10. maí 2019

110. ÝMSAR FRJÁLSLEGAR ÞÝÐINGAR ÚR LUKKU LÁKA

Þau okkar sem hafa verið dugleg við að lesa Lukku Láka bækurnar, okkur til ánægju og yndisauka síðustu áratugina, höfum ekki farið varhluta af býsna skemmtilegum þýðingum þeirra sem það inntu af hendi. Þorsteinn Thorarensen hjá Fjölva útgáfunni var helsti þýðandi þessara bóka á sínum tíma en einnig sáu þeir Þór Stefánsson og Loftur Guðmundsson um að snara fáeinum af þessum sögum Fjölva yfir á íslensku. Lukku Láka bækurnar hafa verið einstaklega skemmtilegar að lesa enda þýðingar þeirra ansi frjálslegar á köflum. Stór hluti þeirra þýðinga hefur til dæmis snúist um færa ýmis manna- og staðarheiti upp á rammíslenskan máta. Þorsteinn hefur líklega verið einna duglegastur við þá uppfærslu á meðan þeir Þór og Loftur virðast hafa verið eilítið hógværari í sínum aðgerðum. Ýmislegt annað var líka heimfært upp á íslenskan veruleika eftir því sem hentaði og annað var leikið sér með á hvern þann hátt sem Þorsteini datt í hug.
Í þeim bókum sem Froskur útgáfa hefur verið að senda frá sér síðustu árin hefur þessu hins vegar verið töluvert öðruvísi háttað. Þær þýðingar hafa verið í höndum þeirra Anitu K. Jónsson og helsta Lukku Láka fræðings okkar Íslendinga Sverris Arnar Björnssonar. Töluvert strangari reglur virðast hafa gilt í þýðingum á útgáfum Frosks enda kröfur frönsku rétthafanna orðnar allmiklu meiri en þekktist áður. Í dag er gert ráð fyrir að íslensku útgáfurnar skili sér eins orðrétt frá upprunalegu útgáfunum og unnt er og ekkert svigrúm er þar gefið til neinna einkabrandara af hálfu þýðendanna. Þannig var því hins vegar ekki alveg háttað þegar Fjölvi var að senda frá sér þessar bækur á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Eða ... kannski voru kröfurnar alveg til staðar en eftirlitinu hins vegar stórlega ábótavant. Sem er auðvitað frábært og gefur þessum útgáfum alveg einstaka sérstöðu og þá um leið gert þær að eftirsóknarverðum safngripum til frambúðar. Gömlu þýðingarnar munu nefnilega aldrei verða gefnar út aftur hérlendis. Alls gaf Fjölvi út 35 bækur með Lukku Láka á sínum tíma en Froskur útgáfa hefur núna síðustu árin sent frá sér þrjár bækur í viðbót, þá síðustu fyrir jólin 2018, og mun vonandi halda því áfram.
SVEPPAGREIFINN hefur aðeins verið gramsa í og fletta í gegnum þessar eldri íslensku þýðingar og ansi margt skemmtilegt hefur rekið á fjörur hans við það grúsk. Það sem fyrst kemur upp í hugann er hvernig þýðendur bókanna, og þá sérstaklega áðurnefndur Þorsteinn, hafa heimfært oft mjög skemmtilega hin fjölmörgu bæjanöfn villta vestursins upp á íslenskan veruleika. Sem dæmi um það má nefna að bærinn La Mesa í bókinni um Eldri Daltóna nefnist til dæmis Mysugil. Í Ríkisbubbanum Rattata verður Virginia City að Vigguborg (og reyndar einnig Virginíukaupstaður) og svo má líka nefna að í Rangláta dómaranum verður Austin að Ástarborg. En skemmtilegast er, að mati SVEPPAGREIFANS, þegar nöfnin eru ekki aðeins heimfærð upp á íslenskan máta heldur einnig hljómfærð. Þá koma fram undarleg bæjar/borgarheiti sem líklega eru ekki mjög þekkt á meðal staðkunnugra eða lesenda með þokkalega landafræðikunnáttu. En þeir sem tilbúnir eru að leyfa aðeins hugmyndafluginu að ráfa (eins og þýðendurnir hafa væntanlega gert), og reyna að tengja þá við staðháttu, eru fljótir að kveikja á perunni. Nægir þar til dæmis að nefna hvernig borgirnar Houston í sögunni Sónata í bang-moll í Allt um Lukku Láka verður að Hóstaborg, í bókinni Sara Beinharða verður Detroit að Dettirót og St. Louis að Sánkti Lús og í Batnandi englum verður Washington að Vostúni. Washington nefnist reyndar líka Vasatonn í Daldónar á ferð og flugi og bæði Vosbúðartún, Vosbúð og Vosutönn í Söngvírnum. Afskaplega framandi og skemmtilegar nafngiftir. 
En annars koma mörg bæjarheita Lukku Láka bókanna lesendum kunnuglega fyrir sjónir og allir muna eftir bæjunum Plómubæli, Kaktusgili, Lumputanga, Skorpugili og Einskisgili. Síðastnefndi bærinn heitir Nothing Gulch í frumútgáfunni og virðist vera helsta aðsetur Láka í bókaseríunni. Bærinn kemur reyndar fyrir í nokkrum Lukku Láka bókanna en þar er svolítið ósamræmi á milli íslensku þýðinganna. Í áðurnefndri Sónata í bang-moll í bókinni Allt um Lukku Láka nefnist bærinn einmitt Einskisgil en í Vagnalestinni heitir hann Einskisneinsgjá og í bókinni Ríkisbubbanum Rattata heitir hann Auðagil. Allar þessar sögur eru þýddar af títtnefndum Þorsteini Thorarensen. Í Sálarháska Daltón bræðra, í þýðingu Þórs Stefánssonar, heitir bærinn hins vegar Hnútagúll. Síðastnefnda sagan er sú fyrsta í íslensku útgáfuröðinni þar sem Nothing Gulch kemur fyrir og Þorsteinn hefur því líklega ekki lesið þýðingu Þórs, gleymt henni eða hreinlega ákveðið að fara eigin leiðir. Það var jú hann sem var líka sjálfur útgefandinn. Í Þverálfu-járnbrautinni kemur reyndar fyrir Einskisborg en það er ekki sami bærinn. Sá heitir Nothing City í upprunalegu sögunni.
Hringlandaháttur með nöfn bæjanna í Lukku Láka bókunum fer nokkuð víða. Í sögunni um Kalla keisara fór Þór Stefánsson til dæmis þá fjölfrjálslegu leið að kalla Grass Town ekki bara Grasakaupstað heldur var hann einnig nefndur Grasasnabær, Grasekkjubær, Grasasnakaupstaður og Grasbær,  allt í sömu bókinni. Svo má reyndar líka nefna það að Kalli stefnir að því að gera þennan margnefnda bæ að höfuðborg Bandaríkjanna og nefna hana að sjálfsögðu Grasington. Í bókinni Karlarígur í Kveinabæli gerist sagan að öllu leyti í og í námunda við bæinn Kveinagil en ekki Kveinabæli eins og hann er nefndur í titlinum. Reyndar virðist sem að opinberlega heiti plássins sé Kveinakaupstaður. Í upprunalegu sögunni heitir bærinn Painful Gulch og það nafn breytist aldrei í frönsku útgáfunni. Og sömu sögu má segja um aðrar upprunalegar útgáfur af Lukku Láka bókunum því það er bara í íslensku bókunum sem bæjarnöfnin fara svona frjálslega á flakk. Það er því nokkuð ljóst að íslensku þýðendurnir hafa tekið sér töluvert skáldaleyfi á köflum.
En það er fleira sem þýðendur Lukku Láka bókanna hafa verið að dunda sér við á sínum tíma. Það voru nefnilega ekki aðeins bæir og borgir í willta westrinu sem hafa fengið þessa nafnauppfærslu. Einnig hafa margar af helstu söguhetjum bókanna fengið sína útgáfu af nafngift upp á íslenskan máta. Billy the kid heitir Billi barnungi, Calamity Jane er Svala Sjana og Jesse James er Jessi Jamm og Jæja. Síðastnefnda nafnið finnst SVEPPAGREIFANUM reyndar algjör snilld. Þorsteinn fer einnig mjög skemmtilega með nöfn nokkurra annarra sögupersóna sem koma fyrir í bókinni Söngvírnum og voru einnig til í raun og veru. Þeir Abraham Lincoln Bandaríkjaforseti, Hiram Sibley forseti Western Union Telegraph Company og Stephen J. Field sem var forseti hæstaréttar Kaliforníu nefndust til dæmis Línkollur, Síblautur símaforstjóri og Stefán Fýldi. Allt auðvitað eftir bókinni. Og svo er ein mikilvæg og svolítið skemmtileg staðreynd um misræmi í þýðingum á nafngiftum í Lukku Láka bókunum. Daltón bræður eða Daldónar eru ýmist skrifaðir með té-i eða dé-i. Þetta misræmi má jafnvel sjá í titlum bókanna og fæstir hafa þó líklega tekið eftir því.
En eins undarlega og það hljómar er ekki endilega hægt að rekja það til þýðenda bókanna. Þarna er nefnilega í raun ekki um eiginlegt ósamræmi að ræða heldur snýst þetta um það að ættarnafn þeirra bræðra er einungis skrifað með té-i. Þ.e. Daltón (eða Dalton) bræður. Hins vegar er viðurnefnið Daldónar (og þá alltaf í fleirtölu) skrifað með dé-i. Líklega hefur þeim þýðendunum fundist þetta tilvalið til að koma -dóna hugmyndinni að í nafninu.

En látum þessa tilgangs- og innihaldslausustu bloggfærslu Internetsins frá upphafi duga að sinni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!