8. september 2017

22. TVÍFARARNIR ÓÐRÍKUR OG GEIR ÓLAFS

SVEPPAGREIFINN er að jafnaði seinþreyttur til vandræða og hefur ekki verið kunnur af því að bera út neikvæða ímynd um náungann nema í mesta lagi með eða gagnvart sjálfum sér á slæmum stundum. Hann hefur ávallt lagt sig fram um að vera umburðarlyndur og heiðarlegur mannvinur, er fordómalaus gagnvart fólki eftir bestu vitund og oftar en ekki talsmaður lítilmangarans í hvívetna. Hann þrífst ekki á rógburði, einelti eða smjatti og reynir að komast hjá því að ýta undir hvers konar ósanngjarnt slúður. SVEPPAGREIFINN hlýtur því annars vegar að vera hinn mesti mannkostur, samkvæmt þessari upptalningu, eða á hinn bóginn gjörsamlega óþolandi náungi. Megin tilgangur SVEPPAGREIFANS með þessum undarlega og sjálfsumglaða inngangi felst því ekki í því að mæra eða upphefja sjálfan sig á nokkurn hátt, heldur miklu fremur að fría sig fyrirfram gagnvart þeim hugleiðingum sem gætu sprottið upp frá þeim sem ætla að lesa hérna áfram. Spurningin sem helst brennur á SVEPPAGREIFANUM er því á engan hátt sett fram af illum ásetningi. Það sem SVEPPAGREIFINN hefur sem sagt mikið verið að velta fyrir sér, er ... minnir Óðríkur úr Ástríksbókunum ekki einhvern hérna á Geir Ólafs?
Það er auðvitað rétt að taka það aftur fram að þetta er alls ekki sett fram af illgirni eða kvikindisskap, heldur eru þeir kumpánar að mörgu leyti alveg sláandi líkir í útliti. Reyndar hefur Óðríkur hormottuna sína framyfir en Geir ætti ekki að verða skotaskuld úr því að henda í eins og eitt yfirvaraskegg. Nú er SVEPPAGREIFINN ekki vel að sér um tónlistarhæfileika Óðrík, annað en það að vinir hans í Gaulverjabæ (og reyndar líka eiginlega flestir þeir íbúar Gallíu sem hafa til hans heyrt) virðast ekki kunna að meta þá tónlist sem hann býður upp á. Sem kemur eiginlega á óvart því harpan, sem Óðríkur er kunnastur fyrir, er þekkt fyrir sína lágstemmdu og fallegu hljóma. En þar sem ekki er hægt að heyra tónlist úr myndasögum er eðlilegast að leyfa honum að njóta vafans þar til annað kemur í ljós. Væntanlega eru það því aðrir íbúar Gaulverjabæjar sem eru laglausir og kunna ekki gott að meta. Hins vegar vitum við flest hvaða einstaka hæfileika Geir Ólafs hefur fram að færa. Hans tónlist er auðvelt að nálgast og heyra en þar fer sannur og mikill listamaður og einstakur karakter.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!