28. september 2018

78. HINN TÝNDI KÁTI BROKKUR

Teiknimyndahetjur eru af margs konar tagi og aðalpersónur þeirra ekki endilega alltaf eftirtektarverðustu karakterarnir. Við þekkjum til dæmis Tinna bækurnar sem líklega væru alveg þrautleiðinlegar ef ekki væri fyrir hinar fjölbreytilegu aukapersónur sem halda uppi fjörinu í seríunni. Það sama má líka til dæmis segja um sögurnar um Ástrík. Án margra hinna skemmtilegu karaktera sem finna má í íbúum Gaulverjabæjar væru bækurnar sennilega töluvert litlausari og flatari.

Lukku Láka bækurnar eru alveg sér á parti. Í þeirri seríu er gæðingurinn Léttfeti (telst hann ekki annars örugglega gæðingur?) algjör stjarna og erfitt að ímynda sér skemmtanagildi bókanna án klársins snjalla. Reyndar kemur Rattati þar einnig sterkur inn þótt gerólíkir séu. En Léttfeti er málið. Hann er auðvitað gæddur öllum þeim hæfileikum sem góðir hestar þurfa að hafa og reyndar langt umfram það. Í rauninni er hann mannlegri en meirihluti allra þeirra persóna sem fram koma í Lukku Láka bókunum og gáfaðri en þær flestar. Léttfeti er nefnilega ekki bara reiðskjóti Lukku Láka og ferðafélagi, hann er líka sálufélagi hans og besti vinur.
Léttfeti hefur fylgt Lukku Láka frá upphafi seríunnar og í raun birtist hann strax á sömu mynd og Láki sást fyrst á í sögunni Á meðal dóna og róna í Arísóna (Arizona 1880) sem hóf göngu sína í SPIROU tímaritinu í desember árið 1946. Í fyrstu var Léttfeti bara venjulegur og virðulegur, nafnlaus hestur sem hafði ekki þá hæfileika að getað "talað" eins og seinna varð. Í íslensku útgáfuröðinni var því reyndar aldrei þannig háttað að hann væri nafnlaus. Hér komu bækurnar ekki út í réttri tímaröð en nokkrar af elstu bókunum leynast inni í miðri íslensku seríunni og í þeim er Léttfeti nefndur á nafn. En það er önnur saga. Upphaf fyrstu kynna þeirra félaga Léttfeta og Lukku Láka voru lengi óljós og kemur í raun ekki fram fyrr en í 64. sögunni (Kid Lucky - 1995) en í þeirri bók er bernskusaga þeirra krufin. Þar bjargar Láki hinn ungi Léttfeta frá úlfum og í kjölfarið bindast þeir eilífum böndum.
Hesturinn Léttfeti kemur fyrir í hverri einustu sögu bókaflokksins en gegnir þó misjafnlega veigamiklu hlutverki - allt eftir söguþræðinum auðvitað. Lukku Láki sjálfur er að sjálfsögðu aðalsöguhetjan og bækurnar fjalla fyrst og fremst um hans afrek og ævintýri en Léttfeti er þó mjög mikilvægur hluti seríunnar. Að einhverju leyti hefur hann það hlutverk að mynda jafnvægi á móti Lukku Láka til að koma í veg fyrir að sögurnar verði of einsleitar. Það er auðvitað þekkt í allri dægurmenningu að mynda þannig tvíeyki þar sem aðalpersónan fær ákveðinn stuðning. Með tímanum breyttist karakter Léttfeta smám saman og með tilkomu handritshöfundarins René Goscinny árið 1957 jókst hlutverk hestsins töluvert með auknum og áberandi húmor. Húmor sem oftar en ekki kemur fram í meinhæðnum athugasemdum hans.
Án Léttfeta væri húmor bókanna á einhverju allt öðru stigi og óvíst að skemmtanagildi þeirra næðu sömu hæðum. Í það minnsta væru sögurnar líklega töluvert öðruvísi. Léttfeti er frekar hógvær og leggur sig fram um að draga ekki athyglina of mikið frá aðalsöguhetjunni en húmorinn sem fylgir honum slær þó alltaf í gegn. Hlutverk fáksins knáa snýst einnig oft um einhvers konar uppfyllingu og tilsvör hans eru oft snilldarlega stillt upp af höfundunum á dauðum eða mikilvægum punktum í bókunum. Jafnvel svo að lesandinn taki sjaldnast eftir því. Það má því segja að Léttfeti hafi yfir ákveðnu félagslegu hlutverki að gegna, bæði gagnvart Láka og ekki síður lesandanum.
Samband þeirra Lukku Láka er nánara en gengur og gerist á milli sambærilegra tvíeykja í myndasöguheiminum. Í bókunum sjást þeir ræða saman sín á milli með hefðbundnum talblöðrum en reyndar er ekki alveg ljóst hvort þeir skilji hvorn annan. Eða ... jú, þeir gera það örugglega. En spurningin er frekar hvort þeir tjái sig virkilega við hvorn annan á þann hátt. Eða svo SVEPPAGREIFINN setji þetta upp á mannamáli - kann Léttfeti að tala? Í það minnsta eru samskipti þeirra sett upp á þann hátt að þeir virðast virkilega ræða saman sín á milli en það þykir þó frekar ótrúverðugt. Reyndar verður að viðurkenna að aðrir mannlegir hæfileikar Léttfeta eru líka mjög ótrúverðir en við verðum víst að taka fullt tillit til þess að hér er eingöngu um myndasöguskáldskap að ræða. Líklega teljast því samskipti þeirra vera einhvers konar hugsanaflutningur eða -skipti. 
Léttfeti sést fyrst tala í bókinni Sur la piste des Dalton (Í fótspor Daldóna) frá árinu 1960 en sú bók hefur reyndar ekki enn komið út hér á landi og til gamans má líka geta að hundurinn Rattati kemur fyrst fyrir í þeirri sögu. Með þessum fyrstu orðum sínum er Léttfeti einmitt að hallmæla Rattata við þeirra fyrstu kynni en samkvæmt Wikipedia er Léttfeti almennt ekki hrifinn af hundum. Karlarígur í Kveinabæli (Couverture de livre originale - 1961er elsta bókin (miðað við upprunalegu seríuna) þar sem Léttfeti talar á íslensku og í sögunni um Billa barnunga (Billy the kid - 1961) má sjá fyrstu beinu samskipti þeirra Léttfeta og Lukku Láka en það gerist á bls 30.
Greind Léttfeta nær heldur lengra en almennt gerist (eftir bestu vitund SVEPPAGREIFANS) á meðal hrossa. Af mannlegum eiginleikum eða gáfum Léttfeta má nefna að rökhugsun hans er fullkomlega á við ágætlega greinda manneskju. Hann er til dæmis vel liðtækur við taflborðið, er lunkinn í teningaspilum (jafnvel nógu lunkinn til að svindla) og er klókur í stærðfræði. En af öðrum hæfileikum hans má nefna að hann kann að renna fyrir fiski, spilar á munnhörpu, getur sjálfur tekið af sér hnakkinn og svo hefur hann auðvitað reynt fyrir sér í sirkus ásamt Láka. Þar sýndi hann meðal annars hæfileika sína við að sippa á fremur óhefðbundinn hátt. Og þetta eru bara dæmi um þá kosti sem hægt er að sjá í þeim Lukku Láka bókum sem komið hafa út á íslensku. Í þeim sögum sem ekki hafa komið út hér á landi má nefna dæmi um hæfileika hans við að laga kaffi, hann kann að blístra og getur auk þess þefað uppi og rakið slóð eins og hundur osfrv. Sjálfur segir Lukku Láki hann vera gáfaðasta hest í heimi og ef saman eru teknir allir hans bestu eiginleikar og kostir má fullkomlega færa rök fyrir því að Léttfeti sé mjög klár klár.
Af áhugasviðum Léttfeta má nefna að einhvers staðar kemur fram að hann lesi ljóð franska Nóbelverðlaunahafans Sully Prudhomme en til fróðleiks má benda á að í upprunalegu útgáfunni af sögunni um Söru Beinhörðu (Sarah Bernhardt - 1982) fer leikkonan franska reglulega með línur eftir skáldið. Í íslensku útgáfunni notast hún hinsvegar ljóðlínur eftir Steingrím Thorsteinsson, Hannes Hafstein og Kristján fjallaskáld.

Svo má auðvitað geta þess að Léttfeti er ein af þeim belgísku myndasöguhetjum sem pressaður hefur verið á frímerki.
Og svo er gaman að geta þess að saga Léttfeta á Íslandi er ekki alveg sú sama og líklega flestir telja sig þekkja. Eða öllu heldur nafngift hans. Það eru nefnilega ekki allir sem vita það að þegar Lukku Láki kom fyrst til sögunnar á Íslandi, í teiknimynd sem sýnd var í Tónabíói, þá hét Léttfeti alls ekki Léttfeti. Þetta var í byrjun september mánaðar árið 1977 en teiknimynd þessi nefndist bara Lucky Luke í kvikmyndaauglýsingum dagblaðanna. Kúrekinn knái Lukku Láki var strax nefndur hinu varanlega nafni sínu í myndinni enda ekki flókið að snara Lucky Luke yfir á hið ástkæra ylhýra en það virðist hafa verið öllu örðugra með hestinn Jolly Jumper.
Káti Brokkur kallaðist hann í Tónabíói en þær upplýsingar birtust meðal annars í bíómyndafréttum Vikunnar á haustdögum 1977. Það var ekki fyrr en fyrir jólin sama ár sem fyrstu fjórar myndasögurnar komu út með kappanum hér á landi en þar nefndist hann auðvitað Léttfeti alveg eins og við þekkjum hann í dag. Reyndar verður að taka það fram að þegar Léttfeti er fyrst nefndur á nafn á blaðsíðu 13 í bókinni um Kalla keisara, sem var fyrsta Lukku Láka bókin í íslensku seríunni, þá kallar Láki hann Kát Léttfeta með stóru Kái.
Líklega er þetta hans fulla nafn en það er í eina skiptið í bókunum sem reiðskjótinn klári er nefndur eitthvað annað en bara Léttfeti. Það er kannski rétt að taka það fram að Þór Stefánsson þýddi þessar fyrstu fjórar Lukku Láka bækur og bókaútgáfan Fjölvi gaf þær út. Nafnið Káti Brokkur festist því ekki við Léttfeta og við þökkum Guði fyrir það.

4 ummæli:

  1. Takk fyrir þennan pistil, tek undir með þér að Káti Brokkur hefði ekki verið gott nafn á klárinn. Það stuðlar ekki einu sinni (og hefði sett Hallbjörn í vanda...)!

    SvaraEyða
  2. Verði þér að góðu :) Káti Brokkur hljómar bara svo rangt einhvern veginn og maður er dauðfeginn að það festist ekki við blessaðan hestgarminn.

    SvaraEyða
  3. Góður pistill. Ef ég eignast hest ætla ég að nefna hann Káti Brokkur svo það nafn falli ekki í gleymsku. Reyndar kemur gríðarlegt dýraofnæmi í veg fyrir dýraeign svo það er næsta víst að þetta nafn muni hvergi fá framhaldslíf.

    SvaraEyða
  4. Ef SVEPPAGREIFINN fengi sér hest myndi hann klárlega kalla kvikindið annað hvort Smala eða Brand! En ... engar áhyggjur, hann er ekki að fara að fá sér hest :)

    SvaraEyða

Út með sprokið!