Eins og líklega svo margir, sem gaman hafa af því að fletta myndasögum, á SVEPPAGREIFINN sínar uppáhalds teiknimyndasögur. Reyndar ætti hann kannski ekkert sérstaklega auðvelt með að raða þeim upp í ákveðinni röð þar sem það er engin ein myndasögusería sem hann heldur mest uppá. Hins vegar gæti hann auðveldlega sett upp TOPP 5 lista yfir uppáhalds teiknimyndasöguhetjurnar sínar óháð röð. En það er önnur saga og bíður betri tíma. En núna ætlar hann, þvert á móti, hins vegar að fara alveg í hina áttina og skoða aðeins þær myndasögur (sem komu út á íslensku) sem honum þykir hvað minnst til koma - það er að segja þær verstu. Sú úttekt er ekki byggð á neinni vísindalegri rannsóknarvinnu heldur eingöngu á hans persónulega mati og smekk.
En hvað teljast vera slæmar myndasögur? Líklega getur verið svolítið erfitt að skilgreina verstu myndasögurnar þar sem huglægt mat eða jafnvel smekkur fólks er afskaplega misjafn. Teljast sögurnar vera illa teiknaðar? Eru þær illa samdar? Eða bara leiðinlegar? Og svo má lengi telja. Líklega safnast þarna saman sittlítið af hverju af fyrrnefndum atriðum. Í þessari úttekt ætlar SVEPPAGREIFINN alla vega að velja sinn persónulega TOPP 5 lista og um leið að skýra og færa líka kannski svolítil rök fyrir sínu persónulega mati. Allt er þetta auðvitað til gamans gert og ber ekki að taka mjög alvarlega. Og svo mesta hlutleysis sé gætt er þeim raðað upp í stafrófsröð.
En hvað teljast vera slæmar myndasögur? Líklega getur verið svolítið erfitt að skilgreina verstu myndasögurnar þar sem huglægt mat eða jafnvel smekkur fólks er afskaplega misjafn. Teljast sögurnar vera illa teiknaðar? Eru þær illa samdar? Eða bara leiðinlegar? Og svo má lengi telja. Líklega safnast þarna saman sittlítið af hverju af fyrrnefndum atriðum. Í þessari úttekt ætlar SVEPPAGREIFINN alla vega að velja sinn persónulega TOPP 5 lista og um leið að skýra og færa líka kannski svolítil rök fyrir sínu persónulega mati. Allt er þetta auðvitað til gamans gert og ber ekki að taka mjög alvarlega. Og svo mesta hlutleysis sé gætt er þeim raðað upp í stafrófsröð.
BENNI FLUGMAÐUR
SVEPPAGREIFANUM finnst bækurnar um Benna flugmann ekki góðar teiknimyndasögur. Best að koma því strax að. Þær eru reyndar svo lélegar að það var meira að segja töluverðum erfiðleikum bundið að nálgast upplýsingar um herlegheitin á Netinu. Þessar sögur hafa þá sérstöðu að þær voru búnar að vera þekktar hér á landi í nokkra áratugi áður en fáeinar Benna bækur komu út í myndasöguformi í kringum 1980. Bókaútgáfan Norðri hafði gefið út nokkrar "drengjabækur" með Benna á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar og þær voru síðan endurvaktar snemma á þeim níunda, hjá Bókhlöðunni, með nokkrum bókum í viðbót. SVEPPAGREIFINN las meira að segja eitthvað af þeim bókum í æsku
Fjölvaútgáfan sendi síðan frá sér þrjár myndasögur um Benna á árunum 1979 til 1983 en þetta voru bækurnar; Tígrisklóin (1979), Geimstöð Hjalta (1980) og Flugvélahvarf yfir Kalahari (1983). Og það verður að segjast eins og er að líklega hefði átt að sleppa þessum myndasögum og láta "drengjabækurnar" duga. Þessar teiknimyndasögur eru svo frámunalega lélegar og illa teiknaðar að það hálfa væri nóg. Upphaflegu sögurnar eru eftir Englendinginn William Earl Johns en hann skrifaði bækurnar undir höfundarnafninu Captain W. E. Johns. Myndasögurnar þrjár, sem Íslendingar þekkja, eru byggðar á þessum sögum en mun fleiri bækur eru þó til í seríunni. Það voru tveir sænskir teiknarar sem komu að þessum þremur bókum sem komu út hjá bókaútgáfunni Fjölva. Bjorn Karlstrom teiknaði Tígrisklóna og Geimstöð Hjalta en Stig Stjernvik sá um að koma Flugvélahvarfi yfir Kalahari í bók. Að mati SVEPPAGREIFANS er bók Stjernvik alveg þokkalega sæmileg en sögur Karlstrom öllu verri.
Höfundurinn hefur tileinkað sér einstaklega stirðbusalegan teiknistíl sem lítur út fyrir að vera heimatilbúinn og er engan veginn að henta myndasöguforminu. Það vantar alla mýkt í teikningarnar og því er afskaplega erfitt að staðsetja stílinn en hann kemur augljóslega ekki úr belgísk/franska myndasöguumhverfinu sem við þekkjum svo vel. Stíllinn gæti hugsanlega helst hentað til að sýna ljótt, slasað fólk í skyndihjálparleiðbeiningum. Tónninn í litavali þessa myndasagna er líka alveg sérstaklega einhæfur og pirrandi og svo virðist sem höfundurinn hafi annað hvort verið óeðlilega hrifinn af brún/appelsíngulum tón eða hreinlega verið litblindur. Kannski er SVEPPAGREIFINN, líkt og aðrir íslenskir myndasöguneytendur, svo vel mataður og ofdekraður af vinsælustu og bestu belgísk/frönsku myndasögunum að allt annað virkar sem hjóm eitt.
FALUR
Teiknimyndasögurnar um fótboltafélagið Fal er sér kapítuli fyrir sig en bækurnar hafa töluverða sérstöðu í útgáfu myndasöguflórunnar á Íslandi. Þær voru einu myndasögurnar sem gefnar voru út hjá bókaútgáfunni Erni og Örlygi og eru hollenskar að upplagi. Sögurnar eru eftir þá Toon van Triel og John le Noble sem myndu líklega ekki teljast með færustu eða drátthögustu listamönnum álfunnar í bransanum en reyndar standa fáar teiknimyndasögur þeim að sporði í húmor og skemmtilegheitum. Og í raun er SVEPPAGREIFINN aðdáandi þeirra og getur, í fljótu bragði, aðeins nefnt bækurnar um Viggó viðutan sem virkilega fyndnari. En það er auðvitað bara smekksatriði. Kosturinn við þessa vitleysu er þó sá að líklega þurfa lesendur ekki að hafa neina grunnþekkingu eða áhuga á fótbolta til að hafa gaman af bókunum. Hins vegar er með ólíkindum hversu bækurnar um Fal eru illa teiknaðar og það dregur óneitanlega töluvert úr gæðum þeirra. Og reyndar svo mikið að sögurnar teljast eiginlega ómissandi á þessum lista yfir verstu myndasögurnar.
Teiknistíllinn er einstakur og ólíkur öllu því sem myndasöguaðdáendur á Íslandi eiga að venjast. Stíllinn er einhvers konar sambland af Herramönnunum og fígúrunum sem setja saman húsgögnin í IKEA leiðbeiningabæklingunum en minnir samt eiginlega helst á teikningar argentínska snillingsins Mordillo - nema að sá gaur er virkilega alvöru listamaður. Sögurnar eru hroðvirkislega samdar (SVEPPAGREIFINN er ekki einu sinni viss um að þessar sögur séu yfir höfuð samdar!) og einfaldar í grunninn. Það voru aðeins gefnar út þrjár bækur úr þessum bókaflokki á Íslandi á sínum tíma (1979-81) en í heildina eru sögurnar orðnar 35 talsins. Þær síðustu komu út árið 1998. Bækurnar eru gríðarlega vinsælar í Hollandi og sama má reyndar líka segja um íslensku útgáfuna. Í heimalandinu hafa meira að segja verið gefin út frímerki þeim til heiðurs.
Bækurnar hafa verið ófáanlegar hér á landi í mörg ár og eru afar eftirsóttar hjá þeim sem safna teiknimyndasögum. Það hefur jafnvel heyrst að menn séu tilbúnir að borga þó nokkruð marga þúsund kalla fyrir sæmilega góð eintök af bókunum og það er allt að því slegist um sögurnar þar sem til þeirra næst. SVEPPAGREIFINN fjallaði aðeins um þessa seríu hér.
HIN FJÖGUR FRÆKNU
Já, úff... hvað skal segja? Það verður strax að viðurkennast að SVEPPAGREIFANUM þykir afskaplega lítið til bókanna um Hin fjögur fræknu koma og er nánast í nöp við þær myndasögur. Það er eiginlega alveg sama hversu miklar staðalímyndir aðalpersónur bókanna hafa að geyma, þær eru eiginlega allar einhvern veginn ótrúlega flatar og litlausar. Meira að segja hundinum Óskari tekst ekki einu sinni að brjóta upp leiðindin með athugasemdum sínum eða tilburðum. Hans eina hlutverk virðist að vera með hrakspár um komandi atburði og benda lesendum á hið augljósa og fyrirsjáanlega. Til samanburðar má benda á að helstu fylgisveinar Tinna og Lukku Láka (þ.e. Tobbi og Léttfeti) eru notaðir til að fylla upp í tómarúm sinna myndasagna og koma oft með nauðsynleg innlegg eða athugasemdir í umræðuna. Og þeir eru undantekningalaust fyndnir. Hlutverk hundsins Óskars, í bókunum um Hin fjögur fræknu, virðist hins vegar eitt snúast um það að vera leiðinlegur!
Í heildina eru bækurnar um Hin fjögur fræknu orðnar 43 talsins og þar af komu 26 þeirra út í íslenskri þýðingu. Höfundar bókanna, teiknarinn Francois Craenhals og handritshöfundurinn Georges Chaulet, voru kannski ekki endilega lélegir listamenn en þeir náðu samt ekki að gera þessar myndasögur samkeppnishæfar af neinu viti. Þrátt fyrir að hafa jafnvel notið aðstoðar Tinna í einni sögunni af viðleitni sinni við að lyfta bókunum upp á hærra plan. SVEPPAGREIFINN fjallaði um það hér. Teikningar Craenhals eru ekki að hjálpa til. Persónur bókanna hafa ekki þessa mýkt í hreyfingum eða limaburði sem eru svo áberandi í sögum til dæmis Peyos, Hergés og Franquins. Þetta gerir það að verkum að oft á tíðum virka sumir í bókunum mjög stífir og klunnalegir. Og svo virðast andlit margra persónanna hreinlega koma úr sitthvorum teiknistílnum - eiginlega ekkert samræmi þar á milli.
Sögurnar eru óþægilega einfaldar og virðast í fljótu bragði aðeins ætlaðar börnum yngri en 10 ára. Og íslenskum myndasögulesendum til huggunar, þá má geta þess að allra verstu bækurnar úr þessum bókaflokki hafa ekki komið út á íslensku... ennþá. En það má alls ekki líta á skoðun SVEPPAGREIFANS sem einhvern allsherjar dóm yfir bókunum um Hin fjögur fræknu. Þær hljóta að njóta einhverra vinsælda miðað við þann fjölda af bókum sem komið hafa út með þeim. Og SVEPPAGREIFINN þekkir meira að segja til eins aðila sem hefur gaman af bókunum og það er ekki slæmur maður.
SIGGI OG VIGGA
SVEPPAGREIFINN verður að byrja á því að gera svolitla játningu varðandi bækurnar um Sigga og Viggu og viðurkenna kæruleysisleg vinnubrögð. Hann sem sagt las ekki þessar bækur spjaldana á milli, við undirbúning færslunnar, líkt og hann gerði við stærstan hluta hinna seríanna á listanum. Hann á þessar tíu bækur sem komu út í íslenskri þýðingu á sínum tíma og las þær allar þegar hann eignaðist þær fyrir fyrir mörgum árum síðan. En að þeim lestri loknum tók hann þá ákvörðun að dæma teiknimyndasögurnar um Sigga og Viggu til eilífðar útskúfunar. Í framhaldi af því var tekin sú skynsamlega ákvörðun að þær yrðu ekki dregnar fram nema í neyð á tyllidögum. Og vissulega er tilefni til þess núna í tengslum við þennan Topp 5 lista yfir verstu teiknimyndasögur SVEPPAGREIFANS. Auðvitað dró hann fram bækurnar og fletti örlítið í gegnum þær en hann las þær ekki. Þessar bækur eru bara svo ótrúlega mikið rusl. Og það er eiginlega með algjörum ólíkindum að tæplega 370 sögur hafi verið gefnar út í þessum bókaflokki.
Sögurnar um Sigga og Viggu eru í eins konar fantasíuanda, þar sem ferðast er um í tíma og rúmi, og þær eru eiginlega jafn óskiljanlegar eins og þær eru vitlausar. Álfar, geimverur, drekar, hafmeyjar og þekktar manneskjur úr mannkynssögunni birtast jafnt sem verur úr grísku goðafræðinni og allt þar á milli. Og auðvitað er meira að segja ferðast til Íslands í bókunum oftar en einu sinni. SVEPPAGREIFINN á einhvern tímann eftir að fjalla um það.
Bækurnar tíu, sem allar komu út á íslensku á einu bretti, koma héðan og þaðan úr seríunni (af þessum tæplega 370 sögum) og engar tvær í röð. Þessar tíu bækur eru handahófsdreifðar frá seríunúmeri 76 (útgefin 1969) til 206 (útgefin 1993) og það er því algjörlega útilokað að reyna að fá eitthvað samhengi í heildarmyndina. Sögurnar eru hollenskar og í minningunni voru þessar myndasögur reyndar sæmilega teiknaðar og vandaðar þrátt fyrir fyrrnefndan útskúfunardóm. SVEPPAGREIFANN minnti meira að segja að það hafi verið eitthvað Hergé handbragð á þeim. En við það eitt að glugga aðeins í bækurnar á ný hurfu allar vonir um að þessar sögur hefðu kannski ekkert verið svo ofboðslega slæmar. Þær voru því líklega alveg jafn lélegar og SVEPPAGREIFANN hafði minnt.
STRUMPARNIR
Líklega kemur það einhverjum á óvart að sjá sjálfa strumpana á þessum lista yfir verstu myndasöguseríur SVEPPAGREIFANS en það er fullkomlega eðlilegt ef mið er tekið af allri skynsamlegri rökhugsun. Strumpasögurnar eru teiknaðar fyrir markhóp sem samanstendur líklega af börnum á aldrinum 3-10 ára og þar sem SVEPPAGREIFINN tilheyrir ekki lengur áðurnefndum hópi þá höfða þessar bækur afskaplega illa til hans. Líklega falla þær einfaldlega ekki lengur inn í þessa hefðbundu teiknimyndasöguflokka. Þær eru of barnalegar til þess. Því er þá kannski ekki rétt að segja að Strumpabækurnar séu slæmar, frekar að þær höfði ekki til SVEPPAGREIFANS. Það verður reyndar þó að taka það fram að títtnefndur SVEPPAGREIFI er mikill aðdáandi listamannsins Pierre Culliford (Peyo) og þá sérstaklega bókanna um Hinrik og Hagbarð.
Strumparnir eru hins vegar engan veginn að heilla þrátt fyrir gríðarlegar vinsældir þeirra og bækurnar 35 (þar af 10 á íslensku) staðfesta reyndar þær vinsældir. Strumparnir eru bláir á lit, ca 40 cm tvífætlingar, flestir í hvítum sokkabuxum og með húfu, berir að ofan og búa í sveppum. Tungumál þeirra er afskaplega einkennilegt og allt að því óþolandi og nafngiftir strumpanna einkennast af hæfileikum þeirra. Yfirstrumpur, Gleraugnastrumpur, Smíðastrumpur, Kraftastrumpur og svo framvegis. Gleraugnastrumpur fékk reyndar seinna einhverra hluta vegna uppfærslu á sínu nafni og heitir í dag Gáfnastrumpur en það gerði ósköp lítið fyrir seríuna.
Strumparnir eru frekar einhæfir og karakterlausir og það er helst Kjartan galdrakarl sem skilur eitthvað eftir sig í bókunum. Sögurnar eru þokkalega vel teiknaðar og vandaðar, þó Peyo hafi alltaf litið á sig sem lélegan listamann, en þær eru einfaldar og um leið frumlegar og líklega er það nákvæmlega það sem gerir þær svona vinsælar. Grunntónninn eða boðskapurinn í sögunum, sérstaklega þeim eldri, snýst um þessi gömlu gildi þar sem allir eiga að vera góðir við hvern annan og vera ekki með fordóma. Peyo teiknaði fyrstu 16 sögurnar en eftir að hann lést árið 1992 tók sonur hans, Thierry Culliford, við. Í tíð Peyo voru sögurnar ósköp daprar en eftir að sonur hans tók við urðu bækurnar loksins verulega slæmar. Það er því mat SVEPPAGREIFANS að Strumpasögurnar eigi fullkominn tilverurétt á þessum lista.
Og þannig var það. Svona lítur sem sagt út TOPP 5 listi SVEPPAGREIFANS yfir þær myndasöguseríur sem honum þykja hvað verstar. Auðvitað hafa komið miklu fleiri myndasögur út á Íslandi sem eru virkilega slæmar en SVEPPAGREIFINN tók þá ákvörðun einblína aðeins á þær seríur sem alla vega þrjár bækur eða fleiri hafa komið út með. Það eru nefnilega til nokkrar virkilega slæmar seríur í viðbót þar sem einungis hafa verið gefnar út ein eða tvær bækur af hér á landi. Dæmi um það eru; Bleiki pardusinn, Pésli panda og Stjáni blái. Látum þetta duga í dag.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Út með sprokið!