20. september 2019

129. EILÍTIÐ UM ÍSLENSKU ÁSTRÍKS BÆKURNAR

SVEPPAGREIFINN hefur verið að dunda sér, undanfarin ár, við að halda úti þessari bloggsíðu sem fjallar um eitt af hans helstu áhugamálum - þ.e. um þær teiknimyndasögur sem gefnar voru út hér á landi á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Tæplega 130 færslur hafa nú litið dagsins ljós og heilt yfir teljast þær líklega jafn fjölbreytilegar eins og þær eru margar. Vinsælustu myndasögurnar eins og Tinni, Svalur og Valur, Viggó og Lukku Láki eru líklega þær seríur sem hafa fengið hvað mestu umfjöllunina hjá SVEPPAGREIFANUM en þó reynir hann eftir megni að hafa fjölbreytnina sem mest í fyrirrúmi. Það kom honum því algjörlega í opna skjöldu þegar hann uppgötvaði að ein af bestu og vinsælustu myndasöguseríunum hefur nánast ekki fengið eina einustu umfjöllun. Þarna er SVEPPAGREIFINN að sjálfsögðu að tala um Ástríks bækurnar frábæru og honum er hreinlega ekki stætt á öðru en að bæta úr þeim skorti hið snarasta.
En það var árið 1974 sem íslensk börn og unglingar fengu fyrst að kynnast sögunum um Ástrík Gallvaska og félaga hans frá Gaulverjabæ. Undanfarin þrjú árin á undan hafði bókaútgáfan Fjölvi, með Þorstein Thorarensen við stjórnvölinn, sent frá sér sex bækur um ævintýri Tinna við miklar vinsældir og útgáfan sá nú tækifæri til landvinninga á fleiri vinsælum myndasöguvígstöðvum. Fyrir jólin þetta ár bættust því ekki aðeins fjórar nýjar Tinna bækur í safnið heldur hóf Fjölvi nú einnig útgáfu á nýjum myndasöguseríum um Alex hugdjarfa og Ástrík og víðfræg afrek hans. Þótt bækurnar um Ástrík hafi reyndar ekki komið fram með neinum látum í fyrstu (þær voru til dæmis ekkert auglýstar í dagblöðunum) urðu þær strax nokkuð áberandi enda svo sem ekki úr miklu úrvali að moða í myndasöguhillum bókabúðanna. Heilar þrjár bækur í þessari nýju seríu stóðu nú nýhungruðum myndasögulesendum skyndilega til boða og hinir ungu íslensku aðdáendur þeirra voru fljótir að grípa gæsina. Bækurnar þrjár voru; Ástríkur Gallvaski (Astérix le Gaulois - 1961), Ástríkur og Kleópatra (Astérix et Cléopâtre - 1965) og Ástríkur í Bretalandi (Astérix chez les Bretons - 1966). Þessi nýji bókaflokkur var þó ekki með sömu vönduðu harðspjaldakápurnar og Tinna bækurnar eða bókin eina um Alex. Ástríkur var í heldur minna og mýkra kiljubroti og bækurnar um hann voru því miklu viðkvæmari fyrir hnjaski. Og þar með er komin helsta skýringin á því hvers vegna svo fáar af þessum bókum hafa varðveist almennilega með tímanum.
Sögurnar um Ástrík urðu geysivinsælar og höfðu strax þá sérstöðu, fram yfir Tinna bækurnar, að þær höfðuðu einnig til aðeins eldri lesenda. Það var þó alveg vitað að margir foreldrar væru svo sem líka alveg að laumast til að lesa Tinna bækurnar. Þorsteinn hafði verið í reglulegu sambandi við Dargaud bókaútgáfuna í Frakklandi, með útgáfu í huga, og gat þar valið úr nokkuð fjölbreytilegu úrvali af myndasöguseríum. Hann ákvað síðan að endingu að slá til með bækurnar um Ástrík. Fjölvi var því nánast alveg einráður á íslenska myndasögumarkaðnum stóran hluta áttunda áratugarins því bækurnar um Tinna og Ástrík voru í raun einu teiknimyndasögurnar (fyrir utan þessa einu bók um Alex) sem komu út hér á landi allt til ársins 1977. Það ár breyttist hins vegar ansi mikið í útgáfu teiknimyndasagna á Íslandi en það er allt önnur saga.
Árið 1975 bættust við þrjár Ástríks bækur í viðbót. Þetta voru sögurnar Ástríkur og (æðisleg) bændaglíman (Le combat des chefs - 1966), Ástríkur (smár en knár) Ólympíukappi (Astérix aux jeux olympiques - 1968) og Ástríkur og (rómverski) flugumaðurinn (La zizanie - 1970). Næsta ár komu enn þrjár bækur í viðbót og þar var um að ræða bækurnar Ástríkur á Spáni (Astérix en Hispanie - 1969), Ástríkur skylmingakappi (Astérix gladiateur - 1964) og Ástríkur í útlendingahersveitinni (Astérix légionnaire - 1967). Þessar fyrstu níu bækur sá Þorbjörn Magnússon um að snara yfir á íslensku en Þorsteinn Thorarensen greindi frá því í viðtali löngu seinna að hann sjálfur hefði bætt um betur og útfært texta Þorbjörns eftir á, eftir eigin höfði, upp á íslenskan húmor. Reyndar segir sagan að Þorbjörn hafi einnig sjálfur verið flínkur við að heimfæra textann upp á sambærilegan máta. Hið sama gerði Þorsteinn einnig með bókina Ástríkur heppni sem Þór Stefánsson þýddi og kom út árið 1977. Þeir Þorbjörn og Þór voru þó einir skrifaðir fyrir þýðingunum en frá og með Ástrík og gjafir Sesars árið 1979 sá Þorsteinn alfarið um allar þýðingarnar. Þegar Ástríkur Gallvaski var endurútgefin hjá Fjölva árið 1982 voru þeir Þorbjörn og Þorsteinn þó báðir skrifaðir fyrir þýðingunni á þeirri sögu. 
Á titlum þeirra Ástríks bóka sem út komu árið 1975 má einmitt sjá hvernig Þorsteinn hefur bætt við svolitlum undirtitli sem ekki var gert ráð fyrir í upprunalegu útgáfunum. Þá heimfærði hann sögurnar sjálfar einnig töluvert upp á íslenskan veruleika, eins og áður var vikið að, og margoft hefur verið talað um að textinn í íslensku útgáfunum sé jafnvel betri en í frumútgáfunum. Þannig fór Þorsteinn oft sínar eigin leiðir til að krydda sögurnar á þann hátt sem honum sýndist en slíkt kæmust þýðendur bókanna aldrei upp með í dag. Krafa hinna frönsku rétthafa Ástríks bókanna er í dag sú að þýðingarnar séu nákvæmlega eins og frumtextinn og því er fylgt stranglega eftir. Því til stuðnings má nefna að þegar Froskur útgáfa hóf að gefa út Ástríks bækurnar á ný, fyrir fáeinum árum, þá gerðu rétthafarnir athugasemd við skemmtilega þýðingu þeirra Braga Valdimars Skúlasonar, Hildar Bjarnason og Anitu K. Jónsson á skringilegu tali Skotans Mak Legs í bókinni um Ástrík í Piktalandi. Frakkarnir komu í veg fyrir þá útfærslu í bókinni en Froskur leysti það á þann frábæra hátt að bjóða kaupendum bókanna límmiða endurgjaldslaust, með skemmtilegri þýðingunni, sem þeir gætu límt yfir hina myndina. Límmiðaútgáfan er sú til hægri.
En árið 1977 var komið að bókunum Ástríkur heppni (La grande traversée - 1975), Ástríkur og falsspámaðurinn (Le devin - 1972) og Ástríkur og Gotarnir (Astérix et les Goths - 1963). Fjölvaútgáfan gaf Ástríki svolítið frí frá útgáfu sinni á árinu 1978 því engin bók kom út hjá seríunni það ár. Allar Tinna bækurnar voru þá komnar út (fyrir utan Tinna í Sovétríkjunum) og forlagið var svolítið að einbeita sér að bókunum um Lukku Láka þetta ár. En alls gaf Fjölvi út heilar ellefu sögur úr þeirri seríu árið 1978. Árið 1979 hélt Þorsteinn Thorarensen og Fjölvi þó áfram að gefa út Ástríks bækurnar en það ár komu út þrjár sögur úr bókaflokknum. Þetta voru bækurnar Ástríkur og (vafasamar) gjafir Sesars (Le cadeau de César - 1974), Ástríkur og lárviðarkransinn (Les lauriers de César - 1972) og Ástríkur (með innistæðu) í Heilvitalandi (Astérix chez les Helvêtes - 1970). Og enn bætti Þorsteinn við aukatexta í titla tveggja þessara bóka.
Árið eftir fór heldur að hægjast á útgáfunni og þá kom aðeins út ein saga, Ástríkur og Þrætugjá (þjóðfélagsins) (Le grand Fossé - 1980) en af einhverri ástæðu er brotið á þeirri bók um hálfum sentimetra lægra en á hinum bókunum í seríunni. Sem gerir það að (hinum hvimleiðu) verkum að hæð hennar er ekki í neinu flútti við hinar Ástríks bækurnar í myndasöguhillunum. En árið þar á eftir, 1981, kom einnig bara út ein bók. Það var sagan Ástríkur og grautarpotturinn (Astérix et le chaudron - 1969). Árið 1982 var síðan síðasta árið sem Þorsteinn Thorarensen og Fjölva útgáfan gáfu út sögu með Ástríki. Það ár kom út bókin Ástríkur á hringveginum (Le tour de Gaule d’Astérix - 1965) en áður hefur aðeins verið minnst á endurútgáfu fyrstu sögunnar, Ástríks Gallvaska, sem einnig kom út árið 1982. Sú útgáfa af bókinni var að mestu leyti eins og fyrsta útgáfa hennar. Þó er eilítill blæbrigðamunur á litnum á kjölum og bakhliðum útgáfanna, þar sem eldri útgáfan er örlítið dekkri, auk þess sem eðlilega er svolítill mismunur á fjölda útgefinna titla á bakhliðum bókanna. Þá er nafn teiknarans Uderzo ekki, einhverra hluta vegna, staðsett á nákvæmlega sama stað á kápumyndinni á framhliðum útgáfanna tveggja.
Komið hefur fram að Þorsteinn Thorarensen hafi oftast stuðst við frönsku útgáfurnar af bókunum við þýðingar sínar en líklega haft bæði danskar og enskar útgáfur til hliðsjónar. Danskar þýðingar á myndasögum voru áður fyrr oft á tíðum nokkuð frjálslegar og vera má að Þorsteinn Thorarensen hafi tekið þær að einhverju leyti sér til fyrirmyndar. En einnig er vel þekkt að þýðingar geta auðveldlega brenglast og glatað upphaflegu merkingunni þegar efnið er ekki þýtt beint úr upprunalega textanum. Þetta á auðvitað sérstaklega við þegar hann er búinn að ganga í gegnum óþarflega marga milliliði með þýðingum af enn öðrum þýðingum. SVEPPAGREIFANUM er ekki almennilega kunnugt um hvernig réttindahafamálum Ástríks bókanna var háttað á Íslandi. Fjölvaútgáfan fékk þó leyfi hjá Dargaud í Frakklandi árið 1974, eins og áður hefur verið nefnt, til að gefa út Ástrík og síðasta sagan hjá þeim kom út árið 1982 áður en þeir misstu réttindin. Sama ár kom síðan skyndilega út Hrakningasaga Ástríks (L’Odyssée d’Astérix - 1981) sem Gutenburgs Hus í Danmörku gaf út. Sagan segir að danska fyrirtækið hafi talið sig eiga útgáfuréttinn af Ástríks bókunum á Íslandi og þannig bolað Fjölva út af þeim markaði. Þetta sama útgáfufyrirtæki seldi á sínum tíma blöðin um Anders and & co til Íslands og kom lengi í veg fyrir að Andrés blöðin kæmu út á íslensku frá íslenskum aðilum. Árið 1983 kom síðan út sagan Ástríkur og sonur (Le fils d’Astérix - 1983) hjá Egmont bókaútgáfunni kunnu sem heyrir undir sama aðila. Það voru þau Sigurlín Sveinbjarnardóttir og Peter Rasmussen sem sáu um að snara þessum tveimur sögum úr dönsku og yfir á íslensku. Eftir þessar tvær bækur lognaðist útgáfa Ástríks bókanna á íslensku alveg niður um langt árabil og var ekki endurreist aftur fyrr en rúmlega 30 árum seinna. 
Það var því ekki fyrr en í október árið 2014 sem aðdáendur Ástríks bókanna á Íslandi gátu tekið gleði sína á ný. Þá hafði Froskur útgáfa fyrir nokkru byrjað að kæta íslenska myndasöguunnendur með nýjum teiknimyndasögum og Ástríkur og víkingarnir (Astérix et les Normands - 1967) var fyrsta sagan í bókaflokknum síðan árið 1983. Sú saga seldist reyndar upp og árið eftir var 2. útgáfa bókarinnar prentuð ásamt nýrri útgáfu af hinni gamalkunnu bók Ástríki og Kleópötru sem Fjölvi hafði gefið út árið 1974. Síðarnefnda sagan hafði verið þýdd upp á nýtt og nú samkvæmt ströngustu fyrirmælum frönsku útgefandanna. Bókin Ástríkur í Piktalandi (Astérix chez les Pictes - 2013), sem aðeins var minnst á hérna fyrr í færslunni, kom síðan út árið 2016 og árið eftir gaf Froskur út nýja þýðingu af sögunni um Ástrík og Gotana sem áður hafði komið út hér á landi árið 1977. Nýjasta bókin um Ástrík á íslensku kom síðan út nú á þessu ári þegar sagan Ástríkur - Hinn stolni papýrus Sesars (Le Papyrus de César - 2015) var gefin út hjá Froski en um leið var 3. útgáfan af hinni marguppseldu sögu Ástrík og víkingunum prentuð. Alls hefur Froskur útgáfa því sent frá sér fimm bækur úr seríunni eftir að hún var endurreist hér á landi og að þessu sinni eru bækurnar í vandaðri harðspjaldaútgáfu. Hildur Bjarnason hefur verið helsti þýðandi Froska að Ástríks bókunum en einnig hafa þau Anita Jónsson og Bragi Valdimar Skúlason komið að þeirri vinnu. Í heildina hafa því komið út 23 bækur á Íslandi með Ástríki en í upprunalegu seríunni eru sögurnar nú alls orðnar 38 talsins
Og svo má ekki gleyma einu í þessari upptalningu. Þann 3. febrúar árið 1979 hóf göngu sína sagan Ástríkur á Goðabakka (Le Domaine des dieux - 1971) í lesbók Morgunblaðsins sem margir muna eftir. Á hverjum laugardegi birti Lesbókin eina blaðsíðu úr þeirri sögu en birtingu hennar lauk þann 1. mars árið 1980. Næsta laugardag á eftir hófst síðan sagan Ástríkur og gullsigðin (La Serpe d'or - 1962) í blaðinu og síðasta blaðsíðan í þeirri sögu kom fyrir sjónir lesenda þann 20. júní árið 1981. Ekki kemur nein staðar fram hver sá um þýðingarnar á þessum sögum en þær voru birtar í samráði við Fjölva útgáfuna svo gera má ráð fyrir að Þorsteinn Thorarensen sjálfur hafi annast þær. Báðar þessar sögur voru settar upp með sama handskrifaða letursniðinu og í bókaútgáfunum og því mætti áætla að þær hafi verið ætlaðar til bókaútgáfu seinna. Svo varð þó því miður aldrei.
Fyrstu kynni SVEPPAGREIFANS af Ástríks bókunum eru í minningunni svolítið óljós. Hann minnist þess þó að þeir bræðurnir hafi fengið "lánaðar" fáeinar Ástríks bækur hjá mági móður þeirra, sem þá var sennilega farinn að nálgast 25 ára aldurinn, og lesið þær upp til agna - bókstaflega. Alla vega á þann hátt að þeim var líklega aldrei skilað aftur. Að öllum líkindum hefur þetta verið árið 1976 og miðað við þann fjölda bóka sem bræðurnir tveir fengu þarna í hendurnar hafa þessar tilteknu myndasögur líklega verið megnið af þeim Ástríks bókum sem þá voru búnar að koma út hér á landi. Á þessum tíma var SVEPPAGREIFINN og bróðir hans þá þegar búnir að kynnast Tinna bókunum mjög vel og eignast þó nokkrar þeirra en höfðu um leið einnig verið vel meðvitaðir um tilurð Ástríks bókanna úr hillum bókabúðanna. Þeir voru þannig mjög vel að sér um útgáfu þeirra teiknimyndasagna sem voru að koma út hér á landi, alveg frá byrjun, þó þeir hafi ekki lagt áherslu á að eignast bækurnar um Ástrík alveg strax. En það var gert seinna. Ástríkur hitti alla vega beint í mark og bræðurnir tveir skoðuðu "lánuðu" bækurnar spjaldanna á milli. Jafnvel svo vel að bakhliðar bókanna, með útgefnum bókatitlum, voru einnig krufðar til mergjar og ítrekað velt því fyrir sér að reyna að verða sér úti um hina vandfundnu Ástríks bók Út eru komnar.
Um svipað leyti minnist SVEPPAGREIFINN einnig tveggja útsaumaðra púða, með tveimur af sögupersónunum úr Ástríks bókunum, sem þeir bræður höfðu fengið að gjöf frá móður sinni. Þarna var um að ræða sömu myndir og sjá má fremst í Ástríks bókunum, þar sem nokkrar af aðal persónunum eru kynntar til sögunnar, en á púða SVEPPAGREIFANS gat að líta seiðkarlinn Sjóðrík við pott sinn. Af þeirri ástæðu varð Sjóðríkur því líklega í einna mestu uppáhaldi af sögupersónum seríunnar á hans yngri árum. Ef rétt er munað átti bróðir SVEPPAGREIFANS hins vegar púða með myndinni af Ástríki sjálfum. Því miður eru þessir handverkspúður þeirra bræðra, frá móður sinni heitinni, löngu týndir og tröllum gefnir.
Á unglingsárunum dvínaði áhugi SVEPPAGREIFANS á teiknimyndasögum mjög og önnur töluvert meira óheilbrigðari og mannskemmandi áhugasvið náðu yfirhöndinni í lífi hans. Bækurnar voru þó alltaf til og aldrei kom honum til hugar að losa sig við þessar gersemar. Þær voru því aðallega geymdar en ekki gleymdar. Í fyrstu á heimili foreldra hans úti á landi en seinna í kössum inni í geymslum ásamt öðrum lítt notuðum fylgihlutum hans úr búslóðum fyrstu fullorðinsáranna. Einhverju sinni missti SVEPPAGREIFINN það út úr sér við vinnufélaga sinn að hann ætti heilu kassana af teiknimyndasögum, og þar með talið Ástríks bækurnar, í geymslu fyrir austan fjall. Sá vildi samstundis koma honum í samband við breskan aðila sem væri að safna einni tiltekinni bók, Ástrík í Bretalandi, á öllum útgefnum tungumálum og væri tilbúinn að borga vel fyrir hans slaka eintak. Þó SVEPPAGREIFINN hefði þá ekki flett þessari bók sinni í mörg ár þá hvarflaði ekki einu sinni að honum að láta freistast. Í dag hefur sú bók verið gefin út á 47 tungumálum og vonandi hefur sá breski eignast sitt íslenska eintak eftir einhverjum öðrum leiðum.
Það var svo líklega fljótlega upp úr aldamótunum sem einhver vakning varð í höfði SVEPPAGREIFANS um að endurvekja kynni sín af öllum þessum myndasögum sínum. Þá hafði áhugamálið geymda legið algjörlega í dvala í líklega tólf til fjórtán ár. Í kjölfarið fór hann að grípa ódýr og vel með farin eintök af þeim bókum sem á vegi hans urðu, og vantaði í safnið, auk þess sem betri eintök voru keypt af þeim bókum sem illa voru farnar. SVEPPAGREIFINN var alltaf með lista af þeim bókum sem hann vildi eignast og smán saman bættust nýjir og betri gripir í safnið þó enn væri það að mestu áfram geymt í kössum. Sennilega hafa margir þeirra sem lásu teiknimyndasögur í æsku og voru af sömu kynslóð svipaða sögu að segja. Lukku Láki fékkst á Bókamarkaðnum í Perlunni, Sval og Val bók fannst í Góða hirðinum þegar hann kom til sögunnar, ein og ein Tinna og Ástríks bók í Kolaportinu og svo framvegis. Á þann hátt hafa nánast allar Ástríks bækurnar komist í eigu SVEPPAGREIFANS og hann uppgötvaði við vinnu þessarar færslu að hann hefur ekki keypt eina einustu Ástríks bók um ævina nýja. Fyrstu bókina, Ástrík og Gotana, fékk hann reyndar glænýja að gjöf og þannig var einnig líklega með einhverjar aðrar sögur úr seríunni en flestar bókanna í æsku hafði hann nálgast á ódýran hátt í fornbókaverslunum.

5 ummæli:

  1. Virkilega góður pistill. Hef alltaf haldið mikið uppá Ástrík. Vantar bara eina í safnið en það er Ástríkur og Kleopatra fyrsta útgáfa. Það er ljúfsárt að eiga hana eftir því hún réttlætir ferðir á markaði að leita að henni.

    SvaraEyða
  2. Takk fyrir. Ég þekki vel þá tilfinningu að vera að leita að ákveðnu myndasögueintaki sem vantar. Og svo þegar það er loksins komið í höfn, eftir jafnvel margra ára leit, þá finnur maður fyrir ákveðinni fullnægju en samt líka tómleikatilfinningu. En það varir ekki lengi því fljótlega fer maður aftur af stað til að finna betra eintak af einhverri annarri bók úr seríunni :D

    Hjá mér vantar enn eintak af Ástrík skylmingakappa og Gjöfum Sesars en þau munu koma með tíð og tíma.

    Og auðvitað betri eintök af nokkrum öðrum...

    Kv.
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  3. Fyrir örfáum dögum eignaðist ég Ástrík í Belgiu, á norsku. Þar heitir hún Styrkeproven. Vegna þess að mig vantaði hana í safnið á Íslensku freistaðist ég til að kaupa hana.




    SvaraEyða
  4. Villi Kristjáns28. sep. 2019, 16:59:00

    Þetta var ég

    SvaraEyða
  5. Frábært að Froskur skuli vera að gefa út þessar sögur á ný og vonandi upplifir maður það einhvern tímann að geta lesið allar Ástríks bækurnar á íslensku.

    Alls eru þessar sögur nú orðnar 38 talsins og ég held að ég geti fullyrt að ég eigi orðið þær allar nema þá nýjustu sem kom út í sumar. En reyndar eru þær líklega á 8 eða 9 mismunandi tungumálum (fyrir utan íslensku bækurnar) í myndasöguhillunum og því fæstar á máli sem ég get lesið. Svona er maður klikkaður :)

    Kv.
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!