Það er ýmislegt fróðlegt og skemmtilegt sem finna má á hinu stórsniðuga Interneti sem tröllriðið hefur heimsbyggðinni að undanförnu. SVEPPAGREIFANUM gagnast þetta áðurnefnda fyrirbæri til dæmis töluvert við vinnu sína að bloggsíðu sinni, Hrakförum og heimskupörum, og hann er ekki frá því að þar megi jafnvel finna ýmsan tilgangslausan óþarfa. Áðurnefnd bloggsíða telst líklega reyndar vera troðfull af þess konar fánýti. En svo maður komi sér að efninu, í stuttri færslu dagsins, þá fjallar það um hvernig hægt er að útbúa skemmtilegan náttborðslampa í anda Tinna bókanna. Síðastliðið sumar fjallaði SVEPPAGREIFINN nokkuð ítarlega um 50 ára afmæli mannaðra tunglferða í tengslum við bækurnar um ævintýri Tinna á tunglinu og þessi færsla hefur nokkra tengingu við það efni. En í eftirfarandi myndbandi má sjá hvernig útbúa má (á einfaldan hátt?) áðurnefndan lampa. Það er reyndar með þeim fyrirvara að viðkomandi sé jafn vel tækjum búinn og hátæknibúin húsgagnaverksmiðja, að hann sé handlaginn sem heilaskurðlæknir og ekki síst að sá hafi bæði nennu og tíma til að dunda sér við slíka þrautleiðinlega þolinmæðisvinnu.
Annars
er kannski rétt, fyrst maður er farinn að minnast á Tinna, að benda
þeim Tinna aðdáendum á sem ekki eru enn búnir að kaupa jólagjöf handa
sjálfum sér að hægt er að kaupa allt Tinna safnið í einum DVD pakka í Nexus í Glæsibæ á aðeins 999 kall. Góðar stundir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Út með sprokið!