31. ágúst 2018

74. HIN LÖNGU GLEYMDA HÁSKAÞRENNA

Enn á ný hefur SVEPPAGREIFINN verið að gramsa svolítið í myndasöguhillunum sínum og að þessu sinni dró hann fram bók sem virðist ekki hafa farið mjög mikið fyrir á sínum tíma. Hér er um að ræða myndasögu sem nefnist Ógnir í undirdjúpum (L'Oeil du Barracuda - 1987) og ku tilheyra seríu sem kallaðist Háskaþrennan eða Brelan de dames á frönsku. Þessi saga, Ógnir í undirdjúpum, kom út á hér á landi árið 1988 og þá var reyndar verulega farið að draga úr vinsældum teiknimyndasagna frá íslensku forlögunum. Útgáfu myndasagna fór hríðfækkandi og til að gera langa sögu stutta kom aðeins út þessi eina saga í bókaflokknum.
Bókina þýddi Bjarni Fr. Karlsson fyrir bókaútgáfuna Iðunni en hann hefur komið að fjölmörgum þýðingum á þeim teiknimyndasögum sem komið hafa út á íslensku síðustu áratugina. Titillinn, Ógnir í undirdjúpum, hljómar voðalega staðlaður í eyrum þeirra sem lásu þýddar spennusögur á seinni hluta tuttugustu aldarinnar en L'Oeil du Barracuda stendur í raun fyrir Í auga Barrakúda. Ógnir í undirdjúpum gæti hins vegar þess vegna verið gömul glæpasaga eftir Alistair Maclean eða Desmond Bagley en það má samt líka til gamans geta að kafbátamyndin SPHERE (með Dustin Hoffman, Sharon Stone og Samuel L. Jackson) fékk þennan virðulega titil í bíóhúsunum á sínum tíma. En það er allt önnur saga.

Aftan á bókakápu sögunnar má lesa eftirfarandi texta um söguþráð bókarinnar:
Fólskuleg árás er gerð á aðsetur fiskimanna á smáey í Karabíska hafinu. Þar kemst innfædd stúlka með naumindum undan erlendum hryðjuverkamönnum. Þeir sækjast eftir korti sem hún hefur undir höndum, svo að hún er áfram í mikilli hættu. Hvaða leyndardóm geymir kortið og hverjir eiga þarna hagsmuna að gæta? 
Eygló og Kolbrún lenda í samkvæmi hjá sérvitrum milljónamæringi á eynni. Það verður til þess að þær dragast inn í æsilega atburðarás, þar sem dauðinn bíður við hvert fótmál. Notalegt sumarleyfi við sjóinn snýst upp í skelfilega martröð. En þegar Tinna slæst í hópinn er "háskaþrennan" sameinuð og lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna ...
Á bakhlið myndasögunnar má einnig sjá þessa ljósmynd en hún gefur reyndar engan veginn rétta mynd af innihaldi eða andrúmslofti bókarinnar. Á myndinni má sjá hina föngulegu Háskaþrennu (ásamt höfundum sínum) spóka sig í kringum bekk úti í garði en með teiknistíl eins og um einhverjar grínsögur væri að ræða. Svo er þó ekki alveg. Sögurnar eru allt annars eðlis. Það verður reyndar að taka tillit til þess að þessi mynd sýnir persónurnar eins og þær birtust tiltölulega snemma í bókaflokknum en stíll seríunnar breyttist töluvert í þeim sjö bókum sem gefnar voru út í seríunni.
En bækurnar um Háskaþrennuna fjalla um þrjár ungar stúlkur sem starfa sem einkaspæjarar en þær unnu allar áður fyrir Bandarísku Leyniþjónustuna CIA. Í þessari einu sögu sem komið hefur út á íslensku heita stúlkurnar Eygló, Kolbrún og Tinna en á frummálinu franska nefnast þær Jaimie Grisbee, Amanda Wenn og Laurence Tonkin. Hver um sig hefur ákveðna hæfileika sem nýtast þeim í starfinu en Jaimie er sérfróð um meðhöndlun vopna, Amanda er sérfræðingur í notkun kvenlegs sjarma (það er kannski einhver tilbúinn til að útskýra það aðeins betur fyrir SVEPPAGREIFANUM) og sérsvið Laurence eru bardagaíþróttir. Hver fyrir sig er tákngervingur drottninganna úr mannspilunum. Þannig er Jaimie spaðadrottningin, Amanda er hjartadrottningin og Laurence er laufadrottningin. Þessar myndasögur eru innblásnar af bandarísku sjónvarpsþáttunum um Charlie's Angels sem voru mjög vinsælir á áttunda áratug síðustu aldar en margir kannast vafalaust líka við tvær Hollywood bíómyndir, byggðum á sjónvarpsseríunni, sem framleiddar voru snemma á þessari öld.
Sögurnar um Háskaþrennuna urðu eins og áður segir aðeins sjö talsins og sú sem kom út í íslenskri þýðingu, Ógnir í undirdjúpun, er í raun síðasta bókin í seríunni. Það má því segja að, eins og var svo oft með þær myndasögur sem verið var að gefa út á íslensku, að þar hafi svo sannarlega verið byrjað á öfugum enda. Það er því afskaplega erfitt fyrir íslenska lesendur að reyna að átta sig á bókaseríunni af þessari einu sögu. Og svo hjálpar það heldur ekki að söguþráðurinn er bæði nokkuð slitróttur og tilviljunarkenndur. Það tók til dæmis SVEPPAGREIFANN töluverðan tíma að átta sig á því hverjar væru aðalsöguhetjur þessarar bókar. Í fljótu bragði virðast þessar bækur því heldur innihaldsrýrar. Þrjár ungar kvenhetjur í aðalhlutverkum, oftar en ekki í (næstum því) nærfötum eða sundfötum og hálffalin brjóst og rassar blasandi við í tíma og ótíma.
Sögurnar virðast því jafn efnislitlar og klæðnaður stúlknanna. Kunnugleg stef bæði fyrr og síðar frá hinum ýmsu kimum dægurmenningarinnar. Líklega var markhópurinn ungir og verðandi karlmenn sem ýmist voru að nálgast hvolpavitið eða komnir með það en áttu í erfiðleikum með að hemja hormónana þegar þeir voru komnir með brjóstaskoru fyrir framan sig. En greinilega voru takmörk fyrir öllu og þessar sjö sögur nægðu fyllilega til að metta markaðinn. SVEPPAGREIFANUM lék því svolítið forvitni á að vita út á hvað þessi hallærislega sería gengi og fór að grennslast fyrir um innihald hennar og sögu. Reyndar var lítið á þeirri eftirgrennslan að græða. Líklega þykir mönnum þessar myndasögur of vandræðalegar og eitís í dag til að vera neitt að flagga þeim of mikið. 
En hin belgíska Háskaþrenna hóf sem sagt göngu sína, eins og svo margar myndasögur í Belgíu, í Journal de Tintin (Tinna-tímaritinu) árið 1979 en þá birtist stutt átta síðna saga um tríóið í aukablaðinu Super Tintin. Hinar almennu sögur um Háskaþrennuna hófu síðan að birtast í blaðinu árið 1980 og fyrstu tvær sögurnar, Opération marées noires og Safari dans l’enfer vert, komu út í bókarformi í september árið 1983. Þriðja bókin sem heitir La Vengeance des Moustikhos kom út í mars 1984Embrouille en Ghafnistan var gefin út í febrúar 1985 og sú fimmta, La Malédiction, var gefin út í apríl 1986. Þá var komið að sögunni Le Sang des Dewatah í apríl 1987 og sú síðasta sem við þekkjum, L'Oeil du Barracuda eða Ógnir í undirdjúpum, kom síðan út í bókarformi í febrúar árið 1988.
Höfundar þessarar seríu voru listamaðurinn Renaud Denauw og handritshöfundurinn Jean-Luc Vernal en sá var einnig ritstjóri Journal de Tintin á árunum 1979-88. Vernal lést árið 2017. Jean Dufaux kom einnig að handritsgerðinni í síðustu tveimur bókunum en hann er lengi búinn að vera einn af þekktustu og vinsælustu handritshöfundum Evrópu. Margir kannast eflaust við hann af handritsgerð sinni við bækurnar um Veg Dixies sem Nordic Comic gaf út hér á landi fyrir tæplega 20 árum síðan. Renaud Denauw hins vegar er belgískur teiknari sem starfaði meðal annars hjá SPIROU tímaritinu í nokkur ár en flutti sig yfir á Journal de Tintin árið 1979 þar sem þeir Vernal hófu samstarf með seríuna um Háskaþrennuna. Á þeim árum sem þeir störfuðu saman að seríunni þróaðist teiknistíll Renaud meira yfir í raunsærri teikningar og það má berlega sjá þau þroskamerki á sögunum um Háskaþrennuna. Eftir að Háskaþrennunni lauk hóf hann vinnu að nýrri seríu, ásamt Jean Dufaux, um rithöfundinn Jessicu Blandy en þær myndasögur hafa notið töluverðra vinsælda.
Þótt sögurnar um Háskaþrennuna hafi að öllum líkindum átt að höfða mest til drengja, eins og áður hefur verið vikið að, má þó færa rök fyrir því að teiknarinn Renaud Denauw hafi líka fengið sitt út úr vinnu sinni við seríuna. Þekktir listamenn eins og Hergé og jafnvel Franquin dunduðu sér stundum við það til gamans að teikna sjálfa sig eða samstarfsfólk inn í myndasögurnar sínar. Þeir gerðu það þá jafnan á þann hæverska hátt að leita þurfti að þeim í sögunum. En Renaud teiknaði líka sjálfan sig inn í seríuna um Háskaþrennuna en munurinn á honum og hinum listamönnunum var sá að Renaud var ekkert að draga athyglina neitt of mikið frá sér.
Kannski var bara ágætt að ekki komu út fleiri sögur um Háskaþrennuna á íslensku og miðað við gæðin er bara fullkomlega eðlilegt að þær hafi fallið smám saman í gleymskunar dá.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!