16. febrúar 2018

46. FRANK Í BÓKAHILLUNUM

Eftir að SVEPPAGREIFINN lét loksins verða af því að koma teiknimyndasögusafninu sínu í eðlilegar skorður hefur ekki verið hjá því komist að rýna eilítið í nýju myndasöguhillurnar og njóta gersemanna. Hann hefur í gegnum tíðina reyndar alltaf verið duglegur að fletta reglulega í gegnum helstu dýrgripi safnsins eins og Tinna bækurnar, Sval og Val, Viggó og Lukku Láka, en minna hefur farið fyrir þeim bókum sem heilluðu ekki jafn mikið í æsku. Þarna eru seríur sem töldust eilítið síðri og þar má nefna til dæmis bækurnar um Samma, Ástrík, Steina sterka og Fláráð stórvezír en margar af þeim sögum hafa hreinlega ekki fengið tækifæri í seinni tíð til að láta ljós sitt skína á ný. En nú er ljóst að eftir að myndasögurnar hafa fengið sinn sýnilega og verðskuldaða stall á heimilinu þá munu þær sannarlega fá sitt tækifæri til að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga og fá uppreist æru. Þessar teiknimyndasögur SVEPPAGREIFANS verða nú væntanlega lesnar upp til agna hver af annarri.
Og svo eru það hinar bækurnar. Þar er SVEPPAGREIFINN auðvitað að meina þær bækur sem hann las aldrei í æsku en hefur á undanförnum 25-30 árum verið að dunda sér við að safna saman í rólegheitunum. Þetta eru auðvitað annars vegar sögurnar sem komu út á þessum árum (á blómaskeiði myndasöguútgáfunnar á Íslandi) en hann átti aldrei, eins og Goðheima bækurnar, Blástakkur, Hringadróttinssaga, Mac Coy, Alex og fleira. Og hins vegar eru það svo þessar bækur sem komu út örlítið seinna eftir að SVEPPAGREIFINN missti áhugann á myndasögum tímabundið upp úr unglingsárunum. Þar er til dæmis um að ræða bækurnar um Frosta og Frikka, Frank, Yoko Tsúnó, Nordic Comic bækurnar allar og Þórgný. Aðeins hefur SVEPPAGREIFINN verið að byrja að kíkja svolítið á þessar bækur og ekki fyrir svo löngu minntist hann aðeins á seríuna um Yoko Tsúnó, hér á Hrakförum & heimskupörum, og á einu bókina sem kom út hér á landi úr seríunni um njósnarann 421.
En á árunum 1985-87 komu út á íslensku fimm myndasögur úr seríunni um franska blaðamanninn Frank eða Guy Lefranc eins og hann heitir á frummálinu. SVEPPAGREIFINN er búinn að vera að lesa og rýna í þessar fimm bækur að undanförnu en eins og áður segir er þetta ein af þeim seríum sem náði aldrei almennilega inn á hans borð í æsku. Auðvitað vissi SVEPPAGREIFINN af þessum bókum, eins og af öllum þeim aragrúa af teiknimyndasögum sem hans kynslóð stóð til boða, og eitthvað var verið að glugga í þær. En einhvern veginn vöktu bækurnar um Frank aldrei áhuga hans. Sögurnar voru engan veginn samkeppnishæfar við það léttmeti sem SVEPPAGREIFNN hreifst af og bækurnar um Sval og Val, Tinna og Viggó viðutan voru auðvitað miklu skemmtilegri. Frank, Alex hinn hugdjarfi, Á víðáttum vestursins og Blástakkur voru líklega of vandaðar og efnið full alvöruþrungið eða fullorðins fyrir kæruleysis þenkjandi SVEPPAGREIFANN. Í vinahópnum féllu jafnvel orð um að sögurnar um Frank væru hundleiðinlegar og það heyrist meira að segja enn þann dag í dag. Það var kannski helst að bækurnar um Seinni heimsstyrjöldina vektu einhvern áhuga af alvarlegra efninu.
Í september árið 1948 hafði Le Journal de Tintin byrjað að birta sögurnar um Alix l’intrépide eða Alex hinn hugdjarfa eftir handritshöfundinn Jacques Martin. Fjölva útgáfan hóf að gefa þær myndasögur út árið 1974 en alls voru gefnar út 6 bækur á íslensku með Alex - sú síðasta árið 1988. Þessar sögur urðu mjög vinsælar hjá frönskumælandi lesendum Tinna tímaritsins en Martin skrifaði bæði handritið og teiknaði þær sögur. Árið 1951 var Jacques Martin á ferð með vini sínum í Frakklandi og fékk þá hugmynd að nýrri myndasöguseríu eftir að hafa heimsótt yfirgefið vopnabúr í Vosges sem Nasistar höfðu skilið eftir inni í jarðgöngum eftir stríð. Þar mátti til að mynda finna V1 eldflaug sem beint hafði verið að París í stríðinu og í kjölfarið varð til hugmynd að handriti sem passaði reyndar ekki inn í 2000 ára söguheim Alex. Þarna varð því fyrsta sagan um Frank, La grande menace, til en hún hóf göngu sína í Le Journal de Tintin þann 21. maí árið 1952 og í frönsku útgáfunni 3. júlí sama ár. La grande menace var þó ekki beint í þeim anda sem stjórnendur Le Journal de Tintin lögðu upp með stefnu tímaritsins. Þeir höfðu því orðið mjög undrandi þegar Martin greindi þeim frá hugmyndum sínum enda var handritið mjög ólíkt sögum hans um Alex hinn hugdjarfa. La grande menace sagan með Frank þótti bæði með pólítískari undirtón og ofbeldisfyllri atburðarás en lesendur tímaritsins áttu að venjast. Sagan sem kom síðan út í bókaformi árið 1954 og næstu tvær sögur, L'ouragan de feu (1961) og Le mystère Borg (1965) slógu svo allar í gegn.
Jacques Martin bæði teiknaði og skrifaði handritin að þessum fyrstu þremur sögum en samhliða þeim var hann einnig á fullu við vinnu á sögunum um Alex í Le Journal de Tintin. Auk þess sem hann starfaði með Hergé hjá Hergé Studios við að fullvinna Tinna bækurnar allt til ársins 1972. Bæði söguhandritin og teiknistíllinn á þessum fyrstu sögum um Frank þótti minna á hinar vinsælu Blake & Mortimer sögur sem einnig voru að birtast í Le Journal de Tintin á sama tíma. Höfundur þeirra myndasagna Edgar P. Jacobs, sem einnig vann mikið að Tinna sögunum fyrir Hergé, sakaði jafnvel Jacques Martin á tímabili um að stela stílnum frá sér. Hér eru þeir félagar einmitt að störfum hjá Hergé Studios, Hergé (Georges Prosper Remi) og Jacques Martin.
Eftir að fyrstu þrjár sögurnar um Frank birtust í Le Journal de Tintin varð svolítið hlé á birtingu fleiri sagna um blaðamanninn knáa og það varð ekki fyrr en árið 1970 sem sagan Le repaire du loup birtist næst í tímaritinu. Þegar þarna var komið við sögu hafði Jacques Martin lagt teiknipennann til hliðar og einbeitt sér að handritsgerðinni en hinn kunni Bob de Moor tók að sér að teikna þessa sögu. Martin hélt þó áfram að bæði teikna og skrifa sögurnar um Alex hinn hugdjarfa. Le repaire du loup kom út í bókaformi árið 1974 og sú saga varð síðan árið 1985 fyrsta bókin í seríunni um Frank sem kom út í íslenskri þýðingu. Hér nefndist hún Úlfagrenið og samhliða henni kom einnig út næsta saga í bókaflokknum sem hét Við hlið vítis (Les portes de l'enfer - 1978). Árið 1986 komu svo næstu tvær bækur í seríunni út hér á landi en þetta voru sögurnar Kafbátahættan (Opération Thor - 1979) og Flugvélaránið (L'oasis - 1981). Síðasta bókin um Frank sem gefin var út í íslenskri þýðingu hét Dómsdagur (L'apocalypse) og kom út árið 1987, sama ár og í Belgíu. Bókaútgáfan Iðunn gaf út bækurnar en þeir Jón Rúnar Gunnarsson og Bjarni Fr. Karlsson sáu um að snara þessum myndasögum yfir á íslensku. Fjórar síðastnefndu bækurnar teiknaði franski listamaðurinn Gilles Chaillet en Jacques Martin skrifaði handritið sem fyrr. Alls eru því komnar út 28 bækur í seríunni um Frank og útgáfa þeirra hefur verið nokkuð regluleg síðustu tvo áratugina enda eru þær mjög vinsælar í Belgíu.
  1. La grande menace - 1954
  2. L'ouragan de feu - 1961
  3. Le mystère Borg - 1965
  4. Le repaire du loup - 1974 (Úlfagrenið - 1985)
  5. Les portes de l'enfer - 1978 (Við hlið vítis - 1985)
  6. Opération Thor - 1979 (Kafbátahættan - 1986)
  7. L'oasis - 1981 (Flugvélaránið - 1986)
  8. L'arme absolue - 1982
  9. La crypte - 1984
  10. L'apocalypse - 1987 (Dómsdagur - 1987)
  11. La cible - 1989
  12. La Camarilla - 1997
  13. Le vol du spirit - 1998
  14. La colonne - 2001
  15. El Paradisio - 2002
  16. L'ultimatum - 2004
  17. Le maître de l'atome - 2006
  18. La momie bleue - 2007
  19. Londres en péril - 2008
  20. Noël noir - 2009
  21. Le châtiment - 2010
  22. Les enfants du bunker - 2011
  23. L'éternel shogun - 2012
  24. L'enfant Staline - 2013
  25. Cuba libre - 2014
  26. Mission Antarctique - 2015
  27. L'Homme-oiseau - 2016
  28. Le Principe d'Heisenberg - 2017
Gilles Chaillet teiknaði sögurnar allt fram til aldamótanna en eftir það hafa Christophe Simon, Francis Carin og André Taymans ásamt fleirum á seinni árum skipt með sér verkunum alveg fram til dagsins í dag. Jacques Martin lést í byrjun árs 2010. Og þar sem SVEPPAGREIFINN hefur nú loksins tekið sig til og lesið þessar 5 bækur með tiltölulega hlutlausum augum þá er líklega eðlilegt að kominn sé tími til að tjá sig aðeins um þessar teiknimyndasögur. 
En myndasögurnar fjalla sem sagt um blaðamanninn Frank Fannberg (það er til fasteignasala austur á Hellu sem heitir Fannberg!) og ungan vin hans Jón Feilan - eða Nonna eins og hann er kallaður. Þó að Frank sé aðalpersóna bókanna lenda þeir félagar saman í ýmsum ævintýrum og óhætt er að segja að þar sé fjölbreytileikinn í fyrirrúmi. Bara í þessum fimm bókum sem út komu á íslensku snúast ævintýri þeirra um baráttu við flugvélaræningja, illmenni sem hyggja á heimsyfirráð, andleg svartagaldursöfl og eiginlega allt þar á milli. Og allt með svona aðeins vísindaskáldsagnaundirtón. Bækurnar eru uppfullar af alls kyns tækni- og vísindafyrirbærum og þeim sem finnst gaman að flottum bílum í myndasögum fá þarna eitthvað fyrir snúð sinn. Eitt af aðaleinkennum bókanna um Frank eru virkilega vandaðar teikningar af bílum.
Fyrsta bókin í íslensku seríunni, Úlfagrenið, er númer 4 í upprunalega bókaflokknum og næstu þrjár bækur í íslensku röðinni fylgja henni eftir líkt og þeirri upprunalegu. En svo vantar næstu tvær bækur inn í íslensku röðina þannig að bók númer 5 þar (Dómsdagur) er númer 10 í hinni upprunalegu. Eins og svo oft í myndasöguútgáfunni voru íslensku bókaforlögin algjörlega háð norrænu útgáfunum en það gerði það að verkum að þær seríur sem gefnar voru út á íslensku gátu margar hverjar verið ansi samhengislausar og slitróttar - að minnsta kosti í byrjun. Við þekkjum þetta allt með bækurnar um til dæmis Sval og Val og Tinna. Hið sama er einmitt lóðið með bækurnar um Frank en helsti gallinn er auðvitað sá hversu fáar bækur komu út í seríunni hér á landi. Þetta gerði það að verkum að útgáfuröðin á bókunum um Frank varð enn samhengislausari en þær þurftu að vera. Það vantar einfaldlega of mikið inn í þær og SVEPPAGREIFINN saknar þess svolítið að hafa ekki fleiri bækur til að miða við og fá fyllri mynd af bókaflokknum. Sem dæmi má nefna að í bókinni Kafbátahættan kemur fyrir bófi sem nefnist Axel Borg en hann hafði áður birtst í sögum númer 1 og 2 (La grande menace og L'ouragan de feu) sem aldrei komu út á íslensku. Hann hafði setið í fangelsi í Feneyjum eftir síðustu viðskipti sín við Frank en náð að brjótast þaðan út og vildi nú fá Frank með sér í ákveðin verkefni. Það var síðan vandamál íslenskra lesenda að reyna að átta sig á samhenginu og giska á hvers konar bófi Axel Borg var. Var hann vinur Franks eða óvinur? Átti hann skilið einhverja samúð lesenda eða var hann bara venjulegt illmenni? Axel Borg kemur síðan aftur fyrir í bókinni Dómsdagur og enn er maður litlu nær um samband þeirra.
SVEPPAGREIFINN er enginn sérfræðingur í teiknimyndasögum þó hann geri alveg einhvern greinamun á þessum þremur helstu undirstöðu-teiknistílum fransk/belgíska myndasöguheimsins. En fyrst og fremst hefur hann skoðun á því hvað honum finnst vel eða illa teiknaðar myndasögur. Sögurnar um Frank eru klárlega á köflum alveg listilega vel teiknaðar en samt finnst SVEPPAGREIFANUM eins og það vanti ákveðna mýkt í hreyfingar sögupersónanna. Þetta gildir ekki bara með bækurnar um Frank, heldur finnst honum vera hægt að sjá þetta í mörgum öðrum myndasöguseríum. Þannig virka sögupersónurnar svolítið stífar í hreyfingum og maður fær það til dæmis á tilfinninguna að þær séu ekki bara í nýstraujuðum fötum heldur virðast persónurnar sjálfar vera meira og minna nýstraujaðar.
Og í beinu framhaldi af hugleiðingum um teiknistíl finnst SVEPPAGREIFANUM ekki hjá því komist að minnast eilítið á fáránlegan klaufskap sem hann rakst á í einni af þessum bókum sem hann las. Í Úlfagreninu, í neðstu myndaröð til hægri, á blaðsíðu 10 má sjá þessa kostulega mynd sem bókstaflega æpti á SVEPPAGREIFANN. Bob De Moor er skrifaður fyrir teikningum sögunnar en reikna má með að þó nokkuð af aðstoðarfólki hans hafi einnig komið að verkinu við að teikna bakgrunna, eins og mannvirki og landslag en einnig ýmsa aukahluti eins og farartæki og ýmis tæki og tól. SVEPPAGREIFANUM finnst líklegt að einhvert af aðstoðarfólki De Moor beri ábyrgð á þessum risastóra kíki. Það er erfitt að ímynda sér hvar hægra auga Franks á að vera staðsett ef nýta á þennan kíki á réttan hátt.
Þessar bækur virðast þó heilt yfir vera ágætar myndasögur - ef hægt er að dæma heilan bókflokk eftir 5 bókum af 28. Samt finnst SVEPPAGREIFANUM eins og þær hafi skort eitthvað pínulítið til að þær hefðu náð að höfða almennilega til lesenda. Alla vega okkar, þessa íslensku krakka sem vildu gleypa í sig allar myndasögur sem komu út á þessum tíma. Að einhverju leyti er það líklega um að kenna þessum alvörudrunga sem vofir yfir öllu og það vantar allan léttleika og húmor í sögurnar. Þessar myndasögur eru reyndar hvorki flóknar né þungar en SVEPPAGREIFANUM finnst þær bara aldrei verða eins grípandi og flestar þeirra sagna sem verið var að gefa út á þeim tíma hér á landi. Sem dæmi um það má til að mynda nefna bækurnar um Sval og Val og Tinna sem íslenskir lesendur gripu strax ástfóstri við af því að þær voru miklu meira í léttari kantinum. Þeir lesendurnir sem voru af kynslóð SVEPPAGREIFANS voru sumir líklega meira fyrir skemmtanagildið og margir okkar hafa sennilega ekki verið orðnir nógu þroskaðir fyrir bækurnar um Frank. Og svo SVEPPAGREIFINN tali aðeins fyrir sjálfan sig, þá hefur hann líklega bara verið of einfaldur fyrir þessar myndasögur á sínum tíma. Bækurnar um Frank eru gríðarlega vinsælar í Belgíu og Frakklandi og hafa selst í milljónum eintaka og það segir líklega mest um almennar vinsældir þeirra. Líklegt er að munurinn felist að einhverju leyti í menningunni en hefðin fyrir vönduðum og fjölbreytilegum teiknimyndasögum er mjög rík þar. Hér á landi voru myndasögur á þessum árum fyrst og fremst ætlaðar börnum og unglingum.

2 ummæli:

  1. Fróðleg samantekt. Ég hef líka velt þessu fyrir mér með "alvarlegu" myndasögurnar sem náðu aldrei neinu flugi hér á landi. Fyrir utan Frank má nefna Blástakk, Þórgný, Birnu Borgfjörð, Á víðáttum vestursins, Alex, Yoko Tsuno og e.t.v. fleiri, ekkert af þessu sló í gegn hér þrátt fyrir miklar vinsældir í Evrópu. Ætli húmorsleysið sé ekki skýringin eins og þú segir. Ekkert af þessu höfðaði sérstaklega til mín ef Alex og (aðeins síðar) Blástakkur eru undanskildir.

    Sverrir Örn.

    SvaraEyða
  2. Þessi samantekt er svo sem engin vísindaleg úttekt en hún byggist frekar á tilfinningu eða kenningum en líklega er engin ein skýring á því af hverju þessar sögur slógu ekki í gegn hér og þessi skortur á húmor eða léttleika á örugglega einhvern þátt í því. Myndasögur komu svolítið snögglega til sögunnar á Íslandi á áttunda áratugnum og voru þá fyrst og fremst ætlaðar börnum og unglingum. Sennilega voru þær því bara álitnar sem einhvers konar "skrípó" og því ekki gert ráð fyrir að líka væri hægt að taka þær alvarlega. Sem betur fer hefur maður (vonandi) eitthvað þroskast og er farinn að lesa meira heldur en bara það sem manni þótti fyndið í denn ;) Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!