12. apríl 2020

161. MISTÖK Í TINNA BÓKUNUM - FJÓRÐI HLUTI

Þá er hinn gleðilegi páskadagur runninn upp og enn á ný er komið að mistakapakka úr Tinna bókunum. Að þessu sinni er það fjórði og næstsíðasti hlutinn en undanfarna þrjá daga hefur SVEPPAGREIFINN verið að dunda sér við að birta þessar færslur fyrir þá sem leiðast þessir dagar. Fyrsta bókin sem við kíkjum á í dag er Fangarnir í Sólhofinu.

13. FANGARNIR Í SÓLHOFINU
Bls 1. Strax í upphafi sögunnar um Fangana í Sólhofinu hafa þeir Tinni og Kolbeinn flogið til hafnarborgarinnar Kallaó í Perú. Og til að sýna fram á þessa staðreynd er birt kort af Suður Ameríku strax á fyrsta myndaramma sögunnar á blaðsíðu eitt. En þegar betur er að gáð kemur í ljós að Perú er bara alls ekki með alveg rétta lögun á kortinu. Einhverjum kynni að finnast að hér væri verið að gera úlfalda úr mýflugu. En án nokkurs vafa er hætt við að einhverjir Íslendingar myndu móðgast illilega ef sambærileg mistök af Íslandi finndust í einhverri teiknimyndasögu.
Bls 9. Enn á ný er Hergé í vandræðum með símana sína. Eftir að Tinni og Kolbeinn hafa staðfest grun sinn, um að prófessor Vandráður sé um borð í flutningaskipinu Pakakama, drífa þeir sig í land og Tinni skipar Kolbeini að hringja í lögreglustjórann á meðan hann stendur sjálfur á verði. Kolbeinn bregður sér því í næsta símklefa. Á tveimur myndum sjást mismunandi útgáfur af skífunni á símanum. Á fyrri myndinni sýnir skífan á símanum tíu tölur en aðeins níu á þeirri seinni.
Bls 15. Þeir Tinni, Tobbi og Kolbeinn fá sér far með lest til borgarinnar Júga þegar óprúttnir aðilar taka sig til og aftengja aftasta vagninn (þann sem þeir félagar sitja einir um) frá afgangnum af lestinni. Vagninn tekur að renna stjórnlaust til baka og þeir félagar bregða því á það ráð að stökkva af lestinni áður en það verður um seinan. Tinni tefst hins vegar af því að hann áttar sig á að Tobbi er enn sofandi í sætinu. Hraðinn er því orðinn of mikill svo hann neyðist til að henda sér af lestinni á brú einni yfir djúpu árglúfri. En eðlisfræðilega gengur þetta víst ekki upp. Tinni stekkur af lestinni sem er á ferð og hefði því fallið niður með sama hliðarhraða og lestin var á. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði hann því átt að lenda í klettunum handan árinnar. Ef hann ætlaði að lenda ofan í vatninu hefði hann átt að stökkva áður en lestin var komin út yfir ána.
Bls 58 - 59. Í Föngunum í Sólhofinu er að finna eitt sígildasta atvik Tinna bókanna. Þar er um að ræða atvikið þegar fórna á þeim Tinna, Kolbeini og Vandráði prófessor fyrir sólarguðinum og Tinni bjargar þeim frá bana með vitneskju sinni um sólmyrkvann. Þetta þekkja allir og í framhaldinu treystir SVEPPAGREIFINN á að hann fari ekki með neinar fleipur. En tunglið skyggir smán saman á sólina á nokkrum myndum á blaðsíðum 58 og 59 og á þeim sést hvernig það færist frá neðri hluta sólarinnar hægra megin og yfir á efri hlutann vinstra megin. Við sólmyrkva á norðurhveli jarðar færi tunglið framan við tunglið úr þessa átt. Þessi sólmyrkvi er hins vegar á suðurhvelinum.
15. ELDFLAUGASTÖÐIN
Framan í bókarkápu Eldflaugastöðvarinnar er einföld villa sem hefur sennilega farð framhjá ansi mörgum í gegnum tíðina. Þetta er líklega ein þekktasta kápa Tinna bókanna og sýnir frá mjög eftirminnilegu atviki úr sögunni þegar Vandráður tók bláa jeppann ófrjálsri hendi. Fæstir hafa þó líklega tekið eftir því að við bílstjórasætið, þar sem Vandráður prófessor situr, vantar alveg stýrið!
Bls 1 - 2. Kolbeinn og Tinni koma heim að Myllusetri eftir langa dvöl erlendis og staldra aðeins við í anddyrinu við tröppurnar þar. Þessar tröppur sjást nokkuð oft í Tinna bókunum og skemmst er að minnast þeirra í bókinni um Vandræði Vaílu Veinólínó þar sem Magnsteinn nokkur múrarameistari kemur töluvert við sögu. Fyrsta þrepið byrjar eilítið fyrir innan háa stólpann (bls 1) við enda handriðsins vinstra megin. Hægra megin (bls 2) má hins vegar sjá hvar allur stólpinn kemur nokkuð framan við tröppuna. Það er því ljóst að töluvert ósamræmi er á staðsetningu stöplanna.
Bls 2 - 3. Um leið og Tinni og Kolbeinn koma heim fá þeir símskeyti frá Vandráði prófessor um að koma tafarlaust til Sýldavíu þar sem hann óskar eftir liðsinni þeirra. Tveimur dögum síðar eru þeir komnir upp í flugvél og halda af stað til hinnar sýldavísku höfuðborgar Klow. Þessi flugvél (sem er frá hinu margrómaða flugfélagi Syldair) breytir hins vegar svolítið um útlit uppi í háloftunum. Á fyrri myndinni (bls 2) sést að hluti hlífanna yfir hreyflunum er með gulum lit en ekki á þeirri seinni (bls 3) og auk þess virðast bæði litasamsetningin og merkingarnar á stélinu hafa breyst.
Bls 27. Vandráður er að undirbúa ferð til tunglsins og í fyrstu vinnur hann að lítilli tilraunaeldflaug sem nefnist X-FLR 6. Eldflaugin er kunnugleg í útliti og allir kannast við rauð/hvít köflóttu útfærsluna sem er svo áberandi í tunglbókunum tveimur. Litla eldflaugin er með fimm bil af rauðu og hvítu reitunum á öllum stöðum í bókinni og það sést til dæmis vel á myndinni hér til vinstri. Á einum myndaramma í bókinni (bls 27) er flaugin þó með sex bil en það sést á myndinni til hægri.
Bls 50 - 51. Undirbúningur geimfaranna er í fullum gangi og að ýmsu þarf að huga í aðdraganda tunglferðarinnar enda af nægum verkefnum að taka. Á fundi með herra Baxter greinir prófessor Vandráður frá því (bls 51) að Tobbi sé, á nákvæmlega þeirri stundu, staddur í prófun á geimbúningi sínum sem verið er að ljúka við. Samt er Tobbi (bls 50) með þeim á þessum fundi!
Bls 55 - 56. Þeir Tinni og Kolbeinn er á leiðinni til geimskotsins og sitja saman í bíl sem ekur þeim þangað. Aftan frá sést að Kolbeinn situr vinstra megin í aftursæti bílsins (bls 55) og Tinni hægra megin. En séð innan úr bílnum (bls 56) situr Kolbeinn hins vegar í sætinu hans Tinna og öfugt.
16. Í MYRKUM MÁNAFJÖLLUM
Þegar byrjað er að fjalla um mistök í bókinni Í myrkum mánafjöllum þá er kannski rétt að skoða fyrst aðeins eldflaugina sjálfa eins og hana leggur sig. Aðallitur flaugarinnar er rauður en á efri hluta hennar er hins vegar rauð og hvít köflóttur partur sem gefur henni þetta einkennandi útlit sem allir kannast auðvitað mjög vel við. Litirnir raðast upp á þann hátt að á milli hverra fóta flaugarinnar komast fyrir tvær raðir af reitum. Neðstu reitirnir tveir skiptast því yfirleitt þannig að vinstra megin er reiturinn hvítur en hægra megin er hann rauður. Þetta sést til dæmis greinilega framan á kápu bókarinnar. Litauppröðunin á eldflauginni er þó ekki alls staðar eins og hefur víxlast á nokkrum stöðum í bókinni þar sem rauði liturinn er vinstra megin. Dæmi um það eru eiginlega út um alla bókina og raunar má deila um hvort sé rétt og hvort er rangt.
Bls 2. Í tunglferðabókunum tveimur fá starfsfólk eldflaugastöðvarinnar úthlutað samfestingum í aðeins mismunandi litum. Hver starfsmaður fær sitt eigið númer, með svörtum stöfum á rauðum hring, merkt á vinstri brjóstvasa vinnusamfestings síns. Kolbeinn hefur ávallt númerið 56 framan á brjóstvasa sínum en á einni mynd í upphafi bókarinnar er hann hins vegar með númer 57.
Bls 3. Aftur eru númersmerkingar samfestinga starfsmanna eldflaugastöðvarinnar til umfjöllunar. Á myndinni sem er hægra megin ætti merkið á brjóstvasa Skapta að vera rautt á litinn.
Bls 4. Tunglfararnir eru lagðir af stað út í geiminn og Vandráður kallar á þá Tinna og Wolf til að sýna þeim jörðina, í spegilsjónauka hans, úr 9500 kílómetra fjarlægð. Þarna sést jörðin í allri sinni dýrð utan úr geimnum en það er hins vegar ekki eitt einasta ský sjáanlegt á öllum hnettinum.
Bls 7. Enn á ný eru númeramerkingar söguhetjanna komnar eitthvað á flakk. Tinni er alltaf með númerið 57 á brjóstvasa sínum í bókunum nema á einni mynd í þriðju myndaröð á blaðsíðu sjö. Þar hefur hann verið merktur númerinu 56 sem ku reyndar vera talan hans Kolbeins kafteins.
Bls 11. Snemma í bókinni fær Kolbeinn sér aðeins í glas, bregður sér í geimbúninginn og tilkynnir ferðafélögum sínum að hann ætli að fljúga heim aftur. Eldflaugin stöðvast þá sjálfkrafa og Tinni bregður sér líka út fyrir til að reyna að hafa vit fyrir kafteininum en það tekst að lokum eftir töluvert japl, jaml og fuður. Tinni hundskammar Kolbein fyrir tiltækið og saman rölta þeir (bls 11) aftur inn í flaugina. Þar sem þeir ganga ofan á eldflauginni sjást hinar innfelldu stigagrindur utan á skrokk hennar en hvernig í ósköpunum stendur á því að stiginn er fyrir ofan dyrnar á flauginni?
Bls 12. Skaftarnir fá kast af blú-blú-veikinni í eldflauginni og Tobbi bregður á það ráð að hanga í skegginu á þeim af hæðinni fyrir neðan. Tinni stekkur til að sækja skæri og þá er greinilegt að hann er kominn í segulklossana sína. En af hverju sést þá í hvítu sokkana hans á fyrri myndinni?
Bls 14. Þeir Tinni og Kolbeinn skiptast á að klippa hár Skaftanna og á einum stað sést að Tinni hefur rétt Kolbein kafteini skærin. Á næstu mynd á eftir heldur Tinni samt ennþá á skærunum.
Bls 16. Á tveimur myndarömmum á blaðsíðu sextán er prófessor Vandráður í vandræðum með númerið sitt á samfestingnum. Efst á síðunni er mynd þar sem ekkert númer er á rauða hringnum á gallanum hans og nokkru neðar á blaðsíðunni hefur gallinn ekki einu sinni rauðan hring.
Bls 17. Hér eru tæknileg mistök í gangi. Það er verið að snúa eldflauginni og hafa á henni endaskipti en til þess er notaður sérstakur hliðarhreyfill sem sér um að snúa flauginni um sjálfa sig í þyngdarleysinu. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum myndi eldflaugin halda áfram að snúast eftir að slökkt er á hliðarhreyflinum nema annar hreyfill hinum megin myndi vinna á móti.
Bls 19. Eftir að Kolbeinn fór í geimgönguna sína, snemma í bókinni, hefur hann ekki klæðst samfestingnum sínum aftur heldur verið í gömlu, bláu sjómannspeysunni sinni. Á einum myndaramma hefur hann þó klæðst samfestingnum eitt augnablik og sú mynd er hér til hægri.
Bls 33. Eftir að eldflaugin er lent á tunglinu taka við ýmis verkefni hjá ferðalöngunum og rannsóknarleiðangrar á tungldreka einum er hluti af þeim vinnu. Þeir Tinni og Kolbeinn eru duglegir að nota þann notadrjúga fararskjóta og hann sést á mörgum myndarömmum um miðbik bókarinnar. Tungldrekinn er vel búinn verkfærum og á myndunum sést hvar haki nokkur er festur á hægri hlið hans. Hakann vantar hins vegar á einni mynd sem birtist á blaðsíðu þrjátíu og þrjú.
Bls 43 og 45. Boris kemur til sögunnar og þeir Wolf ætla að stinga af með eldflaugina en Tinni tekur þá málin í sínar hendur. Allt þetta gerist á fáeinum blaðsíðum. Tinna tekst að stöðva hreyfilinn, flaugin skellur niður og bófarnir eru yfirbugaðir. Samkvæmt fyrri myndunum (bls 43) stöðvar Tinni vélina klukkan 2:05 eða 14:05 og Kolbeinn, Vandráður og Skaftarnir koma þá strax í kjölfarið inn til að kanna hvað gengur á. Þeir fara strax að yfirheyra bófana en klukkan á veggnum (bls 45) er samt orðin 10:00 og þetta er bara fáum mínútum eftir að flaugin skellur niður aftur.
17. LEYNIVOPNIÐ
Bls 6. Sagan um Leynivopnið hefst á því að þrumveður skellur á við Myllusetur og snemma í bókinni kemur tryggingasalinn Flosi Fífldal í heimsókn í fyrsta sinn í seríunni. Kolbeinn fær sér viskí og gefur Flosa einnig í glas en á meðan þeir spjalla saman, í stofunni að Myllusetri, brotna glös þeirra beggja í höndunum á þeim. Á tveimur myndarömmum (bls 6) sjást þeir standa hlið við hlið með landslagsmálverk upp á vegg í bakgrunninum. Á málverkinu má sjá hús til hægri en á seinni myndarammanum er einnig komið tré fyrir aftan húsið en það var ekki á fyrri myndinni.
Bls 20 - 21. Tinni og Kolbeinn eru komnir til Sviss og freistast til að hafa uppi á Vandráði prófessor sem hefur skráð sig á Hótel Cornavin í Genf. Þeir fara á mis við hann á hótelinu og missa síðan af lestinni til borgarinnar Nyon þegar þeir ætla að elta hann þangað. Þeir bregða því á það ráð að taka leigubíl til Nyon en á leiðinni þangað er bílnum þröngvað út af veginum, af svörtum Citroen, svo hann lendir ofan á Genfarvatninu. Leigubílstjórinn er í gráum jakka (bls 20) við stýrið á bílnum þegar svarti Citroeninn bolar þeim út í vatnið en þegar vegfarendurnir eru að draga þá félagana alla upp úr vatninu (bls 21) er jakkinn hins vegar brúnn á litinn.
Bls 25 - 26. Í Nyon rekja Tinni og Kolbeinn slóðina að heimili prófessors Toppólínó, sem býr að Gróugötu 57, en þeir byrja reyndar á því að frelsa hann úr kjallara húss síns. Síðan setjast þeir allir saman að spjalli uppi þar sem vínflaska á borðinu freistar Kolbein meira en góðu hófi gegnir. Sitthvoru megin við flöskuna standa einnig tvö vínglös og þegar Toppólínó rekur sig óvart í flöskuna (bls 25) fellur hún um koll ásamt vínglösunum tveimur. Kolbeinn bregst snögg við og grípur fallandi vínflöskuna en þá eru glösin tvö hins vegar orðin óhult annars staðar á borðinu.
Bls 28. Skaftarnir eru mættir til Nyon og til að reyna að falla inn í fjöldann dulbúa þeir sig í svissneska þjóðbúninga. Þeir vekja hins vegar, þvert á móti, svo mikla eftirtekt að þeir eru handteknir fyrir grunsamlega hegðun í grennd við hús Toppólínó. Á blaðsíðu 28 sjást þeir klæddir hinum svissnesku þjóðbúningum en eyrnalokkar virðast vera hluti þeirrar þjóðlegu múnderingar. Á að minnsta kosti einni myndanna af þeim vantar annan eyrnalokkinn á annan þeirra.
Bls 30. Þeir Tinni og Kolbeinn rekja slóð prófessors Vandráðs að bordúríska sendiráðinu, sem er skammt frá Nyon, og leggja leið sína þangað í rannsóknarleiðangur í skjóli nætur. Þar verða þeir vitni að því þegar sýldavískir stigamenn ræna Vandráði frá bordúrískum kollegum sínum og hlaupa með hann út í bát sem bíður þeirra á bakka Genfarvatnsins. Tinni eltir þá að bátnum og á fyrri myndinni sjást þeir koma hlaupandi út á bryggjuna en á hinni seinni eru þeir enn á grasinu.
Bls 31 - 32. Tinni og Kolbeinn bregða á það ráð að stela þyrlu (auðvitað!) frá Bordúríumönnunum til að elta Sýldavíumennina á bátnum. Tobbi er alltaf með regnhlíf prófessors Vandráðs í kjaftinum, frá því hann fann hana í rústum húss Toppólínós, og passar vel upp á hana í þyrlunni. Hann gerir ýmsar æfingar með regnhlífina, líklega af spenningi yfir eltingarleiknum, og snýr handfanginu á henni ýmist upp eða niður eftir því í hvaða myndaramma hann er staddur.
Bls 32. Í Nyon höfðu þeir Tinni og Kolbeinn einmitt lent í sprengingu í húsi prófessors Toppólínó og Kolbeinn kafteinn var búinn að vera með nokkra plástra á sér síðan. Einn þeirra var á var á litla fingri hægri handar hans og sést til dæmis nokkuð greinilega á mynd sem er efst á blaðsíðu 32. Augnabliki síðar er þessi plástur á fingri kafteinsins horfinn og sést ekki meira í sögunni.
Bls 49. Aftur halda Tinni og Kolbeinn til Genfar þar sem þeim gefst kostur á að taka næstu flugvél til borgarinnar Szóhód í Bordúríu. Þegar þeir koma þangað er tekið á móti þeim með virktum og tveir aðstoðarmenn sjá um að fylgja þeim eftir hvert sem er. Tinni og Kolbeinn gista á Hótel Zsnôrr og bregða á það ráð að bjóða fylgdarmönnunum upp á kampavín og hella þá haugfulla til að losna við þá. Við borð þeirra í veitingasal hótelsins sést hvar annar fylgdarmannanna er óvænt allt í einu búinn að týna servíettunni sem hann hafði haft um hálsinn. En hún kemur aftur.
Bls 53 - 54. Á flótta undan öryggislögreglu Bordúríu álpast Tinni og Kolbeinn inn á óperuhöllina í Szóhód og þar hitta þeir óvænt fyrir sjálfa Vaílu Veinólínó. Hún bíður þeim til búningsherbergis síns og á nokkrum myndum má sjá að það er misjafnt hversu marga hringa Vaíla Veinólínó er með á fingrum sínum en einnig virðist vera nokkuð breytilegt á hvaða fingrum þeir eru.
Bls 54. Í búningsherbergi Vaílu kemur yfirlögregluforinginn Sponzs offursti óvænt í heimsókn til að votta henni virðingu sína. Á veggnum fyrir aftan ofurstann sést græn auglýsingamynd eða plaggat með einhverjum bordúrískum texta á tveimur myndarömmum á blaðsíðunni. Táknið fyrir ofan "o-ið" í textanum er hins vegar ekki lengur til staðar á seinni myndinni.
Þá er enn einni færslunni úr páskaþema SVEPPAGREIFANS lokið og því er bara eftir ein slík sem mun birtast í fyrramálið en það ku vera að morgni annars dags páska.

5 ummæli:

  1. Takk fyrir þetta, góðir páskar. En þú ert gersamlega búinn að eyðileggja það álit mitt á Hergé að hann hafi lagt sig í lima við að vera nákvæmur í sögum sínum og hafa allt réttara en rétt. Margt er samt þarna sem ég hef furðað mig á sjálfur en svo aftur fjöldamargt sem ég gerði mér ekki grein fyrir. Fróðlegt með eindæmum.

    SvaraEyða
  2. Virkilega skemmtilegt.
    Takk fyrir mig.

    SvaraEyða
  3. Þakka ykkur sömuleiðis.

    Sammála þér Villi, þessi ónákvæmni Hergé kemur töluvert á óvart og þá sérstaklega mistökin í öllum elstu bókunum sem voru endurteiknaðar og litaðar. En það er líka gott að vita að hann var mannlegur :)

    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  4. Ah já, kæri greifi. Skemmtileg og oftast skaðlaus mistök. En landamæri Perú, Ekvadors, Brasilíu og Kólombíu hafa verið umdeild. Sjá kort í viðhengi:
    https://upload.wikimedia.org/wikipedia/commons/3/3b/South_America_1879.png


    https://upload.wikimedia.org/wikipedia/commons/3/3b/South_America_1879.png

    SvaraEyða

Út með sprokið!