4. ágúst 2017

17. BÍÓMYND MEÐ STEINA STERKA

Öll þekkjum við þessar bíómyndir sem gerðar hafa verið upp úr frægum teiknimyndasögum af fransk/belgíska málsvæðinu en þar má helst nefna myndirnar um Ástrík og Tinna. En einnig er unnið að bíómynd og Sval og Val sem til stendur að frumsýna í febrúar árið 2018 og í apríl sama ár er ráðgert að frumsýna glænýja bíómynd um Viggó viðutan. Og fyrir ekki svo löngu síðan minntist SVEPPAGREIFINN á franska kvikmynd sem væntanleg er í bíó undir lok september og er um Litla Sval eða Le Petit Spirou eins og hann heitir á frönsku.
Eitthvað minna fór fyrir kvikmynd sem frumsýnd var þann 17. desember árið 2014 og heitir Benoit Brisefer: Les taxis rouge eða Steini sterki og Rauðu leigubílarnir. Steina sterka þekkja auðvitað allir unnendur þeirra teiknimyndasagna sem komið hafa út á hér á landi en myndin er byggð á samnefndri sögu, eftir Peyo, sem kom út í íslenskri þýðingu árið 1983.
Í stórum dráttum fjallar sagan um Steina sterka sem aðstoðar Martein, vin sinn leigubílstjórann, sem þarf að berjast við leigubílafyrirtæki sem rænir frá honum viðskiptavinum á ansi óheiðarlegan hátt og virðist auk þess viðriðið margskonar glæpastarfsemi. Leikstjóri bíómyndarinnar er Manuel Pradal en aðalhlutverkið er í höndum Gérard Jugnot og auðvitað leikur Jean Reno í myndinni. Hér má sjá kynningu á kvikmyndinni Benoit Brisefer: Les taxis rouge:
Og svo eins og eitt atriði úr myndinni sem margir kannast við úr bókinni um Steina sterka og Rauðu leigubílana.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!