7. maí 2017

11. TINNI Í SOVÉTRÍKJUNUM LOKSINS Í LIT

Fyrsta Tinna sagan, Tinni í Sovétríkjunum er merkileg saga. Hún birtist, eins og allar fyrstu Tinna sögurnar, í belgíska barnatímaritinu Le Petit Vingitéme en aldrei var hún gefin út í því sama bókarformi og hinar sögurnar fengu að njóta. Höfundurinn Hergé endurteiknaði og litaði allar fyrstu Tinna bækurnar, nema Tinna í Sovétríkjunum, en frá og með Dularfullu stjörnunni, sem var sú tíunda í röðinni, komu bækurnar strax út í bókarformi í litum og í tiltölulega endanlegri mynd. 

SVEPPAGREIFINN hefur velt því aðeins fyrir sér hvernig bókin Tinni í Sovétríkjunum hefði litið út ef hún hefði verið endurteiknuð og lituð á sama hátt og hinar sögurnar með Tinna. Líklega hefði það alltaf orðið lélegasta Tinna bókin. Atburðarásin er svo einföld og hröð að það hefði þurft að bæta og breyta sögunni töluvert mikið til að eitthvað yrði í hana varið. Og líklega hefur Hergé séð hana einhvern veginn þannig líka. En SVEPPAGREIFINN er samt á þeirri skoðun að gaman væri að sjá hana í sama útlitsformi og hinar, þó ekki væri innihaldið merkilegt.
Sagan var reyndar gefin út í um 10.000 eintökum í frekar frumstæðu bókarformi árið 1930 og þar af voru fyrstu 500 eintökin númeruð og árituð. Hergé sjálfur sá um að kvitta fyrir Tinna en fyrir Tobba sá ungur ritari, Germaine Kieckens, um að skrifa hans nafn. Kieckens þessi varð síðar fyrri eiginkona Hergés. Nokkrum sinnum á 4. og 5. áratug síðustu aldar fékk Hergé beiðnir um að Tinni í Sovétríkjunum yrði gefin út í bókarformi en ávallt var hann tregur til þess og hafnaði öllum þeim óskum. Ein þeirra beiðna snerist um að nota söguna í pólitískum tilgangi, í miðri Síðari heimsstyrjöldinni, sem áróður gegn Sovétmönnum. Hergé taldi söguna alltaf of grófa og eiginlega eins konar bernskubrek sem hefði ekkert sammerkt með hinum bókunum og ætti því lítið erindi, hvorki við aðdáendur Tinna né almenning.

Árið 1969 sendi þó Hergé Studios frá sér 500 tölusett eintök í tilefni 40 ára afmælis Tinna. Ekki er SVEPPAGREIFANUM reyndar alveg kunnugt um hvers konar útgáfu var að ræða með þessum 500 eintökum, hvort þau fóru í almenna sölu eða hvort þau voru aðeins selt eða dreifð ákveðnum aðilum.
Í það minnsta fór í kjölfarið af stað holskefla ólöglegra sjóræningjaútgáfa eða eftirprentana af bókinni og talað hefur verið um að hægt hafi verið að nálgast 9 mismunandi útgáfur af henni. Hergé reyndi í fyrstu að fara í mál við þá aðila sem náðist í og prentuðu eða létu prenta þessar ólöglegu útgáfur en hafði ekki erindi sem erfiði. Og að endingu samþykkti Hergé útgáfuna og gaf leyfi fyrir því að bókin kæmi út í endurbættu formi árið 1973. Báðar tölusettu útgáfurnar (þessi frá 1930 sem var einnig árituð af Tinna og Tobba, sem og hin frá árinu 1969) eru gríðarlega eftirsóttar og hafa verið seldar fyrir marga, marga peninga í gegnum tíðina.

Og í ársbyrjun 2017 kom Tinni í Sovétríkjunum loksins út í litum. Hún hafði reyndar verið aðgengileg í nokkur ár í ólöglegri útgáfu og SVEPPAGREIFINN minnist þess að hafa rennt í gegnum hana litaða á Netinu fyrir allnokkrum árum. En það var sem sagt þann 11. janúar árið 2017, daginn eftir 88 ára afmæli Tinna, sem Hergé Studios kynnti í fyrsta sinn opinbera útgáfu af Tinna í Sovétríkjunum í lit.
Michel Bareau, listrænn stjórnandi Hergé Studios, hafði umsjón með þessu verkefni ásamt Nadége Rombaux en undir ströngu eftirliti Fanny Rodwell ekkju Hergés (seinni konu) og höfundarétthafa Tinna bókanna. Litun bókarinnar tók um 18 mánuði og var verkið unnið eftir nákvæmum leiðbeiningum og rannsóknum á því hvernig Hergé sjálfur hefði staðið að því. Og auðvitað var einnig, svona samkvæmt venju, líka gefin út tölusett viðhafnarútgáfa svona fyrir þá sem hafa áhuga á að safna svoleiðis dóti. Litaða útgáfan af Tinna í Sovétríkjunum kom í kjölfarið út í nokkrum löndum og nú bíðum við bara eftir því að íslenska útgáfan af bókinni komi út hér á landi.
SVEPPAGREIFINN eignaðist sína fyrstu útgáfu af bókinni í byrjun 21. aldarinnar í danskri þýðingu en auðvitað fjárfesti hann í íslensku útgáfunni þegar hún kom út árið 2007. Um páskana varð hann sér síðan úti um litað eintak af bókinni í Amsterdam og er því líklega einn fárra Íslendinga sem eiga Tinna í Sovétríkjunum á hollensku.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!