SVEPPAGREIFINN brá sér aðeins til útlanda í byrjun maí mánaðar og naut almennrar slökunar og endurhleðslu hjá tengarmömmu sinni sem búsett er í Sviss. Vikufrí í fersku lofti sveitaþorps sem staðsett er í Júrafjallgarðinum gerði fjölskyldunni bara gott og samhliða því að hlaða batteríin, fyrir komandi verkefni, notaði SVEPPAGREIFINN auðvitað tækifærið og fyllti svolítið á myndasögutanka heimilisins. Það er reyndar yfirleitt aldrei svo að hann sé með einhverjar fyrirfram ákveðnar áætlanir um hvað kaupa skuli næst en þó eru oft einhverjar óskir hafðar á bak við bæði eyrun. Svona EF þær óskir skyldu liggja einhvers staðar á áberandi glámbekk. Og það varð einmitt raunin að þessu sinni. SVEPPAGREIFINN hafði stefnt að því (ef möguleiki yrði fyrir hendi) að reyna að nálgast bók númer tvö, L'apprenti méchant, úr nýju seríunni um Zorglúbb, ennfremur L'espoir malgré tout eftir Émile Bravo úr bókaflokknum um Sérstök ævintýri Svals ... og að síðustu þá einu bók sem hann vantar upp á úr upprunalegu seríunni um Sval og Val. Það er að sjálfsögðu sagan Les faiseurs de silence eftir þá Nic og Cauvin. Þessi markmið heppnuðust öll tiltölulega giftusamlega og af þeim sökum kom SVEPPAGREIFINN ekki bara sæmilega úthvíldur heim úr fríinu heldur líka hamingjusamlega fullnægður af myndasögufjárfestingum. Alls verslaði SVEPPAGREIFINN 10 myndasögur að þessu sinni en hann hefur reyndar oft verið atkvæðameiri.
En þetta frí var þó fyrst og fremst slökun í friðsælu fjallaþorpi þó ekki væri hjá því komist að kíkja aðeins í heimsókn til næstu borgar. Sú borg heitir Biel og hefur nokkrum sinnum reynst ágætlega til nauðsynlegra aðfanga í myndasöguhillurnar. Fyrstu tvær bækurnar voru einmitt gripnar úr myndasögudeild hinnar svissnesku stórverslunarkeðju Manor í Biel sem hefur einhvers konar samsvörun við Hagkaup okkar Íslendinga. Nema Manor er auðvitað margfalt stærri. Þarna var um að ræða tvær teiknimyndasögur úr seríunni um litla Lukku Láka eða Kid Lucky eins og þær heita á frummálinu. SVEPPAGREIFINN hefur svona lúmskt gaman af þessum bókaflokki þótt bækurnar séu í sjálfu sér ekki mjög merkilegar. En hann átti fyrir tvær (númer 2 og 4) af þeim fjórum bókum sem komið hafa út í seríunni og fannst því tilvalið að nota tækifærið til að bæta þar inn í sem upp á vantaði. Og í beinu framhaldi af því má einnig nefna að til eru tvær bækur í viðbót sem fjalla um bernskuár Lukku Láka en þær tilheyra reyndar upprunalegu seríunni um kappann. En þessar Kid Lucky bækur sem SVEPPAGREIFINN keypti eru á frönsku og heita L'apprenti cow-boy og Statue Squaw en þær eru því bækur númer 1 og 3. Bækurnar tvær fengust úr tilboðsrekka myndasögudeildarinnar og borgaði SVEPPAGREIFINN ekki nema 8 franka fyrir hvora bók sem gera um það bil 958 íslenskar krónur. Það telst frekar lítið fyrir myndasögur í Sviss.
Næst rak SVEPPAGREIFINN nefið inn í nokkuð góða bókabúð sem nefnist Lüthy og tilheyrir kunnri svissneskri bókabúðakeðju. Þessi verslun hefur oft áður reynst vel við myndasögukaup og það var einmitt í þessari búð sem bækurnar L'apprenti méchant úr seríunni um Zorglúbb og L'espoir malgré tout úr Sérstökum ævintýrum Svals, sem minnst var á hér í byrjun, fengust. SVEPPAGREIFINN hefur svolítið minnst á þessar seríur báðar og verið nokkuð hrifinn af. Bókaflokkurinn um Zorglúbb hóf göngu sína sumarið 2017 þegar sagan La Fille du Z kom út hjá Dupuis og hann var fljótur að verða sér úti um eintak af henni á sínum tíma en bók númer tvö var gefin út í september síðastliðnum. SVEPPAGREIFINN er frámunalega gamaldags og hreinskilnislega verslar hann ekki mikið af Netinu og gat því varla beðið eftir að nálgast bókina, ennþá volgri, beint úr búðarhillunni.
Um L'espoir malgré tout úr Sérstökum ævintýrum Svals... er það að segja að bókin er eftir listamanninn Émile Bravo sem SVEPPAGREIFINN er mjög hrifinn af og er mikill aðdáandi fyrstu sögu hans Le Journal d'un ingénu sem hann gerði fyrir bókaflokkinn og kom út árið 2007. Hér má aðeins lesa um hana. En L'espoir malgré tout, sem SVEPPAGREIFINN keypti reyndar á þýsku og heitir þá SPIROU oder: die Hoffnung Teil 1, er heilar 96 blaðsíður að lengd. Á næstu tveimur árum eru fyrirhugaðar þrjár framhaldsbækur í viðbót sem Bravo er víst löngu búinn að teikna en alls verða þetta vel á fjórða hundrað blaðsíður. Í fyrstu sögunni (Le Journal d'un ingénu) sagði frá því hvernig Svalur var kynntur til sögunnar í Brussel rétt áður en Síðari heimsstyrjöldin skall á, hvernig þeir Valur kynntust og að lokum hvernig sá síðarnefndi kom stríðinu í rauninni af stað. Í nýju bókinni L'espoir malgré tout er Heimsstyrjöldin hins vegar hafin, Belgía er hernumin af Þjóðverjum og Valur skráir sig í herinn. Í fyrstu sögunni hafði Émile Bravo ekki farið leynt með aðdáun sínum á Hergé og Tinna bókunum en minna fer fyrir því í nýju bókinni þó enn megi alveg sjá nokkur slík dæmi. SVEPPAGREIFINN mælir eindregið með þessum sögum (og reyndar seríunni allri) og bendir áhugasömum lesendum á að bækurnar hafa verið gefnar út á dönsku ef einhver gæti hugsað sér að notfæra sér það. Næsta bók er væntanleg í september.
Í seinna skiptið af borgarferðunum tveimur til Biel brá fjölskyldan sér eitt augnablik inn í blaða- og tímaritssjoppu á lestarstöðinni til að kaupa ís handa dótturinni - nánar tiltekið OREO ís. Þarna greip SVEPPAGREIFINN með sér tvær Lukku Láka bækur á þýsku. Hér var annars vegar á ferðinni nýjasta sagan úr bókaflokknum, Ein Cowboy in Paris (Un cow-boy à Paris), eftir þá Achdé og Jul en þetta er 80. bókin úr upprunalegu röðinni (sú 97. úr þýsku röðinni) og kom út í nóvember 2018. Þessi saga hefur fengið nokkuð jákvæðar viðtökur og var til dæmis ein af mest seldu teiknimyndasögunum í Belgíu árið 2018. Hin Lukku Láka bókin sem gripin var á lestarstöðinni kemur úr hinni rómuðu hliðarseríu um kúrekann knáa og nefnist Lucky Luke sattelt um og er alveg glæný - kom út núna í byrjun maí. Sú bók er eftir þýska teiknarann Mawil og hann samdi einnig handritið að sögunni en Mawil þessi er fyrsti Þjóðverjinn sem verður þess heiðurs aðnjótandi að fá að teikna Lukku Láka. Myndasagan er því sú allra nýjasta úr hliðarbókaflokknum um Lukku Láka en alls eru nú komnar út þrjár sögur úr þeirri seríu. Næstu bókakaupamarkmið SVEPPAGREIFANS snúast væntanlega að hluta til um að muna eftir að nálgast fyrstu tvær sögurnar. Fyrsta bókin í þessari seríu, L'Homme qui tua Lucky Luke sem er eftir franska listamanninn Matthieu Bonhomme, kom út árið 2016 en saga númer tvö nefnist Jolly Jumper ne répond plus. Hún er eftir Guillaume Bouzard sem einnig er Frakki og kom út árið 2017. Allar þessar bækur úr hliðaseríunni eru, líkt og í Sérstökum ævintýrum Svals ..., í óhefðbundnum teiknistíl sem gera sögurnar vissulega óvenjulegar. Fyrstu tvær bækurnar hafa unnið til fjölda verðlauna og í það minnsta er þarna hægt að sjá Lukku Láka í algjörlega nýju ljósi.
Síðustu nóttina dvaldi SVEPPAGREIFINN með fjölskyldunni sinni í Basel og þar er venjan að reyna að kíkja við í myndasögubúðinni COMIX SHOP í þau skipti sem kostur er. Fyrst var þó tekinn hefðbundinn rúntur um miðbæinn og þar var einnig kíkt bæði á ís og venjulegar bókabúðir. Í einni þeirra rakst SVEPPAGREIFINN á myndasöguna Spirou in Berlin en um tilurð þessarar bókar hafði hann ekki haft hugmynd um enda er sagan tiltölulega nýkomin út hjá Carlsen útgáfunni. Spirou in Berlin er eftir þýskan listamann (Felix Görmann) sem kallar sig Flix og líkt og með fyrstu þýsku Lukku Láka bókina, sem minnst var á hér að ofan, er Spirou in Berlin einnig fyrsta Sval og Val bókin sem Þjóðverji teiknar. Sagan er einhvers konar þýskt hliðarverkefni (með fullu samþykki og eftirliti Dupuis) og hefur ekki verið gefin út á frönsku en er væntanleg þannig árið 2021. Bókin segir frá því er þeir Svalur og Valur halda til Austur Þýskalands, rétt fyrir fall Berlínarmúrsins, árið 1989 þar sem Sveppagreifanum (hinum upprunalega) hefur verið rænt af þarlendum yfirvöldum en einnig koma bæði Stasi og Sammi frændi við sögu. SVEPPAGREIFINN er aðeins búinn að fletta í gegnum bókina og lýst bara nokkuð vel á en í hvert sinn sem hann blaðar í gegnum nýlegar sögur um Sval og Val (og hliðarseríuna um Sérstök ævintýri Svals ...) veltir hann því fyrir sér hvernig hún hefði litið út ef Franquin hefði teiknað hana. En Spirou in Berlin virðist vera mjög áhugaverð.
Í COMIX SHOP verslaði SVEPPAGREIFINN sér hins vegar þrjár teiknimyndasögur í viðbót og þar náði hann loksins því markmiði sínu að loka hringnum og eignast síðustu Sval og Val bókina. 32. bókin Les faiseurs de silence frá árinu 1984, eftir þá Nic og Cauvin, eða öllu heldur þýska útgáfan af henni, Der Lärmschlucker, er því loksins komin í hús. Og þar með eru allar 55 Sval og Val bækurnar komnar í myndasöguhillur heimilisins. Ef allar bækur SVEPPAGREIFANS um þá félaga, þar með taldar líka hliðarserían og á öllum tungumálum, eru taldar með þá eru þær líklega orðnar nálægt 90 talsins í bókahillunum. En þessi saga, Les faiseurs de silence, er þó í raun nauðaómerkileg og er eflaust talin af einhverjum sú allra lélegasta í seríunni en hún telur þó jafnmikið og hinar.
Tvær aðrar bækur í viðbót bættust í safnið úr COMIX SHOP og þær koma báðar úr hliðarseríunni um Sval og Val og eru á þýsku. Þarna var um að ræða fyrstu söguna úr bókaflokknum Die steinernen Riesen (Les Géants pétrifiés - 2006) eftir þá Yoann og Vehlmann og Fantasio heiratet (Fantasio se marie - 2016) sem er númer níu í hliðarseríunni og er eftir Belgann Benoit Feroumont. Nú vantar SVEPPAGREIFANN aðeins þrjár af bókunum úr seríunni en alls eru þær nú orðnar fjórtán talsins. Til gamans má geta þess að listamaðurinn Yoann (Yoann Chivard), sem er höfundur Sval og Val bókanna í dag ásamt Fabien Vehlmann, hafði verið í COMIX SHOP helgina á undan SVEPPAGREIFANUM við að árita hitt og þetta fyrir viðskiptavini verslunarinnar.
SVEPPAGREIFINN kíkti reyndar einnig á stóran flóamarkað sem starfræktur er nálægt miðbæ Basel á hverjum laugardegi og hann hefur komið nokkuð reglulega við á undanförnum árum. Þar fann hann reyndar ekkert bitastætt að þessu sinni en þessi markaður hefur nokkrum sinnum reynst honum vel áður við grúsk og grams.
En þetta frí var þó fyrst og fremst slökun í friðsælu fjallaþorpi þó ekki væri hjá því komist að kíkja aðeins í heimsókn til næstu borgar. Sú borg heitir Biel og hefur nokkrum sinnum reynst ágætlega til nauðsynlegra aðfanga í myndasöguhillurnar. Fyrstu tvær bækurnar voru einmitt gripnar úr myndasögudeild hinnar svissnesku stórverslunarkeðju Manor í Biel sem hefur einhvers konar samsvörun við Hagkaup okkar Íslendinga. Nema Manor er auðvitað margfalt stærri. Þarna var um að ræða tvær teiknimyndasögur úr seríunni um litla Lukku Láka eða Kid Lucky eins og þær heita á frummálinu. SVEPPAGREIFINN hefur svona lúmskt gaman af þessum bókaflokki þótt bækurnar séu í sjálfu sér ekki mjög merkilegar. En hann átti fyrir tvær (númer 2 og 4) af þeim fjórum bókum sem komið hafa út í seríunni og fannst því tilvalið að nota tækifærið til að bæta þar inn í sem upp á vantaði. Og í beinu framhaldi af því má einnig nefna að til eru tvær bækur í viðbót sem fjalla um bernskuár Lukku Láka en þær tilheyra reyndar upprunalegu seríunni um kappann. En þessar Kid Lucky bækur sem SVEPPAGREIFINN keypti eru á frönsku og heita L'apprenti cow-boy og Statue Squaw en þær eru því bækur númer 1 og 3. Bækurnar tvær fengust úr tilboðsrekka myndasögudeildarinnar og borgaði SVEPPAGREIFINN ekki nema 8 franka fyrir hvora bók sem gera um það bil 958 íslenskar krónur. Það telst frekar lítið fyrir myndasögur í Sviss.
Næst rak SVEPPAGREIFINN nefið inn í nokkuð góða bókabúð sem nefnist Lüthy og tilheyrir kunnri svissneskri bókabúðakeðju. Þessi verslun hefur oft áður reynst vel við myndasögukaup og það var einmitt í þessari búð sem bækurnar L'apprenti méchant úr seríunni um Zorglúbb og L'espoir malgré tout úr Sérstökum ævintýrum Svals, sem minnst var á hér í byrjun, fengust. SVEPPAGREIFINN hefur svolítið minnst á þessar seríur báðar og verið nokkuð hrifinn af. Bókaflokkurinn um Zorglúbb hóf göngu sína sumarið 2017 þegar sagan La Fille du Z kom út hjá Dupuis og hann var fljótur að verða sér úti um eintak af henni á sínum tíma en bók númer tvö var gefin út í september síðastliðnum. SVEPPAGREIFINN er frámunalega gamaldags og hreinskilnislega verslar hann ekki mikið af Netinu og gat því varla beðið eftir að nálgast bókina, ennþá volgri, beint úr búðarhillunni.
Um L'espoir malgré tout úr Sérstökum ævintýrum Svals... er það að segja að bókin er eftir listamanninn Émile Bravo sem SVEPPAGREIFINN er mjög hrifinn af og er mikill aðdáandi fyrstu sögu hans Le Journal d'un ingénu sem hann gerði fyrir bókaflokkinn og kom út árið 2007. Hér má aðeins lesa um hana. En L'espoir malgré tout, sem SVEPPAGREIFINN keypti reyndar á þýsku og heitir þá SPIROU oder: die Hoffnung Teil 1, er heilar 96 blaðsíður að lengd. Á næstu tveimur árum eru fyrirhugaðar þrjár framhaldsbækur í viðbót sem Bravo er víst löngu búinn að teikna en alls verða þetta vel á fjórða hundrað blaðsíður. Í fyrstu sögunni (Le Journal d'un ingénu) sagði frá því hvernig Svalur var kynntur til sögunnar í Brussel rétt áður en Síðari heimsstyrjöldin skall á, hvernig þeir Valur kynntust og að lokum hvernig sá síðarnefndi kom stríðinu í rauninni af stað. Í nýju bókinni L'espoir malgré tout er Heimsstyrjöldin hins vegar hafin, Belgía er hernumin af Þjóðverjum og Valur skráir sig í herinn. Í fyrstu sögunni hafði Émile Bravo ekki farið leynt með aðdáun sínum á Hergé og Tinna bókunum en minna fer fyrir því í nýju bókinni þó enn megi alveg sjá nokkur slík dæmi. SVEPPAGREIFINN mælir eindregið með þessum sögum (og reyndar seríunni allri) og bendir áhugasömum lesendum á að bækurnar hafa verið gefnar út á dönsku ef einhver gæti hugsað sér að notfæra sér það. Næsta bók er væntanleg í september.
Í seinna skiptið af borgarferðunum tveimur til Biel brá fjölskyldan sér eitt augnablik inn í blaða- og tímaritssjoppu á lestarstöðinni til að kaupa ís handa dótturinni - nánar tiltekið OREO ís. Þarna greip SVEPPAGREIFINN með sér tvær Lukku Láka bækur á þýsku. Hér var annars vegar á ferðinni nýjasta sagan úr bókaflokknum, Ein Cowboy in Paris (Un cow-boy à Paris), eftir þá Achdé og Jul en þetta er 80. bókin úr upprunalegu röðinni (sú 97. úr þýsku röðinni) og kom út í nóvember 2018. Þessi saga hefur fengið nokkuð jákvæðar viðtökur og var til dæmis ein af mest seldu teiknimyndasögunum í Belgíu árið 2018. Hin Lukku Láka bókin sem gripin var á lestarstöðinni kemur úr hinni rómuðu hliðarseríu um kúrekann knáa og nefnist Lucky Luke sattelt um og er alveg glæný - kom út núna í byrjun maí. Sú bók er eftir þýska teiknarann Mawil og hann samdi einnig handritið að sögunni en Mawil þessi er fyrsti Þjóðverjinn sem verður þess heiðurs aðnjótandi að fá að teikna Lukku Láka. Myndasagan er því sú allra nýjasta úr hliðarbókaflokknum um Lukku Láka en alls eru nú komnar út þrjár sögur úr þeirri seríu. Næstu bókakaupamarkmið SVEPPAGREIFANS snúast væntanlega að hluta til um að muna eftir að nálgast fyrstu tvær sögurnar. Fyrsta bókin í þessari seríu, L'Homme qui tua Lucky Luke sem er eftir franska listamanninn Matthieu Bonhomme, kom út árið 2016 en saga númer tvö nefnist Jolly Jumper ne répond plus. Hún er eftir Guillaume Bouzard sem einnig er Frakki og kom út árið 2017. Allar þessar bækur úr hliðaseríunni eru, líkt og í Sérstökum ævintýrum Svals ..., í óhefðbundnum teiknistíl sem gera sögurnar vissulega óvenjulegar. Fyrstu tvær bækurnar hafa unnið til fjölda verðlauna og í það minnsta er þarna hægt að sjá Lukku Láka í algjörlega nýju ljósi.
Síðustu nóttina dvaldi SVEPPAGREIFINN með fjölskyldunni sinni í Basel og þar er venjan að reyna að kíkja við í myndasögubúðinni COMIX SHOP í þau skipti sem kostur er. Fyrst var þó tekinn hefðbundinn rúntur um miðbæinn og þar var einnig kíkt bæði á ís og venjulegar bókabúðir. Í einni þeirra rakst SVEPPAGREIFINN á myndasöguna Spirou in Berlin en um tilurð þessarar bókar hafði hann ekki haft hugmynd um enda er sagan tiltölulega nýkomin út hjá Carlsen útgáfunni. Spirou in Berlin er eftir þýskan listamann (Felix Görmann) sem kallar sig Flix og líkt og með fyrstu þýsku Lukku Láka bókina, sem minnst var á hér að ofan, er Spirou in Berlin einnig fyrsta Sval og Val bókin sem Þjóðverji teiknar. Sagan er einhvers konar þýskt hliðarverkefni (með fullu samþykki og eftirliti Dupuis) og hefur ekki verið gefin út á frönsku en er væntanleg þannig árið 2021. Bókin segir frá því er þeir Svalur og Valur halda til Austur Þýskalands, rétt fyrir fall Berlínarmúrsins, árið 1989 þar sem Sveppagreifanum (hinum upprunalega) hefur verið rænt af þarlendum yfirvöldum en einnig koma bæði Stasi og Sammi frændi við sögu. SVEPPAGREIFINN er aðeins búinn að fletta í gegnum bókina og lýst bara nokkuð vel á en í hvert sinn sem hann blaðar í gegnum nýlegar sögur um Sval og Val (og hliðarseríuna um Sérstök ævintýri Svals ...) veltir hann því fyrir sér hvernig hún hefði litið út ef Franquin hefði teiknað hana. En Spirou in Berlin virðist vera mjög áhugaverð.
Í COMIX SHOP verslaði SVEPPAGREIFINN sér hins vegar þrjár teiknimyndasögur í viðbót og þar náði hann loksins því markmiði sínu að loka hringnum og eignast síðustu Sval og Val bókina. 32. bókin Les faiseurs de silence frá árinu 1984, eftir þá Nic og Cauvin, eða öllu heldur þýska útgáfan af henni, Der Lärmschlucker, er því loksins komin í hús. Og þar með eru allar 55 Sval og Val bækurnar komnar í myndasöguhillur heimilisins. Ef allar bækur SVEPPAGREIFANS um þá félaga, þar með taldar líka hliðarserían og á öllum tungumálum, eru taldar með þá eru þær líklega orðnar nálægt 90 talsins í bókahillunum. En þessi saga, Les faiseurs de silence, er þó í raun nauðaómerkileg og er eflaust talin af einhverjum sú allra lélegasta í seríunni en hún telur þó jafnmikið og hinar.
Tvær aðrar bækur í viðbót bættust í safnið úr COMIX SHOP og þær koma báðar úr hliðarseríunni um Sval og Val og eru á þýsku. Þarna var um að ræða fyrstu söguna úr bókaflokknum Die steinernen Riesen (Les Géants pétrifiés - 2006) eftir þá Yoann og Vehlmann og Fantasio heiratet (Fantasio se marie - 2016) sem er númer níu í hliðarseríunni og er eftir Belgann Benoit Feroumont. Nú vantar SVEPPAGREIFANN aðeins þrjár af bókunum úr seríunni en alls eru þær nú orðnar fjórtán talsins. Til gamans má geta þess að listamaðurinn Yoann (Yoann Chivard), sem er höfundur Sval og Val bókanna í dag ásamt Fabien Vehlmann, hafði verið í COMIX SHOP helgina á undan SVEPPAGREIFANUM við að árita hitt og þetta fyrir viðskiptavini verslunarinnar.
SVEPPAGREIFINN kíkti reyndar einnig á stóran flóamarkað sem starfræktur er nálægt miðbæ Basel á hverjum laugardegi og hann hefur komið nokkuð reglulega við á undanförnum árum. Þar fann hann reyndar ekkert bitastætt að þessu sinni en þessi markaður hefur nokkrum sinnum reynst honum vel áður við grúsk og grams.
Skemmtileg lesning. Takk fyrir mig.
SvaraEyðaEnn og aftur, takk sömuleiðis :)
SvaraEyða