22. júní 2018

64. Í TILEFNI HM - TINNI OG FLEIRA SMOTTERÍ

Þá er einum leik íslenska landsliðsins á HM lokið og óhætt er að segja að úrslitin gegn Argentínu hafi verið umfram væntingar. Frábært jafntefli og gefur vonandi góð fyrirheit um framhaldið. Næsti leikur liðsins er síðan í dag gegn Nígeríu og hefst klukkan 15:00 en reikna má með að götur borgarinnar tæmist, öll starfsemi lamist og þeir landsmenn sem ekki áttu heimangegnt sameinist allir hér heima í andlegum stuðningi með liðinu. 

Og enn ætlar SVEPPAGREIFINN að tileinka færslu dagsins þátttöku Íslands á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Að þessu sinni ætlar hann eitthvað að býsnast við að reyna að böggla saman færslu sem hugsanlega gæti fjallað bæði um Tinna og fótbolta. En eftir töluverða eftirgrennslan virðist niðurstaðan sú að ekki sé þar beint um auðugan garð að gresja. George Remi, Hergé, höfundur Tinna bókanna var nefnilega ekkert sérstaklega duglegur við að tengja Tinna eða samferðamenn hans í sögunum við knattspyrnu enda svo sem ekkert sérlega mikið um tækifæri til þess. Vettvangur eða sögusvið Tinna sagnanna snerust jafnan um mun alvarlegri atburðarásir og þær voru yfirleitt nokkuð skýrt markaðar. Tinni stundaði einhverja leikfimi og jóga en hann spilaði ekki fótbolta.
Þegar Tinna tímaritið (Journal de Tintin) hóf göngu sína í Belgíu árið 1946 fóru hins vegar að gefast betri tækifæri hjá Hergé til að víkka sjóndeildarhringinn í myndasögunum og koma meira til móts við belgíska og franska æsku. Fyrstu árin var blaðið nokkuð fast í reipunum en smám saman stækkaði það og með tímanum varð það meira en bara myndasögutímarit. Efni þess varð sífellt fjölbreyttara og meira tengt ýmiskonar unglingamenningu sem sífellt var að ryðja sér meira til rúms en myndasöguþemað var þó alltaf mest áberandi. Reynt var að höfða til áhugasviðs sem flestra og ýmislegt skemmtilegt, eins og til dæmis íþróttaefni, fór snemma að birtast á síðum blaðsins þó það hafi ekki verið í mjög miklu magni. Stuttar greinar sem fjölluðu um hnefaleika, knattspyrnu og hjólreiðar birtust í blaðinu og strax í desember árið 1948 var þessi mynd Hergés, af Tinna að sparka í bolta, höfð með til að sýna efnisinnihald þeirra greina. 
Það var þó ekki fyrr en í 613. tölublaði Tinna blaðsins, þann 21. júlí árið 1960, sem knattspyrna birtist fyrst á forsíðu tímaritsins. Þar mátti sjá teikningu af franska knattspyrnumanninum Raymond Kopa í búningi liðsins Stade de Reims-Champagne í leik gegn Real Madrid en ekki kemur þó fram um hvaða leikmann var að ræða í búningi spænska liðsins. Liðin höfðu mæst á Neckarstadion í Stuttgart í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða (sem seinna varð Meistaradeild Evrópu) vorið 1959 en þar var reyndar engan Raymond Kopa að finna. Kopa hafði hins vegar spilað með Stade de Reims í fyrsta úrslitaleik keppninnar árið 1956 þegar liðið mætti einnig Real Madrid. Síðarnefnda félagið var algjört yfirburðarlið í Evrópu á þessum árum og vann til að mynda keppnina fyrstu fimm árin sem hún var haldin.
Það er reyndar önnur saga og eins og svo oft áður er SVEPPAGREIFINN kominn langt út fyrir upphaflega efnið. Tinna tímaritið gekk í gegnum ýmsar útlits- og nafnabreytingar á þeim rúmlega 40 árum sem það var að koma út en í grunninn var þetta þó alltaf sama blaðið. Árið 1963 hófu að birtast, á síðum blaðsins, myndasögur eftir franska listamanninn Raymond Reding sem fjölluðu um knattspyrnuhetjuna Vincent Larcher. Sú hetja varð nokkuð vinsæl og birtist í nokkrum tilvikum á forsíðum blaðsins á næstu árum en alls komu líka út átta myndasögur með kappanum í bókaformi. Og undir lok 8. áratugarins skapaði Reding síðan nýja knattspyrnuhetju í myndasöguheiminn en sá nefndist Eric Castel og varð gríðarlega vinsæll. Alls komu út fimmtán sögur með Eric Castel sem allar komu einnig út í bókaformi og líklega kannast einhverjir íslenskir myndasögunördar við þessa miklu hetju þótt ekki hafi hann verið gefinn út hér á landi. Í það minnsta man SVEPPAGREIFINN, einhverra hluta vegna, eftir honum úr barnæsku. Ætli það komi ekki úr norsku Sølvpilen blöðunum eða hinum dönsku Fart og tempo sem stundum var hægt að nálgast hér á landi?
Á 8. áratugnum fór Tinna tímaritið að breytast meira í hefðbundið unglingablað og með tímanum urðu forsíður þess meira undirlagðar af ljósmyndum og helstu fótboltahetjur þeirra ára, Pele, Johan Cruyff, Gerd Müller, Franz Beckenbauer, Michel Platini og Maradona, fóru að sjást þar. Alls birtust 23 forsíður Tinna tímaritsins með myndum sem tengdust knattspyrnuíþróttinni á einhvern hátt. Sú síðasta (þann 12. júní árið 1984) var tengd EM 84 og hún var ekki af verra taginu. Þarna fékk nefnilega fótboltafélagið Falur að njóta sín í fyrsta og eina sinn.
Tinni sjálfur birtist þó ekki aftur við þá iðju að sparka í bolta í tímaritinu. Myndin sem Hergé notaði til að merkja þær greinar sem fjölluðu um íþróttir, og sjá má hér ofar í færslunni, var þó uppfærð reglulega. Á árunum 1978- 80 var Tinni nokkrum sinnum pimpaður upp í mismunandi litaða búninga og myndinni þá oftar en ekki skellt með sem aukamyndum á forsíður tímaritsins. Þær áttu augljóslega að leggja áherslu á hið sérstaka knattspyrnutengda innihald blaðsins í hvert skipti.
Svo var til ein heldur stærri og betri útgáfa af myndinni en þó var ekkert verið að eyða of miklu púðri í endurbætur - aðeins bætt við nokkrum flýjandi andstæðingum (væntanlega þá vondu köllunum) sem hlaupa í ofboði undan skothörku Tinna. Og takið eftir ... Tinni er kominn í búning Ungmannafélagsins Heklu, sambærilegum þeim sem félagið spilaði í 3. deild Íslandsmótsins árið 1978!
Og svo hafa netverjar margir hverjir verið duglegir við að lita og birta sínar eigin útfærslur af myndinni. Hér er til dæmis eitt dæmi um slíkt.
En þar sem Hergé var svo upptekinn við að láta Tinna eyða tíma sínum í eitthvað annað en að sparka í bolta, ólíkt til dæmis Franquin með Viggó viðutan, þá sér SVEPPAGREIFINN ekki annan kost í stöðunni en að leita í smiðju annara listamanna til að finna eitthvað bitastætt. Og þá liggur beinast við að kíkja aðeins á verk franska götulistamannsins Dran. Sá gaur er ansi skemmtilegur á köflum og verk hans oftar en ekki ádeila á samtíma siðmenningu þar sem hann gagnrýnir hverskyns mótsagnir í neyslusamfélagi nútímans. Dæmi um það er til dæmis frábær, kaldhæðnisleg mynd hans af Jesús Krist og Jólasveininum í slagsmálum. Dran hefur verið nokkuð duglegur við að setja Tinna inn í verk sín en þessi fótboltatengda mynd hæfir þó best viðfangsefni dagsins hér á Hrakförum og heimskupörum.
Þarna má sjá hinar hugprúðu og drenglyndu aðalpersónur Tinna bókanna, dregnar úr stöðum sínum sem helstu fyrirmyndir evrópskar æsku, og settar í hlutverk belgískra slagsmáladurga að berjast við sambærilegar enskar fótboltabullur. Kolbeinn er að sjálfsögðu með viskí flösku að vopni og meira að segja prófessor Vandráður tekur þátt í ólátunum. Aðeins Tobbi virðist sleppa við að taka þátt í vitleysunni.

Þetta er líklega ein sú allra innihaldslausasta færsla sem birst hefur hér á Hrakförum og heimskupörum frá upphafi og þó er af mörgu að taka.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!