2. október 2020

175. SLÚÐURKERLINGARNAR Í SVEPPABORG

Myndasögurnar um Sval og Val eru í uppáhaldi hjá mörgum enda bækurnar frábærar. Margir af kynslóð SVEPPAGREIFANS, og árunum þar um kring, þekkja þessar sögur til hlítar og ylja sér enn við bækurnar sem Iðunn gaf út á sínum tíma. Þær bækur voru eftir þá André Franquin, Jean-Claude Fournier og tvíeykið Tome og Janry en seinna tóku aðrir við keflinu sem íslenskir myndasögulesendur kynntust þó ekki fyrr en Froskur útgáfa hóf aftur útgáfu á sögunum. SVEPPAGREIFINN hefur margoft talað fyrir aðdáun sinni á belgíska listamanninum André Franquin og í færslu dagsins verður þar engin undantekning gerð á. Nú er nefnilega ætlunin að taka aðeins fyrir nokkuð skemmtilegt bakgrunnsefni sem kom reglulega fyrir í Sval og Val bókum Franquins og þeir Tome og Janry endurvöktu síðan seinna í einni sinna sagna. Sveppaborg er sviðsmynd margra bókanna um Sval og Val en þær sögur Franquins sem gerast þar eru einmitt í einna mestu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM. Það er nefnilega þetta vinalega og afslappandi andrúmsloft Sveppaborgar sem þessi frábæri listamaður nær að draga svo vel fram í sögum sínum. Lesendur bókanna fá að kynnast ýmsum íbúum þessa litla sveitaþorps og andinn sem þar ríkir minnir SVEPPAGREIFANN einmitt á andrúmsloft sem hann sjálfur upplifir í litlu fjallaþorpi, í franska hluta Sviss, þar sem hann dvelur reglulega. Í báðum af þessum vinalegu þorpum má finna gömul falleg hús með hellulögðum götum, lítil sem engin bílaumferð er þar, allir íbúarnir þekkjast, allir heilsast og eldri húsmæður stinga saman nefjum á næsta götuhorni eftir innkaupaferð dagsins.
Og það er einmitt þar sem ætlunin er að grípa aðeins niður í þetta fyrrnefnda bakgrunnsefni. Hér er nefnilega um að ræða tvær slúðrandi húsmæður sem sjást reglulega í bakgrunninum í þeim Sval og Val bókum Franquins sem gerast í Sveppaborg. Þetta eru þó ekki einu leyndu bakgrunns- eða hliðarpersónurnar sem sjást í bókum listamannsins því svipaða sögu má einnig segja um ungan pilt, Le Petit Noël (Jóli litli), sem bregður líka aðeins fyrir í sögunum. SVEPPAGREIFINN hefur aðeins minnst á hann áður í færslu hér. En kjaftakerlingarnar tvær frá Sveppaborg sjást einnig reglulega í seríunni þó ekki séu þær mjög áberandi. Líklega hafa því fæstir lesendur Sval og Val tekið eftir þeim þó þeir hafi flett þessum myndasögum sínum ótal sinnum í gegnum tíðina.
Þessar tvær eldri konur birtust fyrst í sögunni Le prisonnier du Bouddha (Fanginn í styttunni - 1981) sem kom út í bókaformi árið 1960. Þar sjást þær stinga saman nefjum sínum lengst til vinstri á  fyrstu mynd sögunnar (hér fyrir ofan) en í þessum sama myndaramma sést einnig áðurnefndur Jóli litli, í forgrunni myndarinnar, þar sem hann kemur gangandi í áttina að ritfangaverslun bæjarins. Þessari mynd var að sjálfsögðu fyrst og fremst ætlað að vera upphafsrammi sögunnar og sýna daglegt líf á götum þessa vinalega sveitaþorps. Þarna er Jóli litli í sendiferð fyrir borgarstjórann, laus hundur í leit að matarbita, hefðbundnir íbúar Sveppaborgar ýmist á röltinu um hellulagðar göturnar eða fólk að hitta nágranna sína og spjalla aðeins saman á næsta götuhorni - einmitt eins og konurnar tvær eru að gera. Ekkert af þessu skiptir máli fyrir söguna sjálfa annað en til að sýna andrúmsloftið í þessu rólega sveitaþorpi. Þetta er því í raun bara sviðsmynd fyrir upphaf hennar. Annars er líka ekki hjá því komist að nota tækifærið og benda einnig á það í leiðinni hve þessi fyrsti myndarammi Fangans í styttunni er glæsilega uppbyggður.
Næsta bók seríunnar var sagan Z comme Zorglub (Z fyrir Zorglúbb - 1981) en í henni eru kerlingarnar tvær þó hvergi sjáanlegar. Samt gerist sagan að stórum hluta í Sveppaborg og í nágrenni hennar, við höll Sveppagreifans, en leiða má líkum að því að Franquin hafi ekki ætlað þessum tveimur húsmæðrum neitt frekara hlutverk í seríunni. Þær voru jú í fyrstu líklega bara ætlaðar sem hluti af bakgrunni upphafsmyndar bókarinnar á undan. Slúðurkerlingarnar tvær birtast þó aftur strax í næstu sögu þar á eftir, L'ombre du Z (Með kveðju frá Z - 1982) frá árinu 1962, sem er í raun seinni hluti Z fyrir Zorlúbb og gerist því í beinu framhaldi af henni. Hér koma þeir Svalur, Valur og Sveppagreifinn aftur til Sveppaborgar (bls 4) eftir heimkomuna frá Zorumbíu og þá blasa við þeim lamaðir íbúar bæjarins eftir bæjarrúnt R-200 (Njarðar lögregluþjóns) sem enn gengur þá laus í nágrenninu. Á myndinni hér fyrir ofan má einmitt sjá kerlingarnar tvær á meðal þeirra sem orðið hafa fyrir Zor-geislum Njarðar. Glöggir lesendur geta þarna eflaust líka þekkt hundinn sem gengur laus á fyrstu myndinni í Fanganum í styttunni og minnst var á hér ofar í færslunni. Líkt og kjaftakerlingarnar tvær bregður honum einnig reglulega fyrir í þeim bókum um Sval og Val sem gerast í Sveppaborg. En hvað konurnar varðar þá koma þær fyrir á heilum fjórum myndarömmum í þessari sögu, Með kveðju frá Z, og því orðið nokkuð ljóst að þær eru komnar til að vera.
Næst koma þær fyrir á blaðsíðu 19 í bókinni. Þetta gerist degi seinna og þarna hafa þeir Svalur, Valur og Sveppagreifinn gert stórátak í að endurlífga borgarana og allt virðist vera fallið aftur í ljúfa löð. Helstu íbúar Sveppaborgar hittast því úti á götu til að fara yfir og ræða atburði síðustu daga og slúðurkerlingarnar tvær eru þar engin undantekning. Þær hafa eflaust haft um nóg að spjalla í þetta skiptið. Strax á næstu síðu birtast þær síðan á ný. Tíminn hefur liðið nokkuð og aldrei þessu vant er hlaupið hratt yfir sögu því að á þeirri mynd eru liðnir nokkrir mánuðir frá þessum eftirminnilegu atburðum. Þarna sést í forgrunninum þegar glæsibifreið Zorglúbbs, Citroen DS árgerð 1962, keyrir skyndilega í gegnum bæinn og auðvitað sjást kjaftakerlingarnar tvær stinga saman nefjum, þar sem þær skiptast á slúðursögum, lengst til hægri á myndinni.
Enn á ný birtast þær í Með kveðju frá Z og að þessu sinni á blaðsíðu 28. Núna virðast kerlingarnar þó ekki vera búnar að versla en eru þó líklega á leiðinni í innkaupaleiðangur. Innkaupatöskurnar eru tómar og netpokinn, sem sú með hattinn er ætíð vopnuð með, er sennilega enn í töskunni hennar. Þarna birtist Zorglúbb skyndilega á eldsneytislausri Zor-flugu og stefnir beint á kjaftakerlingarnar. Í íslensku útgáfunni af sögunni öskrar Zorglúbb upp yfir sig "Geta þessar kjaftakerlingar ekki flutt sig til?!!" en í upprunalegu frönsku útgáfunni kallar hann hins vegar eitthvað á þá leið, "Ó, nei! Ég mun lenda á þessum fáránlega hlut!!" og á þá auðvitað við styttuna af borgarstjóranum. Það má því gera ráð fyrir að það sé einungis í íslensku þýðingunni af Með kveðju frá Z þar sem minnst er á konurnar tvær í allri Sval og Val seríunni og bent á tilvist þeirra.
Slúðurkerlingarnar tvær koma næst fyrir í bókinni Panade à Champignac (Svaðilför til Sveppaborgar - 1979) sem gefin var út í bókarformi árið 1968 en sú saga gerist að megninu til í Sveppaborg eins og nafn hennar gefur augljóslega til kynna. Sú saga hefst reyndar á ritstjórnarskrifstofu SVALS blaðsins en þeir félagar Svalur og Valur drífa sig í sveitina snemma í bókinni og koma til Sveppaborgar neðst á blaðsíðu 7. Valur bregður sér inn í ritfangaverslunina og á einni myndinni má einmitt sjá nokkurn veginn sama sjónarhornið og sést á fyrsta myndarammanum úr Fanganum í styttunni sem nefnd var efst í þessari færslu. Á myndinni má aftur þekkja ritfangaverslunina, sömu húsin, skiltið og jafnvel Jóli litli er á ferðinni líkt og á hinni myndinni. Og ... lengst til vinstri á myndinni sést einmitt glitta í aðra kjaftakerlinguna þar sem hún stendur á sama götuhorninu og áður og er þar augljóslega að spjalla við vinkonu sína sem er þó reyndar í hvarfi.
Á næstu blaðsíðu sést síðan önnur mynd þar sem sjónarhornið er sýnt alveg úr hinni áttinni en á þeirri mynd sjást kerlingarnar tvær, lengst til hægri, stinga saman nefjum líkt og svo oft áður.
Svaðilför til Sveppaborgar, ásamt aukasögunni Aparnir hans Nóa (Bravo les Brothers), voru síðustu sögur Franquins um þá Sval og Val en eftir þetta sneri hann sér nær eingöngu að Viggó viðutan. Franski listamaðurinn Jean-Claude Fournier tók nú við keflinu og teiknaði næstu níu bækur í seríunni fram til ársins 1979 en kjaftakerlingarnar tvær komu ekkert við sögu í hans tíð. Í sögum Fourniers kemur Sveppagreifinn heldur minna við sögu og þar af leiðandi eru þeir Svalur og Valur ekki mikið á ferðinni í Sveppaborg. Eins komu þær heldur ekkert við sögu tvíeykisins Nic og Cauvin en árið 1984 kom út fyrsta saga Tome og Janry um Sval og Val. Alls gerðu Tome og Janry fjórtán bækur um þá félaga og Sveppaborg kemur nokkuð við sögu í eldri sögum þeirra en það er aðeins í sögunni Le Rayon noir frá árinu 1993 sem kerlingarnar sjást á ný. Bókin hefur ekki komið út á íslensku en hefur verið nefnd Blökkugeislinn þegar hún hefur komið til umræðu Sval og Val sérfræðinga hérlendis. Á blaðsíðu 10 í bókinni sjást þær, í bakgrunninum á einni myndanna, stinga saman nefjum við aðalgötuna í Sveppaborg. Þarna hefur fangaflutningabíll lent í árekstri og nokkrir íbúar Sveppaborgar, með borgarstjórann og Kristján Dýrfjörð í forgrunni, fylgjast með.
Sennilega hafa þeir Tome og Janry ekki verið búnir að uppgötva eða hreinlega ekki áttað sig á tilvist kvennanna tveggja í seríunni fyrr en á þessum tímapunkti. En skömmu síðar verður Svalur óvart fyrir geislum nýjustu uppfinningar Sveppagreifans, sem þá er nýfarinn að heiman, en tækið gerir það að verkum að fólk breytir um litarhaft og verður dökkt á hörund. Hann lendir síðan í vandræðum með að útskýra fyrir lögreglu að hann sé ekki með stolin skilríki þegar myndin í blaðamannaskirteininu passar ekki við útlit hans. Svalur rétt missir af Sveppagreifanum (bls 18), sem er á leiðinni með áætlunarbílnum til kollega síns í borginni, en Greifinn gæti útskýrt fyrir lögreglunni hver hann er í raun og veru. Aftast í rútunni má sjá hvar Sveppagreifinn hefur komið sér fyrir en í sætunum fyrir framan hann sitja kjaftakerlingarnar tvær og skiptast á slúðursögum.
Og undir lok bókarinnar Le Rayon noir birtast konurnar tvær svo í þriðja sinn í sögunni. Eftir heilmikið ævintýri, þar sem þetta tæki Sveppagreifans, Don Vito Cortizone og hálfgert stríðsástand með kynþáttafordómum koma helst við sögu, nær hið afslappaða og rólega andrúmsloft aftur yfirhöndinni í Sveppaborg. Lífið á götum bæjarins kemst aftur í réttar skorður og á blaðsíðu 46 eru kerlingarnar tvær enn á ný mættar á götuhorninu sínu til að slúðra um helstu mál Sveppaborgar. Í fyrsta sinn eru konurnar þó ekki of uppteknar við að stinga saman nefjum sínum heldur virðast þær þarna loksins gefa sér aðeins tíma til að líta svolítið upp og fylgjast með því sem er að gerast í kringum þær. Og þarna eru þær augljóslega búnar að versla ...

2 ummæli:

  1. Virkilega skemmtilegur pistill. Mér finnst Sveppaborgin alveg heillandi.
    Eru einhver svæði sem maður ætti að ferðast til til að sjá bæji í þessum stíl?

    SvaraEyða
  2. Þakka þér :)

    Mig minnir að hafa lesið um það að Sveppaborg sé byggð á einhverjum litlum sveitaþorpum eða bæjum í Frakklandi þó svo að bærinn eigi, samkvæmt sögunum, að vera í Belgíu. Sjálfsagt er fullt af samskonar sveitaþorpum út um alla Evrópu en ég er viss um að það myndi vera mjög heillandi að ferðast um suður- og suðausturhluta Frakklands. Þar er örugglega allt morandi í svona þorpum.

    Annars er einhver staðar á lista hjá mér að fjalla um Sveppaborg í færslu hér :)

    Kv.
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!