27. apríl 2017

10. BÚÐARRÁP Í AMSTERDAM

SVEPPAGREIFANUM finnst fátt skemmtilegra en að koma í sérverslanir með teiknimyndasögur, þegar hann er á ferð erlendis, eða að skoða góðar og vel fylltar myndasögudeildir í stóru bókabúðunum. Flóamarkaðir hafa einnig verið í uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM og þar hefur hann líka verið duglegur að dunda sér við að gramsa eftir framandi og ódýrum teiknimyndasögum. Um páskana rak hann nefið inn í eina skemmtilega myndasögubúð í Amsterdam og eyddi nokkrum mínútum (og reyndar líka nokkrum evrum) í fáeinar bæði nýjar og notaðar myndasögur. Helsti dýrgripurinn sem SVEPPAGREIFINN fjárfesti í að þessu sinni var sjóræningjaútgáfan Tinni í El Salvador sem margir væru eflaust til í að eiga.
Reyndar var hann einnig búinn að setja sér það markmið að finna eitthvað af hinum hollensku Fals bókum (FC Knudde) í þessari Hollandsferð en hreinlega gleymdi að spyrjast um eftir þeim eða að leita að þeim. Annars náði SVEPPAGREIFINN sér einnig í fjórar Sval og Val bækur sem hann átti ekki fyrir og hafa ekki komið út á íslensku og litaða útgáfu af Tinna í Sovétríkjunum. Þá verslaði hann sér tvær Lukka Láka bækur og eina bók með Samma.

En aftur til Amsterdam. Verslunin sem SVEPPAGREIFINN minntist á heitir Lambiek, sem er eins konar afbökun á nafni teiknimyndapersónunnar Lambik, og var opnuð árið 1968. Verslunin er ekki mjög stór en þó á tveimur hæðum og sú elsta sinnar tegundar í Evrópu en þar er reyndar líka rekið gallerí 
Lambiek er búð sem væri virkilega gaman að geta eytt svolítið meiri tíma í og þá sérstaklega að dunda sér við að róta í gegnum notaðar bækur sem flestar eru á aðeins tvær til þrjá evrur. Mikið úrval og einnig töluvert af fræði- og listaverkabókum um myndasögur.
Íslenskir myndasögulesendur kannast líklega einhverjir við Lambik en hann er persóna úr sögunum um Sigga og Viggu sem nokkrar bækur hafa komið út á íslensku með. Í íslensku bókunum heitir Lambik einfaldlega Lambi. Þessar bækur (Suske og Wiske) eru belgískar og eru að sögn vinsælli þar á meðal flæmsku-mælandi fólks, á meðan til dæmis Tinnabækurnar höfða meira til þeirra frönsku-mælandi. Tenginguna við Amsterdam má því líklega rekja til flæmskunnar, sem mun vera náskyld eða jafnvel hálfgerð hollenska.
En Lambik er ekki bara aukapersóna í myndasögunum um Sigga og Viggu. Hann er einnig þekktur sem aðalpersóna í samnefndum myndasöguflokki sem líka er mjög vinsæll, auk þess sem Lambik er einnig aukapersóna í enn öðrum myndasöguflokki sem á hollensku nefnist De Vrolijke Bengels. Allar þessar sögur voru eftir belgíska myndasöguhöfundinn Willy Vandersteen.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!