu og Hergé notaði tækifærið til að birta söguna um Villa og Viggu á meðan hann vann að undirbúningi næstu Tinna sögu sem var Le Lotus bleu (Blái lótusinn). Óþolinmóðir lesendurnir voru ekkert allt of hrifnir af Villa og Viggu og mörg bréf bárust með fyrirspurnum um hvenær von væri á næstu Tinna sögu. Einhverjir vilja meina að þarna hafi Hergé vísvitandi viljað slaka á huganum með þessari einföldu sögu áður en hann réðist á fyrsta meistaraverk sitt (Bláa lótusinn) af metnaði og krafti. Næstu árin eftir að sagan um Villa og Viggu hafði birst í blaðinu átti Tinni hug Hergés að mestu og Villi og Vigga í Löppungalandi gleymdist því í fjöldamörg ár. Það var því ekki fyrr eftir að Le journal de Tintin (Tinna tímaritið) hóf göngu sína árið 1946 sem sagan var aftur dregin fram í sviðsljósið. Hún var þá nútímavædd, teiknuð og lituð upp á nýtt og fór að birtast í blaðinu í lok apríl árið 1948.
Villi og Vigga í Löppungalandi var síðan gefin út í bókaformi árið 1952 á svipuðum tíma og sögurnar um Alla, Siggu og Simbó sem höfðu af sömu ástæðum einnig þurft að bíða töluvert langan tíma eftir að vera gefnar út í því formi. En þessi óvenjulega saga, sem er heilar sextíu blaðsíður að lengd, er ekki beint í anda Hergé og ólík flestu því sem hann varð seinna kunnastur fyrir. Hergé hafði auðvitað verið ritstjóri og ábyrgðarmaður Le Petit Vingtième og hans hlutverk hafði því verið að finna og skapa efni fyrir alla aldurhópa lesenda þess. Þarna var hann að prófa sig áfram með ævintýri úr dýraríkinu, fyrir yngstu lesendur blaðsins, sem í þessu tilfelli fjallaði um talandi dýr. Á þeim tíma var Disney fyrirtækið orðið nokkuð áberandi og vinsælt með sínar afurðir allar og margir af bestu listamönnum Frakklands og Belgíu á þessu sviði litu hýru auga til þess. Sumir fóru jafnvel tímabundið til Ameríku með drauma um starf hjá fyrirtækinu í huga en aðrir, eins og Hergé, létu sér nægja að reyna að skapa eigin sögur undir áhrifum frá Disney. Sem betur fer lét Hergé þessa einu tilraun með talandi dýr duga og einbeitti sér að meistaraverki sínu um Tinna.
Áhrif Disneys í Villa og Viggu í Löppungalandi voru því allnokkur og sagan er, eins og fyrr segir, mjög ólík því sem lesendur höfðu kynnst með Tinna. Hópar söguhetjanna tilheyrði til dæmis hver sinni dýrategundinni sem er ekki ólíkt því sem við þekkjum úr Andrés blöðunum. Aðalsöguhetjurnar tvær eru birnir, indjánarnir eru kanínur (þar sem eyru þeirra eru fjaðrirnar í höfuðskrautinu) og aðalbófinn er hundur af Bulldog kyni. Þá er blár hestur (hann er svolítið ófríður greyið) til dæmis ekki mjög í anda Tinna bókanna. Villi og Vigga í Löppungalandi er því í mjög einföldu og barnalegu fantasíuformi og var ætluð allra yngstu lesendum blaðsins eins og áður segir. En sagan segir frá litlu björnunum Villa og Viggu (ásamt hinum bláa hesti þeirra - Bláfeta) og ævintýrum þeirra á fjarlægum víðáttum vestursins. Villi er hattagerðarmaður sem ákveður að söðla um, eftir að allir í siðmenningunni fóru að ganga um berhöfðaðir, og flytja ásamt eiginkonu sinni henni Viggu með starfsemi sína út í villta vestrið. Þar ganga viðskiptin töluvert betur eða þangað til galdralæknir hinna indjánsku Löppunga æsir ættbálkinn sinn upp á móti aðkomufólkinu. Indjánarnir gera árás á tjald þeirra en Villi og Vigga verjast af krafti þar til höfðingi þeirra nær að lokum Viggu og tekur hana til fanga. Villi nær að bjarga henni og eftir að hafa stungið hina foxillu indjána af á flótta, þar sem meira að segja hestar indjánanna eru illir á svip, finna þau sér hvíldarstað við læk einn.
Þar finna þau gull í læknum en illmennið Buddi Bulla, sem verður vitni að gullfundinum, rænir þau gullinu og tekur Viggu til fanga til að sinna heimili sínu. Aftur nær Villi að bjarga henni og síðustu tíu til fimmtán blaðsíður bókarinnar fara í eltingarleik sitt á hvað á milli Villa og Viggu við Budda Bullu. Af þessari innihaldslýsingu að dæma er hér augljóslega ekki um merkileg bókmenntaverk að ræða. Sagan er ein allsherjar samhengislaus þeysireið og minnir á löngum köflum á aburðarrás Tinna í Sovétríkjunum sem Hergé vildi sjálfur sem minnsta af vita í seinni tíð. SVEPPAGREIFINN hefur átt eintak af Villa og Viggu í Löppungalandi í nokkur ár og las söguna í fyrsta sinn núna í vetur í aðdraganda þessarar færslu. Ekki getur hann sagst hafa verið með miklar væntingar fyrir lestur bókarinnar fyrirfram og líklega var sagan bara nákvæmlega jafn rýr og hann reiknaði með. Með þessari sögu lauk því þeim myndasögukafla, í ferli Hergé, þar sem talandi dýr léku aðalhlutverkin en hundurinn Tobbi hélt þeim hæfileikum þó aðeins áfram á lofti, næstu áratugina, í Tinna bókunum. Í bókinni um Villa og Viggu í Löppungalandi er hins vegar hægt að finna nokkur atriði sem tengja má við það sem Hergé hafði áður verið að gera og endurnýtti til dæmis úr sögunum um Tinna. Fáeinar stakar myndir í sögunni koma hreinlega beint úr fyrstu þremur Tinna bókunum og ef grannt er skoðað eru þetta nánast sömu teikningarnar. Strax á blaðsíðu fjögur er til dæmis ansi kunnuglegur myndarammi þar sem höfðingi indjánanna predikar yfir ættbálki sínum gegn bleiknefjunum Villa og Viggu. Ramminn er uppbyggður á sama hátt og hin fræga mynd úr Tinna í Sovétríkjunum þar sem Bolsévíkar þruma yfir hausamótunum á kúguðum þegnum sínum á framboðsfundi. Reyndar er myndin spegluð en í grunninn er þetta nákvæmlega sama hugmyndin.
Á blaðsíðu tuttugu og þrjú er líka að finna kunnuglegt augnablik sem margir ættu að þekkja nokkuð vel en sú mynd er einnig spegluð. Í því tilviki hafa hinir herskáu Loppungar náð Viggu á sitt vald og bundið hana fasta við fórnarstaur ættbálksins. Höfðingi indjánanna lyftir upp stríðsöxinni og hvetur þegnana til að reyna á bogfimi sína með örvadrífum á Viggu og hans menn búa sig undir þá æfingu illúðlegir á svip. Vigga sjálf lætur sér hins vegar fátt um finnast. Framan á bókinni Tintin en Amérique (Tinni í Ameríku) má einmitt sjá þessa mjög sambærilegu mynd þar sem Tinni sjálfur er í svipuðum aðstæðum en hann sýnir reyndar töluvert meiri geðshræringu en Vigga.
Annað dæmi má finna í beinu framhaldi af þessari mynd í bókinni en þar hefur Villi lagt sig allan fram um að reyna að bjarga eiginkonu sinni frá indjánunum en hefur ekki enn haft erindi sem erfiði. Hann greip því til þess óskeikula ráðs, nóttina á undan, að koma fyrir segli undir rótum staursins en til svipaðra aðgerða hafði Tinni einmitt gripið til í Tinna í Kongó. Örvar Löppunganna ná því ekki alla leið til Viggu og lenda á jörðinni fyrir framan fætur hennar þar sem segullinn er.
Fleiri hugmyndir hefur Hergé nýtt sér til að færa á milli myndasagnanna. Á blaðsíðu þrjátíu og fjögur í bókinni hafa þau Villi og Vigga komist undan indjánunum (reyndar með aðstoð hreins dýraníðs gagnvart Bláfeta) og staldra aðeins við lækinn þar sem þau höfðu fundið gullið. Skyndilega birtist þar risastórt, amerískt fjallaljón (púma) sem ógnar þeim hjónakornunum. Villi dregur því upp stækkunargler og beinir því að fjallaljóninu sem gerir það að verkum að Villi stækkar skyndilega í augum villidýrsins. Fjallaljónið verður dauðskelft og flýr hið snarasta af vettvangi. Svipaða hugmynd notaði Tinni í bókinni um Tinna í Kongó. Þar varð hann á vegi ógnandi hlébarða en í stað stækkunarglersins notaði hann spegil sem hafði mjög sambærileg áhrif.
Og svo er eiginlega ekki hjá því komist að minnast í lokin á skerfara einn sem kemur fyrir í sögunni á blaðsíðu fjörtíu og átta. Sá er lifandi eftirmynd hins drykkfelda lögreglustjóra sem birtist seint í sögunni um Tinna í Ameríku. Þetta er nánast sama persónan utan þess að sá úr Villa og Viggu í Löppungalandi kemur að sjálfsögðu úr dýraríkinu (líkt og aðrir í sögunni) og er geit. Ekki er SVEPPAGREIFANUM nú kunnugt um hvort þessar persónur með geitarskeggið eigi sér einhverja staðlaða fyrirmynd úr hinum ameríska dægurheimi en óneitanlega vekja þær nokkra furðu.

7. febrúar 2020

149. GAMLIR VERÐMIÐAR Á TEIKNIMYNDASÖGUM

SVEPPAGREIFINN hefur oft minnst á það að hann sé í skemmtilegri grúbbu á Facebook sem nefnist einfaldlega Teiknimyndasögur og þar poppa stundum upp áhugaverðar umræður um hin athyglisverðustu mál. Einhvern tímann fyrir nokkuð löngu síðan urðu þar til dæmis töluverðar umræður um hvernig nytjamarkaðurinn Góði hirðirinn verðmerkti þær myndasögur sem þar væru á boðstólum. Þarna er SVEPPAGREIFINN ekki að tala um verðlagninguna heldur sjálfa verðmerkinguna. Miðarnir sem límdir eru á þær vörur sem í boði eru í þeim Góða eru áberandi skærgrænir og með alveg sérstaklega sterku og hvimleiðu lími sem ákaflega erfitt er að ná af án þess að hreinlega stórsjái á blessuðum myndasögunum. Í það minnsta á SVEPPAGREIFINN oft í hinum mestu vandræðum með að losa þessa miða af þannig að ekki sjáist einhver merki eftir þá.
En nákvæmlega þetta var reyndar ekki það efni sem ætlunin var að röfla um í færslu dagsins. SVEPPAGREIFINN á langstærstan hluta þeirra myndasagna sem komið hefur út á íslensku og á nokkrum þeirra má enn sjá hina upprunalegu verðmiða bókanna. Hér er hann auðvitað að tala um þá verðmiða sem límdir voru á bækurnar í þeirri verslun sem seldi þær glænýjar. Nú er það svo að þó SVEPPAGREIFINN leggi mikla áherslu á að plokka hina eiturgrænu Góða hirðis miða af þeim bókum sem hann verslar þar þá hefur hann ekki lagt alveg sömu áhersluna á upprunalegu verðmerkingarnar. Auðvitað vill hann að myndasögurnar sínar líti sem snyrtilegastar og upprunalegastar út, og án allra aukamerkinga, en þessir gömlu miðar hafa bara eitthvert allt annað gildi. Og ekki er sjarminn minni ef þeir eru merktir einhverjum ákveðnum bókabúðum eða verslunum sem draga fram gamlar minningar nostalgíuformi. En helsta ástæðan er samt auðvitað sú að ennþá erfiðara er að ná þessum gömlu límmiðum af heldur en grænu Góða hirðis miðunum. 
Eitthvað var SVEPPAGREIFINN að fletta í gegnum myndasöguhillurnar sínar á dögunum og rak þá augun í fáeina af þessum gömlu verðmiðum á bókunum. Þarna er væntanlega um að ræða, í flestum tilfellum, upprunalega verðið og hann fór því að velta fyrir sér hvað þessar bækur hefðu kostað nýjar. Í æsku minnist hann Tinna bókanna sem kostuðu, eftir því sem hann best man, 719 krónur (nokkrum árum fyrir gjaldmiðilsbreytinguna 1981) í bókabúð Máls og menningar á Laugaveginum. Þetta er ein af fyrstu minningum hans af teiknimyndasögum en hvergi hefur hann þó rekist á gamla verðmiða með þeim tölum á Tinna bókunum sínum í dag. Reyndar er engin af Tinna bókum SVEPPAGREIFANS með verðmiða á sér. Þau verð sem hann fann í þessu slembiúrtaki voru af margvíslegum toga en öll áttu þau það þó sammerkt að hafa verið á bókunum eftir áðurnefnda gjaldmiðilsbreytingu þegar tveimur núllum var kippt aftan af gjaldmiðlinum og um leið og ný tegund peningaseðla var tekin í notkum hér á landi. 
Það er svolítið gaman að rýna í þessa gömlu verðmiða en fyrsta myndasagan sem SVEPPAGREIFINN skoðar í þessu samhengi er strumpabókin Strumpasúpan sem kom út árið 1979. Í byrjun árs 1981 kostaði Strumpasúpan 38 krónur (nýkrónur) og 30 aura sem hefur þá væntanlega verið á pari við 3830 krónur fyrir jólin 1980. Sem er næstum því sama upphæð og teiknimyndasögur kosta (til dæmis úr Penninum/Eymundsson) í dag. Hmmm... og ef þessi blessaða gjaldmiðilsbreyting hefði ekki átt sér stað á sínum tíma og núllin tvö hefðu fengið að standa áfram þá myndi Strumpasúpan í versluninni VEDU kosta 383.000 krónur í dag ef hún væri í boði! Sem er auðvitað alveg marklaust bull. Veit einhver annars hvar verslunin VEDA var/er?
Svipaða sögu má segja um strumpabókina Strumpastríð (1980), sem verðmerkt er í bókahillum SVEPPAGREIFANS, á 38.65 krónur en sú bók fékkst á Bókhlöðunni á Laugaveginum. Þessar tvær bækur eru þær "ódýrustu" sem síðuhafi fann úr slembiúrtakinu sínu en myndasögurnar Álagaeyjan (1981), úr seríunni um Alex, Hin fjögur fræknu og harðstjórinn (1979) og Tígrisklóin (1979), úr bókaflokknum um Benna flugmann, hafa allar kostuð 48.15. Þetta hefur því verið hið eðlilega verð á myndasögum strax upp úr áramótunum 1980-81 en Galdrateppi (1980) Fláráðs stórvesírs kostaði 48.17 krónur. En upp úr þessu fer verðið á teiknimyndasögunum snögglega hækkandi enda var hinn óútreiknanlegi verðbólgudraugur heldur betur í essinu sínu á Íslandi á þessum árum.
Sval og Val bókin Móri (1982) kostaði allt í einu 98.80 og Ástríkur og grautarpotturinn (1981) 155 krónur en hugsanlega hefur síðarnefnda bókin verið keypt löngu seinna á útsölu. SVEPPAGREIFINN á annað eintak af þessari sögu og af einhverri undarlegri ástæðu er sú bók verðmerkt á 438 krónur. Sama verð er einnig að finna á bók hans Ástríkur á hringveginum (1982). Enn rauk verðið á myndasögunum upp og verðbólgan náði sögulegum hæðum fyrri hluta árs 1983. Með kveðju frá Z (1983) kostaði 197.60 og sömuleiðis Stríðið um lindirnar sjö (1983), með Hinriki og Hagbarði, en Viggó á ferð og flugi (1982) kostaði þó ekki nema 197 krónur.
Þarna tók því greinilega ekkert lengur að vera eitthvað að eltast við aurana fyrir aftan kommuna. Þeir voru þó ekki aflagðir með lögum fyrr en árið 2003 en þá voru hvort eð'er allir fyrir mörgum árum löngu hættir að eltast við slíka smámuni. Verðmiðinn á Viggó bókinni býr reyndar yfir nokkurri nostalgíu því hann er ekki aðeins kirfilega merktur stórmarkaðnum Miklagarði, sem var opnaður í Holtagörðum árið 1983, heldur er bókaskiptimiði með sömu merkingu einnig á bókinni.
Aftur kemur Bókhlaðan við sögu og að þessu sinni með myndasöguna um Hin fjögur fræknu og tímavélina (1985) en sú bók var reyndar merkt Bókhlöðunni í Glæsibæ og kostaði þar 468 krónur. Kuldastríðið (1985) úr seríunni um 421 fékkst í Hagkaup á 375 krónur og Flugvélaránið (1986) úr bókaflokknum um Frank var merkt Eymundsson og kostaði 548 krónur. Alls fann SVEPPAGREIFINN, á þessari snöggu yfirreið sinni um myndasöguhillur sínar, líklega vel á þriðja tug teiknimyndasagna sem höfðu að geyma slíka límmiða af eldri gerðinni.
Verst þykir þó SVEPPAGREIFANUM verðmerkingin á yngri bókum sínum um þá félaga Samma og Kobba. Ef minni hans svíkur ekki keypti hann nokkrar af þeim myndasögum á Bókamarkaði félags íslenskra bókaútgefenda í Perlunni á fyrri hluta tíunda áratug 20. aldarinnar. Þessar bækur voru allar merktar með flennistórum (um fimm sentimetra breiðum), appelsínugulum límmiðum sem nánast útilokað er að ná af án þess að stórskaða bókakápurnar. Slík meðferð á teiknimyndasögum jaðrar við helgispjöll og SVEPPAGREIFINN íhugar af alvöru að fara með málið til Mannréttindadómstól Evrópu og sækja það af fullum þunga.
Á þessum sama bókamarkaði (þó það hafi reyndar ekki verið sama ár) keypti SVEPPAGREIFINN einnig stærsta hluta sinn af Lukku Láka bókunum en þær kostuðu þar allar 350 krónur stykkið. Á þeim tíma var hann einmitt að byrja að hefja vinnu að því að fullkoma myndasögusafnið sitt og vantaði þá enn nokkrar Lukku Láka bækur í safnið. Þetta var eins og áður segir á árunum upp úr 1990 og reikna má með að hér hafi verið um að ræða afgangana, af upplaginu frá útgefandanum, af þeim Lukku Láka bókum sem þá voru enn til nýjar. SVEPPAGREIFINN var svo heppinn að eignast líklega tólf til fimmtán af þessum bókum þar en hann notaði þá ekki aðeins tækifærið til að fylla upp í það sem upp á vantaði í safnið heldur endurnýjaði hann í leiðinni þónokkur lúin eintök af eldri bókunum sínum. Enn þann dag eru allar þessar Lukku Láka bækur eins og nýjar í myndasöguhillunum en 350 króna verðmiðinn er enn á mörgum þessara bóka.
Það má kannski geta þess til gamans að á meðal þessara myndasagna var hin eftirsótta Á léttum fótum - Spes tilboð (1982) en á bókamarkaðnum var bunki með nokkrum eintökum af bókinni á 300 krónur. SVEPPAGREIFINN er ennþá að naga sig í handakrikann yfir að hafa ekki hreinlega hreinsað upp öll eintökin af bókinni af borðinu til að eiga til betri tíma handa safnþyrstu áhugafólki um myndasögur

En annars er þetta líklega versta færsla SVEPPAGREIFANS frá upphafi!

31. janúar 2020

148. FORSÍÐAN Á KARLARÍGUR Í KVEINABÆLI

Lukku Láka bókin Karlarígur í Kveinabæli (Les Rivaux de Painful Gulch), eftir þá Morris og Goscinny, er aðdáendum þeirrar seríu flestum að góðu kunn. Sagan er af mörgum talin ein sú besta í bókaflokknum og í könnunum sem gerðar hafa verið um Lukku Láka bækurnar kemur fram að þessi bók er á meðal þeirra vinsælustu. Karlarígur í Kveinabæli er líklega ein af allra fyrstu Lukku Láka bókunum sem SVEPPAGREIFINN man eftir en forsöguna má rekja til þess að hann, ásamt bróður sínum, gáfu Gaua vini sínum þessa bók í afmælisgjöf í maí mánuði líklega árið 1979 frekar en '78. Þá höfðu þeir bræður sjálfir reyndar ekki enn eignast sína fyrstu Lukku Láka bók og SVEPPAGREIFINN viðurkennir það fúslega að honum hafi þótt nokkuð fúlt að vera að kaupa myndasögu en vera ekki að fara að eiga hana sjálfur. Á þessum tíma voru bræðurnir einbeittir af því að safna Tinna og Sval og Val bókunum en þó styttist í að fyrstu myndasögurnar um kúrekann knáa kæmu inn á heimilið. Hvort það var af þessum ástæðum sem Karlarígur í Kveinabæli varð síðasta Lukku Láka bókin sem kom síðan inn á heimilið skal ósagt látið en eintak SVEPPAGREIFANS í dag er í algjörlega óaðfinnanlegu ástandi. En fyrstu blaðsíður Karlarígs í Kveinabæli birtust í belgíska myndasögutímaritinu Le journal de Spirou númer 1186 þann 5. janúar árið 1961 og henni lauk á samviskusamlega hátt í tölublaði númer 1207 frá 1. júní það sama ár. Fljótlega upp úr því fóru stjórnendur Dupuis útgáfunnar, ásamt höfundunum Morris og Goscinny, að búa söguna undir að koma út í bókarformi og íslenskir aðdáendur seríunnar þekkja vel hina endanlegu bókarkápu hennar sem kom út hjá Fjölva árið 1978 í þýðingu Þorsteins Thorarensen.
Þessi forsíða bókarinnar eru auðvitað löngu orðin sígild og er lang algengasta útgáfa hennar þó reyndar megi finna af henni aðeins misjafnar útfærslur eftir því hvaða löndum hún hefur verið gefin út í. Bókin er þannig til með speglaðri kápumynd í nokkrum útgáfum en einnig með mismunandi grænum litatón í bakgrunninum og jafnvel bláum. En upprunalega hugmynd listamannsins Morris að bókarkápu sögunnar var þó ekki alveg svona. Fyrstu drög hans að myndinni þóttu svo svívirðilega ofbeldisfull að Dupuis hugnaðist engan veginn að leyfa þá útfærslu framan á Lukku Láka bók og Morris þurfti því að gjöra svo vel að teikna nýja bókarkápu.
Á þessari ritskoðuðu útgáfu bókarkápunnar mátti sjá Lukku Láka á Léttfeta í miðjum darraðadansi á milli tveggja manna sem tilheyra ættum Nefjólfa og Eiríka. Þeir sem þekkja söguna vita auðvitað um hvað sá bardagi snýst en þeir sem ekki þekkja til skulu bara hunskast til að lesa þessa bók hið snarasta! Stjórnendum Dupuis útgáfunnar þótti of mikið af ofbeldi einkenna myndina auk þess sem áfengisflaskan í forgrunninum ætti ekkert erindi á bókarkápuna. Þessi ákvörðun var einkennileg og skaut svolítið skökku við vegna þess að inn í sögunum sjálfum sáust margoft bæði byssubardagar og áfengisflöskur auk margkyns samskonar efnis. Hvort slíkur ólifnaður væri óæskilegri utan á bókunum frekar en innan þeirra stóðst ekki heldur því að á mörgum öðrum bókarkápum Lukku Láka serínnar má finna sambærileg efni. Framan á bókinni Daldónar ógn og skelfing vestursins má til dæmis sjá hvar Lukku Láki hleypir af byssu sinni á eftir Daltón bræðrum, áfengisflöskur og glas sjást á Rangláta dómaranum og á bókarkápu Vagnalestarinnar sést Skralli skrölts og páfagaukurinn hans blóta einhverju í sand og ösku. Þessar bækur eru bara dæmi um þær sem komið hafa út á íslensku en allar þessar sögur höfðu birst í teiknimyndablaðinu SPIROU og komu þar af leiðandi einnig út í bókarformi hjá Dupuis útgáfunni. Upprunalega myndin birtist því aldrei á bókarkápu sögunnar Les Rivaux de Painful Gulch. Í september árið 1967 birtist þó svipuð útgáfa af þessari sömu mynd á forsíðu hollenska myndasögutímaritsins Pep þegar þessi sama saga hóf göngu sína í því blaði. Enn á ný lenda þeir Lukku Láki og Léttfeti á milli vopnaviðskipta Nefjólfsins og Eiríksins en áfengisflaskan er reyndar víðsfjarri að þessu sinni. Hollensku útgefendurnir (og um leið lesendur Pep blaðsins) voru augljóslega ekki jafn viðkvæmir fyrir "ofbeldinu" og hinir kaþólsku nágrannar þeirra fyrir sunnan.

24. janúar 2020

147. BARA RÉTT AÐEINS UM NÝJA ZORGLÚBB SÖGU

Stutt og ódýr færsla í dag enda stuttir og ódýrir dagar svona veðurfarslega um þessar mundir og nennan ekki í hæstu hæðum á Hrakförum og heimskupörum. SVEPPAGREIFINN hefur nokkrum sinnum minnst á eina af uppáhalds persónum sínum úr bókunum um þá félaga Sval og Val en þar er hann að sjálfsögðu að tala um hinn misskilda sindamann Zorglúbb. Þessum snillingi hefur verið gert svo hátt undir höfði hér á Hrakförum og heimskupörum að hann hefur jafnvel fengið skrifaða nokkuð ítarlega færslu um sig hér. Zorglúbb birtist fyrst í Sval og Val sögunni Z comme Zorglub (Z fyrir Zorglúbb) þann 11. júní árið 1959, í SPIROU blaði númer 1104, en áður hafði reyndar sést óskýr skuggamynd af honum í blaðinu í sömu sögu um mánuði fyrr. Hann kemur fyrir í tíu af fimmtíu og fimm bókum seríunnar um Sval og Val en auk þess hefur Zorglúbb birst í tveimur af bókunum sextán (þeim fjölgar ört) í hliðarseríunni Série Le Spirou de… eða Sérstök ævintýri Svals ... eins og hún hefur verið nefnd á íslensku. SVEPPAGREIFINN hefur öðru hvoru aðeins minnst á sjálfstæðan bókaflokk um Zorglúbb, sem hóf nýlega göngu sína hjá Dupuis, og hefur lagt sig fram eftir föngum um að reyna að nálgast þær myndasögur á ferðum sínum erlendis. Þessar sögur eru eftir spænska listamanninn Jose-Luis Munuera en hann er að sjálfsögðu helmingur tvíeykisins Morvan og Munuera, sem sömdu fáeinar Sval og Val sögur á tíunda áratugnum, eins og allir vita.
Fyrstu tvær bækurnar í seríunni eru á góðum stað í myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS en þær heita La Fille du Z (Dóttir Z) sem kom út í júní árið 2017 og í september 2018 kom síðan út sagan L'apprenti méchant (Vondur nemi). Bækurnar tvær eru á frönsku, enda báðar keyptar í svissnesku borginni Biel sem tilheyrir hinum franska hluta landsins, en það hefur SVEPPAGREIFINN ekki verið að láta trufla sig neitt sérstaklega. Þetta er jú einu sinni Zorglúbb svo hann lætur sig hafa það að reyna að stauta sig í gegnum bækurnar á frönsku með diggri aðstoð hins einstaklega þolinmóða betri helmings síns. Annars á hann fjöldann allan af myndasögum á frönsku og þetta fyrirkomulag hefur gengið alveg ágætlega með Greifynjunni og Google Translate á sitthvorum kantinum. Annars væri voða gaman að sjá sem mest af þessum myndasögum öllum koma út á íslensku en ansi er nú ólíklegt að eitthvað slíkt sé að fara að gerast í náinni framtíð. Til þess erum við náttúrulega allt of fá en Froskur útgáfa á hrós skilið fyrir það sem þeir þó ná að áorka á hinum örsmáa myndasögumarkaði hér á landi. En í september síðastliðnum kom síðan þriðja bókin út í frönsku útgáfuseríunni um Zorglúbb. Sú saga nefnist Lady Z og verður væntanlega á óska- og innkaupalista SVEPPAGREIFANS næst þegar hann verður á þvælingi á suðlægari slóðum.
Þessi sería virðist vera að slá nokkuð í gegn og þriðja bókin á jafnmörgum árum segir töluvert til um vinsældir bókanna. En sem dæmi um það má nefna að verið er að gefa þessar sögur út bæði á norsku og dönsku. Fyrsta Zorglúbb bókin (Barn af Z) kom út hjá danska myndasöguútgefandanum Forlaget Zoom í byrjun ágúst í fyrra en gæti hafa verið orðið uppseld hjá útgefandanum núna fyrir jólin. Önnur bókin (Skurkens lærling) er væntanleg á dönsku núna í mars eða apríl og stefnt hefur verið á að gefa út þá nýjustu, hjá Forlaget Zoom, í október á þessu ári - svona rétt mátulega fyrir jólin. Það er því um að gera fyrir þá sem áhuga hafa á teiknimyndasögum að kippa með sér þessum sögum ef þeir rekast á þær á ferðum sínum um Norðurlöndin.

17. janúar 2020

146. MAGNSTEINN MÚRARAMEISTARI OG FRÚ SLEGGJA

Eitt af einkennum teiknimyndasagna er hinn ýkti hetjuheimur aðalsöguhetjanna. Þær eru jú einu sinni myndasöguhetjur. Flestar þeirra hafa yfir að ráða hugdirfsku af einhverju tagi þar sem hetjuskapur þeirra nýtist í baráttu við misindismenn af ýmsu tagi og það er einnig einkennandi hversu oft þessar hetjur lenda aftur og aftur í sambærilegum ævintýrum. Tinni er til dæmis bara blaðamaður, sem hefur lent í rúmlega tuttugu mismunandi svaðilförum, en SVEPPAGREIFINN veit þó ekki um neinn annan blaðamann sem hefur sambærilega reynslu af slíkum ævintýrum. Svipaða sögu má segja um til dæmis þá Sval og Val, Steina sterka, Frank og Hin fjögur fræknu. Þetta eru hetjur sem ævintýrin bókstaflega elta. Aðrar myndasöguhetjur, eins og Ástríkur, Lukku Láki og Hinrik og Hagbarður, lifa hins vegar á aðeins víðsjárverðari tímum fortíðarinnar og því er eðlilegra að líta þannig á að ævintýramennska þeirra hetja sé á einhvern hátt réttlætanlegri. En í öllum teiknimyndasögum eru líka aðrar persónur sem eru nauðsynlegar til að skapa eðlilegan veruleika eða söguheim í kringum aðalsöguhetjurnar. Þar er SVEPPAGREIFINN ekki bara að tala um helstu aukapersónur bókanna sem ýmist fylgja aðalsöguhetjunum í hetjuskap sínum, tengjast þeim á einhvern hátt eða tilheyra jafnvel bófum- og illmennum sagnanna. Þarna er auðvitað verið að tala um einhvers konar uppfyllingapersónur sem fylla upp í heildarmynd sagnanna og hafa jafnvel líka einhver lítil en nauðsynleg hlutverk - eiginlega svona hvunndagshetjur teiknimyndasagnanna.
Í Tinna bókinni Vandræði Vaílu Veinólínó (Les Bijoux de la Castafiore - 1963), sem Fjölva útgáfan sendi frá sér árið 1977, má til dæmis finna tvær slíkar hvunndagshetjur sem reyndar ætti að skilgreina sem tvíeyki eða par enda vinna þær diggilega saman gegn utanaðkomandi "hættum". Önnur þeirra er reyndar meira áberandi og í stærra hlutverki en hin er hins vegar meiri svona stuðningur eða bakhjarl. Hér er SVEPPAGREIFINN að sjálfsögðu að tala um iðnaðarmanninn Magnstein múrarameistara og eiginkonu hans Sleggju. Allir Tinna aðdáendur þekkja auðvitað vel þessa rólegu og frekar hversdagslegu sögu og aðkoma Magnsteins að henni er líklega flestum kunn. En til að rifja aðeins upp söguna þá snýr Kolbeinn kafteinn sig, snemma í henni, illilega á ökklanum þegar hann hrasar í brotnu og lausu marmaraþrepi stóra stigans innan af anddyrinu á Myllusetri. Þrepið var þá þegar búið að vera brotið í nokkurn tíma (frá því nokkru áður en sagan um Vandræði Vaílu hefst) og Jósep var einnig nokkrum sinnum búinn að reyna að ná sambandi við múrarann rólynda til að biðja hann um að laga þrepið. Þegar Kolbeinn meiddi sig hafði hann sjálfur einnig verið búinn að hringja í Magnstein (auðvitað með því að hringja óvart fyrst í Bö slátrara í kjötbúðinni) og tjáir Jósepi sigri hrósandi eftir á hvernig best sé að taka af festu á slíkum kauðum. Af fenginni reynslu veit Jósep þó betur og tekur slíku tali með rétt mátulegum fyrirvara.
Svona gengur þessi iðnaðamannabrandari nokkrum sinnum í gegnum alla söguna og reglulega poppa upp samskipti þeirra Kolbeins og Magnsteins á dauðum punktum í bókinni. Kafteinninn hringir, Magnsteinn lofar að koma, afsakar sig eitthvað og svo framvegis. Kolbeinn (og reyndar líka Jósep) reyna þannig reglulega að reka á eftir Magnsteini og alls eiga sér stað að minnsta kosti fimm slík símtöl í bókinni á milli Myllusetur og múrarameistarans eða konu hans. Þannig kemur iðnaðarmaðurinn fyrir í heilum tólf myndarömmum í sögunni en líklegt má telja að sagan gerist á um það bil fjórum til fimm vikum. Og miðað við þann fjölda tilvika þar sem einhver fellur í tröppunum í herragarðinum er augljóslega lífsnauðsynlegt að gera einhverjar ráðstafanir, og laga þrepið, því alls fann SVEPPAGREIFINN tíu slík atvik í bókinni. En allt kemur fyrir ekki. Afsakanir Magnsteins eru af margvíslegum toga og oft jafnvel fleiri en ein í hverju símtali. Almennt sé mikið að gera hjá honum, í eitt sinn þurfti hann að ljúka við legstein, svo þurfti hann að fara bæði í brúðkaup og jarðarför, síðan var hann með kvef en besta afsökunin er þó (að mati SVEPPAGREIFANS) þegar hann þurfti, ásamt félögum sínum í múrarafélaginu, að fara í heimsókn til vinabæjar þeirra á Majorka. Það hlýtur að vera mjög eftirsótt að vera aðili að því félagi.
Aðalefni bókarinnar fjallar auðvitað um hina sjálfskipuðu heimsókn Vaílu Veinólínó á Myllusetrið en í miðri baráttu Kolbeins, fyrir viðgerð marmaraþrepsins, verður prófessor Vandráði á þau mistök að staðfesta óvart væntanlegt brúðkaup kafteinsins og Vaílu - sem auðvitað var enginn fótur fyrir. Fréttin berst fljótt út með aðstoð slúðurblaðs Múla og Péturs og heillaskeytin með árnaðaróskum vina og kunningja streyma til hjónaleysanna að Myllusetri. Kolbeini er ekki skemmt og ekki batnar skap hans þegar Lúðrasveitin að Myllufossi kemur í heimsókn og spilar viðeigandi tónlist turtildúfunum til heilla. Kafteinninn er jú frægur, mikils metinn óðalsbóndi í sveitinni og einn af fyrstu mönnunum til að fara til tunglsins. Stjórnandi lúðrasveitarinnar flytur ávarp honum til heiðurs í tilefni tímamótanna og Vaíla heimtar í kjölfarið að Kolbeinn bjóði meðlimum hennar upp á kampavín. Þær veigar fara þó full geyst ofan í mannskapinn og tónlistarflutningur sveitarinnar virðist ekki vera alveg jafn vandaður og fyrir veitingarnar.
Þegar að er gáð, og ekki er víst að allir hafi tekið eftir því, þá má einmitt sjá múrarameistarann Magnstein, innan um aðra meðlimi lúðrasveitarinnar, þar sem hann spilar á trompet. Augljóslega lítur iðnaðarmaðurinn þannig á að hið félagslega hlutverk tilverunnar sé öllu mikilvægara en starfsskyldur hans og hann skammast sín ekkert fyrir viðveru sína á staðnum. Það kemur reyndar ekki fram að Kolbeinn hafi áttað sig á að múrarameistarinn væri á meðal tónlistarmannanna en hann er hins vegar alfarið andvígur vínveitingunum og spurning hvort það tengist Magnsteini. Mótmæli hans hafa þó ekkert að segja og Vaíla fær sínu framgengt með hefðbundnum yfirgangi. En fleiri kunnuglega fýra má einnig finna í þessum hljómsveitarhóp. Stjórnandi lúðrasveitarinnar, sá sem flytur ávarpið kærleiksríka, er enginn annar en Bö kjötkaupmaður í Kjötbúðinni að Myllufossi. Bö slátrari (Achille Sanzot nefnist hann í upprunalegu bókunum) kemur fyrir fjórum Tinna bókum en einnig gerði Hergé ráð fyrir honum í hinni ókláruðu Tintin et l'Alph-Art.
Í viðtali löngu seinna greindi Hergé frá innblæstrinum að því hvernig hugmyndin að þessu atriði hafði orðið til. Þau hjónin hefðu verið stödd á sumardvalarstað í nágrenni Brussel þegar þau fengu óvænta heimsókn. Þar hefði verið á ferð fámennt lúðraband sem verið hafði á ráfi á milli lítilla veitinga- og kaffihúsa í miðbæ staðarins á milli þess sem þeir gæddu sér á veigum áfengisgyðjunnar. Að endingu komu þeir við á dvalarstað Hergé þar sem þeir stilltu sér upp með hljóðfærin sín og fluttu honum vandaðar útgáfur af fallegri og angurværri blásturstónlist. Í beinu framhaldi af því hófst einnig í miklu magni frekari bjórinntaka hópsins (hún var að sögn ekki eins falleg og tónlistin) sem endaði með hefðbundinni heiðursræðu stjórnandans. Ræðumaðurinn lauk tölu sinni með hinum þvoglumæltu orðum; Og nú, kæru vinir, skulum við lyfta glasi og skála fyrir herra Remi og hrópa allir sem einn, LENGI LIFI SPIROU! En aftur að sögunni. Eftir lúðrasveitabröltið heldur stríð þeirra Kolbeins og Magnsteins samt áfram í bókinni. Frú Sleggja lætur heldur ekki sitt eftir liggja í baráttunni við óþolinmóða viðskiptavini eiginmanns síns og styður hann heilshugar, með hæfilegri meðvirkni, gegn þessum óvinveittu öflum. Hún tekur málsstað iðnaðarmannsins í einu og öllu og er jafnvel tilbúin til að ljúga Kolbein fullan til að verja bónda sinn fyrir árásum óðalsbóndans að Myllusetri. Í bakgrunninum má þó sjá hvar Magnsteinn sjálfur situr slakur, tottandi pípu og flettir rólegur í gegnum hið útbreidda slúðurrit Múla og Péturs.
Þessi vinalegu hjón, Magnsteinn og kona hans, búa í þorpinu Myllufossi sem er spölkorn frá Myllusetrinu heimili þeirra Kolbeins kafteins og prófessor Vandráðs. Hann er múrarameistari þorpsins, ekur um á rauðu VW rúgbrauði og heitir, í upprunalegu belgísku útgáfunni, Isidore Boullu. Hann virkar sem frekar viðkunnalegur náungi og þau hjónin eru jafnvel svo almennileg að í miðju stríði Magnsteins við Kolbein senda þau honum heillaskeyti í tilefni af meintri trúlofun hans með Vaílu. Við þýðingu bókarinnar hafa þeir Loftur Guðmundsson og Þorsteinn Thorarensen farið þá leið að nefna manninn Magnstein múrarameistara og sú tilhögun er að mati SVEPPAGREIFANS einstaklega vel heppnuð. Í beinu framhaldi af því fór SVEPPAGREIFINN þó að velta fyrir sér fleiri nafngiftum á múrarameistaranum og hvort hugsanlega hefði verið hægt að gera enn betur í þeim efnum. Upp í huga hans komu nöfn eins og Legsteinn, Bergsteinn eða jafnvel Steinbergur en að endingu hljómar Magnsteinn múrarameistari þó líklega alltaf best. Þá má kannski einnig geta þess að á dönsku nefnist hann murermester Sten og frú Sleggja, fru Sten. Dönsku þýðendurnir voru því augljóslega ekki jafn frumlegir og hinir íslensku kollegar þeirra. En svona í framhjáhlaupi má líka alveg minnast á að fyrir margt löngu síðan starfaði SVEPPAGREIFINN með manni einum sem Hafsteinn hét og var líklega sá latasti náungi sem hann hefur á ævi sinni hitt. Sá var fyrir vikið ekkert sérlega vel liðinn á meðal samstarfsfólks síns og fékk fljótlega viðurnefnið Legsteinn og síðan í kjölfarið (í samræmi við afköst hans) Kumlið. Það eina sem hann var duglegur við var að koma sér undan verkum og hefði því líkast til getað orðið alveg fyrirmyndar iðnaðarmaður. 
En ekki er nafngift þeirra Lofts og Þorsteins á eiginkonu Magnsteins síðri því frú Sleggja er hreint út sagt frábært og með ólíkindum að nafn hennar hafi ekki hlotið almenna útbreiðslu í kjölfar útgáfu þessarar bókar hér á landi. Sleggja fellur klárlega undir ákvæði Mannanafnanefndar um eðlilega eignafallsendingu, hefur unnið sér hefð í íslensku máli og brýtur ekki í bág við íslensk málkerfi. En reyndar er þar einnig tekið fram að huga skuli að því að nöfn geti ekki orðið eigendum þeirra til ama og líklega er það eina ástæðan fyrir því að Sleggja varð ekki að helsta tískunafni ársins á sínum tíma. Það hafa örugglega verri nöfn sprottið fram í sviðsljósið síðan.
Höfundur Tinna bókanna Hergé (George Remi) þekkti, af eigin reynslu, múrarameistara með þessu sama nafni, Isidore Boullu, sem var í raun nánast ómögulegt að ná í. Forsöguna að því má rekja til þess að árið 1949 festi hann, og þáverandi eiginkona hans Germaine, kaup á gömlu sveitagistihúsi í spænskum stíl við Céroux-Mousty í Walloon Brabant héraðinu í Belgíu. Þau nefndu húsið La Ferrièresem og hófu þá þegar viðamiklar endurbætur á því enda byggingin orðið hrörleg og léleg eftir margra ára viðhaldsleysi og niðurníðslu. Þrátt fyrir alla þá vinnu gátu þau hjónin þó flutt inn í hluta hússins árið 1953. Endurbyggingin tók samt langan tíma, heilt yfir um tíu ár, en ástæðu þess mátti meðal annars rekja til hins áðurnefnda iðnaðarmanns. Isidore Boullu var nánast útilokað að ná í og í þau fáu skipti sem hann birtist vann hann aðeins í fáeinar mínútur áður en hann hvarf á ný. Í bréfi til vinar síns, tiltölulega fljótlega í ferli endurbótanna, minntist Hergé á að auðveldlega væri hægt að skrifa langa skáldsögu um viðgerðirnar og uppgerðina á húsinu. Það kæmi honum á óvart að húsið væri ekki enn hrunið en verktakinn, hinn títtnefndi Isidore Boullu, hefði fullvissað hann um að þessi vinna tæki ekki nema um 6 vikur. Nú væri hins vegar næstum liðið heilt ár. Hergé hefndi sín á Isidore Boullu löngu seinna með því að úthluta honum þessu vanþakkláta hlutverki í Vandræðum Vaílu og um leið að skjóta svolítið á hinn dæmigerða iðnaðarmann sem hann hafði augljóslega ekki miklar mætur á. Ekki ætlar SVEPPAGREIFINN svo sem að taka neitt sérstaklega undir þennan dóm Hergés um iðnaðarmenn almennt en verður þó að viðurkenna sambærilega baráttu við rafvirkja einn sem hann er búinn að bíða eftir í næstum því ár. Munurinn á SVEPPAGREIFANUM og Hergé er þó líklega í megindráttum sá að hinn fyrrnefndi er íslenskur og kemur að öllum líkindum til með að redda sér bara sjálfur.
Annars er líklega sniðugt, fyrst maður er á annað borð að fjalla um Tinna í færslu dagsins, að benda á að Tinna myndin The Adventures of Tintin: The Secret of the Unicorn er sýnd á RUV annað kvöld klukkan 20:20. Gísli Marteinn Baldursson mun tjá sig um þessa mynd í þættinum Bíóást sem sýndur verður á undan henni. Gaman að því.

10. janúar 2020

145. SVALUR UPPGÖTVAR EVRÓPU

Það er best að rúlla sér aðeins af stað aftur eftir frekar rólyndislegar færslur yfir jólavikurnar. En sögurnar um Sval og Val eru íslenskum myndasöguunnendum að góðu kunnar. Alls voru gefnar út 29 bækur hjá bókaútgáfunni Iðunni á sínum tíma og nú á undanförnum árum hafa 8 bækur í viðbót bæst við hjá Froski útgáfu. Alls eru Sval og Val bækurnar í upprunalegu seríunni nú orðnar 55 talsins og sú síðasta kom út árið 2016 en reyndar er staðan í dag, um framtíð bókaflokksins, nokkuð óljós. Langflestar af þessum sögum birtust fyrst í belgíska myndasögutímaritinu Le Journal de Spirou áður en þær voru gefnar út í bókaformi en í blaðinu birtust einnig stuttar sögur með þeim félögum sem komu þó ekki alltaf út í bókaformi. Þær sögur voru í flestum tilfellum birtar við ákveðin tilefni sem oftar en ekki tengdust þá einhverjum tímamótum eins og til dæmis jóla- eða afmælisritum. Í SPIROU blaði númer 1065, sem kom út þann 11. september árið 1958, mátti finna eina slíka sögu eftir André Franquin en tilefnið að þessu sinni var þó alls ekki jólablað tímaritsins eins og dagsetningin gefur reyndar sterklega til kynna. Eins annarlega og það hljómar var þessi fjögurra síðna Sval og Val saga, sem nefndist SPIROU découvre l'EUROPE (Svalur uppgötvar Evrópu), teiknuð í kynningaskyni fyrir fróðleiksþyrsta unga lesendur blaðsins. Sagan var eiginlega rammpólitísk áróðursgrein en um leið kynning á belgíska hluta Heimssýningarinnar Expo 58 sem haldin var í Brussel dagana 17. apríl til 19. október 1958. Þarna er Kalda stríðið í algleymingi og ungir lesendur blaðsins á einfaldan hátt minntir á hve samvinna þjóða Evrópu væri mikilvæg, vegna staðsetningar þeirra mitt á milli stórveldanna, gegn vondu köllunum í austri.
Það var þó fjarri því að þeir Svalur og Valur væru í einhverju fríi frá SPIROU á þeim tíma því sagan Le Prisonnier du Bouddha (Fanginn í styttunni) var í fullum gangi framar í tímaritinu. En þessi saga, Svalur uppgötvar Evrópu, var hins vegar hluti af föstum myndasöguþætti sem var nefndur Les belles histoires de l'oncle Paul (Fallegustu sögur Paul frænda) og birtust í blaðinu á árunum 1951-82. Paul var hinn vitri frændi sem deildi reynslu sinni og fróðleik á föðurlegan hátt til ungu frændsystkinanna sem voru auðvitað lesendur SPIROU blaðins. Líklegt má telja að sjálfur Paul Dupuis sé fyrirmyndin að Paul frænda en hann stjórnaði tímaritinu til langs tíma ásamt bróður sínum Charles. Þessi fasti myndasöguþáttur tímaritsins var unninn upp úr efni sem þeir Jean-Michel Charlier og Eddy Paape tóku yfirleitt saman og sömdu handritið að. Það gat fjallað um fjölbreytilegan og sögulegan fróðleik eða staðreyndir en oft gat efnið einnig verið af vísindalegum toga. Sögurnar voru teiknaðar af ýmsum listamönnum og margir þeirra hófu feril sinn hjá blaðinu einmitt við að teikna Les belles histoires de l'oncle Paul. Sagan Svalur uppgötvar Evrópu var þó eina verk André Franquin sem birtist í þessum þætti og þá auðvitað í eina skiptið sem félagarnir Svalur og Valur komu þar við sögu. Þeir Jijéhem (Jean De Mesmaeker), Jean Roba og Oktave Joly komu einnig að þessu verkefni. Þá má líka til gamans geta að Sval og Val bókin Furðulega uppljóstranir (La jeunesse de Spirou - 1987) eftir þá Tome og Janry, sem Iðunn gaf út árið 1987, er byggð upp sem grínútgáfa af sögum Paul frænda. Sá (Palli frændi) er reyndar í blautari kantinum og deilir því boðskap sínum á ekki alveg jafn ábyrgðarfullan, fallegan og mark-á-takandi hátt og hinn upprunalegi Paul frændi.
En sagan Svalur uppgötvar Evrópu segir frá því er þeir Svalur og Valur (ásamt auðvitað Gormi og Pésa) eru á einhverju ráfi fyrir utan mannvirki tengdum Expo 58 í Brussel og Valur fer að velta fyrir sér hvaða risahús þetta sé. Þessi bygging samanstendur aðallega af gleri, sem sex risastórir stálrammar umlykja, og Svalur útskýrir fyrir honum að þetta séu skáli C.E.C.A. sem er Kola- og stálbandalags Evrópu. Í stuttu máli voru þau samtök stofnuð af sex Vestur-Evrópuríkjum (Belgíu, Frakklandi, Hollandi, Lúxemborg, Ítalíu og Vestur Þýskalandi) árið 1952 og var ætlað að sameina hagsmuni þeirra og auðlindir næstu 50 árin en um leið einnig að tryggja að þessar þjóðir myndu ekki berjast innbyrðis á ófriðartímum. Kola- og stálbandalag Evrópu var í raun þannig forveri Evrópusambandsins ásamt Kjarnorkubandalagi Evrópu og Efnahagsbandalagi Evrópu. Stálrammarnir sex utan um glerbygginguna á Heimssýningunni, sem Svalur og Valur voru að skoða í myndasögunni, táknuðu einmitt þessar sex þjóðir sem komu að stofnun bandalagsins.
Valur sýnir byggingunni lítinn áhuga og vill gera eitthvað annað en Svalur dregur hann inn fyrir þar sem þeir kynna sér svolítið starfsemina upp úr bæklingum og þartilgerðum leiðbeiningartækjum. Þeir ganga um bygginguna og fræðast um hlutverk hennar og samtakanna en frásögnin er lituð af þurri, óáhugaverðri og pólitískri predikum. Sagan er eiginlega sett upp eins og myndasaga í skýrsluformi - eitthvað sem Franquin hafði lítinn áhuga á að taka þátt í. Eflaust hefur þótt nauðsynlegt að deila fróðleik sem þessum, til upplýsinga á hinum viðsjárverðu tímum Kalda stríðsins, en hann á í raun lítið erindi í myndasögutímarit sem aðallega var ætlað börnum og unglingum. Svalur uppgötvar Evrópu er því full af ýmiskonar tölulegum staðreyndum og upplýsingum og það vantar eiginlega ekkert í hana nema fáein línu- eða súlurit til að gera hana fullkomlega óáhugaverða. Í það minnsta er voðalega leiðinlegt að sjá hvernig reynt hefur verið að nota þessa vinsælu myndasöguseríu til að koma pólitískum skilaboðum til hinna ungu lesenda. Þeir áttu örugglega eftir að fá mörg tækifæri seinna á ævinni til að kynnast slíkum leiðindum.
Til að drepa lesendur SPIROU tímaritsins ekki alveg úr leiðindum hefur Franquin þó tekist að krydda söguna svolítið með skemmtilegum tilburðum Gormsins en án þeirra er hætt við að þessi saga hefði þótt álíka áhugaverð og samansafn eldhúsdagsumræða í rituðu formi. En hreinskilnislega er voðalega lítil Sval og Val stemning yfir þessari myndasögu.
Annars gaf Heimssýningin í Brussel árið 1958 af sér afkvæmi sem hefur í gegnum tíðina orðið að heldur þekktara kennileiti eða tákni fyrir borgina. Hér er SVEPPAGREIFINN að sjálfsögðu að tala um hið stórkostlega listaverk Atomium turninn sem er 102ja metra há útfærsla af atómi járnkristals og með stækkun upp á 165 billjón sinnum. Og þar sem hlutverk Hrakfara og heimskupara er að fjalla um myndasögur má einmitt benda á að umrætt listaverk kemur fyrir í þremur bröndurum með Viggó viðutan sem birtust fyrst í SPIROU tímaritinu þetta sama ár - 1958. 
Þessi staki myndabrandari hér að ofan birtist í blaðinu þann 17. apríl, sama dag og sýningin opnaði, en hann má einmitt finna á blaðsíðu 35 í íslensku Viggó bókinni Glennur og glappaskot sem kom út hjá bókaútgáfunni Iðunni árið 1986. Annars var SPIROU tímaritið fullt af efni tengdu Expo 58 allt þetta sama ár enda sýningin risastór og vakti til að mynda töluverða athygli hér uppi á Íslandi. Atomium turninn var nokkuð mörgum höfundum myndasagna yrkisefni á þessum árum og listaverkið hefur birst bæði í Blake og Mortimer seríunni sem og bókaflokknum um Sigga og Viggu svo nærtæk dæmi séu tekin. En það er um að gera fyrir þá sem eiga leið um Brussel að túristast að kíkja á þetta merkilega listaverk sem sést nokkuð víða að í borginni. Flest önnur mannvirki sem tengdust Heimssýningunni í Brussel árið 1958 eru þó löngu horfin og þeirra á meðal er byggingin merkilega sem kemur fyrir í Sval og Val sögunni.
Þá er kannski einnig vert að minnast á það að rétt við hliðina á Atomium listaverkinu var hinn sögufrægi Heysel leikvangur sem var vettvangur skelfilegra atburða á úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða (sem er auðvitað Meistaradeildin í dag) í knattspyrnu árið 1985. Þar létust 39 áhorfendur eftir að áhangendum Juventus og Liverpool laust saman í aðdraganda leiksins. Árið 1958 fór einmitt fram úrslitaleikur Real Madrid og AC Milan í sömu keppni fram á Heysel en sá viðburður var einnig hluti af hátíðarhöldum þeim sem tengdust Expo 58. Real Madrid, með Alfredo Di Stéfano fremstan í flokki, vann leikinn 3 - 2 eftir framlengingu að viðstöddum tæplega 70.000 áhorfendum. En eftir atburðinn árið 1985 var völlurinn að mestu rifinn, endurbyggður frá grunni, tekinn í notkun aftur árið 1995 og heitir í dag Stade Roi Baudouin.