12. júlí 2018

67. UNGFRÚIN JÓKA OG VIGGÓ Í NÝJU LJÓSI

Það er kannski rétt, svona í byrjun þessarar færslu, að vara þá við fyrirfram sem kynnu að vera eitthvað viðkvæmir fyrir svolítið nöktu fólki. SVEPPAGREIFINN hefur svo sem ekkert verið að skilgreina þessa síðu sína fyrir neina sérstaka markhópa en hann á ekki von á því að margir undir 18 ára aldri séu að villast hérna inn. En alla vega ... ef einhverjir slíkir, sem og viðkvæmir eða hneykslunargjarnir, eru að skoða Hrakfarir og heimskupör þá er búið að vara þá við.
Teiknimyndasögurnar um Viggó viðutan eru gríðarlega vinsælar og að mati SVEPPAGREIFANS líklega eitthvert allra skemmtilegasta efnið sem belgísk/franska myndasöguflóran gaf af sér. Það er ekki síst að þakka höfundinum, listamanninum frábæra, André Franquin. Þessar myndasögur skiluðu af sér ógrynni frábærra aukapersóna og SVEPPAGREIFINN fjallaði meira að segja um eina þeirra, herra Seðlan, fyrir ekki svo löngu síðan. Franquin var algjör snillingur í að skapa persónur með karaktereinkenni sem lesandinn átti auðvelt með að muna eftir. Ein þessara aukapersóna stendur aðalsöguhetjunni, Viggó sjálfum, nær en nokkur annar. Þar er að sjálfsögðu um að ræða hina aðdáunarfullu, óbilandi trúföstu, meðvirku og hrekklausu ungfrú Jóku. En eins og langflestar persónur bókanna um Viggó viðutan starfar ungfrú Jóka á tímaritinu SVAL en hefur auk þess, í tímans rás, smám saman orðið að unnustu aðalpersónunnar.
Ungfrú Jóka kom fyrst fyrir í Viggó brandara númer 224, í SPIROU blaði númer 1283, sem kom út þann 15. nóvember árið 1962. Á þeim tíma var Franquin búinn að þróa þann ákveðna kjarna starfsmanna skrifstofunnar sem starfaði hjá tímaritinu SVAL og einhverjar hinna kvenpersónanna í brandaranum höfðu birst áður. Þennan brandara teiknaði Franquin er hápunktur ferils hans var að nálgast og stíllega hafði Valur til dæmis þá þegar fengið sitt endanlega útlit. Útlit ungfrú Jóku átti hins vegar eftir að þróast töluvert næstu árin og ekki síður hlutverk hennar í myndasögunum. Margir þekkja væntanlega þennan brandara en í íslensku útgáfunum kemur hann fyrir á blaðsíðu 24 í bókinni Gengið af göflunum sem kom út hjá Froski útgáfu árið 2015.
Ungfrú Jóka þótti reyndar ekki mjög aðlaðandi í fyrstu og einnig vildu margir (þar á meðal Franquin sjálfur) meina að hún hefði jafnvel á einhvern hátt verið óþolandi. Hún var kannski ekki ófríð en ástæða þess að Franquin ákvað að hafa hana bæði rauðhærða, með gleraugu og auk þess frekar ólögulega í vextinum, var væntanlega sú að hún myndi henta brandaranum betur. Í honum valsar Viggó um ritstjórnarskrifstofuna og leitar að hentugri stúlku til að deila með hestabúningi sínum. Það eitt hljómar reyndar svolítið afbrigðilega en er reyndar fullkomlega eðlilegt þegar tillit er tekið til afreka aðalsöguhetjunnar hjá tímaritinu SVAL og í rauninni allt sem þar fer fram. Og það er ekki fyrr en ungfrú Jóka birtist sem það hýrnar yfir honum og hún hentar brandaranum ágætlega. Líklega var því ekki endilega gert ráð fyrir að hún ætti eftir að fá stærra hlutverk í seríunni.
Sjálfsagt tók það Franquin einhvern tíma að átta sig á möguleikunum með persónuna og líklega var hún upphaflega ekki hugsuð sem unnusta Viggós. En það kom tiltölulega fljótlega fram að einhverjar tilfinningar bæri hún til hans sem síðan þróuðust með tímanum í að því er virðist gagnkvæma ást. Á sama tíma breyttist hún líka í útliti og smám saman, og áður en lesendur áttuðu sig almennilega á, var hún orðin að aðlaðandi (kvenlegri en áður) kynveru. SVEPPAGREIFINN hefur jafnvel rekist á pervertskar athugasemdir netverja á erlendum spjallsíðum sem hafa játað ást sína á henni á einhvern hátt. Í bókunum virðist þó aldrei sem að um raunverulegt ástarsamband á milli þeirra sé að ræða og oftar en ekki hefur verið talað um platónska ást þeirra á milli.
Sem fyrr segir mátti fljótlega skynja einhvers konar tilfinningar sem túlka mættu sem aðdáun hennar til Viggós. Líklega áttu þær tilfinningar þó fremur að sýna karakter hennar almennt en þær einkenndust jafnan af óframfærni og feimni. Í fyrstu birtist ungfrú Jóka nefnilega ekki í myndasögunum öðruvísi en roðnandi og taugaveiklislega tvístígandi. Snemma breyttist það þó í augljósa ást hennar til Viggós og fljótlega þróast það út í að hún sér ekki sólina fyrir honum. Hún ver allar hans gjörðir og afglöp og fer engan veginn leynt með aðdáun sína og þá endalausu trú sem hún hefur á hæfileikum hans.
Viggó sjálfur er hins vegar öllu hægverskari í aðgerðum sínum gagnvart Jóku og ber ekki tilfinningar sínar jafn vel á borð og hún. Hans sjáanlega framlag til sambandsins byggist meira á vingjarnlegum stuðningi og smjaðri. En lesendur geta þó fylgst með innstu hugarheimum Viggós þegar draumaveröld hans nær yfirhöndinni á góðum hvíldarstundum. Í bókinni Viggó hinn ósigrandi (á blaðsíðu 38, 39 og 42) má til dæmis sjá hvernig aðalsöguhetjan bjargar draumadrottningunni Jóku úr bráðum skipsskaða, berst við hákarla henni til varnar og þau eyða að lokum saman rómantískum stundum á eyðieyju.
Í seinni tíð eru þau reyndar orðin heldur nánari en þó aldrei þannig að einhver áberandi kynferðisleg spenna sé á milli þeirra. Enda hefði slíkt aldrei þótt viðeigandi í þeim teiknimyndasögum sem voru ætlaðar börnum og komu frá belgísk/franska málsvæðinu. Auðvitað voru gefnar út eitthvað af myndasögum á þeim tíma sem höfðu að geyma erótískan boðskap en markhópurinn fyrir þær sögur voru eingöngu fullorðið fólk. Í bókum Franquins var aldrei um neitt slíkt að ræða. Í dag er ungfrú Jóka það mikilvægur hluti af Viggó og bókunum um hann að meira að segja hefur verið gefin hefur verið út sérstök útgáfa, L'amour de Lagaffe, með úrvali brandara með þeim skötuhjúunum.
En í lok ársins 2008 breyttist allt. Á síðasta degi ársins birtist í franska tímaritinu Siné Hebdo óvænt og djörf síða af ansi kunnuglegu fólki í afskaplega framandi aðstæðum. Þarna var um að ræða samtals sjö litlar myndir eða skissur af þeim turtildúfunum Viggó og ungfrú Jóku þar sem þau sjást í ýmsum vafasömum eða öllu heldur fremur óhefðbundum athöfnum. Alla vega óhefðbundnum ef allt eðlilegt mið er tekið af teiknimyndasögum um Viggó viðutan. Og neðst á síðunni mátti meira að segja sjá nafn Franquins skrifað undir með hans eigin rithönd. Eftir þessa nýju og óvæntu sýn á uppáhalds teiknimyndapersónu tugþúsunda aðdáenda um alla Evrópu varð heimurinn aldrei samur aftur.
Sagan segir frá því að Loup nokkur hafi boðið tímaritinu afrit af þessari einstöku pappírsörk til birtingar. Örkinni hafi honum áskotnast seint á 8. áratug síðustu aldar (þá væntanlega í kringum árið 1978) og Siné Hebdo birti hana síðan í 17. tölublaði sínu þann 31. desember árið 2008. Ekki er reyndar alveg staðfest um hvaða Loup var að ræða en líklega er þarna verið að tala um franska listamanninn og myndasögufræðinginn Jean-Jacques Loup. En hann var helst þekktur fyrir flóknar og skemmtilegar myndir sem helst mætti líkja við teikningar argentínska listamannsins Mordillo. Jean-Jacques Loup starfaði sjálfur eitthvað fyrir tímaritið Siné Hebdo en margir kannast eflaust við vinsælar teikningar hans sem til dæmis má finna á púsluspilum og fást meðal annars hér á landi. Siné Hebdo varð reyndar ekki langlíft blað og varð gjaldþrota stuttu seinna en Jean-Jacques Loup, sem fæddist árið 1936, lést árið 2015.

Þetta einstæða verk er í formi pappírsarkar (líklega í stærð A3) en efst á því mátti lesa þennan handskrifaða texta eftir Loup. Eða ... reyndar má reikna með að Loup hafi nú ekki tekið upp á því að skrifa hann beint á hið verðmæta blað, heldur hafi það verið fótósjoppað inn á myndina í tímaritinu, en skilaboð hans litu alla vega svona út.
En í megindráttum er íslenska þýðingin á textanum eftirfarandi:
Fyrir 30 árum fékk ég að gista hjá Franquin í Brussel. Á teikniborðinu hans lágu þessar undraverðu skissur en ég féll fyrir þeim og sagði það við hann. Og nokkrum dögum síðar, í París, kom hann með þær til mín og sagði glettinn við mig, "Ég merkti þér þær, vegna þess að það kæmi mér á óvart ef þær yrðu einhvern tímann gefnar út." Sá dagur er kominn og þessari sérstöku gjöf deili ég nú með ykkur ...                                                                                                                                                                  Loup
Ekki eru allir á eitt sáttir um uppruna plaggsins og blendnar skoðanir eru um það bæði á meðal áhugamanna og sérfræðinga. Einhverjir þeirra vilja meina að um fölsun sé að ræða og hefur nafn franska listamannsins Roger Brunel meðal annars verið nefnt í því tilliti. Hann er kunnur fyrir hæfileika sína við að líkja eftir teiknistílum þekktra listamanna (meðal annars Franquins) en hefur auk þess líka verið duglegur við að blanda svolítilli erótík inn í þau verk. Eftir að hafa þannig rýnt eilítið í myndir af bæði Viggó og ungfrú Jóku, sem Roger Brunel hefur gert, virðist þó lítið til þeirra koma í samanburði við verk Franquins. Hann nær svo sem að elta eitthvað eða afrita stíl hans á einhvern hátt en það vantar þó alla mýkt og tilfinningar í myndir Brunels. 
Flestir þeirra sérfræðinga sem rýnt hafa í myndirnar, og borið saman við aðrar upprunalega skissur eftir Franquin, telja sig geta greint hinar næmu tilfinningar í teikningum listamannsins og líta svo á að skissurnar séu ófalsaðar. Þá hafa einhverjir rithandasérfræðingar gert rannsóknir á eiginhandarárituninni á örkinni og telja hana eftir Franquin.
Það hefur svo sem komið fram hér áður á síðunni að SVEPPAGREIFINN sé enginn sérfræðingur um teiknistíla gömlu myndasögumeistaranna en það verður að viðurkennast að óneitanlega bera skissurnar sterkan keim af stíl þessa frábæra listamanns. Og hver sem sannleikurinn er um uppruna þessara skissa þá gefa þær í það minnsta algjörlega nýja sýn á þessar frábæru teiknimyndasögur og fæstir munu líklega sjá þau Viggó viðutan og ungfrú Jóku aftur í sama ljósi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!