7. júní 2019

114. HRAKFALLAFERÐ TIL LEGOBORGAR

Það er ýmislegt tilgangslaust sem fólk finnur sér til dundurs í frítíma sínum og í þess háttar tilfellum vilja menn (oft á tíðum afbrýðisamir) meina að viðkomandi hafi of mikinn tíma til ráðstöfunar. SVEPPAGREIFINN er reyndar ekki alveg sammála þeirri fullyrðingu og vill frekar meina að frjótt ímyndunarafl sé betri skilgreining á fyrirbærinu. Það hefur enginn OF mikinn tíma og allra síst fyrir sjálfa sig eða sína nánustu. Flestir eru hins vegar OF duglegir að eyða tíma sínum í vinnu. Í frítíma sínum á fólk hins vegar að gera það sem það langar en reyndar getur verið misjafnt hversu mikinn tilgang aðrir sjá í gerðum þess. Það skal alveg viðurkennt að SVEPPAGREIFINN á það til að detta svolítið í þá tegund af sköpunargleði og þessi ódýra færsla, sem væntanlega fellur þá undir einhvers konar fánýtan fróðleik, er einmitt gott dæmi um slíkan verknað. Á vafri sínu um víðáttur Internetsins hefur SVEPPAGREIFINN nokkuð oft fundið eitthvað sem á eiginlega hvergi neitt erindi neinstaðar. Gott dæmi um það er þessi mynd sem hann rak augun í á dögunum þar sem bloggsíðuhafi nokkur sérhæfir sig í að endurskapa ýmis augnablik, bæði úr þekktum myndasögum og öðru, og færa þau yfir í hefðbundið LEGO form.
Þessa mynd þekkja liklega flestir aðdáendur Svals og Vals á Íslandi en hún birtist strax á blaðsíðu 5 í bók Franquins Hrakfallaferð til Feluborgar (Les pirates du silence - 1958) sem bókaútgáfan Iðunn sendi frá sér fyrir jólin árið 1977 í þýðingu Geirlaugar Þorvaldsdóttur. Þetta var fyrsta sagan sem kom út á íslensku í þessum vinsæla bókaflokki en þarna eru þeir félagar nýbúnir að pakka niður í töskur sínar og búa sig undir að leggja af stað í fréttaleiðangur til Feluborgar. Þá birtist allt í einu Gormur heldur betur óvænt fyrir utan gluggann hjá þeim en undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði hann átt að vera í góðu yfirlæti í garðinum hjá Sveppagreifanum. Á myndinni hér fyrir neðan má síðan sjá hvernig ramminn hefur verið endurskapaður upp á nýtt með fáeinum hefðbundnum LEGO kubbum.
Ekki getur SVEPPAGREIFINN svo sem tekið undir það að hér sé um einhverja algjöra snilld að ræða en tilgangur færslunnar snerist eiginlega meira um að uppfylla skyldu hans gagnvart hinu vikulega myndasögubloggi sínu. Og myndin hér fyrir neðan gerir það einnig. Reyndar á SVEPPAGREIFINN í mestu vandræðum með að átta sig á því úr hvaða bók þessi mynd kemur. Hún er ekki úr Hrakfallaferð til Feluborgar og við snögga yfirferð úr helstu líklegu Sval og Val bókunum gat hann ekki með nokkru móti fundið myndina. SVEPPAGREIFINN tengdi hana strax við verk Franquins en hún þarf þó ekki að koma úr hans smiðju. Eftir á að hyggja er Fournier líka möguleiki. Þessar pælingar eru þó auðvitað algjört aukaatriði. Alla vega átti hinn hugmyndaríki LEGO listamaður ekki í neinum erfiðleikum með að raða saman dótinu sínu fyrir mynd sambærilegri hinni fyrri.
Svona lítur það út og lesendur Hrakfara og heimskupara (ef þeir þraukuðu alla leið hingað) geta farið glaðir inn í Hvítasunnuhelgina, eftir þessa færslu, uppfullir þeirri vissu um að nú hafi þeir séð allt. Um leið geta þeir líka tekið ómakið af SVEPPAGREIFANUM við að reyna að finna út úr hvaða Sval og Val sögu þessi haustlega mynd á uppruna sinn.
Góðar stundir ...

2 ummæli:

Út með sprokið!