Það var árið 1975 sem myndasöguútgefandinn Raymond Leblanc og Guy Dessicy, sem lengi starfaði hjá Hergé Studios, fengu þá hugmynd að koma Hergé (Georges Remi) á óvart á þrjátíu ára afmæli Tinna tímaritsins - Le journal de Tintin. Af því tilefni fengu þeir belgíska myndhöggvarann Nathanael Neujean til að gera bronsstyttu af þeim Tinna og Tobba í fullri stærð en Neujean þessi hafði reyndar gert brjóstmynd af Tinna árið 1954 að eigin frumkvæði. Fáeinum árum seinna gerði hann einnig brjóstmynd af Hergé sjálfum. Styttuna af Tinna hafði Neujean gefið Hergé en hún var jafnan geymd á vinnustofu hans í Hergé Studios og sést á mörgum myndum sem birst hafa þaðan. Þessi brjóstmynd af Tinna hefur verið staðsett á Tinna safninu í Brussel síðan það var opnað.
En Nat Neujean vann og lauk við frumgerðina af Tinna og Tobba bronsstyttunni á nokkrum mánuðum. Styttan var í heildina 186 sentimetrar á hæð en hún sýnir Tinna standandi með hendur í vösum og Tobba sitjandi fyrir aftan vinstri fót hans. Henni var komið fyrir í Wolvendael garðinum í útborginni Uccle, sem er lítið sveitafélag sem tilheyrir Brussel, og stóð á múrsteinshlöðnum stalli á áberandi og friðsælum stað í fallegu rjóðri. Margir þekkja eflaust eða muna eftir gömlum ljósmyndum, sem hafa birst af Hergé í gegnum tíðina, þar sem hann stendur stoltur við hlið þessarar frægu styttu í Wolvendael. Þessi mynd er frá árinu 1979 þegar Tinni var fimmtíu ára.
Styttan var vígð við hátíðlega athöfn þann 29. september árið 1976. Það var töluvert fjölmenni við vígslu þessa minnisvarðar og heilmikið af alls konar húllumhæi í kringum hana með viðeigandi ræðuhöldum. Hergé sjálfur mætti auðvitað ásamt listamanninum Neujean en auk þess voru viðstödd fyrirmenni, af margvíslegum toga, með menningarmálaráðherra Belgíu fremstan í flokki og fjölmargir áhorfendur. Hljómsveit í gervi lúðrasveitarinnar að Myllufossi spilaði við athöfnina og fjöldi manns klæddi sig upp með grímum af ýmsum, kunnum persónum úr Tinnabókunum. Þegar Hergé var að halda þakkarræðu sína tók hins vegar að hellirigna en lúðrasveitin náði þó að spila fáein lög áður en þorri gestanna hafði hlaupið í skjól og athöfnin lognaðist sjálfkrafa útaf.
Þessi glæsilega stytta fékk þó ekki að standa í Wolvendael almenningsgarðinum til frambúðar. Hún varð sífellt fyrir árásum skemmdarvarga en auk þess voru gerðar allnokkrar tilraunir til að nema hana á brott. Margoft var búið að gera tilraunir til að reyna að spenna hana lausa og eina nóttina, seint á níunda áratug síðustu aldar, hafði einhverjum bíræfum styttuþjófum jafnvel tekist að losa níðþunga styttuna alveg af stalli sínum. En ekki höfðu þeir þó haft erindi sem erfiði við að brölta henni inn í farartækið sem þeir höfðu meðferðis. Og nokkrum mánuðum áður hafði einhverjum húmoristum dottið í huga að mála Tobba skærbleikan svo fátt eitt sé nefnt. Það fór því svo, skömmu fyrir aldamótin, að styttan var að lokum fjarlægð úr garðinum og komið fyrir innandyra í aðalrými menningarmiðstöðvar Uccle þar sem hún gleður gesti og gangandi enn þann dag í dag. Þetta er svo sem ekki ákjósanlegasti staðurinn fyrir svo frægt og fallegt verk en yfirvöld áttu ekki annarra kosta völ ef tryggja átti öryggi hennar og tilveru til frambúðar.
Nat Neujean var mjög kunnur listamaður í Belgíu og Tinna verkin hans eru á meðal þeirra allra þekktustu en hann lést árið 2018. Myndhöggvarinn gerði nokkur eintök af bronsstyttunni, hugsanlega fimm stykki, og líklega voru þau viðfangsefni í eitthvað mismunandi stærðum. Ekki gat SVEPPAGREIFINN þó fundið hvort gerðar voru afsteypur af frumgerðinni eða hvort eingöngu voru gerðar afsteypur af hinni/hinum útgáfunum. Einhverjar styttanna hafa verið í einkaeigu í gegnum tíðina og hafa selst á uppboðum fyrir tugi milljóna á undanförnum árum.
Árið 1985, tveimur árum eftir dauða Hergé, birtist tveggja síðna teiknimyndasaga í aukablaði Tinna tímaritsins (Le Journal de Tintin) sem nefndist Super Tintin og var hið 28. í röðinni. Sagan hét Les Gorilles de la Vedette og var eftir listamanninn Bob de Moor en hann var einmitt ein af hægri höndum Hergé á vinnustofum Hergé Studios eins og líklega flestir vita. De Moor starfaði við og átti þátt í mörgum af sögunum um Tinna, þó Hergé hefði jafnan verið skráður eini höfundur þeirra, og margir vilja meina að hann hefði auðveldlega getað tekið við að teikna seríuna áfram eftir að Hergé lést. Úr því varð þó aldrei. En í þessari tveggja síðna örsögu, Les Gorilles de la Vedette, fékk Bob de Moor samt aðeins tækifæri til að láta ljós sitt skína. Sagan er byggð á nokkrum persónum Tinna bókanna þar sem Skaftarnir leika reyndar aðalhlutverkin en í lok hennar kemur einmitt vígsla bronsstyttunnar í Wolvendael garðinum við sögu. Les Gorilles de la Vedette er byggð upp sem einhvers konar stutt ferðalag, yfir sögu Tinna bókanna, þar sem Skaftarnir gerast lífverðir Tinna en eru alltaf skrefinu á eftir við að vernda hann fyrir æstum aðdáendum. Fyrst missa þeir af Tinna þegar hann er að koma heim frá Sovétríkjunum (að sjálfsögðu í svart/hvítu), þeir fara á mis við hann í Kongó og þegar Tinni fer til Indlands eru Skaftarnir óvart í Ameríku. Og svona gengur sagan þar til í lokin þegar þeir ná að endingu að halda í við hann. Þá finna þeir Tinna (sem er þá auðvitað styttan af honum) loksins í Wolvendael garðinum og sleppa ekki af honum takinu!
Skemmtilegur pistill. Það er á listanum hjá mér að skoða Tinna safnið við tækifæri.
SvaraEyðaTakk fyrir, Rúnar. Hef ekki enn látið verða af því að skreppa til Belgíu en Tinna safnið verður klárlega heimsótt þegar að því kemur.
SvaraEyðaKveðja,
SVEPPAGREIFINN