6. júlí 2018

66. GÆTUM VIÐ FENGIÐ AÐ HEYRA EITTHVAÐ ÍSLENSKT

Viðfangsefnið í færslu dagsins er óneitanlega svolítið óvenjulegt. SVEPPAGREIFINN hefur svo sem áður fjallað um innihalds- og tilgangslítil efni í færslum sínum og það er ljóst, með þessari færslu hér, að sá fánýti fróðleikur SVEPPAGREIFANS er engan veginn á undanhaldi. Í þetta skipti er nefnilega ætlunin að rýna aðeins í þær myndasögur sem komið hafa út á íslensku og skoða hvernig þýðendur bókanna hafa heimfært söngtexta, sem birst hafa í sögunum, upp á íslenskan máta. Við fyrstu sýn hljómar það reyndar fremur langsótt og fljótt á litið er erfitt að ímynda sér að þar sé um mjög auðugan garð að gresja. En því er þó öðru nær. Í þessum myndasögum eru nefnilega fjölmörg dæmi um íslenska söng- og dægurlagatexta. Greinilegt að sögupersónum teiknimyndasagnanna er fleira til lista lagt en að berjast við bófa, glæpamenn og önnur dusilmenni. Og það er einnig augljóst, ef marka má hið fjölbreytilega textaúrval, að þýðendur bókanna hafa haft ríkt hugmyndaflug við að heimfæra þá upp á íslensku. Flestir aðdáenda þessa bóka kannast auðvitað við helstu söngfugla myndasagnanna. Vaíla Veinólínó kemur fyrst upp í hugann en í fljótu bragði má einnig nefna þá Óðrík, Hagbarð (úr bókunum um Hinrik og Hagbarð) og Lukku Láka sem jafnan endar ævintýri sín á sólarlagssöngnum sínum. Ekkert þeirra hefur þó verið að syngja þekkt íslensk dægurlög. Við lauslega talningu virðist sem að hátt í 50 dægurlagatexta megi finna í þessum teiknimyndasögum hið minnsta. Um að gera að kíkja á eitthvað af þessu.

Síðastliðinn vetur fjallaði SVEPPAGREIFINN einmitt um efni sem tengist þessu viðfangsefni en Sval og Val bókin Neyðarkall frá Bretzelborg, sem gefin var út hjá Iðunni árið 1982, hefst nefnilega með þessari mynd. Um það allt saman má lesa hérÞarna "hljómar" byrjunin á Litlu flugunni eftir Sigfús Halldórsson og Gormur heldur fyrir eyrun.
Dæmin eru fjölmörg og það er ekki ætlun SVEPPAGREIFANS að gera neina tæmandi úttekt á þessu skemmtilega efni. Til þess þyrfti töluvert meira pláss en svo að það rúmist í einni eðlilegri færslu. En það væri gaman að týna til það helsta. Og það er vel við hæfi að byrja einmitt þessa samantekt á öðru lagi eftir Sigfús Halldórsson. Í Tinna bókinni Skurðgoðið með skarð í eyra má, strax á fyrstu blaðsíðu, sjá starfsmann Þjóðfræðisafnsins syngja hástöfum línur úr lagi laginu Tondeleyó eftir Fúsa við texta borgarskáldsins Tómasar Guðmundssonar. Sagan endar reyndar einnig með sama hætti þar sem safnvörðurinn söngglaði er enn að kyrja sama lagið. Þýðanda bókarinnar Lofti Guðmundssyni (með diggri aðstoð Þorsteins Thorarensen) hefur þótt mest við hæfi að heimafæra textann "Toréador, en ga - a - a - arde! Toréador! Toréador!" osfrv. upp á "Tondeleyó! Tondeleyó!" Algjörlega frábær lausn hjá þeim félögum. 
Það er reyndar ekki hægt að finna mörg dæmi um íslenska dægurlagatexta í Tinna bókunum. Í þeim sögum heldur Vaíla Veinólínó helst upp heiðri hinna syngjandi stétta og boðar fagnaðarerindi sitt með frekar óþolandi óperusöng en aðrar sögupersónur fá lítið að njóta sín á söngsviðinu. Í bókinni Vindlar Faraós er þó undantekning frá því. Þar verður fornleifafræðingurinn, prófessor Fílímon Flanósa fyrir eiturör sem gerir hann brjálaðan og í kjölfarið fær hann þá undarlega þörf að þurfa helst að tjá sig í bundnu máli. Reyndar mest í ástarljóðum og sálmum. En þegar rithöfundurinn, herra Kúlúpennó verður fyrir samskonar eitrun (bls. 43) leiðist hann út á þá vafasömu braut að fara að syngja lagið Vakna Dísa með Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar (Steina spil) frá Selfossi. Þar fer ekkert á milli mála að örin er augljóslega baneitruð.
SVEPPAGREIFINN minntist aðeins á Sval og Val bókina Neyðarkall frá Bretzelborg í byrjun færslunnar og nefndi í því samhengi lagið Litlu fluguna. En það koma fyrir fleiri lög í þeirri bók. Söguþráð hennar þekkja líklega flestir en bókin hefst á því að Gormur gleypir lítið vasaútvarp og á fyrstu blaðsíðum sögunnar má fylgjast með ferðalagi hans um bæinn þar sem mörg mismunandi söng- og dægurlög óma úr nefi hans. Af nokkrum þeirra má til dæmis nefna Tvær úr Tungunum með Halla og Ladda, Af litlum neista með Pálma Gunnarssyni, Sandalar með Ladda og Brunaliðinu (það lag syngur líka sá brúnhærði á skrifstofunni í bókinni Hrakfarir og heimskupör) og að lokum lagið Heim í Búðardal með Ðe Lónlí blú bojs. Síðastnefnda lagið kemur einnig fyrir í Viggó bókinni Viggó bregður á leik á blaðsíðu 22. 
Myndasögurnar um Viggó viðutan, flestar í þýðingu Jóns Gunnarssonar og Bjarna Fr. Karlssonar, eru einmitt þær bækur sem oftast hafa að geyma dæmi um íslenska dægurlagatexta. Það er reyndar misjafnt hvernig söngvarnir koma fram. Í flestum tilfellum eru þeir sungnir af einhverjum sögupersónum bókanna og þá oftast af Viggó sjálfum en í nokkrum tilvika eru þeir einnig spilaðir af hljómplötum. Í Glennum og glappaskotum (bls. 18) má sjá staka mynd af Viggó þar sem hann hefur líklega verið hálfdottandi við hliðina á plötuspilaranum þegar hann áttar sig allt í einu á því að rispa á vínylnum er að trufla Gaggó Vest með Eiríki Haukssyni.
Plötuspilari kemur einnig fyrir í bókinni Viggó hinn óviðjafnanlegi en í því tilviki (bls. 42) hefur hann tekið að sér að lagfæra þetta dásamlega heimilistæki fyrir Hortensu frænku sína. Og á meðan þarf hann auðvitað keyra græjuna í botn með tónlist af mismunandi áhugaverðum vínylplötum. Þar má meðal annars finna lag eins og Ég er kominn heim (Hér stóð bær) sem varð fyrst frægt í flutningi Hauks Morthens en í Viggó bókinni er þýðandinn Jón Gunnarsson líklega innblásinn af útgáfu Lummanna sem kom út á svipuðum tíma og bókin.
Annars er Haukur Morthens nokkuð vinsæll hjá Viggó því að í bókinni Viggó hinn ósigrandi (bls. 4) finnst honum viðeigandi að kyrja lagið Sextán tonn á meðan hann erfiðar við hina óvenjulegu iðju skápamokstur.
Ansi mörg íslensk dægurlög koma við sögu Viggó bókanna. Úr bókinni Hrakfarir og heimskupör er hægt að nefna Gvend á framköllunardeildinni syngja Tunglið, tunglið taktu mig, sem líklega er þekktast í flutningi Diddúar og Ljósanna í Bænum, í bókinni Viggó bregður á leik (bls. 41) fara þeir Valur og Viggó báðir með þuluna Stebbi stóð á ströndu (sem hljómsveitin Haukar gerði vinsælt lag við), Viggó syngur lag Ómars Ragnarssonar Sumar og sól í bókinni Glennur og glappaskot (bls. 47) og í Vandræðum og veisluspjöllum (bls. 4) kyrjar hann Horfðu til himins með hljómsveitinni Nýdönsk.
Í síðastnefndu bókinni (bls. 27) má einnig sjá hvar Viggó syngur lagið Er nauðsynlegt að skjóta þá  með Bubba Morthens. Sami brandari birtist hins vegar líka í bókinni Skyssur og skammarstrik (bls. 33) en þar er hann með öðrum söngtexta. Þrátt fyrir töluverða eftirgrennslan hefur SVEPPAGREIFANUM ekki enn tekist að finna uppruna þess texta.
En nóg af Viggó og vippum okkur núna augnablik aftur yfir í Sval og Val. Í bókinni Með kveðju frá Z (bls. 18) söngla þeir Sveppaborgarfélagarnir, bæjarróninn herra Þamban og herra Dýrfjörð (það er sá sem lendir alltaf í vandræðum með bílana sína) saman lag sem Skagakvartettinn söng meðal annars inn á hljómplötu fyrir mörgum, mörgum árum.
Og svo má ekki gleyma sjálfum Sveppagreifanum. Í sögunni Svamlað í söltum sjó (bls. 10) syngur hann hástöfum gamla slagarann Sigling (Hafið, bláa hafið) eftir að hafa fengið sér góðan skammt af X4 líkjörnum sínum áhrifaríka. Sá drykkur skerpir aldeilis á heilafrumum þess sem dreypir á en hin snarhífandi aukaáhrif líkjörsins vara þó aðeins strax í byrjun. Það var einmitt á því augnabliki sem Sveppagreifinn brast í söng og leyfði lesendum bókanna um Sval og Val að kynnast þessari nýju hlið á sér.
Lukku Láka bækurnar hafa einnig upp á ýmislegt að bjóða. Þar er reyndar ekki jafn mikið úrval af dægurlagatextum í boði heldur er þar meira um söng-, þjóðlaga- eða jafnvel sálmatexta að ræða. Enda kannski ekki eðlilegt að bjóða upp á 20. aldar dægurlagatexta í villta vestrinu. Sálmurinn um blómið eftir Hallgrím Pétursson kemur fyrir í bókinni Einhenta bandíttinn (bls. 45) og það er líklega vel viðeigandi að útfarastjóri söngli ljóðið.
Og meira um kvæðagerð gömlu meistaranna úr Lukku Láka bókunum. Afar rómantískur trúbador (einhverjir vilja meina að þetta sé André Franquin), með tveggja strengja kassagítar, kemur sér vel fyrir uppi á stigapalli í Lukku Láka bókinni Á meðal dóna og róna í Arisóna (bls. 11) og sönglar vögguljóðið Bí bí og blaka
Í Lukku Láka bókinni Sara Beinharða (stórfengleg þýðing á Sarah Bernhardt) má sjá hina guðdómlegu frönsku leikkonu fara með hinar ýmsu textahendingar á hádramatískan hátt. En það er hins vegar matreiðslumaður hennar sem stelur senunni (bls. 12) á söngsviðinu með gamla leirburðinum Rúgbrauð með rjóma á.
Líkt og Heim í Búðardal kemur Rúgbrauð með rjóma á kemur fyrir í fleiri en einni myndasögu. Í bókinni Hin fjögur fræknu og Búkolla (bls. 36) kyrjar hinn matarþurfi Búffi nefnilega þennan sama söng. 
Og að lokum má nefna bókina Harðjaxlar í hættuför (bls. 25) með Samma og félögum en þar kyrjar einn af glæpamönnum bókarinnar hinn undursamlega Sjómannavals. Lagið er líklega þekktast í flutningi Þorvaldar Halldórssonar með Hljómsveit Ingimars Eydal en í seinni tíð er það helst frábær útgáfa hljómsveitarinnar Hjaltalín sem fólk þekkir og notuð var á ákaflega dramatískri auglýsingu með verðsamráðsfyrirtækinu Eimspik.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!