29. september 2017

25. EITT OG ANNAÐ UM ÓLÍVEIRA DOS FÍGÚRA

Allir sannir Tinna aðdáendur þekkja Tinna myndina, The Adventures of Tintin - The Secret of the Unicorn, sem snillingurinn Steven Spielberg leikstýrði og frumsýnd var árið 2011. Margt og mikið hefur verið rætt um þessa mynd og flestir líklega frekar ánægðir með útkomuna en nú bíða bara allir eftir framhaldinu. Almennt hefur verið talað um þríleik sem þeir félagar Spielberg og Peter Jackson komi til með að skipta leikstjórninni eitthvað á milli sín en enn er óljóst hvenær næsti hluti þess þríleiks verði frumsýndur. Fyrst stóð til að myndin kæmi til sýninga í kringum jólin 2015 en eins og staðan er núna er gert ráð fyrir að hún verði frumsýnd einhvern tímann á bilinu árið 2018-20.

Margir kunnir leikarar komu að The Secret of the Unicorn og þar má helsta nefna þá Daniel Craig, Andy Serkis og Simon Pegg en orðrómur um eitt stórt nafn í viðbót komst einnig á kreik sem þó varð ekkert af. Jú, sagt var að til hafi staðið að Danny DeVito tæki að sér hlutverk portúgalska kaupmannsins Ólíveira dos Fígúra í áðurnefndri bíómynd. En eftir að myndin var frumsýnd má ljóst vera að ekkert hafi orðið af framlagi hans þar. 
Ekki er SVEPPAGREIFANUM vel kunnugt um hvort að hlutverk Danny DeVitos hafi aðeins verið ein af mörgum hugmyndum eða hvort hann hafi leikið sitt hlutverk og atriðinu með Ólíveira dos Fígúra hafi einfaldlega bara verið klippt út. Í það minnsta er það álit SVEPPAGREIFANS að aðeins útlitlega hefði Danny Devito getað verið sannfærandi í hlutverki Ólíveira dos Fígúra. Og þá reyndar eingöngu ef hæð leikarans hefði verið undanskilin. Danny Devito er ekki nema 147 sentimetrar á hæð en Ólíveira dos Fígúra er líklega að minnsta kosti 175 sentimetrar ef mið er tekið af Tinna sem stendur við hlið hans. Tinni er ekki mjög hávaxinn, líklega ekki nema 160-165 sentimetrar en dos Fígúra er örugglega 10-15 sentimetrum hærri.
Að öðru leyti er það álit SVEPPAGREIFANS að sama hversu góður leikari Danny DeVito væri, þá sé hann ólíklegur til að geta túlkað hlutverk Ólíveira dos Fígúra á sannfærandi hátt. Í það minnsta metur SVEPPAGREIFINN karakter Ólíveira dos Fígúra allt annan en hann gæti nokkurn tímann séð í Danny DeVito.

En það er gaman að skoða aðeins kaupmanninn Ólíveira dos Fígúra fyrst hann er á annað borð kominn hérna til umfjöllunar. Hann kom fyrst við sögu í Vindlum Faraós þar sem hann prangaði inn á Tinna aragrúa af vita gagnslausum og óþarfa hlutum um borð í skipi á ferð sinni um Rauðahafið á leiðinni til Kémed. Það segir sig því sjálft að Ólíveira dos Fígúra er fæddur sölumaður. Þegar Vindlar Faraós birtist fyrst í svart/hvítu, í belgíska tímaritinu Le Petit Vingtiéme, á árunum 1932-34 var sagan töluvert lengri en þær útgáfur sem seinna voru gefnar út í bókaformi. Þannig var það reyndar með allar fyrstu Tinna bækurnar sem seinna voru endurteiknaðar, styttar og litaðar. En í fyrstu útgáfunni af Vindlum Faraós komu sem sagt fram upplýsingar um Ólíveira dos Fígúra sem fylgdu ekki þeirri uppfærslu sem bókaformið hafði boðið upp á. Þar kemur fram að dos Fígúra sé portúgalskur farands- og timbursali frá Lissabon, sem hefur aðallega aðsetur í Kémedsku borginni Vadesda. Í þeirri útgáfu kemur einnig fram að hann hafi yfirgefið Evrópu vegna kreppunnar miklu og séð möguleikana í fákeppninni á ströndum og eyðimörkum Arabíu.

Ólíveira dos Fígúra birtist síðan aftur í Svarta gullinu en þar aðstoðar hann Tinna við að komast inn í höll dr. Müller (einnig þekktur sem prófessor Smith) í Vadesda til að bjarga prinsinum og vandræðagerpinu Abdúlla frá glæpagengi dr. Müllers. Í staðinn heitir Tinni Portúgalanum því að koma á viðskiptum við sjálfan hans hátign, Múhameð Ben Kalís fursta, föður Abdúlla. Í Svarta gullinu kemur meðal annars í ljós að dos Fígúra talar reiprennandi arabísku. En hann sýnir einnig einstaka hæfileika við að afvegaleiða stóran hluta af starfslið dr. Müllers og halda þeim uppteknum í langan tíma, á afskaplega tillfinningaríkan hátt, með innihaldslausu slúðri. Á meðan fær Tinni gott tækifæri til að komast inn og athafna sig að vild í höll dr. Müllers.
Og í Kolafarminum eiga svo Tinni og Kolbeinn enn einu sinni erindi til Kémed og þar er dos Fígúra þeim innanhandar um ýmislegt, bæði búnað og gistingu. Ólíveira dos Fígúra virðist ekki vera alveg sami persónuleikinn í seinni bókunum tveimur. Í Vindlum Faraós lítur hann út fyrir að vera ýtinn og uppáþrengjandi sölumaður en í Svarta gullinu og Kolafarminum hefur hann meira þróast út í hæglátan og hjálpsaman vin sem er tilbúinn til að aðstoða Tinna við allt sem hann hefur tök á.
Sjálfur birtist Ólíveira dos Fígúra ekki meira en í þessum þremur Tinna bókum en í Vandræðum Vaílu er hann einn af þeim fyrstu til að senda Kolbeini kafteini heillaskeyti í tilefni af meintri trúlofun hans og ítölsku óperusöngkonunnar Vaílu Veinólínó.

En kaupmaðurinn afkastamikli birtist reyndar víðar en bara í Tinna bókunum. Á árunum eftir Seinni heimsstyrjöldina fékk Ólíveira dos Fígúra það frekar neikvæða hlutskipti að vera notaður í áróðursskyni, hjá belgískum yfirvöldum, gegn svartamarkaðsbraski í landinu. Vöruskortur í Belgíu (og reyndar víðar) var viðvarandi vandamál eftir Síðari heimsstyrjöldina og yfirvöld reyndu að beina þeim sjónarmiðum til almennings, með auglýsingaherferðum, að versla ekki nauðsynjavörur á svörtum markaði á uppsprengdu verði. Hergé var fenginn til að vinna að slíkum auglýsingum og Ólíveira dos Fígúra var í stóru hlutverki í einni þeirra á árinu 1947.
Hér reynir hann að selja söguhetjunum úr Tinna bókunum (sem að þessu sinni eru skipbrotsmenn á fleka) mat og drykki á okurverði en á ekki erindi sem erfiði. Skaftarnir vilja frekar borða hattana sína, Kolbeinn velur þann kost að borða skóna sína og Tinni sjálfur hafnar tilboðinu á þeim forsendum að varan sé ekki seld á eðlilegu verði. Jafnvel Tobbi sýnir sína megnustu fyrirlitningu á hugmyndinni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!