24. júlí 2020

170. KRISTJÁN GAMLI DÝRFJÖRÐ

Bækurnar um Sval og Val hafa verið í ansi miklu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM frá því hann var gutti en í þeim myndasögum má finna fjölda skemmtilegra persóna. Margoft hefur komið fram, hér á Hrakförum og heimskupörum, hve sögur Franquins eru hátt skrifaðar hjá síðuhafa en óhætt er að segja að í grunninn hafi hann átt mestan þátt í vinsældum þessara myndasagna á sínum tíma. Í dag ætlar SVEPPAGREIFINN því að skoða lítillega eina af þeim aukapersónum úr bókunum sem komu fram í tíð Franquins. Ekki er þó víst að allir átti sig á því hvaða sögupersóna á hér í hlut þegar nafn hans er nefnt en þó hefur hann birst í heilum tuttugu og sex bókum seríunnar. Hann kom fyrst við sögu í bókinni Il y a un sorcier à Champignac (Sveppagaldrar í Sveppaborg - 2017) árið 1951 og af þeirri staðreynd má auðvitað ráða að hann sé hugarfóstur André Franquin. En reyndar hefur hann birst hjá nær öllum höfundum seríunnar síðan. Á frönsku heitir hann Duplumier og í íslensku útgáfuröðinni birtist hann fyrst, nafnlaus reyndar, í bókinni Hrakfallaferð til Feluborgar (Les pirates du silence). Og það er ekki nóg með að Duplumier hafi komið fyrst fyrir í þeirri bók heldur er hann líka fyrsta persónan sem íslenskir lesendur Sval og Val bókanna fengu að kynnast í seríunni. Duplumier kemur nefnilega nokkuð rækilega fyrir í fyrstu fjórum myndarömmum bókarinnar.
Eins og áður segir er hann ekki nafngreindur í Hrakfallaferð til Feluborgar en næst birtist hann íslenskum lesendum í sögunni Svaðilför til Sveppaborgar (Panade à Champignac) sem var fimmta bók íslensku útgáfuraðarinnar. Áður en lengra er haldið er þó rétt að halda því til haga að í nokkrum af þeim myndasöguseríum, sem verið var að gefa út hjá bókaútgáfunni Iðunni á sínum tíma, var svolítið ósamræmi í nafngiftum margra af aukapersónum bókanna. Skýringuna á því má líklega bæði rekja til mismunandi þýðenda, sem vissu jafnvel ekki af því að persónurnar hefðu birst áður, en sennilega einnig vegna hreinnar gleymsku. Þýðandinn hafi hreinlega ekki áttað sig á að persónan hafði hlotið íslenskt nafn áður í einhverjum af fyrri bókunum. Sem dæmi um það má nefna að í bókaflokknum um Viggó viðutan hét Snjólfur til að mynda fyrst Lárus og herra Seðlan hét sínu upprunalega nafni - herra Mesmaeker. Og í sögunum um Sval og Val hét herra Þamban til dæmis einnig einu sinni Gvendur Spíri. Í bókinni Svaðilför til Sveppaborgar er viðfangsefni þessarar færslu, Duplumier, hins vegar nefndur á nafn í fyrsta sinn hér á landi og kallaðist hann þá Þór.
Og það er reyndar í eina skiptið í seríunni sem Duplumier heitir Þór. Strax í næstu sögu, Gullgerðarmanninum (Le faiseur d'or), heitir hann nefnilega allt í einu orðið Kristján. Hann birtist reglulega í íslensku bókunum næstu árin en það var samt ekki fyrr en í sextándu sögunni Með kveðju frá Z (L'ombre du Z) þar sem hann er næst nefndur á nafn. Þá heitir hann einfaldlega Dýrfjörð. Fjórða nafn hans, Skriffinnur, birtist í Vélmenni í veiðihug (Qui arrêtera Cyanure?) og sama nafni er hann einnig nefndur í smásögunni Hið óttalega Burp sem birtist í bókinni Furðulegar uppljóstranir (La jeunesse de Spirou). Það var því úr nokkuð vöndu að ráða, fyrir SVEPPAGREIFANN, að skrifa færslu sem fjallar um sögupersónu sem gengur alls undir fjórum nöfnum í seríunni. Hins vegar sá hann að þeir aðilar sem komu  að bókinni Sveppagaldrar í Sveppaborg, sem var hluti af endurkomu Svals og Vals hjá Froski útgáfu, höfðu lagt metnað sinn í að finna einhvern stöðugleika í nafnavali persónanna í seríunni. Þar er hann nefnilega aftur kallaður Kristján líkt og í bókinni um Gullgerðarmanninn. SVEPPAGREIFINN tók sér því það bessaleyfi að kalla aumingja manninn bara Kristján Dýrfjörð þar til annað kemur í ljós. Þetta voru nöfn sem höfðu bæði birst af honum áður í seríunni og hæfa auk þess vel þessum virðulega en nokkuð seinheppna embættismanni.
Þetta glæsilega meinta nafn, Kristjáns Dýrfjörð, vakti reyndar óhjákvæmilega grunsemdir hjá SVEPPAGREIFANUM um að maðurinn gæti hugsanlega átt sér alnafna hér á landi. Nafnið býður óneitanlega upp á þann möguleika og þó það birtist aldrei nákvæmlega í þessari mynd, í Sval og Val bókunum, þá var forvitnin vissulega vakin hjá stjórnanda þessa bloggs. Það var því ekki hjá því komist að gúggla þetta nafn svolítið fyrir forvitnissakir og gera frekar óvísindalega athugun á því hvort annar slíkur gæti hafa leynst einhvers staðar hér á landi í gegnum tíðina. Og svo reyndist heldur betur vera þegar að var gáð. Í eintaki af Alþýðublaðinu, sem kom út þann 23. júní árið 1942, mátti finna litla klausu þar sem fjallað er um fimmtugsafmæli, hins ísfirska góðtemplara og raffræðing, Kristján Dýrfjörð sem þá bjó reyndar á Siglufirði.
Það gæti hugsanlega einhverjum fundist óviðeigandi af SVEPPAGREIFANUM að vera að tengja myndasögupersónu, úr Sval og Val bókunum, við mann sem löngu er látinn en tekið skal skýrt fram að hér er eingöngu um að ræða skemmtilegan samanburð nafnsins vegna. SVEPPAGREIFANUM gengur að sjálfsögðu ekkert illt til með því. Í Íslendingabók fann hann síðan heila fjóra Kristjána Dýrfjörð í viðbót og þar af eru tveir þeirra enn á lífi. Og svona til þess að fullkomna þennan tilgangslausa, þjóðlega fróðleik þá verður SVEPPAGREIFINN að taka það fram að hann virðist eiga ósköp lítil og langsótt ættfræðileg tengsl við þessa fimm Kristjána Dýrfjörð. En til að loka alveg þessari umræðu um nafngift Kristjáns má taka það fram að á dönsku heitir hann Didriksen, á þýsku Federkiel, á finnsku Sulkapää en á sænsku virðist hann hafa lent í svipuðu ósamræmisferli og hér á Íslandi því þar hefur hann gengið undir nöfnunum Getberg, Lundberg og Grönlund. En á nokkrum öðrum tungumálum, eins og á ensku og portugölsku til dæmis, heldur hann einfaldlega upprunalega franska nafninu sínu og kallast bara Duplumier.
En Kristján Dýrfjörð, það er að segja þessi úr Sval og Val bókunum, er sem sagt eldri og virðulegur embættismaður í ráðhúsi Sveppaborgar og starfar þar sem ritari. Hann er því náinn samstarfsmaður borgarstjórans í bænum en einnig ágætur kunningi þorpsrónans herra Þambans. Þeir borgarstjórinn voru báðir kynntir til sögunnar í Sveppagaldrar í Sveppaborg en herra Þamban birtist hins vegar ekki fyrr en níu árum seinna í Le voyageur du Mésozoïque en sú bók hefur því miður ekki ennþá komið út í íslenskri þýðingu. Kristján telst þannig ein af elstu af aukapersónum seríunnar og var til dæmis kynntur til sögunnar löngu á undan þeim Zorglúbb og Samma frænda, svo einhver dæmi séu tekin, þó ekki leiki hann alveg jafn áberandi hlutverk og þeir. Kristján Dýrfjörð er ávallt mjög snyrtilegur og vel til hafður, í vesti og með slaufu og nánast alltaf eins klæddur. Í fyrstu var hann reyndar alltaf með svartan harðkúluhatt á höfði (líkan þeim sem Skaftarnir úr Tinna bókunum nota) en í Hrakfallaferð til Feluborgar hafði guli hatturinn hans alveg tekið yfir. Kristján er frekar hæverskur, vandaður og rólegur herramaður. Hann er háttvís og trygglyndur borgarstjóranum en um leið kannski svolítið einfaldur og hrekklaus, karlgreyið.
En reyndar er Kristján einnig afskaplega óheppinn þegar kemur beint að aðkomu hans að ævintýrum þeirra Svals og Vals. Í þeim bregst það sjaldan að þar er hann oftar en ekki fórnarlamb. Margar af aðkomum hans tengjast yfirleitt viðveru borgarstjórans en af því má ráða að Kristján sé einhvers konar hægri hönd hans. Í Sveppagöldrum í Sveppaborg kemur reyndar einnig fram að hann starfi sem læknir. Og þar sem Kristján Dýrfjörð býr og starfar í Sveppaborg takmarkast aðkoma hans, að ævintýrum Svals og Vals, af þeim sögum sem gerast á því svæði að öllu eða einhverju leyti. Samt birtist hann á einhvern hátt í tuttugu og sex af þeim sögum sem komið hafa út með þeim félögum. Hann er embættismaður hjá bænum og er því oftast viðstaddur löng og leiðinleg ræðuhöld borgastjórans. En einn helsti munurinn á Kristjáni og öðrum, sem viðstaddir eru þær ræður, er sá að almennt er hann mun hrifnari af orðum borgarstjórans en aðrir.
En annars er Kristján Dýrfjörð eiginlega kunnari í seríunni af annarri ástæðu. Í fyrstu sögunni sem hann birtist í fer hann um gangandi með læknatöskuna sína en í þeirri næstu, Burt með harðstjórann (Le dictateur et le champignon), er hann hins vegar kominn á nýjan bíl. Þar kemur fyrir atvik þar sem Gormur hleypur um nágrenni Sveppaborgar með Metómól í þrýstibrúsa og spreyjar úr því í allar áttir. Allir Sval og Val lesendur þekkja auðvitað þessa uppfinningu Sveppagreifans en Metómólið gerir það að verkum að sá málmur sem það kemst í snertingu við linast upp. Kristján verður fyrir því að efnið úðast yfir hinn nýja bíl hans sem í kjölfarið linast upp og bókstaflega lekur niður.
Miðað við fyrstu viðbrögð hans, eftir það óhapp, er víst óhætt að ætla að maðurinn sé gjörsneyddur öllu ímyndunarafli og fyrirmunað að geta brugðist við hinu óvænta. Hann virðist alla vega ekki vera þeim eiginleikum gæddur að átta sig á að lífið sé hverfult. Og þannig gerist það, að spaugileg skakkaföll á farartækjum Kristjáns Dýrfjörð verða það sem einkennir helst seinheppilega aðkomu hans að sögunum. Þessi rólyndislegi göngugarpur skiptist því á að fara ferða sinna á reiðhjóli, ýmist með eða án hjálparmótors, eða tekur tæknina enn betur í sínar hendur með hæfilega kraftlitlum og hættulausum bifreiðum. Eða ... hættulausum, svona undir flestum eðlilegum kringumstæðum. Áður hefur verið minnst á byrjun Hrakfallaferðar til Feluborgar, þar sem hann flýgur á hausinn á hjóli sínu eftir að hafa mætt Gormi, og í sögunni Le voyageur du Mésozoïque (Fornaldareggið myndi hún líklega heita á íslensku) verður Kristján Dýrfjörð fyrir því að risaeðla stígur ofan á forláta, nýkeyptan bíl hans. Þarna er hann búinn að láta einhvern bílabraskara pranga inn á sig eldgömlum fornbíl og á meðan þeir rölta inn fyrir, til að ganga frá kaupunum, gerir risaeðla Sveppagreifans sér lítið fyrir og trampar hæversklega ofan á skrjóðnum.
Það verður því nokkuð dæmigert fyrir Kristján Dýrfjörð að í hvert sinn sem hann eignast nýtt farartæki, í bókunum, þá lendir hann undantekningalaust í óútskýranlegu óhappi eða slysi með það. Finna má fjölda slíkra tilvika í fyrri hluta bókaflokksins og því má líklega telja nokkuð eðlilegt að hann virki eilítið tortrygginn og fordómafullur gagnvart vélum og tækninýjungum.
Í stuttu sögunni Dularfulla líkneskið (Les Petits Formats) sem er seinni sagan í bókinni Sjávarborginni (Spirou et les hommes-bulles) bregður Kristjáni Dýrfjörð fyrir á nýviðgerðum bíl sínum, á fáeinum myndarömmum, án þess þó að lenda í eiginlegu óhappi á honum. Líkneski af Val liggur þar á miðjun veginum og Kristján er í þann veginn að keyra yfir hann þegar bíllinn stöðvast skyndilega vegna vélarbilunnar. Kristján rekur að vísu andlitið í framrúðuna en þessi "óvænta" bilun kemur í veg fyrir að hann keyri yfir styttuna af Val. Og reyndar, þegar vel er að gáð, sést greinilega að litlir vélahlutir, gormar, boltar og ýmislegt fleira hrynur undan bílnum þegar hann bilar svo snögglega.
Flest þeirra slysa sem tengjast nýfengnum farartækjum Kristjáns Dýrfjörð komu fyrir í teiknitíð André Franquin. Fournier var ekki jafn duglegur að nota hann á þann hátt en nýtti hann frekar við ýmis lítil atvik tengdum borgarstjóranum. Í bókunum þremur sem Nic og Cauvin gerðu kemur Kristján ekkert við sögu en þeir Tome og Janry drógu hann aftur fram í sviðsljósið og komu honum aðeins aftur inn á þá slysabraut sem farartæki hans höfðu áður leitt hann. Það er þó ekki mjög áberandi. Í sögunni Vélmenni í veiðihug birtist hann þó slasaður og illa til reika, á nokkrum myndurömmum, þar sem hann er að ræða við borgarstjórann. Þá hafði hann lent í óhappi á nýja bílnum sínum, eftir að umferðarljósin í Sveppaborg biluðu, þegar rafmagnstæki borgarinnar gerðu uppreisn. Hin gegnumgangandi óheppni Kristjáns Dýrfjörð tengist þó ekki bara óhöppum hans á farartækjum sínum. Í bókinni Með kveðju frá Z verður hann, líkt og margir aðrir íbúar Sveppaborgar, fyrir geislum frá zor-manninum, Nirði lögregluþjóni, sem gengur laus um bæinn og dundar sér við að lama fólk. Þarna situr Kristján, stjarfur eftir zor-geisla Njarðar, á bekk í miðbænum þegar stórvinur hans herra Þamban á leið þar hjá. Bæjarrónanum þykir Kristján eitthvað daufur í dálkinn og bregður því á það ráð að hella í hann töluverðu magni af áfengi til að hressa hann svolítið við. En í sömu mund ber Njörð þar aftur að og lamar herra Þamban, með vænum zor-skammti, sem á því sama augnabliki er einmitt að sturta úr nánast fullri ginflösku ofan í borgarritarann rólynda.
Þegar Sveppagreifinn hefur aflétt hinum stífkenndu lömunareinkennum, af félögunum tveimur, kemur auðvitað í ljós að hinn reglufasti Kristján er uppfullur af illkvittnislegum áhrifum ginflöskunnar. Þá gefst honum gott tækifæri til að beygja svolítið af sínu hefðbundna og reglusama líferni og fer að ráfa um Sveppaborg haugfullur og trallandi. Það gerir hann að sjálfsögðu í félagsskap herra Þambans og miðað við viðbrögð Sveppagreifans virðist sem að slíkur menningaviðburður sé ekkert mjög hefðbundinn eða daglegt brauð hjá þessum annars hægláta embættismanni. Eftirstöðvarnar koma auðvitað fram næsta dag en sökum minnisleysis virðist mórallinn, sem betur fer, ekki vera að há Kristjáni Dýrfjörð neitt sérstaklega. Það eina sem hann kvartar yfir er slæmur hausverkur sem hann tengir beint við zor-geislana.
Í sögunni Le Rayon noir (sem Wikipedia nefnir á íslensku Blökkugeislann), eftir þá Tome og Janry, sýnir Kristján Dýrfjörð reyndar á sér nýja og frekar óvænta hlið. Strax á fyrstu blaðsíðu bókarinnar er hann nefnilega að dunda sér við að mála nafn og titil borgarstjórans á stallinn af styttu hans, á aðaltorgi Sveppaborgar, og virðist bara farast það nokkuð vel úr hendi. Kristján lendir að sjálfsögðu í umferðaróhappi í þessari sögu en hann leikur einnig nokkuð stærra hlutverk í Le Rayon noir en lesendur Sval og Val bókanna eiga að venjast. En í stuttu máli segir þessi saga frá því að Sveppagreifinn smíðar tæki sem breytir litarhætti fólks og Svalur verður óvænt fyrir geislum þess. Hann verður því svartur á hörund og þegar Kristján þekkir hann ekki, vegna hins nýja litarhafts, er Svalur handtekinn fyrir að framvísa röngum persónuskilríkjum. Fljótlega verða stór hluti borgarbúa einnig fyrir blökkugeislunum og einn þeirra er einmitt Kristján gamli Dýrfjörð.
Kristján Dýrfjörð kemur auðvitað mest fyrir í bókum Franquins, enda er embættismaðurinn hugarfóstur hans, en aðrir höfundar seríunnar gefa honum þó tækifæri til að birtast við hentug tækifæri ásamt helstu samferðamönnum hans, herra Þamban og borgarstjóranum. Í mörgum þeirra tilfella sem sögusviðið er Sveppaborg leyfa yngri listamennirnir þessum kunnustu íbúum bæjarins að bregða fyrir en oftast er það þó ekki nema bara í mýflugumynd. En helstu einkenni þeirra allra fá þó að njóta sín í þeim tilvikum og í tilfellum Kristjáns koma farartæki hans því eitthvað við sögu. Aftast í bókinni Aux sources du Z eftir þá Morvan og Munuera er til dæmis fimm blaðsíðna jólasaga sem nefnist Noël sans neige eða Jól án snjós. Í þeirri sögu bregður einmitt fyrir nokkrum af þekktustu íbúum Sveppaborgar og þeirra á meðal má að sjálfsögðu finna hinn seinheppna Kristján Dýrfjörð. Og að sjálfsögðu er hann þar í vandræðum með bílinn sinn.
Í seinni hluta seríunnar fer þeim þó mjög fækkandi þessum tilfellum enda er sögusviðið þá  orðið töluvert fjölbreytilegra, bæði í tíma og rúmi, heldur en í eldri sögunum. Sveppaborg er þó alltaf til staðar öðru hvoru í bókunum. Í sögunni Í klóm kolkrabbans (Dans les Griffes de la Vipère), eftir þá Yoann og Wehlmann, sést hann eitt augnablik, ásamt öðrum kunnum íbúum Sveppaborgar og sömu sögu má segja um bókina Hefnd Gormsins (La Colère du Marsupilami) eftir sömu höfunda. Þar kemur hann fyrir í karnivali sem haldið er í Sveppaborg og klæðist fjölbreytilegum grímubúningi líkt og aðrir gestir og íbúar bæjarins. Þá sést Kristjáni einnig bregða fyrir í bókinni Alerte aux Zorkons þar sem hann sést á nærbuxunum einum fata ásamt mörgum öðrum íbúum Sveppaborgar.
Kristján Dýrfjörð kemur einnig eitt augnablik fyrir í hinni frábæru hliðarseríu Sérstök ævintýri Svals ... (Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir höfundar fá tækifæri til að spreyta sig á þeim Sval og Val utan hefðbundinnar dagskrár. Í þessum bókum er Sveppaborg einmitt nokkuð vinsælt sögusvið en íbúar hennar fá þó sjaldan almennilegt tækifæri til að láta ljós sitt skína. Í fljótu bragði virðist sem Kristján sjáist þar aðeins einu sinni af þeim fjórtán bókum sem komið hafa út í opinberu frönsku seríunni. Í sögunni Le Tombeau des Champignac lendir hann í dæmigerðu óhappi á hjólinu sínu en að öðru leyti lítur hann ekki út fyrir að koma við sögu nema að hugsanlega sjáist í baksvip hans á einni mynd í nýjustu bókinni, Spirou á Berlin.

En núna virðist svo að við vitum ekki bara allt sem við þurftum nauðsynlega að vita um Kristján gamla Dýrfjörð heldur einnig ýmislegt fleira.

6 ummæli:

  1. Mætti segja mér að hann gæti verið aðalpersónan í eins og einni bók, einskonar hliðarbók (dregið af orðinu hliðarsería eða þannig). Takk fyrir frábæran pistil og fróðlegan.

    SvaraEyða
  2. Þakka þér.

    Það eru ansi margir karakterarnir úr smiðju Franquins sem gætu verðskuldað sinn eiginn bókaflokk. Kristján Dýrfjörð er klárlega einn af þeim 😊

    Kv.SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  3. Skriffinnur er eina tilraunin, sem gerð er til að þýða nafnið á þessu meinlausa möppudýri. Duplumier er dregið af plumier, pennaveski. Þýski þýðandinn vísar til hins sama með Federkiel, fjaðurstafur. Sá finnski fer í aðeins meiri orðaleik og talar um pennahaus eða fjaðrahaus, því sama orð, sulka, er notað um fjöður og fjaðurpenna. Nafnið lýsir okkar menni vel á tvennan hátt, en það er ekki fyllilega framandi því í finnsku er fyrir orðið sulkapäähine um fjaðrahöfuðbúnað indíána.

    Nafn á borð við Finnur Fjaðran eða Eiður Blaðan hefði því vel komið til greina. Nú eða bara Skrifinnur Waage, ættarmótið með síra Geir er sláandi.

    SvaraEyða
  4. Takk kærlega, Andrés, fyrir þetta frábæra innlegg. Ekki hafði ég rænu á því að koma inn á þýðinguna á nafni Kristjáns (Duplumiers) í færslunni en Skriffinnur er klárlega það nafn sem hefði best hæft honum.

    Þeir voru aðallega tveir aðilar sem þýddu bækurnar um Sval og Val. Bjarni Fr. Karlsson þýddi þær sögur sem nafn Skriffinns kemur fyrir í en Bjarni ber hins vegar líka ábyrgð á nafninu Dýrfjörð. Það er aftur á móti Jón Gunnarsson sem á Kristjáns nafnið. Ég hef grun um að tvö síðartöldu nöfnin gætu tengst einhverjum einkahúmor þýðendanna. Nöfnin Fjaðran og Blaðan, sem þú stingur upp á, hefðu bæði verið frábær á manninn og klárlega í anda þýðinga Jóns á til dæmis bókunum um Viggó viðutan. Þar á hann bæði heiðurinn af herra Seðlan og fröken Blókan.

    Þetta er rétt hjá þér með Geir Waage. Ég hef aldrei velt því fyrir mér hve sláandi líkir þeir eru og andlitin á þeim félögunum fara klárlega í safn líkra karaktera úr myndasögum og raunheimum sem ég er að vinna í og mun birtast einhvern tímann í færslu.

    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  5. Flottur pistill. Hafði mjög gaman af.

    SvaraEyða
  6. Þakka þér, Rúnar, njóttu.

    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!