9. nóvember 2017

31. TINNI Á FLÓAMARKAÐI

Allir sannir aðdáendur Tinna bókanna þekkja flóamarkaðinn fræga, þar sem bókin um Leyndardóm Einhyrningsins hefst. Ævintýrið um skipslíkanið góða á uppruna sinn á þessum stað. Flóamarkaður þessi spilar einnig stóra rullu og deilir sama hlutverki í bíómyndinni um Tinna, The Secret of the Unicorn í leikstjórn Steven Spielberg. Þessi markaður hefur jafnvel verið höfundum annara teiknimyndasagna hugleikinn og veitt einhverjum þeirra innblástur við sköpun sagna þeirra. Skemmst er einmitt að minnast aðkomu Svals í bókinni SPIROU - Le Journal d'un ingénu, eftir Émile Bravo, úr bókaflokknum um Sérstök ævintýri Svals ...
Þessi flóamarkaður er til í raun og veru, er opinn daglega og hefur verið sama stað í Brüssel síðan árið 1873. Flóamarkaðurinn er á Place du Jeu de Balle og er staðsettur á torgi í hjarta Marolles hverfisins í Brüssel en hann heitir Vieux Marché á frönsku eða Gamli markaðurinn eins og hann myndi þá kallast upp á íslensku. Hann er virkilega af gamla skólanum og þar eru í boði endalaust úrval af antikmunum, málverkum, geymsludóti og fleiru. Þannig að Vieux Marché er raunverulega eins og hann er sýndur í Tinna bókinni, Leyndardómi EinhyrningsinsHergé, höfundur Tinna bókanna, bjó einmitt í Brüssel og þekkti vel til markaðarins og hefur því fundist tilvalið að koma honum að sem sögusviði í einni sögunni. Annars var Hergé duglegur við að koma ýmsum kennileitum í borginni fyrir í Tinna sögunum og má alveg finna nokkur fleiri dæmi um það.
Á þessum markaði er ekki um að ræða einhverja sölubása með Kolaportsívafi þar sem eingöngu er selt eitthvað minjagripadrasl og annað glingur. Á flóamarkaðnum eru oftast í kringum 450 fastir aðilar að selja vörur sínar og allir hafa þeir þetta að atvinnu sinni. Markaðurinn á Place du Jeu de Balle opnar á hverjum morgni klukkan 6:00 og er opinn til klukkan 14:00 en um helgar er hann opinn til 15:00.

Fyrir fáum árum stóð til að leggja niður flóamarkaðinn á Place du Jeu de Balle og ætlunin var, af skipulagsyfirvöldum í Brüssel, að byggja upp svæðið undir óspennandi byggingar og bílastæði. En vegna mikillar andstöðu og mótmæla borgarbúa var hætt við þau áform. Vel á annan tug þúsunda manns setti nafn sitt á undirskriftarlista gegn framkvæmdunum og forsvarsmenn hópsins fengu meira að segja sjálfan Steven Spielberg til að styðja sig í baráttunni gegn þessum áformum. Og það tókst. Borgaryfirvöld hættu við þessa bölvaða vitleysu og vonandi fær markaðurinn að vera áfram á Place du Jeu de Balle um aldur og ævi. Vieux Marché er langþekktasti flóamarkaðurinn í Belgíu og er líklega einn alfrægasti flóamarkaðurinn í öllum heiminum og það má að miklu leyti þakka Tinna.
En í júlí 2005 var í fyrsta skipti haldinn sérstakur Tinna flóamarkaður á Place du Jeu de Balle í tilefni af Tintin Festival í Brüssel. Ætlunin var að gera hann að árlegum viðburði og fyrstu fimm árin var hann haldinn á torginu samhliða Gamla markaðnum. Fljótlega var þó ákveðið að færa hann fram til þess laugardags sem kom næst á undan 22. maí en það var einmitt afmælisdagur Hergés. Sumarið 2010 tóku skipuleggjendur þessa flóamarkaðar þá ákvörðun að færa hann að Louvain le Neuve, ekki langt frá Hergé safninu í Brüssel, svo aðdáendur Tinna gætu betur tengt hann við safnið og notið um leið nálægðarinnar við það. Þetta var sannkallaður Tinna markaður, því að á honum hafa komið saman aðdáendur kappans frá öllum heimshornum til að selja vörur sínar. Þarna hafa verið safnarar eða sérfræðingar með fágæta bækur og muni, allskyns venjulegt fólk að selja minjagripi tengdum Tinna, börn með Tinna bækurnar sínar og jafnvel handverksfólk að selja ýmsar Tinna vörur sem það hefur sjálft búið til.
Tinna markaðurinn virðist þó, því miður, ekki vera lengur til staðar. Það finnast alla vega ekki neinar heimildir um að hann hafi verið haldinn síðan vorið 2015. Hver svo sem ástæðan er. Óneitanlega hefði verið gaman að geta fengið tækifæri til að ráfa um þennan Flóamarkað á Louvain le Neuve en líklega verður SVEPPAGREIFINN að láta sér nægja hinn markaðinn á Place du Jeu de Balle næst þegar hann fer til Brüssel. Kosturinn við hann er auðvitað sá að hann er opinn daglega allt árið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!