20. apríl 2018

55. MÚLI OG PÉTUR

Bókin um Vandræði ungfrú Vaílu Veinólínó er mörgum Tinna aðdáendum hugleikin en sagan kom fyrst út í íslenskri þýðingu hjá Fjölva útgáfunni árið 1977. Flestir kannast við söguþráð bókarinnar, sem gerist að öllu leyti á Myllusetri og nágrenni þess, en hún er kannski helst kunn fyrir að vera Tinna sagan þar sem ekkert gerist. En í grófum dráttum segir sagan þó frá því þegar Vaíla Veinólínó ryðst, ásamt fríðu föruneyti sínu, með látum inn á heimili Kolbeins og sest þar að um skeið. Og þar sem Kolbeinn kafteinn snýr sig illilega um ökklann um sama leyti þá eiga þeir Tinni litla möguleika á að forða sér undan yfirgangi Næturgalans frá Mílanó á meðan á "heimsókn" hennar stendur.
Vaíla lítur á dvöl sína á Myllusetri sem kærkomið frí og óskar eftir því gestgjafa sína að fá að vera þar í friði og ró fyrir aðdáendum sínum og fjölmiðlum en hún gerir þó undantekningu þegar blaðamenn tímaritsins Múla og Péturs banka upp á einn daginn og óska eftir viðtali við hana. Þarna eru á ferðinni þeir Slefjón ritstjóri og Flassmus ljósmyndari (þeir eru eiginlega alltaf reykjandi) en þeim kumpánum bregður reyndar aðeins fyrir í fleirum Tinna bókum. Þeir félagarnir eru til dæmis í hópi þeirra fjölmiðlamanna sem fjölmenna á hafnarbakkann í Kiltoch þegar Tinni kemur að landi með górilluna Glám í bókinni Svaðilför í Surtsey (bls 61). En svo birtast þeir einnig í Tinna og Pikkarónunum (bls 5-8) en þar nefnast þeir hins vegar Áki óljúgfróði og Simbi sannleikselskandi og starfa þá hjá Gróanda-tíðindum. Þarna er eitthvað ósamræmi í þýðingunum og líklega hafa þeir Loftur Guðmundsson og Þorsteinn Thorarensen hreinlega ekki áttað sig á því að um sömu mennina væri að ræða.
Flassmus og Slefjón (Walter Rizotto og Jean-Loup de la Batellerie) áttu sér fyrirmyndir í raunveruleikanum. Walter Rizotto (nafn hans er að sjálfsögðu innblásið af ítalska heitinu yfir hrísgrjón) var paparazzi sinnar samtíðar enda sést hann ekki öðruvísi en með margskonar ljósmyndavélabúnað hangandi utan á sér. Rizotto átti sér reyndar tvær fyrirmyndir en það voru ítalsk/franski ljósmyndarinn Walter Carone sem lést árið 1982 og ítalski ljósmyndarinn Willy Rizzo sem lést árið 2013. Rizzo var þekktur sem ljósmyndari fræga fólksins á Ítalíu eftir stríð og tók til dæmis myndir af Marilyn Monroe, Winston Churchill, Salvador Dalí, Brigitte Bardot, Maríu Callas og Marlene Dietrich fyrir mörg kunn tímarit. Þá lék Rizzo þessi til dæmis í bíómyndinni Hoffa (1992) í leikstjórn Danny de Vito eftir hvatningu frá leikaranum Jack Nicholson. Ritstjórinn sjálfur Slefjón nefnist hins vegar Jean-Loup de la Batellerie á frönsku og fyrirmyndin að honum var franski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Philippe de Baleine. Þeir Baleine og Rizzo höfðu starfað saman sem tvíeyki við fréttamennsku (líkt og Slefjón og Flassmus) á 5. og 6. áratug síðustu aldar en þó aldrei við eiginlega slúðurfréttamennsku.
En helsta viðfangsefni þessarar færslu átti þó upphaflega að fjalla um slúðurtímaritið sjálft, Múla og PéturÞað tók SVEPPAGREIFANN nefnilega mörg ár að uppgötva þennan snilldar brandara Lofts og Þorsteins sem tengist þýðingunni á blaðinu eða öllu heldur hvernig nafn þess var staðfært upp á íslenskar aðstæður. Það var ekki fyrr en langt var liðið á fullorðins aldur sem SVEPPAGREIFINN áttaði sig loksins á að nafngift þess, Múli og Pétur, var auðvitað ekkert annað en bein vísun í þá gömlu heiðursmenn Jóns Múla Árnason og Pétur Pétursson þuli á Ríkisútvarpinu.
SVEPPAGREIFANUM er ekki kunnugt um hversu vel þeir félagar tóku því að vera gerðir ódauðlegir í Tinna bók eða hvort þeir hefðu yfirleitt haft einhverja hugmynd um tilvist sína í Vandræðum Vaílu. En í það minnsta lítur SVEPPAGREIFINN svo á að titill tímaritsins í bókinni sé þeim fyrst og fremst til heiðurs þó svo að ímynd sorpritsins hafi ekki verið beint í anda Ríkisútvarpsins árið 1977. Á þessum tíma voru engin slúðurblöð gefin út á Íslandi og það var ekki fyrr en löngu seinna sem hugsanlega hefði verið hægt að finna einhvern sambærilegan snepil, í blaða og tímaritaútgáfu landans, þegar hið alræmda Séð og heyrt hóf göngu sína.

Þeir Loftur og Þorsteinn hjá Fjölva fóru oft nokkuð frjálslega með þýðingar sínar á Tinna bókunum og óhætt er að segja að þeir hafi tekið sér skáldaleyfi á köflum. Tímaritið Múli og Pétur er einmitt gott dæmi um það en í langflestum öðrum þýðingum á bókinni nefnist blaðið einfaldlega Paris Flash líkt og á frummálinu. Í beinu framhaldi af því má nefna það að í náinni framtíð munu verða gerðar miklu meiri kröfur um þýðingarnar á sögunum frá rétthöfum og erfingjum Tinna bókanna. Þýðingar af þeim toga sem Fjölvi bauð íslenskum myndasögulesendum upp á, hér áður fyrr, munu nú algjörlega heyra sögunni til. Þannig má líklega gera ráð fyrir því að frumtextinn, úr Tinna bókunum á frönsku, verði þýddur nánast bókstaflega orð frá orði. Blótsyrði Kolbeins kafteins í gömlu íslensku útgáfunum munu því líklega ekki birtast framar og gömlu íslensku Tinna bækurnar eru því að verða að dýrmætum safngripum.
En aðeins aftur að Múla og Pétri. Slúðurtímaritið Paris Flash var aldrei til í raun og veru en blaðið í bókinni var samt sem áður byggt á fyrirmyndum sem svipaði til þess og nefndust Paris Match og Ici Paris. Þau tímarit voru alræmd fyrir frjálslegar fréttir af fræga og ríka fólkinu og höfðu aðallega að geyma dónalegt slúður og jafnvel lygar. Árið 1992 tóku einhverjir framtaksamir Tinna aðdáendur sig til og gáfu út þetta einstaka tímarit í 1000 eintökum á vönduðum pappír. Blaðið, sem er heilar 12 blaðsíður að lengd, inniheldur það helsta efni sem minnst er á í bókinni sjálfri en hefur einnig að geyma ýmislegt fleira sem tengist Tinna bókunum á annan hátt. Þessi sjóræningjaútgáfa af Paris Flash blaðinu er mjög eftirsótt af söfnurum víða um heim og einstaka sinnum má sjá það detta inn á e-bay og fleirum stöðum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!