17. ágúst 2018

72. DÆMI UM HEIMSKU DALTÓN BRÆÐRA

Sögurnar um Lukku Láka eru í töluverðu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM og þar er húmor bókanna oftar en ekki ástæðan. Grínið laðar og yfirdrifin heimska sumra persónanna dregur sjaldnast eitthvað úr gæðum myndasagnanna. Síður en svo. Þannig er alltaf svolítið tilhneiging þeirra höfunda, sem semja handrit teiknimyndasagna, að gera bæði löggur og glæpamenn að helstu persónugervingum heimskunnar. Hinn hæfileikaríki handritshöfundur Lukku Láka bókanna, René Goscinny, var einmitt duglegur við það að gera vondu kallana í sögum sínum einfalda og vitgranna en listamaðurinn Morris sá um að gæða myndmálinu lífi. Goscinny sá einnig um handritsgerð Ástríks bókanna og í þeim sögum voru það til dæmis Rómverjarnir sem dæmdust til þeirra örlaga að feta slóðir heimskugyðjunnar. Reyndar lét Goscinny löggur eða skerfara Lukku Láka bókanna að mestu óáreitta en hins vegar áttu sumir aðrir myndasöguhöfundar erfitt með sig um löggæslustéttina, sem margir hverjir fá rækilega á baukinn. Skaftarnir í Tinna bókunum, Loftur og Lárus í Hinum 4 fræknu, lögregluþjónn nr. 15 í Palla og Togga og Njörður í bókunum um Viggó viðutan eru ágæt dæmi um það. En viðfangsefni SVEPPAGREIFANS að þessu sinni er einmitt tengt hinu fræga glæpagengi úr Lukku láka bókunum, Daldónunum, og það verður að segjast eins og er að fáir standast þeim bræðrum snúning í heimskubransanum. 
Sögurnar um Lukku Láka voru reyndar upphaflega aðeins sköpunarverk Morris en René Goscinny hóf störf sín við handritsgerð sagnanna í 9. bókinni, Des rails sur la Prairie, sem kom út árið 1957 og við Íslendingar þekkjum sem söguna um Þverálfujárnbrautina (1981). Goscinny tók fljótlega þann kostinn að auðga Lukku Láka sögurnar raunverulegum persónum úr mannkynssögunni en í þeim hópi mátti meðal annars finna alvöru skúrka eins og Billy the kid (Billa barnunga), Jesse James (Jessi Jamm og Jæja), Roy Bean (Hrói grænbaun sem var kannski ekki beint skúrkur) og að sjálfsögðu áðurnefnda Daltón bræður. Reyndar hafði Morris þá þegar samið eina sögu um Daldóna árið 1954 sem nefndist Hors la loi (Eldri Daldónar - 1982) en sú saga fjallaði einmitt um hina raunverulegu Daltón bræður - þ.e. hina eldri. Sögur Goscinnys fjölluðu hins vegar allar um meinta frændur þeirra sem áttu enga ósk heitari en að feta í fótspor hinna eldri í glæpamennskunni. Daltón bræður hinir yngri, sem við þekkjum sem Jobba, Vibba, Kobba og Ibba, stigu hins vegar ekki beint í vitið.
Í bókunum um Lukku Láka má finna fjölmörg dæmi þar sem þeir félagar Morris og Goscinny hafa leikið sér með hið takmarkaða gáfnafar Daltón bræðra og oftast nær er það sá stærsti Ibbi sem fær helst að finna fyrir því með greindarskorti sínum. En svo er þó ekki í einum brandaranum úr bókinni Fjársjóður Daldóna, sem SVEPPAGREIFINN ætlar að henda upp hér, en sá er í alveg sérstöku uppáhaldi hjá honum.

Forsagan að þessu atviki er sú þeir bræður fá vitneskju (falska að vísu) um það að fjársjóður nokkur sé falinn undir stóru furutré sem gróðursett hafði verið á hinni nafntoguðu Rauðhálsahæð. Sá galli er reyndar á gjöf Njarðar að furan góða á Rauðhálsahæð er innan múra rammgerðs og heimsfrægs fangelsis sem einmitt er staðsett á áðurnefndri hæð. Því grípa Daldónar til þess "óbrigðula ráðs" að brjóta af sér til að reyna að fá hinn illræmda og miskunarlausa Oddgeir dómara til að stinga þeim í steininn. Og auðvitað mistekst það.
Í örvæntingafullri viðleitni sinni við að brjóta lögin tekst þeim bræðrum að setja Rauðhálsalestina út af sporinu og telja sig þar með eiga greiða leið inn í fangelsið í boði Oddeirs dómara. Sú ráðagerð heppnast hins vegar ekki en hinir stórhættulegu og eftirlýstu glæpamenn, Brælufeðgar, voru hins vegar farþegar í lestinni og voru ekki alls kostar sáttir við þetta uppátæki þeirra Daldóna að setja lestina á hliðina. Með samblandi af ofbeldi og ofurlítilli hugkænsku, auk pirrings lituðum af illgirni, rota þeir Brælufeðgar Daltón bræður í hefndarskyni rétt áður en Oddgeir dómari tekur þá í sína vörslu. Þrír elstu Daldónanna rakna fljótlega til meðvitundar eftir höfuðhöggin en Ibbi greyið liggur áfram steinrotaður. Vibbi og Kobbi grípa því til þess ráðs að færa hann að skuggsælum stað, undir tré í grenndinni, til að hlífa honum við brennheitri sólinni.
Og þótt Jobbi sé hvorki þekktur fyrir gáfur né umhyggju gagnvart Ibba bróður sínum þá kemur á óvart þegar hann hefur rænu á að ávíta Vibba og Kobba fyrir að færa Ibba af slysstað. Kobbi segir honum hins vegar að slaka á og eðlilega flytja þeir Vibbi hann bara aftur á slysstað.
En ekki hvað?

5 ummæli:

  1. Stundum heyrir maður að allar Lukku-Láka bækurnar sem komu út eftir dauða Goscinny séu lélegar, en það finnst mér orðum aukið, eins og þessi bók er gott dæmi um. Það var mikill metnaður að halda áfram að gera vel, Morris var á hátindi teikniferilsins og bækurnar með best seldu myndasögum álfunnar. Það má alveg segja að gullaldartímabilið hafi varað fram á níunda áratuginn. Fyrsta virkilega lélega bókin kom út árið 1986.

    SvaraEyða
  2. Já, það virðist hafa verið einhver mýta í gangi um að allt hafi hrunið þegar Goscinny lést en svo var þó alls ekki. Heilt yfir voru flestar af sögunum sem komu næstu árin alveg ágætar en auðvitað líka aðrar síðri. Líklega hefði þróunin orðið eitthvað svipuð með Goscinny þrátt fyrir að hann hefði fengið nokkur ár í viðbót blessaður. En það er rétt hjá þér, sögurnar sem komu á seinni hluta níunda áratugarins fóru að verða þreyttari og svo fór þeim virkilega hnignandi. Og eftir að Morris lést lítur maður ekki einu sinni á þetta sem sömu sögurnar.

    SvaraEyða
  3. Áhugavert að velta fyrir sér áliti á þessum bókum. Ég heyrði þetta bara nýlega að bækurnar eftir lát Goscinnys væru taldar í lakari kantinum. Fór og kíkti á https://www.bedetheque.com/ og skoðaði einkunnir sem notendur þar gefa bókunum. Þær endurspegla þetta, í það minnsta eru bækurnar frá 6-46 með bestu einkunnir heilt yfir, en það sem mér finnst fróðlegast er að bækurnar eftir Adché (sem tók við sem handritshöfundur eftir að Morris lést) fá heldur betri einkunnir en þær sem Morris samdi eftir lát Goscinnys.

    SvaraEyða
  4. Ég hef lesið flestar bækurnar hans Achde og finnst þær æði misjafnar. Hann hefur reyndar verið með nokkra handritshöfunda með sér eins og Morris. Best finnst mér bókin sem kom út í hitteðfyrra. En það er líklega rétt að þær eru ívið skárri en þessar síðustu sem Morris sendi frá sér. Ætli það sé ekki erfiðara að halda þessari seríu úti en mörgum öðrum sem eru ekki eins bundnar af forminu. Lukku-Láka bók verður alltaf að gerast í Villta vestrinu ca 1860-1900.

    SvaraEyða
  5. Ég á reyndar ekki nema eina eða tvær af bókunum eftir Achde og hef bara lítillega gluggað í þær. Get því svo sem ekkert dæmt almennilega um gæði þeirra sagna en hins vegar er ég ekki hrifinn af teiknistílnum.
    Blómatímabil seríunnar er auðvitað klárlega á sjöunda og áttunda áratuginumá meðan þeirra Morris og Goscinny beggja naut við. En eins og Sverrir segir þá er líklega mjög erfitt að halda úti seríu með svo takmörkuðum tímaramma. Efnið hlýtur að þynnast með tímanum auk þess sem kröfur lesenda minnka ekki.

    SvaraEyða

Út með sprokið!