30. nóvember 2018

87. UPPÁHALDSMYND Í VIGGÓ BÓK

SVEPPAGREIFINN hefur margoft áður á þessum vettvangi lýst yfir dálæti sínu á snillingnum André Franquin og þeim myndasögum sem hann kom að á sínum starfsferli. Þannig hefur SVEPPAGREIFINN til að mynda minnst á einstakar uppáhaldsmyndir úr bókunum um Viggó viðutan og hefur þegar birt eina slíka mynd úr þeim bókum en hana má sjá hér. Ætlun SVEPPAGREIFANS er að halda áfram að birta nokkuð reglulega þessar myndir hér á síðunni sinni (ókei, ég veit að það eru komnar rúmlega 80 færslur síðan síðast!) en að þessu sinni er komið að einni uppáhaldsmynd úr Viggó bókinni Hrakförum og heimskupörum sem kom út í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar árið 1979. 
En eins og væntanlega allir vita þá ganga flestar Viggó bækurnar út á einnar síðu brandara en fyrri hluti þessa brandara gengur út á það að samstarfsmenn Viggós á skrifstofu tímaritsins SVALS, þeir Eyjólfur, Snjólfur og Berti, eru að hafa áhyggjur af því að Viggó sjáist ekki í vinnunni heilu dagana. Þrátt fyrir að hafa séð hann mæta til vinnu á morgnana og fara heim á kvöldin. Þeir félagar fá grunsemdir um eitthvað misjafnt og skriður kemst á málið þegar Eyjólfur minnist þess að Viggó hafi lengið viljað vera einn inn á skjalasafni. Þangað fara þeir félagar til að kanna málið og rekast fljótlega á göng sem grafin hafa verið inni í þá risastóru óreiðu sem skjalasafnið er.
Þangað inn halda þeir með nauðsynlegan ljósabúnað og eftir að hafa skriðið svolítinn spöl inn í göngin koma þeir að ótrúlega notalegu rými inni í skjala- og bókasafninu. Þarna hefur Viggó sem sagt verið búinn að dunda sér við að grafa einhvers konar litla hvelfingu inn í skjalasafnið. Og á þessari dásamlegu teikningu, sem er lokapunktur brandarans, má sjá hvar Viggó liggur steinsofandi og hrjótandi inni í þessum notalega bókahelli á vindsæng ásamt gæludýrunum sínum.
Friðsældin og kyrrðin yfir þessari mynd er með svo miklum ólíkindum að SVEPPAGREIFANN langar helst sjálfum mest til að útbúa sér einhvers konar sambærilegt kósý afdrep á góðum stað. Það má reyndar alveg ímynda sér að ferska loftið sé ekki beint að drepa neinn þarna inni enda eitthvað matarkyns mallandi í pönnunni í anda Viggós og líklega fátt um loftræstingar. En aðalatriðið er auðvitað Viggó sjálfur sem liggur svo hamingjusamur og afslappaður, á koddanum í draumalandinu, með malandi kisu í fanginu. Frábær mynd hreinlega og augnablikið er eiginlega fullkomið.

23. nóvember 2018

86. HUGLEIÐINGAR UM BÖLV OG RAGN

Margir hafa í gegnum tíðina verið duglegir við að mæra Þorstein heitinn Thorarensen fyrir einstakar þýðingar sínar á þeim teiknimyndasögum sem Fjölva útgáfan sendi frá sér á áttunda og níunda áratug 20. aldarinnar. Það lof á fullkomlega rétt á sér og líklegt að hinar bráðskemmtilegu þýðingar hans og Loft Guðmundssonar hafi átt stóran þátt í vinsældum þessara bókmennta á sínum tíma. Tinna bækurnar, Ástríkur og Lukku Láki voru þær helstu sem Fjölvi gaf út og sagan segir að Þorsteinn hafi gjarnan kryddað þýðingar sínar eilitið og jafnvel farið út fyrir upprunalega handritið með töluverðu skáldaleyfi á köflum. Það eitt gerir bækurnar líklega enn meira spennandi því hætt er við að í seinni útgáfum þessa bóka verði búið að ritskoða þessar skemmtilegu útfærslur. Margir vilja jafnvel meina að eitthvað af þessum bókum séu enn betri í íslensku útgáfunum heldur en frumútgáfunum á frönsku. Þetta gildir sérstaklega um Ástríks bækurnar. Og svo virðist einnig að orðbragð eða öllu heldur blótsyrði Kolbeins kafteins hafi verið sérstaklega vel útfærð hjá þeim Þorsteini og Lofti.
Orðbragð Kolbeins er svo sem ekkert sem SVEPPAGREIFINN hefur heillast neitt sérstaklega af í gegnum tíðina. Ekki eins og svo margir virðast gera. En í fáein skipti hefur hann léð máls á Tinna bókunum við ýmsa aðila og oftar en ekki hafa fyrstu viðbrögð viðkomandi verið eitthvað á þessa leið; "já, hann Kolbeinn kafteinn er alveg frábær með blótsyrðin sín!" Og í kjölfarið hefur fylgt með einhverjar beinar vísanir eða frasar úr Tinna bókum sem viðkomandi hefur lagt á sig að læra. "Kuðungar og krókbognir kolkrabbar og kolbláir krókódílar!" eða "Fari það í milljón makríla og sjö billjón sardínur!" eru dæmi um það. SVEPPAGREIFINN er greinilega svo leiðinlegur að honum hefur aldrei fundist þetta neitt fyndið. Honum fannst Tinna bækurnar skemmtilegar á allt öðrum forsendum.
Blótsyrði Kolbeins eiga auðvitað fyrst og fremst að lýsa karakter hans og óhefluðum sjómannskjafti en þar kemur einnig drykkjuskapur hans töluvert við sögu. Seinna í bókaflokknum róast reyndar kafteinninn heldur og þegar hann festir kaup á Myllusetrinu má eiginlega segja að í besta falli fækki verstu blótstilfellunum hans. Skammaryrði Kolbeins eru ein af einkennum seríunnar þó kafteinninn hafi reyndar ekki komið til sögunnar fyrr en í níundu bók hennar. Í íslensku útgáfunni fóru þeir Loftsteinn því þá leið að heimfæra þýðingar sínar upp á rammíslenskan sjávarútveg og siglingar. Á Wikipedia síðunni um Kolbein kaftein má lesa eftirfarandi texta: Þegar Kolbeinn var kynntur til sögunnar á fimmta áratugnum var það viss áskorun fyrir Hergé að skrifa talmál persónunnar. Þar sem Kolbeinn var sjómaður vildi Hergé að hann talaði með nokkuð skrautlegu orðbragði en Hergé var ekki leyft að leggja kafteininum nein blótsyrði í munn þar sem bækurnar áttu að höfða til barna. Lausnin kom þegar Hergé mundi eftir atviki frá árinu 1933, stuttu eftir að fjögurra velda sáttmáli var undirritaður milli Frakklands, Bretlands, Þýskalands og Ítalíu. Hafði Hergé þá heyrt kaupmann nota orðið "fjögurraveldasáttmáli" sem fúkyrði. Fékk hann því þá hugmynd að láta Kolbein nota framandi og furðuleg orð sem væru í raun niðrandi en hann hrópaði þó af ofsa eins og þau væru grófustu blótsyrði. Þetta varð brátt eitt eftirminnilegasta persónueinkenni Kolbeins. Og þar með er það þá staðfest að hin óhefluðu og grófu blótsyrði kafteinsins eru þá bara alls engin blótsyrði!
Myndasögurnar um Tinna eru líklega þær einu, sem komið hafa út á íslensku, þar sem ljótt (eða ekki) orðbragð fær virkilega að njóta sín á venjulegan læsilegan hátt - ef svo má að orði komast. Í mörgum myndasögum hafði snemma myndast sú hefð að fylla talblöðrurnar af myndefni sem hæfði viðkomandi reiðilestri og lesandinn var því laus við að þurfa að lesa ljótu orðin. André Franquin var til dæmis algjör snillingur í slíkri myndrænni framsetningu. Í hans útfærslum má oftar en ekki sjá hnefa á lofti, sprengingar, eldingar, hnífa, svín og jafnvel kínversk tákn. Hvað sem þau eiga að tákna. Þarna gat lesandinn sjálfur ímyndað sér orðbragðið og sett sig inn í hugarheim blótandans án þess að þurfa að lesa þau beint orð fyrir orð. Og auk þess er myndræna útfærslan miklu heilbrigðari og skaðminni fyrir lesendahópinn sem er oftar en ekki börn og unglingar.
Í öllum þeim sögum og bröndurum sem Franquin teiknaði voru ógrynni karaktera sem notuðu þessa hentugu útfærslu af blótsyrðum þar sem við átti. Reyndar var líka hefðbundið en mildara bölv haft í og með til uppfyllingar. Hendingar eins og "Hvert þó í hoppandi!" og "Hver þremillinn!" sem flestir kannast við voru auðvitað algengastar en í verstu tilfellunum fengu myndrænu útgáfurnar líka að fljóta með. Margar þeirra persóna sem komu fyrir í Viggó bókunum höfðu ríka þörf fyrir þessa tegund útrásar gagnvart aðalsöguhetjunni og í bókunum um Sval og Val eru einnig mörg tilefni til óheflaðs orðbragðs.
Og þeir sem tóku við keflinu af Franquin, með bækurnar um Sval og Val, voru einnig margir duglegir við að viðhalda þessari skammaryrðahefð. Fournier notaði þessa útfærslu af blótsyrðum seinna í sögunum sínum og það sama má segja um tvíeykin Nic og Cauvin annars vegar og hins vegar þá Tome og Janry. Þetta breyttist hins vegar þegar Morvan og Munuera tóku við Sval og Val seríunni. Í þeirra höndum breyttust sögurnar meira og þróuðust meira út í raunsæisstíl en listamenn sem vildu láta taka sig alvarlega teiknuðu auðvitað ekki skrípó-blótsyrði í talblöðrurnar sínar. Það sama gilti um Yoann og Wehlmann þegar þeir tóku við.
Þessi útgáfa blótsyrða er í raun stórsniðug og frávikið með sögurnar um Tinna skýrist væntanlega af því að grunnur þeirra bóka er töluvert eldri. Það var einfaldlega ekki búið að þróa eða útfæra hina sniðugu blótsyrðablöðru á þennan hátt þegar Hergé teiknaði megnið af sínum sögum. Reyndar fann SVEPPAGREIFINN eitt dæmi í bókinni um Kolafarminn þar sem Hergé notaði hið myndræna form og það dæmi kom honum algjörlega í opna skjöldu. Í því tilfelli hefur Kolbeinn líklega verið í alveg sérstaklega slæmu skapi.
Seinna hefur Hergé líklega þótt of mikil stílbreyting að láta persónurnar í Tinna bókunum allt í einu að fara að bölva á myndmáli. Auk þess sem karakter Kolbeins kafteins gekk hreinlega út á það að blóta á almennilegu mannamáli. En það er ekki bara í myndasögunum um Tinna og Sval og Val sem sögupersónurnar blóta. Í mörgum þeirra bóka, sem við þekkjum hér uppi á Íslandi, er þessi mannlegi ósiður daglegt brauð og í flestum þeirra tilfella hafa höfundarnir tileinkað sér hina myndrænu framsetningu. Hver listamaður hefur auðvitað sín einkenni og persónulega stíl við sköpun blótsyrðanna og svo nota þeir þau ekki allir á sama hátt. Ef maður hefði alveg sérstaklega mikinn áhuga á myndrænum stílbrögðum í blótsyrðum þá væri tæknilega hægt að leggja sig fram við að þekkja útfærslur viðkomandi listamanna. Það verður reyndar að taka það fram að SVEPPAGREIFINN er ekki einn af þeim.
Af öðrum myndasöguseríum sem við þekkjum má nefna að Berck og Cauvin (sá hinn sami og samdi örfá handrit að Sval og Val fyrir teiknaranum Nic) notuðu þetta myndræna bölvunarform í Samma bókunum og Peyo kryddaði einnig allar sínar seríur með þeim. Þó lítur ekki út fyrir að hann hafa notað þessi blótsyrði á sama hátt í öllum seríunum. Í bókunum um Steina sterka virðist sem að gamla konan Grímhildur (sú grimma) sé sú eina sem blóti almennilega í seríunni. En víst verður að taka tillit til þess að hún er jú vélmenni og svolítið óheflaðri í framkomu heldur en fyrirmynd hennar - Grímhildur góða. Og sé rýnt aðeins í hina myndrænu blótútfærslu Peyo er athyglisvert að sjá að hann virðist hafa verið svo djarfur að nota sjálfan hakakrossinn í þessum fyrrnefndu sögum.
Og bæði í Ástríks og Lukku Láka bókunum blóta menn (og konur) á þennan hátt. Þeir Aðalríkur og Óðríkur er mest áberandi úr fyrrnefnda bókaflokknum en það er helst Jobbi Daltón sem lætur til sín taka í villta vestrinu. Reyndar er Léttfeti líka svolítið að bölva í myndaformi og í flestum tilfellum tengist það hundinum Rattata. Annars virðast allir vera svolítið óheflaðir í  Lukku Láka seríunni en í bókinni um Vagnlestina fær ein af eftirminnilegustu aukapersónunum, Skralli Skrölts, að bölva og blóta um alla söguna eins og enginn sé morgundagurinn.
Aðrir listamenn eru öllu hógværari í aðgerðum sínum með þessa myndrænu framsetningu. Líklega er blótað í öllum myndasögum en í sumum þeirra, líklega helst þeim sem höfundarnir vilja láta taka sig alvarlega, láta aðalsöguhetjurnar sér nægja að bölva á venjulegu mannamáli. Hinar dönsku Goðheima bækur eru til að mynda algjörlega lausar við þessar útfærslu, einnig sögurnar um Yoko Tsúnó og hið sama má segja bæði um blaðamanninn Frank og Alex hinn hugdjarfa. Þá kemur það skemmtilega á óvart að franski listamaðurinn Tabary virðist ekki hafa tileinkað sér þessa tækni í bókunum sínum um stórvezírinn Fláráð. En eins og flestir ættu að vita er Fláráður líklega sú persóna myndasagnanna sem á við hvað mesta skapgerðarbresti að etja og er um leið líklega bæði sú illgjarnasta og hvað verst innrætt. Þetta er skapvondur og undirförull náungi sem heldur reglulega reiðilestra, fulla af illgirnislegum hótunum með sadísku ívafi, yfir samferðamönnum sínum. SVEPPAGREIFINN renndi snögglega í gegnum þær bækur sem hann á með hinum illa innrætta stórvezir en eins ólíkt það hljómar þá blótar hann aldrei.

Jæja, nóg komið af fánýtum fróðleik ...

16. nóvember 2018

85. IT'S A LONG WAY TO TIPPERARY

Í dag er hinn alþjóðlegi letidagur myndasögubloggara og færsla dagsins, sem er alveg einstaklega innihaldslítil, litast svolítið af því. En SVEPPAGREIFINN hefur alltaf haft svolítið gaman af bókunum um Fótboltafélagið Fal sem Örn og Örlygur sendi frá sér fyrir tæplega 40 árum síðan og hefur aðeins minnst áður á þessar sögur hér á Hrakförum og heimskupörum. SVEPPAGREIFINN hefur líka nefnt það að þó teikningarnar séu ekki í hæsta (og líklega ekki heldur í næsthæsta) gæðaflokki þá hafi hann samt talsverðan húmor fyrir þessum teiknimyndasögum. Alls komu reyndar ekki út nema þrjár af þessum bókum í íslenskri þýðingu en það var kornungur Ólafur Garðarsson (seinna lögmaður og fótboltaumboðsmaður) sem sá um að snara þessum dýrmæta hollenska menningararfi yfir á okkar ástkæra ylhýra. Um þessar teiknimyndasögur skrifaði SVEPPAGREIFINN fyrir löngu síðan og má lesa meira hér.
Að þessu sinni ætlar SVEPPAGREIFINN nefnilega að kíkja eilítið á eina mynd, úr bókinni um Fal í Argentínu, sem hann er búinn að muna eftir frá því hann sá hana fyrst líklega 11 ára gamall. Á mynd þessari, sem er efst á blaðsíðu 36, má sjá hvar skoska landsliðið í knattspyrnu stormar út af vellinum, haugfullir, kyrjandi gamlan breskan slagara frá því snemma á 20. öldinni. Leikmenn Fals vita hins vegar ekkert hvaðan af þeim stendur veðrið og fylgjast í forundran með Skotunum yfirgefa leikvanginn. Forsaga atviksins úr bókinni er sú að Fótboltafélagið Falur var sent á Heimsmeistaramótið í Argentínu þegar hollenska liðið forfallaðist eftir slæmt flugslys (hvernig eru annars góð flugslys!?) í aðdraganda mótsins. Falur var búið að spila við Pólland, Íran og Perú þegar kom að leiknum við Skotana en eftir um 20 mínútna leik gengu skosku leikmennirnir af velli enda allir meira eða minna gjörsamlega á eyrunum.
Í liði Skotanna voru nokkrir valinkunnir leikmenn og meðal þeirra má nefna þá Jón á röltinu, Finna Ballantine og Harry Haig en þjálfari liðsins var Alli Vat 69. SVEPPAGREIFINN viðurkennir fúslega að hafa ekki verið nógu greindur til að skilja út á hvað brandarinn um nafn þjálfarans gekk en eftir einfalda gúgglun komst hann að því að auðvitað var þetta ein viský tegundin í viðbót. Og til að toppa allt heitir læknir liðsins Krókur (dr. Hook). Lagið sem skoska liðið syngur heitir It's a Long Way to Tipperary og var einhvers konar hvatningarsöngur breskra hermanna þegar þeir lögðu af stað til vígstöðvanna í byrjun fyrri heimsstyrjaldarinnar. Reyndar er lagið írskt og líklega kannast flestir við að hafa einhvern tímann heyrt þennan þekkta söng. Hér má til dæmis heyra þekkta útgáfu af It's a Long Way to Tipperary, með teiknimyndafígúrunni Charlie Brown, frá árinu 1966.
En það sem hinn 11 ára gamli SVEPPAGREIFI hnaut um á sínum tíma var þessi dásamlega neðanmálssetning, sem Ólafur þýðandi skyldi eftir til útskýringar, neðst vinstra megin á myndinni.
Þetta fannst SVEPPAGREIFANUM ægilega fyndið árið 1980 og kúkogpiss brandarar bernskunnar voru þá greinilega enn alls ráðandi.

9. nóvember 2018

84. HUGMYND AÐ BAÐHERBERGI

SVEPPAGREIFINN er ekki stöðugt að lesa myndasögur eða grúska í einhverju efni til að fjalla um hér á Hrakförum og heimskupörum. Undanfarnar vikurnar hefur hann til dæmis staðið í framkvæmdum við að breyta stærstum hluta bílskúr heimilisins í litla íbúð. Þar mun 16 ára unglingurinn geta haft sitt athvarf á mennta- og vonandi háskólaárunum og ekki veitir víst af á þessum tímum húsnæðisskorts og annars munaðar. Tæplega 40 fermetra bílskúr býður svo sem ekki upp á mikinn íburð og sérstaklega ekki þegar búið er að ráðstafa fáeinum fermetrum af honum í svolítið þvottahús og geymslu. En rúmlega 30 fermetra afgangur fyrir íbúð handa unglingi er reyndar örugglega alveg fínt og félagar hans dauðöfunda hann af komandi frelsi. Og í íbúð, þó hún sé lítil, þarf að sjálfsögðu að vera baðherbergi.
Fyrir fáeinum árum rakst SVEPPAGREIFINN á þessa mynd frá kunnuglegu sjónarhorni af baðherbergi sem aðdáendur Tinna bókanna kannast eflaust allir við. Þarna var um að ræða vísun í sígilda myndaröð úr Leynivopninu þar sem Kolbeinn kafteinn kemur við sögu. Þar er hann að bursta tennurnar fyrir framan spegilinn á baðherbergi sínu að Myllufossi þegar spegillinn byrjar skyndilega allur að springa upp og brotnar að lokum niður í þúsund mola. Eða ... alla vega svona fimmtíu og sjö! Seinna kemur svo í ljós að atburðurinn tengist tilraunum sem prófessor Vandráður er að vinna að á vinnustofu sinni. Þetta vita auðvitað allir. En hér fyrir neðan má einmitt sjá atvikið eftirminnilega af speglinum en það kemur fyrir á blaðsíðu 10 í bókinni.
Myndin af baðherberginu er hins vegar uppstilling úr sýningu, tileinkaðri Tinna bókunum, sem haldin var fyrir nokkrum árum í Château de Cheverny kastalanum í Loire Valley í Frakklandi. Allir Tinna aðdáendur ættu að kannast við staðinn en Château de Cheverny er einmitt fyrirmyndin að Myllusetrinu (Château de Moulinsart) í bókunum. Það var alltaf draumur SVEPPAGREIFANS að geta útfært þessa mynd á svipaðan eða sambærilegan hátt í einhverju baðherbergi framtíðarinnar og vissulega væri komið tækifæri til þess núna í bílskúrnum. En þegar fermetrarnir eru fáir og nýting á plássi takmarkaðir þá er úr vöndu að ráða. Sérstaklega þegar plássið, sem skammtað er til baðhergisins, er ekki nema rétt rúmlega tveir fermetrar! Og innan þessa tveggja fermetra þarf að rúmast klósett, vaskur og sturtuklefi. Það er því nokkuð ljóst að draumur SVEPPAGREIFANS um þessa baðherbergisútfærslu er ekki að fara að verða að veruleika. Alla vega ekki að þessu sinni. Vonandi getur þó einhver annar notað hugmyndina. 
En þótt baðherbergisrýmið í bílskúrnum sé lítið þá er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að nýta það á einhvern hátt fyrir skemmtilegt Tinna þema. Og kannski er það einmitt stærðin á rýminu sem hjálpar til við að útfæra eitthvað skemmtilegt þar sem plássið útilokar eitt en opnar um leið möguleika á öðru. SVEPPAGREIFINN er að vísu ekki búinn að ákveða endanlega þá útfærslu á því hvað hann ætlar að gera en vísir að tveimur hugmyndum hringsóla nú um höfuð hans. Hver (hvort?) endanleg niðurstaða verður á eftir að koma í ljós en vonandi birtist færsla á vormánuðum hér á Hrakförum og heimskupörum með myndum af þeirri útfærslu.

2. nóvember 2018

83. GRÆNJAXLINN BALDUR BADMINGTON

SVEPPAGREIFINN hefur í gegnum tíðina verið nokkuð hrifinn af myndasögunum um Lukku Láka en það tók hann þó reyndar svolítinn tíma að uppgötva bækurnar almennilega. Það var líklega ekki fyrr en um jólin 1979 sem hann eignaðist sína fyrstu Lukku Láka bók. Fyrstu sögurnar í seríunni höfðu ekki komið út á íslensku fyrr en árið 1977 en um jólin 1979 voru þegar komnar út hátt í 20 bækur. Ástæðuna fyrir því hversu langan tíma það tók fyrir SVEPPAGREIFANN að uppgötva bækurnar má að líkindum rekja til þess að sögurnar um Tinna og Sval og Val gengu fyrir hjá honum á þessum árum og þær bækur fengu því alla athyglina. Á þessum árum eignaðist hann myndasögur aðallega í gegnum jóla- og afmælisgjafir en auk þess hafði hann stundum getað nurlað saman einhverjum aurum og keypt bækur sjálfur. Og þá þurfti að vanda valið. En smám saman fóru aðrar teiknimyndasögur en Tinni og Svalur og Valur að grípa hugann og Lukku Láka bækurnar fóru einnig að safnast saman í bókahillum heimilisins líkt og flestar aðrar myndasögur sem voru að koma út á þessum árum. SVEPPAGREIFINN er reyndar ekki með það alveg á hreinu hvaða Lukku Láka bók hann eignaðist fyrst en þó minnist hann þess að Allt í sóma í Oklahóma, Arísóna og Gullnáman og Rex og pex í Mexíkó hafi allar komið nokkuð snemma inn á borð.
Auðvitað eru Lukku Láka bækurnar ólíkar að gæðum og óhætt er að segja að þær séu eins misjafnar og þær eru margar. Elstu sögurnar eru til dæmis varla alveg marktækar þar sem belgíski listamaðurinn Morris (Maurice de Bévère), sem var einnig handritshöfundur að fyrstu sögunum, tók sér svolítinn tíma til að móta aðalsögupersónuna og um leið að þróa stíl sinn. Morris var mikill áhugamaður um amerískar vestramyndir og í tengslum við þann áhuga skapaði hann kúrekann knáa, sem klæddist fötum í belgísku fánalitunum, árið 1946.  Hann flutti svo til Bandaríkjanna (ásamt m.a. Jijé og Franquin) til frekara listnáms og starfaði til að mynda við myndasögugerð hjá MAD tímaritinu en þar öðlaðist hann aukna reynslu og þróaði stíl sinn enn frekar. Morris bjó í nokkur ár í Bandaríkjunum, setti sig vel inn í sögu hins villta vesturs og notfærði sér það óspart við Lukku Láka sögurnar þegar fram liðu stundir. Árið 1957 kom hinn fransk/argentínski René Goscinny síðan til sögunnar og hóf að vinna að handritsgerð sagnanna en fljótlega eftir það hófust sögurnar á feykilegt flug sem stóð yfir allt þar til Goscinny lést árið 1977. 
Margar Lukku Láka bókanna eru hreint frábærar og skemmtanagildi þeirra á við það besta sem gerist í teiknimyndasögum. Fjölbreytilegur skammtur af aukapersónum gera mikið fyrir seríuna og þar eru þeir Léttfeti og Rattati í stórum hlutverkum en Daltón bræður krydda bókaflokkinn einnig hæfilega með afreksverkum sínum. Það er svo sem ekkert auðvelt að taka út stakar bækur til að velja sem sínar uppáhalds en að mati SVEPPAGREIFANS er hápunktur seríunnar um miðbik hennar eða frá fyrri hluta 7. áratugarins og fram undir lok þess 8. - sem er reyndar alveg dágóður tími og mikill fjöldi bóka. Ein þessara bóka heitir Grænjaxlinn (Le Pied-tendre - 1968) en hún kom út hjá Fjölva útgáfunni á íslensku árið 1980 í þýðingu Þorsteins Thorarensen og er í alveg sérstöku uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM. Eftir að hafa rýnt eilítið í sögu Lukku Láka bókanna kemur í ljós að almennt eru bækurnar Grænjaxlinn og Póstvagninn (La Diligence - 1967), sem hefur reyndar ekki enn komið út í íslenskri þýðingu, taldar vera á meðal bestu bóka þeirra Morris og Goscinny og þá um leið auðvitað þær bestu í seríunni allri.
Lukku Láka sagan Le Pied-tendre hóf göngu sína í SPIROU blaði númer 1537 sem kom út þann 28. september árið 1967 og var gefin út í bókarformi árið 1968. Sagan segir í grófum dráttum frá breska aðalsmanninum Baldri Badmington sem erfir búgarð einn í villta vestrinu. Baldur ráðgerir að setjast þar að, ásamt einkaþjóni sínum, en nágranni hans Gúmi Gikkur (frábært nafn) ásælist líka jörðina. Gúmi beitir öllum brögðum til að fæla Baldur burt af landareigninni en það er Lukku Láki sem fær það hlutverk að aðstoða hinn enska hefðarmann og verja hann gegn áformum Gúma Gikks. Sagan er innblásin af gamalli bíómynd (Ruggles of Red Gap) frá árinu 1935 en hún fjallar um breskan einkaþjón og dvöl hans í villta westrinu. Mjög spennandi allt saman - eða þannig.
SVEPPAGREIFANUM er ekki almennilega ljóst hvers vegna einmitt þessi bók er í svo miklu uppáhaldi hjá honum. Ætli það sé ekki hinn hábreski Baldur Badmington og einkaþjónninn hans Jósep sem gera þessa frábæru sögu svona skemmtilega. Þeir minna jafnvel eilítið á tvíeykið Jeeves og Wooster sem margir muna eftir úr samnefndum, breskum sjónvarpsþáttum frá því snemma á 10. áratugnum. Í það minnsta eru hinir bresku Baldur og Jósep í miklu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM og þeir eru líka, í hugum margra, í hópi eftirminnilegra sögupersóna Lukku Láka bókanna. Og svo er sagan einfaldlega frábærlega vel teiknuð og ákveðinn blær yfir henni þar sem Morris notar alla lita- og skugga effektana sína á fullkominn hátt. Árið 1965 hafði Goscinny gert handritið að Ástríks bókinni Astérix chez les Bretons (Ástríkur í Bretalandi, Fjölvi - 1974) sem félagi hans hinn franski Albert Uderzo hafði teiknað en þar hafði hann einnig gert svolítið grín að Bretum og breskum hefðum. Margir muna örugglega eftir volga bjórnum, tepásunni og Lundúnaþokunni úr bókinni. Í Grænjaxlinum var sögusviðið hins vegar svolítið nær nútímanum og í þeirri bók koma reyndar líka aðeins við sögu te og bjór en Goscinny fékk þar einnig frábært tækifæri til að gera góðlátlegt grín að breska aðlinum. Uderzo stóð alltaf í þeirri meiningu að Morris hefði haft sig sem fyrirmynd að aðalsmanninum Baldri en Belginn þvertók fyrir það og þóttist aldrei hafa kannast við það. 
Baldur Badmington er hinn holdi klæddur hefðarmaður sem heldur rósemi sinni og háttvísi sama hvað á gengur. Hann leynir töluvert á sér og er engan veginn sá grænjaxl sem skálkar bæjarins (Þurrkverkarbæjar) telja sig vera að taka í gegn. Hinn ódannaði óaldaflokkur Gúma Gikks gerir hvað hann getur til að koma honum úr jafnvægi, með ýmsum tegundum "busavígsla", til að fæla hann aftur heim til Evrópu en Baldur lætur sér fátt um finnast. Hann er öllu vanur úr Oxford háskóla og þegar líður á söguna kemur einnig í ljós að Baldur er ekki aðeins afbragðs skytta heldur líka vel liðtækur í slagsmálum. Hann hafði nefnilega alveg gleymt að taka það fram að hann væri bæði Heimsveldismeistari í veltivigt og skotfimi með skammbyssu. Undir lok sögunnar kemur svo enn í ljós hversu eitilharður hann er því hann sýnir ekki minnstu viðbrögð þegar Gúmi Gikkur hæfir hann með byssukúlu í handlegginn í einvígi.
SVEPPAGREIFINN stóð alltaf í þeirri meiningu að ættarnafn Baldurs, Badmington, væri hluti af heimfærðri þýðingu Þorsteins heitins Thorarensen og væri því rammíslenskur brandari. Þorsteinn fór oft skemmtilega frjálslega með þýðingar sínar á bókunum og Badmington nafnið væri því eins konar útfærsla hans á hefðbundnu bresku aðalsættarnafni. Kensington, Hamilton eða jafnvel Wellington gætu verið ættarnöfn hjá dæmigerðum mönnum af aðalstign en Badmington væri hins vegar íslenska grínútfærslan að því. En svo er þó alls ekki. Í upprunalegu frönsku útgáfunni af Grænjaxlinum heitir hann einfaldlega Badmington (Waldo reyndar) og Þorsteinn er því alsaklaus af ranglega dæmdum hugmyndum SVEPPAGREIFANS.
Hinn trygglyndi einkaþjónn hans, Jósep, er dæmigerður breskur butler. Í upprunalegu frönsku útgáfunni heitir hann Jasper en Þorsteinn ákvað að skíra hann Jósep. Hvort sem það er tilviljun eða ekki þá virðist nafngift hans vera tileinkuð hinum eina sanna Jósepi (Nestor) á Myllusetri úr Tinna bókunum sem Þorsteinn þýddi einnig. Og fyrir vikið stóð SVEPPAGREIFINN lengi í þeirri trú að meira eða minna allir yfirþjónar ættu að heita Jósep. En Jósep, þ.e.a.s. einkaþjónn Baldurs, var áður ráðsmaður í þjónustu 18. hertogans af Limchester og miðað við lýsingar hans á líferni hertogans þá er hann augljóslega öllu vanur. Það kemur sér reyndar vel við störf hans fyrir Baldur Badmington í villta vestrinu því ýmislegt gengur á í sögunni. Hinn háttvísi og ofur kurteisi Jósep lætur sér fátt um finnast en einu sinni í sögunni er honum þó svo illa misboðið að hann hótar að segja sig úr vistinni. Það er þegar að einn af misindismönnum Gúma Gikks hrækir á gólfið á heimili Baldurs og Lukku Láki þarf að hafa sig allan við til að sannfæra hann um að yfirgefa þá ekki á neyðarstundu.
Þegar allt er um garð gengið í lok sögunnar ákveður Jósep hins vegar að yfirgefa húsbónda sinn og freista gæfunnar hinum megin við fjöllin þar sem finna megi gull eins og sand. Og í beinu framhaldi af því má einnig minnast á það að Baldur Badmington kemur fyrir í annarri Lukku Láka bók sem nefnist Le Klondike og var gefin út árið 1996 en sú bók hefur ekki enn komið út í íslenskri þýðingu. Í þeirri sögu hittast þeir Láki aftur eftir að fréttir berast af því að Jósep hafi horfið sporlaust og þeir félagar halda á gullgrafaraslóðir í Klondike í Kanada til að leita að honum. Þess má geta að höfundurinn Yann kom að handritsgerð sögunnar en hann er kunnur fyrir hlut sinn að bókunum um Gastoon (Litla Viggó) og Gormana.
Og alveg í lokin er alveg tilvalið að kíkja á eina villu eða mistök sem Morris gerði í bókinni um Grænjaxlinn. Á blaðsíðu 42, þegar Lukku Láki hefur bjargað Baldri Badmington frá hengingu, má sjá á fyrstu tveimur myndunum í myndaröðinni hvar aðalsmaðurinn tekur af sér vinstri hanskann og slær Gúma Gikk utan undir með honum. Á þriðju myndinni í röðinni má hins vegar sjá hvar hann er að enda við að setja á sig hægri hanskann!
Góðar stundir.