17. nóvember 2017

32. STRUMPARNIR EÐA SKRÝPLARNIR

Allir þekkja Strumpana eða Les Schtroumpfs eins og þeir heita á frönsku. Það var belgíski listamaðurinn Pierre Culliford (eða Peyo eins og hann kallaði sig) sem skapaði þessar geysivinsælu teiknimyndapersónur. Peyo þótti ekkert sérstaklega hæfileikaríkur eða efnilegur teiknari sem barn eða unglingur en eftir að hafa starfað í stuttan tíma við kvikmyndir og þar á meðal teiknimyndir ákvað hann að söðla um og skrá sig í myndlistanám við Listaháskólann í Brüssel. Eftir stutt nám þar starfaði hann sjálfstætt við ýmis verkefni og öðlaðist með tímanum meiri færni og reynslu og prófaði sig áfram með ýmsar hugmyndir tengdum myndasögum. Hann leit aldrei á sig sem góðan teiknara og lagði sig því alltaf fram um að hafa myndirnar auðskiljanlegar og einfaldar. Miðaldarpersónan Johan (Hinrik) varð til árið 1947 og Peyo fékk starf hjá teiknimyndatímaritinu SPIROU árið 1952 þar sem hann hitti fyrir fyrrum samstarfsmann sinn úr kvikmyndaiðnaðinum, André Franquin. Teiknimyndahetjan Johan gekk í gegnum nokkrar breytingar og fékk fljótlega félagann Pirlouit til liðs við sig svo til varð dúettinn Johan og Pirlouit eða Hinrik og Hagbarður eins þeir kölluðust á íslensku.
Þeir Peyo og Franquin urðu mjög nánir og sömu sögu má segja um eiginkonur þeirra. Mikill samgangur var á milli þessara para og þau eyddu miklum tíma saman, hvort sem það var á hátíðisdögum eða bara til að hittast og borða saman. Það var við eitt slíkt tækifæri árið 1957 sem þeir félagar fundu upp á orðinu "schtroumpf" eða "strump". Peyo bað Franquin um að rétta sér saltstauk en kom ekki orðinu fyrir sig og bað hann því um að rétta sér "schtroumpf". Franquin greip orðið á lofti, rétti honum saltstaukinn og svaraði, "Hér er "schtroumpfurinn" þinn!" Þannig leið kvöldið með endalausri skemmtan, áfengisdrykkju og "schtroumpfi" en á þann hátt varð Strumpa-tungumálið til. Árið eftir kynnti Peyo síðan sjálfa strumpana til sögunnar þegar þeir birtust í SPIROU sem aukapersónur í einni sögunni um Hinrik og Hagbarð en árið 1960 fengu þeir sína eigin sögu í SPIROU.
Eftir það varð ekki aftur snúið og strumparnir slógu í gegn sem einhverjar vinsælustu teiknimyndasögur í heimi. Og til gamans má kannski líka geta þess að það var eiginkona Peyo, Nine, sem kom með þá hugmynd að hafa strumpana bláa.
Það var síðan í júní árið 1979 sem strumparnir komu fyrst til Íslands. Sagan af því er svolítið sérstök en hún er þannig til komin að bókaútgáfan Iðunn og hljómplötuútgáfan Steinar voru á sama tíma að kaupa réttinn af þessum litlu bláu fyrirbærum á sitthvorum vettvangnum. Og hvorugur vissi af hinum. Þetta var á blómaskeiði myndasöguútgáfu á Íslandi og Iðunn var að vinna að því að tryggja sér útgáfuréttinn á þessum gríðarlega vinsælu teiknimyndasögum frá rétthöfum þeirra í Belgíu. En fyrir algjöra tilviljun var Steinar Berg á sama tíma að ganga frá sambærilegum útgáfurétti, tengdri tónlist, af hollensku aðila. Forsaga þess að strumparnir tengdust tónlist, á þennan hátt, var sú að í Hollandi var afar þekktur og vinsæll tónlistarmaður, Pierre Kartner, sem kallaði sig Faðir Abraham. Árið 1976 fékk hollenskur blaðamaður þá hugmynd að fá Föður Abraham til að ganga til liðs við strumpana og syngja með þeim lag. Faðir Abraham samdi lag sem hann kallaði The Smurf song og frumflutti það á tónlistarhátíð í Berlín sama sumar.
Lagið sló í gegn og í kjölfarið sendi hann frá sér heila plötu með strumpalögum og fljótlega fékk Norðmaðurinn Geir Börresen leyfi til að syngja lögin inn á plötu á norsku og gefa hana út þar í landi. Strumpalögin urðu gríðarlegir smellir um alla Evrópu og eins og áður segir komu þau til Íslands sumarið 1979. Haraldur Sigurðsson, Halli bróðir hans Ladda, var fenginn til að fylla í hlutverk Föður Abraham og þar sem hljómplötuútgáfan Steinar vissi ekkert af yfirvofandi strumpabókaútgáfu Iðunnar var platan í mesta sakleysi skírð Haraldur í Skrýplalandi og sló auðvitað samstundis í gegn á Íslandi.
Á sama tíma var Iðunn búin að eignast réttinn á myndasögunum og hafði unnið að prentun og undirbúningi að útgáfu fimm bóka sem áttu að koma út með haustinu og um jólin. Þarna var því búið að fullvinna báðar útgáfurnar þegar aðilar þeirra fréttu hvor af öðrum og á því augnabliki var því lítið hægt að gera. Ferlið var komið of langt hjá báðum útgefendunum. Bláu kvikindin hétu því strumpar í bókunum en skríplar á plötunni. Aftan á einhverjar útgáfur plötuumslaganna með Haraldi í Skrýplalandi náðist þó að prenta eftirfarandi skilaboð: "Í haust koma út hjá Iðunni strumpugóðar teiknimyndasögur um skrýplana. Þeir heita STRUMPAR í bókunum." Seinna varð það síðan sameiginleg ákvörðun beggja aðila að strumparnir yrðu ofan á og það hafa þeir heitið síðan. Fyrstu tvær strumpabækurnar, Svörtu strumparnir (Les Schtroumpfs noirs - 1963) og Æðsti strumpur (Le Schtroumpfissime - 1965), komu síðan út um miðjan september en á svipuðum tíma hófst einnig birting fyrrnefndu sögunnar í Morgunblaðinu.
Þá hóf óútgefin Strumpasaga (Les Schtroumpfs et le Cracoucass - 1969) göngu sína í Dagblaðinu einnig á svipuðum tíma en sú saga kom þó ekki út á íslensku fyrr en 37 árum seinna þegar Froskur útgáfa gaf bókina sendi frá sér bókina Strumparnir og óhræsið árið 2016. Í Dagblaðinu nefndust þeir að sjálfsögðu líka strumpar. Þá stóð til að hljómplötuútgáfan Steinar myndu senda frá sér aðra plötu með Halla fyrir jólin 1979, sem þá yrði væntanlega Haraldur í Strumpalandi, en ekkert varð þó úr þeim áformum. Strumpanafnið hefði því líklega hvort eð'er náð yfirhöndinni í því strumpaæði sem helltist yfir þjóðina á næstu árum en alls komu út átta Strumpabækur á íslensku á árunum 1979-80.

Það er best að enda þetta með Father Abraham þar sem hann syngur lagið Smurfing beer en í íslensku útgáfunni með Haraldi í Skrýplalandi nefndist lagið Skrýplagos. Það var kannski ekki alveg viðeigandi á þessum tíma að syngja um Skrýplabjór fyrir börnin í landi þar sem bjór var bannaður.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!