26. október 2018

82. ÚR PLÖTUSKÁPNUM

SVEPPAGREIFINN hefur löngum þurft að ergja sig á þeirri undarlegu tilhneigingu útgefenda myndasagna að hafa þörf á því að láta lesendur vita hvernig bækurnar þeirra hljóma. Nákvæmlega! Teiknimyndasögur sem hægt er að hlusta á. Við fyrstu sýn hljómar þetta nefnilega ansi framandi en er þó alls ekki óþekkt. Nú minnist SVEPPAGREIFINN þess reyndar ekki að hafa séð til dæmis Tinna bækurnar gefnar út á íslensku á hljóðbók en víða erlendis tíðkaðist það alla vega áður fyrr að teiknimyndasögur voru gefnar út á hljómplötum. Fyrstu kynni SVEPPAGREIFANS af slíkum óskapnaði komu honum svo í opna skjöldu að hann hafði ekki einu sinni rænu á að spila ósköpin. Fyrir mörgum árum hafði honum þá áskotnast góður kassi af einhverjum 150 vínylplötum þar sem kenna mátti ýmissa skemmtilegra grasa. Inn á milli Bítlanna, Simon og Garfunkel, Moody blues og Supertramp mátti finna þennan einkennilega grip.
Þarna var sem sagt um að ræða sænska LP hljómplötu með Tinna sögunni Kolafarminum (Koks i lasten) frá árinu 1982 og innihald hennar passaði engan veginn inn í vínylplötuhillur SVEPPAGREIFANS. Hann hirti það bitastæðasta úr plötukassanum og lét Tinna plötuna fara í bunka með öðrum óáhugaverðum vínyl sem hann losaði sig síðan við seinna á einu bretti ódýrt. Eitthvað var þó tilvist plötunnar lítillega velt fyrir sér áður en hún var látin fjúka og líklega hefði verið fróðlegt að henda henni á fóninn. En eins og áður segir reyndi aldrei á efni hennar því platan fór aldrei undir nálina. Sem líklega voru mistök. Eða ekki. Í það minnsta hefði það verið þess virði að eiga hana áfram til minja. Það væri fróðlegt að vita hvar blessuð platan er niðurkomin í dag og í hversu góðum höndum hún er. Tinna hljómplatan Koks i lasten fór því fyrir lítið en óneitanlega er eftirsjá af henni. En fyrir ekki svo löngu rifjaðist þessi hljómplata upp fyrir SVEPPAGREIFANUM og hann fór að velta fyrir sér tilurð hennar og því hvort að fleiri gripir úr seríunni hefðu verið aðgengilegir. Þessi eina saga innan úr seríunni um Tinna gaf nefnilega tilefni til að ætla að fleiri sögur en Koks i lasten hafi verið gefin út í plötuformi. Við nánari eftirgrennslan reyndist svo aldeilis vera því margar af Tinna bókunum höfðu verið gefnar út í Svíþjóð á þessu notalega formi. Og ekki bara það heldur voru þær líka gefnar út seinna á geisladiskum. Til marks um vinsældir Tinna á hljómplötum fékk Tinna platan Det hemliga vapnet (Leynivopnið) til að mynda gullplötu fyrir 50.000 seld eintök í Svíþjóð árið 1981. Augljóslega var því til markaður fyrir teiknimyndasögur á hljómplötum.
Áðurnefnd eftirgrennslan gróf reyndar ýmislegt fleira upp úr fortíðinni. Því svo virðist sem Tinna bækurnar hafi verið gefnar út á vínyl í nokkrum fleiri löndum. Í Danmörku voru til dæmis einar 14 Tinna sögur leiklesnar inn á plötur (og snældur) á árunum 1972-83 og auk þess, þar fyrir utan, ein jólaplata. SVEPPAGREIFANUM er reyndar ekki alveg ljóst hvers konar efni má finna á þeirri plötu en að sögn hljómar í lok plötunnar jólalag þar sem allar sögupersónurnar syngja saman hópsöng. Sá sem fór með hlutverk Tinna á öllum þessum hljómplötum hét Bob Goldenbaum og var lengi kunnur sem rödd Tinna í Danmörku en með hlutverk Kolbeins fór leikarinn Peter Kitter.
Og það þarf svo sem ekki að koma neitt á óvart að margar af þessum sögum voru líka gefnar út á vínyl (og snældum) í Belgíu og Frakklandi á sínum tíma og einnig voru þær endurútgefnar á geisladiskum þegar það form kom til sögunnar. Náungi að nafni Maurice Sarfati fór með hlutverk Tinna í þessum útgáfum en Kolbein kaftein lék Jacques Hilling ef einhvern fýsir að fá að vita það. Þá má ekki gleyma að auðvitað voru einnig gefnar út hljómplötur með tónlistinni úr þeim bíómyndum sem gerðar hafa verið með Tinna. Tintin et le mystère de la Toison d'orTintin et les oranges bleues, og teiknimyndin Tintin et le lac aux requins fengu til dæmis allar sína kvikmyndatónlist gefna út á vínyl. Þessar hljómplötur eru eftirsóttar af söfnurum og góð og vel með farin eintök fara kaupum og sölum, dýrum dómum, á sölu- og uppboðsvefum á Netinu. Enda er það svo að þessar plötur voru gefnar út sem barnaefni og þær því, oftar en ekki, spilaðar nánast í gegn. Sem gerir það að verkum að afar lítið er til af heillegum eintökum í dag og það sem til fellur er gríðarlega eftirsótt. Af öðrum löndum sem gáfu út Tinna á hljómplötum má nefna að einnig eru til hollenskar útgáfur af sögunum.
En það voru ekki bara myndasögurnar með Tinna sem gefnar voru út á vínylplötuforminu. Við þekkjum til dæmis Strumpana ágætlega en þeir eiga reyndar 60 ára afmæli um þessar mundir. Til er aragrúi hljómplatna með tónlist tengdum þessum bláu viðrinum og við íslenskir myndasögulesendur höfum ekki farið varhluta af þeim ósköpum. SVEPPAGREIFANUM er reyndar ekki kunnugt um hvort að á einhverjum af þeim vínylplötum sé leiklesið efni sambærilegu áðurnefndum Tinnabókum. Mest af því efni er væntanlega einhverjir strumpasöngvar. Magnið er í það minnsta gríðarlegt og einhvern veginn læðist sá grunur að SVEPPAGREIFANUM að ekki sé það nú allt höfundavarið efni. En Haraldur í Skrýplalandi kom fyrst til sögunnar hér á landi árið 1979 (um það má lesa hér) sem síðar breyttist í Harald í Strumpalandi og seinna tröllriðu þeir öllu með sínum undurfögru jólasöngvum sungnum með tvöföldum háskerpuhraðatón. Strumparnir voru einu myndasöguhetjurnar sem heimsóttu Ísland í formi vínylplatna. 
Af öðrum myndasöguhetjum, sem sést hafa á vínylplötuforminu, má til dæmis nefna hljómplötur með Hinrik og Hagbarði. Þar er mest um að ræða tónlist með þeim félögum og miðað við þá sönghæfileika sem Hagbarður hefur yfir að ráða, ef tekið er mið af teiknimyndasögunum sjálfum, þá ættu hlustendur ekki að eiga von á góðu. En svo er nú reyndar ekki. Söngvar þeirra Hinriks og Hagbarðs hljóma tiltölulega eðlilega (eða svona eins eðlilega og frönsk '80s barnatónlist hljómar) og þeir sem eiga þess heiðurs aðnjótandi að fá að hlusta á þessar plötur þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af varanlegum eyrnaskemmdum.
Og hér er jafnvel hægt að nálgast tóndæmi af plötunum með þeim félögum fyrir þá sem hafa á því áhuga en fyrir þá sem ekki hafa áhuga er best að sleppa því bara alveg að hlusta.
En það sem líklega kemur mest á óvart, í þessari samantekt um myndasögur á vínyl, er hversu stórtækur Lukku Láki er á þeim vettvangi og hversu víða hann hefur komið við. Þarna er reyndar um alls konar efni að ræða. Allt frá tónlist úr kvikmyndum um Láka (sem eru orðnar nokkuð margar), þáttaseríum allskonar, leiklestri og eiginlega allt þar á milli á mörgum ólíkum tungumálum. Sumar af þessum plötum eru með sama efninu en á mismunandi tungumálum og með ólíkar útfærslur af plötuumslaginu. Flestar af þeim eru líklega með tónlistina úr kvikmyndinni La Ballade des Dalton sem við Íslendingar þekkjum úr bókinni um Þjóðráð Lukku Láka. En plöturnar skipta tugum og sýnishornin hér fyrir neðan sýna aðeins brot af því efni sem hægt er að nálgast á vínylplötum með Lukku Láka.
Og að lokum eru það Ástríks plöturnar. Þar er einnig um nokkuð auðugan garð að gresja því sögurnar voru mjög vinsælar á þessu formi á áttunda áratug síðustu aldar. Sem dæmi má nefna að til eru í kringum 30 mismunandi vínylplötur með alls konar efni tengdum Ástríki bara á þýsku. Svipaða sögu má líka segja um belgísk/frönsku útgáfurnar.
Þessi sænska hljómplata SVEPPAGREIFANS, með leiklesnu sögunni um Kolafarminn, var því líklega ekkert sérstaklega merkileg þegar allt kemur til alls. Þessar plötur eru augljóslega til í hundraðatali og þó við Íslendingar höfum ekki haft mikið af þeim að segja þá er ekki sömu sögu hægt að segja um aðra íbúa álfunnar. Markaður fyrir slíka vitleysu er greinilega til og vinsældir þeirra voru augljóslega miklu meiri en hægt er að ímynda sér. Það breytir þó ekki skoðun SVEPPAGREIFANS um tilgangsleysi slíkra afurða. Í hans augum eru þessar plötur sambærilegar við það að reyna að horfa á útvarpsþátt. En þarna er að minnsta kosti kominn nýr möguleiki fyrir þá sem hafa söfnunaráráttu að áhuga(sumir kalla það vanda-)máli.

2 ummæli:

Út með sprokið!