SVEPPAGREIFINN má til með að minnast aðeins á stórkostlegar hollenskar teiknimyndasögur, sem komu út á íslensku seint á áttunda áratug síðustu aldar og fjölluðu um leiki og störf fótboltafélagsins Fals. Bækurnar sem komu út hér á landi voru alls þrjár og voru fyrstu þrjár bækurnar úr flokknum en ungur menntaskólanemi Ólafur Garðarsson, sem rakst á þessar bækur á ferðalagi í Austurríki, sá um að snara sögunum yfir á íslensku fyrir Örn & Örlyg. Þetta voru einu teiknimyndasögurnar sem sú bókaútgáfa gaf út en annars einokuðu aðallega Iðunn og Fjölvi íslenska myndasögumarkaðinn á þessum tíma, utan þess sem Setberg gaf út bækurnar um Steina sterka. Bækur númer eitt (Fótboltafélagið Falur) og þrjú (Falur á Íslandi) þýddi Ólafur úr þýsku en bók númer tvö (Falur í Argentínu) þýddi hann beint úr hollensku. Sú bók kom víst aldrei út í þýskri þýðingu og neyddist Ólafur því til að stauta sig fram úr hollensku frumútgáfunni með hjálp orðabókar. Þær myndasögur sem verið var að gefa út á Íslandi á þessum árum voru langflestar belgískar eða franskar og voru því prentaðar í samvinnu við útgáfur á hinum Norðurlöndunum en þessar hollensku bækur höfðu þá sérstöðu að vera eingöngu prentaðar fyrir Örn og Örlyg á Ítalíu. Og heimildir herma reyndar að Fals bækurnar hafi aldrei verið gefnar út á hinum Norðurlöndunum. Fals bækurnar seldust vel á Íslandi en þó varð ekki framhald á útgáfu þeirra. Ólafur Garðarsson var önnum kafinn og sneri sér að öðrum hlutum en hann lagði síðar stund á lögfræði og gerðist löngu seinna umboðsmaður margra af bestu knattspyrnumönnum Íslands. Það má því kannski segja að sú reynsla sem hann öðlaðist með þýðingu á Fals bókunum hafi komið honum að góðum notum við sölur á leikmönnum seinna.
Höfundur þessa bóka heitir Toon van Driel en upphaflega hugmyndin að sögunum kom frá grínistanum John le Noble. Saman voru þeir því skrifaðir fyrir bókunum og kölluðu sig einfaldlega Joop & Toon. Fyrstu þrjár bækurnar komu út árið 1978 en frá árinu 1973 höfðu fyrst birst reglulega, í dagblaðinu Algemeen Dagblad, brandarar um Fal (á frummálinu FC Knudde).
Eins og áður segir komu þrjár af þessum myndasögum út á gullaldartímabili útgáfu teiknimyndasagna á Íslandi og voru það þrjár fyrstu sögurnar í þessum flokki en í heildina eru þær víst orðnar vel á fjórða tug talsins í dag. Myndasögur þessar þóttu með eindæmum fyndnar og vitlausar en reyndar um leið alveg óskiljanlega illa teiknaðar. Sögurnar þrjár hafa verið ófáanlegar hér á landi í mörg ár og eru gríðarlega eftirsóttar af íslenskum aðdáendum sem muna enn eftir uppátækjum liðsmanna fótboltafélagsins.
Stjörnur liðsins voru af margvíslegum toga og hetjur eins og Fauti fantur, Marínó-Marínó Sólbrendó og Baldvin Veitvel voru á meðal mikilvægustu leikmanna liðsins. Fauti fantur þótti nokkuð harðfylginn á velli, eins og nafnið bendir líklega svolítið til, og var almennt ekki beint talað um hann sem skarpasta hnífinn í skúffunni en það átti reyndar við um flesta aðra leikmenn fótboltafélagsins Fals. Aðeins Baldvin Veitvel taldist "gáfaður" enda var hann heili liðsins.
Marínó-Marínó Sólbrendó var keyptur frá Suður Amerísku liði (eins og nafnið gefur til kynna) en eina markmið hans á vellinum virtist hafa verið að passa upp á hárgreiðsluna sína. Hann hefur því verið langt á undan sinni samtíð og eflaust fyrirmynd margra kunna knattspyrnumanna sem seinna komu fram á sjónarhornið.
Sem aðra leikmenn liðsins má nefna fyrirliðann Berta, Dagsson markvörð og tvíburana Jóa ljón og Sela en Fals liðið var einnig svo vel búið að hafa til aðstoðar sálfræðinginn dr. Sigmund Svefnþurfi, st. bernharðshundinn Snata (hans hlutverk í bókunum var reyndar svolítið óráðið) og svo auðvitað kínverjann Lin Pí-anó sem annaðist þvottinn á búningunum.
Falur á Íslandi var ansi frjálsleg á köflum og farið með ýmsar íslenskar "staðreyndir" á undarlegan hátt en um leið má alveg viðurkenna að glöggt er gests augað. Þar er til að mynda minnst á að Íslendingar eigi svo mikið af heitu vatni (hverirnir) að þeir geti sprautað því upp í loftið að vild en einnig er nefnt að verðbólgan sé 800% (bókin er teiknuð á miklum verðbólgutímum) og öllum sé sama. Reyndar verður að taka tillit til þess að þýðandi bókanna, Ólafur Garðarsson, hefur viðurkennt að hafa verið nokkuð frjálslegur við þá vinnu.
Í þeirri bók var leikmönnum Fals ráðlagt, af þjálfara liðsins, að búa sig vel undir ferðina til Íslands og eins og sjá má af myndunum hér fyrir neðan tóku liðsmenn þeim ábendingum nokkuð alvarlega.
Í bókinni Falur í Argentínu var liðið sent á HM í Argentínu (1978) í fjarveru hollenska landsliðsins og auðvitað unnu þeir keppnina þar. Fyrir mótið var þjálfarinn reyndar gagnrýndur harðlega fyrir hvað hann þótti linur.
SVEPPAGREIFINN bendir öllum á að verða sér úti um eintök af þessum bókum því það er margt vitlausara sem hægt er að eyða tíma sínum eða aurum í. Sagt er að forfallnir íslenskir Fals aðdáendur hafi borgað 5000 kall fyrir góð eintök af bókinni. Sjálfsagt má finna eitt og eitt eintak í hinum og þessum geymslum og háaloftum landsmanna en annars má einnig eflaust, með smá þolinmæði, finna gömul og slitin eintök í Kolaportinu eða Góða hirðinum - bestu bókabúðinni í bænum. Góða skemmtun!
Sem aðra leikmenn liðsins má nefna fyrirliðann Berta, Dagsson markvörð og tvíburana Jóa ljón og Sela en Fals liðið var einnig svo vel búið að hafa til aðstoðar sálfræðinginn dr. Sigmund Svefnþurfi, st. bernharðshundinn Snata (hans hlutverk í bókunum var reyndar svolítið óráðið) og svo auðvitað kínverjann Lin Pí-anó sem annaðist þvottinn á búningunum.
Falur á Íslandi var ansi frjálsleg á köflum og farið með ýmsar íslenskar "staðreyndir" á undarlegan hátt en um leið má alveg viðurkenna að glöggt er gests augað. Þar er til að mynda minnst á að Íslendingar eigi svo mikið af heitu vatni (hverirnir) að þeir geti sprautað því upp í loftið að vild en einnig er nefnt að verðbólgan sé 800% (bókin er teiknuð á miklum verðbólgutímum) og öllum sé sama. Reyndar verður að taka tillit til þess að þýðandi bókanna, Ólafur Garðarsson, hefur viðurkennt að hafa verið nokkuð frjálslegur við þá vinnu.
Í þeirri bók var leikmönnum Fals ráðlagt, af þjálfara liðsins, að búa sig vel undir ferðina til Íslands og eins og sjá má af myndunum hér fyrir neðan tóku liðsmenn þeim ábendingum nokkuð alvarlega.
Í bókinni Falur í Argentínu var liðið sent á HM í Argentínu (1978) í fjarveru hollenska landsliðsins og auðvitað unnu þeir keppnina þar. Fyrir mótið var þjálfarinn reyndar gagnrýndur harðlega fyrir hvað hann þótti linur.
SVEPPAGREIFINN bendir öllum á að verða sér úti um eintök af þessum bókum því það er margt vitlausara sem hægt er að eyða tíma sínum eða aurum í. Sagt er að forfallnir íslenskir Fals aðdáendur hafi borgað 5000 kall fyrir góð eintök af bókinni. Sjálfsagt má finna eitt og eitt eintak í hinum og þessum geymslum og háaloftum landsmanna en annars má einnig eflaust, með smá þolinmæði, finna gömul og slitin eintök í Kolaportinu eða Góða hirðinum - bestu bókabúðinni í bænum. Góða skemmtun!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Út með sprokið!