25. október 2019

134. FYRSTU SKREF VIGGÓS

Margir lesendur myndasagna á Íslandi þekkja líklega hvernig uppruni Viggós viðutan (Gaston Lagaffe) er tilkominn en þessi byrjunarskref hans í myndasöguheiminum eru rakin í grófum dráttum í bókinni Glennur og glappaskot (Gaffes et gadgets - 1985) sem kom út hjá bókaútgáfunni Iðunni árið 1986. Þarna eru fyrstu kynni lesenda belgíska myndasögutímaritsins SPIROU (Le journal de Spirou) við kappann rakin og þar er hægt að sjá hvernig hann birtist smán saman meira og meira á næstu tölublöðum blaðsins. Í þessari bók voru hinar gömlu teikningar úr SPIROU blaðinu að koma í fyrsta skipti út í bókaformi en hafa þar reyndar verið endurteiknaðar og litaðar í samræmi við kröfur nútímans. André Franquin hafði fram til þess tíma sett sig alfarið á móti þessari útgáfu en gaf sig þó að lokum. Franquin á Viggó náttúrulega að langstærstum hluta en upphaflega hugmyndin að honum þróaðist þó í samstarfi við þá Jidéhem (Jean De Mesmaeker) og Yvan Delporte. Í höndum Franquins varð Viggó gríðarlega vinsæll og myndasögurnar um hann birtust í SPIROU tímaritinu allt til ársins 1996 en listamaðurinn lést snemma árs 1997. En til að átta sig betur á þessum fyrstu andartökum Viggós og hvernig hann fléttast til dæmis inn í sögurnar um Sval og Val er gaman að raða efninu aðeins ítarlegar upp í tímalegu samhengi.
Franquin var búinn að vera að teikna þá Sval og Val í þó nokkurn tíma áður en Viggó kom til sögunnar en þeir fyrrnefndu voru þó upphaflega reyndar ekki sköpunarverk hans sjálfs. Franski listamaðurinn Rob-Vel (Robert Velter) hafði átt allan heiðurinn af Sval, við stofnum SPIROU blaðsins árið 1938, en hann var hugsaður sem einhvers konar andlit tímaritsins og helsta sögupersóna þess. Í miðri Seinni heimsstyrjöldinni tók Belginn Jijé (Joseph Gillain) við honum, auk þess sem Valur kom einnig til sögunnar og Franquin tók síðan við keflinu af honum árið 1946 og þróaði þá félaga í þá átt sem við þekkjum í dag. Margir líta því (ranglega) á þann tímapunkt, þegar Franquin tók við söguhetjunum, sem upphaf myndasagnanna um  Sval og Val. Fyrstu lengri sögurnar um þá félaga urðu þannig til í tíð Franquins og þær urðu fljótlega gríðarlega vinsælar í Belgíu og löndunum þar í kring. Sögurnar fóru einnig að koma  út í bókaformi og þær þróuðust í áttina að þeirri föstu tilveru sem síðan hefur fylgt þeim. Sveppagreifinn og Sveppaborg komu til sögunnar árið 1951 með bókinni Il y a un sorcier à Champignac (Sveppagaldrar í Sveppaborg - 2017), Gormur birtist fyrst í Spirou et les héritiers (Baráttan um arfinn - 1980) árið 1952 og Túrbot bíllinn varð til árið 1955 með sögunni La corne de rhinocéres sem ekki hefur enn komið út hér á landi en er nefnd Horn nashyrningsins á íslensku Wikipedia síðunni. Og svo má lengi telja. Fljótlega kom fram í sögunum að Valur starfaði sem blaðamaður þó ekki væri það mjög áberandi í daglegu lífi þeirra félaganna. Starf Svals var þarna hins vegar ekki jafn ljóst en hins vegar var alltaf ljóst að tímaritið var nefnt honum til heiðurs eða höfuðs eftir því hvernig á það er litið. Hann hlaut því einnig að starfa þar, alla vega svona í og með, eins og kom síðar í ljós í Viggó bröndurum.
Sval og Val sagan Le nid des marsupilamis (Gormahreiðrið - 1978) var í birtingu í SPIROU tímaritinu þegar Viggó birtist þar fyrst þann 28. febrúar árið 1957. Á þeim tíma var útlit þeirra Svals og Vals orðið tiltölulega varanlegt í meðförum Franquins og átti lítið eftir að breytast úr þessu. Þetta var tölublað númer 985 og neðst á blaðsíðu 5 birtist ein frekar lítil og óráðin mynd af Viggó þar sem hann stóð spariklæddur með slaufu og allt, í opnum dyrum tímaritsins, og án nokkurra útskýringa. Fyrir ofan myndina stóð Gaston stórum stöfum og utan um hana röð af fótsporum. Með myndinni fylgdu engar upplýsingar en lesendur blaðsins höfðu oft áður fengið vísbendingar um áhugavert efni, frá stjórnendum blaðsins, þegar sambærileg fótspor höfðu verið notuð til að vekja eftirtekt.
Strax í næsta blaði, sem kom út þann 7. mars, birtist síðan aftur mynd af honum (nú á blaðsíðu 6) þar sem hann var kominn inn fyrir dyrnar, horfði forvitnislega í kringum sig og var búinn að loka hurðinni á eftir sér. Þarna hafði hann reyndar hneppt frá sér jakkanum og nú var hann ekki lengur með slaufuna um hálsinn. Enn kom þó ekkert meira fram um kappann annað en nafnið hans fyrir ofan myndina og fótsporin í kring og lesendur blaðsins þurftu því að bíða lengur eftir frekari upplýsingum um hvað væri í gangi með þennan ókunna og renglulega náunga.
Í næstu tölublöðum bættust við fleiri myndir af Viggó en alltaf aðeins ein í hverju blaði og alltaf án orða. Í SPIROU blaði númer 987 var hann þó skyndilega búinn að fá sér sæti á stólgarmi og var í óðaönn við að kveikja sér í sígarettu með nokkuð kæruleysislegum tilburðum og fasi. Þarna var hann einnig búinn að kasta af sér fínni fötunum sem hann hafði klæðst fyrst og kominn í kunnuglegri hversdagsklæðnað sem áttu eftir að fylgja honum um ókomna tíð.
Næst sjást þeir Svalur og Valur í fyrsta sinn á mynd með Viggó og reyndar er íkorninn Pési einnig með þeim. Þeir eru eðlilega forvitnir um þennan renglulega náunga og eru eitthvað að velta honum fyrir sér en Valur er strax orðinn svolítið tortrygginn í hans garð þrátt fyrir að vita ekkert um hann. Enn sást Viggó aðeins í svart/hvítu og enn voru engar frekari upplýsingar um hann að fá.
En í tölublaðinu þar á eftir (númer 989) á blaðsíðu 26 sást Viggó viðutan í fyrsta skipti í lit í SPIROU tímaritinu. Þar er Valur efst á síðunni þar sem hann bendir ergilega niður fyrir sig á texta til útskýringar en augljóst er að hann hefur þarna strax einhver horn í síðu Viggós þó engir sýnilegir árekstrar hafi orðið enn á milli þeirra í blaðinu. En í þessum texta segir:
TAKIÐ EFTIR! UM NOKKURRA VIKNA SKEIÐ HEFUR UNDARLEGUR NÁUNGI VERIÐ AÐ FLÆKJAST Á SÍÐUM TÍMARITSINS. VIÐ VITUM ALLS ENGIN DEILI Á HONUM. VIÐ VITUM BARA AÐ HANN ER KALLAÐUR VIGGÓ. HAFIÐ AUGA MEÐ HONUM! MÉR VIRÐIST ÞETTA VERA FURÐUFUGL! 
Þessi þýðing Bjarna Fr. Karlssonar kemur úr bókinni Glennur og glappaskot. Neðst stendur svo Viggó sjálfur kæruleysislegur sem fyrr og enn er hann að kveikja sér í sígarettu. Hér eru græna peysan og gallabuxurnar mættar til leiks og fyrsta persónulega tenging hans við Val komin fram.
Fyrsta alvöru innkoma Viggós var síðan í SPIROU blaði númer 990 (á blaðsíðu 7) sem kom út þann 4. apríl árið 1957. Þar sáust þeir Svalur eiga nokkur orðaskipti með samtali sem síðan er löngu orðið sígilt. Bjarni Fr. þýddi þessi frægu samskipti þeirra á eftirfarandi hátt:
HVER ERT ÞÚ?
VIGGÓ.
HVAÐ ERT ÞÚ AÐ GERA HÉR?
ÉG ER AÐ BÍÐA.
EFTIR HVERJUM?
ÉG VEIT ÞAÐ EKKI ... ÉG BÍÐ BARA ...
HVER SENDI ÞIG?
MÉR VAR SAGT AÐ KOMA ...
HVER GERÐI ÞAÐ?
VEIT ÞAÐ EKKI ...
TIL HVERS ÁTTIRÐU AÐ KOMA?
TIL AÐ VINNA ...
VINNA HVAÐ?
VEIT ÞAÐ EKKI ... ÉG VAR RÁÐINN ...
EN ÞÚ HLÝTUR AÐ VITA HVER ÞAÐ VAR SEM RÉÐ ÞIG?
HANANÚ ...
Þarna varð því ljóst að Viggó væri hugsaður sem nýr starfsmaður SPIROU (SVALS) tímaritsins (þess sem hann birtist einmitt í) og á þessari mynd má einnig í fyrsta sinn sjá hann tjá sig á einhvern hátt. Það var svo í næsta blaði (númer 991) á blaðsíðum 27 og 28 þar sem fyrst sást, á tveimur myndum, hvers væri að vænta af þessu nýja starfsmanni SPIROU tímaritsins. Á fyrri myndinni (bls 27) má sjá reiðileg viðbrögð Vals við því þegar einhver (Viggó auðvitað) hefur sullað bleki yfir pistil vikunnar en þegar flett er yfir á næstu síðu (bls 28) sést sökudólgurinn sjálfur.
Þessi myndabrandari sýnir allra fyrsta skammarstrik Viggós á ritstjórnarskrifstofunni og auðvitað var það Valur sem varð fórnarlamb hans þar. Þarna blönduðust nú saman persónur úr tveimur mismunandi myndasöguseríum og af þessum myndum mátti ráða að rauði þráðurinn í bröndurum, þessarar nýjustu sögupersónu blaðsins, myndi tengjast árekstrum þeirra Viggós og Vals. Svalur yrði meira í aukahlutverki í þeim bröndurum. Og það varð einmitt raunin. Það er nokkuð athyglisvert að bera saman þann Val sem birtist í sögunum um Sval og Val við þann Val sem kemur fyrir í bröndurunum um Viggó viðutan. Þarna er í raun um tvær ólíkar persónur að ræða. Svalur er hins vegar nokkuð sjálfum sér líkur í báðum þessum seríum. En í næsta SPIROU blaði (númer 992) ritaði Valur reyndar harðorða grein í blaðið þar sem hann kvartaði undan Viggó og rakti um leið nokkur skammarstrika hans. Valur upplýsti þá lesendur um að Viggó hefði tjáð sér að hann væri ráðinn til tímaritsins SVALS sem söguhetja og staðfesti með því um leið það sem hann var þegar búinn að sýna í tímaritinu. Á næstu vikum birtust þannig áfram í blaðinu fleiri sambærilegir einna myndar brandarar þar sem árekstrar þeirra Viggós og Vals réðu ferðinni. 
Ný Sval og Val saga, Le voyageur du Mésozoïque (hún hefur ekki enn komið út á íslensku), hóf líka göngu sína í SPIROU blaði númer 992, sem kom út þann 18. apríl 1957, og sú saga var algjörlega óháð þeim samskiptum sem fram fóru á milli þeirra Svals, Vals og Viggós á skrifstofunni. En það var síðan loksins í hinu merka tímamótablaði SPIROU númer 1000, sem kom út þann 13. júní, þar sem fyrsti eiginlegi myndasögubrandarinn um Viggó viðutan birtist í blaðinu og auðvitað kom Valur þar einnig hressilega við sögu. Það er alveg óhætt að segja að hlutverk eða örlög Vals í þeim brandara séu ólík því sem lesendur bókanna um Sval og Val áttu að venjast.
Íslensku útgáfuna af þessum brandara má finna á blaðsíðu 13 í bókinni Glennur og glappaskot sem áður hefur verið minnst á hér í þessari færslu. Enn var þess þó að bíða að sambærilegir heillar síðu brandarar yrðu að föstum liði í blaðinu. Stakar myndir með stríði þeirra Viggós og Vals héldu áfram í blaðinu næstu mánuðina og þá oftast aðeins ein mynd í hverju tölublaði en einstaka sinnum dreifðist brandarinn þó á tvær blaðsíður. Þann 19. september 1957 birtist Viggó hins vegar í fyrsta skipti í sögu með Sval og Val. Þá var langt liðið á söguna Le voyageur du Mésozoïque í blaðinu en þennan dag mátti sjá kappann nokkuð óvænt á reiðhjóli í einum myndaramma hennar.
Sval og Val sagan Vacances sans histories (Viðburðarlítið sumarleyfi), sem margir muna eftir sem aukasögunni í íslensku útgáfunni af Le gorille a bonne mine (Sval og górilluöpunum - 1978), hóf göngu sína í SPIROU blaði númer 1023 þann 21. nóvember árið 1957 og strax á annarri blaðsíðu sögunnar sprettur Viggó aftur fram á reiðhjóli. Enn er hann töluvert annars hugar í umferðinni en í þetta sinn er hann ekki að lesa dagblað heldur er hann önnum kafinn við að kveikja sér í sígarettu.
Á þessum tímapunkti var Viggó því búinn að birtast tvisvar í sögum með Sval og Val en hans eiginlegi ferill hans í myndasöguheiminum var þó tæknilega ekki einu sinni almennilega hafinn. En í tölublaði SPIROU númer 1025 kom loksins annar samfelldur myndasögubrandari sem að þessu sinni var í hálfrar síðu formi. Sitthvor myndaröðin birtist neðst á blaðsíðum 26 og 27 í blaðinu en þennan brandara má einmitt sjá á blaðsíðu 27 í títtnefndri Viggó bók, Glennum og glappaskotum.
Þetta hálfrar síðu myndasöguform var nú að mestu komið til að vera og sú tilhögun á Viggó bröndurunum entist honum vel næstu árin. Stutta Sval og Val sagan Viðburðarlítið sumarleyfi hélt áfram í blaðinu og þegar leið að lokun hennar birtist Viggó síðan aftur í sögunni. Þann 23. janúar 1958, í blaði númer 1032, brá honum nefnilega fyrir á síðustu mynd þess blaðs og í næstu viku á eftir fékk hann heila blaðsíðu fyrir sig í félögsskap þeirra. Eins og áður er getið fylgir þessi stutta aukasaga með Sval og górilluöpunum en augnablikið má finna í bókinni á blaðsíðum 61 og 62.
Þann 6. febrúar sama ár hóf önnur stutt Sval og Val saga göngu sína í blaðinu, sem nefndist La foire aux gangsters (Bófaslagur), en íslenskir lesendur þekkja hana sem aukasöguna í Gormahreiðrinu (Le nid des Marsupilamis) frá árinu 1978. Í þessari sögu kemur Viggó nokkuð við sögu og leikur töluvert stærra hlutverk en hann hafði áður gert með þeim í seríunni um Sval og Val. Það var þó ekki fyrr en í tölublaði númer 1039, sem kom út þann 13. mars, sem hann loksins birtist í sögunni.
Í SPIROU blaði númer 1042, sem kom út þann 3. apríl árið 1958, birtist í fyrsta sinn loksins alvöru heilsíðubrandari með Viggó í blaðinu en það var í tilefni af sérstöku páskablaði tímaritsins. Í gegnum tíðina voru að koma út vegleg páska- og jólablöð af tímaritinu og í þeim var oft fjölbreytt efni sem ýmist tengdist því þema eða efni sem hafði verið pimpað skemmtilega upp á einhvern annan hátt. Enn var þó töluvert langt í að Viggó viðutan birtist að jafnaði í þessu sama heilsíðu formi. Þessi brandari kemur fyrir á blaðsíðu 16 í bókinni Glennum og glappaskotum.
Þegar hér var komið sögu hafði Viggó viðutan verið búinn að birtast í SPIROU tímaritinu í rúmlega eitt ár í einhvers konar formi en fram til þessa nánast eingöngu með Val en Sval brá þó einnig einstaka sinnum fyrir. Enn hafði annað starfsfólk skrifstofunnar eða aðrar aukapersónur seríunnar ekki verið kynntar til sögunnar nema ungur ónafngreindur ritari skrifstofunnar. Sú varð þó ekki ein af þeim föstu starfsstúlkum sem seinna komu til sögunnar og voru nafngreindar í nokkuð stórum hlutverkum. Smám saman fór fleira fólk einnig að koma til sögunnar en þó án þess að festast almennilega í sessi í seríunni. Eftir langan tíma, þann 17. mars árið 1960, birtist samt loksins í blaðinu í fyrsta skipti aukapersóna sem átti eftir að koma fyrir oftar en einu sinni næstu áratugina og setja virkilega mark sitt á seríuna. Þetta var að sjálfsögðu herra Seðlan.
Þessi brandari kemur fyrir á blaðsíðu 36 í bókinni Dútl og draumórar sem Froskur útgáfa sendi frá sér árið 2018 en herra Seðlan kom síðan næst við sögu í SPIROU blaði sem kom út þann 23. júní 1960. Frá því Viggó birtist í fyrsta sinn, rúmlega þremur árum áður, höfðu engir aðrir en þeir Svalur, Valur og Viggó (af þeim sem urðu seinna þekktir) sést í þessum myndasögum blaðsins. Herra Seðlan birtist nokkuð reglulega næstu mánuðina og var lengi eina auka-aðalpersónan í bröndurunum. Reyndar höfðu húsvörðurinn og hin úrilla ræstingakona skrifstofunnar komið fyrir í fáein skipti en verið í algjöru aukahlutverki og voru aldrei nafngreind. Seinna kom þó fram að hún héti Mélanie Molaire og hann Jules Soutier en enn sem komið er hafa þau lítið sést í íslensku útgáfunum og aldrei hlotið nöfn í þeim. Upp úr þessu fóru kunnugleg andlit starfsstúlkna skrifstofunnar einnig að birtast í stöku brandara en þó án þess að nöfn þeirra kæmu strax sérstaklega fram. En í blaði númer 1266 þann 19. júlí 1962 birtust loksins tveir samstarfsmenn Viggós sem áttu heldur betur eftir að setja mark sitt á seríuna þegar fram liðu stundir.
Þarna voru þeir Eyjólfur og Snjólfur mættir til leiks en þennan brandara má finna á blaðsíðu 16 í bókinni Gengið af göflunum sem Froskur útgáfa sendi frá sér árið 2015. Hver sá þriðji er (sem er rækilega falinn á bak við blaðið) er reyndar óljóst en líklega voru hinir tveir ekkert endilega hugsaðir sem framtíðar sögupersónur seríunnar á þessum tímapunkti. Enda voru þeir nafnlausir í fyrstu bröndurunum sem þeir birtust. Nokkur bið varð því á að þeir Eyjólfur og Snjólfur kæmu næst fram en í sömu bók, að þessu sinni á blaðsíðu 24, má sjá þegar ungfrú Jóka birtist í fyrsta sinn. Þetta var í SPIROU blaði númer 1283 sem kom út þann 15. nóvember árið 1962.
Þau Eyjólfur, Snjólfur og ungfrú Jóka komu næst öll saman fyrir í blaði númer 1296 sem kom út 14. febrúar árið 1963 en fljótlega upp úr því fóru þau að verða reglulegri gestir hjá Viggó. Og þá kom bíllinn hans Viggós fyrst fyrir á þessum árum en hann birtist í fyrsta sinn í SPIROU blaði númer 1380 sem kom út þann 24. september árið 1964. Enn voru brandararnir nánast eingöngu í hálfrar síðu formi en einstaka sinnum birtust þeir þó líka enn í einföldum einnar myndar útgáfum. André Franquin glímdi við þunglyndi á þessum tíma og snemma árs 1962 hafði hann tekið sér frí frá Sval og Val sögunni QRN sur Bretzelburg (Neyðarkall frá Bretzelborg - 1979) enda þá löngu búinn að fá nóg af þeim félögum. Sú saga birtist því í blaðinu á næstu mánuðum með slitróttum hléum. Hann hélt þó áfram að teikna Viggó, með aðstoð Jidéhem, og brandararnir um hann færðust þá reyndar yfir á forsíðu blaðsins um nokkurt skeið en höfðu áður verið á víð á dreif um blaðið. Eins og fram kemur fremst í færslunni tók Franquin aðeins við seríunni um Sval og Val af Jijé og sá síðan um að gæða þær þeirri veröld sem seinna gerði hana svo vinsæla. Franquin skapaði þannig til dæmis Sveppagreifann og Sveppaborg og seinna gerði hann tilraun til að þróa seríuna meira út í vísindaskáldskap þar sem þeir Zorglúbb og Zantafíó komu til dæmis til sögunnar en það hugnaðist útgefandanum Charles Dupuis ekki. Franquin hafði einmitt áformað að nota Zorglúbb í sögunni Neyðarkall frá Bretzelborg en Dupuis setti sig alfarið á móti því. Sá vildi að sögurnar þróuðust meira út í saklausa, ljóðræna og fallega átt í ætt við Gormahreiðrið. Af þessum sökum myndaðist ákveðin togstreita með stefnu seríunnar um þá Sval og Val og þunglyndi Franquins hjálpaði heldur ekki til. Eftir að Neyðarkalli frá Bretzelborg lauk síðan loksins í desember árið 1963, sáust þeir Svalur og Valur ekki síðum SPIROU tímaritsins í rúmlega eitt og hálft ár.
Sögurnar um Sval og Val höfðu verið þær vinsælustu á tímaritinu og þar sem ekki var hjá því komist að fjarvera þeirra færi að hafa áhrif á sölu blaðsins fór Dupuis að setja pressu á Franquin um nýtt efni. Þann 14. október árið 1965, í tölublaði númer 1435, birtust þeir félagar loksins aftur á ný. Þarna var um að ræða byrjunina á sögunni Bravo les Brothers (Aparnir hans Nóa) og þó hún sé hluti af seríunni um Sval og Val gæti hún líka klárlega verið 22ja blaðsíðna brandari um Viggó viðutan. Þetta var þriðja sagan þar sem heimar seríanna tveggja skarast en í Öpunum hans Nóa er sögusviðið að mestu ritstjórnarskrifstofa SVALS, sem telst frekar heimur Viggós, þó allir þrír séu í aðalhlutverkum. Og í rauninni var það í þessari sögu sem lesendur SPIROU áttuðu sig betur á heildarmyndinni á ritstjórnarskrifstofu tímaritsins og hvaða hlutverki hver gegndi þar í þeim söguheimi. Sagan er því ekki hefðbundin Sval og Val saga heldur meira svona langur farsakenndur Viggó brandari sem reyndar er bara nokkuð vel heppnaður og skemmtilegur. Viggó viðutan var því að birtast á þessum tíma í tveimur mismunandi seríum á sitthvorum staðnum í SPIROU blaðinu en Öpunum hans Nóa lauk í blaði númer 1455 sem kom út þann 3. mars árið 1966.
Brandararnir um Viggó héldu áfram sínu striki í blaðinu og birtust sem aldrei fyrr. Lesendur SPIROU voru nú orðnir töluvert meðvitaðri um heim ritstjórnarskrifstofunnar, þökk sé Öpunum hans Nóa, og um leið þróuðust brandararnir líka betur í þá átt sem við íslenskir lesendur munum eftir þeim með fyrstu bókunum sem Iðunn gaf út. Þann 9. mars 1967 kom Viggófónninn fyrst til sögunnar og með honum gafst tækifæri til fleiri landvinninga. Nú fór sögusvið brandaranna líka smám saman að færast meira út fyrir ritstjórnarskrifstofuna en áður hafði verið. Frá því að Viggó kom fyrst til sögunnar árið 1957 höfðu brandararnir um hann í langflestum tilfellum verið á hálfrar blaðsíðu formi en einstaka sinnum hafði blaðið þó boðið upp á heillar síðu brandara á tillidögum og þá oftast í páskablaðinu. Snemma á vormánuðum 1966 fóru þó að slæðast með einn og einn heillar síðu brandari og um sumarið tóku þeir loksins alveg yfir. Í jólablaði SPIROU númer 1496 sem kom út þann 15. desember mátti meira að segja finna tveggja síðna Viggó brandara í fyrsta sinn. Þessa opnu þekkja allir úr bókinni Viggó bregður á leik sem Iðunn sendi frá sér árið 1982.
Eins og áður segir varð langt hlé á Sval og Val í SPIROU en síðasta saga Franquins um þá félaga hóf loksins göngu sína í blaðinu þann 12. október árið 1967. Þetta var sagan Panade à Champignac (Svaðilför til Sveppaborgar - 1982) og fyrstu blaðsíður hennar fóru að mestu fram á ritstjórnarskrifstofunni. Veikindi listamannsins gerði það að verkum að félagar hans hjá SPIROU, Peyo, Gos og Jidéhem, aðstoðuðu hann við söguna en sögurnar tvær (Svaðilför til Sveppaborgar (37 bls) og Aparnir hans Nóa (22 bls)) voru síðan gefnar út saman þegar þær komu út í bókaformi árið 1968. Hluti af byrjun Svaðilfarar til Sveppaborgar kom einnig fyrir sem brandari í bókinni Viggó - vikadrengur hjá Val sem Iðunn sendi frá sér árið 1980.
André Franquin teiknaði því ekki fleiri sögur með þeim Sval og Val og síðustu blaðsíður hennar, sem var reyndar ekki í fullri lengd, birtust í SPIROU tímaritinu þann 8. febrúar árið 1968. Um svipað leyti birtist 500. brandarinn um Viggó í blaðinu en einstaka einnar síðu brandarar með Gormi birtust þó á næstu mánuðum í tímaritinu. Svalur og Valur komu einstaka sinnum fyrir í bröndurum og í einum þeirra voru þeir Svalur og Gormur til dæmis á ferðinni á bílnum hans Viggós. Fljótlega eftir að Franquin hætti með Sval og Val hafði verið ákveðið að franski listamaðurinn Jean-Claude Fournier tæki við seríunni og sá hóf þegar undirbúning að þeirri vinnu. Svalur hafði ekki verið mjög áberandi í Viggó bröndurunum síðustu mánuðina á undan og Valur hætti nú líka skyndilega að sjást því Franquin fannst ekki eðlilegt að hann væri að birtast í tveimur seríum á sama tíma, með tveimur listamönnum og auk þess með tveimur mismunandi teiknistílum. Valur hafði verið ritstjóri tímaritsins SVALS í bröndurunum um Viggó en við hlutverki hans tók nú Eyjólfur. Sá verður jafnvel enn verra fyrir barðinu á Viggó en Valur gerði. Síðasti Viggó brandarinn, þar sem þeir Svalur og Valur komu fyrir í, birtist í SPIROU blaði númer 1576 sem kom út þann 27. júní árið 1968. Þetta var í sérstöku sumarblaði tímaritsins og það var táknrænt að í brandaranum var Franquin búinn að setja þá félaga í frí. Þessi brandari birtist á íslensku í Viggó bókinni Leikið lausum hala sem kom út árið 1980.
Þó Franquin hafi sagt skilið við þá Sval og Val þá varð samleið þeirra með Viggó ekki alveg lokið. Hinn nýji teiknari Svals, Jean-Claude Fournier, stóðst til dæmis ekki þá freistingu að gefa Viggó tækifæri í litlum brandara þar sem Sveppagreifinn kemur við sögu. Í sögunni Le faiseur d'or (Gullgerðarmaðurinn - 1979), sem var fyrsta Sval og Val saga Fourniers eftir að Franquin hætti, hafa þrír bófar á vegum glæpahringsins Þríhyrningsins rænt Greifanum. En í aðdraganda þess höfðu þeir Zorglúbb náð að verjast bófunum vel og tekist að lama einn þeirra með zorgeislum. Glæponarnir hóta Sveppagreifanum öllu illu ef hann aðstoðar þá ekki við að endurheimta heilsu bófans en þá dettur honum í hug að sprella aðeins í þeim og Viggó kemur upp í huga hans.
Reyndar verður að taka það fram að Franquin var Fournier töluvert til aðstoðar í Gullgerðarmanninum og hann sá til dæmis alveg um að teikna Gorm í þessari fyrstu sögu þó hann hafi reyndar ekki gefið leyfi fyrir því að hann yrði notaður seinna í seríunni. En auk þess teiknaði hann einnig nokkrar blaðsíður sögunnar, á meðan Fournier gegndi herþjónustu, og hermdi svona listalega vel eftir teiknistíl hans. Það er því ekki ólíklegt að Franquin hafi einnig átt einhvern hlut að máli við að draga upp þessa mynd af Viggó viðutan. Ekki minnist SVEPPAGREIFINN (þ.e. ritari þessa texta) þess þó að þeir Viggó hafi nokkurn tímann áður hist þótt augljóst sé að þeir þekki eitthvað til hvors annars. Í SPIROU blaði númer 1579, sem kom út þann 18. júlí árið 1968, má til dæmis sjá mynd af Sveppagreifanum upp á vegg hjá Viggó á ritstjórnarskrifstofunni.
En til að ljúka þessari færslu er rétt að benda á tvo stóra aðila úr seríunni um Viggó viðutan sem komu merkilega seint til sögu hennar. Þarna er reyndar ekki um að ræða eiginlegar sögupersónur því hér erum við að tala um köttinn góða og mávinn. Þeir birtust báðir í fyrsta sinn í sama brandaranum og reyndar kom gullfiskurinn Gulli þar einnig við sögu þó ekki yrði hann reyndar jafn langlífur og hinir. Þeir félagar (reyndar er kisi sterklega grunaður um að vera læða) slógu þarna strax í gegn, komu algjörlega með nýjan vínkil á seríuna með Viggó og voru nýttir rækilega á síðum tímaritsins á næstu misserum. Þeir urðu strax endalaus uppspretta margra góðra brandara og juku á fjölbreytileika þeirra svo um munaði. Þessi fyrsti brandari þeirra kisu og mávsins birtist í tölublaði SPIROU númer 1672 sem kom út þann 30. apríl árið 1970 en hann kemur einnig fyrir á fyrstu blaðsíðunni í Viggó bókinni Með kjafti og klóm sem Iðunn gaf út árið 1983.

2 ummæli:

  1. Frábær pistill. Ég er mikill aðdáandi Viggós.

    SvaraEyða
  2. Þakka þér enn og aftur.

    Viggó viðutan er alveg einstaklega skemmtilegt viðfangsefni og líklega í mestu uppáhaldi hjá mér til að fjalla um hér.

    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!