En SVEPPAGREIFINN er mikill kisuvinur. Það eitt er svo sem ekkert endilega tilefni til færslu á myndasögubloggsíðu en ... samt. Umfjöllun um ketti í teiknimyndasögum á líklega alveg jafn mikinn rétt á sér eins og hvað annað. Hér á Hrakförum og heimskupörum hefur til dæmis bæði verið fjallað um tónlist, knattspyrnu og jól í myndasögum. Og af hverju ekki um ketti? SVEPPAGREIFINN minnist reyndar ekki mjög margra katta, í þeim teiknimyndasögum sem voru að koma út hér á landi á árum áður, en þó einhverra. Hin nafnlausa kisa Viggós viðutan er líklega í mestu uppáhaldi hjá honum en af öðrum kunnum köttum þessara myndasagna mætti einnig nefna hinn síamsættaða heimiliskött Myllusetursins og Dúllu hennar Mömmu Döggu Daltón.
Og svo er einn kisi í viðbót sem ekki er hjá komist að nefna. Hann heitir Brandur og er í eigu Kjartans hins illkvittna galdrakarls úr Strumpabókunum eftir belgíska listamanninn Pierre Culliford eða Peyo eins og hann var alltaf kallaður. En Brandur virðist í fljótu bragði vera eini kötturinn úr áðurnefndum teiknimyndasögum, fyrir utan Dúllu, sem hefur yfir alvöru nafni að ráða. Reyndar er Brandur ekki beint réttnefni á kattarkvikindinu því hann er eiginlega eins langt frá því að vera bröndóttur og hægt er. Þvert á móti er kötturinn nefnilega rauðbrúnn á litinn en með hvíta bringu og trýni. Nafngift hans hefur þó ekkert með gáfnafar Kjartans galdrakarls, eiganda hans, að gera heldur hefur þýðanda Strumpabókanna, Jóni Rúnari Gunnarssyni, líklega þótt Brands-nafnið eiga miklu betur við - svona upp á húmorinn að gera. Sem er reyndar bara nokkuð fyndið. Í framhjáhlaupi má til gamans geta þess að Jón heitinn, þýðandi allra gömlu Strumpabókanna, þótti ekki tilhlýðilegt að vera bendlaður við að íslenska þessar bækur og í engum þeirra kemur því nafn hans fram. En af öðrum einkennum í útliti Brands má nefna að í hægra eyra hans er stórt og áberandi bitfar en hvernig það er tilkomið hefur aldrei komið fram í sögunum. Það gerðist líklega löngu áður en hinn illgjarni Kjartan galdrakarl uppgötvaði Strumpana.
En nafn kattarins úr upprunalegu sögunum er hins vegar Azraël sem er hebreska og þýðir "engill dauðans" (sem hljómar reyndar ekkert sérstaklega fallega) og kemur meira að segja úr Kóraninum. Brandur kemur fyrst fyrir í sögunni Strumpaþjófurinn (Le Voleur de schtroumpf - 1959) ásamt eiganda sínum og opinberlega sáust þeir því í fyrsta sinn í SPIROU myndasögutímaritinu þann 10. desember árið 1959. Sú saga kemur meðal annars fyrir í bókinni Svörtu Strumparnir (Les Schtroumpfs noirs) sem Iðunn gaf út á íslenskri þýðingu árið 1979. Kjartan galdrakarl, eigandi Brands, þráir ekkert heitara en að koma höndum yfir Strumpana og nota þá í uppskrift fyrir Heimspekisteininn. Sá eftirsótti gripur getur, samkvæmt byrjun sögunnar um Strumpaþjófinn, breytt öðrum málmum í gull og útskýrir því vel þráhyggju Kjartans galdrakarls fyrir strumpaveiðum hans ef einhver hefur verið í vafa um það. Í fyrstu Strumpasögunum var Brandur reyndar læða en fljótlega breyttist hann í fresskött og hefur verið það alla tíð síðan. Sú kynskiptiaðgerð náði þó aldrei augum íslenskra lesenda enda Brands nafnið öllu karllægara heldur en Azraël. Brandur greyið hefur því alltaf verið karlkyns hér á landi. Þökk sé Jóni þýðanda.
Við þekkjum illgirni Kjartans galdrakarls en Brandur er reyndar ekki síður illkvittinn en eigandi hans. Þeir eiga þó töluvert fleira sameiginlegt. Þeir eru til dæmis báðir frekar fúllyndir og undirförulir, hata Strumpana vegna þess hve ráðagóðir þeir eru gagnvart þeim félögunum og svo eiga þeir einnig ýmislegt meira sameiginlegt annað en það sem varðar gáfnafar, innrætti og skapgerð. Augnaráð þeirra beggja ber augljósan vott um ljótan hug og sérstaklega er lævíslegt augnatillit Brands illilegt. Hann er jafnvel illgjarn á svipinn á meðan hann sefur.
Þó þeir félagar fylgist iðulega að bera þeir samt ekki alveg sama hug hvor til annars. Illkvittni Brands kemur til dæmis vel fram þegar eiganda hans mistekst og það hlakkar auðveldlega í honum við ófarir Kjartans. En það er ekki gagnkvæmt og á hinn bóginn þykir Kjartani galdrakarli nokkuð vænt um Brand þrátt fyrir að vera stundum töluvert ótuktalegur í hans garð. Þær staðreyndir koma reyndar ekkert sérstaklega vel fram í teiknimyndasögunum eftir Peyo en eru þeim mun meira áberandi í einhverjum af hinum fjölmörgu sjónvarpsþáttum sem gerðir voru um Strumpana á 9. áratug síðustu aldar.
Í einum af Strumpaþáttunum fer Brandur að heiman eftir að Kjartan hafði verið eitthvað grimmur og komið illa fram við hann. Galdrakarlinn bregst við því með þunglyndislegri einsemd og depurð og óskar einskis annars en að Brandur birtist aftur. Annað dæmi, um að Kjartani virðist í raun vera töluvert umhugsað um velferð Brands, má nefna að í sögunni Les P'tits Schtroumpfs frá árinu 1988 ákveður Kjartan til dæmis að setja köttinn í bað. Það kemur reyndar fram að það sé í fyrsta sinn í fimm ár þannig að líklega má eitthvað deila um hversu mikla væntumþykju galdrakarlinn beri til Brands. En eins og hjá svo mörgum öðrum köttum er Brandi illa við vatn og baðferð er því ekki ein af hans uppáhalds nautnastundum. Auðvitað bregst Brandur við þeirri raun á hinn versta hátt og flýr út í skóg þrátt fyrir að Kjartan hóti því jafnvel að breyta honum í hund.
Þó þeir félagar fylgist iðulega að bera þeir samt ekki alveg sama hug hvor til annars. Illkvittni Brands kemur til dæmis vel fram þegar eiganda hans mistekst og það hlakkar auðveldlega í honum við ófarir Kjartans. En það er ekki gagnkvæmt og á hinn bóginn þykir Kjartani galdrakarli nokkuð vænt um Brand þrátt fyrir að vera stundum töluvert ótuktalegur í hans garð. Þær staðreyndir koma reyndar ekkert sérstaklega vel fram í teiknimyndasögunum eftir Peyo en eru þeim mun meira áberandi í einhverjum af hinum fjölmörgu sjónvarpsþáttum sem gerðir voru um Strumpana á 9. áratug síðustu aldar.
Í einum af Strumpaþáttunum fer Brandur að heiman eftir að Kjartan hafði verið eitthvað grimmur og komið illa fram við hann. Galdrakarlinn bregst við því með þunglyndislegri einsemd og depurð og óskar einskis annars en að Brandur birtist aftur. Annað dæmi, um að Kjartani virðist í raun vera töluvert umhugsað um velferð Brands, má nefna að í sögunni Les P'tits Schtroumpfs frá árinu 1988 ákveður Kjartan til dæmis að setja köttinn í bað. Það kemur reyndar fram að það sé í fyrsta sinn í fimm ár þannig að líklega má eitthvað deila um hversu mikla væntumþykju galdrakarlinn beri til Brands. En eins og hjá svo mörgum öðrum köttum er Brandi illa við vatn og baðferð er því ekki ein af hans uppáhalds nautnastundum. Auðvitað bregst Brandur við þeirri raun á hinn versta hátt og flýr út í skóg þrátt fyrir að Kjartan hóti því jafnvel að breyta honum í hund.
Þó strumparnir hræðist Brand og líti á hann sem þeirra helstu ógn þá kemur fyrir að þeir þurfi að brjótast út fyrir þægindaramma sinn og ráðast að fyrra bragði beint á þá ógn, þvert gegn vilja sínum. Í Galdrastrumpinum (L'Apprenti Schtroumpf - 1971), sem kom út á Íslandi árið 1980, verður einn strumpanna fyrir því að drekka ólyfjan sem breytir honum í hálfgert skrímsli. Yfirstrumpur bregður á það ráð að búa til mótefni handa honum til að breyta honum aftur í sitt fyrra form en eitt af hráefnunum í galdraseiðið eru þrjú veiðihár af ketti. Strumparnir þurfa því að bregða á það ráð að leita Brand uppi, veiða hann í gildru og eftir stórhættulega viðureign við köttinn tekst þeim að rota hann og klippa hárin af trýni hans.
En Brandur er ekki fullkominn. Þrátt fyrir allt hans grimma eðli og illa innrætti þá er hann ekki óttalaus með öllu. Áður hefur verið minnst á hræðslu hans við vatn og í sögunni um Strumpasúpuna (La Soupe aux Schtroumpfs - 1976) sem út kom á íslensku árið 1980 kemur risi nokkur, Lilli, við sögu. Sá er reyndar sísvangur og gefur í skyn að honum finnist kisur hið mesta lostæti og stingur jafnvel upp á því við Kjartan galdrakarl að gera úr honum kattarsúpu. Lilli lætur Brand heldur betur finna fyrir sér og Kjartan þarf að beita öllum sínum helstu fortölum við að koma í veg fyrir að risinn hreinlega éti Brand á staðnum. Kjartan segir honum að kötturinn gæti jafnvel valdið magapínu, útbrotum, meltingartruflunum, þindarkrampa, ristilstíflu og garnaflækju. Hann gerir þannig allt til að verja Brand fyrir Lilla og sýnir þá um leið óvænta umhyggju fyrir kattagarminum.
Brandur er virkilega skíthræddur við hinn ofvaxna Lilla og undir lok sögunnar þurfa strumparnir ekki nema rétt að minna hann á risann til að reka köttinn á brott. Það er best að láta þessa myndaröð, hér fyrir neðan, setja endapunktinn við færslu dagsins.
Takk. Gaman af þessum pistli. Þakka þér kærlega fyrir virkilega fjölbreytta umfjöllun. Hlakka til næsta pistils.
SvaraEyðaÞakka þér sjálfum enn og aftur :)
SvaraEyðaKv. SVEPPAGREIFINN