Evrópukeppni kvennalandsliða í knattspyrnu er víst enn á fullu skriði og veislan rúllar áfram þó þátttöku íslenska liðsins á mótinu sé reyndar lokið. Ísland fór taplaust í gegnum mótið en datt úr leik vegna tilfinnanlegs skorts á stigum í riðlinum sínum. Liðið gerði þar þrjú jafntefli í þremur misgóðum leikjum og líkt og í föstudagsfærslunni fyrir tveimur vikum ætlar SVEPPAGREIFINN að tileinka landsliðinu myndasöguefni dagsins.
Í síðustu færslu fjallaði SVEPPAGREIFINN eilítið um löngu gleymda Sval og Val knattspyrnusögu, eftir þá Nic (Nicolas Broca) og Alain de Kuyssche, en þennan föstudaginn er ætlunin að skoða aðra fótboltatengda teiknimyndasögu. Sú saga er um þá félaga Samma og Kobba en reyndar er smá tenging á milli þeirrar bókar og Sval og Val sögunnar sem fjallað var um í síðustu viku. De Kuyssche, sem var ritstjóri SPIROU myndasögublaðsins, gerði handritið að áðurnefndri Sval og Val sögu en það var hins vegar handritshöfundurinn afkastamikli Raoul Cauvin sem skrifaði þrjár sögur í bókaflokknum fyrir Nic og voru gefnar út í seríunni. Þessar Nic og Cauvin sögur með Sval og Val þykja reyndar arfaslakar en Cauvin var hins vegar þekktari fyrir handritsskrif sín að Samma bókunum og skrifaði heilar fjörutíu og þrjár sögur í þeirri seríu - flestar með listamanninum Berck. Hér á landi komu út ellefu bækur úr upprunalegu seríunni, á árunum 1981-91, en sögurnar fjörtíu og þrjár voru gefnar út í fjörtíu bókum í Belgíu á árunum 1973-2009. SVEPPAGREIFINN hefur svolítið gaman að þessum bókum en reyndar verður að taka það fram að þær eru afar misjafnar að gæðum og eins og oft vill verða í langlífum myndasöguseríum eru elstu sögurnar betri. En hjá afkastamiklum handritshöfundum þynnast sögurnar óneitanlega með tímanum og þegar sami aðilinn er búinn að skrifa samtals um fjögur hundruð myndasöguhandrit má gera ráð fyrir að síðustu þrjú hundruð og áttatíu séu algjört rusl. Hjá Samma og félögum er þó yfirleitt nokkuð gott flæði og sjaldan nein lognmolla eða dauðir punktar í bókunum.
En þessi fótboltatengda Samma saga heitir á frummálinu Les gorilles marquent un but og hóf göngu sína í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU þann 14. febrúar árið 1980. Þetta var átjánda sagan í upprunalegu seríunni og kom síðan út í bókarformi hjá Dupuis útgáfunni árið 1981. Á íslensku mætti heimfæra titil bókarinnar upp á Górillurnar hitta í mark en hinar svokölluðu górillur eru liðsmenn lífvarða- og einkaspæjaraþjónustunnar J.S. Górillur sem þeir Sammi og Kobbi reka. Þess má geta að í tæplega helmingi bókanna, úr seríunni um Samma og Kobba, má einmitt finna sambærilega górillu-tengingu í titlum þeirra. Þessi tiltekna Samma bók kom auðvitað aldrei út á íslensku en SVEPPAGREIFINN vissi að söguna væri að finna einhvers staðar í myndasöguhillunum hans innan um aðrar slíkar. Og honum til töluverðar undrunar uppgötvaði hann reyndar að þar leyndust hvorki meira né minna en þrjú eintök af bókinni á þremur mismunandi tungumálum. Auk frönsku útgáfunnar má þar finna bæði norska og sænska útgáfu af bókinni. SVEPPAGREIFINN gleymir augljóslega jafnóðum hvað hann hefur verið að dunda sér við að kaupa í gegnum tíðina.
En Les gorilles marquent un but hefst á því að þeir félagar fá úthlutað verkefni með loforði um 10.000 dollara greiðslu og 50.000 í viðbót við verklok. Þetta er náttúrulega tilboð sem Kobbi getur ekki hafnað og skiptir þá litlu hversu vitlaust verkið er. Þjálfari knattspyrnufélagsins Solivie fær þeim það verkefni að vernda liðsmenn þess fyrir árásum sem þeir verða stöðugt fyrir frá aðilum sem tengjast liði frá bananalýðveldinu Pégrou (hvar sem það nú er?) sem þeir eiga að fara að spila mikilvægan úrslitaleik við eftir nokkra daga. Brjálaðar boltabullur herja jafnt á liðið, áhangendur þess og dómara leikja þess. Með því að dulbúa sig sem tvo af leikmönnum Solivie geta þeir Sammi og Kobbi fylgst með öllu torkennilegu sem gerist á æfingasvæðinu en auk þeirra eru aðeins byrjendur látnir taka þátt í æfingunum. Á meðan eru alvöru stjörnur liðsins sendir í burtu og æfa sjálfir í laumi til að vernda þá fyrir leikinn gegn Pégrou. Samma og Kobba er því ætlað að vera í einhvers konar tálbeituhlutverki á æfingasvæðinu fyrir fótboltabullurnar og þessir dagar, fram að leik Solivie gegn Pégrou, eru vægast sagt viðburðaríkir og ofbeldisfullir fyrir þá félaga.
Rauði þráðurinn í gegnum söguna snýst því að sjálfsögðu um það hvernig
hinir óheppnu samstarfsmenn, Sammi og Kobbi, verða fyrir barðinu á boltabullunum
fram að leiknum stóra. Sagan Les gorilles marquent un but er í nokkuð
formúlukenndum Samma og Kobba anda en þykir þó einnig nokkuð óvenjuleg. Það má
líklega helst rekja til knattspyrnutengingar bókarinnar en frekar sjaldgæft er
að í söguþræði belgísk/franskrar teiknimyndasögu megi finna slík dæmi þrátt
fyrir vinsældir íþróttarinnar í hinum frönskumælandi löndum. Í svipinn man
SVEPPAGREIFINN aðeins eftir Sval og Val sögunni Les voleurs du Marsupilami
(sem enn hefur ekki komið út hér á landi) þar sem fótbolti kemur við sögu og
seríuna um knattspyrnukappann Eric Castel sem síðuhafi hefur einhvern tímann
minnst eitthvað á. Í þessu samhengi má auðvitað einnig nefna einn og einn
brandara með Viggó viðutan annars vegar og hins vegar með Strumpunum. Reyndar má síðan alls ekki gleyma seríunni um knattspyrnustrákinn Lúkas sem Froskur útgáfa hefur verið að myndast við að gefa út á undanförnum árum. Alls eru komnar út fjórar sögur úr þeim bókaflokki hér á landi.
Les gorilles marquent un but á svo sem voðalega lítið skylt við alvöru fótbolta en hún er töluvert fyndin og svona hæfilega vitlaus eins og bækurnar um þá Samma og Kobba eru gjarnan þó innihaldið sé í rýrari kantinum. Þetta er reyndar ekki besta sagan með þeim félögum en það má samt alveg klárlega hafa gaman af bókinni. Talið er að þeir Nic og Cauvin hafi með Les gorilles marquent un but verið að vekja athygli á ofbeldi á knattspyrnuvöllum sem oftar en ekki tengdust fótboltabullum. En óeirðir voru að verða mikið vandamál á áhorfendapöllum víða um Evrópu á þessum árum. Sagan hefst til dæmis á því að Sammi og Kobbi eru áhorfendur á leik hjá Solivie og verða þar vitni að slagsmálum hjá bæði hjá áhorfendum og leikmönnum niðri á vellinum. Ólætin eru svo mikil að jafnvel Samma og Kobba blöskrar sem þó kalla ekki allt ömmu sína í þeim efnum. Dómarinn ræður ekki við neitt og verður sjálfur meira að segja fyrir grófri líkamsárás.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Út með sprokið!