Það hefur líklega verið á árunum 1979-80 sem hinum tíu eða ellefu ára gamla SVEPPAGREIFA áskotnaðist myndasögubók sem hann hafði þá aldrei litið augum fyrr. Móðir hans gaukaði þá frekar óvænt að þeim bræðrum sitthvorri bókinni um hinn vel hærða útlaga Prins Valíant. Síðan þetta gerðist eru nú liðin rúmlega fjörtíu ár svo ekki man SVEPPAGREIFINN alveg nákvæmlega hvaðan þessar tvær bækur um Prins Valíant áttu uppruna sinn. En þó rámar hann eitthvað í að móðir þeirra hafi verslað þær á Bókamarkaði félags bókaútgefenda sem á þessum árum var staðsettur í hráum kjallara Húsgagnahallarinnar uppi á Bíldshöfða. Þarna var verslunin Intersport meðal annars starfrækt löngu seinna en á þessum árum nefndist þetta stórhýsi í almennu tali Sýningahöllin Ártúnshöfða. Bækurnar tvær litu út eins og nýjar og voru í sama broti og litlu bækurnar um Palla og Togga, sem Fjölvaútgáfan hóf að gefa út á svipuðum tíma, en þó svolítið þykkari. SVEPPAGREIFINN man það eins og gerst hefði í gær að bækurnar tvær voru kirfilegar merktar bókaútgáfu einni sem nefndist Ásaþór og það eitt gaf þeim ákveðið dulúðlegt yfirbragð. Á þessum tíma höfðu bræðurnir þegar talið sig vera orðna vel meðvitaða um allar þær teiknimyndasögur sem í boði voru á íslenska myndasögumarkaðnum en einhvern veginn hafði þessi bókasería þó alveg farið fram hjá þeim. Prins Valíant þekktu þeir auðvitað ágætlega sem hluta af þeim myndasögum sem tímaritið Vikan bauð upp á en ekki þóttu þeim sögurnar þó jafnast á við Tinna eða Sval og Val sem helst voru að heilla ungdóminn á þessum árum.
Tæknilega séð vilja margir meina að þessar bækur séu ekki beinlínis teiknimyndasögur þótt eflaust megi endalaust deila um það. En bækurnar tvær nefndust Prins Valíant á dögum Arthúrs konungs og Prins Valíant og þrautirnar þrjár. Þessi óvænti myndasögufundur gaf SVEPPAGREIFANUM og bróður hans ríka ástæðu, á sínum tíma, til að forvitnast frekar um útgáfu bókanna. Úr litlu var reyndar að moða enda þá enn áratugir að hægt væri að gúggla þessar sígildu sögur en einföld rannsóknarvinna leiddi í ljós að önnur bókanna (Prins Valíant og þrautirnar þrjár) hefði verið gefin út árið 1967 en ekkert ártal var að finna í Prins Valíant á dögum Arthúrs konungs. Auk þess var fyrrnefnda bókin merkt númer 7 en sú staðreynd gaf auðvitað sterklega til kynna að enn fleiri slíkar væri að finna úr seríunni. Við vinnslu þessarar færslu komst SVEPPAGREIFINN síðan að því að Prins Valíant á dögum Arthúrs konungs hefði verið fyrsta sagan í bókaflokknum og hefði komið út seint á árinu 1961. Líklega liðu síðan tuttugu til þrjátíu ár áður en hann rakst aftur á bækur úr seríunni um Prins Valíant og þá voru það ætíð mjög illa farin eintök. Flestar bókanna voru lausar í sér og með rifinn eða horfinn kjöl en þegar þokkaleg eintök rak á fjörur SVEPPAGREIFANS var hann ekki seinn á sér að versla sér þær bækur ef þær kostuðu ekki handlegg - eða tvo. Iðulega eru bækurnar úr þessari seríu afar sjaldséðar og því fokdýrar, hjá þeim sem þær hafa boðið til kaups, og þá gildir einu um útlit þeirra eða ástand. Nú á SVEPPAGREIFINN níu sæmileg eintök úr bókaflokknum en sögurnar tvær, sem til voru á æskuheimili hans, eru auðvitað löngu glataðar.
Einhver kynni höfðu íslensk ungmenni reyndar haft af útlaganum Valíant áður en til myndasöguútgáfu Ásaþórs kom. Um vorið 1960 hafði ameríska bíómyndin Víkingaprinsinn (Prince Valiant) verið sýnd í Nýja bíói við töluverðar vinsældir en sú mynd hafði verið framleidd árið 1954. Þessi geysispennandi litmynd (já, ókei?) var sýnd um nokkurra vikna skeið en með hlutverk Prins Valíants fór enginn annar en Robert Wagner sem yngra fólk man helst eftir fyrir aukahlutverk sitt í grínmyndunum um sjarmatröllið Austin Powers. Fólk af kynslóð SVEPPAGREIFANS man þó líklega helst eftir Wagner í sjónvarpsþáttunum Hart to Hart (Hart á móti hörðu) sem sýndir voru í Ríkissjónvarpinu snemma á níunda áratug síðustu aldar. Þess má til gamans geta að bíómyndin Prince Valiant var einmitt sýnd í Ríkissjónvarpinu laugardagskvöldið 6. mars árið 1971 en þennan sama dag voru einnig á dagskrá 5. þáttur Frönskukennslu Vigdísar Finnbogadóttur og að sjálfsögðu vikugamall leikur úr ensku knattspyrnunni þar sem Tottenham og Aston Villa mættust á White Hart Lane í London. Spurs vann leikinn 2-0 svo það komi nú samviskulega fram.
Það má reikna með því að sýning kvikmyndarinnar Víkingaprinsinn í Nýja bíói hafi gefið þeim sem stóðu að bókaútgáfunni Ásaþór hugmyndina að útgáfu þessara bóka og í kjölfarið hafi þeir orðið sér úti um útgáfuréttinn að þeim frá sænska útgáfufyrirtækinu Bull's Presstjänst. Bókaútgáfan Ásaþór virðist hafa verið staðsett á Hafnargötunni í Keflavík en ekki hefur SVEPPAGREIFINN fundið margar vísbendingar um önnur ritverk sem útgáfufyrirtækið stóð að. Hins vegar komu þeir eitthvað að hljómplötuútgáfu seint á sjöunda áratug tuttugustu aldarinnar og sendu til að mynda frá sér litla plötu með Keflavíkurkvartettinum í samstarfi við hina rómuðu Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur í Vesturveri. Það er hins vegar önnur saga. En eins og áður var getið var það fyrir jólin 1961 sem fyrsta bókin um Prins Valíant kom út í íslenskri þýðingu Sverris Haraldssonar. Sagan varð nokkuð vinsæl og þrátt fyrir að eintök af bókinni hafi að öllum líkindum dúkkað óvænt upp á Bókamarkaðnum í Sýningarhöllinni að Bíldshöfða, tæplega tuttugu árum seinna, var upplag 1. heftisins auglýst sem "senn á þrotum" þegar önnur bókin, Prins Valíant berst gegn Atla Húnakonungi, var auglýst í dagblöðunum næsta ár á eftir. Svo virðist sem þessar bækur hafi komið út í frekar stóru upplagi en fyrsta heftið var síðan endurútgefið árið 1972 og merkt sem 2. útgáfa.
Bækur Ásaþórs um Prins Valíant komu upp frá þessu reglulega út, ein á hverju ári, og urðu töluvert vinsælar. Almennt virðast þær hafa selst nokkuð vel og voru á meðal söluhæstu barna- og unglingabóka ár hvert en alls komu út tólf bækur úr seríunni og sú síðasta fyrir jólin árið 1972. Þetta síðasta hefti var eiginlega frekar í formi þykks tímarit þar sem það var með mjúkri kápu og er að sögn fágætt og töluvert erfitt viðureignar að eignast í dag. Ástæðan fyrir því að þetta tólfta hefti var óbundið og öðruvísi er óljós en svo virðist sem einhverjir telji þessa bók ekki tilheyra hinni eiginlegu seríu Ásaþórs. Það er þó misskilningur enda er heftið rækilega merkt framan á forsíðunni sem Prins Valíant bók númer 12. Líklegast er að útgáfa seríunnar hafi hreinlega verið komin að þolmörkum og þessi ódýrari útfærsla hafi einfaldlega verið látin duga til að koma síðustu sögunni út. Heftið bar reyndar engan titil og var því nafnlaust en í grunninn lítur það út eins og sjöunda bók seríunnar, Prins Valíant og þrautirnar þrjár, sem komið hafði út fimm árum áður.
Þessar tólf bækur virðast hafa verið unnar upp úr myndasögum sem birst höfðu vikulega, í heilsíðuformi í dagblöðum vestan hafs, frá árinu 1937 en texti þeirra hafði verið endurskrifaður og einfaldaður af þeim Max Trell og James Flowers fyrir bókaútgáfuna sem hófst árið 1951. Alls hafa birst yfir 4000 númeraðar síður af Prins Valíant í þessum dagblöðum (frá árinu 1937 til dagsins í dag) en í þeim bókum, sem gefnar voru út af Ásaþór, telst röð þeirra blaðsíðna vera frá númer 1 til 982. Ekki varð frekara framhald á útgáfu Ásaþórs af bókunum um Prins Valíant að þessu sinni en sögurnar áttu þó eftir að dúkka upp aftur á Íslandi seinna. Árið 1971 höfðu fyrstu Tinna bækurnar komið út á íslensku og leiða má líkum að því að þær myndasögur hafi haft einhver áhrif á frekari útgáfu prinsins að sinni. Tinna bækurnar urðu strax gríðarlega vinsælar og það hefur líklega verið erfitt að keppa við hann á þessum litla barna- og unglingabókamarkaði. Það vekur einnig svolitla athygli að bækur Ásaþórs um Prins Valíant voru aldrei auglýstar í dagblöðunum með titlum sínum heldur voru þær aðeins nefndar Prins Valíant hefti númer 1, 2, 3 og svo framvegis. Hugsanlega var það gert í markaðsskyni til að hvetja unga lesendur til að eignast öll hin númeruðu hefti.
En
vinsældir Prins Valíants koðnuðu sem sagt snögglega niður með tilkomu
Tinna og annara léttari myndasagna sem litu dagsins ljós í kjölfarið. Þeir félagar sammæltust þó stuttu seinna um að birtast á síðum Vikunnar og nokkrum árum eftir það hóf Fjölvaútgáfan, sem gaf Tinna bækurnar út, einnig að senda frá sér nýjar bækur um Prins Valíant. SVEPPAGREIFINN hefur ekki kynnt sér eða borið saman þessar útgáfur Ásaþórs og Fjölva en samkvæmt hans skilningi er hér þó að einhverju leyti um að ræða sömu sögur sem hafa verið endurnýjaðar í yngri útgáfum Fjölva. Ekki er ætlunin að fjalla um Fjölva bækurnar hér á Hrakförum og heimskupörum að þessu sinni en þeim verður eflaust gerð einhver skil á síðunni í færslu seinna. En Prins Valíant hóf sem sagt að birtast á síðum Vikunnar, um mitt sumar árið 1973, en urðu aldrei mjög vinsælar þar þótt þær væru prentaðar í fallegum litum og á vandaðan pappír. Sjálfur minnist SVEPPAGREIFINN þess aldrei að hafa haft gaman að þessum myndasögum í Vikunni og hafi yfirleitt alltaf flett framhjá þeim. Léttara efnið eins og Stjáni og Stína eða Andrés önd vöktu miklu meiri lukku. Í lesendabréfum tímaritsins birtust jafnvel reglulega skammarbréf þar sem lýst var yfir óánægju með þessar sögur og þær hættu að lokum að birtast í blaðinu árið 1980. En óneitanlega litu þær glæsilega út.
Það virtist þó alltaf vera nokkur aðdáendahópur sem fylgdi þessum sögum eftir og eru enn þann dag í dag að mæra þær á meðan aðrir, líkt og SVEPPAGREIFINN, ná engri tengingu við þær. Bækur Ásaþórs um Prins Valíant vöktu til að mynda það mikla eftirtekt á sínum tíma að margir reyndu að nýta sér vinsældir þessa fyrirmyndar prins fyrir jákvæða ímynd af ýmsu tagi. Í greinum og viðtölum á íþróttasíðum dagblaðanna mátti til dæmis sjá hvar handboltakappinn Ólafur H. Jónsson og knattspyrnumaðurinn Ellert B. Schram voru bornir saman við hinn hrausta leiðtoga Prins Valíant. Og í tískubransanum kallaðist nýjasta dömuklippingin jafnvel Prins Valíant klipping og var meira að segja auglýst í fjölmiðlum á þann hátt. Ímynd hans var alla vega haldið áfram á lofti. En bækurnar tólf um Prins Valíant sem bókaútgáfan Ásaþór gaf út á sínum tíma voru þessar:
- Prins Valíant á dögum Arthúrs konungs - 1961 (2. útgáfa - 1972) (Prince Valiant in the Days of King Arthur - 1951)
- Prins Valiant berst gegn Atla Húnakonungi - 1962 (Prince Valiant Fights Atilla the Hun - 1952)
- Prins Valiant finnur drottningu Þokueyjanna - 1963 (Prince Valiant on the Inland Sea - 1953)
- Prins Valiant í hættulegri sjóferð - 1964 (Prince Valiant's Perilous Voyage - 1954)
- Prins Valiant og ljóshærða prinsessan - 1965 (Prince Valiant and the Golden Princess - 1955)
- Prins Valiant í Nýja heiminum - 1966 (Prince Valiant in the New World - 1956)
- Prins Valiant og þrautirnar þrjár - 1967 (Prince Valiant and the Three Challengers - 1957)
- Prins Valiant í sendiför fyrir Túle - 1968 (Prinz Eisenherz reitet für Thule - 1960)
- Prins Valiant og Boltar vinur hans - 1969 (Prinz Eisenherz und sein Freund Boltar - 1961)
- Prins Valiant berzt gegn Söxum - 1970 (Prinz Eisenherz bändigt Rebellen - 1962)
- Prins Valiant frelsar Aletu - 1971 (Prinz Eisenherz befreit Aleta - 1963)
- Prins Valiant bók 12 - 1972
Ástæðan fyrir því að titlar bókanna á frummálinu breytist úr ensku yfir á þýsku, frá og með áttundu sögunni, er sú að þá tók þýska útgáfufyrirtækið Bädischer Verlag yfir útgáfuna en áður hafði hið bandaríska Hastings House gefið þær út. Tólfta heftið virðist hins vegar vera eftirprentun beint úr hinum vikulegu dagblaða birtingum og kemur í beinu framhaldi af hinum númeruðu síðum úr ellefta heftinu. Ekki er SVEPPAGREIFANUM kunnugt um hvort sú útgáfa hafi verið eitthvað sér íslensk. Það var séra Sverrir Haraldsson sem þýddi fyrstu fjórar bækurnar yfir á íslensku en Jósafat Arngrímsson tók við af honum og þýddi að öllum líkindum afganginn af sögunum. Þó er hugsanlegt að Arngrímur bróðir hans hafi þýtt bók númer 6, Prins Valíant í nýja heiminum, sem kom út árið 1966 og jafnvel einhverjar fleiri af þessum sögum. En Jósafat, sem var helsta drifjöður bókaútgáfunnar Ásaþórs, var mikill tungumálamaður og um leið athafna- og ævintýramaður sem kom víða við seinna á lífsleiðinni. Báðir eru þeir Sverrir og Jósafat nú látnir.
Eins og áður segir má alltaf deila um hvort bækurnar með Prins Valíant séu eiginlegar teiknimyndasögur. Á myndarömmunum sjálfum er ekki um neinar talblöðrur að ræða og þær eru því ólíkar flestum þeim myndasögum sem evrópskir myndasögulesendur eiga að venjast. Þá
voru sögurnar um Prins Valíant sérstakar að því leyti að
sögupersónurnar eldast með tímanum en það virðist hins vegar fremur sjaldgæft
í öðrum bókaflokkum. Seinna hægðist reyndar töluvert á öldrunarhraða persónanna og í þeim sögum sem enn er verið að teikna eldast þær afar hægt. Það gengur víst ekki upp að háaldraður prinsinn þurfi bæði að berjast við óvini sína og elliglöp. Hver blaðsíða hefur að geyma einn til fjóra myndaramma og á milli þeirra er sjálfur sögutextinn með samtölum persónanna. Myndirnar
í bókunum eru svarthvítar og sýna yfirleitt ekki samfellda atburðarás
heldur er þar meira stiklað á stóru um helstu framvindu mála í sögunum.
Í byrjun færslunnar minntist SVEPPAGREIFINN á þessar tvær bækur sem þeir bræður eignuðust á sínum tíma en aldrei náðu sögurnar um Prins Valíant þó að heilla, hvorki þessar tvær sögur né hinar litfögru og vönduðu myndasögur í Vikunni. Á meðan hann var að vinna að þessari færslu gluggaði SVEPPAGREIFINN að sjálfsögðu í þessar sjö bækur sem hann á um Prins Valíant og í framhaldinu hugsaði hann með sér að líklega væri þroskinn nú orðinn nægilegur til að lesa þessar bækur. Í æsku þótti honum þær hins vegar engan veginn nógu mikið léttmeti til að réttlæta það að sökkva sér í efnið. Bækurnar um Prins Valíant eru með skírskotun í veraldarsöguna, frekar fullorðins og algjörlega lausar við allt sem tengja má við húmor. En þær eru þó alls ekki þungar. Aftan á einni bókinni má lesa þetta um "Óskabók unglinganna"; Sögurnar af prins Valiant endurspegla sögu Evrópu. Þær greina frá falli Rómaveldis, innrás Húnanna, víkingatímabilinu, hirð Arthurs konungs. Margar söguhetjurnar er koma hér við sögu, eru þær sömu og í íslenzku Riddarasögunum. Hér eru þær færðar í skemmtilegan og læsilegan búning, til að skapa áhuga yngri kynslóðarinnar fyrir fornum sögum og menningu.
Þetta er auðvitað allt gott og blessað. Sögurnar voru í fyrstu svolítið í fantasíuformi þar sem skrímsli, nornir og galdramenn komu við sögu en seinna voru þær settar meira í sögulegt samhengi. Þá var reyndar farið nokkuð frjálslega með tímaramma sagnanna og æviskeið Valíants garmsins þannig gert nokkuð teygjanlegt. Atburðir bókanna eru nefnilega frá nokkrum tímabilum, allt frá því seint á tímum Rómaveldis til hámiðalda, og teljast því einn allsherjar, samfelldur tímahrærigrautur. Það sem helst mun þó líklega trufla SVEPPAGREIFANN við lestur bókanna er annars vegar það, að hann mun líklega líta á sögurnar sem venjulega sögubók með myndum en ekki sem myndasögu. Og hins vegar mun einbeitning hans að stórum hluta þurfa að snúast um að fletta þessum bókum með mikilli varúð þar sem þær virðast vera orðnar ansi viðkvæmar fyrir hnjaski. Tilfinningin við að handfjatla bækurnar er nefnilega eins og að vera með upprunalega skinnhandritið af Njálu á milli fingranna. Á sínum tíma hafa þetta vafalaust verið mjög vandaðar bækur og allur frágangur á þeim til fyrirmyndar en taka verður tillit til þess að þær eru nú orðnar á milli 50 og 60 ára gamlar. Eintök SVEPPAGREIFANS eru reyndar alveg þokkaleg en auðvitað hefur tíminn markað sín spor í þessar bækur. Límingin er farin að molna sem gerir það að verkum að bækurnar hans eru orðnar mjög lausar í sér og kilir þeirra eru afar viðkvæmir þó enn séu þeir að langmestu leyti heilir. Hann er því alltaf með opin augun fyrir góðum Prins Valíant eintökum með góðum kili. Það er þó ekki sjálfgefið því margir þeirra sem einnig hafa leitað eftir eintökum af þessum sjaldséðu bókum hafa verið að óska eftir betri eintökum einmitt vegna kjalaskorts.
Höfundur sagnanna um Prins Valíant hét Harold Rudolf Foster (1892 - 1982) en hann gekk ætíð undir listamannsnafninu Hal Foster. Hann var kanadísk/bandarískur listamaður sem snemma varð þekktur fyrir stórbrotnar teikningar og var með frábært auga fyrir smáatriðum í verkum sínum. Hann varð fyrst kunnur fyrir teikningar sínar um Tarzan eftir Edgar Rice Burroughs og átti í raun heiðurinn af því að koma hinum hálfnakta skógarmanni í myndasöguform árið 1929. Með tímanum varð Foster hins vegar leiður á þessum öskrandi konungi apanna og hugur hans leitaði til eigin sköpunarverka, þannig að árið 1937 birtist Prins Valíant í fyrsta sinn á prenti. Næstu fjörtíu árin helgaði listamaðurinn sig algjörlega þessu viðfangsefni sínu og myndasögurnar um kappann urðu gríðarlega vinsælar um heim allan. Árið 1971 tók listamaðurinn John Cullen Murphy við af Foster en hann hélt þó sjálfur áfram að semja handritin að sögunum. Eftir að Murphy lauk störfum hafa þeir Gary Gianni og Thomas Yeates helst teiknað prinsinn hugprúða en auk þess hafa margir aðrir listamenn spreytt sig á þessum sögum á ýmsum öðrum vettvöngum. Hal Foster lést árið 1982.
Myndasöguræmurnar um Prins Valíant hafa birst í meira en 300 dagblöðum og tímaritum út um allan heim, í gegnum tíðina, og sögurnar um hann hafa verið þýddar á fjölda tungumála. Svo útbreiddar eru bækurnar um Prins Valíant að þær hafa jafnvel komið út í Færeyjum svo eitthvað sé nefnt. Og þar líkur umfjöllun SVEPPAGREIFANS um Prins Valíant að þessu sinni.
Virkilega skemmtilegt. Ég á 5 af þessum bókum. Þegar ég spurði vin min og teiknimyndasögusafnara hann Tuma hvort þetta væri eitthvað sem maður þyrfti að safna þá var svarið að það væri skylda allra Keflvískra safnara að safna þessu því þetta eru einu teiknimyndasögurnar sem hafa verið gefnar úr í Keflavík. Ég sökkti mér í það að kynna mér sögu útgefandans fyrir nokkru og hans ferill er ævintýralegur. Kom að fjölmörgum fyrirtækjum í Keflavík. Sat að ég held fyrst inni sama ár og bók sem hann þýddi kom út sem heitir því skemmtilega nafni "Sekur eða saklaus"
SvaraEyðaÞetta er eiginlega alveg stórmerkileg útgáfa og þessar Prins Valíant bækur eru í raun fyrsta alvöru myndasöguserían sem markvisst var gefin út í bókaformi hér á landi.
SvaraEyðaÚtgefandinn, Jósafat Arngrímsson, hefur verið mjög merkilegur maður, kom víst nokkuð víða við og var bendlaður við ýmislegt vafasamt. En hann hefur líka verið snjall og sagan segir að hann hafi haft til dæmis haft einstaka tungumálahæfileika.
Bestu kveðjur,
SVEPPAGREIFINN
Damn you!, nú verð ég að leita uppi þessa mynd um Prins Valiant og horfa á. Ég á nokkrar þessara bóka, allar fremur illa farnar.
SvaraEyðaÞað er ýmislegt sem ég hef á samviskunni, Villi :)
SvaraEyðaHér er linkur á myndina í alveg þokkalegum gæðum en reyndar talsett á ... uhh... portúgölsku held ég! https://www.youtube.com/watch?v=ZyNmK39rYHY&t=1384s
Bestu kveðjur,
SVEPPAGREIFINN