27. apríl 2018

56. SVEPPAGREIFINN SKOÐAR BOLI

Alltaf þarf hinn forvitni SVEPPAGREIFI að vera að grúska í hinum ýmsu hlutum sem tengjast myndasögum á einn eða annan hátt og þar er svo sannarlega af mörgu að taka. Að þessu sinni tók hann upp á því að fara að skoða úrvalið af bolum með Sval og Val á Netinu og rakst þá á flottan vef sem hefur reyndar upp á að bjóða boli úr fleiri myndasöguseríum en með þeim Sval og Val. Á síðum vefverslunarinnar Redbubble.com má nefnilega finna frábært úrval af stórglæsilegum stuttermabolum og peysum með kunnuglegum persónum úr myndasöguheiminum. Verðið á bolunum er yfirleitt þetta á bilinu 20 til 35 dollarar en hettupeysurnar á kringum 50 dollara. 

Þessir bolir úr sögunum um Sval og Val (og ekki má gleyma Gorminum) eru til í mörgum útfærslum og litum en úrvalið hér fyrir neðan er aðeins brot af því sem er í boði.
Tinna boli er yfirleitt nokkuð auðvelt að nálgast í vefverslunum og þeir eru oftar en ekki af nokkuð hefðbundnu tagi. En svo er þó ekki hér. Margir af Tinna bolunum hérna eru nefnilega mjög flottir og SVEPPAGREIFINN minnist þess ekki að hafa séð þessar útfærslur af þeim áður. Enda er þetta líklega allt meira og minna kolólöglegt.
Svo eru það Lukku Láka útgáfurnar en þar má finna skemmtilegar  myndir af Léttfeta, Láka sjálfum, Daldón bræðrum og að sjálfsögðu einnig af Rattata eða Rattatinu eins og Léttfeti myndi kalla hann/það. Það má kannski til gamans geta þess að SVEPPAGREIFINN á tvo nokkuð flotta stuttermaboli með Lukku Láka sem hann keypti í Rúmfatalagernum af öllum stöðum!
Og að lokum er það sjálfur snillingurinn Viggó viðutan. Reyndar virðist aðeins vera eitt mótív af Viggó í boði en það er af kunnuglegri mynd af framhlið bókarinnar Viggó viðutan - Með kjafti og klóm. Allt alveg frábærir bolir. 
Eins og áður segir er hægt að skoða úrvalið á Redbubble.com og úrvalið er mörgum sinnum meira en SVEPPAGREIFINN nennti að hafa fyrir að setja hér inn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!