7. desember 2018

88. FRÆGUR TINNA KASTALI

Árið 1994 las SVEPPAGREIFINN litla klausu í Morgunblaðinu undir hinum aldargamla lið slúðurfrétta Fólk í fréttum. Þarna var um að ræða örlitla grein sem fjallaði um heimsókn George Rémi eða Hergé til þorpsins Céroux-Mousty í Belgíu og eins fáránlega og það hljómar þá mundi SVEPPAGREIFINN enn eftir þessari litlu klausu núna næstum 25 árum seinna. Hann gróf því upp greinina á hinum yndislega vef tímarit.is og ákvað að þessu sinni að nota tækifærið til að velta sér aðeins upp úr innihaldi hennar
En efni klausunnar, sem birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 25. október árið 1994, var nákvæmlega á þessa leið:
ÞEGAR fréttamaðurinn Tinni og hundurinn Tobbi lentu í eltingarleik við hóp peningafalsara í teiknimyndasögunni Svaðilför í Surtsey varð kastali á leið þeirra sem var gerður eftir raunverulegum kastala í Belgíu. Árið 1950 dvaldi höfundur Tinna bókanna, Hergé, nefnilega oftsinnis í þorpinu Ceroux þar sem Moriensart-turninn er. Hann heillaðist af hönnun turnsins sem er í eigu Gericke d'Herwynen baróns og bað leyfis að fá að nota hann í bókum sínum. Áður en hann fór fékk hann gestabókina lánaða og teiknaði fallega mynd af Tinna og Tobba á rölti frá kastalanum. Sem eðlilegt er og eru d'Herwynen og hans fjölskylda stolt af þessum óvænta heiðri. Fyrir vikið varð kastalinn heimsfrægur og aðdáendur Tinna bókanna leggja gjarnan lykkju á leið sína til að skoða kastalann.
Gestabókssíðan sem um ræðir hefur að sjálfsögðu varðveist og óneitanlega er myndin algjört listaverk eins og Hergé er von og vísa. Fyrir neðan ritaði hann einnig fáein orð til gestgjafanna, ásamt undirskrift sinni, og dagsetninguna 15. apríl 1956.
Kastalinn er byggður á 13. öld og er við Céroux-Mousty, sem er hluti af sveitarfélaginu Ottignies-Louvain-la-Neuve, í héraðinu Walloon Brabant. Það er staðsett um það bil í miðri Belgíu, ef einhver hefur áhuga á að kíkja á staðinn, og þangað kemur fjöldi ferðamanna á ári hverju til að berja kastalann augun. Allt tengist það Tinna bókunum auðvitað.
En það er reyndar ekki allt alveg rétt það sem fram kemur í Morgunblaðinu síðla árs 1994. Hergé notaði kastalann til dæmis ekki sem fyrirmynd að kastalarústunum í bókinni um Svaðilför í Surtsey. Þá sögu teiknaði hann á árunum 1937-38 og fyrirmynd Hergés að kastalanum í Surtsey er að öllum líkindum byggð á nokkrum turnum við strönd bæði Belgíu, Frakklands og Skotlands.  Og þá er það ekki rétt að teikning Hergés sé frá árinu 1950, eins og fram kemur í greininni, heldur 1956 og það sem meira er, hann dvaldi ekki bara eða heimsótti Céroux-Mousty heldur átti hann þar sjálfur hús og bjó þar einfaldlega. Af Moggagreininni mætti hins vegar ráða að Hergé hafi haft viðdvöl nokkrum sinnum í héraðinu og kastalinn hafi fangað athygli hans í eitthvert skiptið. Það er því ljóst að þessi litla fréttaklausa í Mogganum, sem SVEPPAGREIFINN var búinn hafa fyrir að muna eftir í næstum 25 ár, var bara algjört prump að miklu leyti.

En til gamans má geta þess að Hergé keypti hús við Céroux-Mousty, sem var gamalt gistihús í spænskum stíl, árið 1949 og nefndi það La Ferrièresem en það var þá reyndar orðið ansi hrörlegt og lélegt. Hann hafði ákveðnar hugmyndir um hvernig hann vildi breyta því og fór fljótlega að fá iðnaðarmenn til að gera húsið upp. Frá árinu 1953 var hann með skráð lögheimili í húsinu og þar bjó hann að mestu næstu árin.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!