4. október 2019

131. STÓRA KJALAMÁLIÐ

SVEPPAGREIFINN á það til að koma sér makindalega fyrir, halla sér aftur og dást að myndasöguhillunum sínum sem staðsettar eru í hjarta heimilisins. Hmmm... og á móti verður reyndar að taka það fram að hjarta heimilisins er að sjálfsögðu þar sem myndasögurnar hans eru geymdar. Hann leggur nokkra áherslu á að teiknimyndasögurnar úr íslensku útgáfunum séu ekki bara tæmandi af listanum heldur einnig í sem bestu ásigkomulagi. Líklega kannast flest myndasöguáhugafólk við sambærilegar hugleiðingar. Þannig er það ekki bara markmið SVEPPAGREIFANS að eignast sem mest af þeim útgáfum sem gefnar hafa verið út hérlendis heldur hefur hann einnig lagt áherslu á að skipta út slitnum eða illa förnum eintökum. Það er nefnilega alltaf skemmtilegra að eiga fallegri eintök af myndasögunum og svo líta þær auðvitað miklu betur út i hillunum. Eitt er það þó sem truflar SVEPPAGREIFANN heldur meira. Þessir titlar, sem verið var að gefa út á íslensku á sínum tíma, komu auðvitað úr nokkuð mörgum bókaflokkum og sjaldnast var þar um tæmandi lista að ræða. Það er að segja, í flestum tilfellum voru gefnar út aðeins nokkrar bækur (oft aðeins þrjár til tíu bækur) og SVEPPAGREIFINN minnist í raun aðeins að í seríunni um Tinna hafi allar bækurnar verið gefnar út. En það sem SVEPPAGREIFINN er að reyna að æla út úr sér, með þessum hugleiðingum, er hinn hvimleiði hringlandaháttur með stærð myndasagnanna. Í dag skal því tekið svolítið á hinu brýna kjalamáli íslensku myndasagnanna.
Ef Lukku Láka bækurnar eru teknar sem dæmi þá er heildarmynd þeirra myndasagna afskaplega falleg á að líta en þó reyndar með einni stórri undantekningu. Kvikmyndabókin Þjóðráð Lukku Láka er algjörlega fáránleg í myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS þar sem hún stendur langt upp (og út) fyrir hinar bækurnar í seríunni. Þessi bók er númer 15 í íslensku útgáfuseríunni og er staðsett mitt á milli bókanna Ríkisbubbann Rattata og Allt um Lukku Láka en hún passar engan veginn þarna inn í heildarmyndina. Það væri náttúrulega hægt að finna henni annan stað, til hliðar öðru hvoru megin við hinar bækurnar í seríunni, en auðvitað vill SVEPPAGREIFINN, með fullkomnunaráráttuna sína, hafa helvítis bókina á réttum stað í röðinni.
Bækurnar um Sval og Val er annað gott dæmi. Alls voru Sval og Val bækurnar sem Iðunn gaf út á sínum tíma 29 talsins og fyrstu 24 bækurnar litu reyndar nokkuð vel út í myndasöguhillunum. Hvítur kjölurinn var tiltölulega jafn og fallegur, með sama svarta letrinu og heildarmyndin var að mestu óaðfinnanleg á að líta. Reyndar eru flestar Móra bækurnar (bók númer 15) einhverra hluta vegna um þremur millimetrum lægri en hinar og hvítur kjölurinn örlítið gulleitari. Upplitaðan litamuninn á þeirri bók má þó líklega dæma á tímann og hugsanlega aðra prentsmiðju en þetta útlitslýti Móra virðist vera viðvarandi á þeim eintökum. Þegar 25. sagan úr Sval og Val seríunni (Svalur í New York) kom út á íslensku árið 1988 brá hins vegar við að stærð bókarinnar var allt í einu orðinn um sjö, átta millimetrum hærri en lesendur seríunnar áttu að venjast. Næsta saga (Með hjartað í buxunum), sem gefin var út árið eftir, var hins vegar komin í venjulega hæð aftur en bók númer 27 (Dalur útlaganna - 1990) og afgangurinn af þeim bókum sem Iðunn sendi frá sér úr seríunni voru hins vegar allar í hinni stærðinni. Þessi hringlandaháttur gerir það að verkum að kilir seríunnar líta ansi ankaralega (hvers konar orð er þetta eiginlega?) út í bókahillunum.
Til gamans má einnig minnast á, svona í framhjáhlaupi, prentvillu á kili einnar Sval og Val bókarinnar og reyndar er þessi villa einnig framan á kápu hennar. Þegar sagan Í klandri hjá kúrekum kom út var hún sögð bók númer 21 í íslensku seríunni en í rauninni var það bókin Tímavillti prófessorinn sem bar þetta númer í útgáfuröðinni. Báðar þessar bækur komu út hjá Iðunni árið 1986. Í klandri hjá kúrekum á því að vera númer 22 en engin bókanna ber það númer þó á kili sínum. En nefna má fleiri myndasöguseríur, sem komu út á íslensku, þar sem bækurnar eru í mismunandi stærðarútfærslum. Og eins undarlega og það hljómar má í flestum tilfellum einhverra hluta vegna tengja þær við bókaútgáfuna Iðunni. Það forlag var því undarlega rótlaust í sínum bókastærðum. Myndasögurnar um Viggó viðutan eru dæmi um það. Alls sendi Iðunn frá sér 12 bækur úr þessari frábæru seríu og auðvitað var ekki hægt að hafa þær allar í sömu stærð. Ellefta bókin, Kúnstir og klækjabrögð, sker sig þar úr og teygir sig töluvert upp fyrir hinar bækurnar. Þess utan eru heiti seríunnar og titlar á víð og dreif um kjölinn og lítið sem ekkert samræmi þar á ferðinni.
Frágangur þeirra Viggó bóka sem Froskur útgáfa hefur verið að senda frá sér á undanförnum árum er hins vegar til mikillar fyrirmyndar og það á einnig við um bækurnar um Sval og Val. En bókaútgáfan Iðunn sendi líka frá sér fyrstu fimm myndasögurnar úr Goðheima seríunni á árunum 1979 - 89 og þar litu fyrstu þrjár bækurnar bara nokkuð vel út. Þegar fjórða bókin, Sagan um Kark, kom út var hún hins vegar töluvert hærri en hinar þrjár og gnæfði því yfir þær. Nú er SVEPPAGREIFINN reyndar ekki svo vel búinn að eiga fimmtu bókina (Förin til útgarða-Loka) úr þessari 1. útgáfu af Goðheima bókunum og getur því ekki nöldrað um hvort hún sé einnig í sömu stærð. En 2. útgáfa seríunnar, sem Iðunn/Forlagið hefur verið að endurútgefa á undanförnum árum, er hins vegar algjörlega til fyrirmyndar og þar eru fyrstu átta sögurnar allar jafnháar. 
En sá bókaflokkur sem verður hvað verst úti í stóra kjalamálinu eru klárlega sögurnar um þá félaga Samma og Kobba. Útgáfa þeirra bóka var reyndar svolítið í lausari kantinum og væntanlega má skýringu kjalavandamála þeirra sagna að einhverju leyti rekja til þess. Fyrstu tvær sögurnar í íslensku útgáfunni, Harðjaxlar í hættuför og Svall í landhelgi komu út hjá Iðunni haustið 1981 og þær bækur voru jafn háar. Næsta bók, Frost á Fróni, kom út ári seinna og hún var um hálfum sentimetra hærri en fjórða bókin Aldraðir æringjar (1983) var um þremur millimetrum hærri en sú þriðja. Síðan liðu þrjú ár áður en næstu bækur, Í bófahasar og Allt í pati í Páfagarði, komu út en á þeim sögum höfðu kilirnir enn hækkað og nú um heilan sentimetra. Síðustu þrjár Samma bækurnar, sem komu út á íslensku, voru síðan á svipuðum nótum en í heildina mátti finna fjórar mismunandi stærðir á þessum tíu myndasögum. Það munar því næstum því tveimur sentimetrum á hæð fyrstu bókanna, í íslensku seríunni, og svo þeirra síðustu.
Ef fleiri seríur eru kallaðar til má til dæmis nefna hinar þrjár sögur bókaútgáfunnar Fjölva um Sögu Blástakks liðþjálfa. Fyrstu tvær bækur útgáfunnar, Á slóð Navajóa og Týndi riddarinn, voru jafnstórar en þriðja sagan, Stúlkan í Mexíkó, var hins vegar nokkuð stærri. Og svo er ekki mjög langt síðan SVEPPAGREIFINN fjallaði aðeins um Ástríks bækurnar hér á síðunni og minntist á þeim vettvangi á eina bók úr þeirri seríu. Þar kom einmitt fram að bókin Ástríkur og þrætugjá (þjóðfélagsins) væri um fimm millimetrum lægri en aðrar bækur í bókaflokknum og væri þar af leiðandi ekki í flútti við hinar Ástríks bækurnar. En það er alla vega gott að SVEPPAGREIFINN er loksins búinn að koma frá sér og kryfja til mergjar hið brýna kjalamál sem þó ætti eiginlega frekar að kallast stóra bókastærðarmálið. Af mörgum ómerkilegum færslum SVEPPAGREIFANS má sennilega fullyrða þessi sé sú allra innihaldslausasta og versta. Það þarf ekki nema að skoða myndaval færslunnar til að fá það staðfest.

10 ummæli:

  1. Vilmundur Kristjánsson5. okt. 2019, 08:48:00

    Já þetta er töluvert pirrandi, það verður að viðurkennast. En líklega er skýringin sambland af mátulegu kæruleysi, vanþekkingu og gróðahyggju, því sennilegast er að stokkið hefur verið á ódýrastar útgáfur í samfloti með öðrum prentunum. Það gerði Fjölvi með Tinnabækurnar, þessvegna komu þær ekki út í réttri útgáfuröð. Líklega hafa bara allir gert þetta.

    SvaraEyða
  2. Það er örugglega nákvæmlega þannig - sambland af ýmsum ástæðum.

    Annars tók ég eftir því líka (þó ég hafi reyndar ekki minnst á það í færslunni) að þegar þessar stærri myndasögur fóru að birtast þá gerðist það allt á mjög svipuðum tíma. Í kringum 1988 breyttust flestar seríurnar hjá Iðunni og ég tengdi það strax við nýja (ódýrari?) prentsmiðju. Svalur og Valur, Sammi, Viggó og Goðheima bækurnar voru skyndilega allar í þessari sömu stærð. Gorms bækurnar og Háskaþrennan hófu einnig göngu sína á þessum tíma og stuttu seinna Litli Svalur en allar þessar bækur voru gefnar út hjá Iðunni og voru í sama brotinu.

    Varðandi Tinna bækurnar þökkum við þó fyrir að hafa fengið þær gefnar út hér þó þær hafi ekki verið í réttri útgáfuröð. Þetta voru þó alla vega harðspjaldaútgáfur og líklega væru afföllin orðin töluvert meiri af þessum bókum ef þær hefðu verið í mjúka brotinu.

    Kv.
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  3. Skemmtilegur pistill. Bækurnar fjórar um Fláráð fara einstaklega illa í hillu. Á einni stendur ekkert á kilinum og á annari er skriftin á hvolfi.

    SvaraEyða
  4. Takk fyrir :)

    Ástæðan fyrir þessum skemmtilegu "villum" á bókunum um Fláráð stórvesír á sér reyndar líklega eðlilegar skýringar og ber vott um einstakan húmor. Titillinn á bókinni Allt á hvolfi er auðvitað á hvolfi á kilinum i samræmi við titilinn á þeirri sögu og í bókinni Galdrateppið, þar sem titilinn vantar á kjölinn, er svipaður brandari í gangi. Í þeirri sögu kemur fyrir galdrateppi sem flýgur af stað og hverfur með farþega þess þegar töfraorðið "barbapaba" er sagt. Titill sögunnar, á kili bókarinnar, hefur því væntanlega lent á töfrateppinu og horfið!

    Kv.
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  5. Góðar skýringar. Þetta fattaði ég ekki.

    SvaraEyða
  6. Smá leiðrétting Rúnar...

    Mig rámaði nefnilega í einhverja pælingu um þetta á Facebook-grúbbunni "Teiknimyndasögur" og fór auðvitað að leita að því og fann að þetta snerist um síðustu söguna í bókinni. Þar kom við sögu galdramyndavél (örugglega vel notadrúgur gripur) sem virkar þannig, að það sem tekið er mynd af hverfur!

    Rétt skal vera rétt :)

    Kv.
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  7. Vilmundur Kristjánsson8. okt. 2019, 16:04:00

    Mikið vildi ég að fleiri en við 2 kommentuðum hjá þér, held það myndi auka fjölbreytnina.

    SvaraEyða
  8. Já, það væri frábært að heyra frá fleirum tjá sig hérna en það er samt alltaf gaman að fá komment frá ykkur tveimur.

    Síðan fær alltaf minnst 25-35 heimsóknir hérna á dag og allt upp í 120-250 heimsóknir á góðum dögum þegar best lætur. Þannig að það eru alltaf einhverjir myndasögunördar á ráfi hérna á degi hverjum. Flestir láta sér þó duga að lesa.

    Kv.
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  9. Flottir pistlar hjá þér herra Sveppagreifi. Orðið "ankaralegt" er eins og þú bendir á mjög sérkennilegt enda er það ekki til. Þú hefur væntanlega átt við orðið ankannalegt sem merkir undarlegt, sérkennilegt eða furðulegt. Náttúrlega tekið beint úr dönsku. Bestu kveðjur og haltu endilega þessari skemmtilegu fræðslu áfram. Og já þessi hringlandaháttur með stærð bókanna er óþolandi. Ég legg Þjóðráðin ofan á hinar Lukku Láka bækurnar svo hún standi ekki upp úr eins og Ibbi Dalton.

    SvaraEyða
  10. Ja hérna! Nú tókstu mig gjörsamlega í bakaríið. Takk kærlega fyrir ábendinguna. Ég hef sem betur fer líklega ekki nota þetta orð oft, og örugglega ekki í mæltu máli, en hef þó alltaf talið það eiga að vera "ankaralegt". Tyrkland hefur líklega verið mér eitthvað hugleikið :)

    Takk líka fyrir góðar kveðjur og hvatningu. Haltu endilega áfram að lesa og fylgjast með og vonandi þarftu ekki aftur að leiðrétta bullið í mér.

    Kv.
    SVEPPAGREIFINN

    Ps. Ég ætla samt að leyfa villunni að standa svo kommentið þitt eigi rétt á sér áfram :)

    SvaraEyða

Út með sprokið!