11. desember 2020

180. HVÍTA TINNA SAGAN

SVEPPAGREIFINN hefur í fáein skipti rýnt aðeins í nokkrar Tinna bækur hér og fjallað um þær breytingar sem urðu á stökum sögum frá því þær birtust fyrst í Le Journal de Tintin (Tinna tímaritinu) og þar til endanleg útgáfa þeirra kom út í bókaformi. Í því samhengi má nefna færslur um bækurnar Tinna og Pikkarónana, Kolafarminn, og einnig tunglbækurnar tvær. Fleiri Tinna bækur höfðu þó gengið í gegnum sambærilegar yfirhalningar og að þessu sinni er ætlun SVEPPAGREIFANS að taka fyrir nokkrar mis-veigamiklar breytingar á bókinni Tintin au Tibet (Tinni í Tíbet) frá árinu 1960. Um leið er líka tilvalið að nota tækifærið til að minnast einnig aðeins á fáeina athyglisverða og skemmtilega punkta sem tengjast þessari sögu. Tinni í Tíbet hefur af mörgum verið talin ein af bestu bókum höfundarins Hergé um Tinna og óhætt er að segja að sagan sé hans persónulegasta. SVEPPAGREIFINN hefur reyndar aðeins minnst á þessa myndasögu í færslu hér áður en það var í tengslum við nokkuð framandi eintak sem honum áskotnaðist af bókinni. En um það leyti sem Hergé vann að þessari sögu hafði hann verið að glíma við þunglyndi, auk togstreitu í einkalífinu og margoft hefur verið greint frá einkennilegum draumförum listamannsins á þessum tíma. Draumar hans eða martraðir snerust um hvítar og yfirþyrmandi litabreiður, sem hann túlkaði sem snjó, og voru mjög raunverulegar. Honum var meira að segja ráðlagt, af svissneskum sálfræðingi, að taka sé hvíld frá þessu verkefni eða jafnvel að hætta alveg með það. En með því að teikna hina hvítu sögu sína um Tinna í Tíbet tókst honum að vinna sig út úr þessum undarlegu draumförum. Afraksturinn varð þessi frábæra saga sem SVEPPAGREIFINN telur klárlega til einna af sínum uppáhalds Tinna bókum. En sagan Tintin au Tibet hóf göngu sína í Le Journal de Tintin tímaritinu í Belgíu þann 17. september árið 1958 og af því tilefni prýddi þessi mynd Hergés framhlið blaðsins.
Forsíðunni óvenjulegu var fyrst og fremst ætlað að vekja athygli á hinni nýju Tinna sögu í blaðinu og óhætt er að segja að myndin hafi vakið nokkra athygli. Þegar birtingu sögunnar lauk, í nóvember árið eftir (1959), hófst síðan hefðbundinn undirbúningur að því að gefa hana út í bókarformi hjá belgísku Casterman útgáfunni. Hergé, sem hafði teiknað söguna undir hinum áðurnefndu hvítu áhrifum í draumum sínum, teiknaði þá upp nýja bókarkápu sem byggð var á þessari forsíðu Le Journal de Tintin. Honum fannst kápumyndin lýsa vel þeim hughrifum sem hann upplifði við vinnslu sögunnar en forráðamönnum Casterman hugnaðist þó ekki þessi útfærsla hans. Myndin á kápunni var undirlögð af hvítum kaffærandi hreinleika sem um leið undirstrikaði mikilfengleika umhverfisins í kring. Þessi yfirþyrmandi hvíti litur fór þó eitthvað fyrir brjóstið á útgefundunum og þeir kröfðust þess að Hergé bryti myndina upp á einhvern hátt. Stjórnendum Casterman útgáfunnar fannst bókarkápan of abstrakt fyrir hinn unga markhóp Tinna bókanna og þessar ofurhvítu snjóbreiður hentuðu ekki sem mjög söluvæn vara. Hergé samþykkti því, með semingi þó, að breyta kápunni á þann veg að blár himininn og tröllslegur fjallgarðurinn sæjust í bakgrunninum í fjarska en hann var skiljanlega aldrei ánægður með þá ákvörðun.
En strax á fremstu blaðsíðu sögunnar má sjá hvar gerðar voru fáeinar breytingar fyrir bókaútgáfuna árið 1960. Hér fyrir neðan má einmitt sjá fyrstu myndaraðirnar eins og þær birtust í
Le Journal de Tintin en þar efst mátti sjá eina breiða mynd sem hinir almennu lesendur bókarinnar kannast væntanlega ekkert við. Myndin var nefnilega felld út fyrir bókaútgáfuna og kom því aldrei aftur fyrir sjónir annarra lesenda en þeirra sem lásu tímaritið á sínum tíma. Þessar breytingar voru sambærilegar við þær sem gerðar voru í sögunum um Kolafarminn og Eldflaugastöðina, þar sem efsta myndaröðin hafði einnig verið felld út, og SVEPPAGREIFINN hefur fjallað um hér áður. Í stað þessara mynda eða myndaraða hefur titli sögunnar hins vegar verið komið þar fyrir. Í tímaritsútgáfunni gefur á að líta fallega yfirlitsmynd af fjallaþorpinu þar sem þeir Tinni, Tobbi og Kolbeinn dvelja í byrjun sögunnar. Á skiltinu til vinstri kemur það fram að þorpið nefnist Vargese en það er þó ekki til í alvörunni og mun vera hreinn tilbúningur Hergé. Hins vegar virðist útlit þess vera að miklu leyti innblásið af alpaþorpinu St-Gervais-les-Bains sem staðsett er í Haute Savoie héraðinu í Frakklandi og myndir af þeim fallega stað virðast taka undir það. Í íslensku útgáfunni af bókinni kemur hins vegar fram að dvalarstaður þeirra Tinna og Kolbeins nefnist Tindfjallahótel og er staðsett í Kerlingarfjöllum. Húmor þeirra Lofts og Þorsteins hjá Fjölva var einstakur!
En þarna sést hvar Tinni kemur röltandi ofan úr fjöllunum með Tobba, við hlið sér, hundfúlan yfir uppátækjum húsbóndans. Ef grannt er skoðað sést líka hvar Tinni arkar í urðinni klæddur negldum gönguskóm. Ungur lesandi Le Journal de Tintin, sem um leið var einnig áhugamaður um fjallgöngur, skrifaði Hergé bréf og benti honum á að gönguskór með nöglum undir væru fyrir nokkru orðnir úreltir. Skór með þykkum gúmmísólum væru orðnir algengari og almennt komnir í miklu meiri notkun hjá útivistarfólki. Hergé tók tillit til þessarar ábendingar og breytti skónum fyrir bókaútgáfuna þannig að þar skartar Tinni þessum fínu gönguskóm með gúmmísólum.
Það er kannski rétt að taka það fram að upphaflega hafði Hergé svolítið aðrar hugmyndir um heiti sögunnar. Sagan segir að hann hafi verið með titilinn Le Museau de la vache í huga fyrst þegar hann hóf að teikna hana en samkvæmt franskri þýðingu Greifynjunnar (sem er auðvitað hinn miklu betri helmingur SVEPPAGREIFANS) myndi það þýðast sem Trýni kýrinnar (eða kannski Nef kýrinnar) á íslensku. Svipaðar niðurstöður gáfu Google translate en ef einhver lesandi síðunnar treystir sér til að gefa betri útkomu má hinn sami gjarnan gefa sig fram.
Aðrar hugmyndir Hergé voru af svipuðum toga og heiti eins og Le museau de l'Ours og Le museau du branco komu líka fram. Við fyrstu sýn virðist Trýni kýrinnar ekkert svo fjarstæðukennt eða langsótt því þarna mætti leiða líkum að því að hinar heilögu kýr Indlands, sem bregður reyndar fyrir í bókinni, kæmu eitthvað við sögu. En svo er þó ekki. Þarna er einfaldlega verið að vísa til fjallstindsins eða klettadrangsins sem kemur fyrir undir lok sögunnar þegar þeir Tinni og Kolbeinn nálgast endamarkið. Sá tindur kallaðist Jakmúli í íslensku þýðingunni og er þar kenndur við uxahorn en á frummálinu var trýnið/nefið (Museau) alltaf hugmyndin. Á blýantsskissum af frumteikningum fyrstu blaðsíðu sögunnar má einmitt finna titilinn (Le Museau de la vache) skrifaðan ofarlega á efstu myndinni. 
En ástæðan fyrir því að sagan hlaut ekki nafnið
Le Museau de la vache var einfaldlega sú að forráðamenn Casterman höfnuðu því. Forlagið átti auðvitað útgáfuréttinn af bókunum og var heilmikið með puttana í vinnu og undirbúningi Hergé og þeir settu sig upp á móti þessum titli strax í júlí árið 1958. Það var meira að segja löngu áður en sagan var tilbúin eða byrjuð að birtast í Le Journal de Tintin. Casterman fannst mikilvægara, af markaðslegum ástæðum, að titillinn yrði einfaldur og auðskilinn svo Tintin au Tibet varð fyrir valinu og Hergé þurfti að gefa eftir upphaflegu hugmyndina. En af stærri breytingum sem gerðar voru á sögunni mætti helst nefna eitt atvik sem sleppt var í lokaútgáfunni þegar bókin kom út. Á blaðsíðu 37 staldra þeir Tinni, Kolbeinn og sjerpinn Terki aðeins við til að ráða ráðum sínum í leitinni að Tsjang. Terki hefur ákveðið að segja skilið við þá félagana (hann sneri reyndar aftur til þeirra stuttu síðar) og Tinni gerir upp við hann á meðan Kolbeinn notar tækifærið og fer að hita handa þeim kaffi. Kafteininum verður það hins vegar á að sprengja upp prímusinn og í næstneðstu myndaröðinni á síðunni má sjá hvar Kolbeinn situr eftir, kolringlaður á snævi þaktri jörðinni, með skíðlogandi prímusinn fyrir framan sig.
Þegar hér var komið sögu vantar hins vegar heila blaðsíðu úr upprunalegu útgáfunni sem birtist í
Le Journal de Tintin tímaritinu. Á þeim tólf myndarömmum sem vantar í bókaútgáfuna má sjá hvar Tinni stekkur snarlega til og sparkar logandi eldunarbúnaðnum burt frá bakpoka Kolbeins. Hann meiðir sig hins vegar við verknaðinn auk þess sem Kolbeinn fær yfir sig fullt ílát með einhverju góðgæti sem hann hafði einnig verið að hita upp. Tinni biðst afsökunar á að hafa sparkað matnum yfir Kolbein og þegar kafteinninn fer að kanna skemmdirnar á bakpokanum sínum hefjast miklar flugeldasprengingar allt í kringum þá. Tinni hafði þá óvart sparkað logandi prímusnum í áttina að öðrum farangri þeirra sem hafði að geyma kassa með neyðarflugeldum og þeir síðan farið að springa út frá logunum. Tinni, Kolbeinn, Terki og Tobbi eiga því þarna fótum sínum fjör að launa.
Næsta myndaröð á eftir birtist síðan neðst á blaðsíðu 37 í sjálfri bókinni og þar kannast lesendur væntanlega aftur við sig eftir þessa týndu og óvæntu atburðarás. Þeir félagarnir kveðjast og Terki heldur heim á leið (í bili) en Tinni og Kolbeinn halda áfram för sinni í leit að Tsjang. Líkt og í Tinna og Pikkarónunum birtust því upphaflega 63 síður af Tinna í Tíbet í
Le Journal de Tintin tímaritinu.
Atburðarásinni með neyðarflugeldunum var því sleppt og þessar fjóru myndaraðir, auk allra fyrsta myndaramma sögunnar, voru þess vegna eina efnið úr sögunni sem var hent út fyrir bókaútgáfuna. En fleiru var þó breytt þótt það væri ekki endanlega fjarlægt úr sögunni. Þegar Hergé hóf undirbúninginn að Tinna í Tíbet, í byrjun árs 1958, var hann auðvitað búinn að móta hugmyndir að handriti auk þess sem hann var að vinna að því að grófteikna eða rissa upp flesta ramma sögunnar. Þá var komið að ýmiskonar undirbúningi áður en farið var að teikna upp sjálfa söguna en með tímanum hafði Hergé orðið nákvæmari og lagt heilmikið á sig til að vandvirknin yrði sem mest. Smáatriðin skiptu hann miklu máli og við undirbúning Tinna í Tíbet hafði hann
til dæmis samband við flugfélagið Air India og óskaði eftir gögnum frá þeim. Þannig gæti hann teiknað Douglas DC 3 vél, sem kæmi fyrir í sögunni. Flugfélagið varð við þessari beiðni Hergé og sendi honum bæði ljósmyndir og auglýsingabæklinga og listamaðurinn þakkaði kærlega fyrir gögnin. Þegar sagan birtist síðan loksins í Le Journal de Tintin kom auðvitað í ljós að þessi DC 3 vél hefði lent í flugslysi í Himalaja fjöllum. Í frétt sem þeir Tinni og Kolbeinn lesa í dagblaði á Tindfjallahótelinu, á blaðsíðu 2, er sagt frá slysinu og að vélin hafi verið á vegum tilbúins flugfélags sem nefnist Indian Airways í sögunni. Þótt flugfélagið héti þar Indian Airways en ekki Air India höfðu Hergé og hans fólk teiknað vélina sem lenti í flugslysinu, af einhverri ástæðu, nákvæmlega í litum síðarnefnda fyrirtækisins og á stéli flugvélarinnar sást lógó félagsins einnig greinilega. Þetta kom mjög skýrt fram á frábærri og sígildri mynd af flakinu á blaðsíðu 28. 
Og ekki nóg með það heldur var nafn flugfélagsins Air India
, fyrir mistök, teiknað á vélina, í stað Indian Airways, á mynd sem kemur fyrir á blaðsíðu 58. Þar er Tsjang að fara yfir atburðarásina eftir á með þeim Tinna og Kolbeini og með frásögninni er mynd af DC 3 vélinni sem teiknuð var beint upp úr auglýsingabæklingi flugfélagsins. Allt þetta birtist einnig í fyrstu bókaútgáfunum án þess að stjórnendur Air India höfðu gert við þær nokkrar athugasemdir. Það var ekki fyrr en árið 1964 sem þeir höfðu samband við Casterman útgáfuna og kvörtuðu þá sáran. Forsvarsmenn flugfélagsins töldu að hið keimlíka nafn flugfélagsins í sögunni (Indian Airways) gæti valdið Air India tjóni og vildu ekki að hægt væri að bendla fyrirtækið á neinn hátt við flugslysið í Nepal. Þeir fóru því fram á það við Hergé að hann myndi skipta um nafn á flugfélaginu í sögunni og auk þess breyta lógóinu á stélinu sem sæist á flugvélarflakinu í fjöllunum. Hergé varð að sjálfsögðu fúslega við þessum beiðnum enda hafði flugfélagið reynst honum vel við gagnaöflunina sex árum áður. Hann breytti því nafni flugfélagsins í fréttaklausunni, úr Indian Airways í Sari Airways, fyrir næstu útgáfur og teiknaði síðan nýtt merki á stél flugvélarinnar þar sem það sést á flakinu. 
Hins vegar yfirsást bæði forsvarsmönnum Air India og Hergé og samstarfsfólki hans, algjörlega myndin af flugvélinni sem birtist á blaðsíðu 58 í sögunni. Þarna sést hin gullfallega Douglas DC 3 vél enn þann dag í dag með lógó flugfélagsins greinilegt á stélinu og er einnig enn kirfilega merkt Air India ofarlega á miðjum skrokknum. Svona lítur þetta til dæmis út í íslensku bókarútgáfunni.
Þær örfáu bókaútgáfur sem til eru af Tinna í Tíbet, og gefnar
voru út fyrir árið 1965, hafa því stél vélarinnar með Air India merkinu (bls 28) og þær bækur eru þess vegna afskaplega verðmætar og eftirsóttar af söfnurum. En breytingarnar sem gerðar voru á sögunni eftir það virðast þó ekki hafa allar skilað sér til lesenda þeirra kynslóða sem á eftir fylgdu. Myndbreytingarnar hafa þó að sjálfsögðu farið í gegn en einhver misbrestur hefur orðið á að textinn úr fréttaklausunni á blaðsíðu 2 hafi skilað sér í þýðingum annarra útgáfa en þeirrar belgísku. Í aðeins einni af þeim sex þýðingum sem SVEPPAGREIFINN á af bókinni kemur til dæmis hið endurunna Sari Airways nafn fram. Það verður reyndar að taka það skýrt fram að síðuhafi treysti sér ekki til að túlka það sem fyrir kemur í arabísku útgáfu bókarinnar og því er alveg óljóst hvað flugfélagið heitir þar. En í íslensku útgáfunum af Tinna í Tíbet kemur upphaflega flugfélagið, Indian Airways, fram.
Ekki var mikið meira af breytingum sem gerðar voru á sögunni fyrir útgáfu hennar í bókarformi árið 1960 en þó voru nokkur smávægileg atriði lagfærð eins og gengur og gerist. Þannig var bætt við einum og einum svitadropum, einhverjar línur lagaðar og skipt um eða skerpt á litum en einnig voru gerðar lítilvægar breytingar á textanum. Eina nokkuð skemmtilega uppfærslu má reyndar finna á lokasíðu sögunnar Tinna í Tíbet en sú breyting var svo lítilfjörleg að það var aðeins á færi allra verstu Tinna-nörda og sérfræðinga að finna þá viðbót í bókinni. En efst á blaðsíðu 62 er mjög óvenjulegur myndarammi sem sýnir hóp af leiðangursmönnum leggja frá Kór Bílong klaustrinu í Tíbet. Þarna sjást aðalsöguhetjurnar okkar, ásamt fríðu föruneyti, halda af stað heim á leið eftir að hafa hvílst í um vikutíma í munkaklaustrinu á meðan Tsjang var að ná sér af meiðslum sínum.
En uppi á klaustrinu sjálfu, lengst til hægri á myndinni, má sjá hvar pínulítill blett ber við klettavegginn fyrir aftan. Eiginlega er alveg vonlaust að sjá hvað þetta er nema með góðu stækkunargleri. En ... jú, þarna er sem sagt um að ræða skuggamynd af blinda, svífandi munkinum Blessuðum Þrumufleygi sem kemur fyrir í sögunni. Eins og lesendur eflaust muna var það munkurinn sem sveif í lausu lofti, sá sýnir og fékk vitranirnar sem staðfestu síðan að Tinni hafði haft rétt fyrir sér með að Tsjang væri enn á lífi.  Þetta var ekki að finna í Le Journal de Tintin tímaritinu og reyndar mætti eiginlega miklu frekar kalla þessa breytingu falinn brandara!

2 ummæli:

  1. Þetta var virkilega fróðlegur pistill. Vissi ekki um þessa nafnabreytingu á bókinni. Þetta er líka ein af mínum uppáhalds Tinna bókum.

    SvaraEyða
  2. Takk kærlega, Rúnar.

    Þessi saga er klárlega ein af mínum uppáhalds.

    Kv.
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!