27. júlí 2023

228. GAMALT AFMÆLISRIT UM LUKKU LÁKA

Margir íslenskir myndasöguunnendur muna eftir Viggó brandara sem birtist á blaðsíðu 32 í bókinni Viggó bregður á leik sem Iðunn gaf út á því herrans ári 1982. Í stuttu máli segir brandarinn frá því þegar starfsfólkið á ritstjórnarskrifstofu SVALS býr sig undir að halda upp á afmæli Roy Rogers þegar herra Seðlan stingur, eins og svo oft áður, nefinu óvænt inn. Herra Seðlan er auðvitað ekkert nema fýlan og neikvæðnin og tjáir Val að hann vilji ekki ræða við neinn annan, að þessu sinni, nema forstjóra fyrirtækisins. Í þessum brandara kemur einmitt fyrir mjög skemmtilegt móment, sem SVEPPAGREIFINN hreinlega elskar, en það er að sjálfsögðu andartakið, á næstsíðustu mynd brandarans, þegar herra Seðlan stendur augliti til auglitis við dapureygðan og undrandi hest! Þetta er auðvitað alveg hreint stórkostlegt augnablik.

En þessi frábæri Viggó brandari er þó ekki viðfangsefni færslu dagsins þótt hann tengist henni óneitanlega. Hér er nefnilega um að ræða framlag André Franquins til sérstaks tímamótablaðs, myndasögutímaritsins SPIROU, sem gefið var út í tilefni af 20 ára afmæli Lukku Láka. Þar með er ljóst að Jón Gunnarsson hefur farið heldur frjálslega með þýðingu sína á brandaranum á sínum tíma því auðvitað var starfsfólk SVALS ekki að halda upp á afmæli Roy Rogers. Skrítið að hann skuli hafa breytt þessu. Viggó hefur þarna klætt sig upp sem kúreka þó ekki hafi hann farið alla leið í litasamsetningu Láka en fyrir þá sem ekki vita samanstendur kúrekabúningur Lukku Láka alla jafna af litum belgíska þjóðfánans. En það er best að snúa sér aðeins að þessu merkilega afmælisriti SPIROU sem kom út fimmtudaginn 13. apríl árið 1967. Reyndar hafði Láki fyrst birst í tímaritinu í október árið 1946, og því voru nokkrir mánuðir liðnir frá 20 ára afmælinu, en af einhverri ástæðu hafði það dregist um hálft ár að fagna hinum merka áfanga. Þetta tiltekna afmælisblað, sem var tölublað númer 1513 og 108 blaðsíður að lengd, var því tileinkað kúrekanum knáa með innihaldi sem samanstóð auðvitað að mestu af efni er tengdist Lukku Láka.

SPIROU blaðið var því stútfullt af skemmtilegu Lukku Láka góðgæti, þennan fimmtudaginn, þar sem margir af listamönnum tímaritsins lögðu sitt á vogaskálarnar til að heiðra Láka og höfunda hans, þá Morris og Goscinny. Og það heppnaðist reyndar bara alveg prýðilega. Á meðal Lukku Láka efnis, fyrir utan þennan Viggó brandara hér að ofan, má til dæmis nefna stutta Boule og Bill sögu eftir Roba og aðra um unglingsstelpuna Sophie, sem einhverjir kannast eflaust við, eftir Jidéhem. Sophie varð með tímanum ein af ástsælustu persónum belgíska myndasöguheimsins og var raunar fyrsta kvenpersónan sem fékk aðalhlutverk í teiknimyndaseríu hjá SPIROU tímaritinu.

Þá skal geta þess að fyrsta sagan um Lukku Láka, La Mine d'or de Dick Digger sem við Íslendingar þekkjum auðvitað sem Gullnámuna, var birt í blaðinu í heild sinni í þessu afmælisriti. La Mine d'or de Dick Digger hafði þá verið ófáanleg í bókaformi í fjölda mörg ár og margir lesendur SPIROU tímaritsins voru því að sjá hana í fyrsta sinn. Þetta kom mörgum skemmtilega á óvart en sagan hafði birst fyrst í myndasögublaðinu þann 12. júní árið 1947 og henni lauk 27. nóvember sama ár.

En fleira áhugavert efni um Lukku Láka birtist í þessu afmælishefti. Flestir myndasögulesendur kannast við bókina Allt um Lukku Láka sem Fjölvaútgáfan gaf út árið 1978 en í þeirri bók er einmitt stuttur kafli sem nefnist, Þegar aðrir teikna Lukku Láka. Þar er greint frá einvígi þeirra Morris og Giraud (sem teiknaði myndasögurnar um Blástakk) og birt stutt Lukku Láka saga í spaghetti-vestra stíl eftir franska teiknarann Marcel Gottlieb. Í afmælisheftinu góða voru einmitt tvær slíkar stuttsögur eftir listamennina Salvé (Louis Salvérius) og Roba en þær birtir SVEPPAGREIFINN hér í heilu lagi og með íslenskri þýðingu. Fyrri sagan greinir frá þeirri óvenjulegu uppákomu að Lukku Láki verður sem snöggvast ástfanginn. En auðvitað kemur svo í ljós í enda sögunnar að það hefði bara verið draumur. Salvé, sá sem gerði þessa örstuttu Lukku Láka sögu, var mjög hæfileikaríkur listamaður sem lést aðeins 38 ára að aldri. Hann var svo til óþekktur þegar hann teiknaði söguna en skömmu eftir birtingu hennar hóf hann vinnu við nýja seríu í samstarfi við handritshöfundinn afkastamikla Raoul Cauvin. Þær nefndust Les Tuniques Bleues (Bláfrakkarnir) og urðu gríðarlega vinsælar en hann lést árið 1972 eftir aðeins fjórar sögur í bókaflokknum. Eftir hið sviplega fráfall hans tók Willy Lambil við keflinu og Salvé var þó alltaf í skugga eftirmanns síns þrátt fyrir að hafa lagt grunninn, ásamt Cauvin, að þessum skemmtilegu og vinsælu myndasögum. En hér er saga Salvé, um hinn "ástfangna" Lukku Láka, eftir handriti hins belgíska Maurice Tillieux sem kunnastur er fyrir sögurnar um Gil Jourdan og Tif og Tondu sem margir líklega þekkja.

Seinni myndasagan er eftir Roba, sem auðvitað er þekktastur fyrir sögurnar um tvíeykið Boule og Bill, en handrit hennar er einnig eftir Tillieux líkt og í hinni sögunni. Hér segir frá því hvernig afmælisbarnið Lukku Láki, sem að þessu sinni er óvenju þungur á brún, er ofsóttur af lúðalegum aðdáanda með gleraugu. Sá þráir ekkert heitar en að verða félagi Láka og fylgja honum í æsandi ævintýrum hans um villta vestrið. Lukku Láki er hins vegar ekki á þeim buxunum að gefa þessum drengstaula nein færi á því, enda hefur einmana kúreki ekkert við slíkan félagsskap að gera. Svo uppáþrengjandi er þessi aðdáandi aðalsöguhetjunnar að hann yrði að líkindum greindur sem eltihrellir ef hann dúkkaði einhvers staðar upp í raunveruleikanum. Glöggir lesendur taka sjálfsagt eftir því að Roba hefur teiknað aðdáandann lúðalega sem Morris - skapara Lukku Láka. Þá vekur SVEPPAGREIFINN athygli á að Roba hefur teiknað plaggat af eftirlýstum Viggó viðutan (á veggnum aftan við útfarastjórann) á fyrri myndinni í annarri myndaröð á seinni blaðsíðunni. Roba var auðvitað náinn samstarfsmaður André Franquin, sem teiknaði Viggó, og vann til að mynda töluvert við hlið hans að sögunum um þá Sval og Val. En hér má því sjá söguna um kúrekann Ólukku Láka sem virðist aldrei hafa verið jafn þunglyndur og einmana á ferli sínum.


Aðeins fáeinum mánuðum eftir að Dupuis sendi frá sér þetta afmælisrit SPIROU yfirgáfu þeir Morris og Goscinny útgáfufyrirtækið og gengu til liðs við Dargaud útgáfuna frönsku og myndasögurnar um Lukku Láki hófu í kjölfarið að birtast í myndasögutímaritinu Pilote. Sögunum um Bláfrakkana, sem minnst er á hér að ofan, var þá einmitt ætlað að fylla upp í það tómarúm sem kúrekinn knái skyldi eftir sig hjá SPIROU tímaritinu. Lukku Láka sögurnar birtust hins vegar í Pilote tímaritinu fram til ársins 1973 og færðu sig þá yfir á sérstakt Lukku Láka blað, sem reyndar varð ekki langlíft, en eftir það birtust sögurnar á ýmsum ólíkum vettvöngum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!