28. febrúar 2020

152. ÝMISLEGT Á MEÐAL DÓNA OG RÓNA

Í færslu þessa föstudags ætlar SVEPPAGREIFINN aðeins að rýna í efni sem er reyndar töluvert algengara og rótgrónara í myndasögum en margir gera sér grein fyrir. Eflaust hljómar það fráhrindandi fyrir einhverja þegar SVEPPAGREIFINN er farinn að fjalla um áfengisvandamál í pistlum sínum en það skal reyndar tekið fram að hann er enginn predikari í því fagi. Efninu er þannig ekki ætlað að hafa eitthvað sérstakt forvarnargildi, enda er það bara enn ein venjulega færslan með fánýtum myndasögufróðleik, þó hugsanlega gæti einhver séð ljósið í kjölfar lesturs þess. Það er við hæfi, á þessum árstíma þorrablóta og annarra mannfagnaða, að minna alla á að ganga hægt um gleðinnar dyr og lesa um leið þessa færslu sér til gagns, gamans og almennrar viðvörunnar. En notkun áfengis er ótrúlega algeng á meðal sögupersóna í þeim myndasögum sem við íslenskir lesendur þekkjum. Sem er eiginlega með ólíkindum vegna þess að þessar myndasögur eru ekki aðeins ætlaðar markhópnum börn og unglingar heldur koma þær flestar frá landi þar sem rammkaþólsk uppeldissjónarmið voru jafnan höfð í heiðri. Þessi myndasögutímarit, sem þau birtust oftast fyrst í, var beinlínis ætlað að beina ungum lesendum þeirra í réttar kristilegar áttir og að leiða þá sem lengst frá syndsamlegum freistingum heimsins þar fyrir utan.
Aðalsöguhetjurnar sjálfar, í þessum helstu seríum, eru reyndar tiltölulega lausar við þann ósið sem felst í áfengisnotkuninni. Kolbeinn kafteinn er auðvitað stóra undantekningin í því samhengi (og kannski Tobbi) en tvisvar sinnum í bókaflokknum má þó reyndar sjá sjálfan Tinna ölvaðan. Í nokkrum af þessum seríum má hins vegar finna tilvik þar sem áfengi (og drykkja þess) er nokkuð áberandi á hliðarlínunni. Samkvæmt Lukku Láka bókunum virðist til dæmis stór hluti menningar villta vestursins snúast um að kúrekar bregði sér á bar bæjarins. Þar er oftast pantaður bjór en þó í mörgum tilfellum líka eitthvað sterkara og að sjálfsögðu spiluð fjárhættuspil í einhverju formi. Þar þurfa meira að segja hestarnir stundum líka að svala þorsta sínum á sama hátt og aðrir. 
Í þessum sögum ratar Lukku Láki gjarnan sjálfur inn á næsta bar, eftir erfitt verkefni eða langt ferðalag, og fær sér einmitt bjórkollu eða viskíglas eftir því hvað við á. Hann reykti líka ótæpilega fyrstu áratugina en hætti þeim ósið frá og með sögunni Fingers, sem kom út árið 1983, bæði eftir utanaðkomandi pressu en einnig til að liðka fyrir samningum seríunnar á Bandaríkjamarkaði. Skapari Lukku Láka, listamaðurinn Maurice de Bevere (Morris), fékk síðan viðurkenningu árið 1988 frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni fyrir vikið. Í Ástríks bókunum koma áfengir drykkir einnig eitthvað við sögu. Helst er það Steinríkur sem á erfitt með að höndla vínandann þar og flestar sögurnar enda auðvitað á kunnuglegum veisluhöldum þar sem áfengi (líklega þá oftast bjór) er gjarnan á boðstólum. Sömu sögu má segja um sögurnar með Hinriki og Hagbarði þar sem hinn síðarnefndi á stundum í nokkrum erfiðleikum með vín. Þá eru ýmsir sem fá sér í glas í bókunum um Samma og Kobba og áfengi hefur einnig alveg sést í myndasögunum um Viggó viðutan. Það er helst að Steini sterki og Strumparnir séu svona tiltölulega allsgáðastir í myndasöguheiminum.
En allir sem lesa teiknimyndasögur þekkja Kolbein kaftein úr Tinna bókunum. Alls eru sögurnar í seríunni tuttugu og fjórar talsins þó sú síðasta, hin hálfkláraða Tintin et l'Alph-Art (Tinni og leturlistin), sé reyndar ekki alltaf talin með í þeim flokki. En af þessum tuttugu og fjórum sögum var það þó ekki fyrr en í níundu sögu bókaflokksins, Krabbanum með gylltu klærnar (Le crabe aux pinces d'or - 1940), sem Kolbeinn kafteinn kom fyrst við sögu. Snemma í sögunni verða þeir Tinni og Tobbi fyrir því, eiginlega fyrir hálfgerða óheppni, að vera teknir til fanga og lokaðir niðri í lest á flutningaskipinu Karaboudjan. Glæpahundurinn Hörður stýrimaður, sem reglulega bregður fyrir í seríunni um Tinna, hefur alla stjórn um borð því hinn drykkfelldi skipstjóri Karaboudjan eyðir öllum sínum tíma niðri í káetu með viskíflösku sér við hlið. Sá maður er einmitt Kolbeinn Kaldan kafteinn. Við það að flýja úr lestinni á Karaboudjan lendir Tinni fyrir tilviljun í káetu hins sífulla kafteins og eftir svolitlar fortölur (eða kænsku) telur hann Kolbein á að aðstoða sig við að koma sér frá borði og flýja með sér. Þannig má með sanni lýsa fyrstu kynnum þeirra Tinna og Kolbeins.
Með þeim Tinna og Kolbeini takast góð kynni en samskipti þeirra í framhaldinu af sögunni eru þó nokkrum erfiðleikum bundin. Kolbeinn er augljóslega langt leiddur af drykkju og kemur þeim ítrekað í vandræði með afglöpum sínum og stjórnleysi. Hann er þeim leiðinlegu eiginleikum gæddur að fyllast sektarkennd þegar hann er ofurölvi og dettur þá í einskonar gryfju sjálfsvorkunar þar sem röfl og raus ráða ríkjum. Stjórnleysi kafteinsins gagnvart áfenginu er því algjört en þó birtir til í lok sögunnar þegar hann heldur útvarpserindi í beinni útsendingu gegn mestu böli mannkynsins. Í miðju erindinu verður honum þó á að fá sér, af misgáningi, sopa af vatni en af því má ætla að hann hafi ætlað að fá sér eitthvað sterkara. Með næstu bók, Dularfullu stjörnunni (L'Étoile mystérieuse - 1941), ákvað höfundurinn Hergé að Kolbeinn skyldi fylgja Tinna áfram í seríunni en hefur þó einnig tekið þá ákvörðun að milda hann töluvert gagnvart áfengisfíkn sinni. Hvort kafteinninn á þá að hafa leitað sér aðstoðar við alkóhólismanum kemur reyndar ekki fram en í það minnsta hefur hann mikið þroskast og bragðar varla vín í sögunni. Í bókinni er hann jafnvel orðinn forseti Bindindissamtaka sjómanna (B.S.S.) og það er aðeins þegar þeir Tinni koma til Akureyrar að Kolbeinn fær sér svolítið í staupinu með Runólfi gömlum félaga sínum af sjónum.
Og þannig þróast Kolbeinn kafteinn smán saman með tímanum hvort sem það er Tinni eða eitthvað annað sem hefur svo góð áhrif á hann. Hann er ekki lengur sá ofdrykkjumaður sem hann var í bókinni Krabbanum með gylltu klærnar en finnst þó alltaf gott að fá sér eilítið viskí öðru hvoru og auðvitað drekkur hann að jafnaði töluvert meira en góðu og eðlilegu hófi gegnir. Í flestum bókanna fær hann sér því eitthvað aðeins í glas án þess þó að vera til vandræða. Eins og gerist til dæmis í Kolafarminum (Coke en stock - 1958). Þeir Tinni og Kolbeinn skella sér í bíó eitt kvöldið og á heimleiðinni rekast þeir á gamlan kunningja Tinna, Alkasar hershöfðingja, sem er á mikilli hraðferð. Eftir að hafa kvatt hann uppgötva þeir að hershöfðinginn hefur misst veskið sitt en sá er þá þegar horfinn sjónum þeirra. Þeir bregða sér því inn á næsta kaffihús til að kanna innihald veskisins og sjá hvort þeir finni þar ekki einhverjar vísbendingar um dvalarstað Alkasars svo þeir geti komið því aftur til skila. Eftir eilítið hikandi frumkvæði Kolbeins tekur Tinni (rödd skynseminnar) af skarið og pantar handa þeim tvö glös af appelsíni á kaffihúsinu en brúnaþungur svipur Kolbeins ber hins vegar klárlega vott um vandlætingu hans á þeirri ákvörðun.
Í framhjáhlaupi er gaman að nefna það, fyrst þeir droppuðu við á kaffihúsi, að SVEPPAGREIFINN minnist þess aldrei nokkurn tímann að hafa séð þá félaga drekka te eða kaffi í Tinna bókunum. En það er önnur saga. Þjónninn ber þeim appelsínið (sem reyndar er bara sódavatn í upprunalegu frönsku útgáfunni) á borðið og þeir Tinni og Kolbeinn fara í kjölfarið að kanna hvað veski Alkasars hefur að geyma. Eftir að hafa gramsað svolítið í því finna þeir blaðsnepil með símanúmeri og Tinni bregður sér frá eitt andartak til að hringja í númerið. Þá er komið að einum af hinum földu bröndurum höfundarins Hergé sem var duglegur að lauma litlum smáatriðum, sérstaklega í seinni bókunum, inn í sögur sínar. SVEPPAGREIFINN hefur áður minnst á þess konar brandara í færslum sínum og má til dæmis finna einn slíkan hér en þennan brandara fullyrðir hann að hafa aldrei rekist á í æsku. Á meðan Tinni fór að hringja hefur Kolbeinn ekki snert á glasinu sínu með appelsíninu (sódavatninu) en hefur í staðinn stolist til að panta sér glas af viskíi!
Sú umbreyting sem verður á Kolbeini, frá því hann birtist fyrst í seríunni og þar til hann snarminnkar neyslu sína strax í næstu sögu, er auðvitað frábær. Ekki bara fyrir seríuna sjálfa heldur líka fyrir lesendur hennar sem að stórum hluta hafa verið börn og unglingar í gegnum tíðina. Það hefði verið lítið spennandi að hafa Kolbein sífullan og röflandi í gegnum allan bókaflokkinn. Best hefði að sjálfsögðu verið að Kolbeinn hefði aldrei verið kynntur til sögunnar með þessum hætti en þó segir það upphaf töluvert mikið um karakter hans. Kolbeinn er mjög gróf og óhefluð sjómannstýpa sem þó er afar mildur inn við beinið (kolbeinið þá?) og tryggari vin getur Tinni örugglega ekki óskað sér. En fyrst og fremst er Kolbeinn bara eins og hann er og óheflaður persónuleiki hans (og þar með talið einnig áfengisneyslan) er stór hluti af bókaflokknum um Tinna. Þessir eiginleikar Kolbeins gera hann því að einni eftirminnilegustu og um leið vinsælustu persónum seríunnar. En til viðbótar þessu er svo er ekki hjá því komið að minnast aðeins á eina af eftirminnilegri sögupersónum Sval og Val bókanna. Þar er að sjálfsögðu um að ræða herra Þamban (í Gullgerðarmanninum heitir karlgarmurinn reyndar Gvendur Spíri) sem á auðvitað einnig við stórkostleg áfengisvandamál að stríða. Heldur betur.
Herra Þamban er auðvitað ekkert annað en róni og það var Kolbeinn kafteinn í rauninni líka í byrjun ferils síns í Tinna bókunum. Hann er aukapersóna í sögunum með Sval og félaga og sést því ekki nema endrum og sinnum en í flest þau skipti sem þeir Svalur og Valur eiga leið um Sveppaborg bregst það ekki að herra Þamban kemur eitthvað við sögu. Hann er jú búsettur þar í bænum. Þamban er sífullur og hefur verið það frá því hann kom fyrst fyrir í seríunni. Það var í sögunni Le voyageur du Mésozoïque sem kom fyrst út í bókaformi árið 1960 og hefur reyndar ekki enn komið út á íslensku en hefur verið nefnd Fornaldareggið í öðrum Sval og Val sögum.
Líkt og Kolbeinn kemur hann nokkuð seinna til sögu seríunnar en Le voyageur du Mésozoïque er þrettánda bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Herra Þamban er einhvers konar þorpsróni en þó er hann ekki þess konar róni sem er á götunni eða neitt slíkt. Hann virðist vera ágætlega stæður og er til dæmis alltaf þokkalega vel til fara en föt hans eru þó stundum svolítið óreiðukennd og skökk utan á honum. Í sögunni Le Rayon noir, sem ekki hefur enn verið gefin út á íslensku, kemur fram að hann hafi áður verið dýralæknir sem fór að drekka eftir að hann var kominn á eftirlaun. Kolbeinn kafteinn og herra Þamban eru klárlega báðir langt leiddir alkóhólistar en eiga þó sínar ólíku sögur. Hvorugur þeirra munu, sem betur fer, eiga sér einhverjar ákveðnar fyrirmyndir hjá höfundum þeirra en eru þó báðir á sinn hátt einhvers konar stereótýpur fyrir sínar tegundir af alkóhólistum. Þeir sækja hvor fyrir sig í ákveðnar tegundir af áfengi þar sem Kolbeinn er aðallega fyrir viskí en herra Þamban virðist að mestu halda sig við ginið

Voðalega varð þetta eitthvað endasleppt!

2 ummæli:

  1. Takk fyrir skemmtilegan pistil. Föstudagar eru góðir.
    Í Goðheimabókunum er mjöður mikið drukkinn, hef smakkað slíkan drykk og finnst lítið til um. Þar er menn (ásar) fullir hreinlega á stundum af þessu sulli.

    SvaraEyða
  2. Takk fyrir, Villi. Föstudagarnir eru bestu dagarnir hjá mörgum og það er gaman að eiga þátt í að bæta þá enn meira :)

    Auðvitað eru Goðheima bækurnar fullar af sumbli. Ég hef víst oft haft einhverja tilhneigingu til að gleyma þessum bókum þegar ég hef verið að safna saman efni um afrek myndasöguhetjanna. Og í þessum töluðum orðum átta ég mig líka á að hafa gleymt hinum sjálfsörugga íþróttakennara úr bókunum um Litla Sval. Undantekningalaust er hann með fulla Adadas íþróttatösku af áfengi.

    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!