Þennan föstudaginn ætlar SVEPPAGREIFINN að bjóða lesendum sínum upp á nokkuð yfirgripsmikla myndasögutengda fótboltafærslu. Tilefnið er að sjálfsögðu þátttaka íslenska kvennalandsliðsins á EM í knattspyrnu þar sem þær hefja leik á sunnudaginn gegn belgíska liðinu. Síðuhafi hefur í gegnum tíðina einmitt reynt að tengja færslur Hrakfara og heimskupara við sambærilega knattspyrnuatburði þegar þannig stendur á og nú er komið að einni slíkri.
En fyrir hátt í þremur árum síðan fjallaði SVEPPAGREIFINN svolítið um belgíska tvíeykið Nic og Cauvin en sá síðarnefndi lést reyndar síðastliðið sumar rúmlega áttræður að aldri. Saman voru þeir félagar kunnastir fyrir aðkomu sína að þremur teiknimyndasögum um Sval og Val en þær sögur hafa jafnan verið taldar hinar slökustu í allri seríunni. Það er reyndar ekki ætlunin að fjalla neitt sérstaklega um þann vafasama heiður hér, enda SVEPPAGREIFINN svo sem alveg búinn að því, en hins vegar minntist hann, í þeirri færslu, á stutta fótboltatengda sögu sem þeir félagar tengdust. Þar lofaði síðuhafi því að fjalla betur um þá myndasögu þegar næsta heppilega knattspyrnutækifæri gæfist en reyndar batt SVEPPAGREIFINN vonir við að sú færsla myndi tengjast þátttöku karlalandsliðs Íslands á EM 2020. Sú von brást víst en í staðinn greip hann auðvitað tækifærið þegar kvennalandsliðið fékk stóra sviðið og gat rumpað af einni slíkri. Og það er vel við hæfi að hefja leik gegn Belgum með belgískri fótboltamyndasögu.
Árið 1981 hafði listamaðurinn Nic (Nicolas Broca) verið valinn til að taka við seríunni um Sval og Val af Jean-Claude Fournier í SPIROU tímaritinu. Töluverðar innanhússdeilur höfðu staðið yfir í nokkurn tíma innan Dupuis fyrirtækisins og ritstjórinn Alain de Kuyssche var til að mynda nokkuð mótfallinn ráðningu Broca. Hann studdi nefnilega Tome og Janry. Deilur þessar snerust einnig um ráðningu handritshöfundar seríunnar og SPIROU efndi meira að segja í örvæntingu til samkeppni á meðal lesenda blaðsins um handrit að næstu Sval og Val sögu. Ekkert af þeim handritum sem bárust töldust þó nothæf og ritstjórinn de Kuyssche neyddist því sjálfur til að draga fram penna til bjargar og skrifa upp sögu í snatri. Sú saga, sem hér um ræðir, var einmitt hin áðurnefnda fótboltasaga og nefndist Allez Champignac eða Áfram Sveppaborg eins og hún myndi heita á íslensku. Hún birtist í 196 síðna sérblaði sem nefndist SPIROU Festival og var gefið út 15. júní árið 1981.
Þessi tuttugu og sjö blaðsíðna Sval og Val myndasaga birtist eingöngu á þessum eina vettvangi og var aldrei endurútgefin á neinn hátt eða prentuð í bókarformi inn í upprunalegu útgáfuröðina. Það var því ekki fyrr en safnútgáfa með Sval og Val (efni Nic og Cauvin - 12. bindi) var gefin út árið 2012 sem sagan kom aftur fyrir sjónir lesenda í fyrsta sinn frá því sumarið 1981. En Allez Champignac hefur, af þeim sem til þekkja, verið kölluð lélegasta Sval og Val saga sem nokkru sinni hefur verið gerð. Það er líklega best að byrja á því að renna svolítið yfir söguþráð Allez Champignac og fá grófa heildarmynd af innihaldi þessarar myndasögu. Helst hefði SVEPPAGREIFINN viljað þýða hana og birta hér í heilu lagi á síðunni en sagan er hins vegar einfaldlega of löng til þess. Kannski hann láti þó einhvern tímann verða af því og birti hana þá í nokkrum áföngum. En Allez Champignac hefst á því að þeir Svalur og Valur eru staddir heima hjá sér, að dunda sér við það að veggfóðra, þegar sendill kemur til þeirra með áríðandi símskeyti frá Sveppagreifanum. Hmmmm... bara það að Svalur og Valur séu að veggfóðra heima hjá sér gefur reyndar ekkert sérstakt tilefni til að reikna með að þessi saga sé eitthvað meistaraverk! SVALUR OG VALUR VEGGFÓÐRA EKKI! En í símskeytinu kemur fram að greifinn vilji fá þá tafarlaust til Sveppaborgar og þeir félagar henda því frá sér öllum verkefnum, pakka niður í töskur og bruna strax af stað. Það má geta þess í framhjáhlaupi að Sveppagreifinn kom yfirleitt ekki fram í Sval og Val sögum Nic og Cauvin.
Þegar þeir koma til Sveppaborgar kemur reyndar í ljós að erindi greifans var nú kannski ekki alveg jafn aðkallandi og ætla hefði mátt samkvæmt símskeytinu. Hins vegar fer hann fram á það við þá Sval og Val að þeir aðstoði sig við þjálfun fótboltaliðs Sveppaborgar sem á að fara að spila bikarúrslitaleik á næstunni gegn nágrannaliði Bitumébéton frá næstu borg. Þeir samþykkja að taka að sér verkefnið og hefjast strax handa við að hjálpa Sveppagreifanum með þjálfun liðsins en fljótlega kemur í ljós að sú vinna er ýmsum þyrnum stráð. Á sama tíma eru forráðamenn Bitumébéton liðsins í nágrannabænum að púsla saman aðgerðaáætlun til að klekkja sem allra mest á liði Sveppaborgar með hinum ýmsu bolabrögðum. Þar ræður ríkjum moldríkur athafna- og kaupsýslumaður, herra Dégling, sem hefur byggt upp hálfa bæinn þeirra í nútímalegum stórborgarstíl og stjórnar þar öllu með harðri hendi. Þeir Svalur, Valur og Sveppagreifinn uppgötva fljótlega að ekki er allt með felldu í undirbúningi liðsins og þegar þeim berst viðvörunarbréf heldur Valur til Bitumébéton til að kanna hvernig á öllum þessum vandræðum standi. Þar hittir hann Léon, gamlan kollega sinn úr
blaðamannastéttinni, sem leiðir hann í allan sannleikann um hvers konar mann kaupsýslumaðurinn Dégling hefur að geyma og um leið á hvers konar brauðfótum hinar nútímalegu en illa byggðu stórhýsi bæjarins eru reistar. Dégling á sér þann draum að komast yfir afganginn af byggingarlandi bæjarins og
hefur fengið vilyrði fyrir því ef hann getur lagt sitt af mörkum til að
fótboltalið Bitumébéton vinni þennan bikarúrslitaleik gegn Sveppaborg. Hann leggur því allt í sölurnar og beitir öllum ráðum, flestum auðvitað óheiðarlegum, til að Sveppaborgarliðið tapi og honum gefist kostur á að eignast þessar byggingalóðir.
Skömmu síðar rennur upp stóri dagurinn og vandamálin hlaðast upp þegar líða fer að leik. Tveir leikmanna Sveppaborgarliðsins heltast úr lestinni svo þeir Svalur og Valur þurfa sjálfir að taka fram takkaskóna og spila með. Valur fer í markið en Svalur þarf að taka að sér hlutverk framherja auk þess sem hann er gerður að fyrirliða liðsins. Herra Dégling hefur haft frjálsar hendur með að afla nýrra leikmanna fyrir lið Bitumébéton og strax í byrjun leiks er ljóst að hinir nýju leikmenn andstæðinga Sveppaborgarliðsins eru stórir, sterkir og óheiðarlegir fantar. Þeir leggja sig alla fram við fantaskapinn og með lúalegum brögðum fiska þeir vítaspyrnu snemma leiks.
Bitumébéton liðið skorar úr henni og taka síðan fljótlega að raða inn mörkunum hjá Sveppaborgarliðinu. En þess utan er Valur ekki að eiga neinn stjörnuleik í markinu. Þannig að staðan í leikhléi er hvorki meira né minna en 6 - 0 fyrir andstæðingunum. Það er ekki hátt risið á leikmönnum Sveppaborgarliðsins í búningsklefanum í hálfleik og foxillur ákveður Sveppagreifinn sjálfur að taka til sinna ráða til að stöðva þessa óheiðarlegu brjálæðinga. Hann notar gamalkunna aðferð við að skjóta með munnstykki einhverjum örvunarpillum upp í þá Sval og Val í búningsklefanum og samstundis breytast viðhorf þeirra úr vonleysilegu þunglyndi yfir í óbilandi bjartsýni, með aukinni orku, hæfileikum og hraða. Öllum til undrunar rífur Sveppaborgarliðið sig upp og þökk sé þeim Sval og Val snýst leikurinn algjörlega við í síðari hálfleiknum. Valur tekur upp á því að verja í gríð og erg og Svalur að skora mörk og staðan er fljótlega orðin 6 - 3.
Heima situr peningamaðurinn Dégling, og fylgist örvæntingarfullur með leiknum í sjónvarpinu, þegar þeir Sveppagreifinn, borgarstjórinn og blaðamaðurinn Léon birtast skyndilega inni á stofugólfinu hjá honum, í miðjum seinni hálfleiknum, öskureiðir. Þeir gera Dégling grein fyrir að þeir hafi næg sönnunargögn til að henda kaupsýslumanninum í fangelsi en gefa honum þó kost á því að breyta öllum sínum misgjörðum til hins betra. Hann skuli leiðrétta stórborgarstefnu sína og byggja í staðinn fallegar og vistvænar byggingar með gróðri auk þess sem þær skuli vera traustlega byggðar. Herra Dégling gefst upp og samþykkir þessa skilmála og auðvitað vinnur Sveppaborg síðan leikinn með sjö mörkum gegn sex. Blablabla og svo framvegis ...
Það er ekki ofsögum sagt að þessi myndasaga sé langt frá því að vera einhver gæðavara, frekar en annað Sval og Val efni sem kom frá Nic og Cauvin, en Raoul Cauvin til varnar kom hann auðvitað ekki nálægt þessu verkefni. Töluverður byrjendabragur er á sögunni og þá sérstaklega á handritinu en slíkur viðvaningsháttur var engan veginn að skapi aðdáenda seríunnar um Sval og Val. Lesendur sagnanna höfðu um þrjátíu ára reynslu af verkum þeirra Franquins og Fourniers og voru því orðnir góðu vanir. Þeir sættu sig því ekki við að þurfa, á þessum tímapunkti, að endurstilla sig gagnvart seríunni og byrja á öllu frá núlli. En sameiginlegt reynsluleysi beggja höfundanna, örvænting og eflaust líka ósætti, þar sem de Kuyssche hafði sett sig upp á móti ráðningu Broca í teiknihlutverkinu, hefur orðið þess aðvaldandi að sagan er afskaplega tilþrifalítil og sorglega léleg. Nic hafði ekkert starfað áður við teiknimyndasögur en var með nokkuð góða reynslu af vinnu við teiknimyndir og hafði reyndar starfað við það í mörg ár. Á sama tíma hafði Alain de Kuyssche enga reynslu af neinu sem tengdist handritsgerð að teiknimyndasögum. Atburðarásin er því í heildina mjög einkennileg og tómleg og á löngum köflum er áherslan lögð meira á mismikilvæg smáatriði í stað þess að keyra á hluti sem skipta meira máli. Það er til dæmis ekki nauðsynlegt að eyða næstum því heilli blaðsíðu í að loka einni hurð eins og kemur fyrir í byrjun sögunnar. Og snemma í sögunni er púðrinu eytt í hátt í tvær blaðsíður (af tuttugu og sjö) að kynna til sögunnar nýja (og reyndar afskaplega ljóta) búninga handa liðinu.
Allez Champignac er eiginlega fullkomlega innihaldslaus saga og það má alveg fullyrða að hér sé um að ræða allra lélegustu Sval og Val söguna. Í það minnsta virðist það hafa verið skynsamleg ákvörðun að gefa henni ekki færi á að koma út í bókarformi í upprunalegu seríunni. Lengi var óljóst hver skrifaði handritið að Allez Champignac og það var ekki fyrr en nokkuð löngu seinna sem ritstjórinn Alain de Kuyssche viðurkenndi að bera ábyrgð á sögunni. Sér til varnar greindi hann frá því að hafa verið undir pressu og þurft að rumpa sögunni af á einni nóttu en hreinskilnislega myndi SVEPPAGREIFINN treysta sér til að skrifa töluvert skárra handrit á mun skemmri tíma! Kuyssche reyndi að einhverju leyti að fylgja eftir þeirri Sval og Val formúlu sem eldri höfundarnir höfðu skapað og inn
í söguna eru fléttaðar þessar helstu stöðluðu framvindur sem einkenna sögurnar almennt. Pési fær nóg og reynir að strjúka að heiman, borgarstjórinn í
Sveppaborg kemur með langar ræður, Dýrfjörð á bíl sem lendir í óhappi og svo framvegis. Allt er reynt til að gera sæmilega trúverðuga Sval og Val sögu úr rýru efninu. SVEPPAGREIFANUM finnst reyndar teikningar Nic í Allez Champignac ekkert alslæmar. Þær eru þó langt frá því að vera fullkomnar og teikningar hans eru mjög einfaldar í samanburði við þá Franquin og Fournier. Sumir myndarammanna eru hálf klaufalega uppbyggðir og Valur er til dæmis illþekkjanlegur og eiginlega hálf afmyndaður á mörgum teikninganna. Venjulega lítur hann alls ekkert svona út.
Í
færslu sinni um Nic og Cauvin benti SVEPPAGREIFINN á að framan á
kápum bókanna þriggja væru aðalsöguhetjurnar tvær alltaf með nákvæmlega
sama svipinn á andlitunum - Svalur með sinn undrunarsvip og Valur með sín
uppglenntu augu. Í Allez Champignac er Valur meira eða minna alla söguna með þennan uppglennta augnasvip á andlitinu. Nic hafði sína galla en með
tímanum hefði hann öðlast meiri reynslu við myndasögugerðina og ásamt
góðum handritshöfundi er SVEPPAGREIFINN viss um að til hefðu getað orðið
þokkalegar Sval og Val sögur.
En fyrsti leikur íslenska landsliðsins á EM fer fram á sunnudaginn (10. júlí) og hefst klukkan 16:00. Hann er að sjálfsögðu sýndur á RÚV og ÁFRAM ÍSLAND!!!
Fótbolti hefur aldrei vakið áhuga minn eða aðrar íþróttir svo ekki hjálpar það mér við að meðtaka innihald sögunnar. Ég gef þér þó hrós fyrir að birta þetta, því ég elska allt sem viðkemur Sval og Val og ýmsum öðrum teiknimyndasögum. Af þeim myndum sem eru birtar hér held ég að ég sé sammála að þetta sé botninn á ferli Svals og félaga. Lífið í myndirnar sem Franquin var þekktur fyrir vantar að mestu leyti í þetta, nokkuð staðlað, og ævintýrabragur Fourniers er heldur ekki hérna. Ég á þó bækurnar eftir Nic og Cauvin og mér finnst þær alls ekki eins slæmar og sumir halda. Söguþráðurinn minnir á "Frost á Fróni" , bókina um Samma og Kobba sem kom út 1982, númer 3 á íslensku. Cauvin endurnýtti svipaða hugmynd, ekki alveg eins samt um tæknibúnað sem breytir hitastigi, eða slys eins og í Samma og Kobbabókinni.
SvaraEyðaTeikningar Nics eru furðulega lifandi í þessum bókum, sýna svipbrigði vel og hreyfingar, en nokkuð mikið vantar upp á túlkun raunverulegra tilfinninga eins og Franquin gerði best. Söguþráðurinn er ævintýralegur en sennilega of langsóttur fyrir flesta, en versti gallinn finnst mér skortur á kímni, en bækurnar hans Fourniers líða líka fyrir það.
Ég hef aldrei kunnað nógu vel við Tome og Janry eða seinni höfunda. Franquin er minn uppáhaldshöfundur seríunnar og svo Fournier þar á eftir, sem gat búið til heillandi persónugallerí einsog Franquin.
Cauvin hefur nú komið að mörgu býsna góðu í myndasögum, Samma og Kobba bækurnar eru mjög fyndnar, en sumar of fjarstæðukenndar og þá verða þær fáránlegar.
Ég hefði viljað að Nic og Cauvin hefðu haldið áfram. Þó eru sumar bækur eftir Tome og Janry viðbót við seríuna, eins og "Tímavillti prófessorinn". Hið myrka og dökka raunsæi sem kom í kringum 1990 finnst mér mjög ólíkt saklausum og glettilegum bókum hinna.
Villi Kristjáns 29.9.19 er mér sammála í athugasemdum að "Kuldakastið" sé ekki svo slæm.
En ég eins og fleiri myndasögunördar þakka fyrir færsluna frá þér og vonandi að þú birtir þýðingu á íslensku við tækifæri á allri sögunni. Þýðingar þínar hér eru vel gerðar finnst mér.
Almennt eru sögur þeirra Nic og Cauvins taldar þær allra slökustu í seríunni. Helsti galli Cauvins var þessi iðnaðarframleiðsla hans á myndasöguhandritum. Við hér á Íslandi könnumst auðvitað helst við bækurnar um Samma og Kobba (alls 40 stk) og þekkjum til þessara þriggja Sval og Val sagna, sem þú minntist á, en í heildina skyldi hann eftir sig tæplega 400 handrit að myndasögum í fullri lengd sem er í rauninni alveg ótrúlegur fjöldi. Magn og gæði fara því miður sjaldnast vel saman. Hann var afskaplega afkastamikill höfundur og líklega var ekki hjá því komist að hann endurtæki sig eða endurnýtti hugmyndir í sögum sínum að einhverju leyti. Þar með var aðkoma hans að ævintýraheimi þeirra Svals og Vals eiginlega dauðadæmd alveg frá upphafi. Á þessum tímapunkti hefði líklega verið skynsamlegast að ráða handritshöfund sem gæti einbeitt sér algjörlega að þessu verkefni.
EyðaNic var auðvitað langt á eftir öðrum listamönnum Sval og Val seríunnar en hann hefði líklega átt að fá aðeins meiri tíma og tækifæri til að sanna sig. Ég er algjörlega sammála þér um gæði höfundanna. Franquin ber auðvitað af þeim öllum og þeir Fournier og síðan Tome og Janry koma þar á eftir. Seinni tíma höfundana tel ég varla með enda er stíll þeirra af allt öðrum toga og mér finnst þeirra sögur nánast ekki tilheyra seríunni! En það er auðvitað bara mín sérviska.
Bestu þakkir fyrir að lesa Hrakfarir og heimskupör. Kannski læt ég verða af því að birta alla söguna Allez Champignac einhvern daginn en það er tímafrekt verkefni. Ég er reyndar ekki sammála því að þýðingar mínar séu góðar en ég geri mitt besta. Áður fyrr naut ég diggrar aðstoðar eiginkonu minnar við þýðingarnar, ýmist úr frönsku eða þýsku, en að undanförnu hef ég reynt að stauta mig fram úr þeim sjálfur. Gæðin eru augljóslega ekki þau sömu.
Bestu kveðjur,
SVEPPAGREIFINN
Takk fyrir fróðlegan og skemmtilegan pistil. Alltaf gaman að lesa það sem þú skrifar.
SvaraEyðaKærar þakkir!
EyðaBestu kveðjur,
SVEPPAGREIFINN