21. ágúst 2020

172. Í LEIT AÐ AFRÍSKUM TINNA STYTTUM

Flestir muna líklega eftir því þegar margs konar afrískir munir úr dökkum viði fóru að birtast í sölu hér á landi fyrir um þrjátíu árum. Í Kolaportinu var til dæmis varla hægt að þverfóta fyrir slíku dóti og þannig er það líklega enn þann dag í dag. Mest voru þetta handunnir skrautmunir af ýmsu tagi. Mikið af einhvers konar galdragrímum af öllum stærðum og gerðum, geisladiskastandar, alls kyns styttur og jafnvel húsgögn. Þetta þótti allt ægilega fínt og framandi og mörg íslensk heimili fengu á stuttum tíma einhvers konar afrískt yfirbragð, jafnvel þó eina tenging heimilanna við Afríku kæmi í gegnum Kolaportið. Mörgum árum seinna fóru þessir sömu gripir að fylla nytjamarkaði landsins og SVEPPAGREIFINN viðurkennir meira að segja að hafa sjálfur fjárfest í slíku timburverki í Góða hirðinum fyrir nokkrum árum. Þar var um að ræða einhvers konar galdrakall, um 70 sentimetra á hæð, sem var orðinn grár af vanrækslu eftir langvarandi útiveru og vosbúð. Kallinn frískaðist þó verulega við hálfan lítra (útvortis) af baneitruðum fúavarnarvökva ættuðum frá Kjörvara. En galdrakarlinn góði fékk síðan fast heiðurssæti við sumarbústað fjölskyldunnar austur í sveitum og stendur þar blýsperrtur vörð um sólpallinn. Hann heitir Mundi.
Á ferðum sínum erlendis á undanförnum árum hefur SVEPPAGREIFINN oft og margsinnis rekist á sambærilegt dót á hinum margvíslegustu tegundum útimarkaða. Þar má jafnan sjá ýtna sölumenn, af afrískum uppruna, að reyna að selja fjölbreytilegan varning sinn í básum sínum innan um annað sambærilegt skran. Fyrir nokkrum árum var hann til dæmis á ferðinni í borginni Locarno sem er í suðurhluta Sviss en hún er ekki langt frá ítölsku landamærunum. Þarna var fjölskyldan nýkomin til borgarinnar og var að arka frá lestarstöðinni, í gegnum miðbæinn, með ferðatöskur sínar og annað plássfrekt dót á leið upp á hótel sem staðsett var uppi í miðri fjallshlíð fyrir ofan borgina. Í miðbænum var starfrækt einhvers konar farandsmarkaðstorg og þar rak SVEPPAGREIFINN augun í lítinn bás sem einmitt hafði að geyma slíkan afrískan viðarvarning. Og innan um galdragrímur og berbrjósta konustyttur rakst hann skyndilega á heilan hóp af úttálguðum tréfígúrum úr Tinna bókunum. SVEPPAGREIFINN bókstaflega hoppaði hæð sína af kæti og hugsaði sér virkilega gott til glóðarinnar þegar fjölskyldan yrði búin að losa sig við farangur sinn upp á hóteli og fá sér einhvern bita. Eftir að því var lokið strunsaði GREIFINN því af stað með fjölskylduna á eftir sér en kom þá að galtómum kofanum! Búið var að pakka saman öllum markaðnum og hann hreinlega með öllu horfinn af yfirborði jarðar. SVEPPAGREIFINN hélt þó áfram í vonina og næstu dagana dvaldi fjölskyldan í borginni og fylgdist reglulega með því hvort götumarkaðurinn birtist aftur en það gerðist því miður aldrei.
Næstu árin hafði SVEPPAGREIFINN því sérstaklega auga með afrískum viðarvarningi á slíkum markaðstorgum og í sama tilgangi voru hefðbundnir flóamarkaðir einnig skannaðir ítarlega með þess konar vörur í huga. Fyrir rúmlega ári síðan rakst hann svo á um tveggja metra langan Tinna, á markaði í borginni Ascona í Ticino héraðinu í Sviss, innan um nokkra gíraffa og prúðbúna herramenn. Stærð fígúrunnar gerði það reyndar að verkum að nær ómögulegt var að ferðast með kvikindið og því var tekin sú ákvörðun að fjárfesta ekki í Tinna að sinni. En á þessu svæði fóru hjólin reyndar aðeins að snúast. Ascona er staðsett við Maggiore vatnið og á öðrum markaði, sem staðsettur var í bæ á nálægum slóðum við vatnið, fann síðuhafi fleiri fígúrur úr Tinna bókunum. Fæstar þeirra voru þó nægilega áhugaverðar til að SVEPPAGREIFINN freistaðist til að kaupa þær en hann var þó greinilega kominn á ákveðna slóð. Á enn einum götumarkaðnum rakst hann síðan á brúnklæddan Tinna sem hélt á Tobba í fanginu. Sá var um 80 sentimetrar á hæð og óþarflega valtur á fæti enda hafði nefið á honum augljóslega fengið að kenna á því eftir slæma byltu.
Ekki fékk sá Tinni heldur ferðalag til Íslands í vinning. Það var þess vegna ekki fyrr en SVEPPAGREIFINN og fjölskylda hans hafði siglt yfir Maggiore til borgarinnar Luino, sem er Ítalíu megin við vatnið, að hann rakst loksins á það sem hann hafði verið að leita eftir. Í Luino er þekktur flóamarkaður sem reyndar er kunnur um allar Evrópu fyrir stærð sína en er þó að sama skapi ekkert sérstaklega eftirminnilegur. Alla vega ekki fyrir SVEPPAGREIFANN. Þarna kennir auðvitað ýmissa grasa en mest af því tengist þó matvörum og ýmis konar fatnaði og smávörusölu. Markaðurinn er risastór, með meira en þrjúhundruð og fimmtíu sölubása og hefur verið starfræktur á þessum stað í næstum því fimmhundruð ár. Þrengslin og mannmergðin voru engan veginn að skapi SVEPPIGREIFANS en þarna fann hann þó nokkra bása með afrísku handverki úr tré. Nokkrir þeirra höfðu að geyma styttur eða fígúrur úr Tinna bókunum og þær voru flestar um 30 til 40 sentimetrar á hæð en einnig voru til stærri fígúrur sem voru sambærilegar þeim sem SVEPPAGREIFINN hafði áður rekist á. Tinni og Tobbi, Skaftarnir og prófessor Vandráður voru þar mest áberandi en Kolbein kaftein virtist hins vegar vera svolítið erfiðara að finna.
Á flóamarkaðnum í Luino var því auðvitað ekki hjá því komist að fjárfesta loksins í einum útskornum timbur-Tinna í afrískum stíl. Fyrir valinu varð um það bil 30 sentimetra stór útgáfa, af þessari þekktustu myndasöguhetju Belga, þar sem Tobbi er einnig haganlega skorinn út úr sama viðarkubbi. Fígúran er nokkuð gróf, líkt og aðrar sambærilegar afrískar styttur, og er máluð í heldur sterkari litum en lesendur Tinna bókanna eiga að venjast. En styttan sómir sér engu að síður vel innan um aðra teiknimyndasögutengda muni síðuhafa og vonandi eiga fleiri slíkir gripir eftir að bætast við síðar henni til samlætis. Ef minni SVEPPAGREIFANS svíkur ekki þá átti styttan að kosta heilar 50 evrur, sem honum þótti dýrt á ítölskum flóamarkaði, en með prútti tókst honum að lækka verð hennar niður í 30. Hinn afrískættaði sölumaður hefur þó án nokkurs vafa stórgrætt á skærgrænum Íslendingnum og örugglega verið hinn hæstánægðasti með söluna.
En annað þessu tengt fyrst byrjað er að fjalla um Tinna styttur hér á Hrakförum og heimskupörum. Nýlega rakst SVEPPAGREIFINN nefnilega á gamla grein í einhverjum erlendum fréttamiðli þar sem kíkt er í heimsókn í lítinn skúr sem staðsettur er við bakgötu í höfuðborginni Kinshasa í Lýðveldinu Kongó. Þangað væru líklega margir aðdáendur Tinna bókanna einnig til í að koma í heimsókn. Þessi skúr er vinnustofa og verkstæði kongóska handverks- og listamannsins Auguy Kakese en hann hefur, síðastliðin fimmtán ár, haft fjölda manns í vinnu hjá sér við að framleiða styttur af mörgum persónum Tinna bókanna. Fígúrurnar eru allar unnar í höndunum en í gegnum tíðina hefur hann látið framleiða þúsundir slíkra fígúra og selt vestrænum ferðamönnum sem koma til borgarinnar. En eins og allir líklega vita hefur Lýðveldið Kongó sterka tengingu við Tinna. Þó bókin Tinni í Kongó sé umdeild hefur sagan þó alltaf höfðað sterkt til meginþorra íbúa landsins. Almennt eru Kongóbúar frekar stoltir af þessari tengingu og þrátt fyrir að sagan sé stútfull af fordómum og ranghugmyndum hefur hún alltaf verið nokkuð vinsæl í Afríku. Auguy Kakese vill til dæmis sjálfur meina að um 75% kongósku þjóðarinnar hafi lesið bókina og þetta er sú Tinna bók sem almennt er langerfiðast að nálgast í Kongó - hún sé alltaf uppseld. 
Evrópskir ferðamenn, sem koma til Kinshasa, hafa því verið duglegir að sækja sér minjagripi úr smiðju Kakese en þá er hægt að nálgast á ýmsum sölustöðum sem dreifðir eru víðsvegar um borgina. Gripirnir eru reyndar nokkuð misjafnir að stærð og umfangi en sumir ferðamannanna eru tilbúnir að borga morðfjár, allt að 200.000 krónur, fyrir margar af þessum gullfallegu tréstyttum. Þær eru mjög vandaðar og ekki í þeim sama stíl og hinar hefðbundnu Tinna styttur sem SVEPPAGREIFINN er búinn að vera að eltast við. Flestar þessara styttna eru af Tinna sjálfum og sýna hann við ýmis tækifæri í ævintýrum sínum en helstu meðreiðarsveina hans úr bókunum má líka finna þar. Og vegna þess að þær eru handgerðar eru að sjálfsögðu engar af styttunum eins.
Eins og sjá má á þessum myndum eru hillur vinnuskúrsins í Kinshasa troðfullar af þessum frábæru styttum. Það lítur því út fyrir að næsti viðkomustaður myndasögunörda eftir Covid, hvenær sem það verður, verði hin Tinna-væna höfuðborg Lýðveldisins Kongó - Kinshasa.
Annars er eiginlega ekki hjá því komist, svona undir lok þessarar færslu, að minnast aðeins á það að fyrir um ári síðan voru SVEPPAGREIFANUM gefnar tvær nokkuð merkilegar styttur úr leir sem gerðar voru af hæfileikaríkri leirlistakonu. Þessi listakona vissi af myndasöguáhuga SVEPPAGREIFANS og færði honum tvö sérunnin verk af tveimur af uppáhalds sögupersónum hans úr hinum belgíska hluta myndasöguheimsins. Hér er um að ræða stílfærðar styttur af þeim Tinna og Viggó viðutan og óneitanlega þykir SVEPPAGREIFANUM vænt um þessa fallegu skúlptúra. 
Og úr því að farið er að nefna leirlistaverk af myndasögupersónum er ekki úr vegi að minnast einnig á skemmtileg verk sem listamaðurinn Fannar Þór Bergsson, eða LeiraMeira eins og hann kallar sig, hefur verið að vinna að og selja. SVEPPAGREIFINN rak einmitt augun í færslu sem hann setti inn á Facebook-grúbbuna Teiknimyndasögur þar sem hann vekur athygli á verkum sínum og heimasíðu. Fannar Þór leirar hinar ýmsu fígúrur eftir pöntunum og það er tilvalið að hafa samband við listamanninn í gegnum heimasíðuna hans Leirameira.com ef einhvern langar að eignast styttu af uppáhalds myndasögupersónunni sinni eða til gjafa. Frábært framtak og skemmtilegt.

3 ummæli:

  1. Skemmtilegur pistill.
    Glæsileg útskorinn stytta af Tinna var til sýnis á bókasafni Reykjanesbæjar og sést í þessari grein. https://sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn/um-safnid/frettir/nafn-tobba-komid-fra-gamalli-kaerustu-1

    Félagi minn sem vinnur hjá sameinuðu þjóðunum og hefur lengst af unnið í Afríku á hana.

    SvaraEyða
  2. Þakka þér😊

    Já, mjög flott þessi stytta. Spurning hvort hún sé ættuð frá þessum Kakese.

    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  3. Þakka kærlega fyrir umfjöllunina, skemmtileg grein. Kv, Leirameira

    SvaraEyða

Út með sprokið!