19. október 2018

81. HIN MÖRGU ANDLIT HERRA SEÐLANS

Herra Seðlan, úr bókunum um Viggó viðutan, er SVEPPAGREIFANUM alveg sérstaklega hugleikinn. Hann á reyndar höfundi sínum André Franquin mikið að þakka en listamaðurinn var einstaklega frjór við að draga fram sterk karaktereinkenni hjá mörgum af þeim teiknimyndapersónum sem hann skapaði. Útlit herra Seðlans er algjörlega sniðið fyrir persónuna og þó höfundur hans hafi skapað manninn upp úr engu þá má auðveldlega sjá hann fyrir sér sem alvöru, líkamlega manneskju. Þó maður þekki kannski ekki nákvæmlega þá týpu sem herra Seðlan er þá veit maður samt, eða trúir alveg, að hann sé til. Í augum SVEPPAGREIFANS er karakter hans einstakur. Um herra Seðlan má lesa í þessari færslu hérna.
Heilt yfir er herra Seðlan líklega fremur dagfarsprúður maður sem þó á í einhverjum erfiðleikum með skapsveiflur sínar. Þessi geðrænu vandamál hans koma gjarnan fram í gríðarlegum reiðiköstum sem Franquin tekst með sínum einstöku hæfileikum að láta líta einkar sannfærandi út. Reyndar fáum við lesendur Viggó bókanna sjaldan að kynnast því hvort þessi vandamál hans komi fram á öðrum vettvangi en bara í heimsóknum hans á ritstjórnarskrifstofu SVALS en sína helstu útrás virðist hann fá þar. Í þessari afar myndrænu færslu er því ætlunin að skoða og rýna aðeins í nokkur af hinum fjölbreytilegu svipbrigðum herra Seðlans og skemmta sér aðeins við þessi einstöku listaverk í aðeins meiri nánd eða návígi. En það er kannski best að byrja á því að sjá hvernig maðurinn lítur út svona dags daglega í sínu eðlilega og náttúrulega umhverfi.
Þarna virkar herra Seðlan sem ósköp venjulegur og vinalegur kall. SVEPPAGREIFINN er jafnvel ekki frá því að hann minni eilítið á Pétur Thorsteinsson sendiherra sem var í framboði fyrir forsetakosningarnar árið 1980. Sá var reyndar, ef eitthvað er, heldur fýlulegri á svip en ekki minnist SVEPPAGREIFINN þess þó að Pétur hafi átt við nein skapofsavandamál að etja. Blessuð sé minning hans. En eins og áður segir þá glímir herra Seðlan við skapgerðarbresti sem lýsa sér helst þannig að hann snöggreiðist, blæs og hvæsir út í loftið, gnístir tönnum og á augabragði skiptir afmyndað andlit hans um lit. Og þar kemur rauði liturinn oftar en ekki til sögunnar.
Í beinu framhaldi af því er ekki úr vegi að skoða aðeins fleiri myndir af andlitum herra Seðlans þar sem hinn áðurnefndi rauður litur kemur einnig við sögu. Á blaðsíðu 10 í hinni nafntoguðu Viggó bók Hrakfarir og heimskupör (Iðunn - 1979) er frábær brandari sem margir muna eftir. Hann byrjar frekar meinleysislega þegar herra Seðlan kemur inn á ritstjórnarskrifstofuna í hádegishléinu en þar er engin við nema Viggó - sem bíður kaupsýslumanninum upp á kaffibolla á meðan hann bíður eftir Eyjólfi. Herra Seðlan þiggur bollann, sem er reyndar í sterkara lagi, með þeim afleiðingum að kallinn spennist allur upp líkamlega, missir alla stjórn á útlimum sínum og andlit hans verður eldrautt. Á myndaröð Franquins af atvikinu, sem má sjá hér fyrir neðan, sést hvar fimm mismunandi og sterk svipbrigði herra Seðlans raðast upp á fimm mismunandi myndum. Allt þetta gerist einungis vegna hins óvenjusterka kaffibolla.
En andlit herra Seðlans getur sýnt fleiri tilfinningaútfærslur en bara þessar rauðþrútnu sem koma reyndar oftar en ekki fyrir í bröndurum Viggó bókanna. Margar þeirra eru að vísu tengdar skapbresti hans og reiðiköstum en þó alls ekki allar. Herra Seðlan á nefnilega líka sínar mýkri hliðar. Einstaka sinnum er hægt að sjá tilfinningar hjá honum sem sýna fallega, einlæga og fölskvalausa gleði eða jafnvel allt að því hamingju og þar virkar hann sem hinn vænsti kall.
Helsta hlutverk herra Seðlans í bókunum um Viggó viðutan gengur auðvitað út á að verða fyrir barðinu á Viggó. Við þekkjum hvernig herra Seðlan á reglulega erindi á skrifstofu SVALS með samningana alræmdu og áralöng reynsla hans af athöfnum Viggós ætti að vera honum orðin löngu kunn. En þrátt fyrir að vera stöðugt með varann á sér þá tekst honum einhvern veginn alltaf að láta aðstæðurnar koma sér í opna skjöldu. Við þau tækifæri má sjá andlit hans sýna ýmis margvísleg svipbrigði í hita augnabliksins og herra Seðlan virðist því alltaf geta látið koma sér að óvörum. Hér eru nokkur dæmi um það.
Og svo eru það þessi smáatriði í teikningum Franquins sem er ekki alltaf auðvelt að átta sig á nema með því að fara að rýna í teikningarnar hans. Flestir geta séð fyrir sér andlit herra Seðlans í heild sinni en átta sig samt ekki allir á því að kallinn er með yfirvaraskegg. Margir hafa eflaust alltaf vitað af því en samt aldrei skoðað það nægilega vel til að sjá hversu rytjulegt það er. Herra Seðlan er frekar stórvaxinn á ýmsa vegu en eitthvað hefur þó almættið verið nískt á skeggvöxt hans. Þarna eru í rauninni ekki að finna nema örfá strá.
Og svona til að enda þessa færslu er tilvalið að kíkja á eins og eitt stykki af myndbandi. Það er fyrir þá sem hafa ekkert annað við tímann að gera. Á þessu myndbandi má finna um það bil 70 mismunandi útfærslur af svipbrigðum herra Seðlans á 22 sekúndum og það eru engin verðlaun í boði fyrir að nenna að horfa á það.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!