SVEPPAGREIFINN er alltaf jafn forvitinn en það gerir það auðvitað að verkum að hann er alltaf öðru hvoru að grúska í spjallsíðum alvöru myndasögunörda. Og þar kennir ýmissa grasa. Tinnafræðingarnir eru ansi margir og fróðleikurinn sem veltur upp úr mörgum þeirra getur verið býsna áhugaverður og skemmtilegur á köflum.
Allir þeir sem áhuga hafa á Tinna bókunum þekkja söguna um Vandræði Vaílu Veinólínó. Í grófum dráttum er söguþráðurinn á þá leið, að Kolbeinn kafteinn snýr sig illa um ökklann rétt um það leyti sem Næturgalinn frá Mílanó, Vaíla Veinólínó, kemur í heimsókn að Myllusetri ásamt fríðu föruneyti sínu. Meiðsli kafteinsins gera það að verkum að þeir Tinni geta ekki flúið af vettvangi og stungið af til að forðast yfirgang Vaílu. Kolbeinn situr því uppi með gesti sína, algjörlega þvert gegn vilja sínum. Á meðan á heimsókn Vaílu og fylgifiska hennar stendur þarf píanóleikari hennar Ívar Eltiskinn að æfa sig löngum stundum á flygilinn sem Vaíla hefur látið flytja tímabundið að Myllusetrinu. Og á þeim stundum sem Ívar er að æfa sig geta lesendur bókarinnar fylgst með hljómum píanósins með þar til gerðum nótum efst á hverri mynd.
En alla vega á nokkrum stöðum í bókinni Vandræði Vaílu Veinólínó (á blaðsíðum 43 til 44 og 50 til 53) er hægt að sjá þessar nótur Ívars. Megin tilgangurinn er auðvitað sá að sýna lesendum hvernig píanóleikarinn þarf að eyða mörgum tímum á dag við misáhugaverðar fingraæfingar á nótnaborðinu en það er ekki auðvelt að túlka tónlist á annan hátt í teiknimyndasögu. Þannig liggur auðvitað beinast við að sýna bara nóturnar til skýringar. En þessar nótur hafa reyndar mun meiri merkingu en hægt var að sjá fyrirfram í fljótu bragði. Einn af sérfræðingum teiknimyndasagnanna hefur bent á skemmtilegan og leyndan orðaleik sem höfundur Tinna bókanna, Hergé, virðist hafa laumað inn í söguna. Kannski er rétt að minna lesendur fyrst á hið rétta nafn Hergés en hann hét í rauninni Georges Remi. Listamannsnafnið Hergé stóð sem sagt fyrir fangamarki hans RG sem borið er fram á franska vísu sem Hergé.
Þessi áðurnefndi Tinna fræðingar hefur bent á að svo virðist sem Hergé hafi laumað ættarnafni sínu, Remi, inn í nóturnar við fingraæfingarnar á afskaplega lúmskan hátt sem Re-Mi. Það er svo sem ekki flókið. Ívar spilar einfaldlega tónstigann við æfingarnar og auðvitað kemur Re Mi þar við sögu.
Snjallt eða kannski bara tilviljun og sennilega einnig svolítið langsótt en líklegt er að fæstir unnendur Tinna bókanna séu að velta sér upp úr því að fara að lesa nótur í teiknimyndasögu. Flestir sjá þetta bara sem aðferð höfundarins við að túlka tónlist á myndrænan hátt.
Þetta sést á þó nokkuð mörgum myndum í Vandráðum Vaílu Veinólínó en hér eru bara fáein dæmi...
En í það minnsta má alla vega hafa gaman að hugmyndinni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Út með sprokið!