20. október 2017

28. ÝMIS LISTAVERK Í BRÜSSEL OG AMSTERDAM

Um síðastliðna páska átti SVEPPAGREIFINN leið um Amsterdam og heimsótti til að mynda hina frábæru myndasögubúð Lambiek við Koningsstraat 27 sem er ekki langt frá Nieuwmarkt markaðstorginu. Um það fjallaði hann meðal annars í þessari færslu hér. En annars var Lambiek verslunin opnuð árið 1968 og var fyrsta sérverslunin með myndasögur sem opnaði í Evrópu en þess utan er hún líklega elsta starfandi myndasögubúðin í öllum heiminum. Verslunin er þekkt um allan heim fyrir metnað og frábært úrval en alveg frá upphafi lagði stofnandi hennar, Kees Kousemaker, sig fram um að vera í góðu sambandi við sem flesta listamennina. Samhliða myndasöguversluninni er þar einnig rekið gallerí sem hefur að geyma fágæta dýrgripi frá mörgum af þekktustu listamönnum teiknimyndasagnanna í Evrópu. SVEPPAGREIFINN hvetur allt áhugafólk um teiknimyndasögur sem leið eiga um miðborg Amsterdam að kíkja þarna við og skoða úrvalið.
Það er gaman að minnast aðeins á svolítinn dýrgrip sem galleríið í Lambiek búðinni hefur að geyma. Árið 1971 unnu nefnilega tveir af þekktustu listamönnum Belgíu, þeir André Franquin og Pierre Culliford (Peyo), sameiginlega að forsíðumynd á litlum auglýsingabæklingi fyrir verslunina og eigandann Kees Kousemaker. Á þessari mynd má sjá Viggó viðutan, sem Franquin teiknaði auðvitað, með hóp af strumpum hangandi utan á sér en þá teiknaði Peyo að sjálfsögðu. Svona leit bæklingurinn út þegar þessir tveir snillingar höfðu lokið við verkið.
Upprunalega myndin hefur alltaf verið vandlega varðveitt í safni búðarinnar þau 46 ár sem liðin eru síðan listamennirnir gerðu hana en nú er svo komið að þessi glæsilegi safngripur liggur hreinlega undir skemmdum ef ekkert verður að gert.
Þeir félagar, Franquin og Peyo, teiknuðu myndina hvor með sínum pennanum og nú er svo komið að blekið í þeim penna sem Peyo notaði hefur dofnað svo með árunum að með tímanum mun það alveg hverfa. Svo mikið hafa línurnar dofnað að þær eru orðnar ljósbrúnar. Það er því ljóst að eftir önnur 46 ár munu litlu bláu strumparnir alveg verða horfnir.
Þeir félagarnir Franquin og Peyo komu augljóslega víða við. Þeir höfðu þekkst lengi og unnið saman að mörgum verkefnum og þá sérstaklega hjá tímaritinu SPIROU.

En það er fleira...

Í lok ársins 2013 gerðu belgískir iðnaðarmenn einstaklega merkilega uppgötvun er þeir unnu að endurbætur við húsnæði Verkalýðsfélags opinberra starfsmanna (VSOA) í miðborg Brüssel. Á um tíu fermetra stórum vegg uppi á þriðju hæð hússins, undir fimm lögum af veggfóðri, fundu þeir frumteikningar eða skissur af nokkrum af helstu hetjum belgísku teiknimyndasagnanna. Teikningarnar skemmdust reyndar eitthvað af vinnu iðnaðarmannanna enda var upphafleg ætlun þeirra að skafa allt betrekkið af veggnum en sem betur fer uppgötvuðust myndirnar áður en stórtjón varð af. Myndirnar höfðu sem sagt verið rissaðar á innsta lag veggfóðursins en hin fimm lögin náðu iðnaðarmennirnir að skafa gætilega burt, eftir um tveggja daga vinnu, þegar ljóst var hvað undir leyndist.
Þarna höfðu einmitt þeir félagar Franquin og Peyo átt svolítinn hlut að máli, Franquin með skissur af Gorminum og Viggó viðutan en Peyo með Hagbarð félaga Hinriks úr samnefndum myndasögum.
Þrír aðrir listamenn höfðu einnig komið að þessu veggjakroti en það voru þeir Jean Roba, Michel Tacq og Victor Hubinon. Þeir þrír eru reyndar ekki jafn þekktir hér á landi, þar sem þeirra sögur hafa ekki verið gefnar út hér, en Jean Roba er kunnastur fyrir grallaraspóana og vinina Boule og Bill. Allir þessir listamenn voru því í hópi stærstu nafna belgísk/franska myndasögu-elítunnar. Hægra megin við myndina af Gormi stendur nafn Franquins en þar við hliðina ártalið '58. Það liggur því augljóslega beinast við að áætla að verkið hafi verið unnið á því herrans ári 1958.
Og á öðrum stað á veggnum hefur verið skrifuð beiðni á frönsku sem enn sést, "Prière de ne plus dessiner sur ce mur svp" eða "Vinsamlegast teiknið ekki meira á vegginn". Óvíst er auðvitað hversu lengi þessi mynd hefur fengið að standa óáreitt á veggnum en á einhverjum tímapunkti hefur einhverjum þótt ástæða til að veggfóðra yfir listaverkið. Og með tímanum hafa bæst við fleiri lög af veggfóðri enda enginn að gera sér neina grein fyrir hverns konar menningaverðmæti hafi mátt finna þarna undir.
Þótt veggurinn hafi fundist í desember árið 2013 var fundur hans þó ekki gerður opinber fyrr en í september árið 2015. Teiknimyndasögusafn Belgíu hafði fengið herbergið í sína umsjón en hafði ekki fjármuni til að geta unnið strax að þeim nauðsynlegu aðgerðum sem fundurinn krafðist áður en hann yrði gerður opinber. Forstöðumaður safnsins, Willem de Graeve, hefur látið hafa eftir sér að ólíklegt sé að teikningarnar á veggnum séu falsaðar. "Ég held að enginn hafi falsað teikningarnar á veggnum á þeim tíma. Stíllinn er mjög skýr. Það er ekki auðvelt að falsa myndir eftir Franquin eða Peyo. Þessir teiknarar eru mjög frægir í dag en voru nánast óþekktir þegar þessar myndir voru gerðar", segir de Graeve.
Myndasögusafnið hefur núna látið setja gler yfir vegginn til að verja hann fyrir skemmdum og eigandi hússins, VSOA í Brüssel, stefnir á að opna rýmið fyrir almenningi. SVEPPAGREIFANUM er reyndar ekki kunnugt um hvort af því hefur orðið enn en það hlýtur að teljast líklegt. Þessi fundur telst einstakur í menningar- og þjóðararfi Belga og nauðsynlegt að komandi kynslóðir fái að njóta hans sem best.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!