23. október 2015

2. SKEGG SKAFTANNA

Fólk er misjafnlega áhugasamt um teiknimyndasögur og sér þær líklega á jafn ólíkan hátt eins og það er margt. Þ.e.a.s. fólkið. Flestir lesa myndasögur sér til skemmtunnar, þegar það nær til þeirra, á meðan aðrir hafa sökkt sér í þær af fullum þunga í áratugi jafnvel og kunna þær helstu nánast utan að. Sú teiknimyndasöguáhugamannatýpa á helst allt sem út hefur komið í myndasöguformi, á mörgum tungumálum, allar útgáfur af hverri bók, fer á myndasöguráðstefnur og skiptist á gripum við sambærilega erlenda teiknimyndasöguáhugamannatýpur. Þess konar áhugafólk má líklega með réttu kalla myndasögunörda, safnara, Tinnafræðinga eða hvað það nú heitir allt saman. SVEPPAGREIFINN er sko ekki einn af þeim. Nei nei, sei sei...

En þetta var ekki það sem SVEPPAGREIFINN ætlaði að tuða um í þessari færslu. Meginefni þessarar færslu átti að fjalla um skegg Skaftanna í Tinnabókunum og hversu vel fólk er að sér um útlit þeirra. Já, einmitt! Hvernig skegg Skaftanna lítur út! Þannig var hugmyndin að koma því að í byrjun að líklega væru ekki allir sem vissu eða hefðu tekið eftir því að yfirvaraskegg þeirra væri ekki eins og því væri á einfaldan hátt hægt að þekkja þá í sundur. Tinnafræðingar vita þetta auðvitað og líklega flestir sem eru sæmilega vel að sér í myndasögum.
En alla vega... Skaftarnir, eins og þeir nefnast á íslensku, heita náttúrulega Skafti og Skapti eins og allir vita og lögun skeggja þeirra eru, eins og áður segir, ekki eins. Skeggið á Skafta er slétt á hliðunum á meðan skeggið á Skapta er uppbrett á hliðunum. Reyndar hefur verið bent á villur í einhverjum Tinnabókanna (til dæmis í Eldflaugastöðinni) þar sem nöfn Skaftanna, ja eða skegg þeirra, hafi víxlast. Að öðru leyti er lítill eða enginn sjáanlegur munur á útliti þeirra.
Annars er ekki úr vegi að SVEPPAGREIFINN bjóði upp á smá fróðleik um Skaftanna fyrst hann er farinn að eyðu skrifum sínum í þessa vitleysu. Skaftarnir koma fyrir í 20 af 24 Tinnabókum og sjást til dæmis strax á fyrstu mynd í Tinna í Kongó en reyndar ekkert meira í þeirri bók. Og í upphaflegu svart/hvítu útgáfunni af Tinna í Kongó eru þeir meira að segja ekki með. Þeir sjást öðru hvoru eitthvað í fyrstu bókunum og upphaflega komu þeir fyrst fyrir í Vindlum Faraós en nöfn þeirra koma þó ekki fyrst fram fyrr en í Veldisprota Ottókars sem er bók númer 8 í flokknum. Þeir eru auðvitað háleynilegir eða réttara sagt leynleguháir rannsóknarlögreglumenn sem bera einkennisnúmerin X33 og X33b. Skaftarnir eru ekki beint kunnir af gáfum sínum og sú almenna regla leynilögreglumanna um að láta fara lítið fyrir sér er ekki beint sterkasta hlið Skaftanna. Einhver myndi líklega orða það þannig að þeir væru alveg heimskir. Þeir klæðast iðulega svörtum jakkafötum og breskum harðkúluhöttum í stíl og þegar þeir dulbúast eru þeir jafnvel enn meira áberandi.
Skaftarnir eru ekki tvíburar eins og flestir munu líklega halda og reyndar ekki einu sinni bræður. En þrátt fyrir það voru faðir Hergés, Alexis Remi og tvíburabróðir hans Leon Remi fyrirmyndir hans að Sköftunum. Þeir voru báðir með lúðalegt yfirvaraskegg, klæddust eins og notuðu ýmist harðkúlu- eða stráhatta, svo ekki sé minnst á reyrprik eða regnhlíf.
Nöfn Skaftanna eru Dupont og Dupond á frummálinu, frönsku, en á mörgum öðrum tungumálum eru þau frekar ólík og langt frá upphaflegu nöfnunum. Þannig heita þeir Thomson og Thompson á ensku, Schultze og Schulze á þýsku, Hernández og Fernández á spænsku o杜邦 og 杜 帮 á kínversku. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!