10. júní 2022

207. EINN VIGGÓ BRANDARI

Þennan föstudaginn er frekar rólegt yfir SVEPPAGREIFANUM og sú værukærð gerir það að verkum að færsla dagsins er í einfaldari kantinum. Heldur hefur saxast á samansafnaðan færslubanka síðuhafa og hugsanlega verða því fleiri slíkar áberandi í sumar. Ætlunin er þó að reyna að viðhalda eðlilegri birtingu á myndasöguefninu hér, enda enn af nægu að taka, en það fer samt allt eftir frítíma og afkastagetu SVEPPAGREIFANS sem óðum fer þverrandi. Enn á hann þó í fórum sínum allmikið af hálfkláruðum myndasögufærslum sem aðeins bíða þess að vera kláraðar.

Að þessu sinni er um að ræða Viggó brandara sem birtist í 2066. tölublaði SPIROU tímaritsins, þann 17. nóvember árið 1977, en hann hefur aldrei birst í þeim bókum sem Iðunn og Froskur útgáfa hafa sent frá sér á íslensku. Þess verður þó varla lengi að bíða og vonandi fer enginn að gera neitt veður út af þessari ólöglegu birtingu og þýðingu SVEPPAGREIFANS. Brandarinn er mjög dæmigerður þar sem bíll Viggós og Eyjólfur koma við sögu og hann endar að sjálfsögðu með afskiptum Njarðar lögregluþjóns þar sem hann er með pennann sinn og svörtu bókina á lofti. Á þessum tíma birtist efni André Franquin mjög stopult í tímaritinu og í nokkurn tíma höfðu nýjir Viggó brandarar bara sést á nokkurra vikna fresti í blaðinu. Stundum liðu þá sex til átta vikur á milli nýrra brandara en þess á milli var birt gamalt og gott efni um Viggó undir yfirskriftinni Coin des classiques eða Sígilda hornið.

En hér er alla vega brandarinn ...


2 ummæli:

Út með sprokið!