15. febrúar 2019

98. SIGGI OG VIGGA Á ÍSLANDI

Margir kannast við teiknimyndasögur sem fjalla um systkinin Sigga og Viggu en það var bókaútgáfan Fjölvi sem gaf út nokkrar bækur  úr seríunni á árunum 1989-90. Alls komu út tíu bækur í bókaflokknum hér á landi en það var Þorsteinn Thorarensen sem þýddi þessar myndasögur, fjórar þeirra árið 1989 og sex í viðbót ári seinna. Bækurnar voru prentaðar í minna broti en gengur og gerist hér á landi og í þunnu 58 blaðsíðna kiljuformi. Þær voru því ekki ósvipaðar Ástríksbókunum að formi og þykkt en heldur minni eða í svipaðri stærð og eldri bækurnar um Palla og Togga. Þessar sögur fóru nú ekki mjög hátt hér og einhvern veginn hefur SVEPPAGREIFINN pínulítinn grun um að bækurnar tíu hafi ekki verið prentaðar í mjög stóru upplagi á Íslandi. Í það minnsta rekst hann ekki oft á þær til sölu á nytjamörkuðum eða öðrum sambærilegum sölustöðum. En þegar það gerist þá eru þær yfirleitt ekkert sérstaklega illa farnar og reyndar ekki heldur dýrar. Sem segir manni það að bækurnar hafi ekki beint verið lesnar upp til agna. Þær bækur sem Fjölvi gaf út í seríunni um Ævintýri Sigga og Viggu voru:
  • 76. Stálháfurinn stælti - 1990 (De IJzeren Schelvis - 1967)
  • 93. Ofsjónir afa gamla - 1990 (De snorrende snor - 1969)
  • 104. Hindúagröfin hættulega - 1990 (De wilde weldoener - 1970)
  • 138. Gullæðið geggjaða - 1990 (Bibbergoud - 1973)
  • 151. Fákurinn fljúgandi - 1989 (Het ros Bazhaar - 1974)
  • 157. Kynjakristallinn - 1990 (De mollige meivis - 1975)
  • 158. Víkingurinn voðalegi - 1989 (De vinnige Viking - 1976)
  • 184. Regnbogalandið - 1990 (De Regenboogprinses - 1981)
  • 199. Puti Kuti - 1989 (De tamme tumi - 1984)
  • 206. Hamagangur á hafsbotni - 1989 (De bonkige baarden - 1986)
Það er nokkuð ljóst að þetta er ekki það þekktasta sem verið var að gefa út á myndasögumarkaðnum hér landi. En Ævintýri Sigga og Viggu voru mjög ólíkar þeim bókum sem útgáfurnar voru að senda frá sér á blómatíma útgáfu teiknimyndasagna á Íslandi. Flestar þeirra komu frá Belgíu og Frakklandi en bækurnar um Siggu og Viggu, sem heita reyndar Suske og Wiske á frummálinu, koma frá flæmska hluta Belgíu. Þar er töluð einhvers konar hollensk mállýska sem er einmitt kennd við svokallaða flæmsku. Bækurnar um Suske og Wiske voru því nokkurs konar mótsvar flæmska málsvæðisins í Belgíu gegn Tinna og öðrum vinsælum myndasögum sem komu frá franska hlutanum. En töluverður rígur er á milli þessara málsvæða. Suske og Wiske voru gríðarlega vinsælar þar sem og í Hollandi en Tinni var hins vegar vinsælastur í þeim franska. Sögurnar voru fyrst birtar í belgíska dagblaðinu De Nieuwe Standaard á árunum 1945 til 47 og síðan frá 1947 í dagblaðinu De Standaard og fleirum belgískum og hollenskum blöðum. Á árinu 1948 hófu sögurnar um Suske og Wiske einnig að birtast í hollensku útgáfunni af Tinna tímaritinu sem nefnist Kuifje þar í landi. Sögurnar voru gefnar út í bókaformi í Belgíu jafnóðum og birtingu þeirra lauk í De Standaard og þær eru nú alls orðnar, hvorki meira né minna, en 373 talsins og enn að koma út. Sú 374. er væntanleg um miðjan mars.
Það var listamaðurinn Willy Vandersteen sem átti heiðurinn af þessum sögum og hafði allan veg og vanda af þeim fyrstu áratugina eða allt þar til hann sneri sér að öðrum verkefnum snemma á 8. áratugnum. Hann lést síðan árið 1990. Eftir það hafa ýmsir listamenn komið að sköpun þeirra en eins og áður segir eru bækurnar enn að koma út. Sögurnar fjalla sem sagt um ævintýri þeirra Sigga og Viggu og samferðarfólk þeirra og eru einhvers konar fantasíusögur sem gerast á öllum tímum og vettvöngum. Þær koma inn á ýmsar kunnuglegar slóðir sem geta tengst þekktum ævintýrum og þjóðsögum, mannkynssögunni, goðafræðinni og jafnvel efni af trúarlegum toga. En við Íslendingar eigum líka okkar tengingu í þessum bókum og um það ætlar SVEPPAGREIFINN einmitt að röfla eitthvað um núna.
Það var í byrjun nóvember árið 1987 sem sagan De edele elfen í bókaflokknum um Suske og Wiske kom út í Belgíu í fyrsta sinn. Það var flæmski listamaðurinn Paul Geerts sem átti heiðurinn að þessu ævintýri en hann tók einmitt við af Willy Vandersteen og kom að rúmlega 100 sögum um Suske og  Wiske á árunum 1971 - 2002. Á íslensku myndi titill bókarinnar líklega verið þýddur sem Eðalálfarnir eða eitthvað slíkt. Bókin var sú 212. í seríunni en sagan hafði hafið göngu sína í De Standaard þann 27. júní þetta sama ár - 1987. Síðustu blaðsíðurnar voru síðan birtar þann 31. október. Bókin kom því út aðeins örfáum dögum eftir að De Standaard birti þennan síðasta hluta en það var yfirleitt venjan með sögurnar um Suske og Wiske. De edele elfen fjallar um ferðalag þeirra til Íslands og samskipti þeirra við álfa, tröll og aðrar furðuverur sem aðallega eru í formi talandi hesta, kinda, lunda og jafnvel þorska. Þarna er víst óhætt að segja að íslenska þjóðsagnahefðin hafi verið komin alveg út að ystu velsæmismörkum og Jón Árnason eflaust farinn að bylta sér verulega í gröfinni sinni. Náttúra landsins og almenn fegurð Íslands er höfundi bókarinnar augljóslega hugleikin og hreint með ólíkindum að Íslandsvinafundvísir fjölmiðlamenn hafi ekki fyrir löngu verið búnir að vekja athygli landa sinna á þessari bók. Strax á fyrstu opnu hennar má sjá  einhvers konar kynningarmynd um efni sögunnar en þar sjást þau Suske og Wiske (Siggi og Vigga) ásamt hinu stórglæsilega skjaldarmerki Íslands sem er eftir listamanninn Tryggva Magnússon. Það er kannski líka rétt að geta þess að skjaldarmerkið átti 100 ára afmæli nú í vikunni eða nánar tiltekið þriðjudaginn 12. febrúar. Tryggvi var einmitt kunnur fyrir myndir sínar sem birtust um árabil í skopritinu Speglinum en líklega er þetta þó í fyrsta sinn sem skjaldarmerki íslenska lýðveldisins birtist í teiknimyndasögu.
Þarna hefur verið lappað lítillega upp á landvættina fjóra og skjaldarmerkið allt hefur reyndar fengið einhverja smávægilega uppfærslu. Í textanum sem fylgir segir eitthvað á þá leið að í þessari bók séu hetjurnar okkar séu nú komnar til Íslands þar sem náttúran sé rosafín eitthvað og þar er allt fullt af álfum og tröllum og svoleiðis. Eitthvað svona sem við vitum náttúrulega öll. En strax í byrjun bókarinnar fá söguhetjurnar boð um ferðalag til Íslands og þá er ekki sökum að spyrja. Siggi, Vigga, Lambi, Vambi og Stína frænka hoppa í kjölfarið upp í næstu flugvél frá Schiphol og Arnarflug sáluga flytur þau beina leið upp til landsins okkar kalda. Þarna verður auðvitað að taka tillit til þess að bókin kom út árið 1987 og flugfélagið Arnarflug því enn í fullu fjöri.
Og svo er lent í Keflavík, í morgunroðanum, þar sem Flugstöð Leifs Eiríkssonar er tiltölulega nývígð og frekar tómlegt þar um að litast allt um kring. Hvorki Þotuhreiðrið né Regnboginn hennar Rúríar nokkurs staðar sjáanleg fyrir utan. Á þessum tíma voru tiltölulega fáar lendingar á Keflavíkurflugvelli og enn 30 ár þar til heildartölur upp á níu til tíu milljónir ferðamanna á ári fóru að verða að veruleika. Þegar inn í flugstöðina er komið verður Lamba það á að detta um ferðatöskuna sína og öskuillur hrópar hann á næsta burðarmann til að bera töskuna fyrir sig. Sá er hins vegar hvorki meira né minna en sjálfur Davíð Oddsson en árið 1987 var hann borgarstjóri í Reykjavík. Það er ekki á hverjum degi sem maður er búinn að rekast á skjaldarmerki Íslands, Leifsstöð og Davíð Oddsson á blaðsíðu fjögur í einhverri teiknimyndasögu!
Sagan heldur áfram þar sem hópurinn kemur sér fyrir í gömlu húsi einhvers staðar uppi í sveit. Ýmislegt undarlegt gerist þar eins og þessara sagna er siður. Söguhetjunum er sagt frá álfatrú landsmanna og um nóttina lendir Siggi í aðstæðum sem eru einhvers staðar mitt á milli draums og veruleika þar sem hann kemur ungri álfamær til aðstoðar. Sú álfkona er reyndar engin smá álfur því að hún heitir hvorki meira né minna en Hólmfríður Karlsdóttir en er kölluð Dotti í sögunni. Hún er reyndar ekkert sérstaklega lík Hófí enda búið að pimpa hana upp með hæfilega asnalegu álfsútliti, með álfaeyru og alles.
Í þakklætisskyni færir hún Sigga gullna skó og rauð gleraugu sem gera honum kleift að sjá álfa þegar hann setur þau upp. Allt þetta er auðvitað í anda bókanna um Sigga og Viggu. Það var svo sem ekkert ætlun SVEPPAGREIFANS að vera að velta sér mikið upp úr söguþræði bókarinnar enda var aðal tilgangurinn að skoða hina íslensku tengingu við söguna. En næsta dag fara söguhetjurnar til Reykjavíkur og fá sér meðal annars göngutúr í miðbænum. Á nokkrum myndum á blaðsíðu ellefu má sjá hvernig umhorfs var á þeim slóðum árið 1987. Lækjargata og Lækjartorg, strætó og örfáir, að því er virðist, túristar á ferli en einnig má sjá bregða fyrir íslenska fánanum og styttunni af Ingólfi gamla á Arnarhóli.
Örlitlu síðar má sjá hvar hópurinn er, á einhvern undarlegan hátt, skyndilega staddur einhvers staðar sunnan við Hallgrímskirkju en hún blasir við í bakgrunninum á mynd sem er efst á blaðsíðu tólf. Snöggt á litið virðast þau því með einhverjum óskiljanlegum hætti hafa flutt sig á einu augabragði í nágrenni við Barónsstíg eða um það bil þar sem Gamla Hringbraut er staðsett í dag.
Og enn undarlegra er að strax í kjölfarið á því eru söguhetjurnar okkar komnar alla leið út á Austurvöll. Eitthvað hefur höfundurinn Paul Geerts því verið illa áttaður við þessa vinnu sína. Í bókinni eru þau Siggi, Vigga og félagar þeirra mikið á ferðinni um álfaslóðir, í sveitum landsins og á hálendinu. Það verður að viðurkennast að landslag sögunnar er svolítið framandi fyrir okkur íslensku lesendur bókarinnar. Við vitum vel að á Íslandi er ekki mikið um gróður og hrjóstugir sandar með kuldalegum auðnum og eyðimörkum eru yfirleitt mun meira áberandi í óbyggðum landsins. Eða voru það alla vega fyrir rúmlega 30 árum. Paul Geerts hefur líklega blöskrað þessi gróðursnauða ímynd og ákveðið að bæta aðeins upp skógleysið á köflum með trjám og runnum. Myndin sem er framan á kápu bókarinnar er til dæmis ekkert sérstaklega íslensk á að líta. En reyndar fær auðnin einnig töluvert mikið að njóta sín í bókinni. Og svo hefur hann auðvitað ekki gleymt Jökulsárlóni, Geysi og Gullfossi.
Það er því margt framandi sem sést í bókinni þó augljóst sé að Geerts hafi haft nokkuð greinargóðar upplýsingar um land og þjóð. Af útliti gamalla torbæja og útihúsa, sem koma fyrir í bókinni, mætti nefnilega áætla að hann hafi haft góðar heimildir og gögn. En það er erfitt að átta sig á því hvort hann hafi komið hingað sjálfur til að vinna að og kynna sér sögusvið ævintýrisins eða hvort hann hafi eingöngu haft ljósmyndir og þær helstu upplýsingar sem til þurfti. Söguhetjurnar eru til dæmis oftast frekar fáklæddar og sjaldnast klæddar í samræmi við þær veðuraðstæður sem hér ríkja yfir skárstu mánuði ársins. Og það að aldrei skuli rigna í sögunni er líka afskaplega ótrúverðugt. Þá eru kindurnar í bókinni ekkert sérstaklega íslenskar í útliti og sömu sögu má segja um álfana og tröllin. Hins vegar virðast minna mikilvæg atriði hafa skilað sér betur því Stína frænka ríður til dæmis á hesti sínum í söðli á einni myndinni. SVEPPAGREIFANUM er ekki vel kunnugt um hvort að það hafi tíðkast í Belgíu. Sjálfsagt skiptir fæst af þessu neinu máli. Myndasögurnar um Suske og Wiske eru ennþá gríðarlega vinsælar og eflaust hefur enginn nennt að velta sér upp úr þessari einu bók sem gerist á Íslandi. Nema náttúrulega hinn tuðgjarni SVEPPAGREIFI.

Viðbót - 9. apríl 2019
SVEPPAGREIFINN fékk skemmtilega ábendingu, frá Inga Jenssyni í kommentakerfinu hér fyrir neðan, með viðbótarupplýsingum um þessa merkilegu bók. Þar segir hann meðal annars frá því hvernig frændi hans Þórður Tómasson safnvörður á Byggðasafninu í Skógum undir Eyjafjöllum kemur við sögu bókarinnar. Og þar sem SVEPPAGREIFINN hefur eintak af De edele elfen undir höndum (á frönsku að vísu) er tilvalið að birta mynd af þessari persónu sem Þórður er fyrirmyndin af. Enn og aftur takk fyrir ábendinguna, Ingi.

3 ummæli:

  1. Ég get bætt við ummælum og upplýsingum hvað þessa bók varðar :)
    Hann afa-bróðir minn, Þórður Tómasson, stofnandi Skógasafns undir Eyjafjöllum, fékk fólk í heimsókn á sínum tíma sem var í rannsóknarferð vegna þessarar bókar. Hvort um höfunda eða sendisveina var að ræða, veit ég ekki - en ég fékk að sjá bókina og bréf sem honum barst eftir útgáfu sögunnar. En hann Þórður var einmitt notaður sem fyrirmynd þess sem segir sögupersónum um álfana í sögunni :)
    Eitt sinn á myndasögumessu í Hollandi tókst mér að hafa upp á eintaki sem ég á upp í hillu!

    SvaraEyða
  2. Takk Ingi :) Frábært að fá svona ábendingar. Bróðir minn var líka búinn að benda mér á þessa staðreynd og ég ætla að henda hér inn smá uppfærslu á greininni með mynd :)

    Kveðja, SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  3. Það var við þessi bók sem áhugan mín fyrir Íslandi byrjaði, og fyrir ein mánaði flytjaði ég till Íslands.
    Finnt að lesa þessi ummæli nú!

    SvaraEyða

Út með sprokið!